Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

11/2024 Gauksstaðir

Árið 2024, föstudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Suðurnesjabæjar frá 23. janúar 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna endurbyggingar matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi er barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 26. janúar 2024, kærir eigandi, Gauksstaðavegi 6, Suðurnesjabæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Suðurnesjabæjar frá 4. janúar 2024 að samþykkja byggingaráform vegna endurbyggingar matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum, Suðurnesjabæ. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Suðurnesjabæ 30. janúar 2024.

Málavextir: Á fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar 20. júlí 2023 var tekin fyrir fyrirspurn vegna endurbyggingar á matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum. Fjallaði fyrirspurnin um breytingu á geymslu í íbúð og færslu matshlutans á nýjan stað innan lóðarinnar. Erindinu var synjað þar sem ekki var talið að um lítilsháttar breytingu væri að ræða, en þá var gert ráð fyrir að hæð byggingarinnar yrði tæpir sex metrar. Á fundi ráðsins 20. september s.á. var fyrirspurnin tekin fyrir að nýju á grundvelli nýrra gagna, en þá hafði fyrirhuguð hæð byggingarinnar verið lækkuð um rúmlega einn metra. Var erindið samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með bréfi, dags. 25. september 2023, var erindið grenndarkynnt og bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Var frekari íbúðauppbyggingu við Gauksstaðaveg mótmælt þar sem vegurinn myndi ekki bera aukna umferð með tilheyrandi ónæði fyrir nágranna.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi framkvæmda- og skipulagsráðs 25. október 2023 vegna framkominna athugasemda. Bókað var að einhver umferðaraukning yrði til og frá Gauksstöðum, en að ekki væri hægt að slá því föstu að umferðarþungi yrði umfram það sem eðlilegt gæti talist. Taldi ráðið að athugasemdirnar gæfu ekki tilefni til synjunar á fyrirspurninni, erindið samræmdist aðalskipulagi og væri því samþykkt. Þeirri ákvörðun var skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 29. desember 2023 í máli nr. 134/2023, var kærumálinu vísað frá nefndinni þar sem ákvörðun framkvæmda- og skipulagsráðs var talin liður í málsmeðferð, en ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var af hálfu nefndarinnar leiðbeint um að ef byggingarfulltrúi myndi ljúka málinu með því að samþykkja umdeild byggingaráform væri sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Með bréfi, dags. 4. janúar 2024, til eiganda Gauksstaða tilkynnti byggingarfulltrúi Suðurnesjabæjar um framangreinda afgreiðslu framkvæmda- og skipulagsráðs frá 25. október 2023 og tók fram að í henni fælist samþykkt byggingaráforma í samræmi við 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Byggingarfulltrúi áritaði aðaluppdrætti byggingaráformanna til samþykktar hinn 23. janúar 2024.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að í grenndarkynningu hafi tvær athugasemdir verið sendar inn þar sem fjölgun íbúða við Gauksstaði hafi verið mótmælt vegna aukinnar umferðar og ónæðis á öllum tímum sólarhringsins sem fylgi heimagistingu og íbúðum til útleigu í tengslum við ferðaþjónustu. Umferðaraukningin og ónæðið sem muni fylgja byggingunni sé mun meira en eðlilegt geti talist á viðkomandi svæði sem sé utan þéttbýliskjarna Suðurnesjabæjar. Gauksstaðavegur sé einbreiður, malbikaður og gamall sveitavegur þar sem finna megi sex hús. Í verkefnalýsingu vegna breytinga á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Garðs 2013–2030, dags. 15. september 2022, er varði breytingu í landi Gauksstaða, komi fram að áætluð starfsemi geti dregið til sín um 5–7.000 ferðamenn árlega. Ljóst sé að um umtalsverða umferðaraukningu sé að ræða um fáfarinn veg sem muni valda töluverðu ónæði fyrir íbúa, en ekki liggi annar vegur að Gauksstöðum. Þá sé gerð athugasemd við að framkvæmdir hafi hafist án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út.

Málsrök Suðurnesjabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að ef synja beri erindi sem berist sveitarfélaginu þurfi óyggjandi heimildir að liggja til grundvallar slíkri ákvörðun auk þess sem ávallt skuli gæta meðalhófs. Í kæru sé ekki greint frá tölulegum staðreyndum eða öðrum haldbærum rökum sem hægt væri að styðjast við til að meta hvort um óeðlilega aukningu umferðar verði að ræða vegna fyrirhugaðrar endurbyggingar á matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum. Ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag fyrir svæðið og því hafi verið stuðst við gildandi aðalskipulag, en þar sé umrædd lóð á skilgreindu svæði fyrir íbúðarhúsabyggð, ÍB-16. Alls séu skráðar fimm íbúðir eða lóðir á Gauksstaðavegi sem allar séu skráðar sem einbýlishús. Gauksstaðir séu við norðurenda Gauksstaðavegar í botnlanga. Þar séu skráðir fjórir matshlutar. Matshluti 01 sé skráður sem íbúðarhús á tveimur hæðum með tveimur íbúðum og matshluti 02 sé skráður sem bílgeymsla. Heimild sé fyrir því að breyta matshluta 02 í íbúð og standi þær framkvæmdir nú yfir. Matshluti 03 sé skráður sem geymsla og sé nú fyrirhugað að endurbyggja hann sem íbúð. Þá sé matshluti 04 skráður sem parhús, þ.e. tvær íbúðir. Samtals séu því fimm íbúðir á Gauksstöðum, en þær séu sex ef matshluti 03 sé talinn með. Á umræddu svæði, þ.e. á Gauksstöðum og við Gaukstaðaveg, sé því í raun um að ræða fjölgun íbúða úr 11 í 12. Með hliðsjón af þeirri fjölgun íbúða hafi skipulagsyfirvöld metið það svo að ekki væri hægt að fallast á þau sjónarmið kæranda að umferðamagn og ónæði verði meira en eðlilegt geti talist í þéttbýli. Ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út enda hafi ekki öllum nauðsynlegum gögnum verið skilað inn, sbr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Farið hafi verið á fyrirhugaðan byggingarstað og ekki hafi verið hægt að merkja neinar framkvæmdir í tengslum við matshluta 03. Hin kærða ákvörðun hafi verið byggð á rökum og sanngirnissjónarmiðum og við töku hennar hafi skipulagslögum nr. 123/2010 og mannvirkjalögum verið fylgt í einu og öllu.

Málsrök eiganda lóðarinnar Gauksstaða: Vísað er til þess að samkvæmt Aðalskipulagi Suðurnesjabæjar 2022–2034 séu Gauksstaðir innan þéttbýliskjarna Suðurnesjabæjar. Við Gauksstaðaveg séu nú skráðar 10 íbúðir og muni þeim fjölga um eina með þeirri íbúð sem um sé deilt í máli þessu. Séu þá ótaldar óskráðar íbúðir í fasteign kæranda. Í ljósi þess að kærandi hafi árið 2005 farið í samskonar framkvæmdir á sinni eign sé sérstakt að hann mótmæli byggingaráformunum. Bendi allt til þess að bílskúr kæranda sem hann hafi endurbyggt sé í dag nýttur sem íbúð. Sú verkefnalýsing sem kærandi vísi til sé ótengd máli þessu og snúi að annarri eign með annað fastanúmer. Ljóst sé að ekki sé hægt að koma 5–7.000 ferðamönnum á ári fyrir í þeirri tæplega 92 m2 íbúð sem um sé deilt í máli þessu. Eigandi lóðarinnar hafi haft samband við verkfræðistofu varðandi umferðargreiningu á Gauksstaðavegi vegna endurbyggingar hússins og hafi sérfræðingar hennar talið enga þörf á slíkri greiningu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykki byggingaráforma fyrir endurbyggingu  matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum, en um er að ræða 91,6 m2 einbýlishús á einni hæð. Með bréfi byggingarfulltrúa Suðurnesjabæjar, dags. 4. janúar 2024, var eiganda lóðarinnar tilkynnt að framkvæmda- og skipulagsráð hefði samþykkt byggingaráformin 25. október 2023 í samræmi við 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Fyrir liggur að hinn 23. janúar 2024 áritaði byggingarfulltrúi aðaluppdrætti fyrirhugaðs mannvirkis til samþykktar og verður því litið svo á að það sé hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Verður að túlka þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem við mat á því hvort lögvarðir hagsmunir séu fyrir hendi beri að líta til þess hvort hlutaðeigandi eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.

Kærandi er eigandi fasteignarinnar að Gauksstaðavegi 6, en hús hans er í u.þ.b. 130 m fjarlægð frá þeim stað þar sem fyrirhugað endurbygging er áætluð. Verður ekki séð að mannvirkið snerti grenndarhagsmuni kæranda. Aftur á móti hefur kærandi fært fram þau sjónarmið að umferðaraukning og ónæði sem fylgi byggingunni verði meiri en eðlilegt geti talist á viðkomandi svæði. Á það verður ekki fallist enda er umrætt svæði innan þéttbýlismarka samkvæmt Aðalskipulagi Suðurnesjabæjar 2022–2034 auk þess sem Gauksstaðavegur telst sveitarfélagsvegur skv. 9. gr. vegalaga nr. 80/2007 og því ætlaður almenningi til frjálsrar umferðar. Þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir einhverri aukningu á umferð verður þó að telja þau áhrif óveruleg enda einungis um að ræða fjölgun um eina íbúð.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi ekki skilyrði kæruaðildar samkvæmt fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.