Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

106/2008 Fjárborg

Ár 2009, þriðjudaginn 10. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 106/2008, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 27. ágúst 2008 um staðfestingu ákvörðunar byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda við byggingu hesthúss á lóðinni nr. 10 við Fjárborg á Hellissandi og bókun nefndarinnar frá 19. nóvember 2008 þess efnis að ekki verði samþykkt að gengið verði frá hesthúsinu í þeirri mynd sem það sé.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. nóvember 2008, er barst nefndinni hinn 27. sama mánaðar, kærir L, Munaðarhóli 18, Snæfellsbæ, lóðarhafi Fjárborgar 10 á Hellissandi, samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 27. ágúst 2008 um staðfestingu ákvörðunar byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda við byggingu hesthúss á lóðinni nr. 10 við Fjárborg á Hellissandi og bókun nefndarinnar frá 19. nóvember 2008 þess efnis að ekki verði samþykkt að gengið verði frá hesthúsinu í þeirri mynd sem það sé.

Verður að skilja erindi kæranda svo að gerð sé krafa um að ofangreint verði fellt úr gildi.  

Málavextir:  Í júní árið 2006 var kæranda máls þessa úthlutað lóð í Hraunskarði fyrir tómstundabúskap og var byggingarleyfi samþykkt 27. júní 2006.  Samkvæmt upplýsingum kæranda lét hann það ár slétta lóð og grafa fyrir grunni hússins.  Ári síðar var grunnur steyptur og húsið reist árið 2008. 

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. ágúst 2008, voru framkvæmdir við bygginguna stöðvaðar og m.a. vísað til þess að húsið væri hvorki í samræmi við deiliskipulag né samþykktar teikningar.  Var á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 27. sama mánaðar eftirfarandi fært til bókar:  „Bréf dags. 21.08.2008 hefur verið sent lóðarhafa að Fjárborg 10 og framkvæmdir stöðvaðar.  Lóðarhafi hefur hafið byggingu við Fjárborg 10 á Hellissandi og er sú bygging ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag né samþykktar teikningar.  Lóðarhafa hefur verið gefinn kostur á að gefa skýrslu á þessari framkvæmd og skila inn teikningum eins og byggingin er í dag.  Umhverfis- og skipulagsnefnd samþykkir stöðvun framkvæmda meðan byggingin er ekki í samræmi við teikningar.  Einnig að skrifa byggingarstjóra verksins bréf og óska skýringa á stöðu verksins.  Nefndin felur byggingarfulltrúa einnig að undirbúa frekari aðgerðir.“  Var samþykkt þessi staðfest á fundi bæjarráðs hinn 28. ágúst 2008. 

Í gildi er Aðalskipulag Snæfellsbæjar 1995-2015.  Með breytingu þess hinn 24. október 2008 var svæði því er hér um ræðir breytt úr opnu óbyggðu svæði í opið svæði til sérstakra nota, þ.e. tómstundabúskap.  Í bréfi Skipulagsstofnunar til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 22. október sama ár, var vísað til erindis Snæfellsbæjar þar sem óskað hafði verið meðmæla stofnunarinnar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga til veitingar leyfis til byggingar 200 m² hesthúss á svæðinu, með hæstu leyfilegu þakhæð 5,0 m yfir gólfi.  Gerði stofnunin ekki athugasemd við að leyfi yrði veitt en benti á að vinna þyrfti deiliskipulag fyrir svæðið yrði af frekari uppbyggingu.  Með hliðsjón af þessu var á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 30. október 2008 endurútgefið byggingarleyfið frá 27. júní 2006. 

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 19. nóvember s.á. lagði tæknideild bæjarins fram fyrirspurn til nefndarinnar þess efnis hvort kærandi myndi geta fengið leyfi fyrir hesthúsinu eins og það var þá.  Var eftirfarandi bókað:  „Umhverfis- og skipulagsnefnd samþykkir ekki að gengið verði frá húsinu í þeirri mynd sem það er í dag.  Byggingarnefnd fer fram á það að skilað verði inn teikningum í samræmi við byggt hús án turns og hann verði fjarlægður.“  Var bókun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 20. nóvember 2008. 

Hefur kærandi kært til úrskurðarnefndarinnar fyrrgreinda samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 27. ágúst 2008 og bókun nefndarinnar frá 19. nóvember s.á. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að þegar húsið, sem hafi verið þrjú ár í byggingu, hafi verið orðið fokhelt hafi framkvæmdir verið stöðvaðar af byggingaryfirvöldum með þeim rökum að húsið væri ekki í samræmi við teikningar sem unnar hefðu verið af Bændasamtökunum árið 2001, en samtökin kannist ekkert við það. 

Hafi kærandi komist að því að byggingaryfirvöldum hafi ekki verið heimilt að veita leyfi til byggingarinnar þar sem deiliskipulag hafi ekki verið fyrir hendi.  Þeim hafi verið bent á að sækja um undanþágu fyrir húsi kæranda úr því það hafi verið komið upp og hafi sú undanþága fengist þar sem gert hafi verið ráð fyrir fimm metra háu, 200 m² húsi.  Verið sé að byggja annað hús sem ekki sé á deiliskipulagi og ekki með teikningar en sá húsbyggjandi fái að halda áfram.  Þá sé því ranglega haldið fram af byggingaryfirvöldum að húsið sé 5,32 metrar á hæð en hið rétta sé að það sé fimm metrar. 

Málsrök Snæfellsbæjar:  Af hálfu Snæfellsbæjar er vísað til þess að við vinnslu á deiliskipulagi svæðisins árið 1999 hafi verið ákveðið að fá teikningu frá Bændasamtökum Íslands sem nýtast myndi öllum lóðum á svæðinu og hafi kærandi fengið þess háttar teikningu.  Svo líði og bíði, ekkert gerist og engar framkvæmdir eigi sér stað.  Engum gögnum sé skilað inn til byggingarfulltrúa og ekki sé haft samband við hann um fyrirhugaða byggingu.  Það sé ekki fyrr en byggingarfulltrúi komi úr sumarfríi í byrjun ágúst 2008 að honum sé tilkynnt um framkvæmdir við hesthúsabygginguna.  Hafi kæranda verið tilkynnt að byggingarleyfi sem hann hafi fengið á árinu 2006 hafi aldrei tekið gildi þar sem aldrei hafi verið skilað inn tilskildum gögnum. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 27. ágúst 2008 um staðfestingu á ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda við byggingu hesthúss á lóðinni nr. 10 við Fjárborg á Hellissandi og bókun nefndarinnar frá 19. nóvember s.á. þar sem hafnað var breytingum á hinu umdeilda hesthúsi. 

Fyrir liggur að á fundi umhverfis- og byggingarnefndar hinn 27. júní 2006 var kæranda máls þessa úthlutað fyrrgreindri hesthúsalóð og leyfi til byggingar hesthúss samþykkt.   Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að hús það sem nú er risið á umræddri lóð sé bæði stærra og hærra en samþykktar teikningar heimila og stöðvaði byggingarfulltrúi byggingu þess eins og fyrr er vikið að. 

Um heimild byggingarfulltrúa til að stöðva framkvæmdir við byggingu húss, sem ekki hefur fengist leyfi fyrir eða byggt er á annan hátt en leyfi stendur til, er mælt fyrir um í 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Er þar um að ræða bráðabirgðaákvörðun sem tekin er tafarlaust en skal þó staðfest í byggingarnefnd svo fljótt sem við verður komið.  Í kjölfar slíkrar ákvörðunar þarf að taka afstöðu til afdrifa byggingarframkvæmdanna, eftir atvikum með veitingu byggingarleyfis eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða ákvörðun um að bygging eða byggingarhluti verði fjarlægður, sbr. 2. og 4. mgr. 56. gr. laganna.  Unnt er að bera þær ákvarðanir undir úrskurðarnefndina      

Bókun umhverfis- og skipulagsnefndar frá 19. nóvember 2008 fól í sér svar við fyrirspurn til nefndarinnar þess efnis hvort kærandi myndi geta fengið leyfi fyrir hesthúsinu í samræmi við raunstærðir þess, en ekki liggur fyrir að byggingarleyfisumsókn þar að lútandi hafi verið lögð fram.

Að framangreindu virtu felur hin kærða ákvörðun um stöðvun framkvæmda og bókun umhverfis- og skipulagsnefndar, í tilefni af fyrirspurn varðandi umdeilt hesthús, ekki í sér lokaákvörðun um efni máls og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________           _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir