Árið 2021, föstudaginn 12. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:
Mál nr. 113/2020, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. október 2020 um að samþykkja tillögu að byggingarleyfi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Þróunarfélagið ehf., eigandi Hafnarbrautar 12, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. október 2020 að samþykkja tillögu að byggingarleyfi fyrir Kársnesbraut 104. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 10. desember 2020.
Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 2. september 2019 var lögð fram byggingarleyfisumsókn lóðarhafa Kársnesbrautar 104 þar sem óskað var eftir því að reisa tvær viðbyggingar við núverandi hús á lóðinni. Var gert ráð fyrir 80 m2 viðbyggingu á suðurhlið hússins og annarri 1100 m2 viðbyggingu á norðurhlið hússins á þremur hæðum með lyftu og stigahúsi. Samþykkti skipulagsráð að grenndarkynna framlagða tillögu í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var umsóknin grenndarkynnt með athugasemdafresti frá 6. janúar 2020 til 3. febrúar s.á. Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs 3. febrúar 2020 og vísað til umsagnar skipulags- og byggingardeildar þar sem athugasemdir bárust á kynningartíma. Á fundi skipulagsráðs 21. september s.á. var umsóknin samþykkt með áorðnum breytingum. Á fundi bæjarráðs 24. s.m. og á fundi bæjarstjórnar 13. október s.á. var afgreiðsla skipulagsráðs staðfest.
Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann telji að grenndarkynning sú sem liggi til grundvallar byggingarleyfinu hafa verið áfátt í veigamiklum atriðum. Brjóti framlögð tillaga gegn nábýlisrétti og grenndarhagsmunum kæranda, en hann sé að byggja íbúðir á næstu lóð. Þar að auki sé enn sá meginannmarki á allri málsmeðferðinni og hinu kærða byggingarleyfi að notast hafi verið við röng lóðarmörk sem geri það að verkum að Kópavogsbær hafi í raun veitt byggingarleyfi sem heimili lóðarhöfum Kársnesbrautar 104 að byggja bílastæði á lóð Hafnarbrautar 12.
Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda kemur fram að Kársnesbraut 104 standi á ódeiliskipulögðu svæði og hafi umsókn um byggingarleyfi af þeim sökum verið grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi málsmeðferðin verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Við grenndarkynningu hafi komið fram athugasemdir frá kæranda og gerðar hafi verið breytingar á tillögunni sem hafi komið til móts við athugasemdir kæranda. Jafnframt hafi það verið mat skipulagsyfirvalda að þrátt fyrir að stuðst hefði verið við eldra lóðarblað í kynningu hefði það ekki haft þau áhrif að grenndarkynningaruppdrættir gæfu ranga mynd af hinum kærðu byggingaráformum.
Þá sé vakin athygli á því að þegar þetta sé ritað hafi byggingarfulltrúi ekki samþykkt byggingaráform í samræmi við kynnta tillögu þar sem beðið sé eftir viðbrögðum frá hönnuði við athugasemdum byggingarfulltrúa á tæknilegum útfærslum á aðaluppdrætti.
Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til þeirra sömu atriða og fram koma í greinargerð bæjaryfirvalda. Að auki hafi tillögunni verið breytt að grenndarkynningu lokinni til að koma til móts við athugasemdir kæranda. Breytingarnar hafi falið í sér að húsið væri stallað inn að vestanverðu eins og hægt sé, þaklína þess lækkuð næst götunni og húsið tekið upp í fulla hæð um tvo metra frá útvegg, svo að þaklínan héldi sér frá götunni. Auk þess hafi verið sett inn valma sneiðing á gaflinn sem snúi í vestur til að lækka hann. Lengra sé ekki hægt að ganga þar sem frekari minnkun myndi gera það að verkum að fyrirhuguð vélasamstæða sem viðbygging eigi að hýsa komist ekki fyrir í húsinu.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að mótvægisaðgerðir sem bent sé á komi að litlu sem engu leyti til móts við ábendingar hans. Notast sé við rangt lóðarblað sem geri það að verkum að bílastæði nágranna lendi á lóð Hafnarbrautar 12. Ekki fylgi byggingarlýsing aðaluppdráttum og séu þeir illa málsettir. Teikningar sem sýni skuggavarp séu enn fremur ekki meðfylgjandi aðaluppdráttum.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.
Endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 11. gr., 13. gr. og 2. mgr. 9. gr. laganna. Hin kærða afgreiðsla bæjarstjórnar þar sem staðfest var afgreiðsla skipulagsráðs, er liður í málsmeðferð byggingarleyfisumsóknar en telst ekki ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin hefur aflað þeirra upplýsinga frá Kópavogsbæ að byggingaráform á grundvelli hinnar kærðu afgreiðslu hafi ekki verið samþykkt á þeim tíma sem liðinn er frá kæru. Er því ekki að svo stöddu fyrir hendi samþykkt byggingarleyfi sem kæranlegt er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, enda er meðferð hinnar umdeildu byggingarleyfisumsóknar ekki lokið. Ljúki henni með því að byggingarfulltrúi veiti leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð við þá ákvörðunartöku í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.