Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

114/2008 Aspargrund

Ár 2009, mánudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 114/2008, kæra eigenda fasteignarinnar að Aspargrund 9 í Kópavogi á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008 um að gera kærendum að fjarlægja skúr af lóð fyrir 1. desember 2008 og að leggja til við bæjarstjórn að lagðar verði á dagsektir að fjárhæð kr. 5.000 á dag frá 1. desember 2008 verði skúrinn ekki fjarlægður fyrir þann tíma. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. desember 2008, er barst nefndinni 18. sama mánaðar, kæra G og D, eigendur fasteignarinnar að Aspargrund 9 í Kópavogi, framangreinda ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008.  Krefjast kærendur þess að réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar verði frestað en jafnframt verður að skilja málatilbúnað þeirra svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Fundargerð byggingarnefndar frá 19. nóvember 2008 var samþykkt án umræðu á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 25. nóvember 2008. 

Málavextir:  Á árinu 2007 var gerð breyting á deiliskipulagi er tók til umræddrar lóðar.  Var með henni heimiluð bygging bílskúrs og viðbygging við hús á lóðinni.  Skúr sá sem kærendum var gert að fjarlægja með hinni kærðu ákvörðun mun þá hafa staðið á lóðinni á öðrum stað en nú, en hvorki var við skipulagsbreytinguna tekin afstaða til þess hvað um hann yrði né heldur annan skúr á skipulagssvæðinu, sem stendur við húsið nr. 11 við Aspargund. 

Kærendur sóttu um byggingarleyfi fyrir skúrnum en þeirri umsókn var hafnað á fundi byggingarnefndar 20. ágúst 2008.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 8. október 2008 var lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 29. september 2008, varðandi skúrinn.  Óskaði byggingarnefnd eftir því að byggingarfulltrúi sendi bréf til eigenda um að skúrinn yrði fjarlægður af lóðinni eigi síðar en hinn 8. nóvember 2008. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 19. nóvember 2008 var málið tekið fyrir að nýju og eftirfarandi bókað:  „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 29. september s.l. varðandi garðskúr á lóðinni nr. 9 við Aspargrund. 

Á fundi byggingarnefndar 8. október s.l. var lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 29. september s.l. varðandi skúr á lóðinni nr. 9 við Aspargrund.  Byggingarnefnd óskaði eftir því að byggingarfulltrúi sendi bréf til eigenda, um að skúr verði fjarlægður af lóðinni eigi síðar 8. nóvember 2008.  Skúrinn hefur ekki verið fjarlægður. 

Byggingarnefnd gefur eigendum frest til 1. desember 2008 til að fjarlægja skúrinn.  Verði skúrinn ekki fjarlægður fyrir 1. desember 2008 leggur byggingarnefnd til við bæjarstjórn að samþykkt verði að leggja á dagsektir að upphæð kr. 5.000,- á eigendur skúrsins er taki gildi 1. desember 2008.“ 

Byggingarfulltrúi ritaði kærendum bréf, dags. 19. nóvember 2008, og tilkynnti þeim um ákvörðun nefndarinnar.  Í bréfinu segir hins vegar að byggingarnefnd gefi eigendum frest til 1. janúar 2009 en verði skúrinn ekki fjarlægður fyrir þann dag leggi nefndin til við bæjarstjórn að samþykkt verði að leggja á dagsektir, kr. 5.000 á dag, er taki gildi 1. desember 2008.  Með bréfi til kærenda, dags. 12. desember 2008, kom byggingarfulltrúi því á framfæri við kærendur að í niðurlagi bréfs hans frá 19. nóvember hafi verið kveðið á um að mögulegar dagsektir tækju gildi 1. desember 2008 en hafi átt að vera 1. janúar 2009.  Væri beðist velvirðingar á þessum mistökum. 

Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 25. nóvember 2008 voru teknar fyrir fundargerðir nefnda.  Þar á meðal var fundargerð byggingarnefndar frá 19. nóvember 2008 og var gerð um hana svofelld bókun:  „…c)  Byggingarnefndar 1298. fundar 19/11, ásamt fskj. nr. 21/2008.  Fundargerðin samþykkt án umræðu.“ 

Málsrök aðila:  Af hálfu kærenda er aðallega á því byggt að réttmæti hinnar kærðu ákvörðunar hljóti að ráðast af niðurstöðu kærumáls þeirra um byggingarleyfisumsóknina.  Af hálfu Kópavogsbæjar hefur ekki verið skilað greinargerð í málinu en bæjaryfirvöld hafa látið úrskurðarnefndinni í té umbeðin gögn. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar í máli þessu er tvíþætt.  Annars vegar er um að ræða ákvörðun um að gera kærendum að fjarlægja skúr af lóð og hins vegar að leggja til við bæjarstjórn að dagsektum verði beitt. 

Hvað fyrri lið ákvörðunarinnar varðar verður að líta svo á að það hafi verið forsenda þess liðar að lokið væri með lögmætum hætti umfjöllun umsóknar kærenda um byggingarleyfi fyrir skúrnum.  Úrskurðarnefndin hefur fyrr í dag fellt úr gildi synjun byggingarnefndar á umsókn kærenda um byggingarleyfið og eru því brostnar forsendur fyrir hinni kærðu ákvörðun um að fjarlægja beri skúrinn af lóðinni.  Þykir rétt að fella úr gildi ákvörðun byggingarnefndar um að skúrinn skuli fjarlægður meðan erindi kærenda um leyfi fyrir skúrnum hefur ekki hlotið lögmæta meðferð. 

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er það á valdsviði sveitarstjórnar að ákveða dagsektir til að knýja fram fyrirmæli byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar.  Í málinu liggur aðeins fyrir tillaga byggingarnefndar til bæjarstjórnar um að beita dagsektum.  Hins vegar liggur ekki fyrir að bæjarstjórn hafi tekið ákvörðun um dagsektir í máli þessu og breytir engu þótt hún hafi samþykkt án umræðu fundargerð byggingarnefndar þar sem umrædd tillaga er gerð.  Var tillaga byggingarnefndar um dagsektir ekki lokaákvörðun í málinu og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður þeim þætti því vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008 um að gera kærendum að fjarlægja skúr af lóð þeirra að Aspargrund 9 fyrir 1. desember 2008.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu um ógildingu á ákvörðun byggingarnefndar um að leggja til við bæjarstjórn að lagðar verði á dagsektir að upphæð kr. 5.000 á dag frá 1. desember 2008 verði skúrinn ekki fjarlægður fyrir þann tíma. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson