Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

115/2012 Bugavirkjun

Árið 2013, fimmtudaginn 28. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 115/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 23. október 2012 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Bugavirkjun í landi Eystri-Leirárgarða í Hvalfjarðarsveit og á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 8. nóvember 2012 um að veita byggingarleyfi fyrir stíflu Bugavirkjunar. 

Í málinu er nú kveðinn upp til svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. október og 15. nóvember 2012, er bárust nefndinni 31. október og 15. nóvember s.á., kærir B hrl., f.h. Leirárskóga ehf., þá ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 23. október 2012 að veita framkvæmdaleyfi fyrir Bugavirkjun í landi Eystri-Leirárgarða í Hvalfjarðarsveit og ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 8. nóvember 2012 um að veita byggingarleyfi fyrir stíflu Bugavirkjunar.

Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinum kærðu leyfum á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Fallist var á kröfuna um stöðvun framkvæmda með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 16. nóvember 2012, en í þeim úrskurði voru málin vegna byggingarleyfisins, nr. 121/2012, og framkvæmdaleyfisins, nr. 115/2012, sameinuð.  Verður málið nú tekið til efnisúrlausnar.

Málavextir:  Kærandi á land að eystri bakka Leirár gegnt þeim stað þar sem Bugalækur rennur í ána, en leyfishafi hefur umráð lands sem lækurinn rennur um og að bökkum Leirár.  Hin kærðu leyfi heimila gerð stíflu, í tilefni af fyrirhugaðri 40 kW virkjun þar sem Bugalæk verður veitt um 1.750 m pípu að stöðvarhúsi og þaðan veitt aftur í Leirá.

Með bréfi, dags. 15. júní 2011, tilkynntu forsvarsmenn leyfishafa Skipulagsstofnun um fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir og tók stofnunin þá ákvörðun hinn 27. júlí 2011 að framkvæmdirnar væru ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.  Í kjölfarið var unnin og auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir jörðina Eystri-Leirárgarða sem gerði ráð fyrir virkjuninni.  Var skipulagstillagan send Skipulagsstofnun til yfirferðar og gerði stofnunin athugasemdir við tillöguna og málsmeðferð hennar.  Breytingar voru gerðar á skipulagstillögunni og hún auglýst að nýju til kynningar.  Sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagsbreytinguna 28. ágúst 2012 og öðlaðist skipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 24. september s.á.  Skaut kærandi máls þessa skipulagsákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 22. október 2012, og krafðist ógildingar.
Hinn 15. október 2012, var sótt um framkvæmdaleyfi fyrir stíflugerð, lögnum og stöðvarhúsi vegna Bugavirkjunar.  Á fundi sama dag samþykkti umhverfis-, skipulags og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar að leggja til við sveitarstjórn að veitt yrði framkvæmdaleyfi fyrir stíflugerðinni og féllst sveitarstjórn á það á fundi sínum 23. s.m.  Hinn 7. nóvember 2012 sótti leyfishafi síðan um byggingarleyfi fyrir stíflu, lögnum og stöðvarhúsi og samþykkti byggingarfulltrúi að veita byggingarleyfi fyrir gerð stíflunnar 8. s.m.  Hefur kærandi skotið þessum leyfisveitingum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar um málsatvik til kæru sinnar vegna deiliskipulagsákvörðunar fyrir umrætt svæði sem telja verði ógilda, m.a. sökum margvíslegra brota á málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæðum vatnalaga nr. 15/1923.  Þar sem hin kærðu leyfi byggi á ógildu deiliskipulagi beri að fella þau úr gildi.  Þá sé sá annmarki á afgreiðslu umdeilds framkvæmdaleyfis að umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar hafi lagt til við sveitarstjórn að samþykkja leyfi fyrir stíflugerð umræddrar virkjunar en sveitarstjórn hafi gefið víðtækara samþykki, eða framkvæmdaleyfi fyrir Bugavirkjun, sem virðist því ná til allra virkjunarframkvæmdanna. 

Málsrök Hvalfjarðarsveitar:  Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfum kæranda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana verði hafnað.

Frávísunarkrafan sé studd þeim rökum að kærandi eigi hvorki einstaklegra né verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn kæruefnisins sem réttlætt geti aðild hans að málinu.  Um rök er varði efnishlið máls megi vísa til greinargerðar Hvalfjarðarsveitar í kærumáli vegna deiliskipulagsbreytingar fyrir umrætt svæði sem rekið sé fyrir nefndinni.

Á 16. fundi umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar hinn 15. október 2012 hafi verið samþykkt að leggja til við sveitarstjórn að hún veitti leyfi fyrir stíflugerð vegna Bugavirkjunar.  Á 136. fundi sveitarstjórnar hinn 23. s.m. hafi sú tillaga verið samþykkt.  Framkvæmdaleyfi, dags. 30. október 2012, sem fjalli um stíflugerð að Eystri-Leirárgörðum sé í samræmi við framangreindar bókanir.  Af þeim sökum gæti ekki misræmis milli greindra afgreiðslna.

Sú framkvæmd sem umdeild leyfi varði sé í samræmi við lögmætt deiliskipulag Eystri-Leirárgarða, Bugavirkjun, sem samþykkt hafi verið hinn 28. ágúst 2012.  Því hafi sveitarstjórn verið heimilt og raunar skylt að gefa út umrædd leyfi lögum samkvæmt.

Andmæli framkvæmdaaðila:  Af hálfu framkvæmdaaðila er kröfum kæranda mótmælt enda eigi málatilbúnaður hans fyrir ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar, sem leyfin styðjist við, ekki við rök að styðjast.  Að öðru leyti megi vísa til málsástæðna framkvæmdaaðila í kærumáli vegna deiliskipulagsbreytingar fyrir Eystri-Leirárgarða, sem rekið sé fyrir úrskurðarnefndinni.

Sérstaklega sé mótmælt fullyrðingum kæranda um misræmi milli samþykkta skipulagsnefndar og sveitarstjórnar við afgreiðslu framkvæmdaleyfisins enda hafi sveitarstjórn ekki gert annað en að staðfesta afgreiðslu nefndarinnar.  Jafnvel þótt litið væri svo á að samþykkt sveitarstjórnar gangi lengra en tillaga skipulagsnefndar hafi það ekki þýðingu enda sé sveitarstjórn slíkt heimilt.

Niðurstaða:  Í bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 16. nóvember 2012, tók úrskurðarnefndin afstöðu til kröfu Hvalfjarðarsveitar um frávísun málsins og var þeirri kröfu hafnað. 

Hin kærðu framkvæmda- og byggingarleyfi heimila einungis gerð stíflu fyrir vatnsmiðlun Bugavirkjunar sem fyrirhuguð er í landi Eystri-Leirárgarða og í máli þessu er fyrst og fremst deilt um hvort nefnd leyfi styðjist við gilt deiliskipulag.

Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli vegna deiliskipulagsbreytingar umrædds svæðis sem heimilar umdeildar framkvæmdir og mannvirkjagerð vegna virkjunar Bugalækjar.  Í þeim úrskurði var kröfu um ógildingu deiliskipulagsbreytingarinnar hafnað.  Að þeirri niðurstöðu fenginni eiga hinar kærðu ákvarðanir stoð í gildandi deiliskipulagi.

Samkvæmt 68. gr. vatnalaga nr. 15/1923 ber að afla leyfis Orkustofnunar til vatnsmiðlunar eða breytinga á henni ef flatarmál miðlunarlóns að því loknu er 1.000 m2 eða stærra við hæstu vatnsstöðu  Miðlunarlón fyrirhugaðrar virkjunar í Bugalæk verður yfir þessum viðmiðunarmörkum og er vatnsmiðlun virkjunarinnar því leyfisskyld samkvæmt tilvitnuðu ákvæði, en slíkt leyfi lá ekki fyrir er hin kærðu leyfi fyrir stíflugerð voru veitt. 

Í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 er tilgreint hvaða gögn skuli fylgja umsókn um framkvæmdaleyfi og er þar m.a. í 5. tl. ákvæðisins mælt fyrir um að fyrir þurfi að liggja samþykki og/eða leyfi annarra leyfisveitenda sem framkvæmd kann að vera háð samkvæmt öðrum lögum. 

Með hliðsjón af því að fyrirmæla fyrrgreindrar reglugerðar um framkvæmdaleyfi var ekki gætt við ákvörðun um veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis verður það fellt úr gildi.  Að teknu tilliti til þess að heimiluð mannvirkjagerð í hinu kærða byggingarleyfi tengist stíflugerð þeirri sem framkvæmdaleyfið tekur til þykir einnig verða að fella það úr gildi.   

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 23. október 2012 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir stíflugerð Bugavirkjunar í landi Eystri-Leirárgarða í Hvalfjarðarsveit og ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 8. nóvember 2012 um að veita byggingarleyfi fyrir sömu stíflu.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                        Kristín Svavarsdóttir