Árið 2020, fimmtudaginn 4. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 112/2019, kæra á ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 13. maí 2019 um álagningu skipulagsgjalds vegna húseignarinnar að Ólafsgeisla 121, Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. október 2019, er barst nefndinni 1. nóvember s.á., kæra eigendur Ólafsgeisla 121, Reykjavík, ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 13. maí 2019 um álagningu skipulagsgjalds vegna húseignarinnar að Ólafsgeisla 121. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Þjóðskrá Íslands 22. nóvember 2019.
Málavextir: Hinn 13. maí 2019 sendi Þjóðskrá Íslands kærendum áskorun um að láta framkvæma brunabótamat vegna fasteignar þeirra að Ólafsgeisla 121 og var hún virt til brunabóta samkvæmt brunabótamati, dags. 7. ágúst 2019. Í kjölfar þess var skipulagsgjald lagt á vegna fasteignarinnar og kærendum sendur reikningur fyrir álögðu skipulagsgjaldi að upphæð kr. 181.914 með gjalddaga 1. september 2019.
Með bréfi til Þjóðskrár Íslands, dags. 16. september 2019, óskuðu kærendur eftir því að krafan yrði látin falla niður. Var þar vísað til upplýsinga vátryggingafélags Sjóvár um að fasteignin hefði verið tryggð lögboðinni brunatryggingu hjá félaginu frá árinu 2004 á grundvelli brunabótamats sem fram hefði farið í byrjun apríl s.á.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þeir hafi búið í umræddri fasteign í u.þ.b. 17 ár. Þau hafi keypt brunatryggingu hjá Sjóvá og þar með hafi þau talið sig hafa uppfyllt skyldu sína skv. 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar. Hafi þau aldrei fengið upplýsingar um að á þeim hafi hvílt skylda til að óska eftir sérstöku brunabótamati frá Þjóðskrá Íslands og ekki hafi verið minnst á það þegar þau keyptu tryggingu hjá Sjóvá.
Í 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem umrædd gjaldtaka byggi á, komi fram að af nýbyggingum, sem virtar hafi verið til brunabóta, skuli greiða skipulagsgjald í eitt skipti sem nemi 0,3% af brunabótamati. Þá komi fram að nýbygging teljist hver nýreist hús sem virt sé til brunabóta. Ljóst sé að miðað hafi verið við að gjaldið sé lagt á nýreist hús og nýjar við-byggingar. Ekki sé unnt að fallast á að hús sem reist hafi verið á árinu 2002 geti árið 2019 talist nýreist hús í skilningi 17. gr. skipulagslaga. Engin rök leiði til þess að beitt verði svo rúmri lögskýringu við túlkun þessa lagaákvæðis, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 128/2018.
Það sé viðurkennd meginregla að kröfuhafi verði að gæta réttar síns og halda honum til haga og beri halla af vanrækslu sinni á því. Þjóðskrá hafi látið hjá líða, töluvert lengur en geti talist hæfilegt, að gera ráðstafanir til að tryggja rétt sinn eða framgöngu kröfunnar. Stofnunin hafi sýnt óhæfilegt tómlæti varðandi kröfuna sem hljóti að leiða til þess að hún verði látin niður falla. Ekkert hafi gefið kærendum ástæðu til að ætla að þau hafi ekki farið fyllilega rétt að við brunatryggingu fasteignar þeirra sl. 17 ár fyrr en nú, þegar þeim hafi verið send krafa um greiðslu tæplega 200.000 kr.
Fram hafi komið í úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að álagning skipulagsgjalds geti dregist nokkuð eftir að viðkomandi bygging hafi verið tekin í notkun. Hafi úrskurðarnefndin fallist á að réttlætanlegt kunni að vera að leggja gjaldið á nokkru eftir að byggingu mannvirkis sé lokið. Á því verði þó að vera takmarkanir. Því til stuðnings megi nefna ummæli úrskurðarnefndar í málum nr. 20/2011 og nr. 38/2010: „Verður ekki á það fallist að umrædd bygging, sem leggja verður til grundvallar að reist hafi verið fyrir tíu til tólf árum, verði talin nýreist hús í skilningi 17. gr. skipulagslaga þegar umdeild álagning fór fram.“
Málsrök Þjóðskrár Íslands: Þjóðskrá Íslands bendir á að skv. 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar sé húseigendum skylt að brunatryggja allar húseignir. Húseign skuli metin brunabótamati eigi síðar en fjórum vikum eftir að byggingu hennar hafi lokið eða eftir að hún sé tekin í notkun og beri eigandi ábyrgð á því að óska eftir brunabótamati. Samkvæmt 2. gr. sömu laga annist Þjóðskrá virðingu húseignar samkvæmt matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar og sé heiti þeirrar gerðar brunabótamat. Markmið brunabótamats sé að finna vátryggingarverðmæti húseignarinnar á þeim tíma er virðing fari fram. Skuli matið taka til þeirrar efnislegu verðmæta húseignarinnar sem eyðilagst geti af eldi og miðist við byggingar-kostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti.
Álagning skipulagsgjalds fari fram á grundvelli brunabótamats, sbr. 2. mgr. 17. gr. skipulags-laga nr. 123/2010, þar sem segi að greiða skuli skipulagsgjald af nýbyggingum í eitt skipti sem nemi 0,3% af brunabótamati hverrar húseignar. Nýbygging teljist hvert nýreist hús sem virt sé til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldra hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemi a.m.k. 1/5 verðs eldra hússins. Umrætt skipulagsgjald verði fyrst lagt á og innheimt þegar brunabótamat liggi fyrir.
Ljóst þyki að kærendur hafi ekki sótt um brunabótamat hjá Þjóðskrá þrátt fyrir skýr fyrirmæli í lögum heldur hafi þau aðeins sótt um brunatryggingu hjá tryggingarfélagi sínu. Í kaupsamningi aðila um fasteignina, dags. 15. október 2002, komi m.a. fram að „kaupendum er skylt að bruna-tryggja eignina frá og með afhendingardegi“, sem hafi verið við undirritun kaupsamnings. Í málinu liggi fyrir að eignin hafi ekki verið brunatryggð með tryggingu hjá Sjóvá fyrr en í apríl 2004. Einnig komi skýrt fram í framangreindum kaupsamningi að „kaupendur greiði skipulags-gjald þegar þess verður krafist nú 0,3% af brunabótamati eignarinnar“. Í afsali sem aðilar hafi undirritað í maí 2004 komi fram að brunabótamat fasteignarinnar sé núll. Þjóðskrá geti þar af leiðandi ekki fallist á þá málsástæðu að kærendur hafi ekki vitað að fasteignin væri ekki með brunabótamat eða að þeim hafi ekki verið kunnugt um að þeim bæri að óska eftir slíku mati og greiða skipulagsgjald sem væri 0,3% af brunabótamati eignarinnar.
Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar um lögboðna brunatryggingu húseigna nr. 809/2000 segi að hús-eigandi skuli óska eftir brunabótamati eigi síðar en fjórum vikum eftir að nýtt hús sé tekið í notkun og ef húseignin uppfylli ekki vátryggingarskyldu þá skuli byggingarfulltrúi synja um lokaúttekt. Byggingarfulltrúi sveitarfélaga hafi eftirlit með mannvirkjagerð og beri ábyrgð á því að Þjóðskrá berist upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim svo og um öll mannvirki, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001. Í kerfum stofnunarinnar hafi byggingarstig eignarinnar ekki verið uppfært af byggingarfulltrúa í stig sjö, þ.e. fullgerð, fyrr en hinn 3. október 2018, en fram að þeim tíma hafi byggingarstig eignarinnar verið fjórir, þ.e. fokheld. Þegar stofnuninni hafi borist tilkynning um framangreint frá byggingarfulltrúa hafi áskorun um brunabótamat verið send eigendum í maí 2019, eða um sjö mánuðum eftir að byggingarstig eignarinnar hafi verið uppfært. Verði ekki séð að þarna hafi verið um tómlæti af hálfu Þjóðskrár að ræða sem verði þess valdandi að stofnunin hafi þar með fyrirgert rétti sínum til að virða umrædda eign til brunabóta og þar með að leggja á skipulagsgjald til innheimtu hjá innheimtumanni ríkissjóðs.
Skv. 6. gr. reglugerðar um skipulagsgjald nr. 737/1997 skuli Fasteignamat ríkisins, nú Þjóðskrá Íslands, tilkynna innheimtumanni fjárhæð brunabótavirðingar húseignar, eða stofnverðs þar sem það eigi við, þegar virðing hafi farið fram eða tilkynnt hafi verið um stofnverð og veita honum þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu vegna innheimtu gjaldsins. Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar falli skipulagsgjald í gjalddaga þegar brunabótavirðing hafi farið fram eða stofnverð tilkynnt og Fasteignamat ríkisins hafi tilkynnt það innheimtumanni ríkissjóðs. Skipulagsgjald byggingarinnar hafi því ekki fallið í gjalddaga fyrr en við brunabótavirðingu hinn 7. ágúst 2019.
Tómlæti kærenda um að hafa ekki óskað eftir brunabótamati eigi ekki að leiða til þess að við-komandi komist hjá því að greiða skipulagsgjald sem þeim beri að greiða lögum samkvæmt og samkvæmt kaupsamningi þeirra.
Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar séu þær skyldur að „tilkynna vátryggingafélagi um notkun húseignar og óska eftir mati“, svo samofnar samkvæmt orðalagi að eðlilegt sé að halda að um sömu aðgerð sé að ræða. Erfitt sé að lesa úr ákvæðinu skyldu húseigenda til að gera að eigin frumkvæði annað en að óska eftir því við vátryggingafélag að húseign sé metin og tryggð lögboðinni brunatryggingu, eins og kærendur gerðu, enda hlyti slík trygging að byggjast á einhverskonar mati. Þá sé ekki unnt að fallast á að skylda til að óska sérstaklega eftir mati frá Fasteignamati ríkisins, nú Þjóðskrá Íslands, sé skýr. Vera kunni að mistök hafi orðið til þess að húseignin hafi ekki verið tryggð lögboðinni brunatryggingu fyrr en árið 2004, eða tveimur árum eftir að hún hafi verið tekin í notkun, en þó sé ekki hægt að sjá að slík mistök hafi þýðingu í þessu samhengi.
Byggingarfulltrúi sveitarfélaga beri ábyrgð á því skv. 1. mgr. 19. laga nr. 6/2001 um mannvirki að upplýsingar berist um breytingar á mannvirkjum. Kærendur eigi ekki að bera hallann af því að byggingarfulltrúi hafi ekki uppfært skráningu byggingarstigs í kerfum Þjóðskrár fyrr en 17 árum eftir að hafinn hafi verið þar búskapur.
Þá vísi kærendur til viðbótar við ofangreinda úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála til úrskurðar nefndarinnar nr. 72/2009, en í honum segi: „Verður ekki á það fallist að umræddar fasteignir, sem reistar hafa verið fyrir árum og áratugum, verði talin nýreist hús í skilningi 35. gr. skipulags- og byggingarlaga er umdeild álagning fór fram. Engin eðlis- eða efnisrök leiða til þess að beitt verði svo rúmri lögskýringu við túlkun þess lagaákvæðis, sem umdeild álagning styðst við, þegar litið er til orðalags þess.“
Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta. Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 hluta verðs eldra húss. Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins, nú Þjóðskrá Íslands, hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.
Eins og háttað er reglum um álagningu skipulagsgjalds má við því búast að hún geti farið fram nokkru eftir að viðkomandi bygging hefur verið tekin í notkun og hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum fallist á að réttlætanlegt kunni að vera að leggja gjaldið á nokkru eftir að byggingu mannvirkis hafi lokið. Á hitt ber að líta að miðað er við að gjaldið sé lagt á nýreist hús og nýjar viðbyggingar. Verður ekki á það fallist að umrædd bygging, sem leggja verður til grundvallar að reist hafi verið fyrir um 18 árum, verði talin nýreist hús í skilningi 17. gr. skipulagslaga þegar umdeild álagning fór fram. Engin eðlis- eða efnisrök leiða til þess að beitt verði svo rúmri lögskýringu við túlkun þessa lagaákvæðis þegar litið er til orðalags þess.
Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að fella úr gildi hina kærðu álagningu skipulags-gjalds vegna umræddrar fasteignar kærenda.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds með gjalddaga 1. september 2019 að upphæð kr. 181.914 vegna húseignarinnar að Ólafsgeisla 121, Reykjavík.