Árið 2025, föstudaginn 4. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 59/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss frá 27. nóvember 2023 um að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðarhúss á jörðinni Gerðakoti í Ölfusi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 11. apríl 2025, kærir arkitekt þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss frá 27. nóvember 2023 að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðarhúss á jörðinni Gerðakoti í Ölfusi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 19. júní 2025.
Málavextir: Á árinu 2017 sótti þáverandi eigandi fasteignarinnar Gerðakots í Ölfusi um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu íbúðarhúss og var nafn kæranda tilgreint á aðaluppdráttum sem fylgdu umsókninni. Var byggingarleyfi gefið út af byggingarfulltrúa 11. október 2017. Í júní 2018 tilkynnti kærandi með tölvupósti til sveitarfélagsins að hann hefði dregið sig úr verkinu og bæri því enga ábyrgð á því lengur. Hinn 27. nóvember 2023 samþykkti byggingarfulltrúi aðaluppdrætti fyrir viðbyggingu íbúðarhússins að Gerðakoti í Ölfusi. Á uppdrætti þeim er sýnir grunnmynd byggingaráformanna er kærandi tilgreindur sem hönnuður og uppdrátturinn dagsettur 22. ágúst 2017. Hinn 14. mars 2025 sendi kærandi tölvupóst til byggingarfulltrúa og tók fram að hann hefði nýlega orðið þess var að teikning í hans nafni hefði verið samþykkt af byggingarfulltrúa. Krafðist kærandi þess að leyfisveitingin yrði afturkölluð og teikningin „tekin út úr málinu.“
Málsrök kæranda: Bent er á að hinir samþykktu aðaluppdrættir séu ekki undirritaðir af aðalhönnuði í samræmi við gr. 4.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Kærandi hafi unnið umræddan uppdrátt árið 2017 og hafi hann verið lagður inn til sveitarfélagsins sama ár. Vegna samskiptaörðuleika við eiganda Gerðakots og ógreiddra reikninga hafi kærandi hins vegar dregið sig úr verkinu og tilkynnt þáverandi byggingarfulltrúa um það. Teikning kæranda hafi síðar legið til grundvallar þeim byggingaráformum sem samþykktir hafi verið 27. nóvember 2023 án hans vitneskju. Þess sé krafist að samþykktin verði felld úr gildi, enda séu uppdrættirnir hvorki undirritaðir né lagðir fram að beiðni aðalhönnuðar eða með samþykki hans. Sömuleiðis sé farið fram á að leyfisveitingar sem byggi á teikningum kæranda verði felldar úr gildi og uppdrættirnir fjarlægðir af kortavef bæjarins.
Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: Sveitarfélagið fer fram á frávísun málsins á þeim grundvelli að lögboðinn kærufrestur sé liðinn með vísan til 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Annað hvort verði að líta svo á að ákvörðun byggingarfulltrúa frá 27. nóvember 2023 hafi sætt opinberri birtingu í skilningi ákvæðisins eða þá að kæranda hafi mátt vera kunnugt um ákvörðunina þegar teikningar hafi verið birtar á vef sveitarfélagsins sama dag. Kæran varði ekki einungis hagsmuni sveitarfélagsins heldur einnig eiganda mannvirkisins sem verði að ákveðnum tíma liðnum að geta treyst því að samþykkt byggingaráform sæti ekki kæru. Líta verði til þess að eignarhald fasteignarinnar hafi breyst. Sé kæran ekki tæk til meðferðar úrskurðarnefndarinnar.
Einnig sé farið fram á frávísun málsins þar sem kærandi hafi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Hönnuðir hafi almennt ekki aðild að þeirri stjórnvaldsákvörðun byggingarfulltrúa að samþykkja uppdrætti þar sem slíkt hafi ekki í för með sér réttaráhrif fyrir hönnuði heldur eiganda mannvirkis, enda sé ábyrgð hönnuðar á verki ekki bundin við afgreiðslu sveitarfélagsins á umsókn um byggingarleyfi. Þannig beri hönnuður ábyrgð jafnvel þótt byggingarfulltrúi hafi talið hönnun fullnægjandi. Um sé að ræða ágreining sem sé á milli kæranda og upphaflegs eiganda Gerðakots sem leysa þurfi þeirra á milli, t.d. með höfðun innheimtu- eða skaðabótamáls.
Töluvert sé síðan kærandi hafi sent þáverandi byggingarfulltrúa tölvupóst þar sem hann hafi sagst vera komin út úr verkinu og bæri því enga ábyrgð. Ekki sé hægt að fallast á að til einhverskonar haldsréttar stofnist hjá hönnuði þegar teikningar séu annars vegar. Geti tilkynningin ekki haft þau réttaráhrif að kæranda hafi verið unnt einhliða að afturkalla staðfestingu sína á því að hann hafi unnið það verk sem kæran beinist að. Þá leiði ekki af tilkynningunni að allar leyfisveitingar séu ógildanlegar, hvort sem þær hafi átt sér stað fyrir eða eftir tilkynninguna.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Því er andmælt að kæra í máli þessu sé utan kærufrests, enda hafi kæran verið send innan mánaðar frá því að kæranda varð kunnugt um að uppdrættir í hans nafni hafi verið samþykktir og gerðir aðgengilegir á heimasíðu sveitarfélagsins. Birting fundargerða geti ekki talist opinber birting ef þeir sem í hlut eiga, eins og hönnuðir aðaluppdrátta, fái ekki skilaboð frá stjórnvaldi um að ákvörðun hafi verið tekin. Venjan sé sú að senda hlutaðeigandi tilkynningu um afgreiðslu máls. Þá sé það í besta falli langsótt að halda því fram að höfundur byggingarteikningar sé ekki aðili máls þegar málið varði notkun á hugverki hennar. Í 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 komi fram að höfundur eigi eignarrétt á teikningum og uppdráttum. Þá sé það málinu óviðkomandi að fasteignin Gerðakot hafi verið seld enda sé kærunni beint að sveitarfélaginu og þeim aðilum sem unnið hafi að byggingarleyfisumsókninni frá 2023.
Niðurstaða: Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæran lýtur að. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kæranda skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir slíka hagsmuni að fá úr ágreiningi leyst.
Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss frá 27. nóvember 2023 um að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðarhúss á jörðinni Gerðakoti. Telja verður að samþykkt byggingaráforma á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki hafi fyrst og fremst þýðingu þegar kemur að réttindum og skyldum eiganda mannvirkis og byggingarleyfishafa, sbr. 15. gr. laganna. Þó er ljóst að slík ákvörðun getur snert lögvarða hagsmuni annarra aðila, einkum þá nágranna sem geta byggt kæruaðild á grenndarsjónarmiðum. Við mat á því hvort játa beri kæranda aðild að hinni kærðu ákvörðun er til þess að líta að við samþykkt byggingaráforma er byggingarfulltrúa ekki skylt að sannreyna að framlagðir aðaluppdrættir stafi í reynd frá tilgreindum hönnuði, þótt honum beri vissulega að gæta þess að uppdrættir séu áritaðir af hönnuði, sbr. gr. 4.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með hliðsjón af því og þar sem álitaefni um inntak og vernd höfundaréttar á grundvelli ákvæða höfundalaga nr. 73/1972 falla utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011, verður kröfu kæranda í máli þessu vísað frá vegna skorts á kæruaðild.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.