Árið 2024, föstudaginn 20. september, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:
Mál nr. 100/2024, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 23. maí 2024 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.181.3, Lokastígsreits 4 vegna lóðar nr. 61 við Njarðargötu.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 19. september 2024, kærir A, Lokastíg 25, ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 23. maí s.á. um breytingu á deiliskipulagi reits 1.181.3, Lokastígsreits 4 vegna lóðar nr. 61 við Njarðargötu. Af hálfu kæranda er þess krafist að grenndarkynnt verði í samræmi við lög og reglur. Þá er óskað eftir staðfestingu á framkvæmd grenndarkynningar skipulagsins og að kannað verði hvort unnt sé að endurskoða deiliskipulagsbreytinguna. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að jafnframt sé krafist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.
Málsatvik og rök: Auglýsing um hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní 2024. Í henni felst breyting á byggingarreit Njarðargötu 61 svo unnt verði að byggja þrjár hæðir og ris á lóðinni með allt að átta íbúðum, byggingarmagn aukist og nýtingarhlutfall hækki. Kæru vegna sömu deiliskipulagsbreytingar var vísað frá úrskurðarnefndinni með úrskurði í máli nr. 99/2024 hinn 18. september 2024 þar sem kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála var talinn liðinn.
Af hálfu kæranda er vísað til þess að honum hafi ekki verið tilkynnt um þá deiliskipulagsbreytingu sem um er deilt í málinu, eins og lög geri þó kröfu um. Hvorki kærandi né aðrir íbúar í nærliggjandi húsum hafi fengið tilkynningu eða boð um að taka þátt í grenndarkynningu sem þó hafi verið fullyrt.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til erindis kæranda að því er varðar beiðni um framkvæmd grenndarkynningar, staðfestingu á fyrirkomulagi hennar eða að kannað verði hvort unnt sé að endurskoða hinna umdeildu deiliskipulagsbreytingu. Verður sá hluti málsins framsendur Reykjavíkurborg til afgreiðslu í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá fyrstu birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem deilt er um í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní 2024 og tók kærufrestur að líða degi síðar, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 13. september s.á. og var kærufrestur þá liðinn.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verður talið eins og atvikum er háttað að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undantekningarákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga enda hefur lögmælt opinber birting ákvörðunar þá þýðingu að almenningi telst vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.