Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

10/2010 Stóra Knarrarnes

Árið 2012, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 10/2010, kæra vegna dráttar á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á spildu úr landi Stóra Knarrarness II í Vogum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. mars 2010, er barst nefndinni 3. s.m., framsendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kæru P, Stóra Knarrarnesi, Vogum, dags. 10. febrúar 2010, þar sem kærður er dráttur á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á spildu úr landi Stóra Knarrarness II.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að lagt verði fyrir bæjarstjórn að taka fyrrgreint erindi kæranda til efnislegrar afgreiðslu. 

Málsatvik og rök:  Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga hinn 12. janúar 2009 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til byggingar einbýlishúss á spildu úr landi Stóra Knarrarness II.  Var umsókninni hafnað með þeim rökum að ekki lægi fyrir deiliskipulag að svæðinu og að gera þyrfti deiliskipulag í samræmi við aðalskipulag og lög nr. 73/1997 áður en hægt yrði að veita leyfið.  Með tölvupósti, dags. 16. janúar s.á., fór kærandi m.a. fram á að mál hans yrði tekið upp að nýju og á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 10. febrúar s.á. var fyrri afgreiðsla málsins ítrekuð.  Enn óskaði kærandi eftir því með bréfi, dags. 8. mars 2009, að umsókn hans yrði á ný tekin fyrir og að fram færi grenndarkynning vegna fyrirhugaðrar byggingar.  Umsókn hans var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 17. s.m, og fyrri afgreiðsla nefndarinnar ítrekuð.  Jafnframt var á það bent að ákvæði 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 um grenndarkynningu, ætti ekki við um umsókn kæranda þar sem ekki væri um að ræða þegar byggt hverfi.

Hinn 21. apríl 2009 var á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar tekin fyrir tillaga kæranda að deiliskipulagi spildu úr landi Stóra Knarrarness II og því beint til landeigenda að óska formlega eftir samstarfi við sveitarfélagið um gerð tillögunnar.  Var og samþykkt að auglýsa tillöguna að teknu tilliti til ákveðinna atriða sem nánar voru tilgreind í bókun.  Í kjölfar þessa fór kærandi fram á með bréfi, dags. 28. apríl 2009, að tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis yrði auglýst og á fundi bæjarstjórnar hinn 30. s.m. var samþykkt að hefja samstarf við landeiganda um gerð og auglýsingu deiliskipulags að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þ.á m. að samþykkt yrði tillaga að nýju Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga 2008-2028 og að deiliskipulagstillagan yrði auglýst samtímis á grundvelli hennar.  Nokkrum mánuðum síðar, eða hinn 15. október 2009, var málið tekið fyrir á fundi bæjarráðs, en þá lá þar fyrir bréf frá kæranda, dags. 1. s.m., þar sem gerðar voru athugasemdir við afgreiðslu málsins.   Bæjarráð lagði síðan til á fundi sínum hinn 5. nóvember s.á. að tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis yrði auglýst.  Að lokinni auglýsingu samþykkti bæjarstjórn skipulagstillöguna hinn 23. mars 2010.

Kærandi bendir á að hægt hefði verið að gefa út byggingarleyfi á grundvelli 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997 í ársbyrjun 2009.  Meðferð málsins hafi tekið 14 mánuði og sjái ekki þar fyrir endann á henni.  Telji kærandi að brotið hafi verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga, s.s. andmælarétti, upplýsingaskyldu, jafnræðisreglu, rannsóknarreglu, málshraða og leiðbeiningarskyldu.  Hafi seinagangur  við meðferð málsins einnig haft í för með sér verulega aukinn kostnað fyrir kæranda.  Þá sé sveitarfélagið ekki að vinna með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi.   

Af hálfu Sveitarfélagsins Voga er vísað til þess að kærandi hafi sótt um leyfi fyrir byggingu íbúðarhúss á svæði sem skilgreint hafi verið sem frístundasvæði í þágildandi aðalskipulagi.  Í ljósi þess hafi verið nauðsynlegt að breyta landnotkun á viðkomandi reit í aðalskipulagi svo hægt væri að gera deiliskipulag að reitnum og veita byggingarleyfi í kjölfarið.  Hafi breyting þess efnis verið gerð í nýju Aðalskipulagi  Sveitarfélagsins Voga 2008-2028, sem hafi verið í vinnslu hjá sveitarfélaginu þegar erindi kæranda hafi borist.  Hafi tillaga að nýju aðalskipulagi endanlega verið samþykkt í bæjarstjórn hinn 26. nóvember 2009 og staðfest af umhverfisráðherra 23. febrúar 2010.  Í ljósi þessa sé því hafnað að afgreiðsla byggingarleyfis til handa kæranda hafi dregist úr hófi en alltaf hafi staðið til að veita umsótt leyfi í framhaldi af gildistöku auglýstra skipulagsáætlana.  Vandséð sé að kærandi hafi hagsmuna að gæta í máli þessu eins og atvikum sé háttað og sé því farið fram á að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.  Er í máli þessu kærður dráttur á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi  fyrir einbýlishúsi á spildu úr landi Stóra Knarrarness II í Vogum.  Þegar umsókn kæranda kom fyrst fram í desember 2008 var í gildi fyrir umrætt svæði Aðalskipulag Vatnsleysustrandarhrepps 1994-2014 og var þar ekki gert ráð fyrir að byggja mætti íbúðarhús á svæðinu, en það var skilgreint sem frístundasvæði.  Hefði af þessum sökum hvorki verið unnt að veita byggingarleyfi á umræddum stað fyrir íbúðarhúsi að undangenginni grenndarkynningu né með heimild Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæða þágildandi skipulags- og byggingarlaga, enda hefði það leyfi farið í bága við gildandi aðalskipulag.

Fyrir liggur að eftir að kæra barst í máli þessu tók gildi nýtt Aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga 2008-2028, eftir staðfestingu ráðherra hinn 23. febrúar 2010.  Var þar m.a. breytt landnotkun fyrir umræddan reit þannig að þar væri unnt að reisa íbúðarhús og á grundvelli þess var samþykkt deiliskipulag íbúðarlóðar í landi Stóra Knarrarness II, sbr. auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2010.  Þá hefur verið upplýst að 16. júní 2010 var kæranda veitt byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á umræddu landi.  Hefur það ekki lengur þýðingu að lögum að úrskurða um drátt á afgreiðslu umsóknar kæranda um byggingarleyfi sem honum hefur þegar verið veitt og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. Þá var þess einnig vænst að mál þetta yrði afturkallað eftir að umrætt byggingarleyfi hafði verið veitt, en til þess hefur ekki komið.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson