Ár 2006, fimmtudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 10/2005, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 22. desember 2004 á tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Langholtsvegi 113 í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. janúar 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir H persónulega og fyrir hönd húsfélagsins að Langholtsvegi 109-111, Reykjavík, samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 22. desember 2004 á tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Langholtsvegi 113 í Reykjavík. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málsatvik: Hinn 22. október 2004 var á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Langholtsvegi 113. Var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum. Málið var í kynningu frá 27. október til 24. nóvember 2004. Nokkrar athugasemdir bárust, þ.á m. frá kærendum. Að lokinni grenndarkynningu var málinu vísað til skipulags- og byggingarnefndar, sem samþykkti umrædda deiliskipulagsbreytingu á fundi sínum 22. desember 2004.
Byggja kærendur ógildingarkröfu sína á því að deiliskipulagsuppdráttur sá sem kynntur hafi verið sé með rangri og villandi merkingu auk þess sem á honum séu gamlar upplýsingar, rangfærslur í sneiðingum og viðeigandi sneiðingar vanti. Þá hafi á skort að tekin hafi verið afstaða til athugasemda kærenda sem settar hafi verið fram við grenndarkynningu.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Sé sú krafa studd þeim rökum að hin kærða ákvörðun hafi aldrei öðlast gildi og séu því ekki forsendur til þess að hún verði felld úr gildi af úrskurðarnefndinni. Vekja beri athygli á að þrátt fyrir að skipulags- og byggingarnefnd hafi samþykkt umdeilda deiliskipulagsbreytingu hafi hún ekki öðlast gildi þar sem breytingin hafi ekki verið send Skipulagsstofnun til skoðunar auk þess sem gildistökuauglýsing hafi ekki birst í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga. Beri því að líta á fyrrgreinda samþykkt skipulags- og byggingarnefndar sem markleysu að lögum.
Niðurstaða: Fyrir liggur að umþrætt deiliskipulagsbreyting, er skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur samþykkti hinn 22. desember 2004, öðlaðist ekki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við lokamálsgrein 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Hin kærða ákvörðun fól því ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, og styðst sú ályktun enn fremur við 2. mgr. 27. gr. laganna, sem kveður á um að upphaf kærufrests sé við opinbera birtingu ákvörðunar, þar sem slík birting er lögmælt. Að þessu virtu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda er skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ _______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson