Ár 2001, miðvikudaginn 21. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 10/2000, kæra J á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 9. febrúar 2000 um að fresta afgreiðslu umsóknar um endurnýjun leyfis til stækkunar bílskúrs að Vatnsendabletti 102a, Kópavogi í allt að tvö ár.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. mars 2000, sem barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hdl., f.h. J, Vatnsendabletti 102, Kópavogi, ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 9. febrúar 2000 um að fresta afgreiðslu umsóknar hans um endurnýjun byggingarleyfis til stækkunar bílskúrs að Vatnsendabletti 102a, Kópavogi, í allt að 2 ár með stoð í 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997. Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 22. febrúar 2000.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt heimild til að hefja framkvæmdir á lóð sinni í samræmi við umsókn sína en til vara að staðfest verði að sá tími, sem heimilt kunni að hafa verið að fresta afgreiðslu umsóknar hans, sé liðinn. Til þrautavara er þess krafist að upphaf frestsins samkvæmt 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 verði miðað við 28. apríl 1998, en þá hafi kærandi sótt um leyfi til að stækka umræddan skúr í 50 fermetra.
Málavextir: Kærandi mun hafa keypt fasteignina Vatnsendablett 102a, íbúðarhús ásamt bílskúr, í febrúar 1994. Húsið hafði áður verið sumarbústaður en verið breytt í íbúðarhús. Hinn 10. september 1987 hafði verið veitt leyfi til að byggja við íbúðarhúsið og stækka bílskúr á lóðinni úr 21 fermetra í 36 fermetra, en síðar, eða hinn 12. september 1991, var veitt leyfi til þess að stækka bílskúrinn í 45 fermetra. Leyfi til stækkunar á skúrnum höfðu hins vegar ekki verið nýtt og höfðu því ekki verið gerðar þær breytingar á honum, sem leyfðar höfðu verið.
Hinn 28. apríl 1998 beindi kærandi fyrirspurn til byggingarnefndar um það hvort leyft yrði að stækka umræddan skúr í 50 fermetra. Erindi þessu var vísað til skipulagsnefndar Kópavogsbæjar og kom það til umfjöllunar á fundi nefndarinnar hinn 2. júní 1998. Taldi nefndin sér ekki fært að afgreiða erindið meðan ekki lægi fyrir samþykkt deiliskipulag af svæðinu. Var þessi niðurstaða staðfest á fundi bæjarráðs Kópavogs hinn 4. júní 1998.
Hinn 8. september 1998 sótti kærandi um leyfi til stækkunar bílskúrsins í 50 fermetra enda hafði fyrra erindi hans ekki komið til endanlegrar afgreiðslu byggingarnefndar. Var erindi kæranda hafnað á fundi byggingarnefndar hinn 16. september 1998. Voru færð fram þau rök fyrir þeirri niðurstöðu, að nefndin sæi sér ekki fært að samþykkja erindið þar eð deiliskipulag lægi ekki fyrir. Ákvörðun þessi var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 22. september 1998 og var kæranda tilkynnt um þessa niðurstöðu í málinu.
Kærandi vildi ekki una þessum málalokum og skaut málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi dags. 26. október 1998. Með úrskurði, uppkveðnum hinn 29. desember 1998, felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarnefndar frá 16. september 1998 um að synja erindi kæranda og var lagt fyrir byggingarnefnd að taka umsókn kæranda til meðferðar að nýju og ljúka afgreiðslu erindis hans í samræmi við ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.
Byggingarnefnd tók umsókn kæranda til meðferðar að nýju og vísaði málinu til skipulagsnefndar til nánari skoðunar. Á fundi byggingarnefndar hinn 12. maí 1999 var lögð fram bókun skipulagsnefndar um málið frá 30. mars 1999, svohljóðandi: „Aðeins hefur verið samþykkt deiliskipulag af litlum hluta Vatnsendalands, þar af er íbúðarhverfi með um 40 íbúðum á stórum lóðum, svokölluð Hvörf. (Þetta hverfi hefur stundum verið kallað „Sveit í bæ”). Í Aðalskipulagi Kópavogs er hins vegar gert ráð fyrir að í Vatnsendahverfi muni búa um 5000 manns í framtíðinni. Það þýðir að á þeim íbúðarsvæðum sem eftir er að skipuleggja verður nýtingarhlutfall lands mun hærra en í Hvörfunum. Í frumdrögum bæjarskipulags að skipulagi hverfisins er gert ráð fyrir að á því svæði sem Vatnsendablettur 102 stendur verði þétt byggð, að öllum líkindum fjölbýlishús. Kópavogsbær verður því að öllu óbreyttu að kaupa upp núverandi húseignir á svæðinu. Þótt svo að tekin verði sú ákvörðun að sérbýlishúsabyggð verði á svæðinu er ljóst að það fyrirkomulag sem sótt er um að Vatnsendabletti 102 (þ.e. að bílskúrinn standi í rúmlega 25 m fjarlægð frá íbúðarhúsinu) mun hamla skipulagi t.d. varðandi lóðarstærðir og aðkomu. Því sér nefndin sér ekki fært annað en að hafna erindinu.”
Synjaði byggingarnefnd erindi kæranda á fundi sínum hinn 12. maí 1999 með vísun til þessarar bókunar skipulagsnefndar.
Kærandi skaut framangreindri ákvörðun byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi dags 9. júní 1999. Með úrskurði uppkveðnum 23. desember 1999 felldi úrskurðarnefndin hina kærðu ákvörðun úr gildi. Var lagt fyrir byggingarnefnd Kópavogs að taka umsóknina til meðferðar að nýju og ljúka afgreiðslu erindisins í samræmi við ákvæði 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997. Tekið var fram í úrskurðarorði að byggingarnefndin gæti þó einnig leitað afstöðu bæjarstjórnar til þess hvort beitt yrði heimildarákvæði 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 um frestun á afgreiðslu umsóknar kæranda, með þeim skilyrðum sem í ákvæðinu greindi.
Í kjölfar þessarar niðurstöðu var umsókn kæranda enn á ný tekin til meðferðar í byggingarnefnd Kópavogs. Leitaði byggingarnefnd afstöðu bæjarráðs til málsins sem ákvað að beitt skyldi heimildarákvæði 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 og að fresta skyldi afgreiðslu umsóknar kæranda í allt að tvö ár. Ákvað byggingarnefnd á fundi sínum hinn 9. febrúar 2000, með vísan til álits bæjarráðs, „…. að fresta afgreiðslu umsóknar kæranda um endurnýjun á byggingarleyfi frá 12. september 1991 til stækkunar bílskúrs að Vatnsendabletti 102a í allt að tvö ár.“ Var ákvörðun byggingarnefndar staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 22. febrúar 2000. Er það framangreind ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs, sem kærð er í máli þessu.
Með bréfi til byggingarfulltrúans í Kópavogi, dags. 25. febrúar 2000, spurðist lögmaður kæranda fyrir um það frá hvaða tíma frestunin gilti eða hvenær henni lyki, enda kæmi það ekki fram í ákvörðun byggingarnefndar. Með bréfi, dags. 7. mars 2000, til lögmanns kæranda upplýsti byggingarfulltrúi að frestunin gilti frá staðfestingu bæjarstjórnar, hinn 22. febrúar 2000, og lyki því 22. febrúar 2002. Hefur kærandi mótmælt þessari túlkun á hinni kærðu ákvörðun.
Með bréfi bæjarstjórans í Kópavogi til kæranda, dags. 10. maí 2000, var leigusamningi um lóðarréttindi kæranda að Vatnsendabletti 102a sagt upp með eins árs fyrirvara með stoð í 4. grein lóðarleigusamningsins. Mótmælti lögmaður kæranda uppsögn þessari með bréfi, dags. 26. júní 2000. Sama dag sendi lögmaðurinn úrskurðarnefndinni í símbréfi uppsagnarbréf bæjarstjóra og mótmæli kæranda við því.
Hinn 8. ágúst 2000 fór byggingarfulltrúinn í Kópavogi eftirlitsferð að Vatnsendabletti 102a. Í ljós kom að eldri skúr á lóðinni hafði verið rifinn og að framkvæmdir við bygginu nýs og stærri skúrs voru langt komnar. Skipaði byggingarfulltrúi svo fyrir að farmkvæmdir þessar skyldu stöðvaðar en síðar ákvað byggingarnefnd að byggingin skyldi fjarlægð. Þeirri ákvörðun skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 7. september 2000. Er það kærumál til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni en af hálfu Kópavogsbæjar var fallist á tilmæli úrskurðarnefndarinnar um að fresta niðurrifi skúrsins meðan málið væri rekið fyrir nefndinni.
Málsrök kæranda: Kærandi byggir kröfu sína, um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt, á eftirfarandi atriðum:
Kærandi telur ljóst af lögskýringargögnum að löggjafinn hafi ætlast til að unnt væri að heimila framkvæmdir enda þótt deiliskipulag hafi ekki verið samþykkt. Verði þetta einnig ráðið af fyrri úrskurðum úrskurðarnefndarinnar í málum hans. Megi jafnframt draga í efa að ákvæði 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eigi við í tilviki hans þar sem fyrir liggi að fyrirhuguð stækkun á bílskúr hans sé fyllilega í samræmi við gildandi aðalskipulag og aðra íbúðarbyggð á svæðinu og ekkert liggi fyrir um það hvort eða hvernig umrædd framkvæmd, sem telja verði minniháttar, komi til með að hindra áform Kópavogsbæjar um uppbyggingu á svæðinu.
Sé hins vegar ætlun sveitarstjórnar að bera fyrir sig heimildarákvæði 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 verði sveitarstjórn að rökstyðja hvers vegna það sé gert og greina ástæður fyrir því að sú leið sé valin og hvernig mannvirki fari gegn fyrirhuguðu deiliskipulagi. Hér verði jafnframt að hafa í huga að sú framkvæmd sem þegar liggi fyrir með núverandi byggð sé ígildi deiliskipulags meðan formlegt deiliskipulag hafi ekki verið samþykkt.
Ennfremur sé mikilvægt að hafa í huga að ákvæði 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 beri að skýra þröngt í samræmi við almennar lögskýringarreglur, ekki síst í ljósi þess að það fari gegn meginreglu stjórnsýslulaga um hraða málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 37/1993, og meginreglu eignarréttar um heimildir fasteignareiganda til hagnýtingar fasteignar sinnar. Í ákvæðinu sé heimild veitt til að fresta afgreiðslu umsóknar í allt að tvö ár frá því að umsókn berist. Það sé ekki heimilt til að miða upphaf frestsins við eitthvert síðara tímamark, t.d. þann tíma þegar ákvörðun sé tekin.
Kærandi bendir á að í erindi byggingarfulltrúa, dags. 10. febrúar 2000, sé ekki að finna rökstuðning fyrir ákvörðun byggingarnefndar eða bæjarráðs. Þá sé ekki mælt fyrir um upphaf frestsins eða hvenær honum ljúki og ekki sé tekið fram að sveitarstjórn ábyrgist allt tjón, sem kærandi verði fyrir vegna þessarar málsmeðferðar, eins og ákvæði 6. mgr. 43. gr. mælir þó fyrir um. Það verður því að telja að umrædd afgreiðsla uppfylli ekki kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um rökstuðning ákvarðana. Þá uppfylli umrædd ákvörðun ekki þær kröfur um skýrleika stjórnvaldsákvarðana, sem gildi samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar, ekki síst í ljósi þess að um mjög íþyngjandi ákvörðun sé að ræða í garð kæranda.
Ennfremur telur kærandi að engar forsendur hafi verið fyrir því að byggingarnefnd beitti umræddu ákvæði skipulags- og byggingarlaga, þar sem frestur til þess að neyta þess úrræðis hafi verið liðinn. Í ákvæðinu sé mælt fyrir um heimild til að fresta afgreiðslu umsóknar í allt að tvö ár frá því að umsókn berist. Í tilviki kæranda hafi verið veitt leyfi til stækkunar bílskúrsins 12. september 1991 en umsókn hans þar að lútandi hafi verið send byggingarnefnd nokkru áður. Upphaf frestsins verði því samkvæmt skýru ákvæði 6. mgr. 43. gr. laganna að miðast við þann tíma. Byggingarnefnd hafi því ekki haft heimild til að beita frestunarákvæði laganna svo sem gert var, heldur hafi borið að heimila kæranda stækkun á bílskúr hans í samræmi við umsókn hans, enda um minniháttar framkvæmd að ræða, sem sé bæði í samræmi við aðalskipulag og aðra byggð á svæðinu.
Þá verði að hafa í huga að byggingarnefnd Kópavogsbæjar eigi ekki að geta hagnast á ólögmætri málsmeðferð sinni. Það geti ekki bitnað á kæranda að afgreiðsla nefndarinnar hafi verið andstæð lögum og að hún hafi skirrst við að heimila honum lögmætar framkvæmdir á lóð sinni öll þessi ár. Því verði að gera byggingarnefnd Kópavogsbæjar að heimila honum nú þegar að hefja framkvæmdir í samræmi við umsókn sína og hafi úrskurðarnefndin vald til þess að lögum.
Ennfremur kveðst kærandi efast um að heimilt sé að beita ákvæði 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 í tilviki hans, þar sem fyrir liggi að fyrirhuguð stækkun á bílskúr hans sé fyllilega í samræmi við gildandi aðalskipulag og aðra íbúðabyggð á svæðinu og ekkert liggi fyrir um hvort eða hvernig þessi framkvæmd, sem telja verði minniháttar, komi til með að hindra áform Kópavogsbæjar um uppbyggingu á svæðinu.
Telji úrskurðarnefndin hins vegar að byggingarnefnd hafi haft heimild til að beita umræddu ákvæði laganna geri kærandi þá kröfu að staðfest verði að heimild til að neyta þessa frestunarúrræðis sé ekki lengur fyrir hendi, þar sem meira en tvö ár séu liðin frá því að umsókn hans hafi borist byggingarnefnd, sbr. 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997, en eins og áður sé komið fram hafi leyfi verið veitt til stækkunar bílskúrsins 12. september 1991.
Til þrautavara krefst kærandi þess að úrskurðarnefndin geri byggingarnefnd að mæla skýrt fyrir um upphaf frestsins, sem eigi að vera frá þeim tíma er umsókn kæranda hafi borist, sbr. orðalag 6. mgr. 43. gr., og jafnframt að fram komi með skýrum hætti hvenær frestinum ljúki og að sveitarstjórn ábyrgist allt tjón, sem kærandi verði fyrir af þessum sökum. Verði ekki fallist á að miða upphaf frestsins við 12. september 1991, sé einungis unnt að miða upphaf hans við 28. apríl 1998, en þá hafi kærandi sótt um leyfi til að stækka umræddan skúr í 50 fermetra, en út frá þeirri umsókn og afgreiðslu hennar hafi spunnist kærur hans til úrskurðarnefndarinnar. Ennfremur óskist staðfest að einungis sé heimilt að neyta umræddrar heimildar samkvæmt 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga einu sinni og að byggingarnefnd verði því, að frestinum liðnum, að heimila kæranda framkvæmdir í samræmi við umsókn hans enda þótt deiliskipulag hafi ekki verið staðfest fyrir þann tíma.
Málsrök Kópavogsbæjar: Vegna mikilla anna og sumarleyfa en einnig vegna breyttra aðstæðna eftir að uppsögn lóðarleigusamnings kæranda, dags. 10. maí 2000, var komin fram var ekki leitað formlegrar umsagnar byggingarnefndar Kópavogs fyrr en með bréfi, dags. 26. júlí 2000. Með bréfi byggingarfulltrúans í Kópavogi, dags. 10. ágúst 2000, var úrskurðarnefndinni tilkynnt að í ljósi þess að kærandi hefði rifið eldri skúr á lóðinni og í óleyfi hafið framkvæmdir við byggingu stærri skúrs sæi byggingarnefnd ekki ástæðu til þess að láta í té umsögn um kæruefnið að svo stöddu. Síðar ákvað byggingarnefnd að skila greinargerðum í báðum málum kæranda varðandi bílskúrinn. Barst úrskurðarnefndinni greinargerð Eyvindar G. Gunnarssonar hdl. og Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl., f.h. Kópavogsbæjar, í máli þessu hinn 8. desember 2000.
Í greinargerð nefndra lögmanna f.h. Kópavogsbæjar er fyrst vikið að ákvæði 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997. Sé vafasamt að ákvæðið eigi við í hinu umdeilda tilviki þegar litið sé til lögskýringargagna, m.a. um tilurð ákvæðisins. Byggingarleyfi það sem sótt hafi verið um 28. apríl 1998 hafi verið til stækkunar bílskúrs að Vatnsendabletti 102a. Það sé ákvörðun byggingarnefndar um synjun á byggingarleyfi til þessarar stækkunar sem sé tilefni þess ágreinings sem uppi sé í máli þessu. Hér sé ekki um breytingar eða viðhald á bílskúrnum að ræða heldur byggingu nýs og stærri bílskúrs. Umrætt ákvæði eigi því ekki við. Eins og staða málsins sé í dag hafi kærandi rifið eldri bílskúr og hafið byggingu nýs og stærri bílskúrs á sama stað.
Af hálfu Kópavogsbæjar er því mótmælt að miða beri upphaf umsóknar við það tímamark sem kærandi geri. Að mati bæjarins hafi fyrst verið forsendur til beitingar tilvitnaðs lagaákvæðis er úrskurður úrskurðarnefndarinnar hafi legið fyrir hinn 23. desember 1999. Að minnsta kosti sé ljóst að upphaf frestsins hafi aldrei getað byrjað að líða fyrr en kærandi lagði inn umsókn fyrir stækkun bílskúrs, sem dagsett sé 6. janúar 1999.
Þá hafi bæjaryfirvöld rökstutt ákvörðun sína með fullnægjandi hætti, en hún hafi verið tekin með vísan til þess að deiliskipulag hefði ekki verið samþykkt. Þann rökstuðning verði að telja fullnægjandi í ljósi 6. mgr. 43. gr. þegar haft sé í huga að í ákvæðinu segi að slík frestun sé heimil ef deiliskipulag hafi ekki verið samþykkt. Þá hafi rök bæjaryfirvalda fyrir ákvörðuninni áður komið fram með ítarlegum hætti.
Af hálfu bæjaryfirvalda er því mótmælt að frestur til þess að neyta úrræðis 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi verið liðinn. Því er sérstaklega andmælt að upphaf frests eigi að miða við 12. september 1991 er fyrrverandi eigandi hafi sótt um leyfi til stækkunar á bílskúrnum. Samkvæmt 15. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, sem í gildi hafi verið á þeim tíma er leyfið var veitt, hafi byggingarleyfi fallið úr gildi ef ekki hafi verið hafnar framkvæmdir á grundvelli þess innan 12 mánaða frá útgáfu leyfisins. Augljóst sé að kærandi geti ekki byggt neinn rétt á leyfi sem fallið hafi úr gildi fyrir mörgum árum.
Þá segir í greinargerð bæjarins að byggingarnefnd telji sig í fullum rétti að meina kæranda að reisa nýjan og stærri bílskúr á lóð sinni. Það séu skipulagslegar ástæður fyrir þeirri synjun en nú standi yfir vinna að deiliskipulagi. Miðað við þær hugmyndir sem nú séu uppi sé einsætt að bílskúr að þessari stærð og á þessum stað samrýmist ekki þeim hugmyndum. Bæjaryfirvöld mótmæli sérstaklega þeirri fullyrðingu að um sé að ræða lögmætar framkvæmdir. Þær framkvæmdir einar geta talist lögmætar sem lögbundið byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir.
Sé lagt til grundvallar að beiting 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga sé tæk, eins og úrskurðarnefndin geri ráð fyrir, sé auðsætt að heimilt sé að beita henni í tilviki kærenda. Hafa verði í huga að hér sé um að ræða heimild til að fresta framkvæmdum. Tilgangur reglunnar sé að veita stjórnvöldum umþóttunartíma í þeim tilvikum er deiliskipulag hafi ekki verið samþykkt. Reglunni hefði ekki verið beitt ef endanlegar hugmyndir hefðu legið fyrir, t.d. um þéttari íbúðabyggð en nú er til staðar. Umsókninni hefði þá einfaldlega verið synjað með vísan til þess. Í máli þessu liggi fyrir að unnið sé að deiliskipulagi í Vatnsendalandi. Þróun byggðar og stefnumörkun þar að lútandi sé að miklu leyti háð pólitísku mati og verði að játa stjórnvöldum nokkurt svigrúm í þeim efnum. Mæli úrskurðarnefnd fyrir um upphaf frestsins sé þess krafist að hann miðist við úrskurð nefndarinnar 23. desember 1999 enda hafi byggingarnefnd þá fyrst haft forsendur fyrir beitingu 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Að lokum er á það bent að athugunarefni sé hvort úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála beri ekki að vísa kærunni frá enda liggi fyrir að lóðarleigusamningi kæranda hafi verið sagt upp. Hafi hann því tæpast lögvarða hagsmuni af því lengur að efnisúrskurður verði kveðinn upp í máli þessu.
Andmæli kæranda: Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð Kópavogsbæjar í máli þessu, enda er þar teflt fram nýrri málsástæðu um frávísun vegna breyttra aðstæðna eftir að kæran kom fram. Með bréfi. dags. 19. janúar 2001, gerir lögmaður kæranda í ítarlegu máli athugasemdir við málatilbúnað Kópavogsbæjar og áréttar fyrri sjónarmið sín í málinu. Sérstaklega er mótmælt hugleiðingum í greinargerð bæjarins um frávísun málsins og á það bent að uppsögninni hafi verið mótmælt sem ólögmætri og hafi mótmælum kæranda enn ekki verið svarað.
Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 25. janúar 2001. Mættir voru allir aðalmenn í nefndinni auk framkvæmdastjóra. Þá voru viðstaddir Gísli Norðdahl byggingarfulltrúi í Kópavogi og kærandi, J. Nefndarmenn kynntu sér aðstæður á vettvangi en byggingu nýs skúrs á lóðinni er að mestu lokið. Inni í skúrnum er botnplata eldri skúrs en nýi skúrinn er bæði breiðari og lengri en nemur þeirri plötu. Fram kom að sáralítið af efni úr gamla skúrnum hefði verið nýtt í bygginguna.
Niðurstaða: Eins og að framan greinir hefur úrskurðarnefndin tvívegis áður fjallað um kærumál er risið hafa um afgreiðslu byggingarnefndar Kópavogs á umsóknum kæranda um leyfi til stækkunar á bílskúr að Vatnsendabletti 102a. Hefur úrskurðarnefndin í báðum þessum málum fellt úr gildi ákvarðanir byggingarnefndar Kópavogs um að synja umsókn kæranda með þeim rökum sem greinir í úrskurðum nefndarinnar frá 29. desember 1998 og 23. desember 1999.
Í máli því sem hér er til meðferðar er annars vegar á því byggt af hálfu kæranda að ekki hafi verið gætt formskilyrða við gerð og undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og hins vegar að efnisskilyrði hafi skort fyrir ákvörðuninni.
Ekki verður fallist á það með kæranda að hinni kærðu ákvörðun hafi verið svo áfátt að formi til að ógildingu varði. Verður ekki séð að ástæða hafi verið til að rökstyðja ákvörðunina frekar en gert var þegar litið er til forsögu málsins og þeirra raka sem áður voru fram komin af hálfu Kópavogsbæjar og kæranda voru þegar kunn. Hins vegar má fallast á að nokkuð hafi skort á um skýrleika hinnar kærðu ákvörðunar þar sem þess var ekki getið frá hvaða tímamarki telja bæri frestun þá, sem í ákvörðuninni fólst. Þykir þessi ágalli þó ekki eiga að leiða til ógildingar á hinni kærðu ákvörðun þar sem fram kemur með ótvíræðum hætti í 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 við hvaða tímamark skuli miða frestun á afgreiðslu umsóknar samkvæmt ákvæðinu en til þess er vitnað í hinni kærðu ákvörðun. Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt byggingarfulltrúinn í Kópavogi hafi með bréfi til kæranda, dags. 7. mars 2000, rangtúlkað umrætt ákvæði, enda verður ekki litið á umrætt bréf sem hluta hinnar kærðu ákvörðunar.
Úrskurðarnefndin telur að eins og ástatt var hafi sveitarstjórn verið heimilt að beita umræddu ákvæði 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 við afgreiðslu umsóknar kæranda. Hann hefur í kærumálum þeim, er varða fyrri meðferð byggingarnefndar Kópavogs á umsókninni, lagt á það áherslu að um hafi verið að ræða umsókn um leyfi til stækkunar á bílskúr, sem fyrir hafi verið á lóðinni. Hefur helst mátt skilja málatilbúnað kæranda á þann veg að til stæði að stækka, þ.e. byggja við, eldri skúr í stað þess að rífa hann að öllu leyti og byggja nýjan. Var því eðlilegt að skilja umsóknina á þann veg að bæði væri sótt um leyfi til breytinga á húsi en jafnframt til niðurrifs að hluta. Fellur hvort tveggja, breyting húss og niðurrif, undir heimild 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 og verður ekki fallist á að þau sjónarmið um húsafriðun og hverfisvernd, sem liggja að baki umræddu ákvæði, hafi átt að leiða til þess að ekki væri heimilt að beita ákvæðinu eins og atvikum var háttað.
Mikils ósamræmis gætir í málatilbúnaði kæranda um það hvað í raun hafi falist í umsókninni. Í fylgiskjali með umsókn kæranda um endurnýjun byggingarleyfis fyrir bílskúr, dags. 8. september 1998, kemur fram að þegar leyfi hafi verið fengið til stækkunar hússins á árinu 1988 hafi einnig verið fengið leyfi til að byggja nýjan bílskúr í stað þess sem fyrir hafi verið á lóðinni. Fyrri eigendur hússins hafi ekki nýtt sér byggingarréttinn. Gamli bílskúrinn sé 25m² og standi á þeim stað, þar sem byggja eigi nýja skúrinn. Af athugasemdum lögmanns kæranda, dags. 19. janúar 2001, verður hins vegar ráðið að nú sé á því byggt að fyrir hafi verið á lóðinni 36 m² skúr og að með umsókninni hafi einungis verið að leita endurnýjunar á samþykkt byggingarnefndar frá 12. september 1991 um að heimila stækkun skúrsins um 9m², eða úr 36m² í 45m², þó með þeirri breytingu að nú verði leyft að stækka skúrinn í 50m². Hvorki verður séð við skoðun á vettvangi né af gögnum málsins að byggður hafi verið 36m² skúr á lóðinni eftir 10 september 1987, þegar bygging slíks skúrs var heimiluð. Þar sem kærandi reif, án heimildar byggingarnefndar, skúr þann sem fyrir var á lóðinni eftir að máli þessu hafði verið vísað til úrskurðarnefndarinnar verður hann að bera hallann af öllum hugsanlegum vafa um stærð skúrsins og verður að átelja að kærandi hafi með þessum hætti spillt möguleikum úrskurðarnefndarinnar til þess að afla gagna um staðreyndir í málinu.
Ekki verður fallist á sjónarmið kæranda um það hvaða umsóknir komi til álita við úrlausn máls þessa. Alveg er út í hött að byggja á umsókn forvera kæranda frá 10. september 1991 um stækkun bílskúrs enda var sú umsókn samþykkt á fundi byggingarnefndar 12. september 1991 með þeirri áritun að um væri að ræða breytingu á samþykkt frá 1987. Byggingarleyfi þetta var ekki nýtt og hefur hvorki það né umrædd umsókn haft nokkurt lögformlegt gildi í meira en áratug. Er því alfarið hafnað að umrædd umsókn geti markað upphaf þess frests, sem sveitarstjórn ákvað með stoð í 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997. Því er einnig hafnað að miða beri upphaf frestsins við erindi kæranda frá 28. apríl 1998, sem er fylgiskjal með útfylltu umsóknareyðublaði, dags. 4. maí 1998. Erindið er tilgreint sem fyrirspurn á umsóknarblaði og um það fjallað sem fyrirspurn á fundi byggingarnefndar 20. maí 1998. Hlaut erindi þetta ekki endanlega afgreiðslu og var þeim málalokum ekki vísað til æðra stjórnvalds.
Fyrsta og eina umsókn kæranda um endurnýjun á byggingarleyfi fyrir bílskúr er dagsett 8. september 1998. Má fallast á að frá þeim tíma hafi átt að telja þann frest, sem sveitarstjórn var heimilt að ákveða um umsókn kæranda á grundvelli 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997. Hefði fresturinn því varað til 8. september 2000 og hefði umsókn kæranda ekki þurft að koma til afgreiðslu fyrr en eftir þann tíma.
Hinn 8. september 2000 voru aðstæður í máli þessu gerbreyttar. Þá lá fyrir að lóðarleigusamningi kæranda hafði verið sagt upp með stoð í ákvæði 4. greinar samningsins og leigutíminn ætti að renna út hinn 1. júní 2001 samkvæmt uppsögninni. Þrátt fyrir að mótmælum kæranda við uppsögninni hefði ekki verið svarað hafði hann ekki gert reka að því að fá henni hnekkt.
Á sama tíma hafði kærandi, án heimildar byggingarnefndar, rifið eldri skúr, sem fyrir var á lóðinni og reist nýjan í hans stað, einnig án heimildar.
Vegna þessara breyttu aðstæðna verður byggingarnefnd nú ekki gert að taka umsókn kæranda til frekari meðferðar. Verður ekki séð að kærandi eigi lögvarða hagsmuni því tengda að fá umsókn sína tekna til meðferðar fyrr en lóðarréttindi hans hafa verið endurnýjuð eða ágreiningur um lögmæti uppsagnarinnar leiddur til lykta með öðrum hætti. Getur kærandi ekki með réttu vænst þess að honum verði veitt byggingarleyfi við núverandi og óbreyttar aðstæður. Er málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega. Valda því annir og sumarleyfi framan af, síðan breyttar aðstæður, aukin gagnaöflun af þeim sökum og loks töf vegna árangurslausra tilrauna sem gerðar voru nýlega til sátta af hálfu málsaðila.
Úrskurðarorð:
Kæru J á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 9. febrúar 2000, um að fresta afgreiðslu umsóknar um endurnýjun leyfis til stækkunar bílskúrs að Vatnsendabletti 102a, Kópavogi í allt að tvö ár, er vísað frá úrskurðarnefndinni.