Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

11/2021 Lindarbraut

Árið 2021, þriðjudaginn 18. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar í Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverk-fræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2021, kæra á ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 11. desember 2020 um að leggja á skipulagsgjald vegna fasteignarinnar að Lindarbraut 13, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 22. janúar 2021, kæra eigendur Lindarbrautar 13, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 11. desember 2020 að leggja skipulagsgjald á fasteignina Lindarbraut 13. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Þjóðskrá Íslands 26. febrúar 2021.

Málavextir: Þjóðskrá Íslands fékk tilkynningu frá byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar hinn 23. september 2020 um að Lindarbraut 13 væri skráð á byggingarstigi 7 skv. lokaúttekt sem fram hefði farið í nóvember 2007. Þjóðskrá Íslands sendi öðrum kæranda sama dag bréf þar sem fram kom að öllum húseigendum væri skylt að brunatryggja húseignir sínar og ef ekkert svar bærist innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins myndi Þjóðskrá reikna brunabótamat húss kærenda án skoðunar á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga. Þá yrði skipulagsgjald, 0,3% af brunabótamatsfjárhæð, innheimt af embætti tollstjóra í samræmi við 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsgjald var síðan lagt á kærendur 11. desember 2020.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að húsið Þórshamar hafi staðið á lóðinni Lindarbraut 13 frá árinu 1947 og komi það m.a. fram á örnefnakorti af Seltjarnarnesi. Það hús hafi verið rifið 2005 og nýtt hús byggt í þess stað. Fyrstu stimpluðu teikningar að nýja húsinu séu frá árinu 2005 og öll gjöld hafi þá verið greidd, þ.m.t. viðbótar­gatna­gerðar­gjald. Fasteignagjöld hafi verið greidd til Seltjarnarnesbæjar frá a.m.k. árinu 2007.

Málsrök Þjóðskrár Íslands: Samkvæmt 1. gr. laga um brunatryggingar nr. 48/1994 sé hús­eiganda skylt að brunatryggja allar húseignir. Húseign skuli metin brunabótamati ekki síðar en fjórum vikum eftir að byggingu hennar lauk eða eftir að hún hafi verið tekin í notkun og beri eigandi ábyrgð á að óska eftir brunabótamati. Samkvæmt 2. gr. sömu laga annist Þjóðskrá Íslands virðingu húseignar samkvæmt matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar og sé heiti þeirrar gerðar brunabótamat. Markmið brunabótamatsins sé að finna vátryggingarverðmæti húseignarinnar á þeim tíma sem virðing hafi farið fram. Skuli matið taka til þeirra efnislegu verðmæta húseignarinnar sem eyðilagst geti af eldi og miðist við byggingarkostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti. Nánar sé kveðið á um tilhögun brunabótamats í reglugerð um lögboðna brunatryggingu nr. 809/2000 og vísist til hennar.

Álagning skipulagsgjalds fari fram á grundvelli brunabótamats skv. 2. mgr. 17. gr. skipulags­laga nr. 123/2010 þar sem segi að greiða skuli skipulagsgjald af nýbyggingum í eitt skipti sem nemi 0,3% af brunabótamati hverrar húseignar. Nýbygging teljist hvert nýreist hús sem virt sé til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldra hús, ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemi a.m.k. 1/5 verðs eldra hússins. Umrætt skipulagsgjald verði fyrst lagt á þegar brunabóta­mat liggi fyrir.

Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar um lögboðna brunatryggingu húseigna segi að húseigandi skuli óska eftir brunabótamati eigi síðar en fjórum vikum eftir að nýtt hús sé tekið í notkun og ef húseign uppfylli ekki vátryggingarskyldu þá skuli byggingarfulltrúi synja um lokaúttekt. Byggingarfulltrúi sveitarfélags hafi eftirlit með mannvirkjagerð og beri ábyrgð á því að Þjóðskrá Íslands berist upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim svo og um öll mannvirki, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001. Í kerfum Þjóðskrár Íslands hafi byggingarstig eignar kærenda ekki verið uppfært af byggingarfulltrúa í stig 7 (fullgerð) fyrr en 23. september 2020. Þegar stofnuninni hafi borist fyrrgreind tilkynning frá byggingarfulltrúa hafi áskorun um brunabótamat verið send samdægurs til eigenda.

Samkvæmt 6. gr. reglugerðar um skipulagsgjald nr. 737/1997 skuli Fasteignamat ríkisins (Þjóðskrá Íslands) tilkynna innheimtumanni fjárhæð brunabótavirðingar húseignar, eða stofn­verðs þar sem það eigi við, þegar virðing hafi farið fram eða tilkynnt hafi verið um stofnverð og veita honum þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu vegna innheimtu gjaldsins. Samkvæmt 4. gr. falli skipulagsgjald í gjalddaga þegar brunabótavirðing hafi farið fram eða stofnverð tilkynnt og Fasteignamat ríkisins (Þjóðskrá Íslands) hafi tilkynnt innheimtumanni ríkissjóðs þær fjárhæðir. Sé þetta m.a. staðfest í álitsgerð lögmanns, dags. 12. febrúar 1996, sem Fasteignamat ríkisins hafi falast eftir vegna skipulagsgjalda. Þar segi orðrétt: „Um byggingar sem aldrei hafa verið metnar brunabótavirðingu, en hafa þó staðið um nokkurn tíma, ætti samkvæmt því að gilda sú regla að skipulagsgjald sé á fallið en ekki fallið í gjalddaga fyrr en brunabótavirðingin fer fram. Því ber að heimta skipulagsgjald af þeim byggingum þegar þær eru fyrst metnar til brunabóta.“

Þá segi einnig að „hafi brunabótavirðing byggingar aldrei farið fram hefur skipulagsgjaldið aldrei fallið í gjalddaga og krafa til þess er því ófyrnd án tillits til þess hversu langt er síðan viðkomandi bygging var reist.“ Skipulagsgjald byggingar kærenda hafi því ekki fallið í gjalddaga fyrr en við brunabótavirðingu hinn 11. desember 2020.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berist að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Hin umdeilda ákvörðun var tekin 11. desember 2020 en kæra barst nefndinn 22. janúar 2021. Í ljósi þess að engar leiðbeiningar fylgdu með hinni kærðu ákvörðun um kæruleið og kærufrest í samræmi við 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga verður að teljast afsakanlegt að kæra þessi hafi borist nefndinni að liðnum kærufresti og verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal greiða skipulagsgjald af ný­byggingum sem virtar eru til brunabóta. Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 hluta verðs eldra húss. Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins, nú Þjóðskrá Íslands, hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands var umrætt hús að Lindarbraut 13 skráð á byggingarstigi 6 hinn 30. maí 2008 og mun húsið þá þegar hafa verið tekið í notkun. Í  gr. 3.9 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 440/1998 var tekið fram að um byggingarstig færi eftir ákvæðum ÍST 51, en þar er byggingarstig 6 skilgreint sem fullgerð bygging án lóðarfrágangs. Var því á þeim tíma unnt að meta húsið til brunabóta, en skipulagsgjald er 0,3% af brunabótamati húss skv. 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga.

Eins og háttað er reglum um álagningu skipulagsgjalds má við því búast að hún geti farið fram nokkru eftir að viðkomandi bygging hefur verið tekin í notkun og hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum fallist á að réttlætanlegt kunni að vera að leggja gjaldið á nokkru eftir að byggingu mannvirkis hafi lokið. Á hitt ber að líta að miðað er við að gjaldið sé lagt á nýreist hús og nýjar viðbyggingar við eldri hús samkvæmt 17. gr. skipulagslaga. Verður ekki á það fallist að umrædd bygging, sem leggja verður til grundvallar að hafi verið fullgerð ekki síðar en árið 2008, þ.e. fyrir um 13 árum, verði talin „nýreist hús“ í skilningi 17. gr. skipulagslaga þegar umdeild álagning fór fram. Engin rök leiða til þess að beitt verði svo rúmri lögskýringu við túlkun hugtaksins „nýreist hús“ í nefndu laga­ákvæði að hús sem skráð hafi verið fullgert af byggingarfulltrúa árið 2008 geti rúmast innan hugtaksins.

Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að fella úr gildi hina kærðu álagningu skipulags­gjalds vegna umræddrar fasteignar kærenda.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi hin kærða álagning skipulagsgjalds vegna húseignarinnar að Lindarbraut 13, Seltjarnarnesi.