Árið 2012, föstudaginn 24. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 10/2012, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 17. febrúar 2012 um að heimila stækkun lóðar og að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Strandvegi 102 í Vestmannaeyjum og ákvörðun byggingarfulltrúa sama dag um að veita leyfi til könnunar jarðvegs í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2012, er barst nefndinni 21. sama mánaðar, kærir Arnar Þór Stefánsson hrl., f.h. V hf., Hafnargötu 2, Vestmannaeyjum, ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 17. febrúar 2012 um að heimila stækkun lóðar og að veita Í hf., Strandvegi 28, byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við frystihús félagsins að Strandvegi 102. Þegar kæran barst úrskurðarnefndinni hafði málið ekki komið til afgreiðslu bæjarstjórnar, en upplýst hefur verið að hin kærða ákvörðun var tekin fyrir til umræðu og staðfestingar á fundi bæjarstjórnar 22. febrúar 2012 og samþykkt þar með fimm atkvæðum. Þá hefur verið upplýst að framkvæmdir sem hafnar eru á byggingarstað studdust við leyfi sem byggingarfulltrúi veitti með vísan til byggingarreglugerðar nr. 112/2012 hinn 17. s.m. til að kanna jarðveg í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir. Hefur kærandi áréttað að kæra hans taki einnig til þessa leyfis.
Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurðarnefndin úrskurði að nýhafnar framkvæmdir að Strandvegi 102 verði stöðvaðar til bráðabirgða. Þá er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun Vestmannaeyjabæjar um að heimila stækkun lóðar og að veita leyfi fyrir viðbyggingunni.
Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.
Málsatvik: Málsatvikum verður hér aðeins lýst stuttlega í bráðbirgðaúrskurði þessum. Fyrir liggur að lóðarhafi að Strandvegi 102 óskaði eftir því í lok desember 2011 að lóð hans yrði stækkuð til austurs og norðurs og að honum yrði veitt leyfi til að reisa þar viðbyggingu við fasteign þá er fyrir er á lóðinni. Af málsgögnum verður ráðið að erindi þetta hafi átt sér talsverðan aðdraganda og var m.a. fjallað um hliðstætt erindi á fundi framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja 14. nóvember 2010. Eftir skoðun á málinu var ákveðið á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 20. janúar 2012 að grenndarkynna erindið. Gerði kærandi athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd með bréfi, dags. 16. febrúar 2012. Málið var tekið fyrir í umhverfis- og skipulagsráði 17. s.m. þar sem erindi lóðarhafa Strandvegar 102 var samþykkt og veitti byggingarfulltrúi þann sama dag leyfi til könnunar jarðvegs á staðnum. Mun leyfishafi hafa byrjað framkvæmdir daginn eftir, en kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni 20. febrúar 2012.
Málsrök kæranda: Kærandi styður kröfu sína um stöðvun framkvæmda þeim rökum að svo mikil óvissa sé um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar að stöðva beri framkvæmdir þar til skorið hafi verið úr um það. Grenndarkynningu hafi verið áfátt og hafi frestur til andmæla m.a. verið of skammur. Þar að auki hafi ekki verið heimilt að afgreiða umrætt byggingarleyfi með grenndarkynningu heldur hefði deiliskipulag þurft að koma til. Þá fari hin kærða ákvörðun í bága við Aðalskipulag Vestmannaeyjabæjar 2002-2014, auk þess sem formgallar hafi verið á meðferð málsins.
Málsrök Í hf: Af hálfu Í hf. er þess krafist að kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda verði vísað frá en að öðrum kosti að henni verði hafnað. Er málatilbúnaði kæranda mótmælt og því hafnað að mikill hraði og óvandvirkni hafi einkennt meðferð málsins hjá bæjaryfirvöldum.
Samkvæmt gr. 2.9.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. og 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, séu tiltekin skilyrði sett fyrir stöðvun framkvæmda. Í engu sé vísað til þessara ákvæða í kæru og því hafi kærandi ekki sýnt fram á að lagaskilyrði séu fyrir stöðvunarkröfunni. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á að hann eigi neina lögvarða hagsmuni því tengda að fá umræddar framkvæmdir stöðvaðar, en hafa verði í huga að þær styðjist einungis við leyfi byggingarfulltrúa til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæði. Sú framkvæmd ein og sér geti ekki falið í sér slíka röskun á hagsmunum kæranda að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni af því að fá henni afstýrt. Loks sé upplýst að könnun á jarðvegi sé lokið og muni því ekki koma til neinna frekari framkvæmda nema að fengnu byggingarleyfi, verði slíkt leyfi veitt, en ákvörðun um slíkt leyfi sé á forræði og ábyrgð Vestmannaeyjabæjar. Öðrum málsástæðum sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum.
Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Af hálfu Vestmannaeyjabæjar er sá skilningur lagður í kröfugerð kæranda að fyrri liður kærunnar lúti að útgáfu leyfis skipulags- og byggingarfulltrúa til Í hf., dags. 17. febrúar 2012, til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæði án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út. Útgáfa slíks leyfis styðjist við heimild í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. 3. mgr. gr. 2.4.4.
Annar kröfuliður kæranda lúti hins vegar að útgáfu byggingarleyfis vegna framkvæmdanna.
Aðeins sé nú til umfjöllunar krafa kæranda um stöðvun framkvæmda. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi gefið út leyfi til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæði. Slíkt leyfi sé ekki háð útgáfu byggingarleyfis eins og getið sé í gr. 2.4.4 í byggingarreglugerð, sem leyfið byggi á. Leyfishafi hafi lokið framkvæmdum við könnun á jarðvegi á framkvæmdasvæði miðvikudaginn 22. febrúar 2012 í samræmi við útgefið leyfi.
Vestmannaeyjabær telji því að kröfur kæranda eigi ekki við rök að styðjast, enda hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út eins og kröfugerð kæranda virðist byggjast á. Útgáfa leyfis til könnunar á jarðvegi hafi átt sér fullnægjandi lagastoð eins og gerð hafi verið grein fyrir. Vestmannaeyjabær telji að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um að framkvæmdir vegna könnunar á jarðvegi verði stöðvaðar þar sem þeim framkvæmdum sé lokið, en ekki sé gerð krafa um að leyfið sem slíkt sé fellt úr gildi. Með vísan til framangreindra raka telji bæjaryfirvöld að vísa beri kröfum kæranda frá úrskurðarnefndinni, en til vara að þeim verði hafnað.
Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við meðferð málsins.
Niðurstaða: Með bréfi til Í hf., dags. 23. febrúar 2012, tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi að á fundi bæjarstjórnar hinn 22. febrúar 2012 hefði verið samþykkt erindi félagsins er varðaði leyfi til að stækka fiskvinnsluhúsnæði að Strandvegi 102 og gefið yrði út skriflegt byggingarleyfi þegar leyfishafi hefði uppfyllt skilyrði gr. 2.4.4 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Verður að skilja bréf þetta svo að bæjaryfirvöld telji sig hafa lokið meðferð grenndarkynningar og samþykkt byggingaráform umsækjanda, sbr. 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, og að á grundvelli þessarar samþykktar geti byggingarfulltrúi gefið út byggingarleyfi og heimilað framkvæmdir að uppfylltum skilyrðum, sbr. 13. gr. tilvitnaðra laga. Má við því búast að byggingarleyfi verði veitt án fyrirvara og verði því að líta svo á að framkvæmdir á grundvelli fyrirliggjandi samþykktar séu yfirvofandi.
Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við rekstur kærumáls og er sú heimild hvorki háð skilyrðum gr. 2.9.1 í byggingarreglugerð, né 55. gr. laga um mannvirki eða 53. gr. skipulagslaga.
Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir úrskurðarnefndinni verður ráðið að ýmis álitamál séu uppi varðandi lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Þannig er óljóst um valdheimildir umhverfis- og skipulagsráðs, svo og hvort afgreiðsla bæjarstjórnar í kjölfar grenndarkynningar hafi verið fullnægjandi. Auk þess er til úrlausnar hvort skilyrði hafi verið til, að undangenginni grenndarkynningu, að veita leyfi til stækkunar lóðar og til viðbyggingar í stað þess að ráðast í gerð deiliskipulags fyrir svæðið. Umdeildar framkvæmdir ná út að götu og geta þær haft töluverða röskun í för með sér, m.a. fyrir kæranda, og þykir rétt, með tilliti til þeirrar óvissu sem ríkir um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar, að fallast á kröfu kæranda um að framkvæmdir við fyrirhugaða mannvirkjagerð að Strandvegi 102 skuli stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Skiptir ekki máli um þessa niðurstöðu þótt framkvæmdum samkvæmt leyfi byggingarfulltrúa til könnunar jarðvegs kunni að vera lokið, en byggingarfulltrúa ber að hlutast til um að fullnægjandi öryggis verði gætt á verkstað meðan stöðvun framkvæmda varir.
Úrskurðarorð:
Framkvæmdir á grundvelli samþykktar bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 22. febrúar 2012, um stækkun lóðar og viðbyggingu að Strandvegi 102, skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
_______________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson