Árið 2019, miðvikudaginn 19. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðar-nefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 100/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2018, er barst nefndinni 18. s.m., kæra eigendur, Kvistavöllum 48, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 27. mars 2018 að samþykkja með skilyrðum leyfisumsókn fyrir skjólvegg á lóðarmörkum Kvistavalla 48 og bæjarlands. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 19. júlí 2018 og í maí og júní 2019.
Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 27. mars 2018 var tekin fyrir umsókn kærenda um leyfi fyrir skjólvegg sem stendur á mörkum lóðar þeirra við Kvistavelli og lands í eigu bæjarins. Umsóknin var samþykkt að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett voru fram í umsögn arkitekts, dags. s.d. Í umsögninni kemur m.a. fram að grindverkið sé mjög hátt og myndi langan vegg. Lækka þurfi grindverkið út mót götu niður í 140 cm. Kærendum barst tilkynning um afgreiðslu byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 18. febrúar 2019, þar sem beðist var velvirðingar á því að tilkynning um afgreiðsluna hafi ekki borist fyrr.
Kærendur vísa til þess að þau hafi upphaflega byggt 180 cm hátt grindverk, en vilji sættast á að hafa það 160 cm. Bæjaryfirvöld vilji það hins vegar ekki og gangi út frá að grindverkið verði að vera 140 cm að hæð. Aðrir eigendur íbúða í umræddu raðhúsi hafi þegar reist grindverk sín og séu þau frá 140 cm og upp í 160 cm.
Bæjaryfirvöld benda á að með umsókn óski kærendur eftir leyfi fyrir grindverki sem þegar sé reist við lóðarmörk sem liggi að bæjarlandi og gangstétt. Óski kærendur eftir að reisa 180 cm grindverk. Verklag sem unnið sé eftir af hálfu bæjaryfirvalda sé að samþykkja 140 cm há grindverk almennt að bæjarlandi, en leyfa 160 cm grindverk við umferðargötur þar sem sé strætisvagnaumferð. Hæð sé miðuð við G tölur á útgefnum hæðarblöðum. Einnig þurfi að passa upp á götuhorn og innkeyrslur inn á lóðir vegna útsýnis og slysahættu.
Niðurstaða: Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands urðu eigendaskipti að fasteign kærenda í húsinu að Kvistavöllum 48 með kaupsamningi, dags. 29. nóvember 2018, sem þinglýst var 10. desember s.á. Var afsal fyrir eigninni til kaupenda þinglýst 15. júní 2019.
Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Lögvarðir hagsmunir kærenda í máli þessu voru tengdir réttarstöðu þeirra sem handhafa fasteignaréttinda í húsinu að Kvistavöllum 48. Eins og fyrr er rakið eiga kærendur ekki lengur réttindi tengda umræddri fasteign og eiga því ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.