Ár 2009, þriðjudaginn 28. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.
Fyrir var tekið mál nr. 115/2007, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. janúar 2008 um að samþykkja breytt deiliskipulag á lóðinni nr. 11-13 við Skipholt í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 7. september 2007 og áréttað var í tölvubréfi, dags. 4. febrúar 2008, kæra B og J, Skipholti 15, Reykjavík þá ákvörðun borgarráðs frá 17. janúar 2008 að samþykkja breytt deiliskipulag lóðar nr. 11-13 við Skipholt í Reykjavík. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Forsaga máls þessa er sú að tillaga að breytingu á deiliskipulagi er varðar lóðina nr. 11-13 við Skipholt var grenndarkynnt hagsmunaaðilum á fyrrihluta árs 2007 og bárust athugasemdir frá fjölda aðila, m.a. frá kærendum máls þessa. Vegna framkominna athugasemda um galla á málsmeðferð var samþykkt á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 1. júní 2007 að tillagan yrði grenndarkynnt að nýju og að athugasemdir þær er borist hefðu héldu gildi sínu og að fjallað yrði um þær þegar málið yrði afgreitt.
Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 3. ágúst 2007 voru athugasemdir er borist höfðu við tillöguna lagðar fram og á fundi skipulagsráðs hinn 15. ágúst s.á. var tillagan samþykkt með vísan til a-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð og umsagnar skipulagsstjóra. Var tillagan send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Með bréfi, dags. 31. ágúst 2007, gerði stofnunin athugasemdir við að birt yrði auglýsing um breytinguna í B-deild Stjórnartíðinda, m.a. þar sem ekki væri fallist á að farið væri með tillöguna sem óverulega breytingu á skipulagi. Í framhaldi af því var ákveðið á fundi skipulagsráðs hinn 3. október 2007 að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi umræddrar lóðar og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi borgarráðs hinn 18. s.m. Tillagan var auglýst til kynningar frá 24. október 2007 til 7. desember s.á. Á fundi skipulagsráðs hinn 9. janúar 2008 var hún samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra og málinu vísað til borgarráðs, er samþykkti greinda afgreiðslu á fundi hinn 17. janúar 2008. Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar birtist síðan í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. maí 2008. Gerir hið breytta skipulag m.a. ráð fyrir að byggt verði við hús það sem fyrir er á lóðinni og heimilað að hækka það í fimm hæðir. Hafa kærendur kært framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir.
Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir hafi gert alvarlegar athugasemdir við umdeilda skipulagstillögu en ekki hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda fremur en annarra er borist hafi. Ákveðið hafi verið að ganga gegn eindregnum vilja nágranna með því að samþykkja hið breytta deiliskipulag. Hafi svör skipulagsstjóra verið ófullnægjandi og engin rök hafi verið færð fram fyrir því að tillagan yrði samþykkt.
Í svari skipulagsstjóra við framkomnum athugasemdum komi eftirfarandi m.a. fram: „Kynnt tillaga að stækkun hússins að Skipholti 11-13 er talin vera í samræmi við byggðamynstur svæðisins, enda tekur hún mið af stærðarhlutföllum húsa og er ekki talin minnka gæði þeirra eigna sem fyrir eru í næsta umhverfi.“ Þetta feli ekki í sér svar við athugasemdunum og engar forsendur séu færðar fram fyrir staðhæfingum sem m.a. séu settar fram um byggðamynstur og stærðarhlutföll húsa. Þá sé það deginum ljósara að sólar muni njóta skemur í mörgum íbúðum í næsta nágrenni vegna fyrirhugaðrar stækkunar umrædds húss svo fátt eitt sé nefnt. Telji kærendur sig verða fyrir eignatjóni og þurfi þeir að búa við minni lífsgæði gangi hin kærða breyting fram.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hin kærða samþykkt verði staðfest. Borgaryfirvöld telji að rétt hafi verið staðið að samþykkt tillögunnar. Farið hafi verið yfir framkomnar athugasemdir og þeim svarað með fullnægjandi hætti. Hin kærða ákvörðun sé í samræmi við stefnumörkun aðalskipulags um þéttingu byggðar ásamt því að stuðla að minni bílaumferð.
Bent sé á að orðið hafi verið við athugasemdum vegna formgalla tillögunnar sem hafi verið kynnt að nýju og hagsmunaaðilar upplýstir um það.
Reykjavíkurborg harmi að kærendur telji sig verða fyrir eignatjóni og minnkun lífsgæða en telji breytingu þá er hér um ræði ekki það umtalsverða að hún valdi kærendum tjóni eða óhagræði að marki. Það sé eðli borga að taka breytingum og vera í stöðugri þróun og verði eigendur fasteigna staðsettra miðsvæðis að gera ráð fyrir slíkum breytingum.
Það sé hlutverk Reykjavíkurborgar sem skipulagsyfirvalds að tryggja hagsmuni heildarinnar og að ekki sé svo langt gengið á eignir borgaranna að um óþolandi skerðingu á gæðum eða eignum sé að ræða. Telji borgaryfirvöld að ekki sé um slíka skerðingu að ræða og engin rök séu til þess að ógilda hina kærðu ákvörðun. Telji kærendur sig verða fyrir tjóni vegna gildistöku skipulagins geti þeir átt rétt á bótum skv. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 verði tjón sannað. Um slíkan bótarétt sé úrskurðarnefndin ekki bær að fjalla.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulagsbreytingar er tekur til lóðarinnar nr. 11-13 við Skipholt í Reykjavík. Lóðin tilheyrir skilgreindu miðsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sem nefnt er M2, Hlemmur/Grensás. Á árinu 2006 var samþykkt breyting á skilgreiningu miðsvæðis í aðalskipulagi fyrir umrætt svæði á þann veg að þar sem aðstæður leyfðu væri íbúðarhúsnæði heimilt, einkum á efri hæðum bygginga, í samræmi við gr. 4.4 í skipulagsreglugerð og nánari útfærslu í deiliskipulagi.
Árið 1968 var reist tveggja hæða iðnaðarhús að Skipholti 11-13 sem samkvæmt upplýsingum úr fasteignamati er um 1.500 m². Stóð húsið á sameiginlegri lóð Brautarholts 10-14 og Skipholts 11-13, sem var deiliskipulögð á árinu 1998 sem sérstakur skipulagsreitur. Með deiliskipulagsbreytingu sem samþykkt var í janúar 2007 var umræddri lóð skipt upp í tvær lóðir, Brautarholt 10-14 og Skipholt 11-13, en framangreint hús stendur á síðargreindri lóð, en stærð hennar er 2.147 m². Var heimilað að byggja við og ofan á húsið á lóðinni en tilgreint byggingarmagn var óbreytt frá eldra skipulagi eða 2.253 m².
Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur m.a. í sér heimild til aukins byggingarmagns og hækkunar hússins að Skipholti 11-13 í fimm hæðir og verður byggingarmagn eftir breytinguna 5.035 m². Fer nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 1,05 í 2,07 að undanskildum bílakjallara. Á skilgreindum miðsvæðum í skipulagi er almennt miðað við nokkuð hátt nýtingarhlutfall lóða og mun hærra en tíðkast á íbúðasvæðum. Ekki liggur fyrir að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Skipholti 11-13, eftir umdeilda skipulagsbreytingu, sé til muna hærra en heimilað hefur verið í nágrenninu.
Að framangreindu virtu og þar sem ekki liggur fyrir að ógildingarannmarkar hafi verið á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verður kröfu kærenda um ógildingu hennar hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 17. janúar 2008, um að samþykkja breytt deiliskipulag lóðar nr. 11-13 við Skipholt í Reykjavík.
____________________________________
Ásgeir Magnússon
______________________________ _______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Þorsteinn Þorsteinsson