Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

105/2008 Sléttuhlíð

Ár 2009, miðvikudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 105/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. október 2008 um að veita leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni nr. C-O í Sléttuhlíð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. nóvember 2008, er barst úrskurðarnefndinni samdægurs, kærir K, Reykjavíkurvegi 39, Hafnarfirði, eigandi sumarbústaðar á lóðinni nr. B-6 í Sléttuhlíð í Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. október 2008 að veita leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni nr. C-O í Sléttuhlíð.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 28. október 2008. 

Kærandi krefst þess að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda, en ekki er vitað til þess að þær séu hafnar. 

Málsatvik:  Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 23. september 2008 var lögð fram umsókn um leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni nr. C-O í Sléttuhlíð, sem samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 er svæði fyrir frístundabyggð.  Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins, sem samþykkt var á árinu 2007, er þar gert ráð fyrir 37 lóðum undir sumarhús.  Erindið hafði áður verið til umfjöllunar á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 17. sama mánaðar, sem vísaði því til skipulags- og byggingarráðs.  Var afgreiðslu ráðsins frestað.  Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 7. október 2008 var eftirfarandi fært til bókar:  „Þar sem vafi leikur á túlkun á skilmálum skipulagsins óskar skipulags- og byggingarráð eftir umsögn lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs og umsögn skipulagshöfundar.“  Á fundi ráðsins hinn 13. október 2008 var erindið tekið fyrir og var eftirfarandi bókað:  „Skipulags- og byggingarráð tekur jákvætt í erindið og felur skipulags- og byggingarsviði endanlega afgreiðslu málsins.  Jafnframt er sviðinu falið að gera tillögu að breytingu texta í greinargerð skipulags í kafla 3 til að gera hann skýrari.“  Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 15. október 2008 var erindið samþykkt og tekið fram að umsóknin samræmdist lögum nr. 73/1997.  Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 28. október s.á.

Hefur kærandi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því haldið fram að með hinni kærðu samþykkt hafi Hafnarfjarðarbær brotið gegn Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 og samþykktu deiliskipulagi Sléttuhlíðar frá árinu 2007.  Í greinargerð aðalskipulags segi m.a. um svæðið:  „Svæði fyrir frístundabyggð er á svonefndu Sléttuhlíðarsvæði.  Tillaga að deiliskipulagi nær til um 230 ha svæðis og er hluti þess ætlaður undir eiginlega frístundabyggð.  Afmörkun svæðisins helgast af því að öll þau frístundahús sem eru í Sléttuhlíð og Klifsholti falli innan þess.  Í deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir því að núverandi frístundabyggð sé viðahaldið og fest í sessi en ekki er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu.   Ákveðið hefur verið að þau örfáu stöku hús sem reist hafa verið utan aðal frístundasvæðisins fái að halda sér en ekki er gert ráð fyrir frekari mannvirkjagerð umfram það sem orðið er.“  Þá segi í auglýsingu um samþykkt bæjarstjórnar á deiliskipulagi Sléttuhlíðar m.a:  „Deiliskipulagið gerir ráð fyrir að núverandi frístundabyggð verði viðhaldið og fest í sessi en ekki er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu.“ 

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er vísað til þess að deiliskipulagstillaga fyrir Sléttuhlíð hafi verið í vinnslu á sama tíma og textinn í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 og þar sé vissulega gert ráð fyrir nýjum byggingum.  Það að „…núverandi frístundabyggð sé fest í sessi og ekki gert ráð fyrir frekari uppbyggingu“  vísi til þess að svæðið/frístundabyggðin verði ekki stækkað frá því sem það sé í dag.  Ákveðið hafi verið að bæta mætti við takmörkuðum fjölda sumarhúsa innan svæðisins og hafi öllum sumarhúsaeigendum margítrekað verið gerð grein fyrir því, bæði á kynningarfundum og í bréfum. 

Í greinargerð aðalskipulags varðandi svæðið segi m.a. eftirfarandi:  „…ekki er gert ráð fyrir frekari mannvirkjagerð umfram það sem orðið er.“  Þetta vísi í raun aðeins til þeirra húsa sem séu utan frístundasvæðisins, m.a. húss í Gjánum sem sé á hverfisvernduðu svæði. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafa var veittur kostur á að tjá sig um kæruefnið en hann hefur ekki gert það. 

Niðurstaða:  Samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025, sem samþykkt var í bæjarstjórn 12. desember 2006, er í Sléttuhlíð gert ráð fyrir frístundabyggð.  Í greinargerð aðalskipulagsins er vísað til tillögu að deiliskipulagi fyrir svæðið og segir þar að gert sé ráð fyrir því að núverandi frístundabyggð sé viðhaldið og hún fest í sessi en ekki sé gert ráð fyrir frekari uppbyggingu.  Ákveðið hafi verið að þau örfáu, stöku hús sem reist hafi verið utan aðal frístundasvæðisins fái að halda sér en ekki sé gert ráð fyrir frekari mannvirkjagerð umfram það sem orðið sé.  Verður ekki annað ráðið af greinargerð aðalskipulagsins en að ekki sé gert ráð fyrir nýjum byggingum á svæðinu, en afar óheppilegt er að vísa til tillögu að deiliskipulagi í greinargerð aðalskipulags enda á deiliskipulagstillagan að byggja á aðalskipulaginu en ekki öfugt.  Að auki liggur ekki fyrir hvað nákvæmlega fólst í þeirri tillögu að deiliskipulagi svæðisins sem vísað var til þegar greinargerð aðalskipulagsins var samin eða samþykkt, en af gögnum málsins verður ráðið að fleiri en ein tillaga að deiliskipulagi hafi komið fram auk, þess sem breytingar hafi verið gerðar á endanlegri deiliskipulagstillögu meðan hún var til meðferðar hjá bæjaryfirvöldum.  Leiðir þetta til þess að túlka verður efni aðalskipulagsins eftir orðalagi þess texta sem fram kemur í greinargerð þess.

Misræmi er milli greinargerða aðalskipulags og deiliskipulags svæðisins, en skilja verður ákvæði deiliskipulagsins á þann veg að þar sé gert ráð fyrir nýjum byggingum, þrátt fyrir að kveðið sé á um hið gagnstæða í aðalskipulagi.  Þó segir í gildistökuauglýsingu deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. ágúst 2007 að deiliskipulagið geri ráð fyrir að núverandi frístundabyggð verði viðhaldið og hún fest í sessi en ekki sé gert ráð fyrir frekari uppbyggingu.  Leiðir þessi árétting í auglýsingunni til þess að vafi leikur á um það hvernig skýra beri heimildir deiliskipulagsins um nýjar byggingar á svæðinu.  Hafa ekki komið fram viðhlítandi skýringar á því misræmi sem er í skipulagsgögnum og að framan er lýst, en ákvörðun um deiliskipulag svæðisins hefur hvorki verið borin undir úrskurðarnefndina né dómstóla.  

Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skulu framkvæmdir sem háðar eru byggingarleyfi vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Verður ekki séð að hin kærða ákvörðun samræmist ákvæðum í staðfestu aðalskipulagi og fullnægir hún því ekki framangreindum lagaskilyrðum 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Leiðir sá annmarki til ógildingar.

Að auki skortir á að umdeilt byggingarleyfi samræmist skilmálum deiliskipulags um hámarksflatarmál bygginga á lóð, sem má mest vera 100 m², en samkvæmt skráningartöflu er fyrirhugað hús 100 m² auk 20 m² gestahúss og er heildarflatarmál bygginga á lóðinni því 120 m².  Myndi þetta misræmi eitt og sér hafa leitt til ógildingar þótt ekki hefðu verið þeir annmarkar á framsetningu skipulags sem að framan er lýst.

Með vísan til framanritaðs verður hin kærða ákvörðun ógilt. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. október 2008, um að veita leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni nr. C-O í Sléttuhlíð, er felld úr gildi.   

 

__________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________   ______________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson