Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

108/2018 Krókatún

Árið 2019, fimmtudaginn 4. júlí kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2018, kæra á ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar frá 12. júlí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grenja hafnarsvæðis vegna Krókatúns 22-24.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. ágúst 2018, er barst nefndinni 12. ágúst s.á., kæra eigendur, Krókatúni 18, og eigendur, Krókatúni 20 á Akranesi, þá ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grenja hafnar­svæðis vegna Krókatúns 22-24. Verður að skilja málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Með tölvupósti 22. ágúst 2018 gerðu kærendur kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 10. september s.á.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akraneskaupstað 30. ágúst 2018.

Málavextir: Deiliskipulag Grenja hafnarsvæðis er frá janúar 2013, en á skipulagssvæðinu er rekið iðnfyrirtæki á lóðinni nr. 22-24 við Krókatún. Á fundi skipulags- og umhverfisráðs Akraneskaupstaðar 16. apríl 2018 var fjallað um erindi Grenja ehf. um heimild til að reisa efnisgeymslu á fyrrgreindri lóð. Samþykkti ráðið að grenndarkynna tillögu að breytingu á deiliskipulagi varðandi útlit og umfang efnisskýlisins fyrir eigendum fasteigna við Krókatún 8, 12, 14, 15, 16, 18 og 20 sem óverulega breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 43. gr., sbr. 44. gr., skipulagslaga nr. 123/2010. Í breytingunni fólst að byggingarreitur á lóðinni yrði stækkaður til norðausturs um 5 m og þar yrði reist viðbygging við eldra hús. Húsagerð og skil­málar héldust óbreyttir að öðru leyti. Hámarksbyggingarmagn á lóðinni ykist um 321 m², eða úr 4.808 m² í 5.129 m², og nýtingarhlutfall færi úr 0,64 í 0,69.

Deiliskipulagstillagan var send út til kynningar með bréfi, dags. 25. apríl 2018, með athugasemdafresti til 30. maí s.á. Andmæli bárust gegn tillögunni á kynningartíma, m.a. frá kærendum. Tillagan var tekin fyrir á fundi skipulags- og umhverfisráðs 9. júlí 2018 og var umsögn sviðstjóra um athugasemdir, dags. 14. júní s.á., samþykkt og lagt til við bæjarráð að tillagan yrði samþykkt. Bæjarráð samþykkti skipulagstillöguna ásamt umsögn sviðsstjóra á fundi sínum 12. júlí 2018. Þeim aðilum sem gerðu athugasemdir við deiliskipulagstillöguna var tilkynnt um afgreiðsluna með bréfi, dags. 16. s.m. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. júlí 2018.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þeir hafi gert alvarlegar athugasemdir við deiliskipulagstillöguna. Færð hafi verið rök fyrir því að framkvæmdin sé ekki minniháttar og hafi umtalsverð áhrif á eignir í nágrenninu og því svæði sem almenningi er ætlað á svæðinu. Eigendur fasteignar við Krókatún 20 bendi einnig á að framkvæmdin muni hafa mikil og neikvæð áhrif á fasteignina. Ljóst sé að skipulagsyfirvöld og eigendur fasteigna á áhrifasvæði framkvæmdarinnar séu ekki sammála um mat á umfangi og áhrifum hennar á umhverfið.

Bent sé á að heimiluð stækkun sé í fermetrum meiri en samanlagður grunnflötur fasteigna kærenda að Krókatúni 18 og 20. Bygging upp á 300 m² að grunnfleti og 6,5 m á hæð geti varla talist óveruleg í örfárra metra fjarlægð frá næstu húsum. Ljóst sé að vafi leiki á því hvort framkvæmdin teljist óveruleg og því hefði Akraneskaupstaður átt að draga grenndarkynninguna til baka og auglýsa breytt deiliskipulag þegar í stað. Kærendur geri einnig athugasemdir við að athugasemdum þeirra hafi verið svarað í bréfi frá sviðsstjóra umhverfissviðs bæjarins með rangfærslum eða án rökstuðnings. Til dæmis sé fullyrt í bréfi sviðsstjóra að 6,8 m fjarlægð sé frá fyrirhuguðum húsvegg að gangstíg sem ætlaður sé almenningi. Hið rétta sé að þessi fjarlægð sé sennilega um 3 m. Í svarbréfi sviðsstjóra sé einnig sagt að ólíklegt sé að framkvæmdin muni hafa áhrif á verðmæti fasteigna kærenda án þess þó að því fylgi rökstuðningur. Sé þetta ámælisvert af hálfu stjórnvaldsins. Það sé ljóst að deiliskipulagsbreytingin og þeirri framkvæmd sem henni tengist muni hafa veruleg og neikvæð áhrif á umhverfi framkvæmdarinnar. Deili­skipulagið sé jafnframt illa unnið enda ljóst að það hafi verið unnið á skömmum tíma.

Málsrök Akraneskaupstaðar: Bæjaryfirvöld hafni því að fara hefði þurft með deiliskipulags­tillöguna sem verulega breytingu á skipulagi. Breytingin sé óveruleg bæði ef litið sé til umfangs hennar og eins áhrifa. Umfang breytingarinnar felist í því að stækka byggingarreit á lóðinni Krókatúni 22-24 um 5 m til norðausturs, eða frá byggðinni og að sjó þar sem engin byggð sé. Byggingarmagn sé aukið um 321 m², í húsi sem sé í heild 5.129 m². Nýtingarhlutfall hækki úr 0,64 í 0,69. Grenndaráhrif stækkunarinnar séu mjög óveruleg enda snúi hún að langmestu leyti frá byggðinni. Vegna stöðu sinnar og legu byggðar á svæðinu hafi stækkunin heldur engin áhrif á skuggavarp. Einu grenndaráhrifin á byggðina og kærendur séu einhver sjónræn áhrif og mögulega óveruleg skerðing á útsýni fyrir einhverja hagsmunaaðila. Þá valdi breytingin hvorki aukinni umferð né auknu ónæði á nokkurn hátt, enda um að ræða efnisgeymslu sem byggð sé til hagræðingar fyrir núverandi starfsemi. Breytingin sé því að mati bæjaryfirvalda ekki í neinum skilningi veruleg. Um sé að ræða iðnaðarhúsnæði á hafnarsvæði, en á slíkum svæðum megi almennt gera ráð fyrir meiri breytingum á umhverfi en í fastmótaðri íbúðabyggð. Jafnframt sé á það bent að það hafi engin áhrif haft á hagsmuni kærenda hvort breytingin hafi verið grenndarkynnt sem óveruleg breyting eða hvort litið hefði verið á hana sem verulega og hún auglýst til kynningar. Kærendur hafi fengið kynningu á tillögunni og hafi komið að sjónarmiðum sínum og andmælum. Öllum athugasemdum hafi verið svarað á lögmætan og málefnalegan hátt og í umsögn sviðstjóra segi að „við hornið fjær Krókatúni er bilið frá fyrirhuguðum vegg efniskýlisins að línu fyrir göngustíg um 5,6 metrar.“ Greindar vegalengdir hafi verið mældar á staðnum.

Að öðru leyti sé vísað til svara bæjarins við athugasemdum, umfjöllunar um áhrif deiliskipulagsbreytingarinnar í greinargerð og upplýsinga til lóðarhafa um áhrif tillögunnar. Bæjaryfirvöld árétti það mat sitt að mjög ólíklegt verði að telja að breytingin leiði til rýrnunar á verðmæti íbúðarhúsa á svæðinu. Breytingin hafi líklega frekar jákvæð áhrif. Órökstuddri fullyrðingu um að deiliskipulagið sé illa unnið sé mótmælt með vísan til skipulagsins sjálfs og fyrirliggjandi gagna.

Niðurstaða: Eins og fram er komið ákvað umhverfis- og skipulagsráð Akraneskaupstaðar að nýta sér heimild sem er að finna í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til að viðhafa grenndarkynningu á umræddri skipulagstillögu í stað þeirrar almennu málsmeðferðar við breytingu á deiliskipulagi sem áskilin er í 1. mgr. ákvæðisins. Í fyrrgreindu undantekningar­ákvæði 2. mgr. 43. gr. kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Skuli við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis.

Með hinni kærðu breytingu á umræddu skipulagi færist norðausturhluti byggingarreits lóðarinnar Krókatúns 22-24 til norðausturs um 5,0 m í átt frá byggð til sjávar. Hámarksbyggingar­­­­­­magn á lóðinni eykst úr 4.808 m² í 5.129 m², eða um 321 m², og nýtingarhlutfall fer úr 0,64 í 0,69 sem verður að telja óverulega aukningu. Um er að ræða heimild fyrir byggingu við eldra hús á hafnarsvæði en nýtingarhlutfallið 0,69 er ekki óalgengt á atvinnu­­lóðum. Viðbyggingin fylgir útlínum bakhliðar eldra húss og rís ekki hærra en það. Með tilliti til þessara aðstæðna og umfangs heimilaðrar breytingar og gildandi landnotkunar svæðisins verður talið að heimilt hafi verið að grenndarkynna hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Verður ekki séð að heimiluð bygging hafi grenndaráhrif á nágrenni sitt að marki að öðru leyti en því að hún mun að einhverju leyti hafa áhrif á útsýni frá fasteignum kærenda til norðvesturs vegna greindrar stækkunar hússins á lóðinni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki liggja fyrir þeir annmarkar á máls­meðferð hinnar kærðu ákvörðunar sem áhrif geta haft á gildi hennar verður kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Akraneskaupstaðar frá 12. júlí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grenja hafnarsvæðis vegna Krókatúns 22-24.