Ár 2010, miðvikudaginn 8. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 101/2008, kæra á synjun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 19. september 2008 á umsókn um leyfi til að klæða þrjár hliðar hússins að Höfðaströnd II, Jökulfjörðum, með Steni utanhússklæðningu.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. nóvember 2008, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kærir G, f.h. Ó, Brunngötu 20, Ísafirði, eiganda hússins að Höfðaströnd II, Jökulfjörðum, synjun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 19. september 2008 á umsókn um leyfi til að klæða þrjár hliðar hússins að Höfðaströnd II með Steni utanhússklæðningu.
Af hálfu kæranda er krafist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.
Málavextir: Með bréfi umboðsmanns kæranda til umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar, dags. 10. ágúst 2008, var m.a. óskað eftir heimild nefndarinnar til að klæða þrjár hliðar íbúðarhússins að Höfðastönd II að utan með 50 mm trégrind, 50 mm steinull og ljósri svokallaðri Steni klæðningu. Var erindi kæranda tekið fyrir á fundi umhverfisnefndar 19. september s.á. og því hafnað með eftirfarandi bókun: „Umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við að húsið verði klætt en hafnar steniklæðningu á húsið þar sem hún er ekki í samræmi við byggingarhefð á svæðinu.“ Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar 2. október 2008. Með bréfi umboðsmanns kæranda til umhverfisnefndar, dags. 26. september 2008, var óskað eftir rökstuðningi synjunar nefndarinnar frá 19. september s.á. og sérstaklega bent á að um væri að ræða steinsteypt hús og ef húsið yrði klætt með Steni yrði það líkast því sem það hafi verið í upphafi. Á fundi umhverfisnefndar 8. október 2008 var erindi kæranda tekið fyrir og eftirfarandi fært til bókar: „Samkvæmt niðurstöðum skipulagshóps Norðan Djúps vegna Aðalskipulags 2008-2020 er lagt til að útlit sumarhúsa og breytingar á eldri húsum skuli taka mið af þeim byggingarstíl sem tíðkaðist á meðan byggð var á svæðinu, einkum er átt við stærð, efnisval, lit, hlutföll og þakgerð. Skv. gr. 8.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 þá segir að meta skuli útlitshönnun bygginga hvað varðar form, hlutföll, efni og næsta umhverfi. Samkvæmt byggingarhefð voru hús almennt steypt, timburklædd eða bárujárnsklædd.“ Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar 16. október 2008.
Skaut kærandi samþykkt umhverfisnefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að sumarhúsið að Höfðaströnd II hafi verið byggt árið 1930. Óskað hafi verið eftir heimild umhverfisnefndar til að klæða húsið að utan með Steni klæðingu sem sé viðurkennt byggingarefni. Heimilað hafi verið að klæða hús að utan með Steni um allt land, þar á meðal á Ísafirði. Með vísan til þessa heldur kærandi því fram að hin kærða synjun sé brot á jafnræðisreglu.
Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu Ísafjarðarbæjar er vísað til þess að búið sé að vinna Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar 2008-2020.
Fullyrðing kæranda þess efnis að Steni klæðning sé viðurkennt byggingarefni á Ísafirði sé rétt, en einungis á yngri húsum og nýbyggingum sem ekki lúti reglum Húsafriðunarnefndar. Húsið Höfðaströnd II sé byggt 1930 og sé staðsett í Jökulfjörðum og lúti ákveðnum reglum eins og fram komi í Aðalskipulagi Ísafjarðar 2008-2020 og sé ljóst að Steni klæðning hafi ekki tíðkast á þessum stað á þeim tíma.
Vísað sé til útdráttar úr aðalskipulagi bæjarins og byggi umhverfisnefnd niðurstöðu sína á því sem þar segi: „Stór hluti Ísafjarðarbæjar er á náttúruminjaskrá vegna sérstæðrar náttúru og menningarsögu. Hornstrandafriðland, Snæfjallaströnd og sunnanverðir Jökulfirðir hafa mikla sérstöðu vegna einangrunar, búsetuminja og sögu svæðisins.“ Þá segi eftirfarandi í umhverfismati svæðisins: „Óheft uppbygging myndi hafa mikla óvissu í för með sér og mögulega mikil áhrif á lífríki, landslag og upplifun þeirra sem sækja svæðið til dvalar eða útivistar. Sagan og þær búsetuminjar sem finnast á svæðinu eru mikilvægur þáttur í þeirri sérstöðu sem einkennir svæðið.“
Þá sé vísað til þess að um frístundahús norðan Djúps og á hverfisvernduðum svæðum gildi, auk almennra ákvæða um frístundahús í aðalskipulagi bæjarins, eftirfarandi skipulagsákvæði: „Megináhersla er lögð á að viðhalda ásýnd svæðanna eins og þau voru þegar þau voru byggð. Útlit nýrra húsa og breytingar á eldri húsum skal taka mið af þeim byggingarstíl sem tíðkaðist meðan byggð hélst enn á svæðinu. Einkum er átt við stærð, efnisval, lit, hlutföll og þakgerð.“ Þá segi eftirfarandi um Höfðaströnd: „Svæðið er á náttúruminjaskrá, þar má endurbyggja öll íbúðarhús og þjónustuhús sem búið var í eftir 1908. Hús byggð eftir 1965 teljast nýbyggingar. Viðhalda skal ásýnd svæðisins eins og það var þegar það var í byggð. Útlit húsa skal taka mið af þeim byggingarstíl sem tíðkaðist meðan byggð hélst á svæðinu. Allar byggingar skulu vera í sátt við náttúru og landslag svæðisins og nánar útfærðar í deiliskipulagi og umhverfismati.“
Niðurstaða: Í máli þessu er kærð synjun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 19. september 2008 á umsókn um leyfi til að klæða þrjár hliðar hússins að Höfðaströnd II með Steni utanhússklæðningu.
Í 8. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 segir m.a. í 5. lið að þyki byggingarnefnd sérstök ástæða til geti hún bundið byggingarleyfi því skilyrði að gengið verði frá húsi að utan með tilteknum hætti, t.d. með ákveðinni klæðningu. Synjaði umhverfisnefnd umsókn kæranda með þeim rökum að Steni klæðning væri ekki í samræmi við byggingarhefð á svæðinu.
Verður að telja að tilvísun nefndarinnar til byggingarhefðar feli í sér fullnægjandi málefnaleg rök fyrir hinni kærðu ákvörðun svo sem áskilið er í 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og verður ekki séð að hin kærða ákvörðun hafi verið haldin neinum þeim annmörkum er ógildingu varði. Verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.
Síðar til komin rök, sem m.a. eiga stoð í nýju aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar, hafa ekki þýðingu við úrlausn málsins og verður því engin afstaða tekin til þeirra í úrskurði þessum.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu synjunar umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 19. september 2008 á umsókn um leyfi til að klæða þrjár hliðar hússins að Höfðaströnd II með Steni utanhússklæðningu.
_____________________________
Hjalti Steinþórsson
____________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson