Mál nr. 11/2008.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.
Ár 2009, fimmtudaginn 11. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.
Fyrir var tekið mál nr. 11/2008. Erling Ellingsen, hér eftir nefndur kærandi, gegn Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, hér eftir nefnt kærði. Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
I. Aðild kærumáls og kröfur
Með stjórnsýslukæru, dags. 08.10.2008 kærði Erling Ellingsen umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, frá 10 apríl 2008 þar sem fram kemur að teknu tilliti til barna væri húsnæðið að Dalbraut 4, Laugarvatni óíbúðarhæft.
Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:
1. Stjórnsýslukæra dags. 08.10.2008 ásamt fylgiskjölum.
2. Athugasemdir kærða dags. 06.11.2008 ásamt fylgiskjölum.
3. Athugasemdir kæranda dags. 16.01.2009 ásamt fylgiskjölum.
Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.
II. Málsmeðferð
Kæran barst úrskurðarnefndinni 08.10.2008. Þegar umsögn barst frá kærða var hún send til kæranda og honum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust 16.01.2009.
Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna anna.
III. Málsatvik
Að beiðni leigjanda í fasteigninni að Dalbraut 4, Bláskógarbyggð skoðaði Heilbrigðiseftirlit Suðurlands húsnæðið. Ástæða þess var að leigjandi taldi húsnæðið hugsanlega heilsuspillandi, en nýfædd dóttir hans hafði verið veik.
Heilbrigðiseftirlitið skoðaði húsnæðið 9. apríl og veitti leigjanda umsögn dagsetta 10. apríl 2008. Í umsögninni kemur fram að viðhaldi húsnæðisins sé verulega ábótavant. Greinileg merki séu um raka í íbúð og þarfnist húsið gagngerra endurbóta. Að teknu tilliti til barna sé húsnæðið óíbúðarhæft.
Með bréfi dags. 08.10.2008 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar.
Kærða var með bréfi dags. 28.10.2008 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 06.11.2008.
Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 16.12.2008.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi gerir þá kröfu að úttektin verði úrskurðuð ógild í heild sinni, þar sem hún byggi ekki á réttum forsendum. Meðal annars sé því haldið fram að húsnæðið sé minna en það í raun er, lofthæð sé minni, einfalt gler sé í gluggum auk fleiri atriða sem ekki standist.
Kærandi telur að í bréfi kærða dagsettu 10. apríl 2008 felist stjórnsýsluákvörðun. Í bréfinu segi: „að teknu tilliti til barna er húsnæðið óíbúðarhæft“. Kærandi telur að með þessu sé í raun verið að segja að óheimilt sé að leigja húsnæðið út og /eða búa þar með börn. Þá bendir hann á að málið hafi verið tekið til umfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni og felist í því staðfesting á að málið sé kæruhæft.
Kærandi hefur fært frekari rök fyrir kærunni. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga er ekki ástæða til að gera frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
V. Málsástæður og rök kærða
Kærði tekur fram að umrætt mál sé ekki kæra heldur umsögn. Í bréfi kærða hafi því hvorki verið veittur andmælaréttur né upplýst um kæruleiðir samkvæmt stjórnsýslulögum. Í umsögninni komi fram mat heilbrigðiseftirlitsins á ástandi húsnæðisins en ekki ákvörðun um bann á afnotum þess. Í umsögninni komi fram atriði sem hægt er að bæta/laga þannig að koma íbúðinni í betra ástand.
Kærði hefur fært frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum og hefur úrskurðarnefnd haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.
VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar
Í 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna.
Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt. Ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.
Um stjórnvaldsákvörðun er samkvæmt því að ræða þegar starfsmaður eða starfsmenn heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga kveða einhliða á um rétt og/eða skyldur tiltekins aðila í ákveðnu máli.
Í bréfi kærða dags. 10. apríl 2008 kemur skýrlega fram að um sé að ræða umsögn sem látin sé í té að undangenginni álitsumleitan. Umsögn sem þessi er ekki stjórnvaldsákvörðun að mati úrskurðanefndar. Í bréfinu er ekki lagt bann við notkun húsnæðisins heldur kemur einungis fram það álit að húsnæðið sé óíbúðarhæft með tilliti til barna, miðað við þær forsendur sem taldar eru upp í bréfinu.
Í samræmi við stjórnsýslulög var málið sent til umsagnar til málsaðila. Í því fólst engin afstaða til kæruefnisins.
Að mati úrskurðarnefndar verður krafa kæranda um að úttekt á húsnæðinu að Dalbraut 4, Bláskógarbyggð verði úrskurðuð ógild í heild sinni ekki kærð til úrskurðarnefndar og verður af þeim sökum að vísa kæru hans frá nefndinni.
Kæru Erling Ellingsen er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kæru Erling Ellingsen er vísað frá úrskurðarnefndinni .
Steinunn Guðbjartsdóttir
Gunnar Eydal Guðrún Helga Brynleifsdóttir
Date: 6/26/09