Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

100/2017 Þrastargata

Árið 2017, föstudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 100/2017, kæra vegna ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir kvisti á húsi nr. 7b við Þrastargötu og vegna breytinga á þeirri ákvörðun frá 19. september og 3. október s.á.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. september 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir, eigandi húss að Þrastagötu 7, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir kvisti á hús nr. 7b við Þrastargötu. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. október 2017, sem barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili enn fremur samþykki leyfisins eins og því var breytt með ákvörðunum byggingarfulltrúa hinn 19. september og 3. október 2017. Er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi að hluta.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 21. september og 11. október 2017.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Fálkagötureita, sem samþykkt var á árinu 2008 og tekur m.a. til lóðarinnar Þrastargötu 7b. Í almennum skilmálum skipulagsins kemur fram að heimilt sé að byggja kvisti á risþök á helmingi þakflatar og skuli fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1 m. Gæta skuli að því að kvistur fari húsum vel og falli vel að byggingarstíl þeirra. Fyrir fasteignina að Þrastargötu 7b gildir sérskilmáli um að heimilt sé að byggja þar litla viðbyggingu, pall, kvist og geymsluskúr.

Á árinu 2015 var sótt um leyfi til byggingarfulltrúa fyrir áður byggðum kvisti á suðurhlið hússins við Þrastargötu 7b, auk nýs kvists á norðurhliðinni og sólskála við húsið. Minjastofnun veitti af því tilefni álit sitt, dags. 24. mars 2015, og gerði ekki athugasemd við byggingaráformin með þeim rökstuðningi að nýr kvistur yrði sambærilegur að gerð og stærð og sá kvistur sem fyrir væri á suðurhlið hússins og að gluggar kvistsins tækju mið af gerð þeirra sem fyrir væru.

Með umsókn, dags. 7. júní 2017, var umsóknin frá árinu 2015 lögð fram að nýju með vísan til þess að einungis sá hluti erindisins sem sneri að þegar byggðum kvisti hefði hlotið samþykki. Væri því sótt um leyfi til byggingar viðbyggingar og nýs kvists og vísað til fyrrnefnds álits Minjastofnunar. Erindið var tekið fyrir á nokkrum afgreiðslufundum byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í júní, júlí og ágúst 2017. Niðurstaðan varð sú að bókað var á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 11. ágúst að sækja þyrfti um breytingu á deiliskipulagi vegna sólskála sunnan hússins. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 29. s.m. var leyfi fyrir áður gerðum breytingum samþykkt og umsókn um byggingu nýs kvists á norðurhlið hússins sömuleiðis.

Kæra vegna þessarar samþykktar byggingarfulltrúa barst úrskurðarnefndinni 14. september 2017 og í kjölfarið var málið tilkynnt borgaryfirvöldum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. s.m. var erindi leyfishafa um breytingu á fyrra byggingarleyfi samþykkt, en sú breyting fól í sér að málsetning umrædds kvists var leiðrétt á uppdráttum. Byggingarfulltrúi tilkynnti hinn 26. s.m. að hann hefði farið á vettvang og skoðað framkvæmdina. Hefði hann í kjölfarið stöðvað framkvæmdir þar sem kvistur hefði farið hærra í þaki en samþykktir uppdrættir sýndu. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. október s.á. var erindi leyfishafa um frekari breytingu á byggingarleyfinu samþykkt, sem fól í sér að mænishæð á uppdráttum var breytt. Jafnframt var bókað að um óverulegt frávik frá deiliskipulagi væri að ræða, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kjölfarið var stöðvun framkvæmda aflétt.

Málsrök kæranda: Kærandi tiltekur að kæran snúi einungis að þeim hluta byggingarleyfisins sem varði heimild til byggingar kvists norðanmegin hússins að Þrastargötu 7b, en sú hlið hússins snúi að lóð hans að Þrastargötu 7. Framkvæmdin snerti grenndarhagsmuni kæranda í ljósi þess að fyrirhugaður kvistur muni varpa skugga á lóð hans. Byggingarleyfið sé í andstöðu við skilmála gildandi deiliskipulags fyrir Fálkagötureiti, enda nái fyrirhugaður kvistur yfir 74% þakflatar og muni vera 0,77 m og 0,85 m frá þakendum hvorum megin. Brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins. Byggðarmynstur Þrastargötu njóti verndar samkvæmt skilmálum deiliskipulags og hefði því borið að leita álits Minjastofnunar eða annars sérfróðs aðila um stækkunina, líkt og kæranda hafi borið að gera við framkvæmdir á húsi sínu að Þrastargötu 7 nokkrum árum fyrr.

Veita hefði átt kæranda andmælarétt í tilefni af samþykkt byggingarfulltrúa á nýjum aðaluppdrætti vegna breytinga á hinu kærða byggingarleyfi, enda væri hann aðili máls. Þá hafi ekki verið til staðar heimild til að breyta eða endurskoða hina kærðu ákvörðun, sbr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þrátt fyrir breytingu á byggingarleyfi, með lagfæringu á aðaluppdráttum, séu samþykkt byggingaráform í andstöðu við deiliskipulagsskilmála. Enda þótt lengd þaks hafi verið breytt úr 6,30 m, samkvæmt uppdrætti samþykktum 29. ágúst 2017, í 6,68 m, á uppdrætti samþykktum 19. september s.á., og í 6,87 m á uppdrætti samþykktum 3. október s.á., séu kvistir enn innan við 1 m frá þakbrún. Miðað við breytta þaklengd á aðaluppdrætti sé grunnflötur kvists 65% af þakfleti. Kvistir séu hærri en gefið sé upp á aðaluppdrætti.

Gerðar séu athugasemdir við umsögn Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. september 2017. Þannig sé því mótmælt að hagsmunir kæranda skerðist ekki að því er varði útsýni, skuggavarp eða innsýn. Engin rannsókn hafi verið gerð á þessu, en augljóst megi telja að hækkun á kvisti og stækkun á flatarmáli hans hafi áhrif á útsýni frá Þrastargötu 7 og á skuggavarp inn á þá lóð og á hús sem þar standi. Þá sé ósamræmi aðaluppdrátta við deiliskipulag umfram það sem heimilað sé, með vísan til 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en Reykjavíkurborg hafi ekki lagt mat á þetta ósamræmi. Því sé og hafnað að húsið við Þrastargötu 7b sé bakhús, en það sé mjög áberandi, séð frá Hjarðarhaga. Loks liggi fyrir að yfirstandandi framkvæmdir séu í verulegu ósamræmi við þau áform sem Minjastofnun hafi veitt álit sitt um á árinu 2015.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að umræddur kvistur standi meira en 1 m frá þakbrúnum í samræmi við deiliskipulag. Þótt hann fari yfir meira en helming þakflatar sé frávikið það óverulegt að það falli undir 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ákvæðið heimili að við útgáfu byggingarleyfis megi víkja óverulega frá deiliskipulagi, enda skerðist hagsmunir nágranna í engu að því er varði útsýni, skuggavarp eða innsýn. Kvisturinn standi lægra en þakbrún og muni ekki varpa meiri skugga en þegar sé til staðar. Álits Minjastofnunar hafi verið leitað um sömu teikningar á árinu 2015 og hafi það álit verið jákvætt. Ósk kæranda um niðurrif hússins að Þrastargötu 7 og byggingu nýs staðsteypts húss sé ekki sambærileg við ósk leyfishafa um að byggja lítinn kvist. Rannsóknarreglu hafi því verið gætt og jafnræðisregla ekki verið brotin.

Athugasemdir leyfishafa: Byggingarleyfishafi segir umræddan kvist þegar risinn í fullu leyfi yfirvalda, í samræmi við gildandi deiliskipulag. Fjarlægð kvista frá þakendum hafi verið leiðrétt á uppdráttum og sé 1,12 m. Álits arkitekts hafi verið leitað um skuggavarp á húsið og lóðina að Þrastargötu 7 og hafi það verið talið ólíklegt. Ekki sé hægt að sjá hvaða grenndarhagsmuna kærandi hafi að gæta. Á suðurhlið húss hans séu hvorki svalir né þakgluggi sem skuggi geti fallið á. Þá sé suðurlóð hans 1,14 m á breidd, mælt frá húsi, og girt af með þéttri 2,20 m hárri girðingu. Álits Minjastofnunar hafi verið leitað vegna byggingarleyfisumsóknarinnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis vegna kvists á norðurhlið hússins að Þrastargötu 7b. Kærendur telja leyfið fara út fyrir heimildir í gildandi deiliskipulagi, en Reykjavíkurborg telur leyfið falla innan skipulagsheimilda, m.a. með tilliti til heimildarákvæðis 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Upphaflegt byggingarleyfi var útgefið af byggingarfulltrúa 29. ágúst 2017. Leyfinu var breytt í tvígang með ákvörðunum byggingarfulltrúa hinn 19. september og 3. október s.á. Líta verður svo á að með nefndum breytingum séu eldri leyfi úr gildi fallin. Fram hefur komið hjá kæranda að kæran nái eftir atvikum til allra þessara þriggja ákvarðana. Í ljósi þess að tvær fyrrnefndu ákvarðanirnar hafa í reynd fallið úr gildi verður þeim þætti málsins vísað frá úrskurðarnefndinni. Eftir stendur hið kærða byggingarleyfi eins og það stóð efnislega eftir síðustu samþykkt afgreiðslufundar byggingarfulltrúa hinn 3. október 2017.

Af aðaluppdrætti þeim sem samþykktur var af byggingarfulltrúa hinn 3. október 2017 má ráða að fjarlægð umrædds kvists frá þakendum skuli vera 1,12 m hvorum megin. Lengd þaksins er málsett 6,87 m, grunnflötur risþaks 5,00 m og mænishæð 2,24 m. Að teknu tilliti til lengdar frá þakendum er lengd norðurkvistsins því 4,63 m og á breiddina nær hann alveg frá mæni að þakbrún. Kvistur á suðurhlið hússins er svipaður þeim kvisti. Reiknuð breidd hvors þakflatar risþaksins út frá málsetningu aðaluppdráttar er 3,36 m. Hvor þakflötur risþaksins án kvista er því 23,1 m2, en sá flötur sem fer undir hvorn kvist er 15,6 m2. Hvor kvistur þekur því um 67,5% þess þakflatar sem hann stendur á.

Í gildandi sérskilmálum fyrir húsið að Þrastargötu 7b, í deiliskipulagi Fálkagötureita frá árinu 2008, kemur fram að heimilt sé að byggja kvist á húsið. Í almennum skilmálum skipulagsins er enn fremur heimilað að byggja kvisti á risþök á helmingi þakflatar og skuli fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1 m. Umræddir aðaluppdrættir uppfylla þá skipulagsskilmála að kvistur sé meira en 1 m frá þakenda. Reykjavíkurborg lagði fram útreikning á hlutfalli kvistar á norðurhlið af heildarþakfleti hússins. Þar er þakflötur kvists sagður vera 15,5 m2, en að heildarþakflötur sé 40,2 m2. Hann sé því 39% af heildarþakfleti hússins. Í þeim útreikningi er þakflötur lágreistrar viðbyggingar lagður við heildarþakflöt risþaksins, en sá hluti þaksins sem fer undir kvistinn dreginn frá. Þá reiknast áður byggður kvistur ekki inn í hlutfallstölu kvista þaksins. Með hliðsjón af texta skilmála skipulagsins verður ekki á þessum forsendum byggt. Þak viðbyggingarinnar getur ekki talist hluti risþaks. Sú hlutfallstala sem vísað er til í skipulagsskilmálunum getur annað hvort átt við um hlutfall kvista á þeirri hlið risþaks sem við á hverju sinni eða eftir atvikum hlutfall allra kvista á öllum þakflötum viðkomandi risþaks. Á hvorn veginn sem er teldist hlutfall kvista á því risþaki sem hér um ræðir vera um 67,5% og því nokkuð umfram þá heimild sem tilgreind er í deiliskipulagsskilmálum. Af framangreindu má ljóst vera að aðaluppdrættir hins kærða byggingarleyfis frá 3. október 2017 eru í ósamræmi við heimild skipulagsins til byggingar kvista, sem takmarkast við helming þakflatar.

Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur sveitarstjórn heimilað að gefið sé út byggingarleyfi sem víki óverulega frá deiliskipulagi, enda skerðist hagsmunir nágranna í engu að því er varðar nánar tiltekin atriði. Í bókun á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa um samþykkt umrædds byggingarleyfis hinn 3. október 2017 kemur fram að byggingarleyfið feli í sér óverulegt frávik frá deiliskipulagi. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki ráðið að samþykkis sveitarstjórnar, samkvæmt nefndu ákvæði, hafi verið aflað áður en hið kærða byggingarleyfi var samþykkt af byggingarfulltrúa. Þar að auki verður frávik frá heimilaðri stærð kvists, sem hlutfall af stærð risþaks, úr 50% í 67,5%, ekki talið óverulegt og ekki liggur fyrir að útilokað sé að umræddur kvistur geti haft grenndaráhrif gagnvart kæranda.

Skilyrði fyrir samþykki byggingarleyfis er að viðkomandi mannvirki samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Svo sem að framan greinir verður hið kærða byggingarleyfi ekki talið vera í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags Fálkagötureita og ber því að fella það úr gildi.

Úrskurðarorð:

Hinum kærðu ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst og 19. september 2017 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. október 2017 um að veita  byggingarleyfi fyrir kvisti á norðurhlið hússins að Þrastargötu 7b.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________               ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson