Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

11/1999 Langagerði

Ár 1999, miðvikudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 11/1999; kæra B og G, Langagerði 80, Reykjavík, á ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 25. febrúar 1999, þar sem staðfest er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að hafna afskiptum embættis byggingarfulltrúa af trjágróðri á lóðamörkum Langagerðis 78 og 80.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. mars 1999, sem barst nefndinni sama dag, kæra B og G, Langagerði 80, Reykjavík, ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 25. febrúar 1999, þar sem staðfest er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að hafna afskiptum embættis byggingarfulltrúa af trjágróðri á lóðamörkum Langagerðis 78 og 80.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarstjórn 4. mars 1999.  Skilja verður erindi kærenda sem kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Þann 7. september 1998 rituðu kærendur bréf til byggingarfulltrúans í Reykjavík, þar sem farið var fram á að fjögur reynitré, sem standa á lóðamörkum Langagerðis 78 og 80, yrðu fjarlægð, þar sem þau yllu kærendum talsverðum óþægindum.  Kváðu kærendur trén slúta yfir innkeyrslu að bílskúr þeirra, auk þess sem þau skyggðu á þá glugga í húsi þeirra sem að þeim sneru, þannig að dagsbirta næði ekki inn í þau herbergi, nema í takmörkuðum mæli.  Samkvæmt bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 26. október 1998, fór hann og skoðaði aðstæður og taldi þær ekki gefa tilefni til afskipta af hálfu embættis síns.  Kærendur vildu ekki una þessari niðurstöðu og rituðu bréf til umhverfisráðuneytisins, dags. 14. desember 1998, og óskuðu liðsinnis þess í málinu.  Í svari ráðuneytisins, dags. 14. janúar 1999, var kærendum bent á að vísa ákvörðun byggingarfulltrúa til byggingarnefndar og að þeim væri heimilt að kæra ákvörðun byggingarnefndar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sættu þau sig ekki við hana.  Með bréfi, dags. 4. febrúar  1999, til byggingarnefndar Reykjavíkur óskuðu kærendur þess að nefndin tæki málið til endurskoðunar og sjálfstæðrar umfjöllunar.  Vísuðu kærendur til greinar 8.6. í byggingarreglugerð nr. 441/1998 til stuðnings því málskoti.  Byggingarnefnd hafnaði erindi kærenda á fundi sínum hinn 25. febrúar 1999 og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Í máli þessu er m.a. á því byggt að umrædd tré skerði birtu og slúti inn yfir bílastæði á lóð kærenda.  Með hliðsjón af þessum málsástæðum ákvað úrskurðarnefndin að fresta meðferð málsins þar til trén væru að fullu laufguð svo hægt væri að meta þessi atriði við réttar aðstæður.  Var kærendum gerð grein fyrir þessari ákvörðun og að uppkvaðning úrskurðar myndi frestast af þessum sökum.

Málsrök kærenda:  Kærendur, sem eru eigendur fasteignarinnar nr. 80 við Langagerði í Reykjavík, kveða reynitré, sem standi nærri lóðamörkum á lóðinni nr. 78, valda sér ýmsum óþægindum og jafnvel tjóni.  Trén slúti yfir innkeyrslu að bílskúr þeirra og geti valdið skemmdum á bifreiðum sem lagt sé í innkeyrslunni.  Þá skerði þau birtu í þeim herbergjum, sem að þeim snúi svo verulega að óviðunandi sé.  Eigendur trjánna hafi ekki fallist á tilmæli kærenda um úrbætur og hafi þau því snúið sér til byggingarfulltrúa.  Telji þau honum skylt að hlutast til um úrbætur og vísa til greina 61.7. og 68.3. í byggingarreglugerð nr. 441/1998 máli sínu til stuðnings.  Loks telja þau rökstuðningi byggingarnefndar fyrir ákvörðun nefndarinnar í málinu verulega áfátt.

Málsrök byggingarnefndar Reykjavíkur:  Leitað var viðhorfa byggingarnefndar til kæruefnis máls þessa.  Í greinargerð byggingarnefndar í málinu, dags. 28. apríl, kemur fram að byggt hafi verið á lóðunum nr. 78 og 80 við Langagerði á árunum 1955 og 1956.  Engin ákvæði hafi þá verið um trjágróður í byggingarsamþykkt.  Slík ákvæði hafi fyrst komið til sögunnar með setningu byggingarreglugerðar nr. 292/1979.  Í þeirri reglugerð hafi verið ákvæði, sem heimilaði byggingarnefnd að krefjast þess að gróður væri fjarlægður ef af honum stöfuðu óþægindi eða hætta fyrir umferð eða veruleg skerðing á birtu í íbúð eða á lóð.  Það sé meginregla íslensks réttar að lög og reglugerðir hafi ekki afturvirk áhrif.  Ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 varðandi trjágróður geti því ekki átt við í tilviki því sem hér um ræði enda sé ljóst að umrædd tré hafi verið gróðursett fyrir einhverjum áratugum.  Ekki hafi verið sýnt fram á það að trén valdi hættu fyrir umferð né skerði birtu í íbúð kærenda svo verulega, sbr. gr. 5.12.4. í byggingarreglugerð nr. 292/1979, að rétt hefði verið að verða við erindi kærenda.

Málsrök eigenda Langagerðis 78:  Úrskurðarnefndin gaf eigendum Langagerðis 78 kost á að koma að andmælum við sjónarmiðum kærenda í málinu.  Í svari þeirra til nefndarinnar kemur fram að af sex trjám, sem staðið hafi milli húsanna nr. 78 og 80 við Langagerði, hafi þrjú verið felld á árunum 1997-1999, þar af eitt vorið 1999 eða eftir að kærendur settu fram kröfur sínar.  Umsjón með klippingum og grisjun trjágróðurs á lóðinni hafi árum saman verið í höndum útlærðra garðyrkjumanna og muni grisjun verða haldið áfram í samræmi við ráðgjöf þeirra.  Ekki sé hugað að frekari grisjun á þessu ári enda væri það ekki að ráði fagmanna.  Ekkert tilefni sé til þess að verða við kröfum kærenda í málinu.

Umsögn Skipulagsstofnunar: Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefnið.  Í umsögn stofnunarinnar, dags. 28. apríl 1999, er gerð grein fyrir tildrögum málsins. Síðan segir svo:  „Í 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga segir að byggingarnefnd sé skylt að rökstyðja afgreiðslu á erindum sem henni berast. Ekki er fyrir því að fara í máli þessu, þar sem í afgreiðslu byggingarnefndarinnar er látið nægja að vísa til bréfs byggingarfulltrúa til kærenda máls þessa, en þar segir aðeins: „Aðstæður hafa verið skoðaðar og gefa ekki tilefni til afskipta af hálfu embættis byggingarfulltrúa.”  Hér verður að líta svo á að lögboðinn rökstuðning byggingarnefndar skorti. Í ljósi þess er það álit Skipulagsstofnunar, að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi og að lagt verði fyrir byggingarnefnd að taka málið upp að nýju.”

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 23. júní 1999.  Kærendur voru viðstaddir, svo og eigandi Langagerðis 78 og garðyrkjumaður á hans vegum.  Nefndin kynnti sér aðstæður utan dyra og inni í herbergjum í húsi kærenda sem snúa að Langagerði 78.  Viðstaddir gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum og veittu umbeðnar upplýsingar.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið beindu kærendur skriflegu erindi til byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 7. september 1998, og óskuðu atbeina hans til þess að fá fjarlægð tré af lóðinni nr. 78 við Langagerði.  Erindi þessu svaraði byggingarfulltrúi með bréfi, dags. 26. október 1998, og var erindi kærenda synjað.  Í bréfi byggingarfulltrúa segir:  „Aðstæður hafa verið skoðaðar og gefa ekki tilefni til afskipta af hálfu embættis byggingarfulltrúa.”   Hvorki er vísað til réttarheimilda né gerð grein fyrir þeirri skoðun, sem fullyrt er að gerð hafi verið á aðstæðum.  Verður ekki ráðið af efni bréfsins á hvaða forsendum niðurstaða byggingarfulltrúa er reist.

Með bréfi, dags. 4. febrúar 1999, til byggingarnefndar Reykjavíkur óskuðu kærendur eftir því að byggingarnefnd tæki málið til endurskoðunar og sjálfstæðrar umfjöllunar.  Til stuðnings erindi þessu vísuðu kærendur til greinar 8.6. í byggingarreglugerð nr. 441/1998, en í niðurlagi þess ákvæðis segir svo:  „Telji einhver rétti sínum hallað með afgreiðslu byggingarfulltrúa getur hann borið málið undir byggingarnefnd”.  Byggingarnefnd tók erindi kærenda fyrir á fundi sínum hinn 25. febrúar 1999.  Fyrir nefndinni lágu bréf kærenda frá 4. febrúar 1999 og bréf byggingarfulltrúa dags. 26. október 1998.  Í málinu var gerð svofelld bókun:  „Byggingarnefnd samþykkir þá afstöðu sem fram kemur í ofangreindu bréfi byggingarfulltrúa.”

Tilvitnað ákvæði í lokamálslið greinar 8.6. í byggingarreglugerð nr. 441/1998 er í eðli sínu kæruheimild.  Samkvæmt ákvæðinu verður borin undir byggingarnefnd afgreiðsla byggingarfulltrúa á erindi, sem hann hefur stöðuumboð til að taka lokaákvörðun um.  Við afgreiðslu erindis samkvæmt málsskotsheimild greinar 8.6. í byggingarreglugerð nr. 441/1998 hefur byggingarnefnd því stöðu æðra stjórnvalds við umfjöllun um ákvörðun byggingarfulltrúa.  Við þessar aðstæður verður að gera kröfu til þess að byggingarnefnd rannsaki mál af sjálfsdáðum og rökstyðji með sjálfstæðum hætti niðurstöðu sína, sbr. 2. mgr. 39. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þessa var ekki gætt við afgreiðslu nefndarinnar heldur látið við það sitja að vísa til rökstuðnings byggingarfulltrúans fyrir niðurstöðu hans í málinu.  Var sá rökstuðningur þó alls ófullnægjandi.

Samkvæmt framansögðu var málsmeðferð og rökstuðningi byggingarnefndar í málinu svo verulega áfátt að fella ber hina kærðu ákvörðun úr gildi.  Er lagt fyrir byggingarnefnd að taka erindi kærenda til meðferðar að nýju og ljúka afgreiðslu þess með viðhlítandi rannsókn málsins og rökstuðningi.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 25. febrúar 1999 um að samþykkja afstöðu byggingarfulltrúa til erindis kærenda um trjágróður á lóðamörkum Langagerðis 78 og 80 í Reykjavík er felld úr gildi.  Lagt er fyrir byggingarnefnd að taka erindi kærenda til meðferðar að nýju og ljúka afgreiðslu þess með viðhlítandi rannsókn málsins og rökstuddri niðurstöðu.