Ár 2005, föstudaginn 28. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl., en Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, boðaði forföll.
Ekki náðist að boða varaformann til fundarins, en með hliðsjón af atvikum og með stoð í 34. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 tekur úrskurðarnefndin fyrirliggjandi mál til meðferðar.
Fyrir var tekið mál nr. 1/2005, kæra á ákvörðunum svæðisbyggingarnefndar Snæfellsness og sveitarstjórnar Eyja og Miklaholtshrepps frá 4. janúar 2005 um að veita að nýju leyfi til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1.
Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur
úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. janúar 2005, sem barst nefndinni 10. s.m., kæra B og S, eigendur Miðhrauns 2, Eyja og Miklaholtshreppi, ákvarðanir svæðisbyggingarnefndar Snæfellsness og sveitarstjórnar Eyja og Miklaholtshrepps frá 4. janúar 2005 um að veita að nýju leyfi til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1.
Krefjast kærendur ógildingar hinna kærðu ákvarðana og að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingarfulltrúa til framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda. Liggja sjónarmið byggingarfulltrúa fyrir en af hálfu lögmanns byggingarleyfishafa var því lýst yfir með tölvubréfi til úrskurðarnefndarinnar hinn 26. janúar 2005 að byggingarleyfishafi ætlaði að tryggja að framkvæmdum yrði ekki fram haldið meðan úrskurðarnefndin úrskurðaði um kröfu kærenda. Jafnframt yrði skilað greinargerð í málinu af hans hálfu. Þessi yfirlýsing hefur hins vegar verið dregin til baka og eru framkvæmdir hafnar að nýju við hina umdeildu byggingu.
Verður ekki hjá því komist að taka þegar í stað afstöðu til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, eins og atvikum er háttað.
Málsatvik: Með kæru, dagsettri 30. nóvember 2004, kærðu eigendur Miðhrauns 2, Eyja og Miklaholtshreppi, byggingarleyfi sem veitt hafði verið hinn 23. nóvember 2004 til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1. Á umræddu svæði er hvorki í gildi aðalskipulag né deiliskipulag og leitaði sveitarstjórn því meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með því að umrætt byggingarleyfi yrði veitt.
Með bréfi Skipulagsstofnunar, dagsettu 16. júlí 2004, var byggingarfulltrúa tilkynnt að stofnunin gerði ekki athugasemdir við að sveitarstjórn veitti leyfi fyrir umræddri byggingu, enda yrði fyrirhuguð framkvæmd kynnt næstu nágrönnum.
Ekki kom til neinnar kynningar áður en leyfið var veitt hinn 23. nóvember 2004. Urðu kærendur, sem telja verður „næstu nágranna“ byggingarstaðarins, varir við er framkvæmdir hófust og gerðu athugasemdir um staðsetningu mannvirkisins og jafnframt að ekki hefði verið farið að skilyrði Skipulagsstofnunar um kynningu.
Af hálfu byggingaryfirvalda og sveitarstjórnar var brugðist við á þann hátt að kærendum var sent erindi um kynningu á nýbyggingunni. Jafnframt voru framkvæmdir stöðvaðar en þær voru þá komnar nokkuð á rekspöl. Var m.a. lokið gerð sökkuls og gólfplötu og framkvæmdir hafnar við grind hússins, sem er timburhús á steinsteyptum grunni með steyptri gólfplötu.
Kærendur gerðu ekki athugasemdir í tilefni af framangreindri grenndarkynningu. Hafa kærendur vísað til þess að málið hafi á þessum tíma verið í höndum úrskurðarnefndarinnar og að þangað hafi þau beint athugasemdum sínum og umkvörtunum. Hafi þau talið málið úr höndum sveitarstjórnar á þessum tíma.
Á fundi svæðisbyggingarnefndar Snæfellsness hinn 4. janúar 2005 var málið tekið fyrir. Afturkallaði nefndin byggingarleyfið frá 23. nóvember 2004 með heimild í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt bókaði nefndin að þar sem ekki hefði borist svar við kynningarbréfi til nágranna liti nefndin svo á að ekki væru gerðar neinar athugasemdir við byggingarframkvæmdina og mælti því með því að leyfið yrði gefið út að nýju. Staðfesti hreppsnefnd Eyja og Miklaholtshrepps samþykkt nefndarinnar síðar sama dag. Ákvarðanir þessar kærðu eigendur Miðhrauns 2 til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 6. janúar 2005, svo sem að framan greinir, en drógu jafnframt til baka fyrri kæru með hliðsjón af því að hin kærða ákvörðun í því máli hafði verið afturkölluð.
Af hálfu kærenda er því haldið farm að hinni umdeildu nýbyggingu hafi verið valinn staður án þess að þeim væri gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum að í málinu, en það hafi þó verið skilyrði af hálfu Skipulagsstofnunar fyrir því að byggingarleyfi yrði veitt. Grenndarkynning, sem fram hafi farið eftir að framkvæmdir hafi verið komnar á rekspöl, verði ekki talin fullnægjandi, enda hafi málið þá verið til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og ekki í höndum byggingarnefndar eða sveitarstjórnar. Málsmeðferð hafi því verið ólögmæt og að auki hafi hinni umdeildu byggingu verið valinn staður nær sameiginlegu landi málaðila en heimilt hafi verið án þess að fyrir lægi samþykki kærenda, sem meðeigenda að hinu sameiginlega landi. Sé staðsetning nýbyggingar þar að auki til baga fyrir kærendur vegna atvinnustarfsemi þeirra, sem gestahúsið muni hafa truflandi áhrif á.
Af hálfu byggingarfulltrúa hefur verið vísað til þess að grenndarkynning hafi farið fram eftir að kærendur hafi bent á áskilnað Skipulagsstofnunar þar að lútandi. Kærendur hafi hins vegar ekki gert neinar athugasemdir í tilefni kynningarinnar og hafi því verið litið svo á að ekki væru gerðar athugasemdir af þeirra hálfu. Því hafi hið umdeilda leyfi verið veitt eftir að fullnægt hafi verið skilyrði Skipulagsstofnunar um kynningu og verði að telja að við meðferð málsins hafi verið bætt úr annmörkum með fullnægjandi hætti.
Af hálfu byggingarleyfishafa hefur verið vísað til þess að framkvæmdir hans styðjist við formlega gilt byggingarleyfi. Hann hafi þegar orðið að fresta framkvæmdum og geti ekki fallist á að fresta þeim enn frekar. Að öðru leyti hefur málið ekki verið reifað sérstaklega af hálfu byggingarleyfishafa um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.
Niðurstaða: Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvarðana byggingarnefndar og sveitarstjórnar um að veita leyfi til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1 í Eyja og Miklaholtshreppi. Til grundvallar leyfisveitingunni liggur skilyrt afgreiðsla Skipulagsstofnunar á beiðni sveitarstjórnar um meðmæli samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997. Leikur vafi á um það hvort málsmeðferð byggingarnefndar og sveitarstjórnar við undirbúning og gerð hinnar kærðu ákvörðunar hafi fullnægt lagaskilyrðum en að auki er til úrlausnar hvort efnisannmarkar hafi verið á hinni kærðu ákvörðun hvað varðar staðsetningu byggingarreits. Ríkir af þessum sökum nokkur óvissa um málalok meðan málsrannsókn er ólokið, en m.a. er fyrirhugað að kanna aðstæður á vettvangi. Þykir ekki rétt, eins og atvikum er háttað, að heimila framhald framkvæmda við byggingu sem að hluta til hefur verið reist með stoð í byggingarleyfi sem leyfisveitandi hefur nú afturkallað vegna ágalla á málsmeðferð og verða framkvæmdir því stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Framkvæmdir við byggingu gestahúss að Miðhrauni 1, sem unnið er að samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum, skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir