Árið 2021, föstudaginn 12. febrúar 2020, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 115/2020, kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar Hveragerðis frá 8. október 2020 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einnar hæðar íbúðarhúsi á lóðinni Laufskógar 21.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. nóvember 2020, er barst nefndinni 12. s.m., kærir eigandi Laufskóga 19, þá afgreiðslu bæjarstjórnar Hveragerðis frá 8. október 2020 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einnar hæðar íbúðarhúsi á lóðinni Laufskógar 21. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ 10. desember 2020.
Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Hveragerðisbæjar 18. ágúst 2020 var lögð fram umsókn um byggingarleyfi fyrir einnar hæðar íbúðarhúsi á lóðinni Laufskógar 21. Afgreiddi nefndin málið með þeim hætti að vekja athygli á því að húsið yrði staðsett nokkuð nærri lóðarmörkum og lagði til að málinu yrði vísað í grenndarkynningu, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkti bæjarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 20. ágúst 2020. Með bréfi skipulagsfulltrúa sama dag var umsóknin grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum og frestur gefinn til að koma að athugasemdum til 20. september s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kæranda. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 6. október s.á. var umsóknin tekin fyrir að nýju og hún samþykkt með þeim breytingum að fjarlægð hússins frá lóðarmörkum yrði 5 m. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 8. október 2020.
Kærandi bendir á að einbýlishúsið eigi að rísa á lóð þar sem fyrir séu fjórir kofar og því muni lóðin breytast í fjölbýlishúsaslóð. Lóðarteikningar séu rangar því einungis séu sýndir þrír kofar. Staðsetning einbýlishússins innarlega á lóðinni sé í ósamræmi við byggðarmynstur auk þess sem staðsetningin muni trufla garðrými og næði nágrannalóða. Fyrirhugaður aðkomuvegur búi til botnlanga inn af lóðinni og trufli enn frekar garðrými kæranda. Samkvæmt Aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029 sé lóðin á svæði sem sé fullbyggt fyrir utan þéttingarmöguleika á garðyrkjulóðum. Því sé byggingarleyfið ekki í samræmi við aðalskipulag. Þá hafi grenndarkynning verið ófullnægjandi þar sem öllum athugasemdum kæranda hafi ekki verið svarað af skipulags- og mannvirkjanefnd.
Af hálfu Hveragerðisbæjar er bent á að bæði skipulags- og mannvirkjanefnd og bæjarstjórn hafi svarað innsendum athugasemdum. Það hafi verið mat skipulagsfulltrúa að framkvæmdin félli vel að yfirbragði byggðar og stefnumörkun í Aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029. Í skipulaginu sé svæðinu lýst sem fullbyggðu svæði þar sem fyrir sé blönduð byggð garðyrkjustöðva og íbúðabyggðar á 1-2 hæðum, aðallega einbýlishús á stórum lóðum. Fram komi í skipulagsskilmálum að heimilt sé að auka byggingarmagn núverandi íbúðarlóða og skuli þá leitast við að halda götumynd eins og kostur sé. Nýtingarhlutfall sé 0,3 til 0,45. Byggingarleyfið sé því í samræmi við aðalskipulag.
Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði.
Þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, en þá skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt er tiltekið í lagagreininni að þegar um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr sömu laga. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis í kjölfar grenndarkynningar er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki sem eru rakin hér að framan.
Hin kærða afgreiðsla bæjarstjórnar frá 8. október 2020 er ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur liður í málsmeðferð sem lýkur með ákvörðun byggingarfulltrúa. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hefur ekkert byggingarleyfi enn verið samþykkt eins og áskilið er skv. lögum nr. 160/2010 þar sem tilskilin gögn liggja ekki fyrir. Þar sem ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun í máli þessu verður ekki hjá því komist að vísa því frá úrskurðarnefndinni.
Þó þykir rétt að benda á að veiti byggingarfulltrúi leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð við þá ákvörðunartöku í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.