Árið 2014, mánudaginn 1. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 106/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. október 2013, sem barst nefndinni 1. nóvember s.á., kæra H og S Austurtúni 18, Garðabæ, afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins Álftaness frá 16. ágúst 2007 á byggingarleyfi fyrir parhúsi að Austurtúni 18 og 20, Álftanesi. Bæjarráð samþykkti veitingu byggingarleyfisins hinn 30. s.m. Skilja verður málskot kærenda svo að að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.
Umsögn Garðabæjar í málinu ásamt fylgigagni bárust úrskurðarnefninni hinn 16. janúar 2014.
Málsatvik og rök: Umsókn um byggingarleyfi fyrir steinsteyptu parhúsi á einni hæð að Austurtúni 18 og 20 var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Álftaness 16. ágúst 2007. Lágu þar fyrir uppdrættir arkiteks að húsinu, dags. 15. ágúst 2007. Samþykkti nefndin að leggja til við bæjarstjórn að umsóknin yrði samþykkt, enda væri hún í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Kærendur festu kaup á húsinu að Austurtúni 18 á árinu 2011 og munu hafa flutt í húsið í byrjun árs 2012.
Kærendur skírskota til þess að skömmu eftir að fyrrgreint hús hafi verið tekið í notkun hafi borið á því að hljóðbærni í húsinu hafi verið með óeðlilegum hætti. Upplýsinga hafi verið aflað um hönnun hússins sem leitt hafi í ljós að hönnun þess væri ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, a.m.k. hvað varði hljóðvist. Venjuhelgað sé að parhús séu sérsteypt og aðskilin með einangrun á milli. Kærendur þekki til hljóðvistar milli íbúða í fjölbýlishúsum og hafi talið að hljóðvist í sérbýli yrði á annan veg en sú hafi ekki orðið raunin. Telja verði ljóst að hönnun hússins, bygging þess og frágangur sé ekki í samræmi við reglugerðarákvæði. Leitað hafi verið skýringa og tillagna um úrlausnir hjá embætti byggingarfulltrúa, hönnuði, umsjónaraðila tæknilegrar útfærslu og byggingarstjóra án þess að formleg svör hafi fengist. Af þeim sökum sé umdeilt byggingarleyfi kært til úrskurðarnefndarinnar í þeim tilgangi að fá fram ábyrgð þeirra sem ábyrgir séu fyrir hönnun hússins, veitingu byggingarleyfis og byggingu þess.
Af hálfu Garðabæjar er gerð sú krafa að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Umrætt byggingarleyfi hafi verið samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd og staðfest af bæjarráði Álftaness í ágústmánuði árið 2007. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar skv. þágildandi skipulags- og byggingarlögum hafi verið einn mánuður og skv. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnsýslukæru ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun sé tilkynnt. Samkvæmt því sé kæra í máli þessu of seint fram komin. Kærendur hafi eignast umrætt húsnæði með kaupsamningi, dags. 14. desember 2011, eða löngu eftir að byggingarleyfi hússins hafi verið samþykkt og gefið út. Kæruefni máls þessa snúist um meintan ágalla á fasteigninni sem sé óviðkomandi afgreiðslu hins kærða byggingarleyfis. Kæruefnið heyri af þeim sökum ekki undir úrskurðarnefndina sem einnig leiði til frávísunar málsins.
Niðurstaða: Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru til ársloka 2010, var frestur til að kæra stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga einn mánuður frá því að kæranda var, eða mátti vera, kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Sambærilegt ákvæði um kærufrest er nú að finna í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Fyrir liggur að kærendur festu kaup á fasteigninni að Austurtúni 18 í lok árs 2011 og fluttu í húsnæðið í byrjun árs 2012. Þá þegar mátti þeim vera ljóst að byggingarleyfi fyrir húsinu hafi verið samþykkt og gefið út enda húsið þá fullbyggt. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 1. nóvember 2013 eða hart nær tveimur árum eftir að kærendur festu kaup á eigninni og fluttu inn. Var hinn lögboðni kærufrestur löngu liðinn samkvæmt fyrrgreindum lagaákvæðum og ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Nanna Magnadóttir