Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

1/2020 Gjaldskrá á fráveitu

Árið 2020, fimmtudaginn 30. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættar voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2020, kæra á gjaldskrá nr. 1117/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. janúar 2020, er barst nefndinni 17. s.m., kærir íbúi, Grindavík, gjaldskrá nr. 1117/2019  fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ. Er þess krafist að gjaldskráin verði felld úr gildi og að samin verði ný gjaldskrá sem standist 6. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grindavíkurbæ 27. janúar 2020.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar 26. nóvember 2019 var samþykkt gjaldskrá nr. 1117/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ. Birtist gjaldskráin í B-deild Stjórnartíðinda 16. desember s.á. og tók gildi 1. janúar 2020.

Kærandi bendir á að skv. 6. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga skuli reikningar ekki nema hærri fjárhæð en sem nemi kostnaði vegna viðkomandi rekstrarþáttar. Gjaldtaka Grindavíkurbæjar vegna fráveitu innihaldi ólöglega eignayfirfærslu upp á 188.000.000 kr., þ.e. sölugjörning á þegar gjaldfærðum, greiddum og eldri fráveituframkvæmdum afskrifuðum að fullu. Séu gjaldendur fráveitugjalda látnir greiða þessar framkvæmdir aftur ásamt afskrifuðum vöxtum.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að yfirflutningur fráveituframkvæmda árið 2002 hafi verið í samræmi við 8. gr. auglýsingar nr. 790/2001 um reikningsskil sveitarfélaga og í fullri samvinnu við endurskoðendur bæjarins. Hann hafi á engan hátt verið óheimill eins og kærandi haldi fram. Farið sé fram á frávísun málsins.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að samin verði ný gjaldskrá.

Sem fyrr greinir tók hin kærða gjaldskrá gildi 1. janúar 2020 en samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hefur álagning gjalda á grundvelli hennar ekki átt sér stað. Gjaldskráin er sett með stoð í 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Fram kemur í 22. gr. laganna að stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt þeim lögum sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Sú kæruheimild laganna tekur m.a. til álagningu gjalda sem innheimt eru á grundvelli gjaldskráa settra samkvæmt lögunum og í slíku kærumáli getur eftir atvikum komið til skoðunar hvort fjárhæð þjónustugjalds sem innheimt er á grundvelli gjaldskrár er innan þess ramma sem slíkum gjöldum er settur. Hins vegar eru gjaldskrár sem slíkar ekki stjórnvaldsákvarðanir heldur stjórnvaldsfyrirmæli þegar þær beinast að hópi manna. Hefur kærandi því ekki hagsmuna að gæta umfram aðra af setningu hinnar kærðu gjaldskrár fyrr en álagning á grundvelli hennar fer fram, en slík álagning er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Þar sem gjaldskráin verður ekki kærð á grundvelli 22. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna og almenna kæruheimild vegna stjórnvaldsfyrirmæla er ekki að finna, t.d. í stjórnsýslulögum nr. 37/1993, brestur úrskurðarnefndina vald til að taka gjaldskrána til endurskoðunar, sbr. fyrrnefnda 1. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.