Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

100/2020 Urðarbrunnur

Árið 2020, fimmtudaginn 22. október tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 100/2020, kæra á afgreiðslu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 28. ágúst 2020 á fyrirspurn um byggingu tvíbýlishús á tveimur hæðum við Urðarbrunn 16, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. október 2020, er barst nefndinni 15. s.m., kærir VG verk og bygg ehf. „vegna ákvörðunar skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 28. ágúst 2020, þar sem hafnað var að framangreindum aðila væri heimilt að byggja tvíbýlishús á tveimur hæðum á lóð nr. 16 við Urðarbrunn, með vísan til neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa.” Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt fyrir skipulagsfulltrúa að taka nýja ákvörðun í málinu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. október 2020.

Málavextir: Hinn 22. júní 2020 sendi kærandi á þar til gerðu eyðublaði fyrirspurn til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar þar sem farið var fram á leyfi til þess að byggja tvíbýlishús á tveimur hæðum á lóð nr. 16 við Urðarbrunn. Eyðublaðinu fylgdi minnisblað byggingarverkfræðings sem sýndi tillögu að fyrirkomulagi lóðarinnar og aðkomu fyrir tvíbýlishús og var efni minnisblaðsins tilgreint sem „fyrirspurn vegna breytingar á deiliskipulagi“ Samkvæmt deiliskipulagi Úlfarsárdals sem tók gildi 6. febrúar 2018 er umrædd lóð skráð sem einbýlishúsalóð og kom það fram í minnisblaðinu. Með tölvupósti 29. júní 2020 var kæranda tilkynnt að af hálfu byggingarfulltrúa hefði erindið verið framsent til skipulagsfulltrúa til afgreiðslu.

Fyrirspurnin var lögð fram á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 3. júlí 2020 og henni vísað til umsagnar verkefnastjóra. Fyrirspurnin ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 28. ágúst 2020, var lögð fram að nýju á fundi skipulagsfulltrúa sama dag. Í umsögninni kom m.a. fram að þegar deiliskipulag Úlfarsárdals hefði farið í gegnum heildarendurskoðun hafi m.a. verið skoðuð samsetning húsagerða og hvar þyrfti að breyta fjölda íbúða. Niðurstaðan hafi verið að Urðarbrunnur 16 yrði einbýlishúsalóð í skipulagslegu samhengi við aðrar einbýlishúsalóðir. Fjölda íbúða verði að skoða út frá samhengi við aðra þætti, t.d. stærð og lögun lóðar, byggðamynstur, innviði og lágmarkskröfum sem gerðar séu fyrir hvert fastanúmer. Umrædd lóð, byggðamynstur og innviði byði ekki upp á að fjölga fastanúmerum. Var og bókað á fundi skipulagsfulltrúa að neikvætt væri tekið í erindið með vísan til greindrar umsagnar og hefur sú afgreiðsla verið kærð.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að með ákvörðun skipulagsfulltrúa hafi sveitarfélagið gerst brotlegt gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Margvísleg dæmi séu um að skipulagsfulltrúi hafi heimilað að breyta einbýlishúsalóðum í lóðir fyrir tvíbýli og eða fjölbýli í Gefjunar-, Iðunnar- og Urðarbrunni. Skipulagsfulltrúi tiltaki að Urðarbrunnur 16 verði áfram einbýlishúsalóð, en skömmu áður hafi hann samþykkt að einbýlishúsalóð Urðabrunnar 10-12 verði breytt í parhúsalóð. Röksemdum skipulagsfulltrúans um að lóðin nr. 16, byggðamynstur og innviðir bjóði ekki upp á breytingu sé því hafnað sem röngum.

Þegar markmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 séu skoðuð sé ljóst að umrædd ákvörðun sé ekki í samræmi við yfirlýst markmið þess um stóraukna áherslu á þéttingu byggðar og blöndun byggðarmynsturs. Þessi takmörkun og órökstudda kvöð sem sett sé á lóð nr. 16 að Urðarbrunni samræmist illa framangreindum markmiðum og megi leiða að því líkum að takmörkunin byggist á ómálefnanlegum sjónarmiðum og gangi lengra en nauðsyn krefji.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki hafi verið tekin nein lokaákvörðun í málinu, en kært sé svar við fyrirspurn kæranda til skipulagsfulltrúa. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verði ekki lögð að jöfnu við formlega leyfisumsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli geti ekki, eðli máls samkvæmt, talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgi. Sé því ljóst að svar skipulagsfulltrúa vegna fyrirspurnar feli ekki í sér lokaákvörðun og beri því að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu er í máli þessu deilt um neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa á erindi kæranda þar sem á eyðublaði vegna fyrirspurna til byggingarfulltrúa er „sótt um leyfi til að byggja tvíbýlishús“ á lóðinni Urðarbrunni 16. Eyðublaðinu fylgdi minnisblað og efni þess tilgreint sem fyrirspurn um breytingu á deiliskipulagi. Erindi kæranda var því sett fram sem fyrirspurn þótt orðalagið benti til þess að öðrum þræði væri sótt um leyfi. Afgreiðsla skipulagsfulltrúa og umsögn hans bera þess einnig öll merki að um afgreiðslu á fyrirspurn væri að ræða.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verður ekki lögð að jöfnu við formlega umsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Neikvæð afgreiðsla skipulagsfulltrúa á fyrirspurn kæranda fól því ekki í sér lokaákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Það athugist að minnisblað það sem fylgdi erindi kæranda bar með sér að fyrirspurnin lyti að breytingu deiliskipulags. Í ljósi þess að skýrt kom fram að um fyrirspurn væri að ræða verður ekki gerð athugasemd við að erindinu hafi ekki verið beint í farveg deiliskipulagsbreytingar en verði af hálfu kæranda sótt um slíka breytingu er ákvörðun um samþykkt hennar eða synjun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefnd.