Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

110/2021 Patreksfjörður og Tálknafjörður sjókvíaeldi

Árið 2021, miðvikudaginn 24. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2021, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 2. júní 2021 um að breyta starfsleyfi Arnarlax ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar heimild til notkunar koparnóta.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. júlí 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Náttúruverndarsamtök Íslands og Íslenski náttúruverndarsjóðurinn (IWF) þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 2. júní 2021 að breyta starfsleyfi Arnarlax ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar heimild til notkunar koparnóta. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var þess krafist að framkvæmdir á grundvelli ákvörðunarinnar yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni en því var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 22. júlí 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 9. júlí 2021.

Málavextir: Arnarlax ehf. hefur leyfi til reksturs sjókvíaeldis á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði en framleiðsla fyrirtækisins hefur sætt mati á umhverfisáhrifum skv. þágildandi lögum nr. 106/2000. Í starfsleyfi félagsins sem gefið var út 28. ágúst 2019 var kveðið á um að ekki væri heimilt að losa þau efni sem talin séu upp í listum I og II í viðauka reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, en á lista II er kopar m.a. talinn upp. Við reglubundið eftirlit Umhverfisstofnunar 14. nóvember 2018 gerði stofnunin athugasemd við að notaðar væru eldisnætur sem innihéldu koparoxíð. Hinn 3. maí 2019 samþykkti stofnunin úrbótaáætlun félagsins með skilyrðum vegna umrædds fráviks. Hinn 30. október 2020 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaða breytingu á starfsleyfi félagsins til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að félagið hygðist sækja um breytingu á starfsleyfi svo heimilt yrði að nota eldisnætur með ásætuvörn sem innihéldi koparoxíð. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 14. janúar 2021. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar og með úrskurði í máli nr. 16/2021, uppkveðnum 20. september 2021, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Skipulagsstofnun hefði séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hún tók hina kærðu matsskylduákvörðun, lagt tilhlýðilegt mat á efni málsins og rökstutt niðurstöðu sína með fullnægjandi hætti. Var ógildingarkröfu kærenda því hafnað.

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að breytingu á starfsleyfi leyfishafa 16. apríl 2021 með athugasemdafresti til og með 17. maí s.á. Í breytingartillögunni fólst að heimilt yrði að nota eldisnætur sem litaðar yrðu með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð. Hinn 2. júní s.á. breytti Umhverfistofnun umræddu starfsleyfi í samræmi við auglýsta tillögu.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir uppfylli skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ekki hafi verið lagður fullnægjandi grundvöllur að hinni kærðu ákvörðun Umhverfisstofnunar í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og þágildandi lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Þegar af þeirri ástæðu beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis á grundvelli laga nr. 7/1998 sé m.a. að starfsemin leiði ekki til umtalsverðrar mengunar, sbr. c-lið 38. gr. laganna. Þá beri Umhverfisstofnun við útgáfu leyfa á grundvelli laganna að líta til þess markmiðs þeirra að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felist í heilnæmu og ómenguðu umhverfi auk þess að koma í veg fyrir eða draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg og koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið, sbr. 1. gr. Af þessum lagagrundvelli hinnar kærðu ákvörðunar leiði að fullnægjandi upplýsingar um mengun af völdum hinnar starfsleyfisskyldu starfsemi þurfi að liggja fyrir Umhverfisstofnun við útgáfu leyfis til þess að fullnægt sé kröfum 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rannsókn máls. Vegna annmarka á matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar hafi ekki verið lagður fullnægjandi grundvöllur að hinni kærðu ákvörðun. Þá verði ekki séð að Umhverfisstofnun hafi eytt vafa um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar með frekari gagnaöflun af sinni hálfu. Beri einnig af þessari ástæðu að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Athugasemdir sem Umhverfisstofnun hafi borist við auglýsta tillögu að breyttu starfsleyfi hafi efnislega lotið að umhverfisáhrifum fyrirhugaðra breytinga. Til þessara athugasemda hafi engin rökstudd afstaða verið tekin í greinargerð hinnar kærðu ákvörðunar. Áhersla sé lögð á að matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar komi ekki í stað mats Umhverfisstofnunar á skilyrðum fyrir útgáfu starfsleyfis á grundvelli laga nr. 7/1998, þ.m.t. ákvæðum laganna sem miði að því að koma í veg fyrir eða draga úr mengun af völdum starfsleyfisskyldrar starfsemi. Hvað sem líði málsmeðferð Skipulagsstofnunar á grundvelli laga nr. 106/2000 beri Umhverfisstofnun sjálfstæða ábyrgð á því að framfylgja ákvæðum laga nr. 7/1998, þ.m.t. ákvæðum laganna sem miði að því að koma í veg fyrir eða draga úr mengun af völdum starfsleyfisskyldrar starfsemi. Að framangreindu leyti sé hin kærða ákvörðun ekki í samræmi við 7. gr. laga nr. 7/1998 og 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, sbr. einnig 22. gr. stjórnsýslulaga. Einnig að því leyti sé hin kærða ákvörðun haldin verulegum annmarka.

Efni hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki að geyma mörk eða viðmið um losun þess koparoxíðs í vatn sem efnislega sé heimiluð þar. Samkvæmt efni hinnar kærðu ákvörðunar sé þar heimiluð notkun eldisnóta sem litaðar séu með ásætuvörnum sem innihaldi koparoxíð. Þessi heimild sé ekki afmörkuð í leyfinu með öðrum hætti en eftirfarandi: „Heimildin er bundin skilyrði um vöktun kopars í umhverfinu skv. vöktunaráætlun. Bendi vöktunarmælingar til að kopar safnist upp á eldissvæðum er Umhverfisstofnun heimilt að endurskoða heimildina fyrir notkun ásætuvarna. Tekið skal mið af umhverfismörkum II vegna kopars í sjávarseti í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns við þá endurskoðun.“ Framangreind afmörkum leyfisins uppfylli ekki að efni til kröfu a- og h-liðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998. Í fyrsta lagi af þeirri ástæðu að hún hafi ekki að geyma neina tilgreiningu á mörkum í leyfinu sjálfu. Í öðru lagi af þeirri ástæðu að þau mörk sem vísað sé til í reglugerð nr. 796/1999 lúti ekki að losun koparoxíðs út í sjó heldur að uppsöfnuðum gildum þess í sjávarseti. Þótt mælingar á þessum gildum geti verið hluti af vöktun á umhverfisáhrifum starfseminnar þurfi skilyrði starfsleyfisins að lúta að því nánar tiltekið í hvaða styrk, mæli og tíma sé heimilt að nota koparoxíð í ásætuvarnir við framkvæmd hinnar starfsleyfisskyldu starfsemi. Hið kærða leyfi hafi samkvæmt framansögðu ekki að geyma slík skilyrði. Að þessu leyti sé efni leyfisins ekki í samræmi við fyrirmæli 9. gr. laga nr. 7/1998.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun telur að starfsleyfið, ásamt síðari breytingum, fullnægi kröfum sem gerðar séu í lögum og reglugerðum. Því sé ekki um annmarka að ræða sem geti orðið grundvöllur fyrir ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Bent sé á að þrátt fyrir að stofnunin hafi litið til matsskylduákvörðunar Skipulagsstofnunar sé ekki þar með sagt að Umhverfisstofnun hafi ekki rannsakað og lagt sjálfstætt mat á umrædda leyfisveitingu. Notkun á koparlituðum nótum sé ekki nýjung og nokkur reynsla sé komin af umhverfisáhrifum tengdum þeim hér á landi. Stofnunin hafi lagt sjálfstætt mat á starfsemina og litið m.a. til þess að rekstraraðili hafi haft heimild til notkunar koparlitaðra nóta á eldissvæði fyrirtækisins í Arnarfriði frá árinu 2012 og notast við nætur með koparoxíði þar síðan árið 2014. Mælingar á styrk kopars í botnseti á eldissvæðum rekstraraðila í Arnarfirði bendi ekki til merkjanlegrar uppsöfnunar við eldiskvíar miðað við viðmiðunarsýnatökustaði, eldri grunnsýnatökur á eldissvæðum og styrk kopars í setsýnakjörnum frá árinu 2014. Þess beri einnig að geta að leyfishafi hafi sinnt mælingum á kopar í botnseti við eldisstaðsetningar hins kærða starfsleyfis áður en nætur litaðar með koparoxíði hafi verið settar út í Patreksfirði. Mælingar við Eyri hafi verið framkvæmdar við grunnsýnatöku árið 2018, en einnig hafi verið mældur styrkur kopars í botnseti í hvíldarsýnatöku í Tálknafirði árið 2019. Mælingar á styrk kopars séu framkvæmdar við sniðsýnatöku við hámarkslífmassa og eftir hvíld svæða. Niðurstöður vöktunar á styrk kopars í Patreksfirði og Tálknafirði sé að finna í vöktunarskýrslum eldisstaðsetninganna við Eyri og Laugardal og ársskýrslum vegna vöktunar.

Hin umrædda heimild til að nota eldisnætur sem litaðar séu með ásætuvörnum sem innihaldi koparoxíð sé bundin skilyrði um vöktun kopars í umhverfinu samkvæmt vöktunaráætlun. Bendi vöktunarmælingar til þess að kopar safnist upp á eldissvæðum sé Umhverfisstofnun heimilt að endurskoða heimild fyrir notkun ásætuvarna. Tekið sé sérstaklega fram að rekstraraðili hafi ekki heimild til að lita nætur á eigin vegum en að mati sérfræðinga stofnunarinnar sé mesta mengunarhættan þegar nætur séu litaðar. Með mælingum á sjávarseti fáist góðar vísbendingar um losun kopars og hvort um sé að ræða uppsöfnun í umhverfinu. Mælingar á styrk kopars í strandsjó/vatnssúlu sé punktmæling í tíma og ekki endilega til þess fallin að meta losun yfir lengri tíma. Með þeim mælingum sem nú sé farið fram á fáist upplýsingar um það hvort kopar sé að safnast upp við eldissvæðin, sem yrði þá grundvöllur endurskoðunar starfsleyfisins.

Í a-lið 9. gr. laga nr. 7/1998 sé kveðið á um að í starfsleyfi skuli koma fram viðmiðunarmörk fyrir losun mengandi efna. Í umræddu starfsleyfi sé skýrt kveðið á um það að fylgja skuli viðmiðunarmörkum þeim er fram komi í fylgiskjali með reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, þ.e. umhverfismörk fyrir málma í sjávarseti hér við land. Miða skuli við „umhverfismörk II, en skv. umhverfismörkum II er þar átt við lág gildi, en 75% náttúrulegra gilda á styrk kopars í botnseti eru innan þessara marka eða lægri, byggt á niðurstöðum mælinga á sjávarseti hér við land.“ Komi fram mælingar sem sýni að kopar mælist umfram þau gildi sem talin séu upp í umhverfismörkum II hafi Umhverfisstofnun úrræði til þess að bregðast við. Í gr. 3.4 í umræddu starfsleyfi komi fram að bendi vöktunarmælingar til þess að kopar safnist upp á eldissvæðum sé stofnuninni heimilt að endurskoða heimild fyrir notkun ásætuvarnar. Í h-lið 9. gr. laga nr. 7/1998 sé kveðið á um skilyrði fyrir mati á samræmi við viðmunarmörk fyrir losun. Þessi grein sé leidd í lög til samræmis við tilskipun nr. 2010/75/ESB. Stofnunin geri kröfu um að vöktun samkvæmt vöktunaráætlun taki til kopars í botnseti og sé skýrt kveðið á um það að fylgja skuli þeim viðmiðunarmörkum er fram komi í fylgiskjali með reglugerð nr. 796/1999.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til þess að fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum samræmist öllum lögboðnum kröfum. Í kærumáli nr. 16/2021 hafi kröfu um ógildingu matsskylduákvörðunar Skipulagsstofnunar verið hafnað, m.a. með vísan til þess að málið hafi verið nægjanlegt upplýst þegar stofnunin hafi tekið ákvörðun sína. Einnig sé tekið undir með sjónarmiðum Umhverfisstofnunar, m.a. varðandi það að notkun koparlitaðra nóta sé ekki nýjung og að komin sé nokkur reynsla af umhverfisáhrifum þeim tengdum hér á landi. Jafnframt sé tekið undir sjónarmið stofnunarinnar varðandi það að rökstuðningur hennar hafi verið fullnægjandi rétt eins og efni hinnar kærðu ákvörðunar. Að lokum sé áréttað að jafnvel þótt hin kærða ákvörðun verði af einhverjum ástæðum talin annmörkum háð geti slíkir ágallar ekki leitt til þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. Vísist þar til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Horfa verði til þess að starfsemi leyfishafa, sem hin kærða ákvörðun lúti að, sæti nánu eftirliti Umhverfisstofnunar og hafi hún heimild til að grípa til aðgerða, t.d. ef mælingar eða ný gögn gefi tilefni til. Í öllu falli mæli veigamikil sjónarmið gegn því að leyfin verði felld úr gildi, s.s. rök um réttmætar væntingar á grundvelli ívilnandi ákvarðana um leyfisveitingar, skerðingu á atvinnuréttindum sem njóti verndar 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, og eyðileggingu verðmæta.

Leyfishafi sé ósammála áliti Skipulagsstofnunar um að áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar séu áætlanir sem heyri undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Jafnframt að nefnd lög og leiðbeinandi álit Skipulagsstofnunar taki ekki til fyrirliggjandi kærumáls þar sem starfsleyfi hafi verið breytt í gildistíð laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Í ljósi þess og að ekki sé heimilt samkvæmt lögunum að kæra málsmeðferð um umhverfismat áætlana til úrskurðarnefndarinnar bresti nefndina vald til að taka bindandi afstöðu til þess hvort áðurnefndar áætlanir Hafrannsóknastofnunar séu háðar umhverfismati áætlana.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur taka fram að áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat séu áætlanir sem tvímælalaust séu háðar umhverfismati áætlana samkvæmt lögum nr. 105/2006, sbr. nú lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Skortur á slíku umhverfismati áætlana feli um leið í sér skort á fullnægjandi undirbúningi þeirra leyfa sem síðar séu veitt á framangreindum lagagrundvelli. Sá annmarki leiði til þeirrar niðurstöðu til að fella verði slík leyfi úr gildi.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Umhverfisstofnunar 2. júní 2021 um að breyta starfsleyfi Arnarlax ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar heimild til notkunar koparnóta. Var hin kærða ákvörðun tekin á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 65. gr. laganna er að finna kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru er vísað til laga um úrskurðarnefndina.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. þegar um er að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, sem og ákvarðanir sveitarstjórna um matsskyldu framkvæmda, sbr. þágildandi a-lið ákvæðisins, og ákvarðanir um að veita leyfi til framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. þágildandi b-lið. Vísa kærendur einkum til fyrrnefnds a-liðar ákvæðisins varðandi aðild sína í kærumáli þessu.

Umhverfisstofnun veitti Fjarðalax ehf. starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði hinn 13. desember 2017 að undangenginni málsmeðferð þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Fékk sú leyfisveiting og málsmeðferð efnislega umfjöllun í úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 6/2018 þar sem leyfisveitingin var talin slíkum annmörkum háð að varðaði ógildingu leyfisins. Áttu tveir kærenda aðild að því máli. Í kjölfarið veitti umhverfis- og auðlindaráðuneytið þáverandi leyfishafa undanþágu frá starfsleyfi hinn 5. júní 2018 og 20. nóvember s.á., sbr. 4. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Að undangengnu áliti Skipulagsstofnunar 16. maí 2019 um mat á umhverfisáhrifum vegna valkosta, sbr. 11. gr. þágildandi laga nr. 106/2000, gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi að nýju til þáverandi leyfishafa 28. ágúst s.á. Var sú ákvörðun ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar. Starfsleyfið var svo framselt 25. ágúst 2020 til leyfishafa í máli þessu. Mat á umhverfisáhrifum hinnar upphaflegu framkvæmdar hefur því farið fram. Þá var, svo sem greinir í málavöxtum, starfsleyfinu breytt í kjölfar matsskylduákvörðunar Skipulagsstofnunar og synjaði úrskurðarnefndin kröfu sömu kærenda og hér um ræðir um ógildingu þeirrar ákvörðunar. Nutu kærendur aðildar í því máli á grundvelli þágildandi a-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Í þessu máli er varðar breytingu, sem ekki var talin matsskyld, á starfsleyfi vegna framkvæmdar sem sætt hefur mati á umhverfisáhrifum, á nefndur stafliður hins vegar ekki við. Er enda ekki um að ræða neinar þær ákvarðanir eða tilvik sem stafliðurinn tilgreinir.

Samkvæmt þágildandi b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 teljast umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af ákvörðunum um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þegar frumvarp til laga nr. 130/2011 var til umfjöllunar á Alþingi var orðalagi nefnds b-liðar breytt, án þess þó að um efnisbreytingu væri að ræða. Um nefndan staflið segir í athugasemdum með frumvarpi til laganna að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Það sé því eðlilegt að kæruaðild vegna ákvarðana sem tilgreindar séu í a- og b-lið haldist í hendur. Undir b-lið falli leyfi vegna framkvæmda sem séu matsskyldar skv. III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum. Þessi liður nái til þeirra ákvarðana sem vísað sé til í a- og b-lið 1. tölul. 6. gr. Árósasamningsins.

Í máli þessu er ekki um að ræða ákvörðun sem veitir leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum heldur ákvörðun um breytingu á leyfi í kjölfar matsskylduákvörðunar. Sú ákvörðun laut að breytingu á tiltekinni framkvæmd sem háð var mati á umhverfisáhrifum í öndverðu og leyfi var veitt fyrir í tvígang. Sætti fyrra leyfið lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar, eins og áður hefur komið fram, en það seinna sætti ekki kæru. Er hvorki hægt að líta fram hjá þessum atvikum málsins né orðalagi þágildandi b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en eins og ákvæðið er úr garði gert og að virtum lögskýringargögnum þeim sem áður er vísað til verður að telja að girt sé fyrir að kærendur njóti kæruaðildar samkvæmt því ákvæði. Þá fær úrskurðarnefndin heldur ekki séð að skilyrði annarra þágildandi stafliða nefndar 3. mgr. 4. gr. séu uppfyllt í þessu máli.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni. Er enda engan lagagrundvöll að finna fyrir kæruaðild kærenda í lögum nr. 130/2011 eins og atvikum máls þessa er háttað.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.