Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

101/2022 Þúfulækur

Árið 2023, fimmtudaginn 2. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 101/2022, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. ágúst 2022, um álagningu skipulagsgjalds vegna húseignarinnar að Þúfulæk 21, Sveitarfélaginu Árborg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 31. ágúst 2022, kærir A, ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. ágúst s.á. um álagningu skipulagsgjalds vegna húseignarinnar að Þúfulæk 21. Er þess krafist að upphæð hins kærða skipulagsgjalds verði lækkuð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 21. október 2022.

Málavextir: Með tilkynningu 15. febrúar 2021 frá Þjóðskrá Íslands í pósthólf á www.island.is, upplýsinga- og þjónustuveitu opinberra aðila á Íslandi, var kæranda, eiganda Þúfulæks 21 á Selfossi, gert kunnugt um tilkynningu frá byggingarfulltrúa, dags. 12. s.m., um að hús á lóðinni væri fullbúið og hefði verið tekið í notkun. Húsið væri skráð á byggingarstig 7 samkvæmt lokaúttekt byggingarfulltrúa. Var kæranda leiðbeint um skyldu húseigenda til að brunatryggja húseignir skv. 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar og hann upplýstur um að ef ekki bærist svar innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins myndi stofnunin reikna brunabótamat án skoðunar á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga, sbr. 10. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1994. Þá yrði skipulagsgjald, 0,3% af brunabótamatsfjárhæð, innheimt af embætti tollstjóra í samræmi við 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Brunabótamat og skipulagsgjald var lagt á eignina 11. ágúst 2022.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi flutt inn í húsið að Þúfulæk 21, sem var nýbygging, 10. október 2020 og fengið lokaúttekt 11. febrúar 2021. Í lok ágúst 2022 hafi hann tekið eftir greiðsluseðlum fyrir skipulagsgjald. Vegna ruglings hafi hann ekki klárað að ganga frá brunabótamati á sínum tíma. Einungis hafi verið send tilkynning til hans á www.island.is, en hann fari aldrei inn á þá síðu. Upphæð skipulagsgjaldsins ætti að vera í samræmi við þær upphæðir sem tíðkast hafi á byggingarárum hússins 2020-2021 en ekki samkvæmt núgildandi verðlagi og hækkunum. Fasteignamat hússins hafi hækkað um 35,75% og því megi ætla að brunabótamat hússins hafi verið talsvert lægra á árunum 2020-2021 þótt það stýrist ekki af fasteignamati.

 Málsrök Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Bent er á að húseigendum sé samkvæmt 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar skylt að brunatryggja allar húseignir. Húseign skuli metin brunabótamati ekki síðar en fjórum vikum eftir að byggingu hennar ljúki eða eftir að hún er tekin í notkun. Húseigandi beri ábyrgð á að óska eftir brunabótamati. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 48/1994 annist stofnunin virðingu húseignar samkvæmt matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar. Markmið brunabótamatsins sé að finna vátryggingarverðmæti húseignarinnar á þeim tíma sem virðing fari fram. Matið eigi að taka til þeirra efnislegu verðmæta húseignarinnar sem geti eyðilagst af eldi og miðist við byggingarkostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti.

Álagning skipulagsgjald fari fram á grundvelli brunabótamats sbr. 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem segi að greiða skuli skipulagsgjald af nýbyggingum í eitt skipti sem nemi 0,3% af brunabótamati hverrar húseignar. Nýbygging teljist hvert nýreist hús sem virt sé til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldra hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur að minnsta kosti 1/5 verðs eldra hússins. Skipulagsgjald verði fyrst lagt á þegar brunabótamat liggi fyrir. Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu húseigna komi fram að húseigandi skuli óska eftir brunabótamati eigi síðar en fjórum vikum eftir að nýtt hús sé tekið í notkun og ef húseign uppfylli ekki vátryggingarskyldu þá skuli byggingarfulltrúi synja um lokaúttekt. Byggingarfulltrúi hafi eftirlit með mannvirkjagerð og beri ábyrgð á því að stofnuninni berist upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim, svo og um öll mannvirki, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Samkvæmt 6 gr. reglugerðar nr. 737/1997 um skipulagsgjald skuli Fasteignamat ríkisins, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, tilkynna innheimtumanni fjárhæð brunabótavirðingar húseignar eða stofnverðs þar sem það eigi við, þegar að virðing hafi farið fram eða tilkynnt hafi verið um stofnverð. Samkvæmt 4. gr. falli skipulagsgjald í gjalddaga þegar brunabótavirðing hafi farið fram eða stofnverð tilkynnt og stofnunin hafi tilkynnt innheimtumanni ríkissjóðs þær fjárhæðir.

Skipulagsgjald nýbyggingarinnar að Þúfulæk 21 hafi ekki fallið í gjalddaga fyrr en við brunabótavirðingu 11. ágúst 2022. Í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 komi skýrt fram að stjórnvaldsákvörðun sé bindandi eftir að hún hafi verið birt. Af ákvæðinu sé ljóst að upphafstími réttaráhrifa miðist við það þegar ákvörðun sé komin til aðila máls. Af greinargerð með 20. gr. sé ljóst að ekki sé gert að skilyrði að ákvörðun sé komin til vitundar málsaðila. Yfirleitt sé nægilegt að ákvörðun sé komin þangað sem almennt megi búast við að aðili geti kynnt sér hana. Stofnun telji að sú málsástæða að kæranda hafi ekki verið gert viðvart um þá skyldu sem á honum hvíldi varðandi brunabótamat standist ekki. Tilkynning hafi borist kæranda og verið aðgengileg inni á www.island.is. Því sé málsástæða kæranda um að hann skoði aldrei heimasíðuna málinu óviðkomandi. Kærandi hafi ekki sótt um brunabótamat þrátt fyrir skýr fyrirmæli í lögum. Tómlæti kæranda eigi ekki að leiða til þess að ákvörðun stofnunarinnar verði felld úr gildi eða breytt.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að hann sé ekki að reyna að sleppa undan því að greiða hið umþrætta gjald heldur telji hann rétt að gjaldið væri í samræmi við þá byggingar­vísitölu sem hafi verið á þeim tíma sem húsið fékk lokaúttekt. Komið hafi fram á tilkynningunni sem barst inn á www.island.is að ef ekki væri óskað eftir skoðun innan fjögurra vikna myndi Þjóðskrá reikna matið. Kærandi sé forvitinn um hvort ekki væru einhver takmörk fyrir því hversu langan tíma stofnunin mætti taka sér í það.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Er slíka kæruheimild til að mynda að finna í 7. gr. reglugerðar nr. 737/1997 um skipulagsgjald.

Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta. Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 hluta verðs eldra húss. Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.

Húsið á lóðinni Þúfulækur 21 var tekið í notkun í október 2020, fékk lokaúttekt 11. febrúar 2021 og var í kjölfarið fært á byggingarstig 7 samkvæmt ákvörðun byggingarfulltrúa. Ekki er um það deilt í málinu að kæranda beri að greiða skipulagsgjald samkvæmt framangreindum ákvæðum skipulagslaga, sem nemur 0,3% af brunabótamati húseignar. Snýr ágreiningur málsins um tímasetningu ákvörðunar um brunabótamat og upphæð þess, en skipulagsgjaldið tekur mið af þeirri upphæð.

Samkvæmt 10. gr. reglugerðar nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu húseigna er heimilt að vísa ágreiningi um brunabótamat til yfirfasteignamatsnefndar. Á kæruheimild reglugerðar nr. 737/1997 því ekki við um ákvarðanir um brunabótamat þrátt fyrir að upphæð skipulagsgjalds ráðist af því. Í ljósi þessa mun nefndin framsenda þann hluta málsins er varðar ágreining um brunabótamat hússins til yfirfasteignamatsnefndar til þóknanlegrar meðferðar sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í ljósi þess að brunabótamati vegna fasteignarinnar hefur að svo stöddu ekki verið hnekkt verður að öllu framangreindu virtu að hafna kröfu kæranda um ógildingu hins kærða skipulagsgjalds.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. ágúst 2022

um álagningu skipulagsgjalds er hafnað.