Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

116/2021 Ásgarður – skógrækt

Árið 2022, miðvikudaginn 26. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 10. júní 2021 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir nytjaskógrækt á 64 ha svæði í landi Ásgarðs.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júlí 2021, er barst nefndinni 9. s.m., kæra eigendur og ábúendur jarðarinnar Magnússkóga 3 þá ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 10. júní 2021 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir nytjaskógrækt á 64 ha svæði í landi Ásgarðs. Skilja verður kæruna sem svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalabyggð 25. ágúst 2021.

Málavextir: Dalabyggð barst erindi 19. ágúst 2020 um fyrirhugaða skógrækt á jörðinni Ásgarði. Með erindinu var óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins um hvort krafist væri framkvæmdaleyfis í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Auk þess fylgdu með erindinu drög að skógræktarsamningi.

Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Dalabyggðar 4. september 2020. Þegar erindið var tekið fyrir lá úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 23/2020 ekki fyrir, en í málinu var kærð ákvörðun sveitarfélagsins um að binda samþykkt umsóknar um framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt í landi þriggja jarða í Dalabyggð skilyrðum um samþykki eigenda aðliggjandi jarða annars vegar og um að fyrir þyrfti að liggja umsögn Minjastofnunar Íslands. Á framangreindum fundi umhverfis- og skipulagsnefndar var erindið afgreitt á eftirfarandi hátt: „Með vísun í 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi er umrædd framkvæmd leyfisskyld sem felur í sér að leita þarf umsagnar viðeigandi stofnana. Auk þess er þörf á samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Afgreiðslu erindisins er frestað þar til niðurstaða úr stjórnsýslukæru liggur fyrir.“ Afgreiðsla þessi var samþykkt í sveitarstjórn 10. september 2020.

Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 23/2020 var kveðinn upp 23. október s.á. Var erindi kærenda í kjölfarið tekið fyrir á nýjan leik í umhverfis- og skipulagsnefnd 4. desember s.á. og afgreitt með eftirfarandi bókun: „Nefndin samþykkir erindið með tilliti til nýrrar flokkunar á landbúnaðarlandi í drögum að endurskoðun á Aðalskipulagi Dalabyggðar 2004-2016, en landið fellur undir flokk II og III samkvæmt þeirri skilgreiningu. Einnig þarf að grenndarkynna framkvæmdina fyrir aðliggjandi jörðum og leita eftir umsögnum frá viðeigandi stofnunum.“ Erindið var tekið fyrir í sveitarstjórn 10. desember 2020, en einn sveitarstjórnarmaður, landeigandi Ásgarðs, vék af fundinum við afgreiðslu málsins. Erindið var afgreitt með eftirfarandi bókun: „Með vísun í 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi er umrædd framkvæmd leyfisskyld sem felur í sér að leita þarf umsagnar viðeigandi stofnana. Auk þess er þörf á samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Afgreiðslu erindisins er frestað þar til niðurstaða úr stjórnsýslukæru liggur fyrir. Nefndin samþykkir erindið með tilliti til nýrrar flokkunar á landbúnaðarlandi í drögum að endurskoðun á Aðalskipulagi Dalabyggðar 2004-2016, en landið fellur undir flokk II og III samkvæmt þeirri skilgreiningu. Einnig þarf að grenndarkynna framkvæmdina fyrir aðliggjandi jörðum og leita eftir umsögnum frá viðeigandi stofnunum.“

Grenndarkynning vegna framkvæmdaáformanna hófst 18. desember 2020 og var frestur til að skila inn athugasemdum fjórar vikur, eða til 15. janúar 2021. Framkvæmdin var kynnt fyrir eigendum aðliggjandi jarða, ásamt því að óskað var umsagna frá Vegagerðinni og Minjastofnun. Kærendur skiluðu inn athugasemdum 15. janúar 2021. Í athugasemdunum kom m.a. fram að kærendur litu svo á að fyrirhuguð framkvæmd væri svo umfangsmikil að ekki væri nóg að grenndarkynna hana heldur þyrfti að gera grein fyrir framkvæmdinni í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Þá hafi gögn sem fylgt hafi grenndarkynningu verið ófullnægjandi. Umsagnir bárust frá Vegagerðinni og Minjastofnun.

Umhverfis- og skipulagsnefnd Dalabyggðar tók athugasemdir kærenda til umræðu á fundi sínum 5. febrúar 2021. Tók nefndin þar fram að hún teldi að skipulagsgögn hefðu mátt vera ítarlegri, sérstaklega vegna þess svæðis sem kærendur gerðu mestar athugasemdir við, þ.e. hið 64 ha svæði á milli jarðar kærenda og sjávar. Þá var tekið undir áhyggjur kærenda af útsýni á umræddu svæði. Nefndin lagði því til að veita framkvæmdaleyfi vegna skógræktar í Ásgarði, nema á hinu umdeilda 64 ha svæði, afgreiðslu þess svæðis yrði frestað. Nefndin myndi einnig óska eftir ítarlegri gögnum frá leyfishafa og Skógræktinni varðandi hið umdeilda svæði. Afgreiðsla umhverfis- og skipulagsnefndar var samþykkt í sveitarstjórn 11. s.m.

Dalabyggð barst bréf frá leyfishafa 30. apríl 2021 þar sem fram kom að hann gæti ekki orðið við beiðni um ítarlegri gögn varðandi ásýnd svæðisins. Til þess þyrfti að liggja fyrir ræktunaráætlun en hann taldi einnig að krafa um ítarlegri gögn samræmdist ekki meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig taldi leyfishafi að sveitarstjórn hefði staðfest að fullnægjandi gögnum hafi verið skilað á fundi sínum 10. desember 2020.

Erindið var tekið fyrir á ný á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 7. maí 2021. Þar var sjónarmiðum leyfishafa hafnað þar sem óskað hafi verið eftir ítarlegri gögnum í kjölfar grenndarkynningar þar sem alvarlegar athugasemdir hefðu komið fram við fyrirhugaða framkvæmd. Hafi það verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. Taka þyrfti afstöðu til þeirra athugasemda sem hafi borist við grenndarkynningu og hafi það verið gert með því að óska eftir ítarlegri gögnum sem stjórnvöldum sé heimilt að óska eftir m.t.t. upplýstrar ákvörðunartöku. Auk þess vísaði nefndin til 70. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 um ræktun, þ.m.t. skógrækt, í kafla um skipulagsgerð, framkvæmdir og fleira, en þar segi að þess skuli gætt að ræktun falli sem best að heildarsvipmóti lands. Ljóst sé að fyrirhuguð framkvæmd falli ekki vel að heildarsvipmóti lands á umræddu svæði og komi til með að hafa neikvæð sjónræn áhrif. Skipulagsnefnd lagði til við sveitarstjórn að afgreiðslu erindis um skógrækt á 64 ha í landi Ásgarðs yrði frestað á nýjan leik á grundvelli þess að landeigandi hafi synjað beiðni nefndarinnar um ítarlegri gögn um ásýnd sem séu forsenda þess að hægt sé að meta grenndarhagsmuni nágranna. Skipulagsnefnd fól skipulagsfulltrúa einnig að leita álits Skipulagsstofnunar í málinu. Sveitarstjórn tók framangreinda afgreiðslu umhverfis- og skipulagsnefndar fyrir á fundi 20. maí 2021 og beindi því til nefndarinnar að hún gerði tillög til sveitarstjórnar um afgreiðslu málsins á næsta fundi sínum.

Skipulagsfulltrúi sendi Skipulagsstofnun fyrirspurn um matsskyldu 27. maí 2021 og svar stofnunarinnar barst 31. s.m. og var þar eftirfarandi tekið fram: „Skógrækt fellur undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Skógrækt á verndarsvæðum og á 200 ha svæði eða stærra fellur í flokk B og er tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar, sbr. tölulið 1.06 í 1. viðauka um mat á umhverfisáhrifum. Skógrækt utan verndarsvæða á allt að 200 ha svæði fellur í flokk C, sbr. tölulið 1.07. Í því tilfelli sem hér um ræðir er áformuð skógrækt utan verndarsvæða sem tekur til svæðis sem er minna en 200. Framkvæmdin er því tilkynningarskyld til sveitarfélagsins sem tekur ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.“

Málið var enn á ný tekið fyrir í umhverfis- og skipulagsnefnd 4. júní 2021. Var lagt til við sveitarstjórn að veita framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt á 64 ha svæði í landi Ásgarðs með vísan í úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 23/2020. Umhverfis- og skipulagsnefnd mat það sem svo að ekki væri um að ræða matsskylda framkvæmd en að gæta þyrfti að ásýnd og útsýni við tilhögun framkvæmdarinnar með vísan í 4. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Leyfishafi skyldi því huga að mótvægisaðgerðum sem miði að því að útsýni skerðist sem minnst. Erindið var samþykkt. Sveitarstjórn tók niðurstöðu umhverfis- og skipulagsnefndar til afgreiðslu á fundi 10. júní 2021 þar sem hún var samþykkt.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þeir séu hagsmunaaðilar að málinu þar sem þeir eigi land sem liggi að fyrirhuguðu skógræktarsvæði enda hafi grenndarkynning þess náð til þeirra. Kærendur hafi skilað inn athugasemdum við grenndarkynninguna þar sem fyrirhuguðum áformum um skógrækt hafi verið mótmælt. Bent hafi verið á að gögnin sem fylgt hafi grenndarkynningunni hafi verið algjörlega ófullnægjandi, bæði fyrir sveitarfélagið og hagsmunaaðila, til að taka afstöðu til málsins. Mjög erfitt sé að átta sig á ýmsum þáttum verkefnisins. Bent hafi verið á að mjög auðvelt hefði verið að setja umfang og hæð skógarins inn á ljósmynd og sýna þannig áhrif fyrirhugaðrar skógræktar á umhverfið en grenndarkynningunni hafi einungis fylgt loftmynd í skalanum 1:12000 ásamt gróflegri skýrslu um fyrirhugaðar framkvæmdir. Engir hæðarkótar liggi fyrir, eða nákvæm lýsing á því hvernig svæðið kæmi til með að líta út þegar kæmi að nýtingu skógarins.

Markmið grenndarkynningar sé að gefa hagsmunaraðilum færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og fá svör við þeim sjónarmiðum áður en til leyfisveitingar komi. Sé það ekki gert liggi í hlutarins eðli að grenndarkynning sé bæði marklaus og þarflaus ef niðurstaða hennar ætti ekki að geta haft áhrif á niðurstöðu máls. Kærendur telji að leyfisveitanda beri að leggja mat á grenndar­hagsmuni nágranna á grundvelli framkominna athugasemda og kalli þær athugasemdir m.a. á öflun frekari gagna eða skýringa. Það sé í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að óska eftir frekari gögnum. Sé því nokkuð ljóst að eftir sveitarstjórnarfund 20. maí 2021 hafi það verið þurrkað út af borðinu að kalla eftir ítarlegri gögnum og engin skýring eða rökstuðningur hafi verið gefinn á málinu en fram að þeim tíma hafi það alltaf verið vilji manna bæði í umhverfis- og skipulagsnefnd sem og sveitarstjórn.

Það sé ljóst að allir aðilar málsins telji að þessi nytjaskógrækt muni hafa töluverð áhrif á útsýni kærenda. Fundargerðir sem tengist málinu beri það með sér. Leyfishafi viðurkenni jafnvel útsýnisskerðingu þar sem um hana sé getið í skógræktarsamningi Ásgarðs að við hönnun skógarins verði tekið tillit til ýmissa þátta, t.d. útsýnis frá Magnússkógum 3. Hvergi sé þó tekið fram hvernig eigi að taka tillit til þess. Það sé því algjörlega óásættanlegt að mál eins og þetta geti farið í gegn hjá sveitarfélagi án þess að svör fáist við því hvernig taka eigi tillit til útsýnis. Ekki geti verið rétt að veita fyrst framkvæmdaleyfi og vinna síðan framkvæmdaáætlun. Ekki sé nóg að segjast ætla að taka tillit til útsýnis hagsmunaaðila en þurfa svo ekki að fara eftir því, þar sem framkvæmdaleyfi sé þá þegar í höfn. Furðu veki að leyfishafi skuli ekki verða við þeirri beiðni að afhenda frekari gögn þar sem hann sé jafnframt oddviti Dalabyggðar. Það veki einnig furðu að í bókun sveitarstjórnar Dalabyggðar 20. maí 2021 þar sem sveitarstjórnin beini því til umhverfis- og skipulagsnefndar að gera tillögu til sveitarstjórnar um afgreiðslu málsins. Þegar hlustað sé á hljóðupptökur af sveitarstjórnarfundinum sé ljóst að ákveðnir sveitarstjórnarmenn hafi viljað keyra þetta mál í gegn án þess að hafa til þess nægjanleg gögn til að taka ákvörðun, að mati kærenda.

Kærendum hafi aldrei borist frekari skýring á þessu máli og geti ekki sætt sig við bókun umhverfis- og skipulagsnefndar frá 4. júní 2021 þar sem fram komi að nefndin meti það sem svo að ekki sé um matsskylda framkvæmd að ræða. Ekki sé nóg að segja að ekki sé um matsskylda framkvæmd að ræða án frekari rökstuðnings en látið nægja að benda á að með vísan í 6. mgr. 4. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 þurfi að gæta að ásýnd og útsýni við tilhögun framkvæmdarinnar og að leyfishafi hugi að mótvægisaðgerðum sem miði að því að útsýni skerðist sem minnst. Bendi kærendur á 1. gr. laga nr. 106/2000, máli sínu til stuðnings. Bent sé á að 6. mgr. 4. gr. laganna sé ekki til en líklega hafi átt að vísa til 4. mgr. 6. gr. Þar segi að „sveitarstjórn skuli innan tveggja vikna frá því að fullnægjandi gögn um framkvæmdina berast taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati samkvæmt lögum þessum. Við ákvörðun um matsskyldu skal sveitarstjórn fara eftir viðmiðum í 2. viðauka og rökstyðja niðurstöðu sína með hliðsjón af þeim og leiðbeiningum Skipulagsstofnunar skv. 20. gr.“ Síðar í sömu grein segi: „Sveitarstjórn skal byggja ákvörðun sína á þeim upplýsingum sem framkvæmdaraðili hefur lagt fram, sbr. 2. mgr., og, ef við á, öðrum gögnum um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Ef sveitarstjórn ákveður að framkvæmd sé ekki matsskyld er henni heimilt að setja fram ábendingar um tilhögun framkvæmdarinnar. Þær skulu byggjast á upplýsingum framkvæmdaraðila um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir og framkomnum umsögnum.“ Það geti ekki talist eðlilegt að umhverfis- og skipulagsnefnd beini því til framkvæmdaraðila að huga að mótvægisaðgerðum sem miði að því að útsýni skerðist sem minnst en komi ekki sjálf með kröfur um mótvægisaðgerðir. Nú þegar framkvæmdaleyfi liggur fyrir sé ljóst að enginn vilji sé til að vinna neinar mótvægisaðgerðir af hálfu framkvæmdaraðila. Enda hafi hann tekið fram í sínu svarbréfi: „Almannahagsmunir og hagsmunir Skugga-Sveins ehf. til að styrkja búrekstur sinn með skógrækt og kolefnisbindingu ættu að vega þyngra en ásýnd lands.“

Í 70. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 segi „að við ræktun, skógrækt, uppgræðslu lands, skjólbeltagerð og aðra ræktun skal þess gætt að hún falli sem best að heildarsvipmóti lands og raski ekki náttúru- og menningarminjum. Við gerð áætlana, mat á umhverfisáhrifum og afgreiðslu umsókna vegna leyfisskyldrar ræktunar skal taka afstöðu til þessara atriða.“ Ljóst sé að umhverfis- og skipulagsnefnd hafi með bókun sinni frá 7. maí 2021 verið komin á þá niðurstöðu að fyrirhuguð framkvæmd félli ekki vel að heildarsvipmóti lands og umræddu svæði og kæmi til með að hafa neikvæð sjónræn áhrif. Kærendur krefjist svara við því hvers vegna þetta vegi ekki þungt í lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem nefndin hafi verið á þeirri niðurstöðu í maí. Fyrirhuguð framkvæmd víki frá núverandi byggðarmynstri og því verði að líta til áðurnefndrar reglu.

Það sé von kærenda að mál þetta verði skoðað með tilliti til athugasemda þeirra. Það sé algjörlega óásættanlegt fyrir landeigendur, sem hagsmuna eigi að gæta, að fá ekki svör við mikilvægum spurningum sem óskað hafi verið eftir í grenndarkynningu og að stjórnsýsla Dalabyggðar, bæði umhverfis- og skipulagsnefnd og sveitarstjórn, afli ekki þeirra gagna til að geta tekið upplýsta ákvörðun í málinu. Nokkrir sveitarstjórnarmenn hafi tjáð sig í pontu um að þeir tryðu ekki þeim gögnum sem kærendur hafi lagt fram í málinu, sérstaklega er varði útsýnisskerðingu. Það sé því nauðsynlegt að afla frekari gagna sem afsanni skoðun kærenda. Það sé því ljóst að um geðþóttaákvörðun sé að ræða en ekki rökstudda ákvörðun byggða á gögnum.

Leyfishafa sé annt um kolefnisbindingu og riti mikið um hana í sínu svarbréfi til sveitarfélagsins. Á sama tíma vinni Dalabyggð drög að nýju aðalskipulagi þar sem ritað sé um að planta ekki trjám í mýrlendi þar sem ljóst sé að tré þurrki upp land og þar með aukist kolefnislosun. Einnig sé það stefna Dalabyggðar í drögum að nýju aðalskipulagi að planta ekki trjám við sjóinn. Í þessu tilviki sé verið að setja hæsta skóginn á lægsta punkt jarðarinnar.

Staða kærenda í dag sé sú að búið sé að veita framkvæmdaleyfi á 64 ha nytjaskógasvæði beint fyrir neðan lögbýli þeirra og það séu einungis 468 m frá íbúðarhúsinu að fyrirhuguðu nytjaskógarsvæði. Leyfishafi segi að tekið verði tillit til útsýnis frá Magnússkógum. Umhverfis- og skipulagsnefnd og sveitarstjórn Dalabyggðar hafi beint því til leyfishafa að huga að mótvægisaðgerðum en enginn geti sagt hvað eigi að gera. Kærendur virðist því þurfa að bíða og sjá hvað tíminn leiði í ljós.

Á vef Skipulagsstofnunar sé hægt að sjá skjal um hvernig vinna eigi grenndarkynningar, leiðbeiningarblað 8b. Sú grenndarkynning sem kærendur hafi fengið hafi ekki staðist þær leiðbeiningar og megi þar t.d. nefna að afstöðumynd hafi ekki verið í réttum mælikvarða, engar aðalteikningar hafi verið meðfylgjandi né sambærileg hönnunargögn, engar götumyndir eða önnur skýringargögn sem lýst hafi framkvæmdinni. Eins hafi ekki verið hægt að fá nánari upplýsingar og svör við ákveðnum spurningum sem komið hafi fram af þeirra hálfu. Að lokum vilji kærendur benda á að sveitarstjórn Dalabyggðar sé skylt að kynna þeim sem hagsmuna eigi að þessu máli um kæruheimildir. Kærendur hafa enga tilkynningu fengið um niðurstöðu málsins né leiðbeiningar um kæruleiðir. Sveitarstjórn Dalabyggðar brjóti þannig gegn rétti þeirra sem tryggður sé með stjórnsýslulögum, náttúruverndarlögum, lögum um mat á umhverfisáhrifum og skipulagslögum nr. 123/2010.

Málsrök Dalabyggðar: Afgreiðsla sveitarstjórnar Dalabyggðar byggi á þeim forsendum að landeigandi hafi rétt til að hagnýta eign sína í samræmi við gildandi skipulagsákvarðanir enda sé sá réttur sérstaklega varinn með eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Stjórnvöld sem hafi með höndum leyfisveitingar til hagnýtingar fasteigna séu bundin því að virða þann rétt eiganda og verði hann ekki skertur nema mjög ríkir hagsmunir mæli gegn hagnýtingunni. Geti það einkum átt við þegar um almannahagsmuni sé að ræða en einnig geti hagsmunir einkaaðila leitt til sömu niðurstöðu enda séu þeir þá taldir ríkari en hagsmunir eiganda af hagnýtingu eignar sinnar. Sé það mat stjórnvalda að skerða þurfi þennan rétt geti það leitt til bótaskyldu eða eignarnáms eins og nánar sé mælt fyrir um í lögum.

Í ljósi þessa verði að vega hagsmuni eigenda Ásgarðs af því að hagnýta eign sína í atvinnuskyni á móti hagsmunum kærenda af því að losna undan þeim neikvæðu umhverfisáhrifum sem fyrirhuguð skógrækt geti haft á eign þeirra og hagsmuni. Sé þar fyrst og fremst um sjónræn áhrif að ræða, þ.e. breytta ásýnd lands og skert útsýni, en ekki hafi verið sýnt fram á að skógræktin muni hafa önnur neikvæð áhrif gagnvart kærendum, a.m.k. svo nokkru nemi.

Reynt hafi á það í allmörgum málum fyrir úrskurðarnefndinni hvert sé vægi slíkra áhrifa og hvaða vægi þau kunni að hafa gagnvart framkvæmdaáformum sem hafi slík áhrif í för með sér. Hafi það orðið niðurstaðan í slíkum málum að umhverfisáhrif, sem aðeins birtist í breyttri ásýnd eða skertu útsýni, standi ekki í vegi fyrir framkvæmdum í atvinnuskyni, svo sem efnistöku eða byggingu stórra mannvirkja, sem hafi í för með sér veruleg áhrif af þessum toga. Megi sem dæmi nefna mál nr. 45/2006 um námuvinnslu í Ingólfsfjalli og mál nr. 4/2002 og nr. 13/2002, sem bæði fjölluðu m.a. um sjónræn áhrif hárra bygginga í þéttbýli. Sé hin kærða ákvörðun að þessu leyti í samræmi við þau sjónarmið sem lögð hafi verið til grundvallar við úrlausn sambærilegra eða svipaðra mála.

Niðurstaða umhverfis- og skipulagsnefndar hafi verið að ekki væri þörf á að afla frekari gagna til að komast að niðurstöðu. Við mat á því hvort afla hafi þurft frekari gagna verði að líta til þess að þau neikvæðu sjónrænu umhverfisáhrif sem um ræði hafi verið þekkt auk þess sem kærendur hafi lagt fram all ítarleg gögn með athugasemdum sínum. Verði ekki annað séð en að fullnægjandi gögn hafi komið fram í málinu og að málið hafi verið tækt til úrlausnar.

Sveitarstjórn sé ekki skylt að mæla fyrir um mótvægisaðgerðir heldur sé henni einungis heimilt að binda framkvæmd skilyrðum sem sett séu í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir sveitarfélagsins, sbr. 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi það því ekki verið ágalli á hinni kærðu ákvörðun þótt sveitarstjórn hafi beint því til leyfishafa að huga að slíkum aðgerðum í stað þess að mæla fyrir um þær.

Niðurstaða sveitarstjórnar hafi verið að ekki væri þörf fyrir sérstakan rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun að ekki væri um matsskylda framkvæmd væri að ræða. Sé til þess að líta að um sé að ræða framkvæmd sem að fyrra bragði sé ekki matsskyld heldur einungis tilkynningaskyld til sveitarfélagsins. Um sé að ræða skógræktaráform sem í öllum aðalatriðum séu sambærileg öðrum skógræktarverkefnum af svipaðri stærðargráðu sem ekki hafi verið talin matsskyld og hafi ekki verið bornar brigður á þær niðurstöður. Hafi ekki þótt efni til að það mál sem hér sé til meðferðar fengi aðra meðferð en önnur slík mál þótt sjónræn áhrif kynnu að vera með meira móti enda eigi ekki að þurfa að efna til umfangsmikils mats til að gera sér grein fyrir þeim áhrifum. Verði í þessu sambandi að gæta meðalhófs og ganga ekki lengra í því að íþyngja aðila máls en efni standi til.

Skilja verði upptalninguna á leiðbeiningablaði Skipulagsstofnunar sem svo að þar sé talið upp það sem fylgja skuli umsókn eftir því sem við eigi hverju sinni. Sé augljóst að fleiri gagna sé iðulega þörf þegar um byggingarleyfisumsókn sé að ræða heldur en þegar um framkvæmdaleyfi sé að ræða og sé augljóst af upptalningunni að þar sé tekið mið af byggingarleyfisumsókn enda sé beinlínis getið um byggingarleyfi í þeirri málsgrein sem fari næst á undan upptalningu fylgiskjala í leiðbeiningablaðinu. Aðalatriðið sé að þeir sem fái grenndarkynningu geti áttað sig á þeirri framkvæmd sem um ræði og sé alveg ljóst af athugasemdum kærenda að ekkert hafi skort á í því efni í þessu máli.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að ásýnd svæðisins muni breytast við skógrækt eins og alla aðra nýtingu lands en landið sé núna óræktað og skóglaust. Ljóst sé að útsýni frá íbúðarhúsi í Magnússkógum 3 muni breytast í framtíðinni þega skógur vaxi þar upp en það muni taka einhver ár, jafnvel áratugi, að koma fram. Hins vegar skuli bent á að skógrækt sé afturkræf landnotkun og hægt sé að taka landið undir aðra landnýtingu ef svo beri undir.

Í gildandi aðalskipulagi Dalabyggðar teljist skógrækt til landbúnaðar og sé það í samræmi við viðtekna venju og viðhorf í lögum og skipulagsframkvæmd. Í drögum að uppfærðri landsskipulagsstefnu sé enn meiri áhersla lögð á skógrækt sem mikilvæga loftslagsaðgerð. Skógrækt á lögbýlum og landbúnaðarlandi sé ekki deiliskipulagsskyld eða eins og fram komi á blaðsíðu 10 í ritinu „Skógrækt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga“ sem Skógræktin og Skipulagsstofnun gáfu út: „Ekki er gert ráð fyrir að vinna þurfi deiliskipulag fyrir skógrækt á landbúnaðarsvæðum ef nægilega skýr grein er gerð fyrir henni í aðalskipulagi. Það getur þó átt við ef um er að ræða aðra skipulagsskylda mannvirkjagerð á viðkomandi skógræktarsvæði eða ef stefna aðalskipulags kveður á um það.“ Markmið skipulagslaga nr. 123/2010 séu skv. a-lið 1. gr. „að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi er haft að leiðarljósi.“

Nábýlisreglur setji eignaráðum yfir fasteign fyrst og fremst skorður af tilliti til þeirra fasteigna sem að henni liggja en rétthafar fasteigna sem fjær séu geti þó í vissum tilvikum borið nábýlisreglur fyrir sig ef ákvarðanir stjórnvalda og/eða nágranna geti talist hafa veruleg áhrif eða orsakað óþægindi. Ljóst sé að þó reglur nábýlisréttar veiti vernd fyrir meiri háttar óþægindum þá geti fasteignareigandi alltaf þurft að þola ákveðin óþægindi sem hann hefði mátt vænta miðað við ástand, aðstæður og staðsetningu. Ákvörðun um nýtingu lands á tilteknu svæði samkvæmt svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi geti verið ráðandi um þær heimildir sem fylgi tilteknum fasteignum og haft mikil áhrif á nýtingarmöguleika þeirra. Þessu til stuðnings megi benda á að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmda sem ekki samræmist stefnu um nýtingu lands í skipulagi.

Stjórnvaldsákvarðanir geti annað hvort verið ívilnandi eða íþyngjandi. Ákvörðun sé ívilnandi þegar hún feli í sér niðurstöðu sem sé málsaðila hagstæð, t.d. þegar fallist sé á umsókn málsaðila en íþyngjandi ákvörðun skerði réttindi hans að öðru leyti. Íþyngjandi takmörkunum vegna skipulagsákvarðana sé engu að síður komið á með málefnalegum hætti sæki þær stoð í skipulagslög.

Ef leyfi fyrir framkvæmd fáist með fullnægjandi hætti, í þessu tilviki í samræmi við ákvæði gildandi aðalskipulags Dalabyggðar, þá þurfi truflanir sem af hljótist að vera nokkuð miklar til að nágranni geti haft áhrif á framgang framkvæmdarinnar. Í hnotskurn snúist umrædd stjórnsýslukæra um hvort þessi tilteknu tvö kæruatriði, þ.e. breyting á ásýnd lands og breyting á útsýni frá heimili kærenda geti talist líkleg til að valda þeim verulegum óþægindum eða skerði á einhvern hátt notagildi fasteigna þeirra. Nánar tiltekið geti annars vegar verið um að ræða skerðingar á áþreifanlegum verðmætum fasteignanna og hins vegar skerðingar á nýtingarmöguleikum þeirra. Í þessu tilviki sé fjarlægð frá íbúðarhúsi kærenda að framkvæmdasvæði allnokkur eða nærri hálfur kílómetri. Það sé því mat leyfishafa að það sé langsótt hvernig umrædd skógrækt eigi að hafa neikvæð áhrif á réttindi þeirra.

Leyfishafi telji ljóst að með útgáfu framkvæmdaleyfis hafi annars vegar engar takmarkanir verið gerðar á nýtingarmöguleikum jarðarinnar Magnússkóga 3 og hins vegar að engin haldbær rök séu lögð fram fyrir því að verðmæti landsins eða annarra fasteigna verði minna með tilliti til þeirra nýtingarmöguleika sem fyrir hafi verið á jörðinni og líklegra framtíðarmöguleika. Það sé því mat leyfishafa að vísa eigi kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Vegna ákvörðunar sveitarstjórnar Dalabyggðar um mótvægisaðgerðir geti vel komið til greina við gróðursetningu að hafa lágvaxnari tegundir, s.s. víði eða birki næst landamerkjum til að milda ásýnd landsins. Eins gæti komið til greina að flýta gróðursetningu í landið þannig að svæðið sé allt að vaxa upp í sem næst einni vaxtarlotu eða að það sé háð framboði á plöntum.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Rétt sé að kærendur hafi lagt fram myndir í málinu til að sýna fram á útsýnisskerðingu en þeir hafi einnig frá upphafi kallað eftir frekari gögnum og þá sérstaklega gögnum sem sýni hvernig leyfishafi ætli að taka tillit til útsýnis frá Magnússkógum 3. Þau gögn sem kærendur hafi sett fram sýni það ekki. Tekið sé fram í skógræktarsamningi leyfishafa að tekið verði tillit til útsýnis frá Magnússkógum 3. Þegar um grenndarkynningu sé að ræða hljóti leyfishafi að þurfa að sýna hvernig hann ætli að framkvæma það, sérstaklega ef ósk berist um það við grenndarkynningu. Að öðrum kosti sé marklaust að setja slíka fullyrðingu fram í umsókn um framkvæmdaleyfi. Að stjórnvald Dalabyggðar skuli láta það út úr sér að fullnægjandi gögn séu komin í málinu en bóka svo bæði í umhverfis- og skipulagsnefnd og sveitarstjórn að frekari gagna sé þörf eftir að myndir hafi borist frá kærendum, sé alls ekki trúverðug niðurstaða.

 

Kærendur séu ekki sáttir við afgreiðslu sveitarstjórnar varðandi mótvægisaðgerðir þar sem leyfishafa sé gefið full heimild til að gera hvað sem er án þess að kærendur viti neitt um hvernig staðið verði að framkvæmd sem allir aðilar málsins telji að hafi áhrif á kærendur. Fari hins vegar svo að sveitarstjórn Dalabyggðar gefi út framkvæmdaleyfi vegna nytjaskógar á umræddu landi og bindi leyfið þessum skilyrðum þurfi það að samræmast skipulagsáætlun sveitarfélagsins, ella kunni leyfið að vera ógilt eða ógildanlegt.

Tekið sé undir með Dalabyggð að aðalatriðið sé að þeir sem fái grenndarkynningu senda geti áttað sig á þeirri framkvæmd sem um ræði. Kærendur geti ekki áttað sig á því hvernig taka eigi tillit til útsýnis frá Magnússkógum 3 og engin frekari gögn hafi fengist sem sýni hvernig framkvæmdaraðili hyggist taka tillit til þess. Telji Dalabyggð að ekkert hafi skort á í því efni sé nokkuð ljóst að þeir hafi ekki kynnt sér gögnin nægjanlega vel. Engan veginn sé ásættanlegt að leyfishafi komi því niður á blað að ætla að taka tillit til útsýnis frá Magnússkógum 3 en í öllum öðrum gögnum sem fylgi þessari kæru minnist hann ekki orði á það. Þvert á móti sé gert lítið úr athugasemdum kærenda m.a. með því að benda á „að allnokkur eða nærri hálfur kílómetri sé frá íbúðarhúsi kærenda að framkvæmdarsvæðinu“, en bendi ekki á þá staðreynd að um nánast flatlendi sé að ræða þannig að í þessu tilfelli skipti fjarlægð ekki máli. Eins bendi leyfishafi á að engin haldbær rök séu lögð fram fyrir því að verðmæti lands geti minnkað við skert útsýni og megi því spyrja hvers vegna hæsti og þéttasti hluti nytjaskógarins sé þá ekki staðsettur beint fyrir neðan mannvirki leyfishafa.

Kærendur muni ekki sýna fram á, í máli þessu hver verðmætarýrnun jarðarinnar verði í komandi framtíð enda um hlutlægt mat að ræða. En ljóst sé að útsýni vegi þungt í ákvörðun margra um hvar þau vilja búa. Að sama skapi hafi ekki verið sýnt fram á hver áhrif skógræktar séu á blaut svæði/mýrlendi hvað kolefnisbindingu varði. Kannski sé ávinningur skógræktar á blautari svæðum enginn. Samkvæmt flokkunarkefi Landmælinga Íslands sé umrætt nytjaskógarsvæði mýrlendi.

Eins og staðan sé núna í málinu viti kærendur ekki hvernig framkvæmd sem komi til með að hafa áhrif á útsýni þeirra og komandi kynslóða kunni að verða. Þótt umsókn leyfishafa segi að um nytjaskóg sé að ræða sé ekkert fast í hendi að skógurinn verði nokkurn tíma felldur. Mótvægisaðgerðir þurfi að snúast um útsýni og ásýnd frá Magnússkógum 3 og upplýsa þurfi um þær mótvægisaðgerðir þannig að kærendur og komandi kynslóðir sem muni erfa Magnússkóga 3 viti hvað framtíðin beri í skauti sér. Það sé dapurt að hugsa til þess að Skógrækt Vesturlands skuli ekki hafa meiri metnað í að skipuleggja skógræktarsvæði þar sem hæstu trén, þéttasti skógurinn og það nytjaskógur, sé sett á lægsta punkt jarðarinnar og það fyrir neðan nágrannajörðina. Dalabyggð sé að vinna að gerð nýs aðalskipulags 2020-2032 og í drögum þess segi að ekki skuli vera með þétta skógrækt við vötn, árbakka og sjó og að bannað verði að planta í mýrlendi. Stefnumótun stjórnvaldsins vegi ekkert í þessu máli. Þá sé dapurt að hugsa til þess að oddviti Dalabyggðar, sem jafnframt sé leyfishafi í máli þessu, ætli sér að vera á undan skipulagsvaldinu með því að keyra þetta framkvæmdaleyfi í gegn vitandi af drögum að nýju aðalskipulagi sem banni að planta í mýrlendi. Það sé algjörlega óásættanlegt að eftir grenndarkynningu sé enginn tilbúinn að vinna gögn sem sýni hvernig eigi að taka tillit til útsýnis frá Magnússkógum 3 eða hver raunveruleg áhrif framkvæmdarinnar verði.

Niðurstaða: Í máli þessu deilt um lögmæti grenndarkynningar og grenndaráhrif fyrirhugaðrar nytjaskógræktar á 64 ha svæði í landi Ásgarðs sem heimiluð er með hinni kærðu ákvörðun.

Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og deiliskipulag liggur ekki fyrir, sé um að ræða framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag, landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.

Samkvæmt Aðalskipulagi Dalabyggðar 2004-2016 er um landbúnaðarsvæði að ræða. Í aðalskipulaginu kemur fram í e-lið kafla 2.8.2 Markmið fyrir landbúnaðarsvæði, að stefnt sé að eflingu skógræktar á svæðinu til viðarframleiðslu, útvistar, skjóls og landbóta. Einnig að skógrækt öðlist viðurkenningu sem þýðingarmikil atvinnugrein. Í kjölfarið er tekið fram að hefðbundinn landbúnaður sé á undanhaldi í Dalabyggð en skógrækt sé alltaf að aukast. Þá segir svo „[s]kógrækt hefur áhrif á landslag. Með meiri skógrækt eykst hlutfall skógarlandslags og skörp skil geta myndast á jörðum skógræktar og lands utan skógræktar vegna hæðar, áferðar og litar skógarins. Lítið umfang fyrirhugaðrar skógræktar (5% láglendis) þýðir að útsýni að stærri landslagsþáttum, s.s. fjöllum, mun ekki spillast svo nokkru nemi. Hins vegar gæti útsýni spillst að smærri landslagsþáttum, t.d. útsýni að fossi frá vegi. Þar sem þannig háttar til þarf að taka á því í hönnun skógræktar og tryggja að skógur spilli ekki sýn að mikilvægum landslagsminjum. Í þessu tilliti skiptir staðsetning skógar í landslagi verulegu máli. Skógur í neðanverðri fjallshlíð spillir ekki útsýni og hefur tiltölulega jákvæð áhrif á ásýnd lands að mati margra. Skógrækt á flatlendi, sérstaklega nálægt vegum, getur hins vegar spillt útsýni. Það vill svo til að skógræktarskilyrði eru yfirleitt mun betri í brekkum en á flatlendi og eru þær því líklegri til að verða fyrir valinu sem skógræktarsvæði. Með skjólbeltarækt breytist landslag ræktunar og verður munurinn einkum sá að skurðir verða minna áberandi og tún verða afmörkuð með skjólbeltum í staðinn. […] Áhrif á aðra landnotkun er óveruleg enda skógræktarsvæði helst í landi sem hentar illa til annarrar landnotkunar: Helst ber þó að nefna skerðingu beitarlands. Getur haft áhrif á samgöngur vegna jöfnunar snjólaga þá ýmist jákvæð eða neikvæð áhrif sem og hamlað sýn manna.“ Í kafla 3.2.9 Opin svæði til sérstakra nota kemur fram að í flokki opinna svæða í sveitarfélaginu séu m.a. skógræktarsvæði. Í kafla 3.2.10 Landbúnaðarsvæði er einnig tekið fram að nýjar búgreinar svo sem nytjaskógrækt teljist til landbúnaðar í skilningi skipulagsins. Skógræktarsvæði séu því ekki skilgreind sérstaklega á skipulagsuppdrætti en stefnt sé að eflingu skógræktar á svæðinu til viðarframleiðslu, útvistar, skjóls og landbóta. Þá segir að meginlandnotkun á undirlendi Dalabyggðar sé landbúnaður, þar sem m.a. fari fram skógrækt. Því næst er fjallað sérstaklega um landgræðslu og skógrækt. Í þeim undirkafla kemur fram að skipulagsáætlanir geri ráð fyrir að skógrækt í tengslum við Vesturlandsskógarverkefnið verði að veruleika sem ný atvinnugrein á hefðbundnum landbúnaðarsvæðum. Skógræktar- og landgræðslusvæði séu ekki afmörkuð sérstaklega á skipulagsuppdrætti. Samkvæmt framansögðu er gert ráð fyrir að skógrækt geti ýmist farið fram á landbúnaðarsvæðum eða opnum svæðum og er hin fyrirhugaða framkvæmd því í samræmi við landnotkun Aðalskipulags Dalabyggðar 2004-2016.

Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er kveðið á um stefnu um landnotkun í gr. 6.2. Í 1. mgr. segir að stefna um landnotkun skuli sýnd með einum landnotkunarflokki. Sé gert ráð fyrir landnotkun á sama reit sem fellur undir fleiri en einn flokk skal sá tiltekinn fyrir reitinn sem er ríkjandi en umfang annarrar landnotkunar tilgreind í skilmálum. Landbúnaðarsvæði annars vegar og skógræktar- og landgræðslusvæði hins vegar eru þar mismunandi landnotkunarflokkar, sbr. q- og r-liði 2. mgr. nefndrar greinar. Aðalskipulag Dalabyggðar er frá árinu 2009, en breytingar hafa verið gerðar á því síðar. Á þeim tíma var í gildi skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Í þeirri reglugerð segir í gr. 4.12.1 að garðlönd og trjáræktarsvæði teljist til opinna svæða. Þá kemur fram í gr. 4.12.2 að í svæðis- og aðalskipulagi skuli gera grein fyrir landbúnaðarsvæðum, helstu einkennum svæðanna og þess búrekstrar sem þar sé stundaður og sé fyrirhugað að stunda. Gera skuli sérstaklega grein fyrir ræktuðum svæðum, uppgræðslusvæðum og skógræktarsvæðum innan landbúnaðarsvæða. Er framsetning landnotkunar í aðalskipulaginu í samræmi við skipulagsreglugerð nr. 400/1998 þar sem gert var ráð fyrir að skógræktarsvæði væru hluti landnotkunarflokkanna opin svæði og landbúnaðarsvæði. Var sveitarstjórn því heimilt að láta fara fram grenndarkynningu vegna framkvæmdarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga felst grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynnir fyrir nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta leyfisumsókn og gefur þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar. Nánar er fjallað um framkvæmd grenndarkynningar í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Í gr. 5.9.2. er efni 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga áréttað en auk þess kemur þar fram að í bréfi til hagsmunaaðila skuli koma fram hvert sé meginefni grenndarkynningarinnar, rökstuðningur fyrir málsmeðferðinni, að athuga­semdir skuli vera skriflegar, hvert þeim skuli skila, fyrir hvaða tíma og hvar sé hægt að fá nánari upplýsingar. Með bréfinu skulu fylgja hönnunargögn, sbr. gr. 5.9.7., þegar um leyfisumsókn er að ræða.

Í máli þessu fengu kærendur tilkynningu um grenndarkynningu senda og var hún dags. 18. desember 2020. Í henni kom fram hvert meginefni grenndarkynningarinnar var, að athugasemdir skuli vera skriflegar, hvert þeim skuli skila, fyrir hvaða tíma og hvar væri hægt að fá nánari upplýsingar.

Líkt og áður segir er fjallað um hönnunargögn sem fylgja skulu grenndarkynningu á byggingar- eða framkvæmdaleyfisumsókn í gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð. Í greininni kemur fram að fylgja skuli afstöðumynd, hnitsett í mælikvarða 1:500 – 1:2.000 eða í öðrum læsilegum mælikvarða, sem sýni fyrirhugaða framkvæmd og afstöðu hennar gagnvart aðliggjandi byggð og að landi, þ.e. sýni mannvirki sem fyrir séu á svæðinu, hæðarlínur og annað í landslagi sem skipti máli fyrir útfærslu framkvæmdar. Gera þurfi grein fyrir landmótun, götumyndum og öðru sem nauðsynlegt sé til að hagsmunaaðilar geti tekið afstöðu til framkvæmdarinnar. Hönnunargögn þurfi ekki að vera fullunnin á þessu stigi. Með grenndarkynningunni fylgdi greinargerð frá Skógræktinni og uppdráttur af fyrirhugaðri framkvæmd, dags. 14. ágúst 2020. Uppdrátturinn er í mælikvarða 1:12.000 sem er í ósamræmi við þau viðmið sem sett eru fram í gr. 5.9.7. Á hinn bóginn er mælikvarðinn læsilegur og sýnir afstöðu fyrirhugaðrar framkvæmdar gagnvart aðliggjandi byggð og að landi. Hins vegar eru mannvirki illsjáanleg á uppdrættinum og engar hæðarlínur er að finna á honum. Þá eru engar frekari upplýsingar að finna á uppdrættinum aðrar en útlínur og upplýsingar um flatarmál hinna fyrirhuguðu skógræktarsvæða sem sýnd eru á loftmynd.

Í gr. 5.9.4. skipulagsreglugerðar er fjallað um afgreiðslu máls að lokinni grenndarkynningu. Í 1. mgr. nefndrar greinar segir að ef athugasemdir berist á kynningartíma skuli skipulagsnefnd gefa umsögn um athugasemdir til sveitarstjórnar sem síðan tekur endanlega afstöðu til málsins. Athugasemdir bárust á kynningartíma frá kærendum og sneru þær helst að útsýni vegna 64 ha nytjaskógar. Í kjölfarið tók umhverfis- og skipulagsnefnd athugasemdirnar til umræðu á fundi sínum 5. febrúar 2021. Nefndin tók þar fram að skipulagsgögn hefðu mátt vera ítarlegri, sérstaklega á því svæði sem kærendur hefðu gert mestar athugasemdir við og tekið var undir áhyggjur kærenda af útsýni á umræddu svæði. Nefndin lagði því til að veita framkvæmdaleyfi vegna skógræktarinnar nema á hinu umdeilda svæði, fresta afgreiðslu þess svæðis og óska ítarlegri gagna um það. Var sú afgreiðsla samþykkt í sveitarstjórn. Leyfishafi varð ekki við beiðni um að afhenda frekari gögn og erindið var tekið upp að nýju líkt og fram kemur í málsatvikalýsingu hér að framan. Að lokum var erindið samþykkt í sveitarstjórn 10. júní 2021.

Í 2. mgr. gr. 5.9.4. skipulagsreglugerðar er kveðið á um að sveitarstjórn skuli senda þeim aðilum sem athugasemdir hafi gert umsögn sína um þær ásamt niðurstöðu. Ef efnislegar breytingar hafi verið gerðar á kynntum gögnum við lokaafgreiðslu skuli sveitarstjórn senda hagsmunaaðilum niðurstöðu sína óháð því hvort athugasemdir hafi borist á kynningartímanum. Kærendur í máli þessu virðast ekki hafa fengið framangreindar upplýsingar sendar.

Samkvæmt framansögðu voru annmarkar á málmeðferð Dalabyggðar við meðferð málsins. Rökstuðningur fyrir grenndarkynningu fylgdi ekki kynningunni, sbr. gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð og nokkuð skorti á að þau hönnunargögn sem fylgdu með grenndarkynningu væru í samræmi við gr. 5.9.7. Sér í lagi skorti þar á að kærendur gætu áttað sig á hvernig fyrirhugaður nytjaskógur myndi skyggja á útsýni þeirra, t.a.m. út frá hæðarlínum. Þá virðast kærendur ekki hafa fengið upplýsingar um endanlega niðurstöðu sveitarstjórnar í samræmi við 2. mgr. gr. 5.9.4. Ekki verður hjá því litið að kærendur hafa frá upphafi bent á að gögn sem fylgt hafi grenndarkynningu og hönnun skógarins séu á engan hátt fullnægjandi, hvorki fyrir kærendur né sveitarstjórn svo taka mætti afstöðu til málsins. Var því rík ástæða fyrir Dalabyggð að ganga úr skugga um að gögnin væru í reynd fullnægjandi. Var enda niðurstaða umhverfis- og skipulagsnefndar á fundi 5. febrúar 2021 sú að gögnin væru ekki fullnægjandi og var niðurstaðan samþykkt í sveitarstjórn. Sérstaklega var bent á að gögn væru ófullnægjandi um útsýnisskerðingu á hinu umdeilda 64 ha svæði sem liggur suðvestan við landareign kærenda. Verða kærendur ekki látnir bera hallann af því að leyfishafi hafi ekki orðið við beiðni um að afhenda og/eða láta vinna ítarlegri gögn um svo veigamikinn þátt leyfisumsóknar sinnar og að sveitarstjórn hafi ekki gengið frekar eftir þeim gögnum í samræmi við rannsóknarskyldu sína, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá verður að telja að skilyrði sveitarstjórnar Dalabyggðar um að „framkvæmdaraðili hugi að mótvægisaðgerðum sem miði að því að útsýni skerðist sem minnst“ sé svo óljóst og almennt að það veiti hvorki kærendum né leyfishafa nokkrar leiðbeiningar um framhald fyrirhugaðra framkvæmda við nytjaskógrækt, sér í lagi þegar litið er til þess að ekki eru til nein gögn sem sýna fram á hvernig útsýni muni skerðast.

Verður með vísan til alls þess sem að framan er rakið að telja þá ágalla vera á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að fella beri hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 10. júní 2021 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir nytjaskógrækt á 64 ha svæði í landi Ásgarðs.