Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

110/2014 Hringbraut

Árið 2016, miðvikudaginn 1. júní 2016, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 110/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. október 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir S, Víðimel 58, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. september 2014 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Hringbraut 79. Gerir kærandi þá kröfu að samþykki fyrir breytingum á innra skipulagi hússins “ í þeim tilgangi að breyta því úr venjulegu íbúðarhúsnæði í gistihús, verði felld úr gildi.”

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. desember 2014.

Málsatvik og rök:  Hinn 13. maí 2014 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til að hækka þak og byggja kvisti, grafa frá kjallara og innrétta tvær íbúðir í húsi á lóð nr. 79 við Hringbraut. Við breytingarnar stækkaði húsið um 31 fermetra. Var málinu vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. Skipulagsfulltrúi samþykkti á fundi sínum 16. s.m. að grenndarkynna erindið og bárust athugasemdir frá nágrönnum, þar á meðal kæranda. Skipulagsfulltrúi tók erindið fyrir að lokinni grenndarkynningu 8. ágúst 2014 og vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs. Málið var á dagskrá ráðsins 13. s.m. sem gerði ekki athugasemdir við erindið með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 6. ágúst 2014. Var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa sem samþykkti umsótt byggingarleyfi hinn 16. september 2014 og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 18. s.m. Byggingarleyfi var síðan gefið út 17. október 2014.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að með heimiluðum breytingum á húsinu við Hringbraut 79, sem tilheyri grónu íbúðarhverfi, sé  farið á svig við gildandi lög og reglugerðir um íbúðarhúsnæði og skipulag íbúðarhverfa í þeim tilgangi að breyta húsinu í  hótel eða gistiheimili. Samþykktar teikningar beri með sér að ekki sé gert ráð fyrir að búið verði í húsinu, sem eftir breytingar uppfylli ekki kröfur um íbúðarhúsnæði þar sem á teikningum sé ekki að finna annað eldhús en eldhúskrók í kjallara hússins. Hins vegar sé gert ráð fyrir sjö baðherbergjum. Þurfi ekki að velkjast í vafa um tilgang breytinganna og fráleitt að halda því fram að hið kærða leyfi feli í sér að breyta húsinu úr þriggja í tveggja íbúða hús. Þar sem ekki verði búið í húsinu verður ekki rekin þar heimagisting sem háð sé öðrum skilyrðum en gistiheimili og hótel. Með byggingarleyfinu sé farið á svig við lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og gengið gróflega á rétt kæranda sem næsta nágranna. Húsið að Hringbraut 79 standi á horni þar sem fjöldi gangandi og hjólandi skólabarna fari um og með nýjum inngangi hússins að Hofsvallagötu sé verið að fórna öryggi á gangstéttinni og á nýrri hjólreiðabraut. Þurft hefði að leita umsagnar Hofsvallagötunefndar og Melaskóla um þá ákvörðun. Aukin ásókn ferðamanna hafi verið í leiguherbergi í íbúðarhverfum með tilheyrandi röskun og verðfalli fasteigna nágranna vegna hávaða og mengunar frá umferð þegar rútur sækji fólk og farangur á öllum tímum sólarhrings. Framganga borgaryfirvalda í máli þessu sýni að ekki sé staðið vörð um hagsmuni íbúa þegar atvinnustarfsemi eins og útleiga herbergja hafi forgang fram yfir umferðaröryggi og heimili húseigenda á staðnum. Með sömu þróun muni rútur og fjallajeppar leggja undir sig götur íbúðarhverfa í eldri hluta borgarinnar. Hér séu undir hagsmunir allra íbúa í hverfinu og borgarbúa í heild.

Borgaryfirvöld benda á að með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið fallist á að innrétta tvær íbúðir í stað þriggja í húsinu að Hringbraut 79 en ekki hafi verið samþykkt gistiheimili í umræddu húsi. Í byggingarreglugerð sé fjölda eldhúsa eða salerna ekki takmörk sett og uppfylli samþykktir uppdrættir ákvæði reglugerðarinnar um íbúðir. Í 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 sé heimagisting skilgreind svo að um sé að ræða gistingu á heimili leigusala og sé þar átt við einkaheimili eða lögheimili leigusala. Túlka verði nefnt lagaákvæði á þann veg að það sé skilyrði að eigandi búi í hinu leigða húsnæði ásamt þeim er greiði endurgjald fyrir gistinguna. Leiga á séreign sem leigusali búi ekki í, þó í sama húsi sé, falli ekki undir hugtakið heimagisting í lögunum heldur sé þá um útleigu á íbúð að ræða.    Ekki sé áskilið  leyfi skipulagsyfirvalda fyrir heimagistingu. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að með umræddum breytingum aukist slysahætta vegna innkeyrslu að bílskúrum frá Hofsvallagötu enda engin breyting þar á frá áður samþykktum teikningum. 

Niðurstaða: Upplýst er að eftir veitingu hins kærða byggingarleyfis var tekin fyrir umsókn á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 24. febrúar 2015 um byggingarleyfi samkvæmt nýjum uppdráttum að breytingum á húsinu að Hringbraut 79.  Var sú umsókn samþykkt á þeim fundi með áritun byggingarfulltrúa á aðaluppdrætti. Sú afgreiðsla var staðfest í borgarráði hinn 26. s.m. Hið nýja byggingarleyfi er í stórum dráttum sama efnis og hið kærða byggingarleyfi en heimilaðar voru breytingar á innra fyrirkomulagi húss og ytra útliti þess frá því sem ráð var fyrir gert í hinu fyrra leyfi.  Liggur því fyrir að samþykkt hefur verið nýtt byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Hringbraut 79 en sú byggingarleyfisákvörðun hefur ekki verið borin undir úrskurðarnefndina.

Hefur hin kærða ákvörðun af framangreindum ástæðum ekki réttarverkan að lögum eftir gildistöku hinnar yngri ákvörðunar og á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Hvað sem lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar líður, stæði hið nýja byggingarleyfi óhaggað allt að einu. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með hliðsjón af 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________________
Ómar Stefánsson