Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

82/2024 Uxahryggjavegur að Brautartungu

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 31. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 82/2024, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2024 um að fyrirhuguð framkvæmd Vegagerðarinnar við Uxahryggjaveg, milli Brautartungu og Kaldadalsvegar, í Borgarbyggð og Bláskógabyggð skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júlí 2024, er barst nefndinni 31. s.m., kærir Vegagerðin þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2024 að fyrirhuguð framkvæmd Vegagerðarinnar við Uxahryggjaveg, milli Brautartungu og Kaldadals­vegar í Borgarbyggð og Bláskógabyggð skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að framkvæmdin verði ekki talin háð mati á umhverfisáhrifum. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 27. ágúst 2024.

Málavextir: Uxahryggjavegur liggur ofan af Kaldadal niður í Lundarreykjadal í Borgarfirði. Hinn 26. febrúar 2024 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Vegagerðinni um fyrirhugaða framkvæmd við Uxahryggjaveg til ákvörðunar um matsskyldu hennar, skv. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. lið 10.08 í 1. viðauka við lögin. Með erindinu fylgdi greinargerð þar sem fyrirhugaðri framkvæmd var lýst á eftirfarandi hátt: „Vegagerðin kynnir hér með ný- og endurbyggingu Uxahryggjavegar (52) og Kaldadalsvegar (550) á samtals 23 km löngum kafla í Lundarreykjadal og á Uxahryggjum í sveitarfélögunum Borgarbyggð og Bláskógabyggð. Samtals verða framkvæmdir á um 23 km, þar af teljast allt að 13,8 km endurbygging og 9,2 km nýbygging. […] Innan byggðarinnar í Lundarreykjadal fylgir endurbygging að mestu núverandi vegi, en ofan byggðarinnar er sums staðar vikið frá núverandi vegi til að bæta öryggi vegarins. Markmið framkvæmdarinnar er að bæta vega­samgöngur milli Uppsveita Borgarfjarðar og Þingvalla, einkum að vetrarlagi. Þær eiga að stuðla að því að mögulegt verði að halda Uxahryggjavegi opnum yfir vetrarmánuðina nema í aftakaveðri. Áætluð efnisþörf nýs og endurbyggðs vegar er 450-460 þús. m3 og er gert ráð fyrir að um 120 þús. m3 komi úr skeringum meðfram vegi en 330-340 þús. m3 komi úr 13 námum. Þar af er ein í Skorradalshreppi og ein í Bláskógabyggð.“

Í tilefni af erindi þessu leitaði Skipulagsstofnun umsagna Bláskógabyggðar, Borgarbyggðar, Fiskistofu, forsætisráðuneytisins, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Landsnets, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar og hvort framkvæmdinni væri lýst á fullnægjandi hátt í gögnum málsins. Töldu flestir umsagnaraðila að framkvæmdin væri ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum og þurfi því ekki að sæta umhverfismati. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands var talið að framkvæmdin og umhverfisáhrif hennar væru þess eðlis að umhverfismat væri æskilegt. Í kjölfar umsagna umsagnaraðila, skilaði Vegagerðin viðbótarathugasemdum til Skipulagsstofnunar, 22. maí 2024 þar sem athugasemdum umsagnaraðila var svarað og veittar frekari skýringar.

Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, dags. 1. júlí 2024, var álitið að á grundvelli fyrirliggjandi gagna kynni fyrirhuguð framkvæmd að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Skyldi framkvæmdin því háð umhverfismati.

 Málsrök kæranda: Vegagerðin álítur að Skipulagsstofnun hafi einkum byggt ákvörðun sína á óljósum, órökstuddum og ómálefnalegum grundvelli. Litið hafi verið fram hjá ítarlegri kynningarskýrslu og viðbótarathugasemdum Vegagerðarinnar ásamt umsögnum umsagnar­aðila sem flestir telji að framkvæmdin sé ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfis­áhrifum og þurfi því ekki að sæta umhverfismati.

Greind kynningarskýrsla hafi verið mjög ítarleg og hafi Skipulagsstofnun haft orð á því að umfjöllun Vegagerðarinnar sem og mat á hugsanlegum áhrifum framkvæmdarinnar væri ítarlegri en kröfur sem gerðar væru til framkvæmda til ákvörðunar um matsskyldu. Í skýrslunni væri þannig bæði fjallað um hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar og mótvægisaðgerðir vegna þeirra. Umsagnaraðilar hafi flest allir talið að skýrslan byggðist á fullnægjandi upplýsingum og að ekki væri þörf á frekara umhverfismati með þeim fyrirvara að ákveðnum ábendingum eða skilyrðum í umsögnum þeirra yrði fylgt. Aðeins einn umsagnaraðili, Náttúrufræðistofnun Íslands, hafi talið æskilegt að framkvæmdin yrði háð umhverfismati. Um leið hafi komið fram í umsögn stofnunarinnar að þegar hefði farið fram greinargóð söfnun upplýsinga og úrvinnsla þeirra fyrir ákveðna umhverfisþætti m.a. gróðurfar og fuglalíf. Þó mætti safna betri gögnum um áhrif framkvæmdarinnar á landslag og jarðminjar.

 Í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar væri mjög lítið fjallað um umsagnirnar og virðist þannig sem þeim væri gefið lítið sem ekkert vægi. Þrátt fyrir að Skipulagsstofnun sé ekki bundin af þeim umsögnum sem berist við rannsókn máls beri henni samt sem áður að leggja sérstakt efnislegt mat á innihald og vægi þeirra áður en ákvörðun sé tekin, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 51/2023. Hafi stofnuninni því láðst að meta þær umsagnir er borist hafi með heildstæðum hætti eða að tilgreina vægi þeirra við úrlausn málsins.

Skipulagsstofnun vísi til þess að um verði að ræða mikil og óafturkræf áhrif á vistgerðir á svæðinu og fuglategundir er nýti svæðið. Sé litið til gagna málsins komi það þó sérstaklega fram að áhrif á fugla verði að mestu óveruleg þar sem núverandi vegi sé fylgt og nýr vegur verði í grennd við hann. Áhrif á búsvæði fugla verði þó nokkuð neikvæð á kafla um Uxahryggi þar sem vikið sé frá núverandi vegi. Hins vegar sé bent á að það verði sérstaklega athugað með varp kjóa og fálka áður en framkvæmdir hefjist og ef sú athugun leiði í ljós að framkvæmdir geti mögulega spillt varpi verði miðað við að efnistaka úr námum fari fram utan varptímans.

Þrátt fyrir þessi nokkuð neikvæðu áhrif sé það mat Umhverfisstofnunar að áhrifin teljist ekki umtalsverð þannig að þörf sé á frekara umhverfismati. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar komi jafnframt fram að umfjöllun í kynningarskýrslu, m.a. um athuganir á vettvangi, t.d. á gróðurfar og fuglalífi sé ítarleg og vönduð og byggist á fullnægjandi upplýsingum. Taki Skipulagsstofnun undir þá niðurstöðu um umhverfisáhrif sem séu kynnt í kynningarskýrslunni varðandi þessa tvo umhverfisþætti. Sé því nokkuð ósamræmi á milli niðurstöðukafla ákvörðunar Skipulagsstofnunar og gagna málsins og þannig ótækt að byggja niðurstöðuna á því að mikil og óafturkræf áhrif verði á fuglategundir sem nýti svæðið.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé vísað til ótilgreinds leiðbeiningarits Evrópusambandsins, sem og ótilgreinds dóms Evrópudómstólsins og nefnt að framkvæmdir við breytingar á vegi geti, út frá umfangi og því hvernig staðið sé að framkvæmd, jafngilt lagningu nýs vegar. Segi stofnunin án frekari rökstuðnings að hún telji „í tilviki Uxahryggjavegar eigi þessi sjónarmið við og því megi líta á fyrirhugaða vegalagningu, þ.e. þá sem felur í sér enduruppbyggingu, sem nýbyggingu vegar.“ Vegagerðin telji þetta ómálefnalegar röksemdir og svo óljósar að ekki sé hægt að líta til þeirra sem meginsjónarmiða sem ráðandi séu við matið.

 Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar komi einnig fram að vegagerð og efnistaka muni eiga sér stað nærri Tunguá á löngum kafla og þannig leiða til breytinga á landslagi á lítt snortnu svæði sem að hluta sé innan marka miðhálendisins. Bent sé á að í umsögn Hafrannsóknarstofnunar komi fram að ef rétt sé að staðið og farið sé að þeim ráðum sem stofnunin mæli með í umsögn sinni, muni umræddar framkvæmdir ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif.

Að lokum virðist sem Skipulagsstofnun hafi ekki gætt að meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins við töku ákvörðunarinnar. Í ljósi ítarlegrar kynningarskýrslu sem og þess að mikill meirihluti umsagnaraðila hafi ekki talið þörf á frekara umhverfismati hafi Skipulagsstofnun sérstaklega borið að kanna úrræði 2. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Það ákvæði heimili Skipulagsstofnun að setja fram ábendingar um tilhögun framkvæmda í því skyni að koma í veg fyrir umtalsverð umhverfisáhrif án þess að framkvæmdin þurfi að fara í umhverfismat. Því sé mótmælt að framkvæmdin kunni að hafa áhrif á ýmsa umhverfisþætti og sé líkleg til að hafa mikil og óafturkræf áhrif á vistgerðir og fuglategundir á svæðinu. Einnig að líta megi á fyrirhugaða vegalagningu sem nýbyggingu vegar, þrátt fyrir að um sé að ræða endurbyggingu á 13,8 km kafla sem sé 60% vegarins. Þá sé rökstuðningi Skipulagsstofnunar verulega ábótavant varðandi það að umfang framkvæmdar­innar sé í heild sinni svo mikið að hún jafngildi lagningu nýs vegar.

 Málsrök Skipulagsstofnunar: Vakin er athygli á því að í kafla 4 í hinni kærðu ákvörðun er vikið að efni tiltekinna umsagna og verði að lesa efni niðurstöðukafla ákvörðunarinnar með hliðsjón af því sem þar sé rakið. Þótt í ákvörðuninni sé ekki vikið að efni allra umsagna eða gerð grein fyrir efni þeirra að öllu leyti hafi stofnunin haft umsagnirnar til hliðsjónar. Lagt hafi verið mat á þær með heildstæðum hætti og forsvaranlegar ályktanir dregnar af efni þeirra.

 Litið hafi verið til viðbótarathugasemda Vegagerðarinnar þar sem fram komi að kannaður verði möguleiki á að hnika til veginum til að draga úr raski á votlendi og sé að þessu vikið í hinni kærðu ákvörðun. Vegagerðinni hafi verið í lófa lagið að leggja fram í tilkynningunni nánari upplýsingar um á hvern hátt veginum yrði hnikað. Þá leggi Skipulagsstofnun áherslu á að Umhverfisstofnun hafi bent á mikilvægi þess að fram komi í greinargerð Vegagerðarinnar hvaða svæði muni verða fyrir valinu til endurheimtar.

Skoða verði samhengi tilvitnaðra orða í kæru. Áður en minnst sé á áhrif á fugla sé vikið að því að framkvæmdin sé líkleg til að fela í sér breytingu á stóru svæði og kunni að hafa umtalsverð áhrif á ýmsa umhverfisþætti. Framkvæmdin muni koma til með að raska allt að 8,3 ha votlendi og um leið votlendisvistgerðum með mjög hátt verndargildi auk annarra vistgerða með hátt og mjög hátt verndargildi á allt að 17,0 ha svæði. Viðbúið sé að áhrif á votlendi verði sérstaklega neikvæð með óafturkræfu raski á lítt snortnu heiðavotlendi. Sé það mat Skipulagsstofnunar að framkvæmdin sé líkleg til að hafa mikil og óafturkræf áhrif á þær vistgerðir sem fyrir séu á svæðinu, þ.m.t. vistgerðir með hátt og mjög hátt verndargildi sem og þær fuglategundir sem nýti svæðið, m.a. vegna skerðingar á bú- og fæðuöflunarsvæði. Hafa verði í huga, samanber það sem fram komi í skýrslu Náttúrustofu Norðausturlands um áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á fuglalíf, að á og við framkvæmdasvæðið sé m.a. að finna fuglategundir á válista í hættu og í nokkurri hættu. Um tegundir sé að ræða sem teljist til ábyrgðartegunda Íslands, vegna þess hlutfalls af Evrópustofni þeirra sem verpi hér á landi, auk tegunda sem séu skráðar í viðauka Bernarsamningsins sem Ísland sé aðili að og fjalli um vernd fugla og búsvæða þeirra í Evrópu.

Tilvísun í leiðbeiningarit Evrópusambandsins hefði vissulega mátt vera skýrari, en ritið sé um túlkun á skilgreiningum á framkvæmdum sem falli undir umhverfismatstilskipun Evrópu­sambandsins. Þessi óskýrleiki feli þó ekki í sér verulegan annmarka á hinni kærðu ákvörðun, enda sé vísað í blaðsíðutalið í leiðbeiningaritinu þar sem hægt sé að finna dóminn sem vísað sé til í ákvörðuninni. Það geti ekki talist ómálefnalegt að byggja á lagasjónarmiðum sem komi fram í umræddum dómi. Stofnuninni sé skylt að fylgja slíkum sjónarmiðum, sbr. 3. gr. laga 4 nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Rökstuðningur stofnunarinnar sé í þessu tilliti fullnægjandi að lögum, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessu tengt sé bent á úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 5. mars 2020 í máli nr. 62/2019, (Vesturlandsvegur). Lögð sé áhersla á að um sé að ræða umfangsmiklar skerðingar, allt að 70 m á breidd á þeim kafla sem Vegagerðin telji að sé enduruppbygging.

Í umsögn Hafrannsóknastofnunar segi að fyrirhuguð sé vegalagning meðfram Tunguá á um 300 m kafla sem geti haft í för með sér röskun á lífríki árinnar, „þar þ[urfi] sérstaka aðgæslu.“ Skipulagsstofnun fái ekki annað séð en að þau orð, um að viðbúið sé að lífríki svæðisins geti stafað af því hætta verði óhapp á framkvæmda- eða rekstrartíma vegarins, taki mið af tilvitnuðum orðum Hafrannsóknastofnunar sem og þeim þáttum sem tilgreindir séu í umsögn stofnunarinnar til að lágmarka áhrif á lífríki árinnar. Þá sé einnig bent á umsögn Umhverfis­stofnunar, en þar komi fram að þörf sé á frekari gögnum til að staðfesta ástandsflokkun straumvatnshlotanna Tunguá 1 og Tunguá 2. Eðlisefnafræðilegt ástand þeirra sé ekki þekkt.

 Bent sé á að í hinni kærðu ákvörðun segi að „þrátt fyrir að fyrir liggi ítarlegri upplýsingar og mat á mögulegum áhrifum á hina ýmsu umhverfisþætti en gert er ráð fyrir í tilkynningar­skylduferli telur Skipulagsstofnun að í ljósi eðlis og þá einkum umfangs sem og staðsetningar fyrirhugaðrar framkvæmdar auk eiginleika hugsanlegra áhrifa þurfi að gera nánari grein fyrir áhrifum framkvæmdarinnar og valkosta við hana, og útfæra nánar aðgerðir til að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir áhrif á viðkvæmt svæði.“ Það eitt að tilkynning sé ítarlegri en almennt gangi og gerist leiði ekki sjálfkrafa til þess að viðkomandi framkvæmd þurfi ekki að fara í umhverfismat. Að framangreindu virtu telji Skipulagsstofnun að meðalhófsregla stjórn­sýsluréttar hafi ekki verið brotin.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Vegagerðin telji að ekki verði séð hvaða rök liggi til grundvallar ákvörðun Skipulagsstofnunar. Umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sé lýst í fyrr­greindum 4. kafla með tilvitnunum í matsskýrslu og viðbótarrannsóknir sem lögð voru fram í gögnum máls til Skipulagsstofnunar, auk þess sem bætt var við völdum köflum úr umsögnum sem aflað var við rannsókn málsins. Hins vegar sé alfarið litið framhjá þeirri staðreynd að niðurstaða allra umsagna sérfróðra stofnana um hina fyrirhuguðu framkvæmd, utan einnar, sé á þá leið, að ekki sé þörf á að framkvæmdin sæti umhverfismati.

Hafi stofnunin raunverulega lagt mat á efnislegt innihald og vægi umsagna, líkt og fram sé haldið, verði að gera þá kröfu til hennar að gera grein fyrir því mati í ákvörðun sinni enda um að ræða íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem fer gegn þeirri meginreglu sem löggjafinn hefur mótað með því að lagning nýrra vega sem eru 10 km eða lengri skuli háðar umhverfismati, sbr. liður 10.07 í 1. viðauka laga nr. 111/2021. Slíkt mat sé mikilvægt þegar mál er metið í heild sinni svo unnt sé að átta sig á hvert vægi hvers og eins þáttar sé í niðurstöðu stjórnvaldsins.

Í umsögn Skipulagsstofnunar sé vísað til þess að framkvæmdin muni hafa áhrif á vistgerðir með hátt verndargildi á stóru svæði og áhrif á fuglategundir sem nýta svæðið. Svo virðist sem horft sé framhjá því sem fram kemur í umsögnum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræði­stofnunar að slík áhrif verði ekki umtalsverð. Náttúrufræðistofnun vísi jafnframt til þess að umfjöllun Vegagerðarinnar um t.d. gróðurfar og fuglalíf sé ítarleg og vönduð og byggist á fullnægjandi upplýsingum. Enn fremur megi benda á að Umhverfisstofnun tók fram í umsögn sinni að mikilvægt væri að fram kæmi hvaða svæði verði valið til að endurheimta votlendi. Hins vegar sé alfarið skautað framhjá því að þrátt fyrir það hafi Umhverfisstofnun ekki talið þann þátt vega svo þungt að framkvæmdin þyrfti að sæta umhverfismati vegna þess. Í því sambandi sé ítrekað það sem fram kom í kæru Vegagerðarinnar að Skipulagsstofnun beri að fylgja meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins við töku ákvarðana um matsskyldu. Hún geti valið vægari kost sem felist í að setja fram ábendingar um tilhögun framkvæmda í því skyni að koma í veg fyrir umtalsverð umhverfiáhrif, telji hún þörf á slíku, án þess að nauðsynlegt sé að ganga svo langt að framkvæmd þurfi að fara í umhverfismat.

Af hálfu Vegagerðarinnar sé ekki mótmælt þeirri afstöðu Skipulagsstofnunar að endurbygging framkvæmdar geti verið svo umfangsmikil að jafna megi henni við nýbyggingu vegar. Á hinn bóginn hafi löggjafinn tekið þá afstöðu við innleiðingu ESB reglna í íslenskan rétt að setja svonefnda þröskulda og draga þannig ákveðnar línur um við hvað á að miða matsskyldu hverju sinni. Sé talin þörf á að ganga lengra og víkja þannig frá slíkum viðmiðum hvíli rík skylda á Skipulagsstofnun að rökstyðja ástæður þess með greinargóðum hætti og jafnframt gera grein fyrir því hvers vegna hún telji rétt að ganga lengra í því sambandi en umsagnir stofnana í málinu, sem séu sérhæfðar, hver á sínu sviði. Slíkar röksemdir sé ekki að finna í niðurstöðu Skipulagsstofnunar og því geti Vegagerðin á engan hátt áttað sig á því hvaða vægi hver umhverfisþáttur hafi í því sambandi.

Varðandi tilvísun Skipulagsstofnunar til úrskurðar úrskurðanefndarinnar í máli nr. 62/2019. bendir Vegagerðin á að niðurstaða í því máli sneri einkum að því hvort að breyting á 1+1 akrein, í 1+2 akrein á um 9 km kafla á Vesturlandsvegi, skyldi valda fortakslausri matsskyldu skv. 5. gr. þágildandi laga nr. 106/2006 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. orðalagið “nýir tveggja akreina vegir með framúrakstursrein” í tölul. 10.07 í 1. viðauka með lögunum. Í niðurstöðukafla úrskurðarins sé ekkert fjallað um efnislegt mat á því hvort breytingar á veg, geti, út frá umfangi og því hvernig staðið sé að framkvæmd, jafngilt lagningu nýs vegar, líkt og ágreiningur er um þessu máli. Í málinu sem hér er til meðferðar sé ekki um að ræða breytingu í 1+2 akrein eða túlkun á hugtakinu “framúrakstursrein” skv. tölul. 10.07 í 1. viðauka með lögunum, og telji Vegagerðin því ofangreindan úrskurð ómarktækan við úrlausn þessa máls.

 —–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2024 um að áformuð framkvæmd Vegagerðarinnar við Uxahryggjaveg, milli Brautartungu og Kaldadals­vegar skuli háð umhverfismati. Framkvæmdin er í tveimur sveitarfélögum, Borgarbyggð og Bláskógabyggð. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 30. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

 Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 sem framkvæmd í flokki b, sbr. lið 10.08 í 1. viðauka við lögin. Falla þar undir framkvæmdir við lagningu nýrra vega eða enduruppbygging eða breikkun vega utan þéttbýlis sem ekki eru tilgreindir í tölul. 10.06 eða 10.07 sem eru a.m.k. 5 km. Liður 10.06 varðar framkvæmdir við hraðbrautir og liður 10.07 lagningu nýrra vega sem eru 10 km eða lengri eða breikkun vega úr tveimur akreinum í a.m.k. fjórar sem eru 10 km eða lengri.

Lög nr. 111/2021 gera ráð fyrir því að framkvæmdaraðili afli og leggi fram á viðhlítandi hátt upplýsingar um framkvæmd og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Þá er í 9. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana nánar kveðið á um efni tilkynningar framkvæmdar í flokki B. Hlutverk Skipulagsstofnunar er svo að taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati samkvæmt lögunum. Mat stofnunarinnar hlýtur eðli máls samkvæmt að lúta að því að sannreyna gildi gagna og gæði þeirra. Í þeim tilgangi skal stofnunin leita álits umsagnaraðila áður en ákvörðun um matsskyldu er tekin, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna, en til þeirra teljast opinberar stofnanir, stjórnvöld eða aðrir lögaðilar sem sinna lögbundnum verkefnum sem varða framkvæmdir og/eða áætlanir sem falla undir lögin eða umhverfisáhrif þeirra. Þá ber Skipulagsstofnun jafnframt að gæta þess að fullnægjandi gögn hafi verið lögð fram og hvílir á stofnuninni sú skylda að upplýsa málið að því marki að hún geti komist að efnislega réttri niðurstöðu.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 111/2021 ræðst matsskylda framkvæmda sem tilgreindar eru í flokki B í 1. viðauka við lögin af því hvort framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfis­áhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Í 2. viðauka við lögin eru þeir þættir sem líta ber til við það mat taldir upp í þremur töluliðum, þ.e. eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar. Undir hverjum tölulið er svo fjöldi annarra liða. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hverjir þeirra liða vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð, en það að framkvæmd falli undir einhverja þeirra leiðir þó ekki sjálfkrafa til matsskyldu.

Í hinni kærðu ákvörðun eru leidd rök að því að framkvæmdin sem um var fjallað í hinni kærðu ákvörðun gæti verið háð umhverfismati þar sem hún gæti talist til framkvæmdar sem félli undir flokk A í 1. viðauka við lög 111/2021. Í ljósi þess hvernig ákvörðunin er rökstudd að öðru leyti og niðurstöðu þessa úrskurðarmáls, er ekki tilefni til að fjalla um þessi sjónarmið.

—–

Í tilkynningu Vegagerðarinnar kom fram að um væri að ræða 9,2 km nýbyggingu og allt að 13,8 km endurbyggingu Uxahryggjavegar og Kaldadalsvegar á samtals 23 km löngum kafla í Lundarreykjadal og á Uxahryggjum í sveitarfélögunum Borgarbyggð og Bláskógabyggð. Í kynningarskýrslu um framkvæmdina, sem fylgdi með tilkynningu Vegagerðarinnar til Skipulagsstofnunar, kom fram að skerðing yrði á gróðri á allt að 23 km kafla og vistgerðum sem hafa hátt eða mjög hátt verndargildi einnig raskað á allt að 17 ha svæði. Að auki muni vegabætur raska votlendissvæðum, sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Við vegarlagninguna „lendi“ um 8,3 ha af votlendi „undir framkvæmd­unum“, en fyrirhugað sé að endurheimta um 19 ha af votlendi í stað þess sem raskist. Svæði á náttúruminjaskrá verði raskað á um 1,5 km löngum kafla en nýr Uxahryggjavegur muni liggja á styttri kafla en núverandi vegur um svæði á náttúruminjaskrá.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar leitaði Skipulagsstofnun umsagna skv. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 og var óskað álits á tilkynningu framkvæmdaraðila og hvort fram­kvæmdin skyldi lúta umhverfismati. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, dags. 25. mars 2024, kemur fram að framkvæmd á Uxahyggjavegi feli í sér bæði uppbyggingu og nýbyggingu m.a. á gatnamótun og muni valda umtalsverðum áhrifum á náttúru svæðisins. Umfjöllun um gróðurfar og fuglalíf sé ítarleg og vönduð og byggist á fullnægjandi upplýsingum, en ekkert komi fram um hvar endurheimt votlendis sé fyrirhuguð. Þá mætti umfjöllun um landslagsáhrif vera ítarlegri og byggjast á skýrari framsetningu á gögnum og einnig mætti vera betri umfjöllun um jarðminjar. Væru framkvæmdin og umhverfisáhrif hennar þess eðlis að mat á umhverfis­áhrifum væri æskilegt. Um votlendi var líka fjallað í umsögn Umhverfisstofnunar og bent á mikilvægi þess að fram kæmi í kynningarskýrslu hvaða svæði yrði fyrir valinu til endurheimtar votlendis. Þá benti Náttúrustofa Norðausturlands á það í skýrslu sinni að á og við framkvæmda­svæðið væri m.a. að finna fuglategundir á válista, sem væru í hættu og í nokkurri hættu. Um tegundir væri að ræða sem teldust til ábyrgðartegunda Íslands, vegna þess hlutfalls af Evrópu­stofni þeirra sem verpi hér á landi, auk tegunda sem séu skráðar í viðauka Bernarsamningsins sem Ísland sé aðili að og fjalli um vernd fugla og búsvæða þeirra í Evrópu.

Svör Vegagerðarinnar við umsögnum þessum voru birt í viðauka sem fylgdi tilkynningu til ákvörðunar um matsskyldu í maí 2024. Þar kom fram að undirbúningur framkvæmdar sé hvorki kominn á það stig að samið hafi verið við landeigendur um framkvæmdir né um endurheimt votlendis. Sé því ekki unnt að greina frá því á þessum tímapunkti hvar votlendi verði endurheimt. Að auki hafi samráð við sveitarfélögin, Landgræðsluna og Umhverfisstofnun ekki farið fram. Stefnt sé á að hefja samráðsferlið þegar nær dragi framkvæmdatíma og að endurheimt votlendis fari fram sem næst framkvæmdasvæðinu.

Innan fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis eru þrjú grunnvatnshlot og tvö straumsvatnshlot. Í umsögn Umhverfisstofnunar er bent á að fyrirhugaðar framkvæmdir geta haft áhrif á líffræðilega, eðlisefnafræðilega og vatnsformfræðilega þætti vatnshlotanna og því sé mikilvægt að meta framkvæmdina út frá þeim. Í svörum Vegagerðarinnar við þeirri umsögn kemur fram að haft verði samráð við tilgreinda aðila vegna framkvæmda í og við Tunguá og Kaldagil um tilhögun framkvæmda og framkvæmdatíma til að unnt sé að standa sem best að framkvæmdum og draga úr hættu á að lífríki ánna verði raskað. Við frekari undirbúning framkvæmdarinnar og áður en sótt verði um framkvæmdaleyfi muni Vegagerðin meta áhrif hennar á vatnshlot og muni slíkt áhrifamat fylgja leyfisumsókn. Umrædd vatnshlot á framkvæmdasvæðinu hafa ekki verið ástandsflokkuð og eru því ekki til staðar á þessum tíma upplýsingar og gögn svo unnt sé að leggja mat á hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar á vatnshlotin og hvort og með hvaða hætti lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála verði fylgt eftir og verður að ljá athugasemdum Umhverfisstofnunar aukið vægi í því ljósi.

Í umfjöllun um valkosti í skýrslu Vegagerðarinnar kom fram að við endurbætur á Uxahryggja­vegi hafi verið miðað við að fylgja núverandi vegi þar sem það væri mögulegt vegna umferðar­öryggis. Þá væru tvær tillögur að vegamótum Uxahryggjavegar og Kaldadalsvegar til skoðunar.

Í forsendum Skipulagsstofnunar kom fram að fyrirhuguð framkvæmd muni fela í sér breytingu á stóru svæði og kunni að hafa umtalsverð áhrif á ýmsa umhverfisþætti. Bent var á að framkvæmdin sé líkleg til að hafa mikil og óafturkræf áhrif á þær vistgerðir sem fyrir eru á svæðinu, þ.m.t. vistgerðir með hátt og mjög hátt verndargildi, sem og þær fuglategundir sem nýta svæðið, sbr. iii. lið 2. tölul. 2. viðauka við lög nr. 111/2021. Jafnframt kunni framkvæmdir að hafa áhrif á vatnshlot á svæðinu sem og lífríki Tunguár. Þrátt fyrir að fyrir liggi ítarlegri upplýsingar og mat á mögulegum áhrifum á hina ýmsu umhverfisþætti sé nauðsynlegt í ljósi eðlis og þá einkum umfangs sem og staðsetningar fyrirhugaðrar framkvæmdar auk eiginleika hugsanlegra áhrifa að gera nánari grein fyrir áhrifum framkvæmdarinnar og valkosta við hana, og útfæra nánar aðgerðir til að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir áhrif á viðkvæmt svæði.

Að virtum gögnum málsins og staðháttum, álítur úrskurðarnefndin að Skipulagsstofnun hafi tekið viðhlítandi tillit til þeirra viðmiða 2. viðauka laga nr. 111/2021 sem við áttu, að teknu tilliti til kynntrar tilhögunar framkvæmdarinnar og ráðgerðra mótvægisaðgerða, við þá ákvörðun sína að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Er þar sérstaklega litið til umsagna sérfróðra aðila. Ábendingar þær sem fram komu í nefndum umsögnum gefa tilefni til ríkara mats á hugsanlegum áhrifum framkvæmdarinnar.

Í ljósi framangreinds verður að hafna kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2024 um að fyrirhuguð framkvæmd Vegagerðarinnar við Uxahryggjaveg, milli Brautartungu og Kaldadalsvegar, í Borgarbyggð og Bláskógabyggð skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

112/2023 Skerðingsstaðir

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 6. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Halldóra Vífilsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar frá 9. mars 2023, um að samþykkja deiliskipulag Skerðingsstaða í Grundarfjarðarbæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðarinnar Mýrarhúsa í Eyrarsveit, nú Grundarfjarðarbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar frá 9. mars 2023 að samþykkja deiliskipulag Skerðingsstaða í Grundarfjarðarbæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 16. október 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grundarfjarðarbæ 28. september 2023.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Grundarfjarðarbæjar 4. apríl 2018 var fallist á umsókn landeiganda Skerðingsstaða að deiliskipuleggja jörðina auk þess sem landnotkun svæðisins í aðalskipulagi yrði breytt. Var ákvörðun nefndarinnar samþykkt á fundi bæjarstjórnar sama dag. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 17. október s.á. var samþykkt að skipulagslýsing vegna deiliskipulags fyrir Skerðingsstaði yrði sett í kynningu samkvæmt 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 18. s.m. Skipulagslýsingin var send umsagnaraðilum og landeigendum nærliggjandi jarða til umsagnar auk þess að vera auglýst í blöðum og á heimasíðu sveitarfélagsins. Bárust tíu umsagnir og athugasemdir og var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að taka saman viðeigandi gögn og kynna landeigendum/framkvæmdaraðila og veita honum hæfilegan frest til að tjá sig. Skipulags- og umhverfisnefnd tók fyrir svör við umsögnum og athugasemdum sem bárust á kynningartíma skipulagslýsingar á fundi 13. nóvember s.á. og beindi því til skipulagshöfunda að móta deiliskipulag og vinna umhverfisskýrslu.

Með nýju Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2019–2039 var afmarkað nýtt verslunar- og þjónustusvæði í landi Skerðingsstaða þar sem gert var ráð fyrir hótelbyggingu og stakstæðum bústöðum.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti á fundi sínum 1. mars 2022 að auglýst yrði tillaga að deiliskipulagi fyrir jörðina Skerðingsstaði með umhverfisskýrslu og að hvoru tveggja yrði sent umsagnaraðilum, sbr. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og 15. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Umrætt skipulagssvæði er um 4,5 ha að stærð og liggur á tanga sem gengur út á Lárvaðal undir Skerðingsstaðafjalli. Gert var ráð fyrir allt að 100 herbergja hóteli og allt að fimm smáhýsum. Hæð hótelbyggingarinnar yrði allt að 22,5 m frá botnplötu 1. hæðar og hámarks byggingarmagn 5.500 m2. Hæð smáhýsanna yrði mest 4,5 m frá botnplötu og hámarks byggingarmagn þeirra 300 m2. Nýtingarhlutfall yrði að hámarki 0,13. Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar samþykkti afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar á fundi sínum 10. s.m. Skipulagstillagan var auglýst frá 20. júlí 2022 með athugasemdafresti til og með 14. september s.á auk þess sem auglýsingin var send til þeim sem gert höfðu athugasemdir á kynningartíma skipulagslýsingarinnar árið 2018. Alls bárust athugasemdir frá 30 aðilum, þar á meðal kærendum, og var skipulagsfulltrúa falið að vinna tillögur að svörum við þeim. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 20. febrúar 2023 samþykkti nefndin, með 13 nánar tilteknum skilyrðum, deiliskipulag fyrir Skerðingsstaði og svör við athugasemdum sem bárust á auglýsingatíma tillögunnar. Var afgreiðsla nefndarinnar samþykkt á fundi bæjarstjórnar 9. mars s.á. og tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 24. ágúst 2023.

 Málsrök kærenda: Land kærenda liggi að Lárvaðli gegnt landi Skerðingsstaða og sé í um 700 m fjarlægð frá hinu fyrirhugaða hóteli. Fyrirhugaðar framkvæmdir muni hafa í för með sér verulega aukna hljóð-, ljós og loftmengun, bæði vegna aukinnar umferðar ökutækja á svæðinu og vegna hótelstarfseminnar sjálfrar. Hávaða- og ljósmengun muni berast yfir á land Mýrarhúsa og rýra verðmæti fasteignar kærenda auk þess sem framkvæmdirnar muni raska lífríki Lárvaðals, sem skerði hagsmuni kærenda þar sem land þeirra liggi að vaðlinum. Fyrirhuguð hótelbygging muni hafa í för með sér umtalsverða sjónmengun, en byggingarmagn samkvæmt deiliskipulaginu sé umtalsvert og gert sé ráð fyrir að hótelbyggingin verði allt að 22,5 m á hæð. Þar að auki hafi bílastæði við hótelbygginguna í för með sér sjónmengun. Kærendur hafi látið sig málið varða frá upphafi þess. Fyrst hafi verið sendar inn athugasemdir við verkefnalýsingu skipulags- og umhverfisnefndar Grundarfjarðarbæjar. Þá hafi kærendur einnig komið á framfæri athugasemdum við breytingar á Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar og vegna hins umdeilda deiliskipulags.

Ekki hafi verið tekin næg afstaða til allra þeirra athugasemda sem kærendur hafi gert við deiliskipulagstillöguna, t.d. hafi lítið verið fjallað um áhrif framkvæmdarinnar á frístundabyggð í nágrenninu með tilliti til ljós-, hljóð og loftmengunar vegna starfseminnar og aukinnar bílaumferðar.

Í kafla 5.1 í greinargerð með Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2019–2039 komi fram sú framtíðarstefna sveitarfélagsins að standa skuli vörð um landslag, lífríki og minjar sem dýrmætan arf. Það komi fram að það sé markmið sveitarfélagsins að fjölbreytni fuglalífs og gróðurs viðhaldist, í því skyni verði staðinn vörður um merkileg og viðkvæm búsvæði fugla og gróðurs til að viðhalda heilbrigði vistkerfa og líffræðilegri fjölbreytni. Á öðrum stað komi fram að við deiliskipulagsgerð, mannvirkjagerð og landnýtingu verði tekið tillit til verðmætra vistkerfa og búsvæða, fjarlægðar frá ám og vötnum og fornleifa og annarra búsetuminja. Náttúruvernd og vernd menningarminja sé eitt af meginmarkmiðum aðalskipulagsins. Deiliskipulagið nái yfir viðkvæmt verndarsvæði sem einkennist af lítt snortinni náttúru og einstöku fuglalífi, auk þess sem mikið sé um fornminjar á svæðinu. Deiliskipulagið sé ekki í samræmi við stefnu og markmið aðalskipulagsins að þessu leyti enda ljóst að 100 herbergja hótelbygging í landi Skerðingsstaða muni hafa í för með sér verulega röskun á náttúru, lífríki, fornminjum og landgæðum á svæðinu. Hin kærða ákvörðun brjóti í bága við 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga þar sem segi að við gerð deiliskipulags skuli byggt á stefnu aðalskipulags og 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.

Ekki sé gerð grein fyrir fyrirkomulagi fráveitu og umhverfisáhrifum hennar í umræddu deiliskipulagi líkt og kveðið sé á um í ákvæði aðalskipulagsins um Skerðingsstaði. Við undirbúning deiliskipulagsins hafi ekki verið metið hvaða tjón kynni að verða á umhverfinu, einkunn lífríki í Lárvaðli, af völdum fráveitu. Fráveitulagnir séu ekki merktar inn á deiliskipulagsuppdrátt og ekki sýnt hvort og þá hvernig þær verði leiddar út í vaðalinn. Mat á áhrifum af seyru, fitu og sápu frá mögulegum hreinsibúnaði fráveitu og starfseminni allri hafi ekki hafi farið fram. Þar sem ekki hafi verið gerð grein fyrir fyrirkomulagi fráveitu og áhrifum hennar í deiliskipulaginu sjálfu verði að telja að deiliskipulagið brjóti í bága við skilmála gildandi aðalskipulags. Ekki hafi verið tekin afstaða til ýmissa annarra mikilvægra atriða í deiliskipulaginu, svo sem vatnsveitu og vegtengingar. Þá sýni deiliskipulagið ekki hvernig eigi að útvega hótelinu slökkvi- og neysluvatn, en slíkt kynni að valda vandkvæðum í framkvæmd, enda frjósi Lárvaðall við landið á veturna og ekki virðist ætlun að taka vatn úr Hólalæk.

Hin kærða ákvörðun fari í bága við meginmarkmið skipulagslaga nr. 123/2010 að tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll. Hagsmunir einstaks landeiganda hafi verið teknir fram fyrir almannahagsmuni á sviði umhverfis- og náttúruverndar og markmið skipulagslaga um umhverfisvernd hafi verið fyrir borð borin. Þá verði skipulagsáætlanir sveitarfélaga einnig að vera í samræmi við ákvæði annarra laga. Í 7. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd komi fram að við töku ákvarðana sem hafi áhrif á náttúruna skuli stjórnvöld taka mið af meginreglum og sjónarmiðum 8.–11. gr. laganna, þar á meðal varúðarreglu 9. gr. þar sem segi að þegar ákvörðun sé tekin, án þess að fyrir liggi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hafi á náttúruna, skuli leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum. Við afgreiðslu sveitarfélagsins á deiliskipulagi fyrir hótel í landi Skerðingsstaða hafi ekki verið gengið nægilega úr skugga um að fyrirhuguð framkvæmd muni ekki hafa verulega skaðleg og óafturkræf áhrif á landslag, náttúru, lífríki og aðrar auðlindir á svæðinu, til dæmis fiskalíf í Lárvaðli. Ekki hafi átt að samþykkja deiliskipulagið fyrr en að lokinni fullnægjandi rannsókn sveitarfélagsins á áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfi og náttúru svæðisins.

Umhverfismat framkvæmdarinnar sé haldið annmörkum þar sem ekki hafi farið fram fullnægjandi rannsókn á ýmsum mikilvægum atriðum, einkum áhrifum framkvæmdarinnar á hljóð- og loftmengun, lífríki og gróður. Kærendur telji að ekki hafi verið upplýst á fullnægjandi hátt við afgreiðslu skipulagsins hvaða skaðlegu áhrif fyrirhuguð hótelbygging hefði í för með sér á þessi atriði. Af umhverfis- og framkvæmdaskýrslu vegna deiliskipulagsins sé ljóst að í umhverfismati framkvæmdarinnar hafi ekki verið metin áhrif fyrirhugaðrar hótelbyggingar á frístundabyggð 1, sem sé beint hinum megin við Lárvaðal í minna en 1 km fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu, og hvort framkvæmdin muni koma til með að rýra verðmæti fasteigna á því svæði eða valda eigendum þeirra ónæði, óþægindum eða tjóni að öðru leyti. Við afgreiðslu deiliskipulagsins hafi ekki verið metin áhrif framkvæmdarinnar á frístundabyggð í nágrenninu hvað varði hljóð-, ljós-, loft- og sjónmengun. Fasteign kærenda sé innan frístundabyggðarinnar og telji kærendur að framkvæmdirnar muni valda þeim talsverðu ónæði og skerða verðmæti fasteignar þeirra. Athugasemdum kærenda sem vörðuðu áhrif framkvæmdarinnar að þessu leyti hafi enginn gaumur verið gefinn af hálfu sveitarfélagsins. Hefði bersýnilega þurft að meta þessi umhverfisáhrif áður en deiliskipulagið hafi verið samþykkt.

Byggingarreitur hins fyrirhugaða hótels liggi á sérstaklega viðkvæmum stað við Lárvaðal, sem sé á verndunarsvæði Breiðafjarðar, sbr. lög nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar, og sé fjaran friðlýst. Mikið sé af bleikju og bleikjuseiði í Lárvaðli, en vaðallinn hafi einnig verið notaður við laxeldi og sé hann mikilvægt uppeldissvæði fyrir laxfiska. Þá nái deiliskipulagið að stórum hluta yfir verndunarsvæði friðaðra fornminja. Í viðauka 6 með umhverfisskýrslu framkvæmdanna komi fram að áhrif þeirra á vatnalífríki ættu að vera óveruleg, að því gefnu að fráveitumál verði í lagi. Hið sama segi um áhrif á fuglalíf og gróður í viðauka 5. Hins vegar hafi engin grein verið gerð fyrir áhrifum fráveitu og hreinsibúnaðar í greinargerð með deiliskipulaginu og hafi áhrif þessa á lífríki, gróður og fuglalíf því ekki verið rannsökuð nægilega. Þá hafi ekki farið fram mat á áhrifum umferðar ökutækja og manna á fuglalíf og gróður í nágrenni fyrirhugaðs hótels. Ekki hafi heldur farið fram rannsókn á því hvort fyrirhugaðar framkvæmdir muni hafa áhrif á Hólalæk og lífríki í læknum, en lækurinn sé mikilvæg uppeldisstöð fyrir laxafiska. Hafi sveitarfélaginu borið að leita eftir afstöðu Fiskistofu til þess hvort framkvæmdirnar myndu skaða fiskigengd í læknum, afkomu laxastofna eða lífríki að öðru leyti. Loks hafi ekki farið fram fullnægandi rannsókn á fornleifum og fornum kirkjugarði sem gögn bendi til þess að sé á landi Skerðingsstaða.

Ágallar hafi verið á auglýsingu deiliskipulagstillögunnar þar sem myndir sem sýndar hafi verið af svæðinu við kynningu tillögunnar hafi verið blekkjandi. Á kynningarfundi 23. ágúst 2022 hafi komi fram af hálfu framkvæmdaraðila að myndir væru ekki í réttum hlutföllum. Kærendur og aðrir íbúar sveitarfélagsins hafi af þeim sökum ekki getað tekið afstöðu til sjónrænna áhrifa framkvæmdanna með fullnægjandi hætti, enda hafi sjónræn áhrif virst mun minni en þau séu í reynd. Í þessu sambandi sé bent á að þegar kærendum hafi verið sent kynningarbréf með auglýsingu á hinu nýja deiliskipulagi fyrir Skerðingsstaði hafi komið fram að hótelbyggingin yrði mest 2,5 m að hæð frá botnplötu 1. hæðar. Í auglýsingu deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda 24. ágúst 2023 hafi einnig komi fram að hæsti punktur byggingarinnar yrði 2,5 m frá botnplötu 1. hæðar, en auglýsingin hafi verið leiðrétt 28. ágúst og nú segi að hæsti punktur sé 22,5 m. Röng tilgreining á hæð hótelbyggingarinnar við auglýsingu hafi valdið kærendum óvissu um raunverulega hæð hennar og þeir hafi því ekki getað tekið afstöðu til hæðar byggingarinnar.

Ekki sé nægjanlegt að setja það skilyrði í deiliskipulagið að engar framkvæmdi verði innan 50 m frá Lárvaðli, þrátt fyrir að slíkt séu lágmarkskröfur skv. gr. 5.3.2.14 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Sveitarfélaginu hafi borið að fara eftir tillögu Umhverfisstofnunar um 100 m fjarlægð frá fjöru í ljósi þess að um viðkvæmt verndarsvæði sé að ræða. Þá sé á deiliskipulagsuppdrætti gert ráð fyrir að fyrirhugað hótel nái inn á 15 m friðhelgað svæði umhverfis fornminjar á svæðinu, án þess að leyfi Minjastofnunar hafi komið til, sbr. 21. og 22. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Enn fremur séu framkvæmdir í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka þess, sem áhrif geti haft á fiskigengd, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, háðar leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiðar. Ekki hafi verið gengið úr skugga um að framkvæmdir á grundvelli deiliskipulagsins hafi engin áhrif á lífríki í Lárvaðli, fiskigengd, fiskstofna eða aðstöðu til veiði í vatninu og ekki hafi farið fram fullnægjandi mat þar að lútandi í umhverfismati framkvæmdarinnar. Telji kærendur að sveitarfélaginu hefði borið að hlutast til um að Fiskistofa rannsakaði áhrif framkvæmdanna á fiskalíf í Lárvaðli að þessu leyti, til þess að kanna hvort þörf væri á leyfi til framkvæmdanna samkvæmt 33. gr. laga nr. 61/2006, enda séu umræddar framkvæmdir staðsettar innan 100 m frá bakkanum.

 Málsrök Grundarfjarðarbæjar: Vísað er til þess að vafi leiki á um hvort kærendur uppfylli skilyrði laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála um lögvarða hagsmuni. Í 3. mgr. 4. gr. laganna sé kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Verði að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið sé að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Verði því að meta í hverju tilviki hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins til að komast að niðurstöðu um hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Líta verði til þess að jörð kærenda sé í um það bil 700–900 m fjarlægð frá fyrirhugaðri hótelbyggingu. Lárvaðall liggi á milli deiliskipulagssvæðisins og jarðar kæranda. Ekki liggi fyrir hvernig grenndarhagsmunir kærenda muni skerðast að nokkru marki hvað varði landnotkun eða upplifun, svo sem sjónræn áhrif eða hljóðvist. Aðrar málsástæður kærenda lúti að atriðum er tengist skipulagslegum hagsmunum sem teljist til almannahagsmuna. Ekki verði séð hvernig umdeild bygging raski lögvörðum grenndarhagsmunum kærenda, en ásýnd byggingarinnar ein og sér geti ekki varðað einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni þeirra.

Deiliskipulagið hafi hlotið meðferð í samræmi við 41. og 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 24. ágúst 2023, með minniháttar breytingu 28. s.m. Þeim sem gert höfðu athugasemdir við tillöguna á auglýsingatíma hennar hafi verið tilkynnt um gildistökuna með tölvupósti ásamt samantekt athugasemda og umsögn skipulags- og umhverfisnefndar.

Deiliskipulagið sé í samræmi við Aðalskipulag Grundarfjarðarbæjar 2019–2039, en þar sé svæðið skilgreint fyrir verslun og þjónustu. Í aðalskipulaginu væri beinlínis gert ráð fyrir að hið umdeilda deiliskipulag yrði gert og að það fæli í sér hótelbyggingu. Slík sértæk tilgreining í aðalskipulagi geti ekki talist ganga gegn almennum ákvæðum. Gripið hafi verið til ráðstafana til að bregðast við neikvæðum umhverfisáhrifum með þeim skilyrðum sem sett hafi verið fyrir samþykkt deiliskipulagsins og þannig tekið tillit til þeirra atriða sem tilgreind séu í aðalskipulagi, þar með talið áhrifa á viðkvæm vistkerfi, búsvæði og aðrar náttúruminjar, aðgengi almennings, fjarlægð frá vötnum, fornleifar og fleiri þætti. Samkvæmt þeim skilmálum, sem hið kærða deiliskipulag kveði á um, sé það innan þeirra heimilda sem aðalskipulag mæli fyrir um.

Við meðferð deiliskipulagstillögunnar hafi til samræmis við 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga verið gerð grein fyrir umhverfisáhrifum áætlunarinnar og stefnumiða hennar. Í samræmi við ákvæðið hafi skýrslugerð um skipulagstillöguna og skýrslugerð um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um nr. 111/2021 verið sameinað. Í umhverfisskýrslunni hafi verið fjallað um þá umhverfisþætti sem deiliskipulagstillagan væri talin hafa áhrif á, þar með talið vatn, gróður, dýralíf, öryggi og samgöngur, efnahag og atvinnulíf, verslun og þjónustu, fornminjar og ásýnd lands. Stefnumörkun á áætlanastigi sé yfirleitt almenns eðlis, borið saman við það sem eigi við um einstakar framkvæmdir. Þrátt fyrir það hafi verið unnar ítarlegar skýrslur og rannsóknir við undirbúning deiliskipulagsins, meðal annars á lífríki og fornleifum. Í ljósi stöðu deiliskipulagsins í stigskiptri áætlanagerð hafi umhverfismat þess uppfyllt skilyrði skipulagslaga.

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 20. febrúar 2023 hafi verið bókað að nefndin samþykkti skipulagstillöguna með nánar tilgreindum skilyrðum. Í bókuninni hafi verið tekið tillit til framkominna athugasemda, þar með talið athugasemda kærenda, með 13 skilyrðum sem sett hafi verið fyrir deiliskipulaginu. Bæjarstjórn hafi samþykkt þá afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 9. mars s.á. Gildistaka deiliskipulagsins feli ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þurfi að koma til sérstök stjórnvaldsákvörðun, svo sem veiting byggingar- eða framkvæmdarleyfis auk þess sem tiltekin starfsemi sé háð sérstökum starfsleyfum frá þar til bærum yfirvöldum. Við slíka meðferð komi fram nákvæmari upplýsingar um ýmis atriði hönnunar væntanlegs mannvirkis sem kæran virðist lúta að.

Varðandi fullyrðingar kærenda um að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til tiltekinna atriða í athugasemdum kæranda við afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar er vísað til skilyrða 4, 6 og 11 í bókun nefndarinnar og umsagnar skipulags- og umhverfisnefndar til kærenda vegna athugasemda hans. Í ljósi athugasemdar um mannvirkjagerð, hönnun og skipulag á viðkvæmum stöðum, svo sem í lítt snortinni náttúru sé bent á að um sé að ræða gamalt bæjarstæði með túnum sem hafi verið nýtt til beitar um árabil. Við meðferð málsins hafi verið fjallað um mögulega ljós- og/eða hljóðmengun og lögð áhersla á að starfsemi á svæðinu skyldi vera innan viðmiðunarmarka samkvæmt lögum og reglum, en um sé að ræða atriði sem lögbundnir umsagnaraðilar leggi mat á við meðferð starfsleyfisumsóknar, sbr. skilyrði 11 sem sett hafi verið fyrir deiliskipulaginu.

Frá upphafi hafi legið fyrir sérstakt minnisblað varðandi fráveitumál, dags. 26. september 2019. Í skilyrði 4 í bókun skipulags- og umhverfisnefndar sé áskilið að gerðar verði ítrustu kröfur um fráveitu- og hreinsibúnað. Með því hafi verið gætt að og tekið tillit til sjónarmiða kærenda. Þá sé bent á að í skyldu sveitarfélags til samráðs felist ekki að fallast beri á allar þær athugasemdir sem fram komi, enda sé sveitarstjórnum með lögum veitt víðtækt skipulagsvald þótt því beri að beita að teknu tilliti til málsmeðferðarreglna skipulags- og stjórnsýslulaga. Þá sé bent á að vegna athugasemda Skipulagsstofnunar frá 15. júní 2023 hafi uppdráttur og greinargerð verið uppfærð til samræmis og hafi ekki sætt athugasemdum stofnunarinnar. Ekki séu gerðar kröfur um það í deiliskipulagi að einstakir þættir í hönnun mannvirkja séu tilgreindir enda falli þeir undir framkvæmdaleyfi, byggingaleyfi, starfsleyfi og önnur leyfi fyrir mannvirkjum og starfsemi. Deiliskipulagið geri ítrustu kröfur um fráveitu og vatnsöflun, sbr. skilyrði 3 og 4 í bókun skipulags- og umhverfisnefndar. Í bókun 4 sé lögð á það sérstök áhersla að fráveitu og heilbrigðismál verði með þeim hætti að ekki stafi af þeim hætta á mengun. Í umsögn Heilbrigðis­stofnunar Vesturland sé bent á að stofnunin þurfi að samþykkja þann fráveitubúnað sem settur verði upp. Í skilyrði 13 í bókun nefndarinnar sé áskilið að færðar verði inn á skipulagsuppdráttinn 1 m hæðarlínum leiðbeinandi staðsetning rotþróar, leiðbeinandi staðsetning hreinsibúnaðar fráveitukerfis og að öðru leyti sé vísað til 7. kafla skipulags­reglugerðar nr. 90/2013. Orðið hafi verið við þessum áskilnaði í fyrirliggjandi deiliskipulags­uppdrætti.

Tekið hafi verið tillit til lífríkis og fornleifa á svæðinu og gerðar hafi verið ítarlegar rannsóknir sbr. viðauka 1, 4, 5 og 6 við greinargerð deiliskipulagsins. Til þessara greininga og rannsókna hafi verið tekið tillit til í upphaflegum deiliskipulagstillögum og í skilyrðum sem sett hafi verið fyrir því. Um umhverfisáhrif sé vísað sértaklega til kafla 3 í greinargerð, umhverfis- og framkvæmdaskýrslu og annarra viðauka og fyrirliggjandi skilyrða við deiliskipulagið, sbr. og umsögn skipulags- og umhverfisnefndar. Miðað við fyrirliggjandi áform um byggingu hótels ættu áhrif framkvæmdarinnar á vatnalífríki að vera óveruleg að því gefnu að fráveitumál verði í lagi og starfsemin í samræmi við það sem skipulagið geri ráð fyrir. Framkvæmd hafi verið ítarleg rannsókn á fornleifum, sbr. viðauka 4 og ráðist staðsetning fyrirhugaðra bygginga af fornminjum. Þá sé skilyrði 2 í ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar að fornminjar á skipulagssvæðinu verði verndaðar á framkvæmdatíma og að landeigandi geri grein fyrir verndaráformum í umsókn um byggingar- og/eða. framkvæmdaleyfi.

Í kafla 4.7 í umhverfis- og framkvæmdaskýrslu og minnisblaði, dags. 9. september 2019, sé fjallað um möguleika á öflun neysluvatns fyrir hótel. Þá sé í skilyrði 5 í bókun skipulags- og umhverfisnefndar áskilið að vatnsból og lagnir frá því skuli uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 536/2001 um neysluvatn.

Í skilyrði 10 í bókun nefndarinnar hafi verið settar fram kröfur um vegtengingu þar sem komi fram að vegtenging við þjóðveginn verði útfærð nánar í hönnun svæðisins og að það verði gert í fullu samráði við Vegagerðina eins og gildi um allar framkvæmdir innan 50 m veghelgunarsvæðis. Kalli hönnun vegstæðis á verulega breytingu skuli það gert á grundvelli breytingar á deiliskipulagi.

Hvað varði þörf á leyfum samkvæmt 21.–22. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar og 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax og silungsveiði þá sé vísað til þess að þessi ákvæði vísi til leyfa til framkvæmda eða mannvirkjagerðar. Slík atriði komi til skoðunar á síðari stigum, við veitingu byggingarleyfis eða framkvæmdaleyfis, en ekki við meðferð deiliskipulags. Ítarleg greining hafi verið unnin um fornleifar á svæðinu. Þá sé í umsögn minjastofnunar áréttað að samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 80/2012 skuli stöðva framkvæmdir án tafar ef ókunnar fornminjar finnist. Ítarleg greining liggi jafnframt fyrir um fuglalíf og gróður á svæðinu sbr. viðauka 5 og í umhverfisskýrslu sé áhrif á þessa þætti metin auk þess sem aflað hafi verið umsagna frá viðeigandi aðilum.

Deiliskipulagið gangi ekki gegn meginmarkmiðum skipulagslaga líkt og staðhæft sé í kæru. Skipulagið og meðferð þess sé í samræmi við skipulagslög auk viðeigandi ákvæða laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Við málsmeðferð hafi verið lögð áhersla á að leggja mat á áhrif skipulagsins á allt nærumhverfið. Í skilyrði 11 í bókun skipulags- og umhverfisnefndar komi fram að leita beri leiða til að lágmarka ljós- og hávaðamengun sem starfsemin kunni að valda utan svæðisins og að lögbundnir aðilar skuli leggja mat á þennan þátt við meðferð starfsleyfisumsóknar. Þá sé einnig vísað til skilyrða 4 og 6 í bókuninni um að lágmörkuð séu neikvæð áhrif starfseminnar. Skipulagslög geri hins vegar ráð fyrir því að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á beinum eða óbeinum eignarréttindum, en standi slík réttindi í vegi fyrir framkvæmd skipulags geti komið til eignarnáms skv. 50. gr. skipulagslaga eða eftir atvikum til bótagreiðslna í samræmi við 51. gr. laganna.

Deiliskipulagið gangi ekki gegn friðlýsingu Breiðafjarðar. Gripið hafi verið til ráðstafana og skipulag miði að því að vernda fornminjar á svæðinu. Skilyrði skipulagsins geri ráð fyrir að gerðar verði ítrustu kröfur á fráveitu og sem leiða eigi til þess að áhrif framkvæmda samkvæmt deiliskipulaginu á vatnalífríki verði óveruleg. Sett hafi verið skilyrði um að í deiliskipulaginu kæmi fram að Lárvaðall sé sjávarlón og að það ásamt fjörum falli undir lög nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar og a. lið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Í greinargerð deiliskipulagsins komi fram að þar sé mikilvægt vistkerfi með fjölbreyttu lífríki og að hönnun hótelsins og starfsemi þess skuli taka mið af því. Ákvæði laga um vernd Breiðafjarðar nái til eyja, hólma og skerja á Breiðafirði ásamt fjörum í innri hluta fjarðarins, þar með talið fjörunnar umhverfis Lárvaðal þar sem fyrirhugað framkvæmdasvæði sé staðsett í um 50 m fjarlægð frá Lárvaðli. Fjarlægðarmörkin séu í samræmi við gr. 5.3.2.14 skipulagsreglugerðar.

Þeirri fullyrðingu að kynning á ásýnd mannvirkja hafi verið villandi sé hafnað. Unnar hafi verið ítarlegar kynningar, myndbönd og sjónlínugreining þar sem sjá megi áhrif mannvirka. Þá hafi komið leiðrétting á augljósri prentvillu sem hafi verið í upphaflegri auglýsingu og henni hafi verið komið á framfæri um leið og hennar hafi orðið vart, sbr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og auglýsing í Stjórnartíðindum leiðrétt. Deiliskipulagsuppdrátturinn sjálfur, sem hafi verið auglýstur, hafi frá upphafi innihaldið rétta hæð húss, sem og öll önnur gögn á fyrri stigum.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Þeirri fullyrðingu sveitarfélagsins að kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins sé hafnað. Vegalengd milli lands Skerðingsstaða og fasteignar kærenda sé ekki nema 700 m í beinni sjónlínu. Veruleg hætta sé á að fyrirhuguð hótelbygging muni hafa sjónræn áhrif á fasteignir kærenda og leiða til aukinnar loft-, ljós- og hávaðamengunar, sem skerða muni verðmæti fasteigna kærenda. Þá komi hótel í landi Skerðingsstaða til með að raska umhverfi og lífríki í kringum fasteign þeirra. Ljóst sé að áhrif framkvæmdanna takmarkist ekki við sjónræna þætti og bent sé á að fasteign kæranda liggi að Lárvaði og eigi kærendur því réttindi 115 m út í vatnið, en kærendur séu auk þess handhafar veiðiréttinda í vaðlinum þar á meðal í almenningi stöðuvatnsins. Þeir eigi því bersýnilega lögvarða hagsmuni af úrlausn um gildi deiliskipulags fyrir hótel sem líklegt sé að hafi áhrif á lífríki í Lárvaðli.

Ekki sé hægt að fallast á það með sveitarfélaginu að ítarlegar rannsóknir hafi verið gerðar á lífríki í tengslum við gerð deiliskipulagsins. Í greinargerð sveitarfélagsins hafi ekki verið vísað með nákvæmum hætti til þess hvaða rannsóknir um hafi verið að ræða. Talning á silungs- og laxaseiðum í einn dag verði í öllu falli ekki talin ítarleg rannsókn. Þá sé ljóst að Fiskistofa hafi ekki veitt umsögn um deiliskipulagstillöguna. Hins vegar hafi Fiskistofa bent á að veiðihagsmunir væru í Lárvaðli og að rétt væri að kalla eftir sjónarmiðum frá veiðiréttareigendum til að leiða í ljós hvort framkvæmdirnar kynnu að spilla veiðihagsmunum í vatninu, en ekki verði sé að það hafi verið gert. Þannig liggi ekki fyrir að við afgreiðslu deiliskipulagsins hafi verið gengið nægilega úr skugga um að framkvæmdir muni ekki hafa verulega skaðleg og óafturkræf áhrif á náttúru, lífríki og auðlindir á svæðinu. Þrátt fyrir að upphaf framkvæmda sé háð því að byggingar- eða framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út beri sveitarfélaginu eftir sem áður að sjá til þess að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir við samþykkt deiliskipulagsins. Þá sé ekki nægjanlegt að skipulags- og umhverfisnefnd hafi sett skilyrði um að ítrustu kröfur um fráveitu- og hreinsibúnað yrði uppfylltar. Hvorki í greinargerð né deiliskipulagsuppdrætti sé sýnt hvar útrás frá rotþró og yfirfallsvatni eigi að fara út í Lárvaðal. Því liggi ekki fyrir hversu miklu fráveituvatni verði veitt út í vaðalinn og hvergi sé gerð grein fyrir áhrifum mengunar af völdum fráveitu á lífríki eða umhverfi. Deiliskipulagið sé að þessu leyti ekki í samræmi við aðalskipulag Grundfjarðarbæjar þar sem segi að í deiliskipulagi verði tryggt að gerð verði grein fyrir fyrirkomulagi fráveitu og umhverfisáhrifum þess.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar frá 9. mars 2023 að samþykkja deiliskipulag Skerðingsstaða í Grundarfjarðarbæ.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Hið umdeilda deiliskipulag heimilar byggingu hótels í landi Skerðingsstaða, en gert er ráð fyrir að byggingin verði allt að 22,5 m há og byggingarmagn verði allt að 5.500 m2 ofan jarðar, auk nokkurra smáhýsa. Við mat á því hvort kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun þarf að líta til staðhátta allra, en kærendur eru eigendur jarðarinnar Mýrarhúsa sem liggur handan Lárvaðals og gegnt skipulagssvæðinu. Í þessu sambandi má hafa hliðsjón af umsögn skipulags- og umhverfisnefndar Grundarfjarðarbæjar um framkomnar athugasemdir um deiliskipulagstillöguna varðandi áhrif á sjónræna upplifun. Þar sagði: „Hver svo sem einstaklingsbundin upplifun af framkvæmdinni er, þ.e. góð eða slæm, þá má ljóst vera að vegna hæðar sinnar verður hótelið meira áberandi frá ákveðnum sjónarhornum, sérstaklega frá þjóðveginum þegar ekið verður fram hjá byggingunni og handan Lárvaðals.“ Til þess er einnig að líta að kærendur telja til veiðiréttar í Lárvaðli, en álitið er hugsanlegt að hin ráðgerða uppbygging geti haft í för með sér áhrif á umhverfisgæði í vatninu.

Með hliðsjón af framanröktu verður að álíta að kærendur verði fyrir verulegum áhrifum af ráðgerðum framkvæmdum umfram aðra. Að því virtu verða þeir taldir eiga þá lögvörðu hagsmuni sem krafist er til kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

—-

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er mælt fyrir um að gera skuli deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga og ber sveitarstjórn skv. 38. gr. sömu laga ábyrgð á gerð deiliskipulags. Við gerð skipulagsáætlana ber að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Meðal þeirra markmiða er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið. Að gættum þessum markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað, svo fremi það mat byggi á lögmætum sjónarmiðum. Í d-lið nefndrar 1. gr. kemur fram það markmið laganna að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að almenningi sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð þeirra.

Tekin var saman lýsing á hinu fyrirhugaða skipulagsverkefni í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga og var lýsingin kynnt fyrir almenningi og umsagnaraðilum. Tillaga að deiliskipulagi og umhverfisskýrsla var auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og 15. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Að lokinni auglýsingu var tekin afstaða til athugasemda sem bárust við tillöguna skv. 3. mgr. 41. gr. laganna. Fyrir liggur að í auglýsingu deiliskipulagstillögunnar, sem og auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsins í Stjórnartíðindum, var að finna villu hvað varðaði heimila hámarkshæð hótelsins. Verður ekki talið að um slíka annmarka sé að ræða að leitt geti til ógildingar enda liggur fyrir að hæð hótelsins var rétt í öðrum gögnum, þar með talið á deiliskipulagsuppdrætti. Þá var auglýsing deiliskipulagsins í Stjórnartíðindum leiðrétt 28. ágúst 2023. Var málsmeðferð deiliskipulagsins að þessu virtu í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Samkvæmt 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal við gerð deiliskipulags byggt á stefnu aðalskipulags. Í 7. mgr. 12. gr. laganna kemur enn fremur fram að skipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi og að aðalskipulag sé rétthærra en deiliskipulag.

Aðalskipulag Grundarfjarðarbæjar 20192039 heimilar að reisa allt að 100 herbergja hótel og allt að 5 stakstæð gistihús á skipulagssvæði Skerðingsstaða. Hefur aðalskipulagið með því að geyma skýra afmörkun á heimiluðu byggingarmagni. Til viðbótar kemur fram það skilyrði að tryggt verði í deiliskipulagi að byggingar falli vel að landslagi, hvað varði hæð, form, efni og lit. Einnig verði þess gætt að mannvirki falli vel að Kirkjufelli og sett verði fram sjónrænt áhrifamat í þeim tilgangi.

Umhverfi Skerðingsstaða, þ.e. vestanverð Eyrarsveit, einkennist af brattlendi og skriðum þar sem undirlendi er á kjálkum milli hlíðar og sjávar og í dalbotnum. Gróður ber einkenni beitarlandslags. Mikið ber á Kirkjufelli í austur átt, sem er hátt fjall og kringt hamrabeltum. Telja verður viðmið um að mannvirki falli vel að þessu landslagi hvað varði hæð, form, efni og lit séu svo almenn að á þeim verði að takmörkuðu leyti byggt við mat á því hvort deiliskipulag samræmist stefnu aðalskipulags. Þó má færa rök að því að svo mikil heimiluð hámarks hæð mannvirkis á fyrirhuguðu byggingarsvæði, sem er á lægsta punkti á tanga sem skarar út í Lárvaðal, muni ekki falla vel að landslaginu.

Fyrir liggur að við undirbúning hins kærða deiliskipulags var tekin rökstudd afstaða til skilmála aðalskipulags að þessu leiti. Fyrir liggur umsögn skipulags- og umhverfisnefndar við framkomnum athugasemdum um sjónræn áhrif við kynningu deiliskipulagsins og var það álit nefndarinnar að „heildaráhrifin“ væru þannig að „ekki sé tilefni til að girða fyrir áform framkvæmdaraðilans þótt skoðanir kunni að vera skiptar um byggingarlist og fyrirkomulag mannvirkja.“ Í deiliskipulaginu voru sett nánari skilyrði um gerð og útlit hótelbyggingarinnar, m.a. skyldi hún stallast upp til að falla betur að landslagi og að útlit hennar „falli vel að Kirkjufelli“. Einnig voru sett skilyrði um klæðningarefni, efnisval og gróðurþekju á þökum. Verður að álíta að með þessu hafi við gerð deiliskipulags verið byggt á stefnu aðalskipulags.

Samkvæmt gr. 5.3.2.15. í skipulagsreglugerð 90/2013 skal gera grein fyrir veitum og helgunarsvæðum þeirra, ofan jarðar og neðan, á uppdráttum og/eða í greinargerð. Í greinargerð deiliskipulagsins kemur fram að uppfylla skuli ítrustu kröfur um fráveitu- og hreinsibúnað, vöktun og mótvægisaðgerðir komi til bilana og/eða skyndimengunar í fráveitukerfi byggingar og/eða svæða utanhúss. Þar sem um sé að ræða sérstaklega viðkvæman stað við Lárvaðal, sem sé á verndarsvæði Breiðafjarðar, skuli við veitingu byggingar- og/eða framkvæmdaleyfis leggja sérstaka áherslu á að fráveitu- og heilbrigðismál séu með þeim hætti að ekki stafi af þeim hætta á mengun. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, sem aflað var við meðferð málsins, er fjallað um hreinsivirki vegna uppbyggingar á svæðinu. Fram kemur að vanda þurfi til verka við staðarval og útfærslu á slíku mannvirki og gæta þess að fráveitan skaði ekki lífríkið og útivistarmöguleika gesta í fjörunni við Lárvaðal og bent er á að heilbrigðiseftirlitið komi til með að þurfa að samþykkja þann fráveitubúnað sem settur verði upp við hótelið á Skerðingsstöðum og að mögulega þurfi að vakta ástand vatns í Lárvaðli með sýnatökum. Verður að telja að hið kærða deiliskipulag uppfylli framangreind ákvæði skipulagsreglugerðar að þessu leiti.

Sá ágalli er á umfjöllun í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins að hún er ekki sett í nægilegt samhengi við þær skyldur sem leiða af lögum um stjórn vatnamála nr. 36/2011, sbr. meðal annars 2. mgr. 28. gr. laganna. Viðtaki frárennslis frá ráðgerðri starfsemi á Skerðingsstöðum er Lárvaðall. Flatarmál lónsins er 2,01 km2 og samkvæmt lögum um stjórn vatnamála flokkast Lárvaðall sem árósavatn og hefur vatnshlotanúmerið 101‐620‐T. Með lögum um stjórn vatnamála eru m.a. gerðar kröfur til leyfisveitingarstjórnvalds um rökstuðning fyrir því að framkvæmdir á borð við þær sem hér eru til umfjöllunar, feli eigi í sér hnignun vatnsgæða sem fari í bága við meginreglur laga um stjórn vatnamála. Með hliðsjón af þeirri lýsingu sem þó er í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins á ráðgerðum framkvæmdum við fráveitu verður þó eigi talið að undirbúningur skipulagsins sé háður slíkum annmörkum að ógildingu varði, en til þess er þá einnig að líta að ákvæði laga um stjórn vatnamála hafa þýðingu við leyfisveitingu til framkvæmda, sbr. 3. mgr. 28. gr. laganna.

Við undirbúning skipulagstillögunnar leitaði sveitarfélagið umsagnar Fiskistofu. Í umsögn stofnunarinnar var bent á að framkvæmdir í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka þess, kunni að vera háðar leyfi Fiskistofu sbr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, en slíkt leyfi þarf, eftir atvikum, að liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast.

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga, sbr. 14. gr. laga nr. 111/2021, skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma, og umhverfismati áætlunarinnar. Fjallað var um þrjá valkosti í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins. Auk valkosts framkvæmdaraðila var þar lýst óbreyttu ástandi og öðrum möguleika á uppbyggingu hótels og orlofsþorps. Fram kom að aðrar útfærslur hefðu verið ræddar við skipulagsnefnd og bæjarstjórn, en þar hefði verið af þýðingu að verulega væri þrengt að mögulegu framkvæmdasvæði vegna fornminja. Takmarkaðir möguleikar væru á framkvæmdum annars staðar innan deiliskipulags­reitsins. Mögulegt væri að færa hótelið norðan við stærstu fornminjarnar og stakstæð hús á nyrsta hluta þar sem nú væri sýnd hótelbyggingin, en gera yrði ráð fyrir því að umhverfisáhrif framkvæmda, jákvæð eða neikvæð, væru þau sömu við það. Að teknu tilliti til stefnu aðalskipulags um uppbyggingu á þeim skipulagsreit sem er til umfjöllunar í máli þessu verður ekki álitið að mat á valkostum um uppbyggingu á svæðinu hafi verið háð annmörkum.

Um umhverfismat deiliskipulags er fjallað í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar skal við gerð deiliskipulags meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar, svo sem á vistkerfi, auðlindir, landslag, ásýnd, útsýni, hljóðvist, loftgæði, hagkvæmni, veðurfar, varðveislugildi og svipmót byggðar og einstakra bygginga o.fl. umhverfisþætti eftir því sem efni skipulagsins gefi tilefni til. Í 2. mgr. segir að áætla skuli áhrif af landmótun, skógrækt, umferð, hávaða, umfangsmiklum mannvirkjum, svo sem háhýsum, ásamt fleiri atriðum sem talin eru þar upp. Þá er kveðið á um í 3. mgr. að gera skuli grein fyrir matinu og niðurstöðu þess í greinargerð deiliskipulagsins. Jafnframt skuli því lýst hvernig skipulagið samræmist markmiðum skipulagsreglugerðar, sbr. gr. 1.1., og markmiðum deiliskipulags, sbr. gr. 5.1.1. Að lokum er tekið fram í 4. mgr. að ef í ljós komi að fyrirhugaðar framkvæmdir eða starfsemi geti haft neikvæð áhrif á umhverfið skuli gera breytingar á deiliskipulagstillögunni til að draga úr hinum neikvæðu áhrifum eða rökstyðja af hverju það sé ekki gert. Setja skuli skilmála um vöktun áhrifa og um hvernig bregðast eigi við umhverfisvandanum eftir því sem þörf sé á.

Í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins var fjallað um þá umhverfisþætti sem deiliskipulags­áætlunin var talin líkleg til að hafa áhrif á, nánar tiltekið: vatnafar, neysluvatn, loftslag, gróðurfar, dýralíf, heilsu og öryggi, efnahag, atvinnulíf og íbúaþróun, verslun, þjónustu, útivist og tómstundir, ferðaþjónustu, samgöngur, efnisleg verðmæti, landnotkun, fornminjar, ásýnd lands og vernduð svæði. Markmið umhverfismats á áætlunarstigi er að huga að umhverfis­áhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku. Þar sem stefnumörkun á áætlanastigi er yfirleitt almenns eðlis, borið saman við það sem á við um einstakar framkvæmdir sem háðar eru umhverfismati, verður að ganga út frá því að umhverfismat áætlana sé tiltölulega almennt mat, sem oft fer fram án sérstakra rannsókna á umhverfi og umhverfisáhrifum. Í umhverfisskýrslu hins kærða deiliskipulags er að finna mat á því hver séu líkleg áhrif framkvæmdarinnar á greinda umhverfisþætti og hvaða mótvægisaðgerða og/eða eftirfylgni eigi grípa til. Þá voru auk umhverfis- og framkvæmdaskýrslu meðfylgjandi deiliskipulags­áætluninni skýrslur um gróður og fugla, vatnalíf, fornminjar og skýrsla um vatnsöflun og fráveitu. Að framangreindu virtu og að teknu tilliti til stöðu deiliskipulagsins í stigskiptri áætlanagerð verður að telja að umhverfismat skipulagsins hafi uppfyllt skilyrði skipulagslaga.

Að lokum er bent á að þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi falla undir tl. 12.04 laga nr. 111/2021. Þarf því álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 14. gr. skipulagslaga, að liggja fyrir áður en leyfi verða veitt vegna þeirra framkvæmda sem heimilaðar eru samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það álit úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun sé ekki haldin slíkum annmörkum að fella verði hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar frá 9. mars 2023, um að samþykkja deiliskipulag Skerðingsstaða í Grundarfjarðarbæ.

72/2023 Vogar

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2023, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 4. maí 2023 um að samþykkja nýtingarleyfi til töku grunnvatns á tilgreindu svæði við Vogavík, Sveitarfélaginu Vogum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 8. júní 2023, kæra Reykjaprent ehf., A, B og C ákvörðun Orkustofnunar frá 4. maí 2023 um að samþykkja nýtingarleyfi Benchmark Genetics Iceland til töku grunnvatns á tilgreindu svæði við Vogavík, Sveitarfélaginu Vogum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að nýting grunnvatns á grundvelli leyfisins yrði stöðvuð til bráðabirgða að frágreindri tilgreindri vinnslu neysluvatns til þarfa Sveitarfélagsins Voga, en með úrskurði uppkveðnum 21. júlí 2023 var þeirri kröfu hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 6. júlí 2023

Málavextir: Framkvæmdaraðili, Benchmark Genetics Iceland hf., áður Stofnfiskur hf., rekur fiskeldisstöð í Vogavík, Stapavegi 1 í Vogum, þar sem fram fer fiskeldi, klakfiskeldi, hrognaeldi og seiðaeldi á laxi. Með tölvubréfi til Skipulagsstofnunar 14. janúar 2019 óskaði framkvæmdaraðili álits stofnunarinnar um hvort fyrirhuguð framleiðsluaukning í stöðunni skyldi háð mati á umhverfisáhrifum, en áætlað væri að auka framleiðsluheimildir í stöðinni úr 200 í 320 tonn á ári, þar af yrðu 20 tonn framleidd í nýrri seiðaeldisstöð. Fram kom að vatnsnotkun á starfsstöðinni næmi þá 972 l/sek. Engin nýtingarleyfi væru fyrir hendi vegna vatnstökunnar. Það var álit Skipulagsstofnunar, tilkynnt með bréfi, dags. 19. febrúar 2019, að ekki væri tækt að fara með málið sem tilkynningarskylda framkvæmd og skyldi fara fram mat á umhverfisáhrifum og umhverfisáhrif heildarvatnstöku skoðuð, sbr. 5. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Að undangenginni málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, sem lauk með áliti Skipulagsstofnunar 10. maí 2021, var með bréfi framkvæmdaraðila, dags. 15. júní 2021, sótt um nýtingarleyfi til vatnstöku til 20 ára úr þeim borholum sem væru í notkun í starfsstöðinni í Vogavík. Sótt var um heildarvatnsnotkun sem næmi rúmum 1.372 l/sek. Með umsókninni fylgdu upplýsingar um nýtingarsvæði, borholur og tilgang nýtingar. Þar kom fram að fyrirhuguð nýting næmi 426 l/sek af grunnvatni og 946 l/sek af grunnsjó. Með þessu var gert ráð fyrir aukningu vatnstöku og skiptist hún þannig að 70 l/sek væru ferskvatn og 330 l/sek væru salt vatn. Þá var greint frá því að HS veitur nýttu 15 l/sek af ferskvatni úr einni holu félagsins sem vatnsból fyrir sveitarfélagið Voga samkvæmt samningi, sem sagt hefði verið upp, en sveitarfélagið væri að vinna að því að fá eigið vatnsból og fengi félagið þá viðkomandi borholu til baka.

 Við undirbúning nýtingarleyfisins aflaði Orkustofnun umsagna Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Sveitarfélagsins Voga, með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Hið kærða nýtingarleyfi var síðan gefið út 4. maí 2023. Það nær til þeirrar vatnstöku sem sótt var um en í leyfinu eru skilyrði um magn, nýtingarhraða o.fl., umhverfis- og öryggissjónarmið, frágang, eftirlit og vöktun, upplýsingaskyldu og meðferð upplýsinga, skaðabótaskyldu og vátryggingar o.fl. í ákvæðum leyfisins. Í fylgibréfi með leyfinu er einnig gerð grein fyrir forsendum leyfisveitingar.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að hin kærða ákvörðun sé haldin verulegum annmörkum og fella beri hana því úr gildi. Um hagsmuni sína af málinu benda þeir á að þeir séu eigendur Heiðarlands Vogajarða, sem liggi að svæðinu sem leyfisveitingin taki til. Sá grunnvatnsstraumur sem leyfið lúti að renni um eða undir land þeirra og það sé því hluti vatnstökusvæðisins, sbr. 32. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun. Nýting sú sem heimiluð sé með leyfinu hafi áhrif á möguleika þeirra til að nýta sömu grunnvatnsauðlind á sínu landi og nái umhverfisáhrif nýtingarinnar beint og sérstaklega til lands þeirra sökum vatnsverndar samkvæmt skipulagi.

Við undirbúning leyfisins hafi ekki verið gætt fyrirmæla 7., 13. og 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur hafi aflað sér upplýsinga um að málið væri til meðferðar hjá Orkustofnun og átt frumkvæði að því að óska eftir gögnum og koma að athugasemdum. Skýrt hafi komið fram af þeirra hálfu að þeir teldu sig eiga aðild að málinu samkvæmt stjórnsýslulögum og þeir hafi því óskað eftir því að fá að tjá sig áður en endanleg ákvörðun yrði tekin. Þeim hafi ekki verið veittur slíkur réttur auk þess að ekkert tillit hafi verið tekið til sjónarmiða þeirra. Þeir hafi fyrst fengið vitneskju um hina kærðu ákvörðun með svari Matvælastofnunar við fyrirspurn þeirra, dags. 23. maí 2023.

Um sé að ræða nýtingu grunnvatns sem hafi staðið yfir í lengri tíma án tilskilins leyfis. Af áskilnaði laga nr. 57/1998 um leyfi til nýtingar grunnvatns leiði að aðili sem brotið hafi gegn lögunum með heimildarlausri nýtingu þess geti ekki sótt um og fengið útgefið leyfi eftir á án þess að nýtingin hafi áður verið stöðvuð, hún rannsökuð og ákvörðun tekin um viðurlög við henni. Að öðrum kosti hefðu fyrirmæla laganna um þörf fyrir leyfi og viðurlög við brotum enga þýðingu.

Það hafi ekki verið lagður fullnægjandi grundvöllur að útgáfu hins kærða leyfis í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og fyrirmæli laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Ákvörðun um leyfi þurfi að byggja á fullnægjandi upplýsingum um umhverfisáhrif fyrirhugaðrar nýtingar sem aflað sé í samræmi við lög nr. 111/2021. Þá þurfi við rannsókn máls að afla fullnægjandi upplýsinga um það vatnshlot sem leyfi lúti að. Það verði ekki séð að fram hafi farið fullnægjandi mat á umhverfisáhrifum þeirrar nýtingar sem leyfið taki til. Fyrirliggjandi mat taki til aukningar á grunnvatnsvinnslu úr 972 l/sek í 1.372 l/sek án þess að fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum fyrri nýtingar. Ekki hafi því verið nægilegt að meta einungis umhverfisáhrif aukinnar grunnvatnsnýtingar heldur hefði þurft að fara fram heildarmat á allri framkvæmdinni. Fyrirliggjandi matsskýrsla feli ekki í sér slíkt heildarmat. Þá verði ekki heldur séð að aflað hafi verið fullnægjandi upplýsinga um það vatnshlot og vatnstökusvæði sem nýtingin lúti að, þ.m.t. með tilliti til heildarnýtingarþols umrædds grunnvatnsstraums.

Málsrök Orkustofnunar: Orkustofnun bendir á að tekið hafi verið við umsögnum og athugasemdum kærenda við undirbúning hins kærða leyfis og tekin hafi verið afstaða til sjónarmiða þeirra. Kærendum hafi ekki verið tilkynnt um leyfisveitinguna, en bent á að leyfið yrði kynnt með frétt á heimasíðu Orkustofnunar. Sjónarmið þeirra hafi með þessu legið fyrir við undirbúning leyfisins. Það hafi verið viðhorf stofnunarinnar frá upphafi að kærendur ættu ekki beinna, einstakra og lögvarðra hagsmuna að gæta af málinu, en þar sem þeir væru eigendur aðliggjandi jarðar og sami grunnvatnsstraumur færi um það land, hafi engin málefnaleg ástæða verið til að neita þeim um aðild að málinu eða aðgengi að gögnum. Lögmaðurinn sem komið hafi fram fyrir hönd kærenda hafi kynnt sig á heimasíðu lögfræðistofu sem sérfræðing í stjórnsýslurétti og hafi stofnunin því talið óþarft að veita nákvæmar leiðbeiningar um rétt kærenda til að tjá sig um gögnin og hvert framhald formlegrar málsmeðferðar yrði.

Stofnunin álítur að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið gætt að skyldu til að veita efnislegan rökstuðning sbr. 21.–22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um öll þau sjónarmið sem kærendur hafi fært fram sé fjallað í fylgibréfi með hinni kærðu ákvörðun. Nokkurs konar neðanjarðará renni til sjávar í Vogavík, en eftir að hún renni undan eignarlandi kærenda verði tæplega séð að þeir hafi hagsmuna að gæta af hagnýtingu hennar. Vegna sjónarmiða þeirra um að þeir verði fyrir nýjum kvöðum með hinu kærða leyfi sé bent á að sá grunnvatnsstraumur sem hagnýttur sé með leyfinu hafi verið hagnýttur um áratugi. Vatnsverndarsvæði vegna vatnstökunnar í Vogavík sé afmarkað í gildandi aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga og byggi að hluta til á Svæðisskipulagi Suðurnesja 1987–2007. Ákvörðun Orkustofnunar leiði því ekki til nýrrar kvaðar sem hafi áhrif á kærendur.

Orkustofnun hafi ekki til meðferðar rannsókn á því hvort ólögmætri vatnstöku sé eða hafi verið til að dreifa. Stofnunin hafi engar upplýsingar fengið um meðferð kæru um það efni, en sé kunnugt um að málið sé til rannsóknar hjá Héraðssaksóknara, sem hafi verið gert af ríkissaksóknara að taka rannsóknina til meðferðar að nýju, eftir að hún hafi verið felld niður. Tilkynning til lögreglu sé ein og sér ekki málefnaleg ástæða til að stöðva málsmeðferð við undirbúning leyfis samkvæmt lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Það sé hins vegar ekki óþekkt að auðlindanýting eigi sér stað án leyfis, en þá séu fyrstu viðbrögð að benda hlutaðeiganda á að sækja um leyfi. Þá séu ekki uppi aðstæður í málinu sem bendi til að teljandi hætta sé á því að yfirvofandi sé óafturkræft umhverfistjón. Stöðvun vatnstöku hefði auk þess haft í för með sér mikið tjón fyrir framkvæmdaraðila og hefði verið fram úr hófi að stöðva hana.

Því sé haldið fram af kærendum að ekki hafi farið fram fullnægjandi umhverfismat fyrir þeirri grunnvatnsnýtingu sem áður hafi verið hafin, það er 350 l/sek af fersku grunnvatni og 600 l/sek af svo að segja fullsöltu grunnvatni (jarðsjó). Af því tilefni sé vísað til áðurgildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, þar sem framkvæmd sé skilgreind sem hvers konar nýframkvæmd eða breyting á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir. Hafi nýting grunnvatnsins hafist áður en fyrstu lög um umhverfismat hafi öðlast gildi og staðið um áratugabil. Sú nýting hafi ekki verið háð leyfi yfirvalda. Umhverfisáhrif þeirrar nýtingar liggi því fyrir og þarfnist ekki mats. Aukning vatnstökunnar falli hins vegar undir matsskylda framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Aukin nýting hafi ekki áhrif á forsendur fyrri nýtingar. Engin gögn, sjónarmið eða málsástæður, sem gætu gefið aðra niðurstöðu hafi verið lögð fram, hvorki við málsmeðferð leyfisveitingar né í kæru.

Hvað snerti sjónarmið um að ekki hafi verið aflað nægilegra upplýsinga um það vatnshlot og vatnstökusvæði sem nýtingin lúti að, með tilliti til heildarnýtingarþols hlutaðeigandi vatnsstraums, sé vísað til þess að vatnshlotið og næsta nágrenni þess séu mjög vel rannsökuð. Um þetta sé vísað til greinargerðar sem Orkustofnun hafi unnið í tengslum við annað mál, sem varði umsókn um töku grunnvatns í Heiðarlandi Voga. Þar sé ítarlega farið yfir rannsóknir sem unnar hafi verið á svæðinu og snerti meðal annars grunnvatnsstrauminn sem hér um ræði, m.a. rannsókn nánar tilgreindrar verkfræðistofu frá árinu 2007. Þar komi fram að grunnvatnsstraumurinn beri nýtingu allt að 1.000 l/sek án þess að hætta verði á saltmengun grunnvatnsins, sem sé verulega undir þeirri samanlögðu nýtingu fersks grunnvatns sem leyfi Orkustofnunar taki til.

Orkustofnun hafi leitað lögskyldrar umsagnar Umhverfisstofnunar. Í umsögn stofnunarinnar hafi verið minnt á ákvæði laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og að gæta yrði að því við leyfisveitingu að magnstaða grunnvatns yrði að ná umhverfismarkmiðum um góða magnstöðu, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun. Fram komi í áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina að ólíklegt sé að aukin vatnsvinnsla komi til með að hafa neikvæð áhrif á grunnvatn sem nokkru nemi, að því gefnu að eftirlit tryggi að ekki raskist jafnvægi á milli ferskvatnslinsu og jarðsjós. Þetta sé sama niðurstaða og sjálfstæð rannsókn Orkustofnunar hafi leitt í ljós. Orkustofnun hafi tekið fullt tillit til álits Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar og þeirra ábendinga sem fram hafi komið í umsögnum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og sett starfseminni þau skilyrði um vöktun og viðbragðsáætlanir sem nauðsynlegar hafi verið taldar til að vernda auðlindina fyrir neikvæðum umhverfisáhrifum.

Efnafræði grunnvatns á vatnstökusvæðinu sé þekkt. Upptök grunnvatnsstraumsins séu einnig þekkt sem og streymisleiðir. Þol auðlindarinnar hafi verið metið og sé nýting framkvæmdaraðila vel innan þeirra marka. Tekið sé fram í fylgibréfi leyfisins að Orkustofnun hafi metið að vatnstakan, með skilgreindum mótvægisaðgerðum, hafi hvorki neikvæð áhrif á vatnajafnvægi svæðisins, né aðra núverandi nýting grunnvatns, sbr. áskilnað 17. gr. laga nr. 57/1998. Það sé meðal skilyrða leyfisins að vöktun og aðgerðaáætlun liggi fyrir með það að markmiði að ekki verði breytingar á efnafræðilegri samsetningu vatns og gæðum þess verði viðhaldið.

 Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi greinir frá því að upptaka og nýting á grunnvatni sé forsenda fyrir starfsemi hans, en hann hafi starfsleyfi frá 16. desember 2021, sem taki til eldis með allt að 500 tonna hámarkslífmassa á hverjum tíma. Kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, en engin gögn bendi til þess að nýtingin sem heimiluð sé með hinu kærða leyfi hafi nokkur áhrif á hagsmuni þeirra sem landeigendur Heiðarlands Vogajarða. Þvert á móti sýni matsskýrsla framkvæmdarinnar fram á það með óyggjandi hætti að umhverfisáhrif nýtingar á grundvelli leyfisins nái ekki beint og sérstaklega til lands kærenda. Sé í þessu sambandi m.a. bent á það mat sem komi fram í skýrslunni þess efnis að afköst grunnvatnsstraumsins í Vogum þoli vel áætlaða vatnstöku, jafnvel þótt vatnsvinnsla byggðarinnar í Vogum verði aukin. Áhrifin séu metin óveruleg á grunnvatnsstrauma við Vogavík og einnig á núverandi vatnsból Vogabúa og fyrirhugað vatnsból sunnan Reykjanesbrautar.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur gera athugasemd við ummæli Orkustofnunar um hvenær umrædd vatnstaka hafi hafist en hún hafi verið aukin ítrekað eftir að lög nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu hafi öðlast gildi. Nýting auðlinda án leyfis sé óheimil og varði viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1998. Þá sé í umsögn Orkustofnunar því haldið fram að við rannsókn stofnunarinnar hafi einungis verið litið til áhrifa af aukinni nýtingu en ekki heildaráhrifa hennar. Einnig sé viðurkennt með umsögninni að kærendur hafi ekki notið stöðu aðila máls við undirbúning ákvörðunarinnar.

Í tilefni af athugasemdum framkvæmdaraðila hafni kærendur því að mat hafi verið lagt á heildarvatnstöku í mati á umhverfisáhrifum. Matsskýrslan beri ekki með sér að svo hafi verið gert. Ekki sé hægt að sniðganga fyrirmæli laga um umhverfismat með því að framkvæma mat á einungis litlum hluta framkvæmdar og byggja síðan umsókn um margfalt umfangsmeiri framkvæmd á slíku mati líkt og framkvæmdaraðili virðist gera. Ítrekuð séu einnig sjónarmið um að málsmeðferð við undirbúning leyfisveitingarinnar hafi verið í bága við ákvæði stjórnsýslulaga. Að endingu sé vakin athygli á gögnum sem hafi orðið til við undirbúning álits Skipulagsstofnunar frá 18. júlí 2023 um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs eldisgarðs á Reykjanesi, sem geri það að verkum að því verði ekki haldið fram að við útgáfu hins kærða leyfis hafi legið fyrir Orkustofnun fullnægjandi upplýsingar um ástand hlutaðeigandi vatnshlots eða um áhrif fyrirhugaðrar nýtingar á það og umhverfismarkmið þess. Verði raunar ekki séð að því hafi verið haldið fram í málinu.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Orkustofnunar frá 4. maí 2023 um að samþykkja nýtingarleyfi til töku grunnvatns, allt að 426 l/sek af fersku grunnvatni og 946 l/sek af söltu grunnvatni (jarðsjó) á tilgreindu svæði við Vogavík, í Sveitarfélaginu Vogum, sem er í eigu leyfishafa, sem starfrækir þar fiskeldisstöð.

Um kæruaðild vísa kærendur til þess að þeir séu meðal eigenda Heiðarlands Vogajarða, en það er samkvæmt fasteignaskrá 2719 hektarar að flatarstærð. Þar eru engin mannvirki skráð. Landareignin á merki við lóð leyfishafa í Vogavík þar sem heimiluð er vatnstaka samkvæmt hinu kærða leyfi. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar tók Orkustofnun ekki skýra afstöðu til þess hvort kærendur ættu aðild að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar. Fallast verður á kæruaðild kærenda á þeim grundvelli að ekki verði útilokað að veruleg taka ferskvatns á lóð leyfishafa kunni í nokkrum mæli að hafa áhrif á möguleika kærenda til vatnstöku úr sínu landi síðar meir, en skylt er lögum samkvæmt að tryggja sjálfbæra nýtingu grunnvatns þannig að jafnvægi sé milli vatnstöku og endurnýjunar, sbr. 12. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar var Orkustofnun vel kunnugt um afstöðu kærenda og hefði stofnuninni verið rétt að taka afstöðu til aðildar þeirra að málinu. Þar sem kærendur komu á framfæri sjónarmiðum við meðferð málsins og hafa nú átt þess kost að nýju að koma sjónarmiðum sínum á framfæri gagnvart úrskurðarnefndinni verður að telja að þessi annmarki varði ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu er nýting auðlinda úr jörðu háð leyfi Orkustofnunar. Nýtingarleyfi felur í sér heimild til handa leyfishafa til að vinna úr og nýta viðkomandi auðlind á leyfistímanum í því magni og með þeim skilmálum öðrum sem tilgreindir eru í lögunum, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr. Er nánar fjallað um þá auðlind sem hér um ræðir, þ.e. grunnvatn, í VII. kafla laganna og almennt um skilyrði við veitingu leyfa, efni þeirra svo og afturköllun, sbr. nánar ákvæði VIII. kafla laganna. Lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda. Verður því í máli þessu að líta til ákvæða laga nr. 106/2000 um leyfisveitingu vegna framkvæmdarinnar, en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar er dags. 10. maí 2021.

Lög nr. 106/2000 mæltu fyrir um hvenær framkvæmd skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Tilteknir voru 13 flokkar mismunandi framkvæmda í 1. viðauka við lögin og voru framkvæmdir innan hvers flokks nánar útlistaðar í nokkrum töluliðum. Hverjum tölulið var svo skipað undir flokk A, B eða C, þar sem framkvæmdir tilgreindar í flokki A skyldu ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, en framkvæmdir sem tilgreindar væru í flokki B og C skyldu háðar slíku mati þegar þær gætu haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Vinnsla grunnvatns eða íveita vatns í grunnvatn með 300 l/sek meðalrennsli eða meira á ári féll undir lið 10.24 í 1. viðauka við lögin og þar með í flokk A. Sama gilti um allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar væru í flokki A þegar breytingin eða viðbótin sjálf færi yfir þau viðmið sem flokkur A setti.

Kemur þá til skoðunar hvort álit Skipulagsstofnunar um framkvæmdina hafi verið haldið ágöllum og þá hvort þeir séu svo verulegir að á því verði ekki byggt. Jafnframt kemur til skoðunar hvort málsmeðferð Orkustofnunar hafi verið ábótavant við undirbúning hins kærða leyfis að teknu tilliti til þess mats á umhverfisáhrifum sem fram fór, en stofnuninni ber skylda til að kanna hvort álit Skipulagsstofnunar fullnægi þeim lagaskilyrðum sem um það gilda. Lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar beinist því ekki eingöngu að málsmeðferð og efnislegri niðurstöðu Orkustofnunar sem leyfisveitanda heldur einnig, eftir atvikum, að málsmeðferð og efnislegri niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Þá verða lögmæt og málefnaleg sjónarmið að hvíla að baki útgáfu nýtingarleyfis, en eftir atvikum getur þurft að líta til annarra laga. Líkt og endranær hvílir á leyfisveitanda skylda til að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar.

Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 sagði að í tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun skyldi lýsa framkvæmdinni, eðli hennar og umfangi, framkvæmdasvæði og öðrum raunhæfum valkostum sem til greina koma og upplýsa um þær skipulagsáætlanir sem í gildi væru á framkvæmdasvæði og hvernig framkvæmd samræmist þeim. Þar skyldi einnig vera áætlun um á hvaða þætti framkvæmdar og umhverfis verði lögð áhersla, hvaða gögnum verði byggt á og hvaða aðferðum beitt yrði við umhverfismatið og áætlun um kynningu og samráð. Framkvæmdaraðili skyldi auglýsa og kynna rafrænt tillögu að matsáætlun fyrir umsagnaraðilum og almenningi áður en hann legði tillögu sína fram til afgreiðslu Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. Samkvæmt 3 mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 skyldi í frummatsskýrslu ávallt gera grein fyrir raunhæfum valkostum sem framkvæmdaraðili hefði kannað og borið saman með tilliti til umhverfisáhrifa. Tilgreina skyldi ástæður fyrir aðalvalkosti með tilliti til umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar.

Að fengnum umsögnum og athugasemdum skyldi framkvæmdaraðili skv. 6. mgr. 10. gr. laganna vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu. Skipulagsstofnun gaf svo rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laga nr. 106/2000 og reglugerða settum samkvæmt þeim og hvort umhverfisáhrifum hefði verið lýst á fullnægjandi hátt, sbr. 1. mgr. 11. gr. sömu laga. Þá skyldi í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu. Jafnframt skyldi leyfisveitandi samkvæmt ákvæðum 13. gr. laga nr. 106/2000 kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmd sem háð er mati á umhverfisáhrifum og leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins skyldi leyfisveitandi taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð væri grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu væri vikið frá niðurstöðu álitsins. Leyfisveitandi skyldi í greinargerðinni einnig taka afstöðu til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni væri til ef um það væri fjallað í áliti Skipulagsstofnunar.

Hinn 20. ágúst 2020 lagði leyfishafi fram frummatsskýrslu um aukna framleiðslu í eldisstöð Stofnfisks í Vogavík til athugunar hjá Skipulagsstofnun í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Fram kom að leyfishafi hefði heimild fyrir allt að 200 tonna framleiðslu á laxi í eldisstöðinni og áform væru um að auka framleiðslu í allt að 450 tonn þar sem hámarkslífmassi gæti orðið allt að 500 tonn. Var í skýrslunni einnig greint frá því að sökum aukinnar framleiðslu í stöðinni þyrfi að auka vinnslu á grunnvatni og jarðsjó um 400 l/s, úr 972 í 1.372 l/sek. Fram kom að allt vatn á Reykjanesi rynni til sjávar sem grunnvatn. Það rynni greitt um hraunið á lóð fiskeldisins og mikið útrennsli grunnvatns væri undan hrauninu í Vogavík. Ferskvatnslinsa flyti á sjó í berggrunninum. Neysluvatn fyrir þéttbýlið á Reykjanesi væri tekið í Lágum og við Árnarétt fyrir Garðinn, en hins vegar hefði þéttbýlið í Vogum nýtt borholur á lóð leyfishafa. Við þessa vatnstöku alla væri fyrrgreind ferskvatnslinsa hagnýtt. Í skýrslu Íslenskra orkurannsókna ohf., ÍSOR, sem aflað hafi verið í tengslum við matsferlið, komi fram að þétt sjávarsetlag, allt að 80 metrar á þykkt, skilji að ferskvatnslinsuna og jarðsjóinn. Lítil hætta sé talin á að aukin vinnsla á jarðsjó nái til ferskvatnsins sem fljóti ofan á framangreindu setlagi. Því sé talið ólíklegt að aukin sjótaka muni hafa áhrif á gæði núverandi vatnsbóls Sveitarfélagsins Voga og mjög ólíklegt að áhrifa gæti á framtíðarvatnsból sveitarfélagsins, sem markað hafi verið svæði sunnan Reykjanesbrautar.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun framkvæmdarinnar, dags. 6. maí 2020, var fjallað um að við meðferð málsins hefði komið í ljós að Sveitarfélagið Vogar væri að kanna möguleika á að tengja dreifikerfi Voga við vatnslögn veitukerfis Reykjanesbæjar, en ekki lægi fyrir hvenær sveitarfélagið gæti hætt að nýta núverandi vatnsból, sem væri á lóð framkvæmdaraðila. Taldi Skipulagsstofnun að með hliðsjón af þeirri óvissu þyrfti í frummatsskýrslu að fjalla um vatnsöflun framkvæmdaraðila og áhrif hennar út frá mismunandi forsendum. Þessa var gætt í skýrslunni þar sem rakið var að til stæði að Sveitarfélagið Vogar mundi í framtíðinni afla neysluvatns annars staðar. Þar hefði komið til greina að bora eftir vatni sunnan Reykjanesbrautar eða tengjast vatnsveitu Reykjanesbæjar. Í skýrslunni kemur fram að 13. maí 2020 hafi sveitarfélagið auglýst tillögu að breytingu á aðalskipulagi og tillögu að deiliskipulagi ásamt umhverfisskýrslu vegna nýs vatnsbóls sunnan Reykjanesbrautar. Tenging við vatnsveitu Reykjanesbæjar væri því ekki lengur til skoðunar, en forsenda þess að ráðist yrði í að auka framleiðslu í eldinu væri sú að vatnsból Sveitarfélagsins Voga á lóð framkvæmdaraðila yrði lagt niður og vatnið úr þeim borholum yrðu aftur á forræði fyrirtækisins. Því væri ekki ástæða til þess að meta áhrif aukinnar vatnsvinnslu framkvæmdarinnar á núverandi vatnsból Voga. Á hinn bóginn yrði lagt mat á áhrif aukinnar grunnvatnsvinnslu á fyrirhugað vatnsból sveitarfélagsins sunnan Reykjanesbrautar.

Í frummatsskýrslunni var fjallað um núllkost, en í honum fælist að starfsemi leyfishafa yrði óbreytt. Um leið var fjallað um ólíka valkosti við fráveitu frá starfsemi leyfishafa. Í nokkru var fjallað um aðrar útfærslur fyrir áformaða starfsemi sem hafa mundu áhrif á vatnsþörf og nýtingu vatns. Fram kom að kjörhiti eldisvatns fyrir seiðaeldi væri 12–14°C. Meðalhiti fersks grunnvatns væri 5°C meðan hiti salt vatns væri 9,5–10,5°C. Því þyrfti að hita vatnið svo kjörhita yrði náð. Kostnaðarsamt væri að hita eldisvatn með hitaveituvatni eða rafmagni. Mun hagkvæmara væri að endurnýta ferskvatn sem hitað hefði verið upp og kom fram að um 70% af vatni sem nýtt væri til eldis á klaklaxi og sláturlaxi hjá leyfishafa væri endurnýtt með loftun sem fjarlægi koltvíoxíð úr vatninu og bæti við súrefni. Þekkt væri að við hærri endurnýtingu á sjó geti óheppilegar gastegundir myndast í eldinu, einkum brennisteinsvetni H2S sem væri mjög hættulegt eldisfiski. Því þætti ekki áhættunnar virði að fara í fulla endurvinnslu á eldissjó fyrir klakfisk. Að þessu virtu og því að um var að ræða framkvæmd sem fól í sér aukningu á starfsemi sem þegar var rekin af framkvæmdaraðila, verður að telja að valkostaumfjöllun í frummatsskýrslu í skilningi 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 hafi verið fullnægjandi, enda þótt hún hefði mátt fela í sér fyllri rökstuðning með tilliti til umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar.

Orkustofnun bar við útgáfu hins kærða nýtingarleyfis að fara að lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og tryggja að leyfið væri í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga um stjórn vatnamála. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða við lög um stjórn vatnamála skyldi ráðherra staðfesta fyrstu vatnaáætlunina eigi síðar en 1. janúar 2018, en það dróst til 6. apríl 2022 og gildir sú áætlun sem þá var sett til loka árs 2027. Vatnaáætlun hefur að geyma þá almennu og bindandi stefnumörkun að öll vatnshlot á Íslandi eigi að vera í a.m.k. góðu ástandi nema að veitt hafi verið undanþága frá umhverfismarkmiðum og að ástand vatnshlots megi ekki versna, en sú stefnumörkun er jafnframt í samræmi við meginreglur laganna, sbr. einkum 12. gr. þeirra.

Í vatnaáætlun er rakið að samkvæmt lögum um stjórn vatnamála skuli skilgreina efnafræðilegt ástand og magnstöðu grunnvatns. Í viðauka við vöktunaráætlun vatnaáætlunar er fjallað um vöktun og ákvörðun efnafræðilegs ástands grunnvatns. Magnstöðu skal hins vegar samkvæmt vatnaáætlun meta út frá hæð vatnsborðs, en til þess að ástand þess sé talið gott skal hæð grunnvatnshlots vera þannig að meðalvatnstaka á ári til langs tíma sé ekki meiri en tiltækt grunnvatn. Hæð grunnvatnsborðs skal þar af leiðandi ekki verða fyrir breytingum af mannavöldum sem gætu haft í för með sér að ekki tekst að ná umhverfismarkmiðunum fyrir yfirborðsvatn, að ástand vatnsins hraki umtalsvert eða að umtalsvert tjón verði á landvistkerfum. Til að geta talist í góðu magnstöðuástandi má breyting á straumstefnu vegna vatnsborðsbreytinga í grunnvatnshloti ekki hafa í för með sér eða benda til innstreymis s.s. salts vatns.

Af hálfu kærenda hefur verið staðhæft að í matsskýrslu framkvæmdarinnar hafi einungis verið fjallað um umhverfisáhrif aukinnar vatnstöku, en ekki þá nýtingu sem þegar væri eða hefði verið á lóð leyfishafa. Þennan skilning má rekja til umfjöllunar í umsögn sem Orkustofnun lét úrskurðarnefndinni í té. Af matsskýrslunni verður ekki ráðið að þessi sé raunin og ber umfjöllun þess merki að lagt sé heildstætt mat á áhrif fyrirhugaðrar mannvirkjagerðar og vatnsvinnslu að teknu tilliti til annarrar nýtingar, þá einkum öflunar neysluvatns fyrir sveitarfélagið Voga. Þá er vísað til þess í skýrslunni að í lögum um stjórn vatnamála sé mælt fyrir um að tryggja skuli sjálfbæra nýtingu grunnvatns. Yfirvöld hafi ekki gefið út leiðbeiningar um hvernig meta eigi sjálfbærni grunnvatnsvinnslu, en leitast þurfi engu að síður við það að meta hvort fyrirhuguð ferskvatnsvinnsla sé sjálfbær og að jafnvægi verði milli vatnstöku og endurnýjunar. Fram kemur í þessu sambandi að Veðurstofa Íslands hafi gert tillögu að aðferð til að meta magnstöðu grunnvatns og er um það vísað til skýrslu stofnunarinnar frá desember 2019.

Í matsskýrslunni er rakið að vatnstakan fari fram í grunnvatnshlotinu Reykjanes 104-263-G. Í greindri skýrslu Veðurstofunnar hafi verið birt mynd sem sýni annars vegar úrkomu sem falli á vatnshlotið og hins vegar magn vatnstöku innan þess. Samkvæmt því falli talsvert meiri úrkoma í grunnvatnshlotinu Reykjanes, sem Vogavík tilheyri, en sem nemi þekktri grunnvatnsvinnslu á því svæði. Settur er þó sá fyrirvari í matsskýrslunni að þessi nálgun sé ónákvæm og gefi ekki raunsanna mynd af misdreifðu álagi. Engu að síður megi gera ráð fyrir að enn sem komið er þurfi vinnsla grunnvatns að vera umtalsvert meiri til þess að hafa neikvæð áhrif á grunnvatnsauðlindina sem sé tiltæk. Þá er einnig vísað til skýrslu sem ÍSOR vann um neysluvatnsból á Suðurnesjum þar sem segi um afkastagetu grunnvatnsstraums í Vogum að áætlað hafi verið að hámarksvinnsla úr Lágasvæði sé takmörkuð við allt að 1.800 l/sek. Grunnvatnslíkan nánar tilgreindrar verkfræðistofu hafi verið látið líkja eftir allt að 1.400 l/sek vatnstöku í Lágum og jafnframt mikilli vatnstöku á svæðinu við Snorrastaðatjarnir sunnan við Voga og verði ekki annað séð en að vatnsvinnslusvæðin ættu að geta annað þvílíkri úrdælingu.

Fram kemur í matsskýrslunni að í Vogum sé tekið vatn úr sama grunnvatnstraumi og fari um Snorrastaðatjarnir. Vatnstaka leyfishafa sé nú um 350 l/sek og ætlunin sé að auka hana um 70 l/sek. Þessu til viðbótar komi ætlanir um nýtt Vatnsból fyrir Voga sem verði 100 l/sek og samtals sé vatnstakan því um 520 l/sek eða um rúmur þriðjungur þessa. Þá er í matsskýrslunni fjallað um úrkomu, sem sé langmikilvægasti þátturinn varðandi írennsli til grunnvatns. Það megi áætla, miðað við upplýsingar um úrkomu frá Veðurstofu Íslands, að írennsli til grunnvatns af 9 til 13 km2 svæði þurfi til að uppfylla fyrirhugaða vatnstöku leyfishafa í Vogavík. Svæðið norðan Fagradalsfjalls, sem um ræði, sé víðáttumikið, en þaðan komi stór hluti ferska grunnvatnsins sem renni til Vogavíkur. Í þeim samanburði þurfi lítinn hluta landsvæðisins til að standa undir vatnstöku vegna starfseminnar. Með hliðsjón af þessu og því að ekki hafi orðið vart breytinga á efnainnihaldi ferskvatns í Vogum þrátt fyrir mikla dælingu þar árum saman verði að ætla að núverandi vinnsla sé sjálfbær og verði það áfram þrátt fyrir 20% aukningu.

Fram kemur í matsskýrslu að grunnvatnslíkan tiltekinnar verkfræðistofu hafi verið notað til að meta mengunarhættu á vatnsból Voga vegna bílastæðis sem sé á lóð eldisstöðvarinnar. Talið sé að mengunarhættan sé afar lítil þar sem bílastæði sé réttu megin við ferskvatnsstrauminn á leið hans til sjávar. Fjallað er um úttekt ÍSOR sem aflað var í matsferlinu, en þar komi fram að engar sjáanlegar þversprungur væru nærri vatnsbólinu eða á fyrirhuguðu byggingarsvæði seiða- og hrognahúss. Ekki væri talin hætta á að mengun bærist til vatnsbólsins þvert á grunnvatnsstrauminn. Ferskt grunnvatn væri steinefnasnautt og leiðni þess því lág, en hún aukist við blöndun við saltvatn. Klóríð í grunnvatni á Íslandi eigi uppruna sinn fyrst og fremst í sjó en í undantekningartilvikum í saltríkum jarðlögum. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafi fylgst með rafleiðni (seltu), styrk klóríðs, sýrustigs og grugginnihaldi í vatnsbóli Voga síðan 2008 og hafi allir þættir eftirlitsins uppfyllt gæðakröfur um neysluvatn. Styrkur klóríðs árið 2017 hafi þó verið við mörk reglugerðar, en niðurstöður leiðnimælinga hafi ekki verið í samræmi við styrk klóríðsins. Talið var hugsanlegt að um misritun væri að ræða.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum aukinnar framleiðslu í eldisstöðinni í Vogavík, frá 10. maí 2021, var m.a. fjallað um umsagnir umsagnaraðila um matsskýrsluna. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja kom fram að þótt fyrirhugað byggingarsvæði sé ekki í aðrennslisstefnu að vatnsbólum þurfi að meta sérstaklega hvort hætta sé á rennsli um sprungur þvert á meginstrauma. Verði niðurstaðan sú að framkvæmdir geti hafist á meðan vatnsvernd sé enn á þessu svæði þurfi engu að síður að binda jarðvinnu og aðrar framkvæmdir ströngum skilyrðum um mengunarvarnir, líkt og þegar sé gert undantekningalaust á grann- og fjarsvæðum vatnsverndar.

Í umsögnum Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar voru gerðar athugasemdir við umfjöllun um grunnvatn. Orkustofnun benti á að í frummatsskýrslu væri talið að þar sem 80 metra þéttur setlagabunki aðskilji jarðsjó og ferskvatnslinsu sé ályktað að ólíklegt sé að aukin sjótaka á lóð

Stofnfisks muni hafa áhrif á gæði neysluvatns í fyrirhuguðu vatnsbóli Voga, sunnan Reykjanesbrautar. Þykkt umrædds setlags hafi mælst 80 m á einum stað, í holu SV-14, en í annarri holu skammt frá, holu SV-9, sé umrætt setlag mun þynnra. Jafnframt gerði stofnunin athugasemdir við umfjöllun og viðmið framkvæmdaraðila í umfjöllun um umhverfisáhrif grunnvatnstöku þar sem áætlað írennsli til grunnvatns á ferkílómetra á svæðinu sé borið saman við heildarstærð umrædds vatnsverndarsvæðis. Umræða um sjálfbærni nýtingar út frá þeim forsendum sé að mati Orkustofnunar marklaus. Stofnunin hafni ekki fullyrðingu framkvæmdaraðila um umhverfisáhrif vatnsnýtingar, en telur að hana hafi þurft að rökstyðja með ítarlegri og afmarkaði hætti. Einnig taldi stofnunin að víkja hefði átt betur að fyrirhugaðri aukinni vatnsvinnslu Sveitarfélagsins Voga í mati á afkastagetu grunnvatnsstraumsins. Í umsögn Umhverfisstofnunar kom fram að stofnunin teldi að áhrif á vatnsvinnslu kunni að verða talsvert neikvæð á endurnýjun vatnshlotsins yrði of miklu ferskvatni dælt, en annars verði áhrifin óveruleg.

Í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdarinnar var greint frá viðbrögðum framkvæmdaraðila við umsögnum sem aflað var við gerð matsins. Þar komi fram að í kjölfar nýrra upplýsinga um hugsanlegar tafir á færslu núverandi vatnsbóls Voga og þar með afléttingu vatnsverndar á svæðinu hafi framkvæmdaraðili látið vinna sérfræðiálit um grunnvatnsstrauma þar og hugsanlega mengunarhættu vegna byggingarframkvæmda við vatnsbólið. Leitað hafi verið eftir frekari umsögn Heilbrigðiseftirlitsins sem legðist ekki gegn áformunum, en hafi bent á að framkvæmdir væru háðar ströngum skilyrðum um mengunarvarnir. Í álitinu var einnig greint frá svörum framkvæmdaraðila um að yfirvöld hefðu ekki gefið út leiðbeiningar um hvernig meta ætti sjálfbærni grunnvatnsvinnslu. Tilraun væri gerð til að meta sjálfbærni fyrirhugaðrar vatnsvinnslu, en í umsögn Orkustofnunar væru ekki settar fram leiðbeiningar um hvernig sjálfbærnimat þurfi að vera til að það geti talist marktækt.

Úrkoma og leysing væru ráðandi þættir um magnstöðu grunnvatns, en einnig lekt berggrunnsins og hve mikið vatn rúmist í grunnvatnsgeymum. Samkvæmt nýlegri skýrslu Veðurstofu Íslands félli talsvert meiri úrkoma (írennsli) til grunnvatnshlotsins sem Vogavík tilheyrði, en sem næmi þekktri grunnvatnsvinnslu á því svæði. Í skýrslu um framtíðarvatnsból Suðurnesja hafi verið sett fram sviðsmynd sem byggð væri á reiknilíkani tiltekinnar verkfræðistofu um áhrif af 1.400 l/sek vinnslu í Lágum og 1.400 l/sek vinnslu við Snorrastaðatjarnir samtímis. Miðað við þá sviðsmynd verði vinnslan án verulegra óæskilegra áhrifa á grunnvatnskerfið. Fram komi í skýrslunni að áformað vatnsból Voga mundi taka grunnvatn úr sama grunnvatnsstraumi og lægi um svæðið við Snorrastaðatjarnir og niður í Vogavík.

Leyfishafi benti af þessu tilefni á að vinnsla fyrirtækisins á ferskvatni næmi nú um 350 l/sek og væri ætlunin að auka vinnsluna um 70 l/sek. Þessu til viðbótar væri fyrirhuguð aukning á vatnstöku úr vatnsbóli Voga um 100 l/s. Samanlögð vatnstaka gæti því numið allt að 520 l/s eða um þriðjungi af áætlaðri afkastagetu grunnvatnsstraumsins. Líkanreikningar áðurnefndrar verkfræðistofu hafi forspárgildi um afkastagetu straumsins í Vogum og allra vatnsbóla frá svæðinu við Snorrastaðatjarnir og niður í Vogavík. Með hliðsjón af því væri ekki hægt að líta svo á að aukin vinnsla grunnvatns yrði umfram afkastagetu grunnvatnsstraumsins á svæðinu. Það væri því mat leyfishafa að áhrif aukinnar grunnvatnsvinnslu yrði óveruleg, bæði á núverandi vatnsból Voga og fyrirhugað vatnsból Voga, sunnan Reykjanesbrautar.

Það var álit Skipulagsstofnunar um áhrif framkvæmdarinnar á grunnvatn að áætla mætti að ólíklegt væri að fyrirhugaðar framkvæmdir og aukin vinnsla grunnvatns kæmi til með að hafa neikvæð áhrif á núverandi eða fyrirhuguð vatnsból Sveitarfélagsins Voga. Stofnunin áleit samt sem áður að vegna hættu á íblöndun jarðsjávar við ferskvatn og vegna hugsanlegra áhrifa á aðra grunnvatnsvinnslu á svæðinu væri ástæða til þess að vakta svæðið og áhrif vinnslunar á framangreinda þætti. Setja þyrfti ákvæði í nýtingarleyfi um vöktun vegna grunnvatnstöku og viðbrögð ef í ljós kæmi að heimiluð vatnstaka hefði meiri áhrif á grunnvatnsborð en upphaflega hafi verið áætlað. Þá væri mikilvægt að í framkvæmdaleyfi yrði kveðið á um verktilhögun sem miðaði að því að draga úr hættu á að mengun bærist í vatnsból.

Leyfisveitanda er skylt, við undirbúning og töku ákvörðunar um leyfi til framkvæmdar sem sætir mati á umhverfisáhrifum, að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar. Skylt er að taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð er grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Þrátt fyrir að álit Skipulagsstofnunar sé lögbundið og skuli liggja ákvörðun um leyfisveitingu til grundvallar er það þó ekki bindandi fyrir leyfisveitanda, enda er í lögum gert ráð fyrir því að leyfisveitandi rökstyðji það sérstaklega ef í leyfinu er vikið frá niðurstöðu álitsins, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000.

Í fylgibréfi með hinu kærða leyfi var gerð grein fyrir málsmeðferð og lagalegum grundvelli leyfisveitingarinnar auk þess að fjallað var um umsagnir sem bárust um leyfisveitinguna. Í bréfinu var fjallað um þá nýtingu sem þegar ætti sér stað á lóð leyfishafa og áform um að tryggja öflun neysluvatns með vatnsbóli sunnan við Reykjanesbraut. Fram kom að þar sem þau áform hefðu tafist og ekki lægi ljóst fyrir hvort, hvenær eða hvert neysluvatnsöflun fyrir sveitarfélagið yrði flutt, yrði að miða við óbreytt ástand og gera kröfur um að ferskt grunnvatn samkvæmt nýtingarleyfinu uppfyllti viðmið fyrir neysluvatn hvað seltu varðaði.

Fjallað er um álit Skipulagsstofnunar í fylgibréfinu og tekin afstaða til þeirrar ályktunar í álitinu að ólíklegt sé að fyrirhugaðar framkvæmdir og aukin vinnsla grunnvatns komi til með að hafa neikvæð áhrif á núverandi eða fyrirhuguð neysluvatnsból. Einnig er þar tekin afstaða til þeirrar áherslu sem í álitinu er lögð á að tryggt verði með vöktun að aukin vatnsvinnsla hafi ekki áhrif á jafnvægi milli ferskvatnslinsu og jarðsjávar. Fram kemur að Orkustofnun hafi kannað sérstaklega áhrif aukinnar vinnslu jarðsjávar og legði áherslu á að fylgst yrði með áhrifum vinnslu á seltu og magnstöðu grunnvatns og hafi um það verið sett skilyrði í 7. gr. hins kærða leyfis. Nánar tiltekið greinir þar að dýpi borhola til vinnslu á söltu vatni skuli vera nægilegt svo þær dragi eins saltan vökva og hægt sé og skuli meðalselta ekki fara undir 30‰. Mælt er jafnframt fyrir um að árlega skuli leyfishafi skila til Orkustofnunar til samþykktar áætlun um tíðni og fyrirkomulag innra eftirlits ásamt vöktun á áhrifum nýtingar. Skal niðurstöðum vöktunar skilað síðan til stofnunarinnar eigi síðar en 15. apríl hvers árs, sbr. 8. gr. leyfisins.

Hvað varðaði ferskt grunnvatn vísaði Orkustofnun til mats ÍSOR um að vinnsla mundi ekki hafa áhrif á gæði neysluvatns í núverandi vatnsbóli Voga og að út frá líkanreikningum tiltekinnar verkfræðistofu verði ekki annað séð en að grunnvatnsstraumurinn ofan frá Vogaheiði muni anna fyrirhugaðri vinnslu. Engin önnur nýting eigi sér stað úr grunnvatnsstraumnum og ekki verði séð út frá framangreindum greiningum að aukin taka grunnvatns muni sérstaklega takmarka möguleika til vatnstöku sunnan Reykjanesbrautar. Fram kom að sett hafi verið skilyrði í 4. gr. hins kærða leyfis um hámarksseltu ferskvatnsins, sem byggðu á reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn. Með vísan til fyrirliggjandi rannsókna á umræddu svæði og umfjöllunar stofnunarinnar í fylgibréfinu var það álit stofnunarinnar að með tilgreindum mótvægisaðgerðum muni fyrirhuguð vatnstaka hvorki hafa neikvæð áhrif á vatnsjafnvægi svæðisins, né að núverandi nýting grunnvatns verði fyrir áhrifum af þeirri nýtingu sem sótt sé um.

Með vísan til framangreinds verður ekki annað ráðið en að Orkustofnun hafi kynnt sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Þá er í fylgibréfi með hinu kærða leyfi, í kafla um afstöðu til mats á umhverfisáhrifum, greint frá niðurstöðum í áliti Skipulagsstofnunar og fjallað um viðbrögð og afstöðu Orkustofnunar. Jafnframt er í fylgibréfinu að finna stuttan útdrátt úr athugasemdum þeim sem fram komu við meðferð málsins og svör Orkustofnunar við þeim. Þegar litið er til þessa og þeirra skilyrða sem fram koma í umræddu nýtingarleyfi verður að telja að Orkustofnun hafi bæði lagt álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar hinu kærða leyfi og tekið rökstudda afstöðu til álitsins, m.a. hvað varðar vatnsjafnvægi grunnvatns og hættu á mengun. Sú umfjöllun tók mið af þeim skyldum sem hvíla á Orkustofnun að gæta þess að leyfi samrýmist þeirri stefnumörkun um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun, en af henni má ráða að stofnunin áleit að ekki væri með útgáfu leyfisins grafið undan stefnumörkun vatnaáætlunar um að vatnshlot eigi að vera í a.m.k. góðu ástandi nema að veitt hafi verið undanþága frá umhverfismarkmiðum og að ástand vatnshlots megi ekki versna.

Að öllu framangreindu virtu verður hin kærða ákvörðun látin óröskuð.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun Orkustofnunar frá 4. maí 2023 um að samþykkja nýtingarleyfi til töku grunnvatns á tilgreindu svæði við Vogavík, Sveitarfélaginu Vogum.

122/2022 Kópaskerslína

Með

Árið 2023, föstudaginn 5. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 122/2022, kæra á ákvörðunum Skipulagsstofnunar frá 21. september 2022 um að lagning 66 kV jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 skuli ekki háð umhverfismati og frá 11. október 2022 um að styrking Kópaskerslínu 1 skuli ekki sæta umhverfismati.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið, ákvarðanir Skipulagsstofnunar frá 21. september 2022 um að lagning 66 kV jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 skuli ekki háð umhverfismati og frá 11. október 2022 um að styrking Kópaskerslínu 1 skuli ekki háð umhverfismati.

Þess er krafist að ákvarðanir þessar verði felldar úr gildi og lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að taka nýja ákvörðun í málunum. Til vara er þess krafist að ákvörðun um lagningu jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki verði felld úr gildi að hluta til, hvað varði nútímahraun.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 21. nóvember 2022.

Málavextir: Kópaskerslína 1 er loftlína sem liggur milli Laxárvirkjunar og Kópaskers. Línan er um 83 km löng og liggur m.a. um Reykjaheiði, Þeistareykjahraun, Kelduhverfi og Öxarfjörð.

Hinn 9. maí 2022 barst Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu tilkynning fram­kvæmdaraðila, Landsnets hf., um framkvæmdir á Kópaskerslínu 1 skv. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka við lögin. Í greinar­gerð sem fylgdi tilkynningunni kom fram að nokkrar bilanir hefðu orðið á línunni frá því hún hefði verið tekin í rekstur, þar af þrjár umfangsmiklar. Markmið framkvæmdarinnar væri að auka afhendingaröryggi á svæðinu. Samkvæmt greinargerð framkvæmdaraðila felst fyrir­­huguð framkvæmd í að styrkja Kópaskerslínu 1 á tveimur stöðum annars vegar með lagningu 2,5 km jarðstrengs í stað loftlínu og hins vegar endurnýjun loftlína á 5,5 km löngum kafla.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Norðurþings, Minjastofnunar Íslands, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og Skógræktarinnar. Töldu þessir aðilar ekki þörf á umhverfismati vegna framkvæmdarinnar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 11. október 2022. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri fyrirhuguð fram­kvæmd ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Hinn 2. ágúst 2022 barst Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu tilkynning fram­kvæmdaraðila um lagningu 66 kV jarðstrengs frá Þeistareykjum norður að Kópaskerslínu 1 skv. 19. gr. laga nr. 111/2021, sbr. liði 10.16 og 13.02 í 1. viðauka við lögin. Í greinargerð framkvæmdaraðila sem fylgdi tilkynningu kom m.a. fram að talsverðar rekstrartruflanir hefðu orðið á Kópaskerslínu 1 frá tengivirkinu á Þeistareykjum að mastri 172. Framkvæmdin fælist í því að leggja nýjan háspenntan 7,8 km langan jarðstreng og taka á móti niður loftlínuna. Nauðsynlegt sé að styrkja línuna þar sem hún sé hvað útsettust fyrir óveðrum til að viðhalda afhendingaröryggi á svæðinu. Með því að koma hluta línunnar í jörð sé hún vernduð gegn veðurálagi.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Norðurþings, Þingeyjasveitar, Minja­stofnunar Íslands, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og Náttúrufræðistofnunar Ísland um það hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Töldu þessir aðilar ekki þörf á umhverfismati vegna framkvæmdarinnar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu fram­kvæmdarinnar lá fyrir 21. september 2022. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri fyrirhuguð framkvæmd ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að hin kærða ákvörðun sé háð verulegum annmörkum og hana skuli því ógilda. Varða málsrök kæranda aðallega ákvörðun Skipulags­stofnunar dags. 21. september 2022 um lagningu jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu. Það svæði sem strengurinn verði lagður um og er í kæru nefnt Skildingahraun njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd. Íslenskar orku­rannsóknir (ISOR) meti hraunið merkilegt í jarðsögulegu samhengi. Hraunið og hár aldur þess segi sögu jökulhörfunar snemma á síðjökultíma af hálendi Þeistareykjasvæðisins og setji í samhengi við jökulhörfun nærliggjandi svæða. Hrauninu verði raskað varanlega með því að leggja tæplega átta kílómetra langan jarðstreng frá Þeistareykjavirkjun að Kópaskerslínu 1.

Í greinargerð framkvæmdaraðila, sem fylgt hafi tilkynningu til Skipulagsstofnunar, komi ekki fram berum orðum að til standi að raska hrauninu, en af hinni kærðu ákvörðun megi sjá að nútímahrauni í skilningi 61. gr. náttúruverndarlaga verði raskað með framkvæmdinni. Lög mæli fyrir um að forðast skuli að raska slíkum fyrirbærum, en allt rask á nútímahrauni sé eðli máls samkvæmt varanlegt og óafturkræft. Í greinargerð framkvæmdaraðila sé ekki fjallað um áhrif á jarðminjar eða verndargildi þeirra, lög eða neitt sem tengist náttúruvernd, heldur eingöngu hvar sé hentugt fyrir framkvæmdaraðila að leggja strenginn í vegkanti gamals vegar. Einungis komi fram að strengleiðin sé öll í hrauni sem runnið hafi á síðjökultíma og það njóti sjálfkrafa verndar. Þá virðist eina tilvísun til hraunsins tengjast hverfisvernd í deiliskipulagi fyrir Þeistareykjasvæðið.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem aflað var við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar, sé fullyrt að hraunið hafi að einhverju leyti glatað verndargildi sínu vegna jarðvegs og gróðurhulu. Þá kemur fram að ráðgerð strengleið sneiði fram hjá rishólum og sprungum í hrauninu „að mestu“ og með því sé rask á hrauninu lítið. Á Íslandi séu fjöldi nútímahrauna vel gróin, en allt að einu sérstæð og mikilvæg án þess að hafa glatað verndargildi sínu og því sé þetta byggt á misskilningi. Ekki hafi verið sýnt fram á með vísindalegum hætti að Skildingahraun hafi glatað verndargildi sínu eða að hraun geri það almennt séu þau undir gróðurhulu. Samkvæmt a- og b-lið 3. gr. náttúruverndarlaga séu verndarmarkmið fyrir jarðminjar annars vegar að varðveita skipulag heildarmynd af jarðfræðilegum ferlum og fyrirbærum sem gefi samfellt yfirlit um jarðsögu landsins og hins vegar að vernda jarðmyndanir sem séu sérstakar eða einstakar á lands- eða heimsvísu. Ástæða sérstakrar verndar eldhrauna, markmið um verndun jarðminja, varúðarregla 9. gr. náttúruverndarlaga og orðalag 61. gr. sömu laga styðji ekki þá ályktun að rask á hrauninu teljist ekki mikið vegna þess að lítið sjáist í hraunmyndanir.

Samkvæmt 4. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga beri að forðast að raska hrauninu nema brýna nauðsyn beri til. Ekki liggi fyrir í máli þessu hvort skilyrðið um brýna nauðsyn sé uppfyllt, enda hafi aðrir kostir ekki verið kannaðir við meðferð málsins. Svo ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga nái tilgangi sínum verði slíkt mat að fara fram. Í greinargerð fram­kvæmdaraðila hafi ekki verið gerð grein fyrir valkostum um aðgerðir við lagningu strengsins eða legu hans. Þá verði ekki séð að Skipulagsstofnun hafi rannsakað hvort aðrir valkostir séu fyrir hendi. Þannig hafi ekki verið fjallað um þann kost að leggja jarðstrenginn í sjálft vegstæðið og koma þar með í veg fyrir rask á hrauninu, en ekkert hafi komið fram við meðferð málsins sem útiloki þann kost. Skipulagsstofnun hafi brotið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 þar sem umfjöllun um sérstaka vernd nútímahrauna sé „í skötulíki“ og aðrir valkostir hafi ekki verið kannaðir. Með hliðsjón af 2. viðauka laga nr. 111/2021, skyldu til að bera saman valkosti í umhverfismati, sbr. c-lið 1. mgr. 22. gr. laganna, sem og varúðarreglu náttúruverndarlaga sé það ótæk niðurstaða að fyrirhuguð framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum að því er varði áhrif mögulegra framkvæmdakosta á hraunið.

Í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 sé mælt fyrir um að framkvæmdaraðili skuli, þar sem við eigi, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdar, til þess að unnt sé að ákvarða hvort tiltekin framkvæmd skuli sæta umhverfismati. Í greinargerð fram­kvæmdaraðila komi fram að fyrirhuguð framkvæmd sé „hluti af styrkingu Kópaskerslínu 1 og valkostur 2 sem lýst er í kafla 3.6.8. í áætlun um framkvæmdaverk 2022–2024 í kerfisáætlun Landsnets 2021–2030.“ Einhvers konar mat á áhrifum jarðstrengsins hafi legið fyrir í kerfisáætluninni, en annarra valkosta sem fjallað hafi verið um í umhverfismati áætlunarinnar hafi ekki verið getið í greinargerð framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar. Í kerfisáætluninni er jarðstrengurinn sagður ekki raska svæðum undir sérstakri vernd 61. gr. náttúruverndarlaga og að hann verði lagður að mestu í núverandi línustæði. Hvorutveggja sé rangt, sé tekið mið af gögnum í máli þessu, enda raski jarðstrengur varanlega nútímahrauni svo til alla leið hans og hann sé ekki að neinu leyti meðfram núverandi línustæði. Þar af leiðandi sé verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun að þessu leyti, en hvorki hafi verið skoðuð fyrirliggjandi gögn frá framkvæmdaraðila né hafi verið aflað gagna um áhrif jarðstrengsins og valkosta hans á jarðminjar sem njóti sérstakrar lagaverndar.

Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að sökum stærðar sé ekki hægt að plægja strenginn í jörð heldur þurfi að grafa um 80 cm breiðan og 120 cm djúpan skurð. Þetta skipti höfuðmáli og Skipulagsstofnun hafi borið að taka sérstaklega til athugunar hvort unnt væri að koma svo djúpum skurði fyrir í vegstæðið, fyrst ótækt hafi verið að plægja hann niður, og komast hjá raski á hrauninu. Í kerfisáætlun framkvæmdaraðila sé fjallað um aðra valkosti. Jarðstrengurinn, sem hin kærða ákvörðun lúti að, sé hluti af einum þeirra valkosta sem settir hafi verið fram í umhverfismati áætlunarinnar. Samkvæmt matinu skerði hinir kostirnir eldhraunið annað hvort ekki eða minna, auk þess sem sá kostur sem um ræði í máli þessu hafi verið metinn dýrastur. Samþykkt Orkustofnunar á kerfisáætlun feli í sér leyfi stofnunarinnar til framkvæmdar samkvæmt aðalvalkosti kerfisáætlunarinnar, sbr. 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Ekki liggi fyrir leyfi Orkustofnunar fyrir framkvæmdum sem tilkynntar hefðu verið til Skipulags­stofnunar, þar sem framkvæmdirnar séu ekki aðalvalkostur samkvæmt umhverfismati kerfisáætlunar.

Þau atriði sem líta beri til við ákvörðun um hvort framkvæmd sé háð umhverfismati séu tilgreind í 2. viðauka við lög nr. 111/2021. Þá séu einnig bein fyrirmæli um þetta í viðauka II.A við tilskipun 2011/92/ESB. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið beri að túlka íslensk lög til samræmis við EES-samninginn og gerðir hans. Í samræmi við grunnrök 2. viðauka við lög nr. 111/2021, sbr. 19. gr. laganna, sbr. einnig 4. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/92/ESB, sé framkvæmdaraðila skylt að veita nauðsynlegar upplýsingar til þess að Skipulagsstofnun geti metið þessi atriði við töku slíkrar ákvörðunar. Í máli þessu hafi framkvæmdaraðili ekki lagt fram upplýsingar um mótvægisaðgerðir, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021, eins og þeim sé lýst í kerfisáætlun framkvæmdaraðila, þar sem umræddur jarðstrengur hafi ekki verið sá valkostur sem komið hafi best út í umhverfismatinu.

Þá hafi ekki verið lögð fram lýsing á allri framkvæmdinni skv. a-lið 1. tölul. viðauka II.A við tilskipun 2011/92/ESB. Í greinargerð framkvæmdaraðila komi fram að fyrirhuguð framkvæmd sé viðbót við aðra framkvæmd, án þess þó að gerð sé grein fyrir því hvaða framkvæmd um ræði. Einnig segi að jarðstrengurinn sé hluti af styrkingu Kópaskerslínu, þ.e. framkvæmdinni sem ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. október 2022 fjalli um. Þar sem sú framkvæmd hafi ekki farið fram geti jarðstrengurinn ekki talist vera breyting eða viðbót á þeirri framkvæmd í skilningi töluliðar 13.02 í viðauka 1 við lög nr. 111/2021. Í fyrrnefndri kerfisáætlun séu framkvæmdir þær, sem hinar kærðu ákvarðanir lúti að, taldar sem ein og sama framkvæmdin. Af því leiði að ekki hafi legið fyrir skýrar upplýsingar um samlegðaráhrif með öðrum framkvæmdum skv. tölulið 1.ii í 2. viðauka við lög nr. 111/2021. Skipulagsstofnun hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort um sé að ræða nýja framkvæmd eða viðbót við eldri framkvæmd. Hinar kærðu ákvarðanir fjalli um tvo hluta sömu framkvæmdar og því hafi borið að fjalla um hana sem slíka.

Framkvæmdaraðili hafi hvorki uppfyllt upplýsingaskyldu sína né gert fullnægjandi grein fyrir möguleikum til að takmarka áhrif framkvæmdarinnar á hraunið, þ.e. með því að leggja jarð­strenginn í vegstæðið sjálft eða þá koma í veg fyrir röskun hraunsins með því að velja hina valkostina sem fjallað sé um í kerfisáætlun. Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/92/ESB verði matsskylduákvörðun m.a. að byggja, þar sem við eigi, á niðurstöðum annars mats en umhverfismats framkvæmdar. Skipulagsstofnun hafi því verið skylt að taka tilhlýðilegt tillit til þess umhverfismats sem unnið hefði verið vegna kerfisáætlunar framkvæmdaraðila, en það hafi stofnunin ekki gert. Þá hafi stofnuninni einnig borið að vísa til viðeigandi viðmiða í viðauka 2 með lögum nr. 111/2021, sbr. einnig b-lið 5. mgr. 4. gr. áðurnefndrar tilskipunar, og greina frá þeim mótvægisaðgerðum sem framkvæmdar­aðili kunni að hafa lagt til. Ekki verði séð að stofnunin hafi vísað til viðmiðanna með tilhlýðilegum hætti og sé það verulegur ann­marki á málsmeðferð.

Þá hafi almenningur ekki notið réttar til að gera athugasemdir við meðferð málsins. Með því að komast að niðurstöðu sinni í hinni kærðu ákvörðun og án þess að fjalla efnislega um sjálfan grundvöll ákvarðana á svæðum sem njóti verndar samkvæmt náttúruverndarlögum hafi Skipulagsstofnun í raun svipt almenning þátttökurétti sem honum hafi verið tryggður í Árósasamningnum og EES-samningnum. Fái hin kærða ákvörðun að standa hafi ekki farið fram neitt mat á áhrifum framkvæmdarinnar á hið verndaða hraun. Kærandi telur að fyrirhugaðar framkvæmdir séu leyfisskyldar samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010, sbr. 4. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga. Ákvæði laganna um hvernig leyfisveitandi skuli standa að útgáfu framkvæmdarleyfis komi ekki í stað þess þátttökuréttar sem almenningur eigi varðandi allar framkvæmdir sem líklegar séu til að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið samkvæmt Árósa­samningnum, Evróputilskipunum og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Fyrirmæli í 2. og 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga komi ekki í stað raunverulegs mats á áhrifum á svæði sem njóti verndar, með tilheyrandi þátttökurétti almennings.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er tekið fram að umfjöllun um jarðmyndanir hefði mátt vera ítarlegri í hinni kærðu ákvörðun en því er um leið hafnað að litið hafi verið hjá verndargildi þeirra. Í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar komi fram að fram­kvæmdarsvæðið sé allt í hrauni sem njóti sérstakrar verndar en hafi þó að einhverju leyti glatað verndargildi sínu vegna jarðvegs og gróðurhulu. Með tilliti til sjónarmiða, sem þar séu rakin, megi ætla að rask á hrauni verði takmarkað og áhrif á jarðminjar verði ekki mikil.

Staðsetning framkvæmdar innan svæðis sem falli undir 61. gr. náttúruverndarlaga leiði ekki sjálfkrafa til þess að hún skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Í athugasemdum við 57. gr. frum­varps þess er varð að 61. gr. náttúruverndarlaga sé tekið fram að eldhraun sem sé að öllu leyti sandorpið eða hulið jarðvegi og gróðri og ekki sé lengur hægt að greina hvort um hraun sé að ræða hafi að öllu jöfnu tapað þeim einkennum sem myndi verndargildi þess sem jarðmyndunar eða hraunvistgerðar og njóti það því ekki sérstakrar verndar samkvæmt lagagreininni.

Við töku matsskylduákvörðunar falli það ekki í verkahring Skipulagsstofnunar að meta hvort skilyrðið um „brýna nauðsyn“ samkvæmt 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga sé uppfyllt. Sam­kvæmt 2. tl. í 2. viðauka við lög nr. 111/2021 beri stofnuninni að athuga hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, einkum með tilliti til verndarsvæða. Eigi það við um svæði sem falli undir ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga. Í þessu sambandi megi nefna úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22 og 27/2020.

Hin kærða ákvörðun sé lokaþáttur í tilkynningarskylduferli en ekki í umhverfismatsferli. Í fyrrnefnda ferlinu geri lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og IV. kafli reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana ekki ráð fyrir að fram fari valkostagreining og samanburður á áhrifum valkosta á umhverfið. Því hafi Skipulags­stofnun ekki getað óskað eftir því að framkvæmdaraðili myndi skoða annan valkost en þann sem tilkynning hafi lotið að.

Í 2. viðauka við lög nr. 111/2021 sé ekki vikið að því að stofnunin eigi að líta til umhverfismats kerfisáætlunar við ákvörðun um matsskyldu. Aðeins sé vikið að skipulagsáætlunum, sbr. i- og f-liði í 2. tölul. viðaukans. Þá sé ákvæði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 ekki fortakslaust. Verði komist að þeirri niðurstöðu í máli þessu að framkvæmdaraðila hafi borið að taka tillit til umhverfismats kerfisáætlunar leggi Skipulagsstofnun áherslu á að valkostur 2, sem hin kærða ákvörðun lúti að, hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Umhverfismat umræddrar kerfisáætlunar leiði það í ljós. Að því virtu sé ekki um að ræða verulegan annmarka á ákvörðuninni. Þá hafi Skipulagsstofnun lagt mat á þá þætti sem tilgreindir séu í 2. viðauka við lög nr. 111/2021 og átt hafi við í málinu, sbr. umfjöllun í niðurstöðu kafla hinnar kærðu ákvörðunar. Það fari ávallt eftir eðli viðkomandi framkvæmdar hvaða þættir vegi þyngra en aðrir eða hafi meiri þýðingu fyrir úrlausn máls.

Þá falli enn fremur ekki undir verksvið Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 111/2021 að taka afstöðu til þess hvort tilkynnt framkvæmd á borð við þá sem um ræðir í máli þessu sé í samræmi við samþykkta framkvæmdaáætlun framkvæmdaraðila. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna beri framkvæmdaraðili ábyrgð á tilkynningu framkvæmdar til Skipulags­stofnunar til ákvörðunar um hvort hún skuli háð umhverfismati. Framkvæmdaraðili hefði haft samband við stofnunina 7. september 2022 og bent á að eftir að málsmeðferð hófst vegna styrkingar á Kópaskerslínu 1 hefði þurft að ráðast í nánari greiningu á kerfinu á svæðinu. Sú greining hefði leitt til þess að nauðsynlegt hefði verið að bæta við tengingu frá Þeistareykjum að Kópaskers­línunni. Óskað hefði verið eftir, þrátt fyrir nálægð og kerfislega tengingu framkvæmdanna, að teknar yrðu aðskildar ákvarðanir um matsskyldu þeirra. Hefði framkvæmdaraðili einnig vakið athygli stofnunarinnar á því að í tilkynningu hefði ranglega verið vísað til texta í kerfisáætlun sem ekki ætti við og sent réttan texta. Þar komi m.a. fram að í kjölfar landshlutagreiningar og nýrra markmiða hafi endurnýjunarverkefni Landsnets verið endurskilgreint og feli nú í sér að auki tengingu frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu 1 og því viðbót frá því sem kynnt hafi verið í síðustu útgáfu kerfisáætlunar Landsnets og hafi Orkustofnun verið upplýst um málið.

Vikið sé að mótvægisaðgerðum í greinargerð framkvæmdaraðila, en þar komi fram að í hönnunarferli hefði strengleiðin verið höfð í vegkanti alla leið til að lágmarka rask við framkvæmdir. Svarðlag ofan af skurði verði geymt þar sem unnt verði og endurnýtt við uppgræðslu að framkvæmdum loknum. Fyrri reynsla sýni að besta raun gefi að geyma svarðlagið í sem skemmstan tíma. Því verði verkinu áfangaskipt og svarðlag sem verði tekið upp sé lagt strax niður á fyrri áfanga. Auk þess sé vísað til kafla 3.6.8. í kerfisáætlun framkvæmdaraðila í greinargerðinni. Framkvæmdaraðili hafi lagt fram lýsingu á eiginleikum allrar framkvæmdarinnar í skilningi viðauka II.A tilskipunar nr. 2011/92/ESB. Þótt hinar kærðu ákvarðanir, þ.e. jarðstrengur frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu 1 annars vegar og styrking Kópaskerslínu 1 hins vegar, tengist, sé ekki um sömu framkvæmdina að ræða og ekki unnt að líta svo á að styrking línunnar sé hluti af jarðstrengnum.

Í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar komi fram að áhrif framkvæmdarinnar verði fyrst og fremst af völdum rasks á gróðri en með þeim mótvægisaðgerðum sem framkvæmdaraðili lýsi í greinargerð sinni verði áhrif á gróður takmörkuð. Einnig að ætla megi að rask á hrauni verði takmarkað og að áhrif á jarðminjar verði ekki mikil. Strengurinn muni liggja meðfram gamla vegslóðanum að Þeistareykjum. Mótvægisaðgerðir séu skilgreindar í 8. tl. 3. gr. laga nr. 111/2021 sem aðgerðir til að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir neikvæð umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar eða áætlunar.

Lög nr. 111/2021 geri ekki ráð fyrir því að almenningur eigi rétt á að tjá sig áður en Skipulags­stofnun taki matsskylduákvörðun. Í 1. mgr. 20. gr. laganna sé kveðið á um að stofnunin skuli leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við eigi hverju sinni en skv. 11. tölul. 3. gr. sömu laga teljist þeir vera opinberar stofnanir, stjórnvöld eða aðrir lögaðilar sem sinni lögbundnum verkefnum sem varði framkvæmdir sem falli undir lögin eða umhverfisáhrif þeirra.

Því sé hafnað að lagagrundvöllurinn sé ekki skýr. Í greinargerð framkvæmdaraðila og hinni kærðu ákvörðun sé vísað til tölul. 10.16 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021. Varðandi tilvísun í tölul. 13.02 bendi stofnunin á að háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík hafi sætt umhverfismati á sínum tíma. Hægt sé að líta svo á að tilkynning um jarðstrenginn frá Þeistareykjum sé breyting eða viðbót við þær framkvæmdir sem fjallað hafi verið um í því umhverfismati.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili álítur að í kæru sé ekki vísað til neinna brota á formreglum sem geti leitt til svo íþyngjandi ákvörðunar að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi en engin lagarök eða lögmæt sjónarmið hvíli að baki kröfu kæranda um að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Í 2. kafla greinargerðar framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar um lagningu jarðstrengs frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu 1 hafi orðið þau mistök að gera ekki betur grein fyrir tilurð þess að ákveðið hefði verið að leggja umræddan streng. Um það leyti sem málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi farið fram vegna framkvæmdar um styrkingu Kópaskerslínu 1 hafi framkvæmdaraðili unnið að frekari greiningu á raforkukerfi Landsnets á umræddu svæði, umfram þá sem unnin hafi verið við gerð kerfisáætlunar. Niðurstaðan hafi verið sú að ráðast þyrfti í kerfislegar styrkingar svo óhætt yrði að uppfylla loforð um að fjarlægja Laxárlínu 1 og ná betri svæðisbundinni tengingu. Sú styrking sem hafi þótt best hafi falist í að bæta við tengingu frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu 1. Þar sem málsmeðferð vegna styrkingar á Kópaskerslínu 1 hafi verið langt komin hefði verið ákveðið að tilkynna fyrirhugaða nýja strenglögn sérstaklega í stað þess að blanda framkvæmdunum saman.

Það hafi láðst að upplýsa um að öðlast þyrfti sérstakt leyfi Orkustofnunar á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 þar sem framkvæmdin væri ekki í samræmi við aðalvalkost í framkvæmdaáætlun 2022–2024 í kerfisáætlun Landsnets 2021–2030. Skipulagsstofnun hafi rekist á þetta ósamræmi og óskað skýringa. Framkvæmdaraðili hafi orðið við þeirri beiðni í tölvupósti 7. september 2022 þar sem færð voru fram rök um framkvæmdina og hafi Orkustofnun verið upplýst um málið.

Framkvæmdaraðila séu ljós þau ákvæði náttúruverndarlaga um að forðast beri að raska jarðminjum, líkt og eldhrauni, nema brýna nauðsyn beri til. Aftur á móti sé ljóst að það svæði sem verið sé að styrkja sé að mjög stórum hluta á eldhrauni og því verði vart komist hjá einhverri röskun á þeim, sama hvaða aðferð verði fyrir valinu, þ.e. loftlína eða jarðstrengur. Á myndum með tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar megi sjá að framkvæmdir spilli frekar gróðri en eldhrauni. Þá megi sjá rishóla beggja vegna vegslóðar en þeir liggi fjarri fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Strenglögnin frá Þeistareykjum muni liggja við veg og veg­slóða og því sé framkvæmdasvæðið þegar raskað að hluta. Gróflega sé áætlað rask á um 0,6 ha lands og sé það gróið hraun með nokkuð þykkum jarðvegi að hluta. Bent er á umsögn Náttúrufræði­stofnunar Íslands, sem aflað var við meðferð málsins, þar sem talið hafi verið að ekki yrði mikið rask á jarðminjum. Skipulagsstofnun hafi því haft fullnægjandi gögn og upp­lýsingar til að taka upplýsta ákvörðun í málinu. Hvað varði jarðstrengslögnina í núverandi loft­línu Kópaskerslínu 1, næst Kópaskeri, þá muni hún liggja í röskuðu landi meðfram vatnslögn sem sé þar fyrir.

Tilgangur framkvæmdarinnar sé m.a. að undirbúa styrkingu kerfisins svo hægt sé að taka niður Laxárlínu 1, tæplega 60 km loftlínu, sem lofað hefði verið að yrði gert í kjölfar þess að Hólasandslína 3 kæmist í rekstur. Auk þess sé framkvæmdin hluti af því að auka rekstraröryggi fyrir svæðisbundna kerfið á svæðinu, en núverandi staða hafi leitt til tjóns og rekstrartruflana. Framkvæmdin sé því mjög brýn, sérstaklega fyrir íbúa og samfélagið á þessu svæði og því verði að skoða mikilvægi þess þáttar í samhengi við þá skerðingu sem verði á eldhrauninu.

Tilkynning hafi verið unnin skv. 9. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat fram­kvæmda og áætlana sem greini frá þeim upplýsingum sem koma eigi fram í tilkynningu. Ekki sé þar gerð krafa um að fjallað sé um valkosti líkt og farið sé fram á vegna matsskyldra fram­kvæmda. Benda megi þó á að við undirbúning framkvæmdarinnar hafi verið ræddir aðrir möguleikar, t.d. að leggja strenginn í sjálfan vegslóðann. Ein meginástæða þess að ákveðið hafi verið að gera það ekki hafi verið að þar sem slóðin sé víða þröng yrði væntanlega að fara með tæki og efni á afmörkuðum köflum út fyrir hana á framkvæmdatíma. Því hafi þótt betri kostur að nýta vegslóðann á framkvæmdatíma og halda raski eingöngu í skurðstæði í kanti slóðans. Þá sé ljóst að loftlína á þessum kafla, með tilheyrandi mastra­plönum og aðkomuslóðum, komi ekki til greina enda myndi hún ekki raska eldhrauninu minna og að auki næði sjónrænt áhrifasvæði yfir mun stærra svæði Skildingahrauns.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar sé nauðsynlegur hluti leyfisferlis framkvæmdarinnar, sbr. 25. gr. laga nr. 111/2021, og forsenda þess. Þannig geti það ekki verið ógildingarástæða ákvörðunar Skipulagsstofnunar að lögbundin leyfi séu ekki til staðar, þ.m.t. leyfi Orkustofnunar. Því sé ekki annmarki á hinni kærðu ákvörðun að ekki hafi verið skoðuð gögn frá framkvæmdaraðila sem liggi til grundvallar, eins og kerfisáætlun, og ekki aflað gagna um áhrif jarðstrengs og valkosta hans á jarðminjar sem njóti sérstakrar lagaverndar.

Í báðum hinum kærðu ákvörðunum sé gerð grein fyrir lagagrundvelli þeirra, leitað hafi verið umsagna og gögn tiltekin, þ.m.t. viðbótargögn. Lögbundið mat hafi farið fram og engar athugasemdir hafi verið gerðar við upplýsingar eða framlögð gögn. Því sé ekki unnt að fallast á að ekki hafi verið vísað til nauðsynlegra upplýsinga eða að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin. Þá hafi Skipulagsstofnun vísað til viðmiðana í 2. viðauka við lög nr. 111/2021 með tilhlýðilegum hætti, en í hinni kærðu ákvörðun sé sérstaklega vísað til 1.-3. töluliðar viðaukans.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar að Skipulagsstofnun sé bundin af ákvæðum 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og meginreglum þeirra laga við töku ákvarðana sinna. Samanburður valkosta sé ekki hluti málsmeðferðar skv. 19. gr. og 20. gr. laga nr. 111/2021. Hins vegar sé staðreynd að í „fyrirliggjandi niðurst[öðum] um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar“ í skilningi 2. mgr. 19. gr. laganna hafi fyrirhuguð framkvæmd ekki verið talinn hagfelldasti valkosturinn. Framkvæmdaraðili hafi ekki gert grein fyrir því við meðferð málsins. Útilokað sé að túlka gildandi lög þannig að Skipulagsstofnun hafi ekki verið skylt að rannsaka niðurstöðu umhverfismats kerfisáætlunar framkvæmdaraðila áður en hún hafi komist að niðurstöðu. Því hafi ekki verið farið að lögum við meðferð málsins þar sem ekkert tillit hafi verið tekið til umhverfismats kerfisáætlunarinnar. Þar sem tilkynningin hafi ekki verið í samræmi við kerfisáætlun framkvæmdaraðila hafi Skipulagsstofnun borið að rannsaka hvers vegna ekki hafi verið tekið tillit til niðurstaðna umhverfismats áætlunarinnar. Í gögnum málsins séu samskipti þar sem stofnunin hafi óskað alls kyns upplýsinga hjá framkvæmdaraðila við meðferð málsins. Því standist ekki sú fullyrðing að Skipulagsstofnun sé ekki rétt og skylt að óska eftir ýmiss konar upplýsingum, enda gildi rannsóknarreglan hér sem endranær.

Samkvæmt Evróputilskipun 2011/92/ESB, svo sem henni hafi verið breytt með tilskipun nr. 2014/52/ESB, sé skýrt að í rökstuðningi með matsskylduákvörðun þurfi að taka tillit til „fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar“ þar sem slíkt liggi fyrir. Í 20. gr. laga nr. 111/2011 séu ekki ákvæði um hvaða kröfur séu gerðar til rökstuðnings með ákvörðun Skipulagsstofnunar um að umhverfismat þurfi ekki að fara fram. Beri þá að beita skýringu sem uppfylli ákvæði Evróputilskipunar nr. 2011/92/ESB, sbr. tilskipun nr. 2014/52/ESB. Skv. 5. mgr. 4. gr. tilskipunar nr. 2011/92/ESB sé gerð sú afdráttarlausa krafa að stjórnvaldið taki „tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar“ í framangreindum skilningi. Hafna verði sjónarmiðum Skipulagsstofnunar um að vikið sé einungis að skipulagsáætlunum í 2. viðauka með lögum nr. 111/2021 en ekki að kerfisáætlun og því hafi hún ekki þurft að taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif fram­kvæmdarinnar. Þvert á móti séu það einmitt niðurstöður kerfisáætlunar sem Skipulagsstofnun eigi að fjalla um í rökstuðningi og slík áætlun lúti umhverfismati samkvæmt lögum.

Þá varpi forsaga lagaákvæða um vernd eldhrauna ljósi á mögulegar lögskýringar á núgildandi ákvæðum. Lagaskilningur Skipulags­stofnunar og Náttúrufræðistofnunar kunni að hafa litast af lagaskilningi sem hefði talist fullgildur áður fyrr en ekki í dag. Þegar vernd eldhrauna hafi fyrst komið í lög með gildistöku náttúruverndarlaga nr. 44/1999 hafi verið litið á eldhraun sem „landslagsgerð“ en það sé ekki gert lengur. Tveimur árum eftir gildistöku laganna hafi Alþingi samþykkt breytingu á lögunum og orðinu skipt út fyrir orðin „jarðmyndanir og vistkerfi“. Samkvæmt athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi sem varð að breytingalögum nr. 140/2001 hafi ekki þótt rétt að skilgreina þessi náttúrufyrirbæri sem landslagsgerðir þar sem landslag hefði verið skilgreint sem form og útlit náttúrunnar og tæki þannig til útlits og ásýndar lands, þ.m.t. lögunar þess, áferðar og lita. Um væri að ræða jarðmyndanir og vistkerfi en heiti hugtaka hefðu þróast. Því hafi greininni verið breytt til samræmis við þessa þróun. Ákvæði 61. gr. núgildandi náttúruverndarlaga hafi einnig verið breytt m.a. vegna þess að ákvæðið hafi talist veikt og hefði t.a.m. ekki haft áhrif á ákvarðanir Skipulagsstofnunar um það hvort fram­kvæmdir væru matsskyldar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögunum hafi markmiðið m.a. verið að stuðla að því að betur yrði vandað til málsmeðferðar stjórnvalda þegar teknar væru ákvarðanir sem snerti náttúrufyrirbæri sem falli undir ákvæðið. Auk breytinga á greininni sjálfri hafi verið lagðar til breytingar á skipulagslögum og lögum um mat á umhverfis­áhrifum í þeim tilgangi að auka áhrif greinarinnar og styrkja þá vernd sem hún kveði á um. Ekki hefði einungis verið skerpt á ákvæðinu um sérstaka vernd, heldur hefði einnig verið bætt ákvæði í 3. viðauka þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda beinlínis í þeim tilgangi „að auka áhrif greinarinnar og styrkja þá vernd sem hún kveði á um“. Í þessu máli reyni á samhljóða ákvæði í 2. viðauka með núgildandi lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Skýra eigi 61. gr. náttúruverndarlaga eftir orðanna hljóðan en vernd nútímahrauna takmarkist samkvæmt ákvæðinu ekki við yfirborð hraunanna.

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Hefur úrskurðarnefndin kynnt sér þau sjónarmið, en ekki þykir efni til að rekja þau nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvarðanir Skipulagsstofnunar þess efnis að fyrirhugaðar fram­­kvæmdir vegna lagningar jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 og styrking Kópaskerslínu 1 skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, þar sem þær séu ekki líklegar til að til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Kærandi í máli þessu eru umhverfisverndarsamtök sem byggja kæruaðild sína á 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna tilgreindra ákvarðana enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Meðal þeirra ákvarðana sem framangreind samtök geta kært eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. tilvitnaðra laga teljast umhverfisverndarsamtök samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Samtökin skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.

Félagsmenn kæranda eru fleiri en 30 en um aðild að félaginu segir í samþykktum þess að allir sem lýsi sig samþykka tilgangi félagsins á aðalfundi þess geti orðið félagsmenn. Samkvæmt samþykktum félagsins er tilgangur þess „að standa vörð um líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni í náttúru Íslands.“ Einnig hefur kærandi gefið út ársskýrslu fyrir 2021–2023. Telur úrskurðarnefndin samkvæmt þessu að um umhverfisverndarsamtök sé að ræða í skilningi 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

—–

Fyrirhugaðar framkvæmdir voru tilkynntar til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um mats­skyldu samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 sem framkvæmdir í flokki B, sbr. liði 10.16 og 13.02 í 1. viðauka við lögin. Skulu tilkynningaskyldar framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka við lögin. Í tilkynningu skal framkvæmdaraðili leggja fram upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar. Skal hann, þar sem við á, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfismat framkvæmdarinnar og leggja fram, þar sem við á, upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna.

Í 20. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um að Skipulagsstofnun skuli innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati samkvæmt lögunum. Áður skal stofnunin leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við á hverju sinni og sé niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að tilkynningarskyld framkvæmd sé ekki háð umhverfismati getur stofnunin gert ábendingar um tilhögun fram­kvæmdarinnar. Þá verður að líta svo á að Skipulagsstofnun beri að rökstyðja niðurstöðu sína með hliðsjón af þeim viðmiðum sem talin eru upp í 2. viðauka laganna, en vægi hvers þáttar er, eðli málsins samkvæmt, breytilegt eftir því hvaða framkvæmd um ræðir hverju sinni.

Málsrök kæranda varða að mestu aðra hinna kærðu ákvarðana, þ.e. að lagning jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 skuli ekki háð umhverfismati. Það er um leið sá þáttur sem gerð er krafa um til vara að verði felldur úr gildi. Með hliðsjón af því varðar umfjöllun hér á eftir aðeins þá ákvörðun uns kemur að umfjöllun um möguleg samlegðaráhrif hinna kærðu ákvarðana.

—–

Við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar um lagningu jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 aflaði Skipulagsstofnun álits umsagnaraðila á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svo sem fyrr segir töldu umsagnaraðilar að í tilkynningu framkvæmdaraðila væri nægjanlega gerð grein fyrir fyrir­huguðum framkvæmdum og mótvægisaðgerðum. Framkvæmdirnar væru ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og myndi fullt umhverfismat ekki bæta við fyrirliggjandi upplýsingar. Hin kærða ákvörðun lýsir fyrirhugaðri framkvæmd og mótvægisaðgerðum, fjallar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eins og þeim var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og áliti umsagnaraðila og víkur að þeim leyfum sem framkvæmdin er háð.

Í niðurstöðukafla sínum vísar Skipulagsstofnun til þess að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð umhverfismati skuli taka mið af eðli framkvæmdar, svo sem stærð og umfangi framkvæmdar og mengun, sbr. 1. tölul. 2. viðauka laga nr. 111/2021. Einnig skuli taka mið af staðsetningu framkvæmdar og hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, svo sem með tilliti til verndarákvæða, einkum svæða sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Einnig beri að líta til álagsþols náttúrunnar, svo sem með tilliti til votlendissvæða og sérstæðra jarðmyndana, sbr. 2. tölul. 2. viðauka fyrrnefndra laga. Þá beri að taka mið af eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmdar, meðal annars með tilliti til umfangs, eðlis og fjölbreytileika áhrifa, hverjar líkur séu á áhrifum, afturkræfni áhrifanna og möguleika á að draga úr áhrifum, sbr. 3. tölul. 2. viðauka laganna.

Hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar er skipt í nokkra kafla og eru þar m.a. reifuð fram-komin sjónarmið umsagnaraðila og framkvæmdaraðila um umhverfisáhrif framkvæmdar­innar á gróður, jarðmyndanir og verndarsvæði. Niðurstaða stofnunarinnar er í 6. kafla og vísar hún í rökstuðningi sínum sérstaklega til fyrrgreindra viðmiða um eðli framkvæmdar skv. 1.-3. tölul. 2. viðauka laga nr. 111/2021. Er á því byggt að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki umfangsmikil og fari fram á svæði sem er að einhverju leyti nú þegar raskað vegna vegarslóða. Strengurinn verði niðurgrafinn og muni því ekki sjást þegar gróðurrask á yfirborði hefur gróið með tímanum. Framkvæmdasvæðið sé allt í hrauni sem njóti sérstakrar verndar sem hafi þó að einhverju leyti glatað verndargildi sínu vegna jarðvegs og gróðurhulu. Áhrif á jarðminjar verði því ekki mikil. Lítill hluti leiðarinnar fari um fjarsvæði vatnsverndar, en vatnsbólið sjálft sé í nokkurri fjarlægð og framkvæmdaraðili hyggst vera í samráði við Heilbrigðiseftirlit Norður­lands eystra vegna vinnu innan svæðisins. Áhrif framkvæmdarinnar verði fyrst og fremst af völdum rasks á gróðri en með þeim mótvægisaðgerðum sem framkvæmdaraðili hefur kynnt verði áhrif á gróður takmörkuð. Að mati Skipulagsstofnunar kalli þeir þættir sem falla undir eðli, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar ekki á að framkvæmdin undirgangist mat á umhverfisáhrifum.

—–

Í 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Nær verndin m.a. til eldhrauna, gervigíga og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma, sbr. 2. mgr. ákvæðins, en í 3. mgr. er tiltekið að m.a. beri að forðast að raska jarðminjum sem taldar séu upp í 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Við lagningu jarðstrengsins verður raskað í einhverju jarðminjum sem falla undir lagagreinina, en streng­leiðin er öll á hrauni sem nýtur verndar. Um verndargildi hraunsins má vísa til umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands, en þar kemur fram að á hrauninu sé jarðvegs- og gróðurhula svo lítið sjáist í hraunmyndanir. Þá sneiði strengleiðin að mestu fram hjá rishólum og sprungum í hrauninu og telur stofnunin því að ekki verði mikið rask á jarðminjum. Í hinni kærðu ákvörðun er af hálfu Skipulagsstofnunar vísað til þess að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki umfangsmikil og fari fram á svæði sem er að einhverju leyti nú þegar raskað vegna vegarslóða. Auk þess liggur fyrir að svæðið sem slóðinn liggur um er að mestu hulið jarðvegi og gróðri, þannig að verndargildi hraunsins er minna en ella væri. Verður ekki gerð athugasemd við umfjöllun Skipu­­lags­­stofnunar að þessu leyti þótt hún hefði e.t.v. mátt vera ítarlegri um staðhætti.

Af hálfu kæranda er bent á að ekki sé gerð grein fyrir valkostum um útfærslu við lagningu strengsins eða legu hans í tilkynningu framkvæmdaraðila. Slíkra upplýsinga er að jafnaði ekki krafist þegar tekin er ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar og er ekki gerð krafa í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um að slíkir valkostir séu reifaðar. Þar er á hinn bóginn mælt fyrir um að taka skuli tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og leggja fram, þar sem við á, upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir. Mat á valkostum fer jafnan fram á síðari stigum verði niðurstaðan sú að um matsskylda framkvæmd sé að ræða.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að samþykki Orkustofnunar liggi fyrir í Kerfisáætlun Landsnets 2021–2030, en fyrir liggur að þegar tilkynning um framkvæmdina barst Skipulags­stofnun var ekki gert ráð fyrir henni í framkvæmdaáætlun 2022–2024 í fyrrnefndri kerfisáætlun Landsnets. Skipulagsstofnun óskaði nánari skýringa um þetta, eins og rakið er í umsögn stofnunarinnar til úrskurðarnefndarinnar, og var upplýst um að upphaflega hafi staðið til að styrkja Kópaskerslínu 1 á tveimur stöðum og að sú framkvæmd sem tilkynnt hefði verið til Skipulagsstofnunar 9. maí 2022 væri aðalvalkostur kerfisáætlunar. Eftir frekari greiningu hafi verið ákveðið að bæta við tengingu frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu 1 og hefði Orkustofnun verið upplýst um það. Í tilkynningu til Skipulagsstofnunar um lagningu jarðstrengsins hafi ranglega verið vísað til þess að framkvæmdin væri valkostur 2 sem fjallað væri um í kerfisáætlun. Við meðferð málsins hefur þetta verið upplýst nánar. Þá hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur til kynna að áform um legu jarðstrengsins að Þeistareykjum séu ekki reist á málefnalegum sjónarmiðum. Hvað snertir möguleika á að leggja jarðstrenginn í vegarstæði gamla vegarslóðans að Þeistareykjum má benda á að fram kemur í umsögn Landsnets til úrskurðarnefndarinnar að hætta hefði verið á auknu jarðraski við það.

Af hálfu kæranda hefur verið gagnrýnt að hinar kærðu ákvarðanir fjalli um tvo hluta sömu framkvæmdar og því hafi borið að fjalla um þær í einu lagi. Þannig sé fjallað um fram­kvæmdirnar í áðurnefndri kerfisáætlun. Af því leiði að ekki hafi legið fyrir skýrar upplýsingar um samlegðaráhrif með öðrum framkvæmdum, sbr. tölulið ii. í 1. lið 2. viðauka við lög nr. 111/2021. Hinar kærðu framkvæmdir eru þrátt fyrir þetta að verulegu leyti landfræðilega aðgreindar. Báðar fela þó í sér framkvæmdir á Reykjaheiði og Þeistareykjahrauni, annars vegar endurnýjun loftlínu og hins vegar lagningu jarðstrengs. Hvorug framkvæmdin er mikil að umfangi og gætir ekki samlegðaráhrifa vegna þeirra. Að áliti úrskurðarnefndarinnar hefði verið eðlilegt að tilkynna þessar framkvæmdir sam­eigin­lega og hefði Skipulagsstofnun getað krafist þess við málsmeðferð. Þar sem ekki verður þó álitið að framkvæmdirnar séu líklegar til þess að hafa veruleg umhverfisáhrif þótt þær væru metnar sameiginlega verður þetta látið óátalið.

Að virtum gögnum málsins, kynntrar tilhögunar framkvæmdarinnar og mótvægisaðgerða er það álit úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi við undirbúning hinna kærðu ákvarðana tekið viðhlítandi tillit til þeirra viðmiða sem eru í 2. viðauka við lög nr. 111/2021. Er enda ekki um að ræða framkvæmd sem telja verður að líkleg sé til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfis­áhrif með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hennar. Verður og ekki annað ráðið en að fyrir Skipulagsstofnun hafi legið nauðsynlegar upplýsingar um fram-kvæmdina og forsendur hennar sem stofnunin gat reist ákvarðanir sínar á.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið eru hinar kærðu ákvarðanir ekki haldnar þeim form- eða efnisannmörkum er ógildingu geta valdið og verður kröfum kæranda, bæði aðal- og varakröfu, þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvarðana Skipulagsstofnunar frá 21. september 2022 um að lagning 66 kV jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 skuli ekki háð umhverfismati og frá 11. október 2022 um að styrking Kópaskerslínu 1 skuli ekki sæta umhverfismati.

43/2022 Ásætuvarnir

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 29. september, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2022, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. mars 2022 um að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í sjókvíaeldi í Dýrafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. maí 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir náttúruverndarfélagið Laxinn lifi þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. mars 2022 að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í sjókvíaeldi Arctic Sea Farm ehf. í Dýrafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 31. maí 2022.

Málavextir: Frá árinu 2009 hefur Arctic Sea Farm ehf. stundað sjókvíaeldi í Dýrafirði. Á árinu 2020 sætti fyrirhuguð framkvæmd fyrirtækisins um 10.000 tonna laxeldi í Dýrafirði, þ.e. framleiðsluaukning um 5.800 tonn, mati á umhverfisáhrifum, sbr. álit Skipulagsstofnunar þar um frá 23. mars 2020. Í maí 2021 veittu Umhverfisstofnun og Matvælastofnun framkvæmdaraðilanum starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrir þeirri starfsemi.

Skipulagsstofnun barst tilkynning 14. janúar 2022 frá framkvæmdaraðila um fyrirhugaða notkun ásætuvarna í fiskeldi í Dýrafirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að ásætur á nótum í kvíum skapi bæði aukið lífrænt álag og álag á búnað ásamt því að háþrýstiþvottur á nótum til að losa ásætur skapi streitu, skaða og jafnvel afföll á eldisfiskum. Til að lágmarka umhverfisáhrif og bæta dýravelferð sé því óskað eftir því að í starfsleyfi verði heimilað að nota umhverfisvænar ásætuvarnir sem innihaldi koparoxíð. Valin hafi verið sæfivaran Netwax E5 Greenline sem hafi markaðsleyfi frá Umhverfisstofnun. Vegna fyrirspurnarinnar leitaði Skipulagsstofnun umsagna Ísafjarðarbæjar, Náttúrufræði-stofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Matvælastofnunar, Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu og Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmd­arinnar lá fyrir 31. mars 2022. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar reist á þeim sjónarmiðum sem rakin eru í umsögn Hafrannsóknastofnunar 24. febrúar 2022. Þar komi fram sérfræðilegt mat stofnunarinnar þess efnis að hin tilkynnta breyting skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Undir þetta mat sé tekið og því byggt að hin kærða ákvörðun sé röng að efni til og ekki reist á forsvaranlegu mati Skipulagsstofnunar á fyrirliggjandi gögnum málsins, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þá sé jafnframt byggt á því að í ljósi þeirra sjónarmiða sem fram komi í umsögninni, og hníga í andstæða átt við niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar, hafi ekki verið lagður fullnægjandi grundvöllur að ákvörðuninni í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ekki færð fullnægjandi rök fyrir henni í samræmi við 22. gr. sömu laga.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að umsagnir umsagnaraðila séu ekki bindandi gagnvart Skipulagsstofnun eins og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi margoft tekið fram í úrskurðum sínum. Litið hafi verið heildstætt á gögn málsins og innbyrðis mat lagt á þau. Hafrannsóknastofnun hafi fært fram rök fyrir því að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaraðili hafi svarað þeirri umsögn með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 9. mars 2022. Að virtu því svari og því sem fram komi í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar, auk umsagna annarra umsagnaraðila, telji Skipulagsstofnun að umsögn Hafrannsóknastofnunar gefi ekki tilefni til að ætla að framkvæmdin sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð áhrif.

Þótt Skipulagsstofnun hafi ekki lagt umsögn Hafrannsóknastofnunar til grundvallar eða byggt á þeim sjónarmiðum sem þar hafi komið fram þá þýði það ekki sjálfkrafa að ófullnægjandi grundvöllur hafi verið lagður að hinni kærðu ákvörðun og því hafi verið farið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því sambandi sé bent á að í úrskurði úrskurðarnefndar í máli nr. 16/2021, þar sem um hafi verið að ræða sambærilega framkvæmd, hafi úrskurðarnefndin ekki gert athugasemd við að Skipulagsstofnun hafi ekki lagt umsögn Hafrannsóknastofnunar til grundvallar í megindráttum.

Því sé hafnað að Skipulagsstofnun hafi ekki fært fullnægjandi rök fyrir hinni kærðu ákvörðun í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga. Þegar niðurstöðukafli ákvörðunarinnar sé virtur sé ljóst að rökstuðningur stofnunarinnar fullnægi þeim kröfum sem komi fram í 1. og 2. mgr. 22. gr. laganna. Auk þess sé bent á að í framangreindum úrskurði hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að stofnunin hefði rökstutt niðurstöðu sína með fullnægjandi hætti, en sem fyrr segi hafi verið um sambærilega framkvæmd að ræða og rökstuðningur að mestu leyti sambærilegur þeim rökstuðningi sem komi fram í hinni kærðu ákvörðun.

Framkvæmdir skuli háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær séu taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með hliðsjón af viðmiðum 2. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Meðal viðmiða sem þar séu tilgreind sé möguleikinn á að draga úr umhverfisáhrifum, sbr. lið vii. Líkt og fram komi í ákvörðun Skipulagsstofnun telji stofnunin, með vísan til umsagnar Umhverfisstofnunar, að fyrirhuguð notkun ásætuvarna sé ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum að teknu tilliti til vöktunar og mótvægisaðgerða.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili telur að hafna eigi kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu matsskylduákvörðunar með vísan til jafnræðisreglu stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar. Matsskyldufyrirspurn framkvæmdaraðila sé nákvæmlega eins að formi og efni til og matsskyldufyrirspurnin í máli nr. 16/2021 og þegar af þeirri ástæðu beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun, enda fæli önnur niðurstaða í sér mismunun sem færi gegn jafnræði borgaranna.

Úrskurðarnefndinni séu settar verulega þröngar skorður við ógildingu stjórnvaldsákvörðunar. Sýna þurfi fram á að ógildingarreglur stjórnsýsluréttar eigi við um ákvörðunina, að verulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð eða efnislegri niðurstöðu sem og að ríkar ástæður séu fyrir ógildingu. Engin slík sjónarmið eigi við í þessu máli. Skipulagsstofnun hafi lagt mat á þá þætti sem máli hafi skipt um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni og við það tekið viðhlítandi tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Ásætuvarnir er innihaldi koparoxíð hafi verið notaðar um árabil þó öðru hafi verið haldið fram af kæranda og Hafrannsóknastofnun. Hin umrædda ásætuvörn sé umhverfisvæn vara sem hlotið hafi markaðsleyfi Umhverfisstofnunar og vottanir í yfir 90 löndum. Nær engin áhætta sé af notkun efnisins með réttum hætti og staðreyni allar mælingar það. Vaktanir bendi til þess að ásætuvörnin hafi engin óafturkræf áhrif á dýralíf, en hafi aftur á móti í för með sér bættar og öruggari aðstæður til eldis þegar komi að dýraheilbrigði og velferð. Þá verði að sjálfsögðu brugðist við leiði vaktanir og mælingar í ljós uppsöfnun kopars í botnseti. Skipulagsstofnun hafi talið rétt að í starfsleyfi kæmu fram skýr ákvæði um hvernig vöktun og samráð við Umhverfisstofnun skyldi vera háttað, sem og hvaða skilyrði þyrftu að vera fyrir hendi svo heimilt væri að nota ásætuvarnir sem innihaldi koparoxíð. Hafi því fullt tillit verið tekið til athugasemda og sjónarmið sem fram komi í umsögn Hafrannsóknastofnunar, en sjónarmið Skipulagsstofnunar séu bæði lögmæt og efnisleg rétt.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í sjókvíaeldi í Dýrafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt flokki B, sbr. lið 13.02 í viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B skulu háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Í tilkynningu framkvæmdaraðila um fyrirhugaða framkvæmd skal leggja fram upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar. Þá skal í tilkynningu, þar sem við á, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og leggja fram, þar sem við á, upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðar. Þegar framkvæmdaraðili hefur tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 19. gr., tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati í samræmi við 20. gr. laganna. Þar er í 1. mgr. kveðið á um skyldu stofnunarinnar til að leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni. Þá segir í 2. mgr. lagagreinarinnar að sé niðurstaða stofnunarinnar sú að tilkynningarskyld framkvæmd skuli ekki háð umhverfismati geti Skipulagsstofnun þá sett fram ábendingar um tilhögun framkvæmdarinnar í því skyni að koma í veg fyrir umtalsverð umhverfisáhrif. Þá verður að líta svo á að Skipulagsstofnun beri að rökstyðja niðurstöðu sína með hliðsjón af þeim viðmiðum sem talin eru upp í 2. viðauka laganna, en vægi hvers þáttar er, eðli málsins samkvæmt, breytilegt eftir því hvaða framkvæmd um ræðir hverju sinni.

Í tilefni af tilkynningu framkvæmdaraðila um matsskyldu á fyrirhugaðri framkvæmd leitaði Skipulagsstofnun umsagna Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Matvælastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Ísafjarðarbæjar og Umhverfisstofnunar. Í umsögn Fiskistofu er tekið fram að stofnunin hafi ekki yfir að ráða sérþekkingu á áhrifum mögulegra mengunarvalda, en bendir þó á að það kunni að vera breytilegt hver áhrifin verða m.t.t. staðsetningar og umfangs notkunar. Því sé tæplega hægt að vísa til fyrri afgreiðslu Skipulagsstofnunar vegna notkunar ásætuvarna. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða vísar til þess í sinni umsögn að litaðar nætur hafi lengi verið notaðar í fiskeldi og að fylgjast þurfi með uppsöfnun á kopar í botnseti. Ekki sé þörf á sérstöku mati á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar. Í umsögn Matvælastofnunar er tekið fram að breytingin muni hafa í för með sér bættar og öruggari aðstæður til eldis hvað varði dýraheilbrigði og -velferð. Stofnunin telji mikilvægt að sett verði skilyrði um viðmiðunarmörk fyrir kopar í starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands er bent á að niðurstöður vöktunar hjá öðrum rekstraraðilum sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði hafi hingað til ekki bent til þess að óæskileg uppsöfnun kopars eigi sér stað. Þó hafi magn kopars við Gemlufall í Dýrafirði verið yfirhverfismörkum II skv. reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns en undir umhverfismörkum III. Þar sé mest hætta á að mengandi efni berist innar í fjörðinn þar sem séu viðkvæm og verðmæt fjörusvæði sem Náttúrufræðistofnun hafi m.a. tilefni á B-hluta náttúruminjaskrá. Ef fylgt sé réttum viðmiðum um mengunarhættu af völdum efnanna og tryggt sé að fullnægjandi vöktun sé til staðar þá muni mat á umhverfisáhrifum litlu bæta við. Jafnframt bendir stofnunin á að vegna umfangs sjókvíaeldis á þessum slóðum hjá fleiri en einum rekstraraðila séu uppsprettusvæði kopars frá ásætuvörnum allnokkur og mikilvægt að horfa á möguleg sammögnunaráhrif.

Umhverfisstofnun greinir frá því í umsögn sinni að samkvæmt vöktun framkvæmdaraðila við Haukadalsbót árin 2020 og 2021 og við Eyrarhlíð árið 2020 hafi styrkur kopars mælst á bilinu 39,1–53,5 mg/kg en við Gemlufall hafi styrkur kopars mælst á bilinu 63,9–77,8 mg/kg árið 2020. Styrkur kopars í Haukadalsbót og Eyrarhlíð hafi því verið undir umhverfismörkum II skv. B-hluta í fylgiskjali reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns en Gemlufall undir umhverfismarkmiðum III. Þá bendir stofnunin á að verði starfsleyfisskilyrðum breytt þannig að notkun ásætuvarna verði heimil verði einnig ákvæði um endurskoðun á heimildinni ef mælingar sýna fram á aukningu yfir viðmiðunarmörkum auk þess sem kveðið verður á um reglubundnar mælingar á styrk kopars í botnseti í vöktunaráætlun og þær mótvægisaðgerðir sem rekstraraðili skal grípa til ef styrkur kopars í botnseti mælist yfir viðmiðunarmörkum. Nótapokar verði þvegnir í þvottastöð á landi þar sem gera megi ráð fyrir því að mest af koparnum falli til og tekið sé á þar. Að gefnum forsendum, m.a. um að starfsemi muni uppfylla skilyrði í breyttu starfsleyfi, þá telji stofnunin að áhrif framkvæmdar á umhverfi liggi ljós fyrir og umhverfismat sé ekki til þess fallið að varpa skýrari mynd á áhrifin.

Þá skilaði Hafrannsóknastofnun umsögn um fyrirhugaða framkvæmd og taldi að hún skyldi sæta mati á umhverfisáhrifum. Vísaði stofnunin til þess að í fyrirspurn framkvæmdaraðila væri ekki gerð nægjanleg grein fyrir framkvæmdinni, umhverfisáhrifum sem hún kynni að hafa í för með sér eða mótvægisaðgerðum. Gerð sé athugasemd við fullyrðingu um að ásætuvörnin sé umhverfisvæn vara, en samkvæmt þeim áhættuflokkum sem hún falli í sé efnið mjög eitrað í vatni/sjó með langvarandi áhrifum. Gera þurfi grein fyrir eignleikum þess koparoxíðs sem eigi að nota, m.a. með tilliti til leysni þess, oxunarstigs og eituráhrifa fyrir lífríki, og bera saman við aðra valkosti. Fram þurfi að koma hversu mikill kopar losni út í umhverfið m.t.t. fjölda eldiskvía og annarra umhverfisþátta, en samkvæmt viðmiðum Evrópusambandsins losni 80% af þeim kopar sem notaður sé í ásætuvarnir út í umhverfið. Af tilkynningu framkvæmdaraðila megi ráða að þvottur neta fari fram í sjó og á landi, en það fari gegn skilyrðum Umhverfisstofnun í breyttu starfsleyfi framkvæmdaraðila um að koparhúðaðar nætur skyldu þvegnar einungis á landi en ekki sjó. Ekki sé í tilkynningunni fjallað um möguleg áhrif uppsöfnunar kopars undir og við eldiskvíar á botndýralíf eða annað líf í firðinum. Þótt kopar safnist ekki upp í lífkeðjum þá virki hann staðbundið sem eitur á t.d. þörunga og ýmsa hryggleysingja. Í Noregi séu uppi áhyggjur af þeim neikvæðu umhverfisáhrifum sem leiði af notkun kopars sem ásætuvarnar og séu nú taldar líkur á að sum eldissvæði í Noregi nái ekki fram umhverfismarkmiðum vegna langvarandi losunar kopars til umhverfisins frá eldissvæði. Sterk vísindaleg þekking liggi fyrir um afdrif og þráláta virkni kopars og annarra þungmálma nærri losunarstöðum og hefði verið ákjósanlegt að fjalla um þau áhrif í tilkynningunni.

Framkvæmdaraðili kom að frekari athugasemdum vegna umsagnar Hafrannsóknastofnunar. Í því svari er m.a. lýst fyrirkomulagi sem talið er af framkvæmdaaðila að verði ákveðið í starfsleyfi, þar sem tilgreind verði umhverfisviðmið og að vöktun fari fram með botnsýnatökum og efnagreiningu sem muni gera kleift að stöðva notkun ásætuvarna ef vart verður uppsöfnunar. Þá verði nætur þrifnar í landi og litaðar aftur fyrir næstu notkun. Þegar komi að þvotti í sjó þá verði þvegið með lágþrýstingi sem losi ekki koparinn eins og háþrýstiþvottur. Jafnframt er vísað til þess, sem segir í umsögn Matvælastofnunar, að framkvæmdin sé líkleg til að hafa í för með sér bættar og öruggari aðstæður til eldis hvað varði dýraheilbrigði og -velferð.

Í niðurstöðukafla Skipulagsstofnunar er vísað til þess að framkvæmdin sem um ræði feli ekki í sér breytingu á stærð og umfangi sjókvíaeldis, nýtingu náttúruauðlinda eða aukna úrgangsmyndun. Að mati stofnunarinnar kunni áhrif af notkun koparoxíðs sem ásætuvarnar fyrst og fremst að felast í hugsanlegri uppsöfnun kopars í botnseti sem geti haft skaðleg áhrif á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum. Vísað er til þess að styrkur kopars í seti við Haukadalsbót í Dýrafirði árin 2020-2021 hafi mælst á bilinu 39,1-53,5 mg/kg en 63,9-77,8 mg/kg við Gemlufall árið 2020, en styrkur undir 70 mg/kg flokkist sem lág eða mjög lág gildi samkvæmt reglugerð nr. 796/1999 þar sem finna megi umhverfismörk fyrir málma í sjávarseti hér við land. Telur stofnunin rétt að í starfsleyfi séu skýr ákvæði um hvernig vöktun og samráði við Umhverfisstofnun skuli vera háttað sem og hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi svo heimilt sé að nota ásætuvarnir sem innihaldi koparoxíð. Með tilliti til umsagnar Umhverfisstofnunar og með hliðsjón af fyrirhugaðri vöktun og mögulegum mótvægisaðgerðum, þ.m.t. mögulegum viðbrögðum og inngripum leyfisveitenda ef tilefni sé til, telur Skipulagsstofnun að framkvæmdin sé ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum. Þeir þættir sem falli undir eðli, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa kalli ekki á að framkvæmdin sæti mati á umhverfisáhrifum.

Svo sem henni var skylt að gera aflaði Skipulagsstofnun umsagna umsagnaraðila á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þrátt fyrir þá lögbundna skyldu er stofnunin ekki bundin af þeim umsögnum sem henni berast heldur ber henni að taka sjálfstæða ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar á grundvelli fyrirliggjandi gagna og upplýsinga. Getur stofnunin því komist að öndverðri niðurstöðu en þeirri sem umsagnaraðili eða -aðilar telja rétta, en við slíkar aðstæður verður þó að gera ríkari kröfur til rannsóknar málsins og rökstuðnings niðurstöðunnar. Að virtum gögnum málsins er það álit úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi lagt viðhlítandi og sjálfstætt mat á það hvort framkvæmdin væri líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Var sú niðurstaða studd fullnægjandi rökum með hliðsjón af fyrirliggjandi reynslu og vöktun og mögulegum mótvægisaðgerðum leyfisveitenda.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. mars 2022 um að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í sjókvíaeldi í Dýrafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

41/2022 Ásætuvarnir

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 29. september, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2022, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. mars 2022 um að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 1. maí 2022, kærir eigandi Efri-Tungu II og eigandi helmings hlutar í Efri-Tungu, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. mars 2022 að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í sjókvíaeldi Arctic Sea Farm ehf. í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin taki nýja ákvörðun þess efnis að fyrirhuguð framkvæmd verði háð mati á umhverfisáhrifum. Til vara er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 2. maí 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir náttúruverndarfélagið Laxinn lifi sömu ákvörðun Skipulagsstofnunar með kröfu um ógildingu hennar. Verður það mál, sem er nr. 42/2022, sameinað kærumáli þessu þar sem um sömu ákvörðun er að ræða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 31. maí 2022.

Málavextir: Á árinu 2016 sættu fyrirhugaðar framkvæmdir Arctic Sea Farm ehf. vegna sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði mati á umhverfisáhrifum, sbr. álit Skipulagsstofnunar þar um frá 23. september 2016. Í desember 2017 veittu Umhverfisstofnun og Matvælastofnun framkvæmdaraðilanum starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrir þeirri starfsemi, en með úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í kærumálum nr. 3/2018 og 4/2018, uppkveðnum 27. september 2018 og 4. október s.á., voru þau leyfi felld úr gildi, m.a. vegna skorts á umfjöllun um valkosti og samanburði á umhverfisáhrifum þeirra. Í kjölfar þess lagði framkvæmdaraðili til meðferðar hjá Skipulagsstofnun skýrslu um valkosti sem viðbót við matsskýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdanna og lá álit stofnunarinnar vegna valkostagreiningarinnar fyrir 16. maí 2019. Í ágúst sama ár gáfu Umhverfisstofnun og Matvælastofnun út að nýju starfsleyfi og rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis framkvæmdaraðila í Patreksfirði og Tálknafirði.

Skipulagsstofnun barst tilkynning 14. janúar 2022 frá framkvæmdaraðila um fyrirhugaða notkun ásætuvarna í fiskeldi í Patreksfirði og Tálknafirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að ásætur á nótum í kvíum skapi bæði aukið lífrænt álag og álag á búnað ásamt því að háþrýstiþvottur á nótum til að losa ásætur skapi streitu, skaða og jafnvel afföll á eldisfiskum. Til að lágmarka umhverfisáhrif og bæta dýravelferð sé því óskað eftir því að í starfsleyfi verði heimilað að nota umhverfisvænar ásætuvarnir sem innihaldi koparoxíð. Valin hafi verið sæfivaran Netwax E5 Greenline sem hafi markaðsleyfi frá Umhverfisstofnun. Vegna fyrirspurnarinnar leitaði Skipulagsstofnun umsagna Vesturbyggðar, Tálknafjarðarhrepps, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Matvælastofnunar, Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu og Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. Ákvörðun Skipulags­stofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 31. mars 2022. Var niðurstaða stofnun­arinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kærenda: Um lögvarða hagsmuni kæranda í máli nr. 41/2022 vísar sá kærandi til þess að hann sé eini eigandi Efri Tungu II og eigandi helmings hlutar í jörðinni Efri Tungu, en síðarnefnda jörðin nái að sjó. Hin kærða ákvörðun lúti að því að heimila Arctic Sea Farm ehf. að nota eitraða koparoxíð ásætuvörn á fiskeldiskvíar sem framkvæmdaraðili hyggist staðsetja 400 m utan við netlög fasteignar kæranda án þess að þurfa að undirgangast mat á umhverfisáhrifum. Jörðin Efri-Tunga njóti umfangsmikillar verndunar á grundvelli 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Hafnarvaðallinn, Tungurif, leirurnar og skeljasandsfjörur séu viðkvæm svæði sem beri uppi fjölskrúðugt lífríki og þ.m.t. æðarvarp sem teljist til hlunninda jarðarinnar. Hagsmunir kæranda byggja á eignarrétti hans að jörðinni Efri Tungu og lúta í máli þessu einkum að því að jörðin verði ekki fyrir tjóni vegna umhverfisáhrifa. Nái fyrirhuguð framkvæmd framkvæmdaraðila fram að ganga, þ.e. að staðsetja sjókvíaeldi beint út af Örlygshöfn og mála kvíarnar með koparoxíð ásætuvörn, sé fyrirséð að kærandi þurfi algjörlega að hverfa frá áætlunum sínum um vistvæna ferðaþjónustu og vinnuaðstöðu á Gjögrum í Örlygshöfn. Kærandi hafi því beinna, sérstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn kröfu sinnar.

Allur sá úrgangur og uppsöfnuð efni frá eitraðri koparoxíð ásætuvörn berist því beint upp á land og inn í vistkerfi Örlygshafnar, en engar rannsóknir hafi verið gerðar í sambandi við þá mengun sem hér um ræði. Á öryggisblaði á vef Umhverfisstofnunar fyrir Netwax E5 Greenline sé með afgerandi hætti gert grein fyrir því hversu eitrað efnið sé mannfólki. Umsögn Hafrannsóknastofnunar, sem hafi hvað mesta sérfræðiþekkingu á þeim málaflokki sem snúi að umræddri efnanotkun, sé algjör áfellisdómur á ákvörðun Skipulagsstofnunar. Skipulagsstofnun og tilteknir umsagnaraðilar hafi við málsmeðferðina brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem þeim hafi mátt vera ljóst að skoða þyrfti sérstaklega þau svæði sem þær eitranir sem um ræði gætu haft áhrif á og hvert úrgangur gætu mögulega borist. Bent sé að upphaflegar áætlanir eldisfyrirtækja á þessu svæði standist greinilega ekki og heldur ekki það mat á umhverfisáhrifum sem sé grundvöllur leyfisveitinga.

Af hálfu kæranda í máli nr. 42/2022 er krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar reist á þeim sjónarmiðum sem rakin eru í umsögn Hafrannsóknastofnunar 24. febrúar 2022. Þar komi fram sérfræðilegt mat stofnunarinnar þess efnis að hin tilkynnta breyting skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Undir þetta mat sé tekið og því byggt að hin kærða ákvörðun sé röng að efni til og ekki reist á forsvaranlegu mati Skipulagsstofnunar á fyrirliggjandi gögnum málsins, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þá sé jafnframt byggt á því að í ljósi þeirra sjónarmiða sem fram komi í umsögninni, og hníga í andstæða átt við niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar, hafi ekki verið lagður fullnægjandi grundvöllur að ákvörðuninni í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og ekki færð fullnægjandi rök fyrir henni í samræmi við 22. gr. sömu laga.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun telur að hafna eigi kröfu um ógildingu hinnar kærðu matsskylduákvörðunar. Í ljósi kröfu kæranda um að úrskurðarnefndin taki nýja ákvörðun þess efnis að framkvæmd framkvæmdaraðila verði háð mati á umhverfisáhrifum sé bent á að eins og lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála séu úr garði gerð þá falli það ekki undir valdsvið hennar að taka nýja ákvörðun.

Í tilviki sjókvíaeldis eigi í matsskyldufyrirspurn að greina frá leirum og sjávarfitjum í nágrenni við eldissvæði, enda njóti vistkerfin verndar á grundvelli 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ekki hafi verið greint frá nálægð vistkerfanna í greinargerð framkvæmdaraðila og hafi hún heldur ekki komið fram við meðferð Skipulagsstofnunar. Að því leyti hafi verið annmarki á málsmeðferðinni. Stofnunin telji þó að niðurstaða ákvörðunarinnar hefði verið sú sama hafi upplýsingar um verndarsvæðin legið fyrir. Fjallað hafi verið um nálægð eldissvæðis við Sandodda í Patreksfirði við leirur í áliti Skipulagsstofnunar um 14.500 tonna eldisaukningu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði hinn 16. maí 2019. Í álitinu hafi verið vísað til umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands þar sem segi að íslenskar rannsóknir hafi bent til þess að fiskeldi innan fjarða hagi lítil áhrif á fjörulífríki þar sem lífræn mengun sé nánast eingöngu undir sjókvíum og í næsta nágrenni. Upplýsingar um leirur og sjávarfitjar hefðu ekki breytt niðurstöðu stofnunarinnar en hefðu þó leitt til þess að stofnunin hefði bent á að ástæða væri til að kveða sérstaklega á um vöktun á leirum og sjávarfitjum í starfsleyfi. Því sé unnt að bæta úr framangreindum annmarka á meðferð málsins þegar komi til leyfisveitinga.

Áhrif af notkun koparoxíðs sem ásætuvarnar kunni fyrst og fremst að felast í hugsanlegri uppsöfnun kopars í botnseti sem geti haft skaðleg áhrif á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum. Styrkur kopars í seti í Patreksfirði og Tálknafirði hafi mælst á bilinu 26,9-45,4 mg/kg, sbr. vöktun á eldissvæðum Arctic Sea Farm ehf. við Hvannadal og Kvígindisdal árið 2019 sem og á eldissvæðum Arnarlax ehf. við Eyri árin 2018 og 2020 og Laugardal árið 2019. Styrkur undir 70 mg/kg flokkist sem lágur eða mjög lág gildi samkvæmt reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, en þar séu sett umhverfismörk fyrir málma í sjávarseti hér við land. Þá sé bent á að í umsögn Náttúrufræðistofnunar komi fram að eftirlit með mögulegri uppsöfnun á kopar í botnseti sé hluti af almennum vöktunaráætlunum á botnseti sem Umhverfisstofnun samþykki og sé forsenda starfsleyfis. Slík vöktun sé hafin á öllum eldissvæðum og hafi einnig verið stunduð hjá öðrum rekstraraðilum sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði. Niðurstöður vöktunar hafi hingað til ekki bent til þess að óæskileg uppsöfnun kopars eigi sér stað. Rétt sé að geta þess að Skipulagsstofnun hafi verið með vöktunaráætlun framkvæmdaraðila frá febrúar 2019 fyrir tímabilið 2019–2025 og kynnt sér hana vel. Lögð sér áhersla á að umdeild framkvæmd feli ekki í sér breytingu á stærð og umfangi sjókvíaeldis, nýtingu náttúruauðlinda eða aukna úrgangsmyndun.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana skuli tilkynningarskyldar framkvæmdir, sem tilgreindar séu í flokki B í 1. viðauka við lögin, háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér „umtalsverð umhverfisáhrif“ vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Með tilliti til lýsingar á framkvæmdinni, sem fram komi í tilkynningu framkvæmdaraðila, efnis umsagnar Umhverfisstofnunar og með hliðsjón af fyrirhugaðri vöktun og mögulegum mótvægisaðgerðum, þ.m.t. mögulegum viðbrögðum og inngripum leyfisveitenda ef tilefni sé til, telji Skipulagsstofnunin að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð sé ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum. Gögn málsins bendi ekki til kynna að koparoxíð hafi áhrif á lýðheilsu manna eða að uppsöfnun eiturefna í sjávargróðri sé mikill áhættuþáttur með tilliti til þeirrar framkvæmdar sem kæran lúti að.

Umsagnir umsagnaraðila séu ekki bindandi gagnvart Skipulagsstofnun en stofnunin hafi litið heildstætt á gögn málsins og lagt innbyrðis mat á þau. Hafrannsóknastofnun hafi fært fram rök fyrir því að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaraðili hafi svarað þeirri umsögn með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 9. mars 2022. Að virtu því svari og því sem fram komi í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar, auk umsagna annarra umsagnaraðila, telji Skipulagsstofnun að umsögn Hafrannsóknastofnunar gefi ekki tilefni til að ætla að framkvæmdin sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð áhrif. Ekki sé tekið undir með kæranda að Hafrannsóknastofnun sé sú stofnunin sem hafi mestu sérfræðiþekkingu með tilliti til efnanotkunar, en bent sé á að skv. 48. gr. efnalaga nr. 61/2013 annist Umhverfisstofnun eftirlit með framkvæmd laganna og reglugerðar sem settar séu samkvæmt þeim lögum. Að lokum sé bent á að í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 16/2021, sem hafi varðar notkun eldisnóta með ásætuvörn í sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði, hafi ekki verið gerð athugasemd við það að Skipulagsstofnun hafi ekki farið eftir umsögn Hafrannsóknastofnunar.

Þótt Skipulagsstofnun hafi ekki lagt umsögn Hafrannsóknastofnunar til grundvallar eða byggt á þeim sjónarmiðum sem þar hafi komið fram þá þýði það ekki sjálfkrafa að ófullnægjandi grundvöllur hafi verið lagður að hinni kærðu ákvörðun og því hafi verið farið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því sambandi sé bent á að í úrskurði úrskurðarnefndar í máli nr. 16/2021, þar sem um hafi verið að ræða sambærilega framkvæmd, hafi úrskurðarnefndin ekki gert athugasemd við að Skipulagsstofnun hafi ekki lagt umsögn Hafrannsóknastofnunar til grundvallar í megindráttum.

Því sé hafnað að Skipulagsstofnun hafi ekki fært fullnægjandi rök fyrir hinni kærðu ákvörðun í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga. Þegar niðurstöðukafli ákvörðunarinnar sé virtur sé ljóst að rökstuðningur stofnunarinnar fullnægi þeim kröfum sem komi fram í 1. og 2. mgr. 22. gr. laganna. Auk þess sé bent á að í framangreindum úrskurði hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að stofnunin hefði rökstutt niðurstöðu sína með fullnægjandi hætti, en sem fyrr segi hafi verið um sambærilega framkvæmd að ræða og rökstuðningur að mestu leyti sambærilegur þeim rökstuðningi sem komi fram í hinni kærðu ákvörðun.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili telur að hafna eigi kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu matsskylduákvörðunar með vísan til jafnræðisreglu stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar. Matsskyldufyrirspurn framkvæmdaraðila sé nákvæmlega eins að formi og efni til og matsskyldufyrirspurnin í máli nr. 16/2021 og þegar af þeirri ástæðu beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun, enda fæli önnur niðurstaða í sér mismunun sem færi gegn jafnræði borgaranna.

Úrskurðarnefndinni séu settar verulega þröngar skorður við ógildingu stjórnvaldsákvörðunar. Sýna þurfi fram á að ógildingarreglur stjórnsýsluréttar eigi við um ákvörðunina, að verulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð eða efnislegri niðurstöðu sem og að ríkar ástæður séu fyrir ógildingu. Engin slík sjónarmið eigi við í þessu máli. Skipulagsstofnun hafi lagt mat á þá þætti sem máli hafi skipt um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni og við það tekið viðhlítandi tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Ásætuvarnir er innihaldi koparoxíð hafi verið notaðar um árabil þó öðru hafi verið haldið fram af kæranda og Hafrannsóknastofnun. Hin umrædda ásætuvörn sé umhverfisvæn vara sem hlotið hafi markaðsleyfi Umhverfisstofnunar og vottanir í yfir 90 löndum. Nær engin áhætta sé af notkun efnisins með réttum hætti og staðreyni allar mælingar það. Vaktanir bendi til þess að ásætuvörnin hafi engin óafturkræf áhrif á dýralíf, en hafi aftur á móti í för með sér bættar og öruggari aðstæður til eldis þegar komi að dýraheilbrigði og velferð. Þá verði að sjálfsögðu brugðist við leiði vaktanir og mælingar í ljós uppsöfnun kopars í botnseti. Skipulagsstofnun hafi talið rétt að í starfsleyfi kæmu fram skýr ákvæði um hvernig vöktun og samráð við Umhverfisstofnun skyldi vera háttað, sem og hvaða skilyrði þyrftu að vera fyrir hendi svo heimilt væri að nota ásætuvarnir sem innihaldi koparoxíð. Hafi því fullt tillit verið tekið til athugasemda og sjónarmið sem fram komi í umsögn Hafrannsóknastofnunar, en sjónarmið Skipulagsstofnunar séu bæði lögmæt og efnisleg rétt.

Samkvæmt mælingum á straumum liggi sterkur straumur á 30-50 m dýpi inn fjörðinn að sunnanverðu, þ.e. 90-135°, og út að norðanverðu. Það sé í samræmi við dýptarlínur á svæðinu en eðliseiginleikar efnis á hreyfingu séu að fylgja þeim fyrirstöðum sem þeir verði fyrir. Það séu því ekki beinir sjávarstraumar inn í Gjögrabót eða inn Hafnarvaðalinn þó svo að sjávarfalla gæti þar. Sterkir straumar og lega sjávarbotns sjái til þess að það sem falli frá leiti frekar niður í dýpið austan og norðan við kvíastæðin. Einnig séu kvíastæði í meira en 500 m fjarlægð frá stórstraumsfjöru við Örlygshöfn sem sé yfir mörkum þess fjarlægðar sem áhrifa eldis gæti á sjó eða botn. Þá megi telja ljóst að áhrif muni ekki gæta á dýralíf þar sem sýnt hafi verið fram á að kopar frá umræddum ásætuvörnum safnist ekki fyrir í holdi eða lifur eldisfiska sem lifi í mesta návígi við efnið.

Viðbótarathugasemdir kæranda í máli nr. 41/2022: Kærandi bendir á að Skipulagsstofnun hafi staðfest afgerandi annmarka í allri málsmeðferðinni þegar ekki á nokkurn hátt hafi verið litið til þess svæðis í Patreksfirði sem njóti hvað víðtækastar verndar. Telji stofnunin að annmarkinn skipti ekki neinu máli þar sem áður hafi verið skoðuð nálægð við leirur við Sandodda. Kærandi bendi á afgerandi munur sé á svæðunum með tilliti til verndunarákvæða og að svæðin séu ekki landfræðilega sambærileg á nokkurn hátt. Önnur matsskylduákvörðun sem varði Arnarlax ehf. hafi ekkert gildi í þessu máli þar sem þar hafi ekki verið sama nálægð við verndað svæði. Vegna þeirra ummæla framkvæmdaraðila að kopar frá ásætuvörnum safnist ekki fyrir í holdi eða lifur eldisfiska bendi kærandi á að eldislax hafi mjög stuttan líftíma, hrærist ekki í botnfalli eða gróðri og nærist ekki á þeim lífverum sem safni sérstaklega í sig koparoxíð.

Framkvæmdaraðili leggi til í máli sínu algjörlega samhengislaus straumakort og tilvísun í straumrás við Kvígindisdal sem sé staðsett 4 km innar í firðinum. Ekki sé sýnt eða vitnað í haföldukort umhverfismats sem sannarlega sýni á hvaða hátt vestan- og norðvestanáttir standi beint af væntanlegum kvíastæðum rakleitt inn í Örlygshöfn. Þar sem fyrirhuguð kvíastæði muni þvera aðrennslileið sjávar inn í Örlygshöfn þá segi það sig sjálft hvaða leið úrgangurinn muni berast undan öflugum sjávarföllum. Straumakerfi Patreksfjarðar sé vitanlega drifið af sjávarföllum þar sem hafstraumar renni ekki í gegnum fjörðinn.

Í stöðuskýrslu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar til Umhverfisstofnunar frá 2014 um gerðir árósa og strandlóna segi að víða skorti rannsóknir á vistkerfum árósa og strandlóna. Séu þau svæði því mjög viðkvæm fyrir allri mengun og illa leikin víða í Evrópu. Sú fullyrðing framkvæmdaraðila að nær engin áhætta sé af notkun umræddra ásætuvarna með réttum hætti og að hún hafi engin óafturkræf áhrif á dýralíf sé ekki rökstudd á nokkurn hátt. Hafrannsóknastofnun dragi þessar fullyrðingar réttilega í efa, en um sé að ræða stærstu rannsóknastofnun landsins á sviði hafs- og vatnarannsókna. Þá sé bent á að í skýrslu MATÍS um ásætuvarnir sem unnin hafi verið árið 2013 komi fram að notkun á koparoxíði á kvíapokum sæti mikilli gagnrýni og hafi víða verið bönnuð vegna neikvæða áhrifa á umhverfið.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuni að gæta geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa frá málum á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu.

Kærandi í máli nr. 41/2022 er eigandi jarðarinnar Efri-Tungu II og helmings hlutar í jörðinni Efri-Tungu, en báðar jarðirnar eru í Örlygshöfn í Patreksfirði. Var hann talinn hafa lögvarða hagsmuni í kærumáli nr. 180/2021, en þar var kærð sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að breyting á eldissvæðum og hvíldartíma sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Sú framkvæmd sem um var að ræða í því máli fól m.a. í sér færslu á eldiskvíum sem staðsettar yrðu út af Örlygshöfn. Taldi úrskurðarnefndin að ekki væri hægt að útiloka að kærandi yrði fyrir áhrifum af sjókvíaeldinu umfram aðra vegna nándar landareigna hans við umrætt eldissvæði sem og með hliðsjón af hinum sérstöku landfræðilegu aðstæðum á svæðinu. Í þessu máli er ekki um slíka tilfærslu á eldissvæði að ræða heldur lýtur ákvörðunin að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð. Ekki verður talið að áhrif af þeirri notkun varði hagsmuni kæranda svo verulega að hann teljist eiga þá einstaklingsbundnu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun umfram aðra sem skapi honum kæruaðild. Verður kröfu umrædds kæranda því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta þegar um er að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi er náttúruverndarsamtök sem uppfyllir skilyrði kæruaðildar skv. lögum nr. 130/2011 og verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt flokki B, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B skulu háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Í tilkynningu framkvæmdaraðila um fyrirhugaða framkvæmd skal leggja fram upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar. Þá skal í tilkynningu, þar sem við á, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og leggja fram, þar sem við á, upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir. Þegar framkvæmdaraðili hefur tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 19. gr., tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati í samræmi við 20. gr. laganna. Þar er í 1. mgr. kveðið á um skyldu stofnunarinnar til að leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni. Þá segir í 2. mgr. lagagreinarinnar að sé niðurstaða stofnunarinnar sú að tilkynningarskyld framkvæmd skuli ekki háð umhverfismati geti Skipulagsstofnun þá sett fram ábendingar um tilhögun framkvæmdarinnar í því skyni að koma í veg fyrir umtalsverð umhverfisáhrif. Þá verður að líta svo á að Skipulagsstofnun beri að rökstyðja niðurstöðu sína með hliðsjón af þeim viðmiðum sem talin eru upp í 2. viðauka laganna, en vægi hvers þáttar er, eðli málsins samkvæmt, breytilegt eftir því hvaða framkvæmd um ræðir hverju sinni.

Í tilefni af tilkynningu framkvæmdaraðila um matsskyldu á fyrirhugaðri framkvæmd leitaði Skipulagsstofnun umsagna Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Matvælastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Tálknafjarðarhrepps, Umhverfisstofnunar og Vesturbyggðar. Í umsögn Fiskistofu er tekið fram að stofnunin hafi ekki yfir að ráða sérþekkingu á áhrifum mögulegra mengunarvalda, en bendir þó á að það kunni að vera breytilegt hver áhrifin verða m.t.t. staðsetningar og umfangs notkunar. Því sé tæplega hægt að vísa til fyrri afgreiðslu Skipulagsstofnunar vegna notkunar ásætuvarna. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða vísar til þess í sinni umsögn að litaðar nætur hafi lengi verið notaðar í fiskeldi og að fylgjast þurfi með uppsöfnun á kopar í botnseti. Ekki sé þörf á sérstöku mati á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar. Í umsögn Matvælastofnunar er tekið fram að breytingin muni hafa í för með sér bættar og öruggari aðstæður til eldis hvað varði dýraheilbrigði og -velferð. Stofnunin telji mikilvægt að sett verði skilyrði um viðmiðunarmörk fyrir kopar í starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands er bent á að niðurstöður vöktunar hjá öðrum rekstraraðilum sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði hafi hingað til ekki bent til þess að óæskileg uppsöfnun kopars eigi sér stað. Ef fylgt sé réttum viðmiðum um mengunarhættu af völdum efnanna og tryggt sé að fullnægjandi vöktun sé til staðar þá muni mat á umhverfisáhrifum litlu bæta við. Jafnframt bendir stofnunin á að vegna umfangs sjókvíaeldis á þessum slóðum hjá fleiri en einum rekstraraðila séu uppsprettusvæði kopars frá ásætuvörnum allnokkur og mikilvægt að horfa á möguleg sammögnunaráhrif. Í umsögn Tálknafjarðarhrepps lýsti sveitarfélagið yfir áhyggjum af því að nota ætti mengandi efni eins og kopar í kvíum í Tálknafirði, taldi að vöktun þyrfti að vera fullnægjandi og erfitt væri að sjá að notkun koparlitaðra nóta hefði ekki umhverfisleg áhrif á lífríki fjarðarins. Vesturbyggð taldi í sinni umsögn að miðað við fyrirliggjandi gögn, mælingar og fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar í sambærilegu máli ætti framkvæmdin ekki að vera háð mati á umhverfisáhrifum.

Umhverfisstofnun greinir frá því í umsögn sinni að samkvæmt grunnsýnatöku framkvæmdaaðila við Hvannadal og Kvígindisdal árið 2019 hafi styrkur kopars reynst á bilinu 26,9–45,4 mg/kg þurrefnis sem sé innan umhverfismarka II, þ.e. lág gildi, skv. B-hluta í fylgiskjali reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Þá bendir stofnunin á að verði starfsleyfisskilyrðum breytt þannig að notkun ásætuvarna verði heimil verði einnig ákvæði um endurskoðun á heimildinni ef mælingar sýna fram á aukningu yfir viðmiðunarmörkum auk þess sem kveðið verður á um reglubundnar mælingar á styrk kopars í botnseti í vöktunaráætlun og þær mótvægisaðgerðir sem rekstraraðili skal grípa til ef styrkur kopars í botnseti mælist yfir viðmiðunarmörkum. Nótapokar verði þvegnir í þvottastöð á landi þar sem gera megi ráð fyrir því að mest af koparnum falli til og tekið sé á þar. Að gefnum forsendum, m.a. um að starfsemi muni uppfylla skilyrði í breyttu starfsleyfi, þá telji stofnunin að áhrif framkvæmdar á umhverfi liggi ljós fyrir og umhverfismat sé ekki til þess fallið að varpa skýrari mynd á áhrifin.

Þá skilaði Hafrannsóknastofnun umsögn um fyrirhugaða framkvæmd og taldi að hún skyldi sæta mati á umhverfisáhrifum. Vísaði stofnunin til þess að í fyrirspurn framkvæmdaraðila væri ekki gerð nægjanleg grein fyrir framkvæmdinni, umhverfisáhrifum sem hún kynni að hafa í för með sér eða mótvægisaðgerðum. Gerð sé athugasemd við fullyrðingu um að ásætuvörnin sé umhverfisvæn vara, en samkvæmt þeim áhættuflokkum sem hún falli í sé efnið mjög eitrað í vatni/sjó með langvarandi áhrifum. Gera þurfi grein fyrir eiginleikum þess koparoxíðs sem eigi að nota, m.a. með tilliti til leysni þess, oxunarstigs og eituráhrifa fyrir lífríki, og bera saman við aðra valkosti. Fram þurfi að koma hversu mikill kopar losni út í umhverfið m.t.t. fjölda eldiskvía og annarra umhverfisþátta, en samkvæmt viðmiðum Evrópusambandsins losni 80% af þeim kopar sem notaður sé í ásætuvarnir út í umhverfið. Af tilkynningu framkvæmdaraðila megi ráða að þvottur neta fari fram í sjó og á landi, en það fari gegn skilyrðum Umhverfisstofnun í breyttu starfsleyfi framkvæmdaraðila um að koparhúðaðar nætur skyldu þvegnar einungis á landi en ekki sjó. Ekki sé í tilkynningunni fjallað um möguleg áhrif uppsöfnunar kopars undir og við eldiskvíar á botndýralíf eða annað líf í firðinum. Þótt kopar safnist ekki upp í lífkeðjum þá virki hann staðbundið sem eitur á t.d. þörunga og ýmsa hryggleysingja. Í Noregi séu uppi áhyggjur af þeim neikvæðu umhverfisáhrifum sem leiði af notkun kopars sem ásætuvarnar og séu nú taldar líkur á að sum eldissvæði í Noregi nái ekki fram umhverfismarkmiðum vegna langvarandi losunar kopars til umhverfisins frá eldissvæði. Sterk vísindaleg þekking liggi fyrir um afdrif og þráláta virkni kopars og annarra þungmálma nærri losunarstöðum og hefði verið ákjósanlegt að fjalla um þau áhrif í tilkynningunni.

Framkvæmdaraðili kom að frekari athugasemdum vegna umsagna Tálknafjarðarhrepps, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Hafrannsóknastofnunar. Í svari við umsögn Hafrannsókna­stofnunar er m.a. lýst fyrirkomulagi sem talið er af framkvæmdaaðila að verði ákveðið í starfsleyfi, þar sem tilgreind verði umhverfisviðmið og að vöktun fari fram með botnsýnatökum og efnagreiningu sem muni gera kleift að stöðva notkun ásætuvarna ef vart verður uppsöfnunar. Þá verði nætur þrifnar í landi og litaðar aftur fyrir næstu notkun. Þegar komi að þvotti í sjó þá verði þvegið með lágþrýstingi sem losi ekki koparinn eins og háþrýstiþvottur. Jafnframt er vísað til þess, sem segir í umsögn Matvælastofnunar, að framkvæmdin sé líkleg til að hafa í för með sér bættar og öruggari aðstæður til eldis hvað varði dýraheilbrigði og -velferð.

Í niðurstöðukafla Skipulagsstofnunar er vísað til þess að framkvæmdin sem um ræði feli ekki í sér breytingu á stærð og umfangi sjókvíaeldis, nýtingu náttúruauðlinda eða aukna úrgangsmyndun. Að mati stofnunarinnar kunni áhrif af notkun koparoxíðs sem ásætuvarnar fyrst og fremst að felast í hugsanlegri uppsöfnun kopars í botnseti sem geti haft skaðleg áhrif á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum. Vísað er til þess að styrkur kopars í Patreksfirði og Tálknafirði á eldissvæðum Arctic Sea Farm við Hvannadal og Kvígindisdal árið 2019, sem og á eldissvæðum Arnarlax við Eyri árin 2018 og 2020 og Laugardal 2019, hafi mælst á bilinu 26,9-45,3 mg/kg, en styrkur undir 70 mg/kg flokkist sem lág eða mjög lág gildi samkvæmt reglugerð nr. 796/1999 um mengun vatns þar sem finna megi umhverfismörk fyrir málma í sjávarseti hér við land. Telur stofnunin rétt að í starfsleyfi séu skýr ákvæði um hvernig vöktun og samráði við Umhverfisstofnun skuli vera háttað sem og hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi svo heimilt sé að nota ásætuvarnir sem innihaldi koparoxíð. Með tilliti til umsagnar Umhverfisstofnunar og með hliðsjón af fyrirhugaðri vöktun og mögulegum mótvægis­aðgerðum, þ.m.t. mögulegum viðbrögðum og inngripum leyfisveitenda ef tilefni sé til, telur Skipulagsstofnun að framkvæmdin sé ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum. Þeir þættir sem falli undir eðli, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa kalli ekki á að framkvæmdin sæti mati á umhverfisáhrifum.

Svo sem henni var skylt að gera aflaði Skipulagsstofnun umsagna umsagnaraðila á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þrátt fyrir þá lögbundna skyldu er stofnunin ekki bundin af þeim umsögnum sem henni berast heldur ber henni að taka sjálfstæða ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar á grundvelli fyrirliggjandi gagna og upplýsinga. Getur stofnunin því komist að öndverðri niðurstöðu en þeirri sem umsagnaraðili eða -aðilar telja rétta, en við slíkar aðstæður verður þó að gera ríkari kröfur til rannsóknar málsins og rökstuðnings niðurstöðunnar. Að virtum gögnum málsins er það álit úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi lagt viðhlítandi og sjálfstætt mat á það hvort framkvæmdin væri líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Var sú niðurstaða studd fullnægjandi rökum með hliðsjón af fyrirliggjandi reynslu og vöktun og mögulegum mótvægisaðgerðum leyfisveitenda.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu náttúruverndarfélagsins Laxinn lifi um að felld verði úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. mars 2022 um að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.

180/2021 Örlygshöfn

Með

Árið 2022, mánudaginn 12. september, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson, formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 180/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 8. nóvember 2021 um að breyting á eldissvæðum og hvíldartíma sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 12. desember 2021, kærir eigandi Efri-Tungu II og eigandi helmings hlutar í Efri-Tungu, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 8. nóvember 2021 að breyting á eldissvæðum og hvíldartíma sjókvíaeldis Arctic Sea Farm ehf. og Arnarlax ehf. í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin taki nýja ákvörðun þess efnis að breytingin verði háð mati á umhverfisáhrifum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 20. janúar 2022.

Málavextir: Á árinu 2016 sættu fyrirhugaðar framkvæmdir Arctic Sea Farm ehf. og Fjarðarlax ehf, nú Arnarlax ehf., vegna sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði mati á umhverfisáhrifum, sbr. álit Skipulagsstofnunar þar um frá 23. september 2016. Í desember 2017 veittu Umhverfisstofnun og Matvælastofnun framkvæmdaaðilunum starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrir þeirri starfsemi, en með úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í kærumálum nr. 3/2018, 4/2018, 5/2018, og 6/2018, uppkveðnum 27. september 2018 og 4. október s.á., voru þau leyfi felld úr gildi, m.a. vegna skorts á umfjöllun um valkosti og samanburði á umhverfisáhrifum þeirra. Í kjölfar þess lögðu framkvæmdaaðilar til meðferðar hjá Skipulagsstofnun skýrslu um valkosti sem viðbót við matsskýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdanna og lá álit stofnunarinnar vegna valkostagreiningarinnar fyrir 16. maí 2019. Í ágúst sama ár gáfu Umhverfisstofnun og Matvælastofnun út að nýju starfsleyfi og rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis framkvæmdaaðila í Patreksfirði og Tálknafirði.

Skipulagsstofnun barst tilkynning 16. október 2020 frá fyrrnefndum framkvæmdaaðilum um fyrirhugaða breytingu á eldissvæðum þeirra í Patreksfirði og Tálknafirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að fyrirhuguð breyting á eldissvæðum væri til þess fallin að minnka umhverfisáhrif og auka velferð eldisfisks. Aðeins væri um að ræða breytingu í Patreksfirði, en staðsetningar í Tálknafirði myndu haldast óbreyttar. Í breytingunni fólst tilfærsla á þremur eldissvæðum auk nýs eldissvæðis er nefnt var Háanes og mun liggja beint út af Örlygshöfn.

Vegna fyrirspurnarinnar leitaði Skipulagsstofnun umsagna Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Landhelgis­gæslunnar, Matvæla­stofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Sam­göngu­stofu, Tálkna­fjarðar­hrepps, Umhverfisstofnunar, Vegagerðarinnar og Vesturbyggðar. Eftir að Skipulagsstofnun barst tilkynning frá fyrirtækjunum 11. maí 2021 um breytt fyrirkomulag á afmörkun eldissvæða óskaði stofnunin að nýju eftir afstöðu Hafrannsóknarstofnunar, Matvæla­stofnunar og Umhverfisstofnunar. Þá sendu framkvæmdaaðilar tilkynningu til Skipulags­stofnunar 11. maí 2021 um fyrirhugaða breytingu á hvíldartíma á eldissvæðum þeirra til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. áðurnefnda 6. gr. laga nr. 106/2000. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar og Umhverfis­stofnunar vegna þeirrar fyrir­spurnar.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu fram­kvæmdarinnar lá fyrir 8. nóvember 2021. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann sé eini eigandi Efri-Tungu II og eigandi helmings hlutar í Efri-Tungu, en síðarnefnda jörðin nái að sjó. Hin kærða ákvörðun lúti að því að heimila Arctic Sea Farm ehf. að stunda starfsemi sína, þ.e. sjókvíaeldi laxfiska, 400 m utan við netlög fasteignar kæranda án þess að þurfa að undirgangast mat á umhverfisáhrifum. Jörðin Efri-Tunga njóti umfangsmikillar verndunar á grundvelli 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Hafnarvaðallinn, Tungurif, leirurnar og skeljasandsfjörur séu viðkvæm svæði sem beri uppi fjölskrúðugt lífríki og þ.m.t. æðarvarp sem teljist til hlunninda jarðarinnar. Hagsmunir kæranda byggja á eignarrétti hans að jörðinni Efri Tungu og lúta í máli þessu einkum að því að jörðin verði ekki fyrir tjóni vegna umhverfisáhrifa. Kærandi hafi því beinna, sérstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn kröfu sinnar.

Skipulagsstofnun hafi við málsmeðferð hins kærða úrskurðar brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og andmælarétti kæranda, sbr. 15. gr. sömu laga. Jafnframt hafi hin kærða ákvörðun ekki byggst á málefnalegu mati, en ákvörðunin beri það með sér að með stórkostlegu gáleysi eða ásetningi hafi verið horft fram hjá bersýnilegum hagsmunum sem njóti víðtækrar verndar. Ákvörðunin hafi því brotið gegn réttmætisreglu og sannleiksreglu stjórnsýsluréttar. Einnig sé ámælisvert að hvorki Vesturbyggð, Náttúrufræðistofnun Íslands né Umhverfisstofnun hafi, í ljósi lagalegra skuldbindinga þeirra, vakið athygli á hagsmunum Örlygshafnarsvæðisins. Þetta tómlæti geti eingöngu skýrst af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi. Hin kærða ákvörðun sé haldin efnis- og formannmarka að lögum sem felist í broti á öryggisreglum. Annmarkinn sé því verulegur og ákvörðunin þar af leiðandi ógildanleg.

Byggt sé á því að Skipulagsstofnun og tilteknir umsagnaraðilar hafi við málsmeðferðina brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Inntak reglunnar felist í að stjórnvaldi beri að tryggja að fullnægjandi upplýsingar liggi til grundvallar ákvörðun, starfsmenn sem leysi úr máli búi yfir fullnægjandi þekkingu og forsvaranlegar ályktanir séu dregnar af þeim upplýsingum sem séu til staðar.

Í tilkynningu þeirri sem liggi hinni kærðu ákvörðun til grundvallar blasi við að um verulega tilfærslu og stækkun á eldissvæðum framkvæmdaaðila hafi verið að ræða. Hverjum þeim sem gögnin skoði megi vera ljóst að hin verulega tilfærslu og rýmkun eldissvæðisins sé líkleg til að hafa veruleg umhverfisáhrif á Örlygshafnarsvæðið, bæði þá vegna ásýndar og lífrænna áhrifa. Einnig sé ljóst að færsla á eldissvæði Arnarlax að Vatneyri sé líkleg til að hafa veruleg sjónræn umhverfisáhrif á sama svæði. Hafa þurfi í huga að Örlygshafnarsvæðið njóti ríkrar verndar á grundvelli 61. gr. laga nr. 60/2013. Svæðið sé einstakt og þar séu friðaðar sjávarfitjar og umfangsmikið leirulón þar sem verulegra sjávarfalla gæti. Flóðmunir í Patreksfirði geti orðið allt að 4 m í stórstreymi og geti yfirborðshæð í leirulóni í Örlygshöfn sveiflast um 2 m eftir sjávarstöðu. Það sé því gríðarlegt magn af sjó og lífrænum efnum sem berist frá sjónum utan lónsins og yfir leirurnar. Þegar falli frá verði svo eftir þang og ýmislegt annað sem berist inn á leirurnar með sjávarstraumnum.

Í tilkynningum framkvæmdaaðila sé tilfærsla eldissvæðisins utar í fjörðinn kennd við Háanes, en það sé verulega lítið notað og lítt kunnugt örnefni á stað sem sé í u.þ.b. þriggja kílómetra fjarlægð frá fyrirhuguðum stað eldissvæðisins. Það sé mjög óeðlilegt að kenna svæðið ekki við hið kunna heiti Örlygshafnar, Hafnarmúla eða Tungurifs, en kjósa þess í stað að notast við lítt kunnugt örnefni sem sé í engu samræmi við fyrirhugaða staðsetningu. Þetta bendi sterklega til þess að ásetningur hafi verið um að draga athygli frá því hversu nærri hinu friðaða landssvæði framkvæmdaraðilinn Arctic Sea Farm hafi í hyggju að starfrækja umfangsmikið sjókvíaeldi.

Vesturbyggð hafi, eins og önnur sveitarfélög, það lögbundna hlutverk að vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa sinna, sbr. 2. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Á vegum hvers sveitarfélags skuli svo starfa þriggja til sjö manna náttúruverndarnefnd, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 60/2013. Skal náttúruverndarnefnd vera sveitarstjórn til ráðgjafar um náttúruverndarmál og stuðla að náttúruvernd á sínu svæði með fræðslu og umfjöllun um framkvæmdir og starfsemi sem líkleg sé til að hafa áhrif á náttúruna, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar. Þegar Vesturbyggð barst umsagnarbeiðni Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaðrar færslu sjókvíaeldis Arctic Sea Farm að mynni Örlygshafnar hefði sveitarfélaginu borið, í ljósi greindra skuldbindinga, að bera undir náttúruverndarnefnd möguleg áhrif breytingarinnar á hið verndaða landsvæði. Þetta hefði ekki verið gert heldur hafi umsagnarbeiðni eingöngu verið tekin fyrir á fundi hafna- og atvinnumálaráðs og fundi bæjarráðs Vesturbyggðar. Efnisleg umsögn hafi einungis verið studd bókun úr fundi bæjarráðs þar sem engar efnislegar athugasemdir hafi verið gerðar við fyrirhugaðar framkvæmdir og í engu vikið að mögulegum umhverfisáhrifum á Örlygshafnarsvæðið. Þetta tómlæti í garð friðaðs og viðkvæms svæðis þegar fyrir liggi að stofna til mörg þúsund tonna sjókvíaeldi við mynni þess, sé að mati kæranda verulega ámælisvert. Sveitarfélaginu hefði borið við þessar aðstæður að vekja athygli á augljósri hættu á umhverfisáhrifum sem viðkvæmt friðað land gæti orðið fyrir vegna framkvæmdanna. Með því að láta það ógert hafi sveitarfélagið brotið gróflega gegn lögbundnum skyldum sínum.

Náttúrufræðistofnun Íslands stundi undirstöðurannsóknir og annist skipulega heimildarsöfnun um náttúru Íslands, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 60/1992 um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Meðal aðalverkefna stofnunarinnar sé að leiðbeina um hóflega nýtingu náttúrulegra auðlinda og aðstoða með rannsóknum við mat á verndargildi vistkerfa og náttúrminja og skrá náttúruminjar, annast mat á efni þeirra og hafa umsjón með C-hluta náttúrminjaskrár, sbr. e- og j-liði 2. mgr. 4. gr. laganna. Í 4. mgr. 37. gr. laga nr. 60/2013 segi að sýna skuli sérstaka aðgæslu gagnvart vistgerðum, vistkerfum og tegundum á C-hluta náttúruminjaskrár til að koma í veg fyrir að náttúruleg útbreiðslusvæði eða búsvæði minnki og verndarstaða þeirra versni. Í 1. mgr. 61. gr. sömu laga séu talin upp vistkerfi sem njóti sérstakrar verndar í samræmi við markmið 2. gr. og c-lið 3. gr. laganna, en þ. á m. séu sjávarfitjar og leirur. Í 3. mgr. 61. gr. laganna komi fram að forðast beri að raska vistkerfum sem talin séu upp í 1. mgr. lagagreinarinnar nema brýna nauðsyn beri til. Þegar Skipulagsstofnun hafi leitast eftir umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands með tölvupósti 31. ágúst 2021 hafi umsagnarbeiðnin verið afmörkuð við staðsetningu eldissvæðisins við Tálkna, kallað Vatneyrarsvæði, og í engu vikið að fyrirhuguðu eldissvæði utan Örlygshafnar. Umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands hafi svo eingöngu lotið að Tálknasvæðinu þar sem stofnunin hafi gert allnokkrar athugasemdir. Bersýnilega hefði Skipulagsstofnunn borið að afla umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands um Örlygshafnarsvæðið. Sú framkvæmd Skipulagsstofnunar að hafa afmarkað umsagnarbeiðni sína við Vatneyrarsvæðið, og þar með stýrt athygli Náttúrufræðistofnunar Íslands fram hjá vernduðu og viðkvæmu landi í sunnanverðum firðinum, sé svo bersýnileg vanræksla að margt bendi til þess að um ásetning hefði verið að ræða, eða í það minnsta stórkostlegt gáleysi. Þrátt fyrir villandi afmörkun Skipulagsstofnunar hefði Náttúrufræðistofnun Íslands, í ljósi þeirra gagna sem umsagnarbeiðninni hefði fylgt, bersýnilega borið að vekja athygli á mögulegum áhrifum nýrrar staðsetningar á Örlygshafnarsvæðinu, en það hafi hún ekki gert.

Umhverfisstofnun hafi m.a. það hlutverk að annast verkefni sem stofnuninni séu falin í lögum nr. 60/2013. Í 2. mgr. 13. gr. laganna komi fram að Umhverfisstofnun fari m.a. með eftirlit og framkvæmd laganna, veiti leyfi og umsagnir, beri ábyrgð á gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir friðlýst svæði og meti nauðsynlegar verndarráðstafanir á svæðum þar sem til greina komi að setja á framkvæmdaáætlun. Í 3. mgr. 37. gr. sömu laga segi að forðast beri að raska svæðum sem skráð hafi verið á C-hluta náttúruminjaskrár nema almannahagsmunir krefjist þess og annarra kosta hafi verið leitað. Í 4. mgr. ákvæðisins sé svo tilgreint að sýna skuli sérstaka aðgæslu gagnvart vistgerðum, vistkerfum og tegundum á C-hluta náttúruminjaskrár til að koma í veg fyrir að náttúruleg útbreiðslusvæði eða búsvæði minnki og verndarstaða þeirra versni. Í ljósi framangreindra lagaákvæða, og fjölmargra annarra skyldna sem á Umhverfisstofnun hvíla, hefði stofnuninni borið í umsögn sinni að víkja að mögulegum umhverfisáhrifum fyrirhugaðs nýs eldissvæðis í mynni Örlygshafnar. Sú niðurstaða stofnunarinnar að „áhrif ofangreindrar framkvæmdar á umhverfi [lægju] ljós fyrir og að ferli umhverfismats [væri] í þessu tilfelli ekki til þess fallið að varpa skýrari mynd á áhrif starfseminnar á umhverfið“ sé án nokkurs rökstuðnings eða viðurkenningar á nálægð við viðkvæmt og friðað Örlygshafnarsvæðið, sem eðli málsins samkvæmt sé bersýnilega útsett fyrir lífrænum úrgangi úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi. Mat stofnunarinnar byggi bersýnilega ekki á fullnægjandi rannsókn og niðurstaða þess efnis að ekki væri þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna breytinganna væri tekin algjörlega án tillits til áhrif á Örlygshafnarsvæðið.

Með hliðsjón af framangreindu sé bersýnilegt að Skipulagsstofnun hafi ekki byggt ákvörðun sína á fullnægjandi rannsókn. Hafi því verið brotin formregla 10. gr. stjórnsýslulaga sem jafnframt sé öryggisregla. Ákvörðunin sé því haldin verulegum annmarka og þar af leiðandi ógildanleg.

Þá hafi hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar brotið gegn réttmætisreglunni, en inntak hennar sé að allar athafnir stjórnvalda verði að byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Á regluna reyni einkum við töku matskenndra stjórnvaldsákvarðana. Mat á hvaða sjónarmið sé málefnalegt sé undir slíkum kringumstæðum ekki frjálst heldur bundið af almennum efnisreglum stjórnsýsluréttarins. Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana segi að tilkynningaskyldar framkvæmdir sem tilgreindar séu í flokki B í 1. viðauka laganna skuli háðar umhverfismati þegar þær séu taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka laganna. Í þeim viðauka séu settar fram þær viðmiðanir sem líta beri til við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda tilgreindum í flokk B í 1. viðauka. Hér þurfi að hafa í huga að matið nái eingöngu til fyrirhugaðrar breytingar en ekki starfseminnar í heild, sbr. árétting úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 81/2021. Hin kærða ákvörðun hafi ekki byggst á málefnalegu mati en skýr matsskylda sé fyrir hendi vegna líklegra umhverfisáhrifa á annars vegar lífríki Örlygshafnarsvæðisins og hins vegar ásýnd og landslag svæðisins. Hafi ákvörðunin því verið haldin verulegum ógildingarannmarka og sé ógildanleg.

Hvað líkleg umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda á lífríki Örlygshafnarsvæðisins varðar sé vísað til þess að í minni Örlygshafnar sé ós sem skilji að eignarlönd Tungulands og Hnjóts. Inn með allri Örlygshöfn sé sendið landgrunn sem gróið sé ásamt mýrum og votlendi. Inn með öllum Hafnarvaðli gæti flóðs og fjöru, upp Hafnarvaðal, inn í skurðakerfi ræktaðs og áveitur. Á háflóði hverfi jafnvel stór hluti ræktaðs lands alveg undir sjó sem flæði inn frá Patreksfirði sjálfum. Það sé algjörlega fyrirsjáanlegt að mengun og efni frá laxeldiskví út af Örlygshöfn muni, ef af framkvæmdinni verði, berast á flóði inn í Örlygshöfn og þar af leiðandi inn á sjávarfitjar og leirur sem heyri undir sérstaka vernd. Oft á tíðum berist inn um ósinn og inn Hafnarvaðalinn mikið magn af sjávargróðri sem rótast hafi upp úr Patreksfirði fyrir utan Tungurif. Vel sé þekkt að veiðimenn þurfi frá að hverfa frá ósnum þar sem ekki sjáist til botns vegna þara sem þar flæði með gífurlegu afli inn í landið. Sjávargróður verði svo iðulega eftir á túnum og í skurðum þegar falli aftur út um ósinn og oft fari mikil vinna í að hreinsa þurran sjávarþara sem fuglinn týni í hreiður sín og æðardún, þó æðarvarpið sjálft sé yfir tveimur kílómetrum inn í landi í beinni sjónlínu frá ósnum sjálfum. Öll mengun í sjó sem berist með aðfalli inn í Örlygshöfnina leiti þar upp að varpinu.

Hvergi í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar vegna fiskeldis í Patreksfirði og Tálknafirði frá árinu 2016 sé fjallað um þau mengunaráhrif sem fiskeldiskví fyrir utan Örlygshöfn geti valdið því hinu viðkvæma lífríki. Hvergi á Íslandi séu hliðstæðar aðstæður og þær sem hér séu fyrir hendi og hafi eftirlitsstofnanir eða fyrirtæki í laxeldi engar rannsóknir til að leggja mat á áhrif starfseminnar á svæðið. Núverandi mat á umhverfisáhrifum sem lagt sé til grundvallar starfsleyfis þessa fyrirtækja taki sérstaklega mið af því að þessar kvíar séu innar í firðinum og að þessi viðkvæmu svæði verði ekki fyrir óæskilegum umhverfisáhrifum.

Af því sem að framan sé rakið sé bersýnilegt að eðli fyrirhugaðra framkvæmda, með hliðsjón af umgangi líklegrar úrgangsmyndun og mengunar, sem Örlygshafnarsvæðið yrði útsett fyrir, sbr. i-, iv- og v-lið 1. tl., með hliðsjón af staðsetningu framkvæmdarinnar með tilliti til landnotkunar svæðisins, líffræðilegrar fjölbreytni á svæðinu og náttúruminja og svæða sem falli undir ákvæði 61. gr. laga nr. 60/2013, sbr. i-, ii- og a-lið iii-lið 2. tl., og með hliðsjón af gerð og eiginleikum hugsanlegra áhrif framkvæmdarinnar með tilliti til mögulegs umfangs og styrks umhverfisáhrifa, hve miklar líkur bersýnilega megi telja á áhrifum væntanlegrar tímalengdar, sbr. i- til iv-liðar 2. viðauka í lögum nr. 111/2021, leggi skýrlega til að fyrirhuguð breyting þurfi að undirgangast mat á umhverfisáhrifum á lífríki Örlygshafnarsvæðisins.

Í hinni kærðu ákvörðun sé um áhrif fyrirhugaðra breytinga á ásýnd og landslag einvörðungu vísað til þess að fram komi í greinargerð framkvæmdaaðila að tilfærsla frá Hlaðseyri að Vatneyri í Patreksfirði muni líklegast draga úr ásýndaráhrifum þar sem nýja eldissvæðið verði lengra frá byggð og umferð í landi. Umfjöllun um áhrif breytinganna á ásýnd og landslag sé þannig afmörkuð við örstutta tilvitnun í greinargerð framkvæmdaaðila. Þetta verði að telja stórkostlega vanrækslu stofnunarinnar í umfjöllun um mjög mikilvæga hagsmuni almennings og landeigenda á svæðinu. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé ekki á nokkurn hátt minnst á ásýndaráhrif hinnar svokölluðu stækkunar á eldiskvíasvæði við Kvígindisdal og þar af leiðandi ekki einu orði minnst á hvaða áhrif möguleg fiskeldiskví við Örlygshöfn kunni að hafa á ásýnd fjarðarins, ímynd Örlygshafnar, ferðaþjónustu á svæðinu og umferð ferðamanna sem sækjast eftir að horfa út Patreksfjörð þegar ekið sé fyrir Hafnarmúla. Í núverandi mati á umhverfisáhrifum, sem lagt sé til grundvallar starfsleyfis fiskeldis­fyrirtækjanna, sé sérstaklega tekið fram að mestu ásýndaráhrif vegna fiskeldiskvía sé einmitt frá háu sjónarhorni við Örlygshöfn. Fiskeldiskví við Örlygshöfn verði því staðsett á einhverjum mest áberandi og eyðileggjandi stað með tilliti til ásýndar svæðisins og upplifunar íbúa og ferðamanna.

Mjög algengt sé að bílar stöðvi á svæðinu beint ofan við fyrirhugað eldissvæði til að njóta og ljósmyndi útsýni yfir alla Örlygshöfn og yfir allan fjörðinn. Laxeldiskvíar myndu setja gífurlegt mark á spegilsléttan sjóinn og það einstaka sjónarspil sem fjörðurinn sé þekktur fyrir. Ásýndaráhrifin yrðu síst minni séð frá Tungurifi, en þar gangi síaukinn fjöldi fólks í flæðaborðinu með sjónlínu í augnhæð eftir yfirborði sjávar. Þá hafi a undanförnum árum jafnt og þétt aukist fjöldi þeirra sem gangi upp á Hafnarmúla til að njóta þess magnaða útsýnis sem þar sé að finna. Fyrirhugaðar framkvæmdir myndu gera slíkar göngur mun óáhugaverðri. Einnig hafi kajakróður stóraukist seinni ár frá Gjögrum í Örlygshöfn, enda sé svæðið sannkölluð náttúruperla. Laxeldiskvíasvæðið leggi megnið af þessum haffleti algjörlega undir sig. Fyrirhuguð kajakleiga sem heimamenn hafi verið að leggja á ráðin með að opna væri algjörlega úr sögunni með þessum framkvæmdum.

Enginn sérhæfður umsagnaraðili á viðeigandi sviði sé kallaður til að meta þennan þátt og einungis fáleg ummæli fiskeldisfyrirtækjanna sjálfra, sem hafi gífurlegra hagsmuna að gæta, séu tekin sem viðhlítandi rök í málinu. Í mati á umhverfisáhrifum frá árinu 2016 hafi verið fjallað um hvaða jákvæðu ásýndaráhrif það hefði að kvíarnar væru innar í fjörðunum við lægri útsýnispunkta, ásamt því öryggi sem hafi fylgt því að vera innar í fjörðum hvað varði haföldu og verur. Þau rök eigi ekki við um fyrirhugaða breytingu heldur leggi skýrlega til að þörf sé á nýju mati þar sem hið fyrra mat á umhverfisáhrifum styðji greinilega ekki þá gríðarlegu breytingu sem hér sé lögð til.

Af framangreindu sé bersýnilegt að eðli fyrirhugaðra framkvæmda með hliðsjón af stærð, hönnun og umfangi fyrirhugaðrar breytingar, samlegðar með öðrum framkvæmdum og ónæði sem af þeim muni stafa, sbr. i-, ii- og v-lið, staðsetning framkvæmdarinnar með tilliti til landnotkunar og verndarsvæða, sbr. i- og iii-lið 2. tl., og með hliðsjón af gerð og eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar með tilliti til mögulegs umfangs og styrks umhverfisáhrifa, hve miklar líkur bersýnilega megi telja á áhrifum og væntanlegrar tímalengdar, sbr. i- til iv-lið 2. viðauka laga nr. 111/2021, leggi skýrlega til að fyrirhuguð breyting þurfi að undirgangast mat á umhverfisáhrifum á ásýnd og landslagi Örlygshafnarsvæðisins.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er bent á að skv. 11. gr. þágildandi reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum skuli framkvæmdaraðili í tilkynningu sinni, eftir því sem við eigi, gera grein fyrir því hvort framkvæmdasvæði sé á eða nærri verndarsvæðum eins og þau séu skilgreind í 2. viðauka. Í tilviki sjókvíaeldis telji stofnunin að greina eigi frá leirum og sjávarfitjum í nágrenni eldissvæðis, enda njóti vistkerfin verndar á grundvelli 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ekki hafi verið greint frá nálægð vistkerfanna í greinargerð framkvæmdaaðila og hafi hún heldur ekki komið fram við meðferð Skipulagsstofnunar í málinu. Að því leyti hafi verið annmarki á málsmeðferðinni. Stofnunin telji þó að niðurstaða ákvörðunarinnar hefði verið sú sama hefðu upplýsingar um verndarsvæði legið fyrir. Fjallað hafi verið um nálægð eldissvæðis við Sandodda í Patreksfirði við leirur í áliti Skipulagsstofnunar um 14.500 tonna eldisaukningu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði frá 16. maí 2019. Í álitinu sé vísað til umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands þar sem segi að íslenskar rannsóknir hafi bent til þess að fiskeldi innan fjarða hafi lítil áhrif á fjörulífríki þar sem lífræn mengun sé nánast eingöngu undir sjókvíum og næsta nágrenni. Það megi þó skoða betur. Setfjörur séu almennt taldar viðkvæmari fyrir lífrænni mengun og eðlilegt sé að vakta þær í nágrenni sjókvía. Með vísan til umsagnar Náttúrufræðistofnunar hafi Skipulagsstofnun lagt það til í álitinu að í starfsleyfi yrði kveðið á um sérstaka vöktun á áhrifum eldis á leirur við Sandodda. Því sé unnt að bæta úr nefndum annmarka á meðferð málsins þegar komi til leyfisveitinga.

Matsskylduákvörðun Skipulagsstofnun hafi byggst á þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 skulu framkvæmdir sem tilgreindar séu í flokki B háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Skilgreiningu á umtalsverðum umhverfisáhrifum sé að finna í p-lið 3. gr. laganna. Skilgreiningin sé á þá lund að um sé að ræða veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Hvað ásýndaráhrif varði snúi hin kærða ákvörðun að breyttri afmörkun og stækkun eldissvæða innan Patreksfjarðar en ekki að aukningu á eldi. Stækkun eldissvæða gefi framkvæmdaraðila kost á að velja kvíum stað innan stærra svæðis. Stærra eldissvæði þýði ekki að eldiskvíar muni þekja stærri svæði enda umfang eldis óbreytt. Í Patreksfjarðarflóa sé heimilt að ala 20.000 tonn af eldislaxi. Ásýndaráhrif þeirrar breytingar á mögulegri staðsetningu kvía sem ákvörðunin snúi að geti að mati stofnunarinnar ekki talist vera umtalsverð í skilningi laga nr. 106/2000. Þá fái stofnunin ekki séð að það breyti eða hafi áhrif á efnislega niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar þótt stuðst hafi verið við lítt kunnugt örnefni.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 60/2013 skulu náttúruverndarnefndir vera sveitarstjórnum til ráðgjafar. Í ljósi þess að hafna- og atvinnumálaráð og bæjarráð Vesturbyggðar hafi tekið umsagnarbeiðni Skipulagsstofnunar fyrir og sveitarfélagið hafi veitt umbeðna umsögn telji stofnunin að það hafi ekki efnisleg áhrif á niðurstöðu stofnunarinnar í hinni kærðu ákvörðun þótt sveitarfélagið hafi ekki leitað til náttúruverndarnefndar. Hvað umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands varði þá hafi upphaflega ekki verið leitað umsagnar þeirrar stofnunar, en á meðan málið hafi verið til meðferðar og eftir að umsagnir hefðu borist hafi Skipulagsstofnun talið þörf á að leita sjónarmiða Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna nálægðar eldissvæðis að Vatneyri við Tálkna, þar sem þar megi finna mikilvæga sjófuglabyggð. Skipulagsstofnun hafi því tilgreind eldissvæði að Vatneyri sérstaklega í umsagnarbeiðninni. Að fenginni reynslu geti verið æskilegt að tilgreina sérstaklega ákveðna þætti sem óskað er umsagnar um.

Því sé hafnað að hin kærða ákvörðun hafi ekki byggst á málefnalegum sjónarmiðum. Niðurstöðukafli ákvörðunarinnar hafi að geyma rökstuðning sem beri skýrlega með sér að Skipulagsstofnun hafi framkvæmt málefnalegt mat. Þau sjónarmið þar sem þar séu tilgreind standi í beinum tengslum við markmið laga nr. 106/2000. Eins og skilgreining þeirra laga á umtalsverðum umhverfisáhrifum sé úr garði garð sé ljóst að við mat á því hvort framkvæmd þurfi að undirgangast mat á umhverfisáhrifum eður ei þurfi að líta til þeirra mótvægisaðgerða sem komi til greina. Það sé mat stofnunarinnar, líkt og komi fram í matsskylduákvörðuninni, að með hliðsjón af vöktun og mögulegum mótvægisaðgerðum, þ.m.t. mögulegum viðbrögðum og inngripum leyfisveitenda, ef tilefni sé til, sé færsla eldissvæða og breytingar á þeim sem og breyttur hvíldartími ekki líkleg til að leiða til aukins álags eða aukinna umhverfisáhrifa á ástand sjávar og botndýralífs. Stofnunin tilgreini að í starfsleyfi þurfi að vera skýr ákvæði um heimildir leyfisveitanda til að bregðast við reynist umhverfisástand ófullnægjandi, auk þess sem stofnunin leggi til að sett verði skilyrði um tiltekin atriði, sbr. bls. 9 í ákvörðuninni.

Í kafla um eðli og staðsetningar framkvæmdar í matsskylduákvörðuninni segi m.a. að dreifing og álag vegna úrgangs frá eldi komi til með að ná yfir stærra svæði en gert hafi verið ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum, en þar sem ekki sé reiknað með auknum lífmassa og magn úrgangs því óbreytt sé ólíklegt að stækkunin feli í sér önnur eða meiri umhverfisáhrif en núverandi fyrirkomulag. Þá segi í sama kafla að ekki sé víst að 90 daga hvíldartími sé nægilegur í öllum tilvikum. Framkvæmdaraðili muni taka botnsýni á eldissvæðum áður en eldi hefjist, við hámarkslífmassa og eftir að hvíld svæðis sé yfirstaðin. Framkvæmdaaðilar hafi lagt fram aðgerðaráætlun sem segi til um aðgerðir sem grípa skuli til ef niðurstöður vöktunar gefi tilefni til. Að mati stofnunarinnar sé mikilvægt að hvíld eldissvæða sé stýrt af raunástandi botndýralífs. Fyrirhuguð vöktun og mögulegar aðgerðir sem hægt sé að grípa til, ef reynist þörf á, séu til þess fallnar að tryggja að notkun eldissvæða taki mið af ástandi botns. Loks sé nefnt í umræddum kafla að í ljósi umsagnar Hafrannsóknastofnunar sé æskilegt að eldissvæðið verði hvílt í að lágmarki sex mánuði eftir fyrstu slátrun. Jafnframt telji stofnunin mikilvægt að ákvarðanir um útsetningu á svæðinu taki mið af súrefnisstyrk í botnlagi og að í starfsleyfi séu ákvæði um vöktun súrefnisstyrks í botnlagi.

Í matsskylduákvörðuninni sé þeirri afstöðu Skipulagsstofnunar lýst að áhrif á aðra umhverfis­þætti, s.s. siglingar og ásýnd, verði minni háttar. Við færslu og stækkun á eldissvæðum muni áhrif á landslag og ásýnd færast til en verði sambærileg því sem áður hafi verið. Málsmeðferð á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/0200 felist í því að meta hvort framkvæmd geti haft umtalsverð umhverfisáhrif en umfjöllun í matsskylduákvörðun sé ekki ætlað að vera tæmandi upptalning og lýsing á mögulegum áhrifum framkvæmdar. Líkt og komi fram í áliti Skipulagsstofnunar frá 23. september 2016, um aukna framleiðslu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði um 14.500 tonn, sé eldi í sjókvíum starfrækt eða fyrirhugað í flestum fjörðum Vestfjarða. Með þessu fyrirkomulagi muni eldismannvirki víða blasa við vegfarendum og útivistarfólki og ásýnd fjarðanna og upplifun ferðalanga muni því breytast til hins verra frá því sem áður hafi verið. Að lokum sé bent á að stækkað eldissvæði leiði ekki til aukins eldis í firðinum eða að stærra svæði fari undir eldismannvirki. Stærra eldissvæði hafi það í för með sér að rekstraraðili geti valið eldiskvíum sínum stað innan stærra svæðis. Umfang eldis verði óbreytt. Eðli málsins samkvæmt geti staðsetning kvía þó haft áhrif á kajaksiglingar þó svo kvíar komi ekki í veg fyrir kajakróður.

Athugasemdir framkvæmdaraðilans Arctic Sea Farm ehf: Framkvæmdaraðili bendir á sú breyting sem hin kærða ákvörðun lúti að feli hvorki í sér aukningu á framleiðslu eða lífrænum úrgangi frá starfseminni. Meiri dreifing á eldismagni sé til þess fallið að minnka möguleg umhverfisáhrif eldisins og auka á velferð fiskanna. Af því leiði að breytingin hafi afar takmörkuð umhverfisáhrif. Skipulagsstofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu breytt svæði og fjölgun kvía sé ólíklegt til að hafa aukin áhrif á villta laxfiska m.t.t. sjúkdóma, sníkjudýra eða erfðablöndunar þar sem engin aukning á lífmassa eigi sér stað. Þá hafi framkvæmdin ekki verið talin hafa áhrif á siglingaleiðir með vísan til athugasemda Landhelgisgæslunnar. Skipulagsstofnun hafi hins vegar talið að stytting á hvíldartíma kynni að hafa neikvæð áhrif en bent á að Matvælastofnun gæti gert kröfu um aukinn hvíldartíma ef þurfa þyki. Jafnframt hafi Skipulagsstofnun talið ólíklegt að breyting á hvíldartíma og staðsetningu kæmi til með að auka hættu á slysasleppingum eða auka álag á villta laxfiska. Áhrif á siglingar, fugla og ásýnd hafi verið talin minni háttar þar sem áhrifin yrðu sambærileg við það sem áður hafi verið þó þau kynni að færast til. Skipulagsstofnun hafi því lagt mat á áhrif breyttrar framkvæmdar að fengnum athugasemdum fagstofnana.

Það sé vel þekkt hvernig lífrænar agnir dreifast frá eldiskvíum í sjó. Á Íslandi hafi einnig verið gerðar setrannsóknir til að rannsaka magn lífræns efnis sem falli til botns í mismikilli fjarlægð frá kvíum, bæði í meginstraumstefnu frá þeim sem og á móti meginstraumstefnu. Mat á umhverfisáhrifum hafi meðal annars verið byggt á þessum og öðrum rannsóknum þar sem dreifing lífrænna efna og stærð áhrifasvæðis ákvarðist að hafstraumum sem og sjávardýpi. Í fyrrnefndum rannsóknum og ISO-stöðlum hafi verið skilgreind áhrifasvæði í kringum sjókvíar. Áhrifasvæði samkvæmt þessum skilgreiningum sé sá hluti vatnssúlu og sjávarbotns þar sem lífræn efni botnfalla og hafa áhrif á botndýralíf. Eftir þessari hugmyndarfræði vinni framkvæmdaraðili, enda séu það skilyrði sem sett séu í ASC-staðlinum sem fyrirtækið hafi starfað eftir frá árinu 2016. Áhrifasvæði umhverfis eldiskvíar séu mismunandi stór og skipti sjávarstraumar og dýpi mestu máli. Algengt sé að áhrifasvæði nái 40–100 m út fyrir ystu brún eldiskvía en mest uppsöfnun lífræns efnis sé beint undir eldiskvíum. Við eldi hverrar kynslóðar fari fram tvær ítarlegar botnsýnarannsóknir þar sem gengið sé úr skugga um að lífrænt álag og dreifing lífræns efnis sé í samræmi við áðurnefnda staðla. Með rannsóknum á setgildrum hafi aukinheldur verið staðfest að yfir helmingur af botnfalli, þ.e. lífræn efni frá eldinu, falli til botns innan við 25 m frá kvíum í meginstraumsstefnu.

Straummælingar fari ávallt fram áður en eldi hefjist, enda þurfi að gæta þess að straumur sé góður til að fá góð sjóskipti í kvíum. Góð sjóskipti séu mikilvæg til að sjá eldisfiski fyrir nægjanlegu súrefni og viðhalda sjógæðum í eldiskvíum. Sjávarstraumar eigi einnig þátt í niðurbroti á botnfalli ásamt botndýralífi. Straummælingar hafi farið fram í tengslum við mat á umhverfisáhrifum en einnig hafi verið stuðst við eldri mælingar Hafrannsóknastofnunar. Á grundvelli ítarlegra rannsókna hafi eldissvæðið Kvígindisdalur verið fært til innan fjarðar, m.a. til að tryggja betri straumskilyrði. Þetta hafi verið gert árið 2018 að undangenginni matsskyldufyrirspurn. Venju samkvæmt hafi straumar verið mældir á 5 og 15 m dýpi í námunda við og á nýrri staðsetningu. Ný staðsetning sé utar og nær miðju fjarðarins þar sem mælingar sýni eindregnari straumstefnu og meiri straumhraða samanborið við fyrri staðsetningu. Hluti straumsins fari út fjörðinn eða í norðvestur átt. Þetta hafi einnig verið staðfest með straummælingum þar sem ytri kvíastæða framkvæmdaraðila verði innan Kvígindisdals. Samkvæmt mælingum á straumum liggi sterkur djúpstraumar á 30–50 m dýpi inn fjörðinn að sunnanverðu, þ.e. 90–135°, og út að norðanverðu sem sé í samræmi við dýptarlínur á svæðinu, en eðliseiginleikar efnis á hreyfingu sé að fylgja þeim fyrirstöðum sem straumar verði fyrir. Það séu því ekki beinir sjávarstraumar inn í Gjögrabót eða inn Hafnarvaðalinn þó svo að sjávarfalla gæti þar. Sterkir straumar og lega sjávarbotns sjái til þess að það sem falli frá leiti frekar niður í dýpið austan- og norðanmegin við kvíastæðin. Einnig séu kvíastæði innan Kvígindisdalssvæðisins í meira en 500 m fjarlægð frá stórstraumsfjöru við Örlygshöfn sem sé yfir mörkum þess fjarlægðar sem áhrifa eldis gæta á sjó eða botn. Þá sé bent á að botnsýnatökur hafi gefið góða niðurstöðu hvað varði lífrænt álag á botni sem og hvíldartíma, líkt og komi fram í matsskyldufyrirspurninni er varði hvíldartíma.

Þegar litið sé til annars lífríkis, eins og t.d. æðarvarps, sé það þekkt að þau sem séu í nálægð við eldi verði fyrir áhrifum. Nærtækast sé þá að líta til æðarvarps við Hlaðseyri í Patreksfirði þar sem æðabændur hafi tekið eftir auknu varpi eftir tilkomu eldis þar, en æðarbóndi hafi talið að eldið hefði fælingarmátt á varg eins og komi fram í matsskýrslu framkvæmdaaðila. Jafnframt beri að nefna að það varp hafi verið innan við 500 m frá eldisstöð Arnarlax að Hlaðseyri en meira en 500 m séu í varpið í Örlygshöfn og komandi kvíastæði framkvæmdaraðila, svo ekki sé víst að áhrifa nái að gæta. Þá megi einnig geta að æðavarp í Örlygshöfn sé ekki friðlýst. Í því samhengi sé bent á að þær myndir sem séu í kæru, þar sem allt eldissvæðið sé talið verða til sjónmengunar, sýni ekki raunveruleg sjónræn áhrif kvíanna. Það sé mun minni hluti af sjálfu svæðinu sem sjáist á yfirborði sjávar, en eldissvæðið sjálft skuli innihalda allan búnað, þ.m.t. akkeri sem geti verið í tugi metra frá kvíum og sjáist ekki á yfirborði. Einnig séu kvíar og búnaðar á yfirborði að mestu í dökkum litum auk þess sem ytri kvíaþyrping framkvæmdaraðila muni koma í nær beina röð séð frá Hafnarmúlanum.

Því sé hafnað að framkvæmdaraðili hafi blekkt Skipulagsstofnun og umsagnaraðila með nafngiftum eldissvæðanna. Engar reglur gildi um nafngiftir en þær eigi sér jafnan langa sögu og séu í nánum tengslum við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Ávallt fylgi þó með myndir og hnit á úthornum svæða, eins og gert hafi verið í þeirri matsskyldufyrirspurn sem sent hafi verið til Skipulagsstofnunar. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi tekið næstum því 10 ár en á þeim tíma fleygi tækni fram, þekking aukist og reynsla komist á svæðin sem þegar séu í notkun. Í upphafi mats á umhverfisáhrifum framkvæmdar framkvæmdaraðila í Patreksfirði hafi sú staðsetning sem nefnd hafi verið Kvígindisdalur átt að vera á afmörkuðu svæði út frá Skolladal og út að Kvígindisdal. Úr hafi orðið að staðsetningin hafi verið nefnd Kvígindisdalur. Þegar svæðið hafi verið kannað betur varðandi dýpi, strauma og botngerð hafi komið í ljós að hentugra væri að flytja staðsetninguna aðeins utar og snúa kvíastæðu. Við vinnslu matsskyldufyrirspurnarinnar hafi ekki verið talið heppilegt að skipta um nafn þar sem mat á umhverfisáhrifum hafi þá þegar farið fram þar sem að framkvæmdin hafi verið nefnd Kvígindisdalur og unnið eftir því heiti. Leggja beri hnitsetta staðsetningu til grundvallar enda sé slík tilgreining nákvæmust, en allt að einu hafi stæðið verið auðkennt með nafni, hnitum og myndum. Sérfræðingar sem komi að stjórnsýslu eldismála líti til landakorta og hnitasetninga til að átta sig á staðsetningu eldissvæða, en ekki til örnefna sem eldissvæðum í sjó séu gefin. Því sé hvorki um blekkingu né misskilning að ræða í máli þessu.

Ljóst sé að umsagnarbeiðnir Skipulagsstofnunar og umsagnir álitsgjafa uppfylli öll form- og efnisskilyrði stjórnsýsluréttar. Í því sambandi skuli áréttað að umsagnir skv. þágildandi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 séu ekki lögbundnar að því leyti að ekki sé tiltekið í ákvæðinu til hvaða stjórnvalda skuli leitað umsagna, einungis að það fari eftir eðli máls hverju sinni. Þá feli slíkar umsagnir ekki í sér bindandi umsögn við málsmeðferðina. Jafnvel þó einhverjir smávægilegir annmarkar séu á umsögnunum þá geti þeir ekki leitt til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar, enda þurfi slíkur ágalli að vera verulegur og fela um leið í sér alvarlegan efnisannmarka á sjálfri stjórnvaldsákvörðuninni.

 Athugasemdir framkvæmdaraðilans Arnarlax ehf: Framkvæmdaraðili telur kæranda skorta lögvarða hagsmuni. Ekkert bendi til þess að hin kærða ákvörðun hafi áhrif á réttindi eða skyldur kæranda umfram aðra. Sérstaklega eigi þetta við um þann hluta ákvörðunar Skipulagsstofnunar sem lúti að starfsemi framkvæmdaraðilans Arnarlax ehf. þar sem eldisstarfsemi fyrirtækisins í Patreksfirði liggi norðan megin í firðinum á meðan landeignir kæranda séu sunnan megin. Það sé óumdeilt að starfsemin fari hvorki fram á landi kæranda né á landi sem liggi upp að þeim svæðum þar sem fyrirtækið stundi fiskeldi. Þar að auki sé útilokað að starfsemin geti á annan hátt haft áhrif á hagsmuni kæranda og réttindi umfram aðra, en hvorki sjáist í eldiskvíar fyrirtækisins né heyrist í starfseminni frá landaeignum kæranda. Þá bendi ekkert til þess að eldissvæðin hafi „lífræn áhrif“ á landaeignir kæranda. Hann hafi heldur ekki verið aðili að stjórnsýslumáli Skipulagsstofnunar, sem endurspeglist meðal annars í því að kærandi hafi ekki átt lögbundinn andmæla- eða umsagnarrétt við meðferð stofnunarinnar. Fallist úrskurðarnefndin á sjónarmið kæranda geti það þó eingöngu haft áhrif á ákvörðun Skipulagsstofnunar að því leyti sem hún varði Arctic Sea Farm ehf. en ekki Arnarlax.

Því sé hafnað að Skipulagsstofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins. Fyrir liggi í máli þessu ítarlegar og vandaðar tilkynningar framkvæmdaaðila til Skipulagsstofnunar frá því í október 2020 og maí 2021. Þar að auki sé Skipulagsstofnun vel kunnug aðstæðum og staðháttum í Patreksfirði og Tálknafirði, sem og starfsemi fyrirtækjanna, enda liggi fyrir matsskýrsla hinnar upphaflegu framkvæmdar frá 2016, sem Skipulagsstofnun hafi tekið afstöðu til, og mat á umhverfisáhrifum valkosta eldisins frá 2019.

Þau sveitarfélög og stofnanir sem Skipulagsstofnun hafi leitað til við meðferð málsins séu sérfróðir aðilar sem búi yfir reynslu, þekkingu og upplýsingum til að meta breytingarnar sjálfstætt út frá þeim hagsmunum sem þeim beri að fara eftir. Umsagnaraðilarnir hafi, rétt eins og Skipulagsstofnun, áður tekið afstöðu til starfsemi fyrirtækjanna í Patreksfirði og Tálknafirði, svo sem í tengslum við mat á umhverfisáhrifum og útgáfu núgildandi starfsleyfa. Þeir séu því allir mjög vel kunnugir staðháttum og starfsemi fyrirtækjanna. Þar að auki bendi ekki til þess að þeir hafi ekki sinnt lögboðnum skyldum sínum, eins og kærandi haldi fram. Bent sé á að umsagnirnar séu ekki stjórnvaldsákvarðanir í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því gildi málsmeðferðarreglur þeirra laga ekki við meðferð þeirra. Þær séu heldur ekki lögbundnar í þeim skilningi að 3. mgr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, tilgreini ekki til hvaða stjórnvalda skuli leitað heldur fari það eftir eðli máls hverju sinni. Af þessu leiði að hugsanlegir annmarkar á málsmeðferð umsagnaraðila geti ekki leitt til ógildingar ákvörðunar Skipulagsstofnunar.

Líkt og fram komi í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 3/2020, uppkveðnum 1. júlí 2020, sé ekki ætlast til þess að í ákvörðun um matsskyldu, vegna breytingar á framkvæmd sem hafi undirgengist mat á umhverfisáhrifum, séu metin að nýju umhverfisáhrif hinnar upprunalegu framkvæmdar heldur einskorðist ákvörðunin við þau áhrif sem breytingin geti kallað fram. Sé talið líklegt að þau verði umtalsverð skuli mat fara fram á þeim áhrifum eingöngu en ekki áhrifum heildarframkvæmdarinnar. Reynsla af upprunalegu framkvæmdinni, vöktun og mótvægisaðgerðum vegna hennar kunni hins vegar að gefa vísbendingu um hvaða þætti breytingin geti haft áhrif á og þá hverjar áherslur ættu að vera í tilkynningu framkvæmdaraðila til ákvörðunar um matsskyldu, málsmeðferð Skipulagsstofnunar og matsskylduákvörðun.

Að öllu virtu sé ljóst að Skipulagsstofnun hafi lagt mat á þá þætti sem mestu máli hafi skipt um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni, svo sem hún var kynnt, og hafi stofnunin tekið tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka nefndra laga við það mat. Stofnunin hafi aflað umsagna sem hluta af rannsókn málsins á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga, fengið fram frekari sjónarmið umsagnaraðila og að lokum lagt sjálfstætt mat á það hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Þá liggi einnig fyrir að Skipulagsstofnun hafi tekið mið af vöktun, mótvægisaðgerðum og viðbragðsáætlun framkvæmdaraðila vegna starfseminnar sem hafi tekið frekari breytingum á meðan málsmeðferð stofnunarinnar hafi staðið yfir. Rannsókn málsins hafi því verið fullnægjandi og hafi stofnunin fært viðhlítandi rök fyrir þeirri niðurstöðu að breytingin væri ekki líkleg til að valda svo umtalsverðum umhverfisáhrifum að mat á þeim þyrfti að fara fram.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að fullyrðing framkvæmdaraðilans Arnarlax ehf. um að hin kærða ákvörðun hafi ekki áhrif á réttindi og skyldur kæranda umfram aðra hafi eingöngu lotið að þeim hluta ákvörðunarinnar sem varði það fyrirtæki, þ.e. fyrirhuguðu eldissvæði við Vatneyri, en engar röksemdir hafi fylgt fullyrðingunni varðandi fyrirhugað eldissvæði framkvæmdaraðilans Arctic Sea Farm ehf. Kæruaðild fari eftir 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en meginreglan sé sú að þeir einir sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Í fjölda tilvika hafi nefndin vísað til þess að ákvæðið beri að skýra samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum og málum beri ekki að vísa frá nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir hagsmuni kærenda að fá leyst úr ágreiningi. Í máli nr. 3/2020 hafi nefndin talið þrjá landeigendur í Arnarfirði eiga kæruaðild að ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breyting á hvíldartíma eldissvæða í Arnarfirði skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en niðurstaðan hafi byggt á þeim rökum að vegna nándar við eldissvæðin væri ekki hægt að útiloka að kærendur gætu átt lögvarða hagsmuni af því metin yrðu umhverfisáhrif breytingar á hvíldartíma svæðanna. Einnig sé vísað til úrskurða í kærumálum nr. 107 og 111/2020, 17/2021 og 3/2018.

Í umsögn Skipulagsstofnunar sé réttilega bent á að hin kærða matsskylduákvörðun stofnunarinnar hafi byggt á þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum þar sem stofnunin hafi nýtt sér heimild 3. tl. bráðabirgðaákvæði núgildandi laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana til að ljúka málsmeðferðinni á grundvelli eldri laga. Í kæru hafi verið vísað til ákvæða laga nr. 111/2021 en það hafi ekki áhrif á kærugrundvöllinn þar sem samsvarandi ákvæði eldri laga séu að mestu samhljóða nýju lögunum. Þó megi líta til þess að samkvæmt lögum nr. 111/2021 skulu tilkynningarskyldar framkvæmdir háðar umhverfismati „þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér veruleg umhverfisáhrif“, sbr. 1. mgr. 19. gr. laganna, en samkvæmt lögum nr. 106/2000 skyldu slíkar framkvæmdir háðar mati á umhverfisáhrifum „þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif“, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Samkvæmt orðanna hljóðan skuli því vafi um umhverfisáhrif framkvæmda frekar túlkað umhverfinu í vil þegar málsmeðferð fer fram á grundvelli eldri laganna og geti framkvæmd haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif skuli hún háð mati á umhverfisáhrifum.

Því sé fagnað að Skipulagsstofnun viðurkenni þann annmarka á hinni kærðu ákvörðun að hvorki í greinargerð framkvæmdaaðila né við meðferð Skipulagsstofnunar á málinu hafi verið getið um hin vernduðu vistkerfi á Örlygshafnarsvæðinu. Í annmarkanum felist að með öllu sé litið fram hjá mögulega áhrifum sjókvíaeldis við umrætt svæði. Sé því bersýnilega um verulegan annmarka að ræða sem leggi skýrlega til ógildingu ákvörðunarinnar. Sú afstaða stofnunarinnar að annmarkinn hafi ekki haft áhrif á niðurstöðuna sé ekki studd viðhlítandi rökum.

Umsögn álitsgjafa teljist ekki ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Álitsumleitan sé liður í undirbúningi máls og eigi að stuðla að því að mál verði nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Það sé því forsenda þess að þessi liður málsmeðferðar komi að tilætluðum notum að álitsgjafi byggi umsögn sína á nægilega traustum grunni. Hin óskráða meginregla um rannsóknarskyldu hvíli því á stjórnvaldi sem veiti umsögn í stjórnsýslumáli. Því sé mótmælt að ekkert sé gert úr þeirri vanrækslu Vesturbyggðar að bera umsögn sveitarfélagsins ekki undir þá nefnd sem fer með mál náttúruverndar, en sú nefnd hefði verið líkleg til að koma auga á snertiflöt fyrirhugaðrar framkvæmdar við vernduð vistkerfi Örlygshafnarsvæðisins. Það að Skipulagsstofnun viðurkenni að vanrækt hafi verið að líta til þessara vernduðu hagsmuna en telji á sama tíma umfjöllun málsins í náttúruverndarnefnd með öllu óþarfa feli í sér þversögn. Þá hafi stofnunin ekki að nokkru leyti svarað þeirri gagnrýni kæranda að umsagnarbeiðni hennar hafi stýrt athygli Náttúrufræðistofnunar Íslands frá hinu verndaða Örlygshafnarsvæði.

Í umsögn sinni geri Skipulagsstofnun enga tilraun til að svara þeim sjónarmiðum kæranda að úrgangur úr eldinu utan Hafnarvaðals kunni að berast með sjávarstraumum inn á viðkvæmt verndað svæðis og valda skaða, að æðarvarp kæranda kunni að verða fyrir búsifjum og að engar rannsóknir séu til sem séu til þess fallnar að meta áhrif sjókvíaeldis svo nærri lífríki hins sérstæða landsvæðis.

Skipulagsstofnun telji að færsla og stækkun eldissvæðanna leiði til þess að áhrif á ásýnd og landslag færist til en verði sambærileg eftir sem áður, en engar frekari röksemdir séu að baki þeirri fullyrðingu. Engin skoðun hafi farið fram á sjónrænum og hljóðrænum áhrifum fyrirhugaðrar breytingar gagnvart Örlygshafnarsvæðinu og ekkert mat hafi farið fram á því hvort breytingin geti haft í för með sér veruleg umhverfisáhrif af því tagi. Óljóst sé í hvaða tilgangi Skipulagsstofnun hafi vísað til þess sem fram hafi komið í áliti stofnunarinnar frá 23. september 2016 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda framkvæmdaaðila um að eldi í sjókvíum væri fyrirhugað í flestum fjörðum Vestfjarða og muni eldismannvirki því blasa við vegfarendum og útivistarfólki þegar horft væri til flestra fjarða.

Vegna umfjöllunar framkvæmdaraðilans Arctic Sea Farm ehf.um gögn og ályktanir sem ekki hafi legið til grundvallar hinni kærðu ákvörðun sé bent á að sú umfjöllun sé álitaefninu óviðkomandi. Ákvörðun stjórnvalds verði ekki talin réttmæt með seinna til komnum gögnum sem hagsmunaaðilar leggi fram í umsögn og ályktunum þess þegar stjórnvaldið sjálft hafi aldrei metið þau tilteknu gögn. Að því sögðu þá segi þau gögn og ályktanir, sem framkvæmdaraðilinn leggi fram í umfjöllun sinni, ekkert til um það hvort sjókvíaeldi á þúsundum tonna við mynni Örlygshafnar geti haft umtalsverð umhverfisáhrif á lífríkið, ásýnd eða aðra þætti samfélagsins á svæðinu. Fullyrðing um að ekki falli sjávarstraumar inn Hafnarvaðal þó sjávarfalla gæti þar sé gott dæmi um hversu stoðlausar röksemdir í þessum hluta athugasemdanna séu. Það að lagt hafi verið „mat á fuglalíf, annað dýralíf og önnur mögulega áhrif eldisins á umhverfið í umhverfismati fyrirtækjanna“ vísi ekki til neins sem tengist mati á áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar á lífríki eða samfélag Örlygshafnarsvæðisins. Jákvæð umfjöllun um áhrif sjókvíaeldis á æðarvarp á Hlaðseyri vísi bæði til allt annarra landfræðilegra aðstæðna auk þess að byggja ekki á neinum vísindalegum gögnum eða skráðum gögnum yfir höfuð. Sögusögn æðarbónda á Hlaðseyri um aukið varp eftir tilkomu sjókvíaeldis sé marklaus vegna þeirrar staðreyndar að bóndinn eigi í viðskiptasambandi við eldisfyrirtæki og þiggi leigutekjur af landi hans undir fóðurstöð framkvæmdaraðila.

Vegna umsagnar Vesturbyggðar sé bent á að umsagnaraðilar þurfi að uppfylla almenn hæfisskilyrði og sérstakar hæfisreglur stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Þeir starfsmenn sem komi að málsmeðferðinni við gerð umsagnar megi því ekki hafa nein þau tengsl við málið sem séu til þess fallin að draga óhlutdrægni þeirra í efa með réttu, sbr. 6 tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Eðlilegt fyrst skref hjá sveitarfélaginu hefði verið að bera álitaefnið undir náttúruverndarnefnd eða hverja þá nefnd sem fari með málefni náttúruverndarnefndar. Sú nefnd hefði uppfyllt skilyrði um almennt hæfi. Eðli málsins samkvæmt hefði svo verið eðlilegt næsta skref að afla sjónarmiða þeirra aðila sem fyrirhuguð framkvæmd komi til með að hafa mest áhrif á og þekkingu hefðu á þeim svæðum. Þessi skref hefðu verið nauðsynleg svo málsmeðferð við ritun umsagnarinnar gæti byggst á viðhlítandi rannsókn. Hvorugt hafi verið gert. Þess í stað hafi forsvarsmenn framkvæmdaraðila komið á fund hafna- og atvinnumálaráðs 2. desember 2020 og kynnt áform um breytingu á eldissvæðum. Ráðið hafi samþykkt að fela hafnarstjóra að skila inn umsögn um breytingu í samræmi við umræðu á fundinum og í samráði við bæjarstjóra. Matsbeiðnin hafi næst verið tekin fyrir á fundi bæjarráðs Vesturbyggðar 17. s.m. þar sem bókað hafi verið um að ekki væri gerð athugasemd við breytingu á eldissvæðum í Patreksfirði og Tálknafirði og ítrekað mikilvægi þess að litið yrði til siglingaleiða við nánari staðsetningu eldissvæðanna. Einnig hafi verið ítrekað mikilvægi þess að við vinnslu strandsvæðaskipulags fyrir Vestfirði væri litið til skipulags og staðsetningu eldiskvíasvæða sem og að hugað yrði að því að tryggja aðliggjandi sveitarfélögunum skýra tekjustofna af eldismannvirkjum. Nefndarmenn á fundinum hafi m.a. verið Iða Marsibil Jónsdóttir, en hún hafi á þeim tíma verið skrifstofustjóri hjá Arnarlaxi. Bæjarstjóri Vesturbyggðar hafi svo sent Skipulagsstofnun umsögn sveitarfélagsins sem hafi eingöngu innihaldið bókun fundarins.

Framangreind málsmeðferð feli í sér að umsögn Vesturbyggðar hafi ekki verið byggð á viðhlítandi grundvelli. Hvorki hafi verið leitað álits þeirra aðila innan stjórnkerfisins sem telji megi uppfylla einna skýrast áskilnað um almennt hæfi né hafi verið gætt að jafnræði þeirra aðila sem málið snerti. Út úr þessu hafi svo komið umsögn sem endurspegli skýrlega áherslur þeirra sem að málinu komi, þ.e. engar athugasemdir en að tryggja þurfi tekjustofna sveitarfélaganna af eldismannvirkjum. Umfjöllun um tekjustofna hafi ekkert með matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar að gera. Að því virtu hafi stórkostlegir meinbugir verið á umsögn Vesturbyggðar og sé hún marklaus með öllu.

Í vi-lið 1. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000 sé tilgreint að við matsskylduákvörðun skuli líta til eðli framkvæmdar með tilliti til hættu á stórslysum. Þegar ákvörðun hafi verið tekin um núverandi staðsetningu sjókvíaeldis framkvæmdaaðila í Patreksfirði hafi legið fyrir öldufarsútreikningar siglingasviðs Vegagerðarinnar. Á grundvelli þeirra útreikninga hafi verið tekin ákvörðun um að falla frá áformum um áður afmarkað eldissvæði kennt við Hlíðardal þar sem ölduhæð hafi þótt of mikil. Ráðlagt hafi þótt að hafa eldissvæðin innarlega í fjörðunum þar sem þau svæði væru varin fyrir verstu veðrum og í skjóli fyrir norðlægum vindáttum. Ráðgert sé að fyrirhugað eldissvæði Arnarlax, kennt við Vatneyri, verði staðsett utar í firðinum, nær miðju fjarðarins og enn nær Vatneyri en svæðið sem kennt hafi verið við Hlíðardal árið 2016. Fyrirhugað eldissvæði Arctic Sea Farm í mynni Örlygshafnar verði einnig staðsett á svæði þar sem verulegrar haföldu gæti í norð- og norðvestlægum vindáttum. Bæði svæðin séu því fyrirhuguð á svæðum sem árið 2016 hafi þótt ónothæf til sjókvíaeldis vegna ölduhæðar. Engin gögn, rannsóknir eða álit liggi fyrir sem gefi til kynna að það mat hafi verið rangt. Þessi þáttur hafi enga skoðun fengið við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Ekki sé langt síðan stór og öflugur prammi hafi sokkið vegna óveðurs í Reyðarfirði. Arctic Sea Farm hafi í Patreksfirði notast við pramma af gerðinni AC450 en hann beri 450 tonn af fóðri, 30 tonn af díeslolíu og samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda sé hann hannaður til að þola 3,5 m ölduhæð. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi framkvæmdaaðilar í hyggju að koma þessum búnaði fyrir á hafsvæði þar sem búast megi við ölduhæð sem nái fast að 5 m hæð. Fyrirliggjandi gögn vanmeti ölduhæð sem vænta megi á þessum svæðum og í raun megi því búast við talsvert hærri öldu í verstu norðan og norðvestan óveðrum. Þrátt fyrir að rík ástæða sé til hafi ekkert mat farið fram á því hvort fyrirhugaðar staðsetningar eldiskvía leiði til óásættanlegrar hættu á stórslysi ef eldiskvíar láti undan óveðrum og stórir díselprammar slitni frá og reki á land með tilheyrandi mengunaráhrifum. Í þessu felist verulegur annmarki á rannsókn Skipulagsstofnunar.

Byggt sé á því að fyrirhugaðar framkvæmdir hafi verið þess eðlis að ekki væri um breytingar að ræða heldur í raun umsóknir um ný eldissvæði. Forsenda þess að Skipulagsstofnun hefði getað tekið matsskylduákvörðun til meðferðar væri sú að fyrir lægi úthlutun nýrra eldissvæða við Tálkna og Örlygshöfn. Slík úthlutun hafi ekki legið fyrir og þar af leiðandi hafi Skipulagsstofnun farið út fyrir valdmörk sín með því að taka málið til meðferðar. Ákvörðunin sé því haldin verulegum annmarka vegna valdþurrðar Skipulagsstofnunar.

Um skiptingu hafsvæða í eldissvæði og auglýsingu og úthlutun þeirra sé fjallað í 4. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Í 1. mgr. lagagreinarinnar sé Hafrannsóknastofnun falið að ákveða skiptingu fjarða í eldissvæði að viðhafðri nánari tilgreindri málsmeðferð. Ráðherra sé svo falið að úthluta eldissvæðum á grundvelli útboðs sem auglýsa skuli opinberlega, sbr. 2. og 3. mgr. greinarinnar og reglugerð nr. 558/2020 um útboð eldissvæða. Þegar tilkynningar framkvæmdaaðila séu skoðaðar sé skýrt að fyrirhugaðar framkvæmdir feli í sér að ný eldissvæði verði tekin í notkun á svæðum sem séu fjarri núverandi eldissvæðum. Arnarlax hafi sótt um þá „breytingu“ að eldissvæði félagsins við Hlaðseyri verði „fært“ að Vatnaeyri, þ.e. Tálkna. Þær náttúrulegu aðstæður sem séu við líði á Tálknasvæðinu séu allt öðruvísi og hin mikla fjarlægð milli eldissvæðisins við Hlaðseyri og fyrirhugaðs svæðis við Tálkna, um 13 km, útiloki að um sé að ræða breytingu á Hlaðseyrarsvæðinu. Þessi tillaga Arnarlax feli í sér de facto fyrirætlun um að leggja niður eldi á þegar úthlutuðu svæði, Hlaðseyri, og taka upp eldi á nýju svæði í verulegri fjarlægð og við allt aðrar aðstæður á svæði sem félagið sjálft hafi áður metið óhæft til sjókvíaeldis.

Arctic Sea Farm hafi upphafleg sótt um stækkun svæðisins við Kvígindisdal og nýtt svæði, þ.e. „viðbótarstaðsetningu“ við Tungurif sem kennt sé við Háanes í 3 km fjarlægð. Skipulagsstofnun hafi bent á að úthlutun nýs eldissvæðis væri utan valdmarka stofnunarinnar, en hafi talið sér heimilt að taka til matsskylduákvörðunar tillögu um stækkun svæðisins sem næði yfir bæði svæðin. Í kjölfarið hafi framkvæmdaaðili sótt um eina stækkun á eldissvæðinu við Kvígindisdal sem nái til beggja svæða og alls særýmisins þar á milli, samtals um 4 km langt. Í athugasemdum framkvæmdaraðilans í kærumáli þessi segi um þá stækkun: „svæðið milli áætlaðra kvíastæða er of grunnt til að hægt sé að setja þar eldiskvíar. Er breytingin því eingöngu til þess fallin að koma auka kvíum fyrir og það á sama stað og ef um auka eldissvæði væri að ræða.“ Af þessu megi skýrlega ráða að umsókn fyrirtækisins um gríðarmikla stækkun á eldissvæði, þegar ófært hafi verið að óska eftir nýju svæði, hafi verið de facto umsókn um stækkun á fyrra svæði og umsókn um nýtt eldissvæði sem ávallt yrðu aðskilin innbyrðis af grynningum sem geri særýmið milli svæðanna ótækt til fiskiræktar. Framagreindar áætlanir rúmist ekki innan þess að vera breyting á núverandi eldissvæðum heldur feli í sér að tekin verði í gagnið ný og áður óúthlutuð eldissvæði við Tálkna og Örlygshöfn. Skipulagsstofnun hafi ekki verið bært til að taka slíka tillögu til meðferðar um matsskyldu. Stofnunin hafi því farið út fyrir valdmörk sín og brotið gegn almennri efnisreglu stjórnsýsluréttarins um misbeitingu valds við val á leiðum til úrlausnar máls sem hafi þær skýru afleiðingar að ákvörðunin hafi verið haldin verulegum annmarka. Ákvörðun stofnunarinnar sé þegar af þessari ástæðu ógildanleg.

Þá sé bent á að tvö fyrirtæki sem staðsett séu í Örlygshöfn geri út krókabáta á strandveiðum og nýti hafnaraðstöðu að Gjögrum þegar henti, m.a. við að sjósetja og taka upp báta sína við upphaf og enda vertíðar. Strandveiðibátar nýti reglulega hið fyrirhugaða kvíastæði til krókaveiða þegar veður leyfi ekki annað, en Strandveiðifélagið Krókur hafi ekki verið beðið um álit sitt á hinni umræddu framkvæmd. Sama eigi við um aðra aðila sem nýti svæðið til veiða, ferðaþjónustu eða almennra siglinga. Heimsóknir léttbáta skemmtiferðaskipa á bryggjuna hafi aukist en fyrirhugað kvíarstæði loki fyrir siglingu þeirra báta, en þá skapist mikil hætta af því að bátar freisti þess að sigla vestur fyrir kvíarnar út í vafasamara sjólag. Einnig sé bryggjan öryggisþáttur fyrir fólk og starfsemi í Örlygshöfn. Nýlega hafi orðið alvarleg bilun í dreifikerfi Orkubús Vestfjarða á Hvammsholti í Örlygshöfn en vegna veðurs hafi vegir til Örlygshafnar verið lokaðir og engin önnur leið fær en sjóleiðin.

Úrskurðarnefndinni sé sú eina leið fær að ógilda hin kærðu matsskylduákvörðun. Önnur niðurstaða feli í sér blessun yfir að tugþúsunda tonna sjókvíaeldi sé úthlutum nýjum eldissvæðum þrátt fyrir valdþurrð og án viðhlítandi málsmeðferðar, bersýnilegir hagsmunir sem lögbundið sé að líta skuli til séu algerlega hundsaðir við málsmeðferðina og hagsmunir náttúrunnar og íbúa Örlygshafnar og alls Patreksfjarðar séu látnir bera hallann af hættu á mengun lífríkisins vegna fyrirsjáanlegs úrgangs og hættu á stórkostlegu mengunartjóni. Einnig fæli slík niðurstaða í sér blessun yfir að neikvæð hljóð- og ásýndaráhrif hafi enga þýðingu í málum sem þessum. Ríkar vonir séu bundnar við að umhverfið verði í máli þessu látið njóta vafans.

Viðbótarathugasemdir Skipulagsstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er bent á að náttúruverndarnefndir skuli vera sveitarstjórnum til ráðgjafar og því geti það ekki haft efnisleg áhrif á niðurstöðu málsins þótt Vesturbyggð hafi ekki leitað til þeirrar nefndar. Einnig sé bent á að Skipulagsstofnun hafi talið annmarka vera á málsmeðferðinni en ekki verulegan annmarka eins og vísað sé til í athugasemdum kæranda. Þá sé lögð áhersla á að Vesturbyggð hafi verið umsagnaraðili í málinu en ekki það stjórnvald sem hafi tekið hina kærðu ákvörðun. Sú meginregla gildi að aðilar máls eigi ekki sjálfstæðan rétt til þess að tjá sig um efni máls hjá álitsgjafa áður en umsögn sé veitt, en af því leiði að sveitarfélaginu hafi ekki verið skylt að kynna landeigendum og ábúendum hina fyrirhuguðu framkvæmd og gefa þeim kost á að tjá sig.

Skipulagsstofnun hafi litið til sjónarmiða um hættu á stórslysum, sem vikið sé að í vi-lið 2. viðauka þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Með hliðsjón af framlögðum gögnum málsins, þ. á m. efni umsagnar Matvælastofnunar sem fari með eftirlit með fiskeldi samkvæmt samnefndum lögum nr. 71/2008, hafi Skipulagsstofnun talið að atvik málsins hafi verið með þeim hætti að umræddur liður hefði ekki mikla þýðingu í málinu. Bent sé á að ríkar kröfur séu gerðar til eldisbúnaðar og að búnaður taki mið af staðsetningu. Fjallað sé um kröfur til eldisbúnaðar í VI. kafla reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi. Þar komi m.a. fram að framkvæma skuli staðarúttekt áður en sjókvíaeldisstöð sé færð á legustað, að búnaður uppfylli kröfur staðalsins NS 9415:2009 og að meginhlutir þoli það umhverfisálag sem sé á legustað, sbr. 26., 28. og 30. gr. reglugerðarinnar. Allar sjókvíaeldisstöðvar skuli hafa stöðvarskírteini útgefið af faggiltri skoðunarstofu, sbr. 30. gr. Áður en rekstrarleyfi taki gildi skuli Matvælastofnun svo gera úttekt á fiskeldisstöð til að sannreyna að fiskeldisstöðin uppfylli ákvæði laga og reglugerð, sbr. 23. gr. umræddrar reglugerðar. Þá sé bent á að gögn málsins gefi ekki til kynna eða renni stoðum undir þá staðhæfingu kæranda að eldiskvíar og fóðurprammar eldisfyrirtækjanna ráði ekki við þá ölduhæð sem sé á hinum fyrirhuguðu svæðum.

Hljóðmengun, sem kunni að leiða af vélaskellum í stórum díselvélum, geti ekki falið í sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga nr. 106/2000. Umsagnaraðilar hafi ekki sérstaklega vikið að hljóðmengun í sínum umsögnum. Varðandi ásýndaráhrif telji Skipulagsstofnun, í ljósi skilgreiningar á umtalsverðum umhverfisáhrifum, að ekki verði um að ræða umtalsverð ásýndaráhrif vegna færslu eldiskvíanna. Framlagðar myndir kæranda breyti ekki þeirri afstöðustofnunarinnar.

Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 25. mars 2021 í máli nr. 116/2020 hafi verið bent á að þótt ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd væri ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar þyrfti að liggja fyrir áður en sótt væri um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar hefði Skipulagsstofnun ekki verið falið sérstakt hlutverk samkvæmt lögum nr. 71/2008, hvorki um meðferð og afgreiðslu umsókn né annað. Hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum nr. 106/200 fælist m.a. í því að synja eða fallast á matsáætlun með eða án athugasemda, sbr. 8. gr. laganna, eða hafna því að taka frummatsskýrslu til meðferðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. þeirra. Þá hafi sagt í úrskurðinum að ekki væri heimild fyrir Skipulagsstofnun að lögum til að afgreiða þar mál sem þar um ræddi með þeim hætti að þau myndu ekki sæta frekari meðferð af hálfu stofnunarinnar og yrði ekki annað séð en að með umburðarbréfi sínu og lagatúlkun hafi stofnunin farið út fyrir valdmörk sín. Með hliðsjón af því er ljóst að Skipulagsstofnun sé ekki heimilt að neita að taka mál framkvæmdaaðila til meðferðar sökum þess að úthlutun eldissvæða hafi ekki legið fyrir. Sé það því ekki rétt hjá kæranda að stofnunin hafi farið út fyrir valdmörk sín.

Vegna athugasemda kæranda um mikilvægi hafnaraðstöðu í Örlygshöfn og að Strandveiðifélagið Krókur hafi ekki verið beðið um álit sitt á umræddri framkvæmd sé vísað til umfjöllunar á bls. 8-9 í matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar. Þá sé það mat stofnunarinnar að málið hafi ekki kallað á að aflað yrði umsagnar hjá framangreindu strandveiðifélagi, en fyrir liggi tvær umsagnir frá Landhelgisgæslunni og ein umsögn frá Vegagerðinni.

Viðbótarathugasemdir framkvæmdaraðilans Arctic Sea Farm ehf: Framkvæmdaraðili bendir á að hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar lúti að hvoru tveggja breyttri staðsetningu eldissvæða og styttingu hvíldartíma milli eldislota. Þrátt fyrir að kæra beinist þar af leiðandi að forminu til að breyttum hvíldartíma séu engar málsástæður, röksemdir eða efnisumfjöllun að finna í kærumálsgögnum um þann hluta hinnar kærðu ákvörðunar. Sæti því niðurstaða Skipulagsstofnunar um breyttan hvíldartíma engri gagnrýni. Framkvæmdaraðili hafi lögvarða hagsmuni af því að fá hvíldartíma núgildandi rekstrarleyfis breytt úr 6 mánuðum í 90 daga. Athygli sé vakin á því að skv. 2. mgr. 46. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi sé 90 daga hvíldartími og þurfi því sérstakar röksemdir til að lengja þann tíma. Frá upphafi hafi verið lögð áhersla á umhverfisvænt og sjálfbært fiskeldi og hafi því verið lagt upp með að hefja eldið á 6 mánaða hvíldartíma. Þekking og reynsla hafi nú skapast og sýni að 90 daga hvíldartími sé nægjanlegur. Það sé óumdeilt að bæði Matvælastofnun og Umhverfisstofnun sé heimilt að lengja aftur hvíldartíma ef umhverfisvöktun bendi til þess að umhverfisaðstæður sé óásættanlegar. Gerð sé sú afdráttarlausa krafa að úrskurðarnefndin greini á milli matsskyldufyrirspurnanna og staðfesti niðurstöðu Skipulagsstofnunar hvað varði mat á breyttum hvíldartíma. Úrskurðarnefndinni sé það heimilt á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þeirra meginreglna stjórnsýsluréttar sem gildi um endurskoðunarvald æðra settra stjórnvalda. Sú krafa byggi m.a. á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.

Vegna þeirrar málsástæðu kæranda er lúti að valdþurrð Skipulagsstofnunar sé bent á að málsmeðferð við útgáfu rekstrarleyfis framkvæmdaraðila í Patreksfirði hafi farið fram á grundvelli ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi eftir gildistöku breytingalaga nr. 101/2019. Í því hafi m.a. falist að hið nýja fyrirkomulag við úthlutun rekstrarleyfa, með skiptingu hafsvæða í eldissvæði, opinberri auglýsingu og úthlutun eldissvæða eftir fram komin tilboð, hafi ekki gilt um útgáfu leyfisins. Af þágildandi 8. gr. laga nr. 71/2008 megi ráða að umsækjanda hafi borið að tilgreina stærð og staðsetningu eldisstöðva í umsókn sinni um rekstrarleyfi.

Allt frá upphafi þess ferils sem hafi miðað að útgáfu rekstrarleyfi í Patreksfirði hafi átt sér stað breytingar og þróun á staðsetningu eldissvæða. Vöktun, rannsóknir og gagnaöflun veiti stöðugt nýjar og betri upplýsingar um áhrif eldisins og sé linnulaust unnið að því að minnka áhrifin eins og kostur sé. Einn afrakstur þeirrar vinnu sé tillaga að færslu eldissvæða sem hin kærða ákvörðun lúti að. Breytt staðsetning eldissvæðis verði ekki heimiluð nema að undangenginni breytingu á sjálfu rekstrarleyfinu. Af 12. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1170/2015 sé ljóst að heimilt sé að óska eftir breytingum á öllum þáttum rekstrarleyfis, en slík breyting sé margreynd stjórnsýsluframkvæmd sem hafi margsinnis verið borin undir úrskurðarnefndina. Til að mynda hafi aukning á hámarksframleiðslu (hámarkslífmassa) verið felld undir breytingu en ekki nýtt rekstrarleyfi, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 119/2020. Í 13. gr. reglugerðar nr. 540/2020 sé sérstaklega tekið fram að heimilt sé að óska eftir tilfærslu á staðsetningu eldissvæða með breytingu á rekstrarleyfi og bendi ekkert til annars en að sama heimild til breytinga á rekstrarleyfi hafi falist í 12. gr. reglugerðar nr. 1170/2015. Samkvæmt núgildandi og þágildandi ákvæðum reglugerða um fiskeldi sé því heimilt að óska eftir tilfærslu staðsetningu eldissvæða með breytingu á rekstrarleyfi.

Hin kærða ákvörðun feli hvorki í sér nýtt leyfi til fiskeldis né undirbúning að slíkri ákvörðun. Um málsmeðferðina gildi því þær lagareglur sem eigi við um breytingar á þegar útgefnum leyfum. Skylt sé að bera breytinguna undir Skipulagsstofnuna, en um þátt stofnunarinnar gildi ákvæði þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun sé því ekki einungis rétt heldur beinlínis skylt að veita álit sitt á breytingunni. Hafi m.a. verið tekið sérstaklega fram í niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar að ein frumforsenda þess að tilgangi mats á umhverfisáhrifum verði náð sé að Skipulagsstofnun kanni og beri saman mismunandi staðarvalkosti, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 116/2020. Mat á staðarvali sé því hlutverk stofnunarinnar og því geti hin kærða ákvörðun aldrei falið í sér valdþurrð. Til úrlausnar í málinu sé sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að umrædd breyting teljist ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og hvernig hið breytta eldissvæði sé afmarkað skipti engu máli. Stærð og lögun hins breytta eldissvæðis skipti því engu máli fyrir úrlausn málsins, einungis hvort breytt stærð og lögun leiði til aukinna umhverfisáhrifa.

Áréttað sé að fyrirhuguð breyting á eldissvæði hafi engin áhrif á lífríki eða náttúru Örlygshafnarsvæðis. Eldiskvíar verði í meira en 100 m fjarlægð frá svæðinu, en almennt greinist áhrif fiskeldis á lífríki ekki í þeirri fjarlægð. Agnir frá fiskeldi berist almennt ekki með sjávarföllum heldur hafstraumum, en straumstefnur liggi ekki frá fyrirhuguðu eldi að Örlygshafnarsvæðinu. Þá sé því hafnað að búnaður framkvæmdaraðila muni ekki standast álag vegna ölduhæðar. Í fyrsta lagi eigi athugasemdir kæranda illa við um breytta staðsetningu á eldissvæði framkvæmdaraðila í Patreksfirði, en svo virðist sem þær eigi frekar við um breytt eldissvæði framkvæmdaraðilans Arnarlax ehf. Í öðru lagi þá búi framkvæmdaraðili yfir mikilli reynslu af því að starfa að fiskeldi í vestfirskum fjörðum. Fyrirtækið Akvaplan Niva hafi gert rannsóknir á öldufari í Patreksfirði og víðar á Vestfjörðum og af rannsóknum megi draga þá ályktun að munur á innra og ytra kvíastæði í Kvígindisdal sé sambærilegur við mun á Eyrarhlíð 1 og 2 í Dýrafirði, en þar sé munurinn á ölduhæð um 1,14 m. Það þýði að gera megi ráð fyrir sambærilegri ölduhæð á stækkuðu eldissvæði í Patreksfirði og eldissvæðum félagsins í Hvannadal í Tálknafirði og Eyrarhlíð 2 í Dýrafirði. Búnaður félagsins á þeim staðsetning hafi staðist veðurálag, enda sé hann vottaður fyrir slíka ölduhæð. Tillaga að breyttu eldissvæði í Patreksfirði byggi því á ítarlegum rannsóknum á svæðinu, þ.m.t. öldurannsóknum, sem og reynslu framkvæmdaraðila af eldi á sambærilegum stöðum. Í þriðja lagi sé rangt hjá kæranda varðandi álagsþol búnaðar framkvæmdaraðila að hann sé ekki byggður fyrir meira en 3,5 m ölduhæð, en samkvæmt vottunarstaðfestingu sambærilegs fóðurpramma sé hann byggður fyrir allt að 5,5 m ölduhæð.

Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að breytt afmörkun eldissvæða sé ekki líkleg til að hafa mikil áhrif á siglingar eða aðra nýtingu á fjörðunum, en sú niðurstaða sé m.a. byggð á umsögnum Samgöngustofu, Vegagerðarinnar og Landhelgisgæslunnar sem allar hafi metið áhrif breytinganna á siglingaumferð og -öryggi. Þá hafi sveitarfélögin sem hafi veitt álit sitt á breytingunni einnig tekið tillit til þessa sjónarmiðs í umsögnum sínum.

Viðbótarathugasemdir framkvæmdaraðilans Arnarlax ehf: Framkvæmdaraðili bendir á að úrskurðir úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í kærumálum nr. 3/2020, 107 og 111/2020, 17/2021 og 3/2018, sem sé ætlað að styðja málsrök kæranda um lögvarða hagsmuni, hafi varðað möguleg áhrif fiskeldis á náttúrulega laxastofna í ám sem hafi tilheyrt kærendum málanna. Sambærilegur aðstæður séu ekki fyrir hendi hjá kæranda, enda tilheyri engin lax- eða silungsveiðiréttindi fasteignum kæranda samkvæmt opinberum skráningum. Þar að auki hafi kærandi ekki sýnt fram á að starfsemi framkvæmdaraðila hafi annars konar lífræn, sjónræn eða hljóðræn áhrif á réttindi hans með þeim hætti að hann verði talinn eiga hagsmuna að gæta umfram aðra.

Ekkert bendi til þess að eldiskvíar eða fóðurprammar ráði ekki við þá ölduhæð sem sé á svæðunum. Einnig sé rétt að geta þess að ölduhæð í staðarúttekt sé notuð til útreikninga í matsgreiningu. Niðurstöðurnar hafi svo áhrif á hvaða álagsþol festingar þurfi að hafa og setja viðmið varðandi kvíar, nætur og pramma. Stöðvarskírteini fyrir tilteknar staðsetningar taki síðan tillit til ölduhæðar.

Jafnvel þó svo úrskurðarnefndin fallist á sjónarmið kæranda að einhverju leyti þá geti slíkt ekki leitt til ógildingar á ákvörðun Skipulagsstofnunar. Hafi t.d. einhverjir annmarkar verið á málsmeðferð, s.s. vegna áformaðrar legu sjókvía Arctic Sea Farm ehf. úti fyrir netlögum landeignar kæranda, þá sé í öllu falli unnt að bæta þar úr við málsmeðferð hjá leyfisveitanda, s.s. með skilyrðum um vöktun, rétt eins og Skipulagsstofnun hafi bent á í umsögn sinni. Leiði sú niðurstaða einnig af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Matvælastofnun hafi gefið út breytt rekstrarleyfi 16. júní 2022 fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði. Leyfið sé sem fyrr háð eftirliti Matvælastofnunar í samræmi við fyrirmæli laga nr. 71/2008 um fiskeldi og náð það til rekstrar- og fiskeldisþátta í starfsemi stöðvanna og þess að skilyrði í rekstrarleyfi séu haldin. Vakin sé athygli á að í greinargerð með breytingu rekstrarleyfisins staðfesti stofnunin að framkvæmdin sé í samræmi við tilkynnta framkvæmd. Í greinargerðinni sé einnig fjallað um athugasemdir kæranda og komist stofnunin að þeirri niðurstöðu að þær séu ekki til þess fallnar að koma í veg fyrir breytingu leyfisins.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar þau málsrök sín að hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar sé haldin verulegum annmarka vegna valdþurrðar stofnunarinnar. Framkvæmdaraðilinn Arctic Sea Farm haldi því ranglega fram að þar sem rekstrarleyfi félagsins hafi upphaflega verið reist á umsókn sem afgreidd hafi verið á grundvelli eldri ákvæði laga nr. 71/2008 um fiskeldi þá eigi framtíðar umsóknir um breytingar á rekstrarleyfi einnig að hljóta afgreiðslu samkvæmt þeim ákvæðum, en þannig sé starfsemi félagsins að eilífu föstu í því lagaumhverfi. Bent sé á að ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 71/2008, sbr. breytingalög nr. 101/2019, eigi ekki við þær umsóknir sem lagðar séu fram eftir 19. júlí 2019 auk þess sem það skilyrði þurfi að vera uppfyllt að málsmeðferð vegna mats á umhverfiáhrifum sé lokið eða frummatsskýrslu hafi verið skilað fyrir gildistöku bráðabirgðaákvæðisins. Stjórnsýslumál framkvæmdaraðilans um fyrirhugaða breytingu á rekstrarleyfi félagsins, n.t.t. um að taka til notkunar nýtt hafsvæði undir sjókvíaeldi, hafi byrjað eftir gildistöku bráðabirgðaákvæðisins og því fari málsmeðferð eftir gildandi rétti.

Málsmeðferð við að taka í notkun nýtt eldissvæði fari í kjölfar gildistöku breytingalaga nr. 101/2019 samkvæmt 4. gr. a í lögum nr. 71/2008, hvort sem um sé að ræða heildstætt nýtt eldissvæði eða þegar tekið sé til notkunar nýtt eldissvæði vegna breytingar á þegar úthlutuðum svæðum. Þetta megi skýrlega ráða af texta laganna en auk þess sem allur vafi sé tekin af í athugasemdum við 3. gr. frumvarps til laga nr. 101/2019, sem orðið hafi að 4. gr. a, en þar segi: „Að lokum má taka fram að komi til þess að rekstrarleyfishafi óski eftir að breyta í nokkru staðsetningu eldissvæðis mundi um þá breytingu fara samkvæmt þessari grein og mundi það bera undir áliti Skipulagsstofnunar sem mæti hvort þörf væri breytinga á umhverfismati. Jafnframt gæti slíkt erindi borið undir Matvælastofnun og Umhverfisstofnun varðandi breytingu á leyfum.“ Sé því engum vafa undirorpið að nýtt hafsvæði verði ekki tekið undir sjókvíaeldi nema fyrir liggi úthlutun ráðherra á viðkomandi svæði.

Bent sé á að einstaklingur eða lögaðili sem leiti úrlausnar stjórnvalda um mál sem viðkomandi hafi ekki hagsmuni af að sé leyst úr eigi almennt ekki rétt á að stjórnvaldið taki málið til meðferðar. Dæmi um slíka aðstöðu sé ef A óski eftir mati á því hvort bygging svínabús á lóðinni C, sem sé í eigu og undir forræði B, þurfi að undirgangast mat á umhverfisáhrifum en A hafi hvorki bein eða óbein eignarétttindi yfir lóðinni né vilyrði um slík réttindi frá eigandanum. Í þessu kærumáli hafi framkvæmdaraðili tilkynnt um fyrirhugaða stækkun á eldissvæði við Kvígindisdal en Hafrannsóknastofnun hafi ekki skilgreint viðkomandi svæði sem eldissvæði og framkvæmdaraðili hafi ekki fengið því úthlutað. Sé félagið því ekki handhafi þeirra eignarréttarlegu yfirráða yfir hafsvæðinu sem matsskyldufyrirspurnin lúti að svo félagið geti talist hafa beina og lögvarða hagsmuni af úrlausn hennar.

Vegna athugasemda Skipulagsstofnunar um ölduhæð og hættu á stórslysum sé bent á að lögmaður kæranda hafi óskað eftir upplýsingum um það atriði hjá Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Skipulagsstofnun. Í svari Skipulagsstofnunar hafi komið fram að stofnunin hefði ekki nákvæmar upplýsingar um gerð búnaðar á eldissvæðum og hvernig sá búnaður uppfylli kröfur NS 9415:2009 með tilliti til umhverfisálags. Kæranda hafi verið ráðlagt að hafa samband við Matvælastofnun, en í svari þeirrar stofnunar hafi komið fram að stofnunin væri ekki með undir höndum frumgögn sem varði ölduhæð í Patreksfirði og Tálknafirði. Rík ástæða hafi þó verið til þess að meta þennan þátt sérstaklega og hafi Skipulagsstofnun því brotið bæði rannsóknar- og réttmætisregluna. Skipulagsstofnun telji að skrifleg gögn málsins gefi ekki til kynna eða renni stoðum undir þá staðhæfingu kæranda að eldiskvíar og fóðurprammar eldisfyrirtækjanna ráði ekki ölduhæð á hinum fyrirhuguðu svæðum. Vegna þess sé bent á að í áliti um mat á umhverfisáhrifum frá 2016 sé að finna öldukort frá Vegagerðin með eftirfarandi texta: „Vegna greiningar á öldufari hafa þessi eldissvæði verið færð innar í firðina til að tryggja rekstraröryggi.“ Kærandi árétti að hafnaraðstaðan í Örlygshöfn sé mikilvægt öryggissvæði sem lokist auðveldlega af vegna ófærðar að vetrarlegi. Einnig sé bent á gildandi hafnarreglugerð nr. 989/2005 fyrir hafnir Vesturbyggðar en í 1. gr. reglugerðarinnar segi að stærð og takmörkum hafnarsvæðis fyrir Örlygshöfn séu: „Á sjó: Sjávarlína er um 1 km frá strönd, fram af neðangreindum örnefnum. Á landi: Frá landamerkjum Sellátraness að utanverðu, við svokallaðan Míganda að landamerkjum Vatnsdals, við Múlahlein að innanverðu.“ Kvíastæði sem fyrirtækið kenni við Kvígindisdal sé nú staðsett út af Vatnsdal og því inn á helgunarsvæði hafnarsvæðis Örlygshafnar sem nái 1 km frá strönd. Vesturbyggð hefði í umsögn sinni átt að gera athugasemd við þetta.

Ein af aðal forsendum framkvæmdaaðila fyrir nýjum kvíastæðum sé að dreifa meira úr úrganginum með auknum straumi. Hins vegar sé því haldið fram af framkvæmdaraðila að áhrif fiskeldis á lífríki greinist ekki í meira en 100 m fjarlægð. Sé það rétt þá segi það sig sjálft að fara mun fyrir svæðinu eins og kvíastæði við Hlaðseyri, sem hafi vægast sagt komið illa út úr skoðunum og lagt af vegna mengunar þrátt fyrir að hafa verið hvílt mun lengur. Fari úrgangurinn hins vegar mun lengra frá kvíunum, eins og upphafleg ástæða breytingarinnar hafi gert ráð fyrir, þá liggi það í hlutarins eðli hvert hann fari. Framkvæmdaraðilinn Arctic Sea Farm haldi því fram að agnir frá fiskeldi berist almennt ekki með sjávarföllum heldur einungis hafstraumum, sem liggi ekki frá fyrirhuguðu eldissvæði að Örlygshafnarsvæðinu. Straumakerfi Patreksfjarðar sé vitanlega drifið af sjávarföllum þar sem hafstraumar renni ekki í gegnum fjörðinn. Á aðfalli berist straumur inn suðurströnd fjarðarins og út norðan megin á útfalli. Þar af leiðandi drífi sjávarföll þá strauma sem í firðinum séu og vitanlega berist úrgangur með hvaða straumi sem er. Sjávarfalla gæti yfir 3 km inn í Örlygshöfn svo nemi nokkrum metrum í hæðarmismun á flóði og fjöru. Samkvæmt öllum gögnum stefni hafalda í vestanátt beint frá fyrirhuguðu kvíastæði upp í sjávarós Hafnarvaðals, en hafalda sé þung undiralda sem róti upp gríðarlegu magni af sjávargróðri og botnefnum undan sér. Vel sé þekkt hvernig tugir tonna af sjávargróðri þyrlist langt inn í land og myndi jafnval skafla af þara á Tungurifi. Það sé staðreynd að verndað svæði Örlygshafnar sé undirlagt af lífrænum úrgangi frá botni Patreksfjarðar.

Vegna tilvísun framkvæmdaraðila um að fyrirtækið Akvaplan Niva hafi gert rannsóknir á öldufari í Patreksfirði og víðar á Vestfjörðum sé bent á að hvorki í gögnum málsins né ákvörðun Skipulagsstofnun hafi einu orði verið minnst á ölduhæð. Hafi það fyrirtæki, sem ráðið sé af framkvæmdaraðila, einhver gögn yfir öldufar sem sýni fram á eitthvað allt annað en þau kort sem siglingardeild Vegagerðarinnar hafi framkvæmd vegna mats á umhverfisáhrifum frá árinu 2016 þá liggi þau gögn ekki til grundvallar hinni kærðu ákvörðun.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að breyting á eldissvæðum og hvíldartíma sjókvíaeldis Arctic Sea Farm ehf. og Arnarlax ehf. í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdaraðilinn Arnarlax ehf. hefur farið fram á frávísun málsins á þeim grundvelli að kæranda skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins, en skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta nema í undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa frá málum á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu.

Kærandi er eigandi jarðarinnar Efri-Tungu II og eigandi helmings hlutar í jörðinni Efri-Tungu, en báðar jarðirnar eru í Örlygshöfn í Patreksfirði. Hin kærða matsskylduákvörðun lýtur m.a. að breytingu á staðsetningu eldissvæðis framkvæmdaraðilans Arctic Sea Farm ehf. við Kvígindisdal, en með þeirri breytingu munu eldiskvíar verða staðsettar út af Örlygshöfn. Vegna nándar landareigna kæranda við það eldissvæði og með hliðsjón af hinum sérstöku landfræðilegu aðstæðum á svæðinu, þ.m.t. vegna sjónrænna áhrifa, er ekki hægt að útiloka að kærandi verði fyrir áhrifum af sjókvíaeldinu umfram aðra. Að virtum framangreindum sjónarmiðum um aðild að kærumálum verður kærandi því talinn eiga þá lögvörðu hagsmuni sem krafist er skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

——-

Lögmætisreglan er undirstaða opinberrar stjórnsýslu og felur í sér að ákvarðanir stjórnvalda verða að eiga sér stoð í lögum og mega ekki fara gegn þeim. Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar var tekin á grundvelli þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laganna. Verður ekki séð að reglur um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum samkvæmt lögum nr. 71/2008 um fiskeldi hafi þýðingu fyrir úrlausn þessa kærumáls, enda breyta þær reglur í engu hlutverki Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 106/2000. Þá er heldur ekki að finna það skilyrði í lögum eða reglugerðum að framkvæmdaraðili hafi tryggt sér þann rétt sem til þarf svo Skipulagsstofnun getið tekið tilkynningu um fyrirhugaða framkvæmd til meðferðar. Snýst enda málsmeðferð vegna ákvörðunar um matsskyldu fyrst og fremst að því að upplýsa um hvort umtalsverð umhverfisáhrif hljótist af fyrirhugaðri framkvæmd, en ekki að skera úr um hvort framkvæmdaraðili hafi eða geti öðlast rétt til að hefja framkvæmdir. Sé slíkur réttur ekki fyrir hendi þegar að framkvæmdum kemur er það hlutverk leyfisveitanda, en ekki Skipulagsstofnunar, að meta hvort honum verði synjað um leyfi af þeim sökum. Verður því ekki fallist á með kæranda að Skipulagsstofnun hafi farið út fyrir valdmörk sín með hinni kærðu ákvörðun.

——-

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt flokki B, sbr. lið 1.11 og 13.02 í 1. viðauka þágildandi laga nr. 106/2000. Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B skulu háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Í p-lið 3. gr. sömu laga eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Þegar framkvæmdaraðili hefur tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna, tekur stofnunin ákvörðun innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina um hvort hún skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. greinarinnar. Segir í þeirri málsgrein að Skipulagsstofnun skuli rökstyðja niðurstöðu sína um matsskyldu með hliðsjón af þeim viðmiðum sem talin eru upp í 2. viðauka laganna, en þau viðmið varða eðli framkvæmdar, staðsetningu og gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. 2. viðauka. Undir hverjum tölulið er svo talinn upp fjöldi annarra liða og er vægi þeirra, eðli málsins samkvæmt, breytilegt eftir því hvaða framkvæmd um ræðir hverju sinni.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 er Skipulagsstofnun heimilt að setja fram ábendingar um tilhögun framkvæmdarinnar sé hún ekki matsskyld að áliti stofnunarinnar. Var því atriði skeytt við lögin með breytingalögum nr. 96/2019, en í frumvarpi til þeirra laga segir að með breytingunni sé gerð skýrari krafa um innihald ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Henni beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem skipti mestu máli hvað varðar framkvæmdina. Rökstuðningur eigi bæði við um ákvörðun um að framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum og ákvörðun um að framkvæmd skuli ekki háð slíku mati. Skipulagsstofnun skuli byggja ákvörðun sína um matsskyldu á upplýsingum frá framkvæmdaraðila, en sé einnig heimilt að byggja ákvörðun sína á öðrum gögnum. Þar undir gætu til dæmis fallið forprófanir eða mat á umhverfisáhrifum sem fram hafi farið á grundvelli annarra laga og ábendingar sem henni berist frá öðrum, til dæmis stofnunum og almenningi.

Vegna fyrirspurnar framkvæmdaaðila um matsskyldu á fyrirhugaðri breytingu á eldissvæðum í Patreksfirði og Tálknafirði leitaði Skipulagsstofnun umsagna Fiskistofu, Hafrannsókna­stofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Landhelgisgæslunnar, Matvælastofnunar, Minja­stofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Samgöngustofu, Tálknafjarðarhrepps, Umhverfisstofnunar, Vegagerðarinnar og Vesturbyggðar. Eftir að framkvæmdaraðilinn Arctic Sea Farm gerði breytingar á afmörkun eldissvæða leitaði Skipulagsstofnun umsagna Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar að nýju. Enginn umsagnaraðili taldi að umræddar breytingar skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum. Hafrannsóknastofnun gerði þó í sinni umsögn athugasemd vegna aðstæðna á nýju eldissvæðis við Vatneyri í Patreksfirði, þar sem svæðið nái yfir mesta dýpi fjarðarins og staðsetning eldiskvíanna verði yfir brattri hlíð og því hætta á að mest allt lífræna efnið sem félli til við eldið myndi lenda í botnlagi fjarðarins með tilheyrandi lækkun á styrk súrefnis í því. Mælti stofnunin með að framkvæmdaraðilinn Arnarlax myndi vakta sérstaklega súrefnisstyrk í botnsjó við umrætt eldissvæði. Í svari framkvæmdaraðilans kom fram að súrefni á eldissvæðinu við Vatneyri myndi verða vaktað og fyrirkomulag mælinga verði kynnt fyrir Umhverfisstofnun og Hafrannsóknastofnun við málsmeðferð Umhverfisstofnunar vegna fyrirhugaðra breytinga á starfsleyfi fyrirtækisins í Patreksfirði og Tálknafirði. Í síðari umsögn Hafrannsóknastofnunar, þ.e. eftir að eldissvæði kennd við Háanes og Kvígindisdal höfðu verið sameinuð í eitt, segir að brýnt sé að heildarflatarmál áhrifasvæða fiskeldis innan Patreksfjarðar sé ekki of mikið. Botndýr séu einn af vistfræðilegum gæðaþáttum sem ástand vatnshlota sé metið eftir, samkvæmt lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Verði tillögurnar samþykktar án skilyrða verði um 3% af flatarmáli vatnshlotsins Patreksfjörður skilgreint sem eldissvæði. Því gæti farið svo, að ef kvíar og mannvirki verði jafndreifð á öllum eldissvæðum, að svo stór hluti botnsins teljist raskaður að hætt væri á að ástandsflokknum „mjög gott“ samkvæmt lögum um stjórn vatnamála yrði ekki náð. Því lagði stofnunin til að sett yrði skilyrði sem myndi miða að því að heildarflatarmáls botns sem yrði undir álagi vegna sjókvíaeldis myndi ekki fara yfir 5% af stærð vatnshlotsins Patreksfjörður. Í svari framkvæmdaraðilans Arctic Sea Farm kom fram að áhrif sjókvíaeldis á vatnshlotið ráðist einkum af lífrænu álagi frá eldinu sem hafi beina tengingu við lífmassa í eldi. Verið sé að dreifa álagi á þegar leyfðum lífmassa sem muni því minnka álag á botn, botndýralíf og gera hvíldartíma skilvirkari.

Náttúrufræðistofnun Íslands taldi í umsögn sinni að það væri ámælisvert að í matsskyldufyrirspurn hefði ekkert verið fjallað um möguleg áhrif á fuglalíf eða þá staðreynd að mikilvæg fuglasvæði væru á svæðinu, þá sérstaklega við fjallið Tálkna. Ekki væri heppilegt að hafa sjókvíaeldi með allmörgum kvíum svo nálægt stórum sjófuglabyggðum. Æskilegt væri að finna nýja staðsetningu fyrir eldissvæðið undir Tálkna, þ.e. sjókvíaeldissvæðið Vatneyri. Í svari framkvæmdaraðilans Arnarlax kom fram að fyrirtækið hefði ASC umhverfisvottun sem fæli m.a. í sér tiltekið verklag í þeim tilfellum sem fuglar kynnu að flækjast í neti auk þess sem óheimilt væri að fæla fugla frá með hávaðasömum tækjum samkvæmt ákvæðum vottunarinnar.

Þá leitaði Skipulagsstofnun umsagna Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar vegna fyrirspurnar framkvæmdaaðila um styttingu á hvíldartíma eldissvæða. Taldi enginn umsagnaraðili að breytingin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Hafrannsóknastofnun gerði í sinni umsögn ýmsar athugasemdir við ályktanir framkvæmdaaðila um umhverfisáhrif vegna styttingar hvíldartíma, sem byggðu m.a. á vöktunarrannsóknum á þeirra vegum. Stofnunin benti á að aðeins rannsóknir, vöktun og reynsla gæti svarað því hvort 90 daga hvíld væri nægjanlegt eða ekki. Vísaði stofnunin til þess að samkvæmt erlendum rannsóknum tæki allt frá tveimur mánuðum upp í sjö ár fyrir eldissvæði að ná fyrra ástandi. Afar ólíklegt væri að 90 dagar myndi henta öllum eldissvæðum við Ísland. Lagði stofnunin til í ljósi náttúrulega lágrar súrefnismettunar í botnlagi Patreksfjarðar við eldissvæðið á Vatneyri að það eldissvæði myndi verða hvílt í a.m.k. sex mánuði milli eldislota þar til reynsla væri komin á eldið.

Hin kærða ákvörðun er uppbyggð með þeim hætti að fyrirhugaðri framkvæmd er lýst, þ.e. áformum framkvæmdaaðila um breytta staðsetningu eldissvæða og styttri hvíldartíma, auk þess sem gerð er grein fyrir þeim breytingum sem urðu á áformunum við meðferð málsins. Fjallað er um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eins og þeim er lýst í framlögðum gögnum og umsögnum umsagnaraðila og skiptist sá kafli í umfjöllun um botndýralíf og ástand sjávar, fisksjúkdóma og velferð eldisfiska, slysasleppingar – villta laxfiska, ásýnd og landslag, siglingar, fornminjar og fuglar. Þá er vikið stuttlega að leyfum sem framkvæmdin er háð. Í niðurstöðukafla sínum vísar stofnunin til þess að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af eðli framkvæmdarinnar, svo sem stærð og umfangi framkvæmdar, úrgangsmyndun, mengunar og staðsetningu framkvæmdar með tilliti til hversu viðkvæm þau svæði eru sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, svo sem með tilliti til þeirrar landnotkunar sem fyrir sé, álagsþols strandsvæða og kjörlendis dýra, sbr. 1. og 2. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Jafnframt tiltekur stofnunin að áhrif framkvæmda beri að skoða í ljósi eiginleika hugsanlegra áhrifa einkum með tilliti til stærðar og fjölbreytileika áhrifa, hverjar líkur séu á áhrifum, tímalengd og tíðni þeirra á tilteknu svæði og möguleika á að draga úr þeim, sbr. 3. tl. sama viðauka.

Í umfjöllun í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar um eðli og staðsetningu framkvæmdar bendir Skipulagsstofnun á að fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum vegna allt að 14.500 tonna framleiðsluaukningar á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði frá árinu 2016. Breytingar á afmörkun eldissvæðis við Kvígindisdal og stækkun þess séu að mati stofnunarinnar nokkrar að umfangi. Dreifing og álag vegna úrgangs frá eldi komi til með að ná yfir stærra svæði en gert hafi verið ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum, en ólíklegt sé að stækkunin feli í sér önnur eða meiri umhverfisáhrif en núverandi fyrirkomulag þar sem ekki sé um aukningu á lífmassa og magni úrgangs að ræða. Þá telur stofnunin að stækkun eldissvæðisins og fjölgun kvía sé ekki líkleg til að fela í sér aukið álag á villta laxfiska m.t.t. sjúkdóma, sníkjudýra eða erfðablöndunar.

Hvað varðar færslu eldissvæðis frá Hlaðseyri að Vatneyri þá er mat Skipulagsstofnunar að sú breyting sé jákvæð þar sem þá verði hætt að notast við svæði sem sé innarlega í Patreksfirði þar sem straumar séu veikir og hætt sé við talsverðri uppsöfnun lífrænna leifa. Þó sé hætt við að stór hluti úrgangs frá fyrirhuguðu eldissvæði að Vatneyri lendi í botnlagi fjarðarins. Mikilvægt sé að hvíld eldissvæða sé stýrt af raunástandi botndýralífs og telur stofnunin að fyrirhuguð vöktun og mögulegar aðgerðir sem hægt sé að grípa til, ef reynist þörf á, séu til þess fallnar að tryggja að notkun eldissvæða taki mið af ástandi botns. Með vísan til umsagnar Hafrannsóknastofnunar telur Skipulagsstofnun æskilegt að svæðið verði hvílt í að lágmarki sex mánuði eftir fyrstu slátrun, að ákvarðanir um útsetningu á svæðinu taki mið af súrefnisstyrk í botnlagi og að í starfsleyfi séu ákvæði um vöktun súrefnisstyrks í laginu. Þá telur stofnunin að breytt afmörkun eldissvæða sé ekki líkleg til að hafa mikil áhrif á siglingar eða aðra nýtingu í fjörðunum. Landhelgisgæslan hafi ekki gert athugasemd við upphaflega afmörkun eldissvæða við Kvígindisdal og Háanes en breytt afmörkun feli ekki í sér að eldissvæðið nái lengra út í fjörðinn, samanborið við upprunalegar áætlanir, og skari ekki hefðbundna siglingaleið um fjörðinn. Með hliðsjón af því að Landhelgisgæslan hafi ekki gert athugasemdir við afmörkun eldissvæða framkvæmdaraðilans Arnarlax eftir breytingar telur Skipulagsstofnun að eldissvæðin komi ekki til með að hafa neikvæð áhrif á siglingar og öryggi þeirra. Kvíaþyrpingar muni eingöngu ná yfir lítinn hluta eldissvæðisins hverju sinni og siglingar verði áfram mögulegar innan stórs hluta eldissvæðisins. Að lokum telur Skipulagsstofnun í ljósi mikilvægis fjallsins Tálkna fyrir sjófugla að tilefni sé til að í starfsleyfi verði kveðið á um vöktun á fuglalífi á eldissvæðinu við Vatneyri verði það tekið í notkun.

Með hliðsjón af eðli þeirra breytinga sem fyrirhugaðar séu frá núgildandi leyfum og að teknu tilliti til fyrirliggjandi gagna sé að mati Skipulagsstofnunar ólíklegt að breyting á hvíldartíma og staðsetningu eldissvæða komi til með að auka hættu á slysasleppingum eða auka álag á villta laxfiska vegna laxalúsar eða sjúkdóma miðað við það sem gert hafi verið ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum, en stofnunin leggi áherslu á áframhaldandi vöktun laxfiska í Patreksfirði. Þá telji stofnunin að áhrif á aðra umhverfisþætti, s.s. siglingar, fugla og ásýnd, verði minni háttar en lögð sé áhersla á skýrar merkingar eldiskvía og að í starfsleyfi verði kveðið á um vöktun á fuglalífi á eldissvæðinu við Vatneyri. Við færslu og stækkun á eldissvæðum muni áhrif á landslag og ásýnd færast til, en verða sambærileg því sem áður hafi verið. Var það því lokaniðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í umfjöllun um eiginleika hugsanlegra áhrifa er það mat Skipulagsstofnunar að í starfsleyfi þurfi að vera skýr ákvæði um heimildir leyfisveitanda til að bregðast við reynist umhverfisástand ófullnægjandi. Auk þess leggur stofnunin til að sett verði skilyrði um sex nánar tilgreind atriði. Í fyrsta lagi að vöktun verði á súrefnisstyrk við botn og styrk næringarefna í sjó og að tilhögun og nákvæmni þeirrar vöktunar sé í samræmi við það sem Hafrannsóknastofnun telur fullnægjandi til að byggja á við endurskoðun burðarþolsmats. Í öðru lagi að kveðið sé sérstaklega á um vöktun súrefnis í botnlagi við eldissvæðið við Vatneyri og heimildir starfsleyfisveitanda til að fresta útsetningu eða grípa til annarra aðgerða gefi niðurstöður vöktunar tilefni til. Í þriðja lagi að vöktun á næringarefnum fari fram þegar styrkur þeirra sé hvað mestur. Í fjórða lagi að vöktunaráætlun liggi fyrir áður en leyfi verði veitt. Í fimmta lagi að skýr viðmið verði sett um ástand botndýralífs og að tilgreindar verði mótvægisaðgerðir reynist ástand ekki ásættanlegt. Í sjötta og síðasta lagi að ekki verði hægt að hefja eldi á ný fyrr en botndýralíf á svæðinu hafi náð ásættanlegu ástandi samkvæmt viðmiðum Umhverfisstofnunar. Leiði vöktun í ljóst að ástand botns vegna yfirstandandi eldis sé ekki ásættanlegt skuli draga úr framleiðslu á viðkomandi svæði eða lengja hvíldartíma.

——-

Í meginatriðum fjallar hin kærða matsskylduákvörðun um þrjár breytingar á framkvæmd sem þegar hefur sætt mati á umhverfisáhrifum. Er þar um að ræða styttingu á lágmarkshvíldartíma eldissvæða framkvæmdaaðila í Patreksfirði og Tálknafirði, þ.e. úr 6 mánuðum í 90 daga, færslu á eldissvæði framkvæmdaraðilans Arnarlax frá Hlaðseyri að Vatneyri og að lokum breyttu eldissvæði framkvæmdaraðilans Arctic Sea Farm við Kvígindisdal. Kæra þessa máls lýtur fyrst og fremst að síðastnefndri breytingu og gerir kærandi athugasemdir varðandi lífræn- og ásýndaráhrif og mögulega aukna hættu á slysum vegna ölduhæðar, auk ýmissa annarra atriða.

Samkvæmt 11. gr. þágildandi reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum er skylt í tilkynningu, eftir því sem við á, að gera grein fyrir því hvort framkvæmdasvæði sé á eða nærri verndarsvæðum eins og þau eru skilgreind í 2. viðauka við reglugerðina. Fyrir liggur að Hafnarvaðall og Tungurif í Örlygshöfn teljast til náttúruminja, en þau eru á C-hluta náttúruverndarskrár vegna leira og skeljasandsfjöru sem og fjölskrúðugs lífríkis, auk þess sem sjávarfitjar og leirur sem þar má finna njóta sérstakrar verndar skv. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd í samræmi við markmið þeirra laga, en vísað er til hvoru tveggja sem verndarsvæða í 2. viðauka reglugerðar nr. 660/2015 sem og 2. viðauka laga nr. 106/2000. Bar framkvæmdaraðila því fjalla um möguleg áhrif nýs eldissvæðis úti fyrir Örlygshöfn á aðlægt og verndað strandsvæði í tilkynningu sinni. Var sérstök ástæða til þess þar sem skv. 3. mgr. 37. gr. laga um náttúruvernd ber að forðast að raska svæðum sem eru á C-hluta náttúruminjaskrár nema almannahagsmunir krefjist þess og annarra kosta hafi verið leitað.

Auk þess skal skv. 4. mgr. sömu lagagreinar sýna sérstaka aðgæslu gagnvart vistgerðum, vistkerfum og tegundum á C-hluta náttúruminjaskrár til að koma í veg fyrir að náttúruleg útbreiðslusvæði eða búsvæði minnki og verndarstaða þeirra versni. Þá verður að sama skapi að telja að tilefni hafi verið fyrir Skipulagsstofnun, í umsagnarbeiðni sinni, að vekja athygli á nálægð umrædds svæðis við fyrirhugað eldissvæði. Hefur stofnunin viðurkennt þann annmarka á meðferð málsins en telur þó að niðurstaða ákvörðunarinnar hefði orðið sú sama hefðu upplýsingar um verndarsvæðið legið fyrir. Vísar stofnunin hvað það varðar til þess að í áliti hennar um 14.500 tonna eldisaukningu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði frá 16. maí 2019 hafi í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands komið fram að íslenskar rannsóknir bendi til þess að fiskeldi innan fjarða hafi lítil áhrif á fjörulífríki þar sem lífræn mengun sé nánast eingöngu undir sjókvíum og næsta nágrenni. Með vísan til þeirrar umsagnar hafi Skipulagsstofnun lagt það til í álitinu að í starfsleyfi yrði kveðið á um sérstaka vöktun á áhrifum eldis á leirur við Sandodda. Telur stofnunin því að unnt sé að bæta úr umræddum annmarka á meðferð málsins þegar komi til leyfisveitinga.

Framangreind umfjöllun um möguleg áhrif framkvæmdanna á Hafnarvaðal og Tungurif hefði að mati úrskurðarnefndarinnar mátt vera betur studd rökum sem hefði getað gefið bendingu um hvert yrði fyrirkomulag mögulegrar vöktunar. Athugasemd um að íslenskar rannsóknir bendi til þess að lífræn mengun sé nánast eingöngu undir sjókvíum og í næsta nágrenni við þær er almenns eðlis og kann að vera tekin úr samhengi. Staðsetning fiskeldiskvía skiptir miklu um dreifingu lífræns úrgangs, en ein af forsendum við staðarval er jafnan hversu stór hluti úrgangs er líklegur til að lenda í botnlagi fjarða. Þar hafa þættir eins og botndýpi, stærð fóðuragna, straumþungi og straumastefnur mikið að segja. Lífrænn úrgangur fellur vissulega að miklu leyti í föstu formi á botninn, en uppleyst efni fer hins vegar í vatnssúluna og dreifist víðar. Þynningaráhrif koma hins vegar fljótt fram eftir því sem lengra er farið frá kvíum.

Fram hefur komið af hálfu framkvæmdaaðila að straummælingar hafi farið fram í tengslum við mat á umhverfisáhrifum en einnig hafi verið stuðst við eldri mælingar Hafrannsóknastofnunar. Fram kemur m.a. að hin umrædda staðsetning sé utar og nær miðju fjarðarins, en áður var áætlað, þar sem mælingar sýni eindregnari straumstefnu og meiri straumhraða samanborið við fyrri staðsetningu. Hluti straumsins fari út fjörðinn eða í norðvestur átt. Sterkur djúpstraumar liggi á 30–50 m dýpi inn fjörðinn að sunnanverðu, þ.e. 90–135°, og út að norðanverðu sem sé í samræmi við dýptarlínur á svæðinu, en eðliseiginleikar efnis á hreyfingu sé að fylgja þeim fyrirstöðum sem straumar verði fyrir. Þá séu kvíastæði í meira en 500 m fjarlægð frá stórstraumsfjöru við Örlygshöfn sem sé, að mati framkvæmdaaðila, yfir mörkum þeirrar fjarlægðar sem áhrifa eldis gæta á sjó eða botn.

Að áliti úrskurðarnefndarinnar ber að líta til þess að í matsskylduákvörðun er ekki einvörðungu tekin ákvörðun um hvort fyrirhuguð framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum eða ekki, heldur er í ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld oft að finna ábendingar um tilhögun framkvæmdar, eins og Skipulagsstofnun er heimilt að gera, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000. Þrátt fyrir að slíkar ábendingar séu ekki bindandi fyrir leyfisveitendur geta þær þó haft áhrif á efni leyfa sem kunna að verða gefin út. Hefði umfjöllun um áðurgreint atriði verið að finna í matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar með ábendingum um tilhögun er sýnt að efnisleg niðurstaða hefði í raun orðið önnur, jafnvel þó svo að stofnunin hefði eftir sem áður komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin í heild sinni væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Verður því ekki fallist á það sjónarmið Skipulagsstofnunar að umræddur annmarki hafi í engu breytt um niðurstöðu málsins. Þrátt fyrir þetta verður annmarkinn ekki talinn svo verulegur að varði ógildi ákvörðunar, enda rétt að við leyfisútgáfu má taka afstöðu til þessa og gera úrbætur.

Svo sem fyrr er rakið gerði Hafrannsóknastofnun í umsögn athugasemd við að hætta væri á að ástandsflokknum „mjög gott“ samkvæmt lögum um stjórn vatnamála fyrir vatnshlotið Patreksfjörður yrði ekki náð í ljósi þess að 13% af flatarmáli vatnshlotsins yrði skilgreint sem eldissvæði. Hvað það atriði varðar benti Skipulagsstofnun á að magn lífræns úrgangs yrði óbreytt eftir breytingar og að álag vegna úrgangs ráðist af staðsetningu kvíaþyrpinga hverju sinni en ekki afmörkun eldissvæða.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála er markmið þeirra að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnasviðskerfa til þess að vatn njóti heildstæðrar verndar. Jafnframt er lögunum ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar. Mat á yfirborðsvatnshloti skal byggjast á fyrirliggjandi gögnum hverju sinni og taka fyrir hverja vatnshlotsgerð mið af skilgreindum líffræðilegum gæðaþáttum auk vatnsformfræðilegra og efna- og eðlisefnafræðilegra þátta eftir því sem við á. Umhverfismarkmið eru skilgreind eftir gerðum vatnshlota og skulu vera samanburðarhæf, sbr. 11. gr. laganna.

Ástandsflokkar fyrir vistfræðilegt ástand yfirborðsvatnshlota eru fimm talsins samkvæmt lögunum. Í fyrsta lagi mjög gott ástand (náttúrulegt), í öðru lagi gott vistfræðilegt ástand, í þriðja lagi ekki viðunandi ástand (sæmilegt ástand), í fjórða lagi slakt ástand og loks, í fimmta lagi, lélegt ástand. Aðeins tveir fyrstu flokkarnir, þ.e. mjög gott ástand og gott ástand, uppfylla umhverfismarkmiðið um gott vistfræðilegt ástand yfirborðsvatns. Flokkun vatnshlots í þessa tvo flokka leiðir til þess að tryggja verður að ástandi þess verði viðhaldið þannig að það falli ekki um ástandsflokk. Þrátt fyrir markmið laganna geta ýmis atvik réttlætt að vikið sé frá meginreglum þeirra. Því hafa lögin að geyma heimildarákvæði sem gera það kleift að uppfylla ákvæði þeirra, á grundvelli ítarlegrar greiningar og hagsmunamats, þótt farið sé gegn meginreglunum eða umhverfismarkmiðunum ekki náð, sbr. nánar 16.–18. gr. laganna. Þessu fyrirkomulagi er nánar lýst í gildandi vatnaáætlun. Að þeim lagaákvæðum virtum verður að telja að full ástæða hafi verið fyrir Skipulagsstofnun að taka athugasemdir Hafrannsóknastofnunar um hugsanlega breytingu á ástandsflokki vatnshlotsins Patreksfjarðar til nánari skoðunar.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laga um stjórn vatnamála, skyldi ná umhverfismarkmiðum samkvæmt 11. gr. laganna eigi síðar en sex árum eftir að fyrsta vatnaáætlunin hefði verið staðfest og var gefinn frestur til þess, í ákvæði til bráðabirgða við lögin, að setja hana til 1. janúar 2018. Það dróst nokkuð uns vatnaáætlun var staðfest þann 4. apríl 2022 sem tekur til áranna 2022–2027. Þar eru upplýsingar um stöðu skilgreindra vatnshlota ásamt því að þar eru sett umhverfismarkmið fyrir þau og gerð áætlun um nauðsynlegar verndaraðgerðir til þess að ná eða viðhalda góðu ástandi einstakra vatnshlota.

Í vatnaáætluninni er um viðmiðunarmörk fyrir ástand strandsjávar vísað til skýrslunnar Gæðaþættir og viðmiðunaraðstæður strandsjávarvatnshlota sem Hafrannsóknastofnun gerði á árinu 2019. Með þeirri skýrslu eru prentuð bréfaskipti milli Hafrannsóknastofnunnar og Umhverfisstofnunnar vegna undirbúnings fyrstu vatnaáætlunar. Fjallað er um stöðu þekkingar og lagt til að nota fyrst og fremst styrk næringarefna til að skilgreina mörkin milli góðs ástands strandsjávar og ekki viðunandi ástands. Um leið verði beitt sérfræðimati vegna annarra þátta, þar sem þess verði þörf. Fram kemur að á þeim tíma hafi ekki verið hægt að búa til fimm flokka vistfræðilega ástandflokkun á öllum gæðaþáttum þar sem nær öll gögn sem fyrirliggjandi væru kæmu frá vatnshlotum þar sem álag væri lítið. Í vatnavefsjá Umhverfisstofnunnar, sem Veðurstofan rekur, kemur fram að Patreksfjörður sé sérstakt vatnshlot strandsjávar. Fram kemur að bæði vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand fjarðarins sé óflokkað. Sett eru hins vegar markmið um gott vistfræðilegt ástand sem og um gott efnafræðilegt ástand.

Ákvæði laga um fiskeldi sem varða burðarþol eru nátengd lögum um stjórn vatnamála. Í 6. mgr. 10. gr. laga um fiskeldi segir að Matvælastofnun skuli hafna útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis sem feli í sér meiri framleiðslu en viðkomandi sjókvíaeldissvæði þolir samkvæmt burðarþolsmati. Mat á burðarþoli er skilgreint sem mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Þar segir ennfremur að hluti burðarþolsmats sé að meta óæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi. Burðarþolsmat skal framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða aðila sem ráðuneytið samþykkir, að fenginni bindandi umsögn stofnunarinnar. Hafrannsóknastofnun skal vakta lífrænt álag þeirra svæða sem þegar hafa verið metin til burðarþols og endurskoða matið svo oft sem þurfa þykir að mati stofnunarinnar. Skylt er að endurskoða rekstrarleyfi fiskeldis sé burðarþolsmat lækkað, sbr. 6. gr. b í lögum um fiskeldi.

Á vefsíðu Hafrannsóknastofnunar má nálgast fyrirliggjandi burðarþolsmat Patreksfjarðar og Tálknafjarðar m.t.t. sjókvíaeldis sem síðast var endurskoðað í febrúar 2022. Þar segir að forsendur mats á burðarþoli séu reiknaðar með umhverfislíkani sem byggi á mati á áhrifum eldisins á gæðaþætti strandsjávarvatnshlota, sbr. reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun. Horft sé sérstaklega til eðlisefnafræðilegra gæðaþátta, svo sem súrefnisstyrks og styrks næringarefna, og líffræðilegra gæðaþátta, svo sem botndýra. Einkum sé það álag á hafsbotn og áhrif þess á lífríki botns nærri eldissvæðum sem hafi rík áhrif á mat á burðarþoli. Með tilliti til stærðar fjarðanna og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk telur Hafrannsóknastofnun að hægt sé að leyfa allt að 20 þúsund tonna eldi í Patreksfirði og Tálknafirði á ári. Gert er ráð fyrir að heildarlífmassi verði aldrei meiri en 20 þúsund tonn og að nákvæm vöktun á áhrifum eldisins fari fram samhliða því. Slík vöktun yrði forsenda fyrir hugsanlegu endurmati á burðarþoli fjarðarins, til hækkunar eða lækkunar, sem byggt yrði á raungögnum. Jafnframt er bent á að æskilegra sé að meiri eldismassi sé frekar utar í fjörðunum en innar.

Í skýrslu óháðrar nefndar þriggja sérfræðinga um athugun á aðferðafræði, áhættumati og greiningum á fiskeldisburðarþoli á vegum Hafrannsóknastofnunar, sem prentuð var á 150. löggjafarþingi (þskj. 2029) og er dagsett 21. maí 2020, eru athugasemdir sem benda má á til nánari skýringar. Þar segir að skilja ætti „burðarþol“ samkvæmt áætlun Hafrannsóknastofnunar, einungis sem efri mörk sem byggi á takmörkuðum fjölda viðmiða sem tengist lífrænu álagi, þ.e. súrefni, stöðu næringarefna og vistfræði sjávarbotnsins. Áætlað burðarþol teljist vera sá hámarkslífmassi sem haldi áhrifunum á botnvistkerfi, súrefnisstigi og uppsöfnun næringarefna neðan við viðmiðunarmörk. Í athugasemdum Hafrannsókna­stofnunnar í skýrslunni er tekið undir þetta og segir þar að stofnunin hafi horft til þess að halda öllum þessum þáttum innan tilgreindra marka þeirra.

Í gildandi burðarþolsmati fyrir Patreksfjörð er bent á að æskilegra sé að meiri eldismassi sé frekar utar í fjörðunum en innar. Þá hefur framkvæmdaraðili vísað til eigin mælinga á straumum. Er framkvæmdin því líkleg til að draga úr umhverfisálagi í firðinum miðað við óbreytt framleiðslumagn. Um leið verður að líta til þeirra verulegu krafna sem gerðar eru með leyfisveitingu til framkvæmdaaðila, um vöktun lífræns álags, sem byggja á forsendum um að náð sé umhverfismarkmiðum sem sett eru samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.

Að þessu virtu verður ekki annað séð en að Skipulagsstofnun hafi lagt mat á þá þætti sem tilgreindir eru í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Í hinni kærðu ákvörðun var aukinheldur leitast við að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar, sbr. vii-lið 3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Þrátt fyrir að rannsókn málsins og rökstuðningur Skipulagsstofnunar hafi verið annmörkum háður eru þeir annmarkar ekki svo verulegir að leiða beri til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar þegar tekið er tillit til þess að upprunaleg framkvæmd hefur sætt mati á umhverfisáhrifum og umræddar breytingar hafa að öllum líkindum í för með sér minni umhverfisáhrif heldur en óbreytt fyrirkomulag. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þar sem meðferð málsins var ekki áfátt að öðru leyti, verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 8. nóvember 2021 um að breyting á eldissvæðum og hvíldartíma sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

81/2021 Sjókvíaeldi í Berufirði

Með

Árið 2021, mánudaginn 18. október, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 28. apríl 2021 um að breyting á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun sjókvíaeldis í Berufirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Náttúruverndarsamtök Íslands og Íslenski náttúruverndarsjóðurinn þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 28. apríl 2021 að breyting á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun sjókvíaeldis í Berufirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 5. júlí 2021.

Málavextir: Hinn 19. mars 2018 lagði Fiskeldi Austfjarða hf. fram matsskýrslu vegna eldis á allt að 20.800 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Í matsskýrslunni var gert ráð fyrir að ala 9.800 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Berufirði. Kom fram í skýrslunni að útsetningaráætlun myndi taka mið af nýju áhættumati Hafrannsóknastofnunar og að samkvæmt matinu myndu 6.000 þeirra tonna sem áætlað væri að ala í Berufirði verða frjór lax og 3.800 tonn geldlax. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 14. júní s.á. Umhverfisstofnun veitti framkvæmdaraðila starfsleyfi 19. mars 2019 fyrir 9.800 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Berufirði, þar af að hámarki 6.000 tonna ársframleiðslu á frjóum laxi, og 21. s.m. veitti Matvælastofnun framkvæmdaraðila rekstrarleyfi vegna sama eldis.

Hinn 8. janúar 2021 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Berufirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, sbr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að Berufjörður væri skilgreindur sem tvö sjókvíaeldissvæði með fimm eldissvæðum, þ.e. Glímeyri, Svarthamrar, Svarthamarsvík, Hamraborg I og Hamraborg II. Í breytingunni fælist að eldissvæðin yrðu fjögur. Eldissvæðið Hamraborg II yrði lagt af og flutt innar í fjörðinn að Gautavík. Eldissvæði, sem næði yfir þrjú samtengd svæði Glímeyri, Svarthamrar og Svarthamarsvík, yrði stækkað og skipt í tvö aðskilin svæði. Einnig yrði gerð breyting á útsetningaráætlun og seiði sett út á hverju ári þannig að almennt yrðu tvö svæði í notkun og tvö svæði í hvíld á hverjum tíma. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Múlaþings, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar. Taldi Náttúrufræðistofnun Íslands að meta skyldi umhverfisáhrif vegna breytingarinnar í ljósi þess að um væri að ræða starfsemi á alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði og þar sem umfjöllun um áhrif á fugla hefði verið verulega áfátt í upphaflegri matsskýrslu. Aðrir umsagnaraðilar töldu ekki þörf á að fram færi mat á umhverfisáhrifum vegna breytingarinnar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 28. apríl 2021. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að umhverfisverndarsamtök þau sem að kærunni standi fullnægi skilyrðum 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og uppfylli af þeim sökum það skilyrði að eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn fyrirliggjandi kæru, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr., enda samrýmist kæran tilgangi starfsemi þeirra.

Hin kærða ákvörðun lúti að breytingu á framkvæmd sem falli í flokk B í 1. viðauka þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. gr. 11.1 og 13.2 í viðaukanum. Í samræmi við það og 1. mgr. 6. gr. laganna skuli breytingin háð mati á umhverfisáhrifum, ef hún geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar hennar og sé jafnframt tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. sömu greinar. Skipulagsstofnun beri skv. 3. mgr. 6. gr. laganna að byggja ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar á þeim upplýsingum sem framkvæmdaraðili hafi lagt fram, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna og 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, og öðrum gögnum um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eftir því sem við eigi, þ.m.t. upplýsingum sem fram komi í þeim umsögnum sem stofnunin hafi aflað í samræmi við fyrirmæli 12. gr. reglugerðarinnar. Við ákvörðun sína á þessum grundvelli beri Skipulagsstofnun að fara eftir þeim viðmiðum sem fram komi í 2. viðauka laganna og rökstyðja niðurstöðuna með hliðsjón af þeim. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og við undirbúning slíkrar ákvörðunar beri stofnuninni m.a. að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá beri stofnuninni að haga efni rökstuðnings í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar þannig að uppfylltar séu þær lágmarkskröfur um efni rökstuðnings sem lögfestar séu í 22. gr. stjórnsýslulaga.

Á grundvelli fullnægjandi upplýsinga um breytinguna og líklegum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í heild að gerðum þeim breytingum, þ.m.t. fyrirliggjandi niðurstöðu um umhverfisáhrif hennar, upplýsinga um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir og umsagna leyfisveitenda og annarra umsagnaraðila, sem hafi fullnægt kröfum reglugerðar nr. 660/2015, hafi Skipulagsstofnun borið að taka rökstudda afstöðu til þess hvort breytt framkvæmd gæti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs síns, eðlis eða staðsetningar að virtum þeim viðmiðum sem tilgreind séu í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og færa fullnægjandi rök fyrir þeirri afstöðu með vísan til þessara viðmiða. Hin kærða ákvörðun uppfylli ekki þær kröfur.

Tilkynning framkvæmdaraðila geri ráð fyrir þrenns konar breytingum á hlutaðeigandi framkvæmd, þ.e. breytingu á staðsetningu eldissvæða í firðinum, breytingu á útsetningaráætlun eldisins og að ala einungis frjóan lax í firðinum. Í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrsluna 14. júní 2018 segi í kafla 3.4.4. að framkvæmdaraðili áformi eldi á 6.000 tonnum af frjóum laxi í Berufirði. Samkvæmt framanröktu hafi fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar verið reist á þeirri forsendu að eldi framkvæmdaraðila á frjóum laxi í Berufirði yrði ekki umfram 6.000 tonn á ári. Eldi á allt að 9.800 tonnum af frjóum laxi, eins og gert sé ráð fyrir í tilkynningu framkvæmdaraðila, feli því í sér mjög veruleg frávik frá gildandi mati á umhverfisáhrifum og rúmist ekki innan þess. Hin kærða ákvörðun sé haldin þeim verulega annmarka að þar sé ekki fjallað um einn þriggja meginþátta sem breytingin lúti að, þ.e. aukningu á eldi á frjóum laxi úr 6.000 tonnum í 9.800 tonn. Þegar af þeirri ástæðu sé óhjákvæmilegt að fella hana úr gildi.

Framangreindan annmarka megi rekja til þess að í tilkynningu framkvæmdaraðila sé nánast ekkert fjallað um þá verulegu breytingu á framkvæmdinni sem þar sé gert ráð fyrir og felist í því að skipta yfir í eldi á frjóum laxi og hætta að ala ófrjóan lax. Þótt vikið sé að þessum áformum í tilkynningunni hafi hún hvergi nærri að geyma þær upplýsingar sem áskildar séu skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Tilkynningin sé að þessu leyti alls ófullnægjandi og ekki viðhlítandi grundvöllur fyrir hina kærðu ákvörðun. Lúti tilkynning framkvæmdaraðila ekki að fyrirhugaðri breytingu á umfangi á eldi frjós lax í Berufirði heldur einvörðungu að breyttri staðsetningu eldissvæða og breyttu fyrirkomulagi við útsetningu seiða, án tillits til frjósemi þeirra, skorti upplýsingar um það í hvaða farveg framkvæmdaraðili hafi lagt eða hyggist leggja þessa verulegu breytingu á framkvæmd sinni, sem í tilkynningunni sé sögð forsenda annarra breytinga sem þar sé lýst. Um sé að ræða tilkynningarskylda breytingu sem leggja þurfi fyrir Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu. Sérstök skilyrði séu sett um hámark ársframleiðslu á frjóum laxi í leyfum framkvæmdaraðila og áður en unnt sé að breyta framkvæmdinni þurfi sú breyting að koma til umfjöllunar Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000. Þá hafi tilkynning framkvæmdaraðila ekki að geyma þær upplýsingar sem áskildar séu skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um þá þætti hennar sem lúti að breyttri staðsetningu eldissvæða og breyttu fyrirkomulagi útsetningar og hvíldartíma sem af því leiði.

Skipulagsstofnun sé skylt við meðferð mála á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000 að afla umsagna, m.a. leyfisveitenda, í samræmi við fyrirmæli 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Uppfylli umsagnirnar ekki þær kröfur sem þar komi fram beri stofnuninni í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins um skyldubundna álitsumleitan að leggja fyrir álitsgjafafa að bæta þar úr með nýrri umsögn. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar skuli í umsögn koma m.a. fram hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun og hvort og þá á hvaða forsendum umsagnaraðili telji að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum út frá þeim atriðum sem falli undir starfssvið umsagnaraðila og að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka. Ef frá sé talin umsögn Umhverfisstofnunar sé ekki vikið í umsögnum umsagnaraðila að stóraukinni framleiðslu framkvæmdaraðila á frjóum laxi. Þessar umsagnir séu að þessu leyti haldnar mjög verulegum annmarka. Þá eigi umsagnir í málinu það sammerkt að þær uppfylli ekki áskilnað 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um að þar sé tekin rökstudd afstaða til þess hvort tilkynning framkvæmdaraðila sé fullnægjandi og þá hvort hinar tilkynntu breytingar skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Að því marki sem tekin sé afstaða til þessara atriða í umsögnunum fylgi henni takmarkaður, ef nokkur, rökstuðningur umsagnaraðila.

Þótt enga umfjöllun sé um það að finna í hinni kærðu ákvörðun verði ráðið af tilkynningu framkvæmdaraðila að hún sé m.a. sett fram með vísan til mats Hafrannsóknastofnunar 11. maí 2020 á áhættu erfðablöndunar á grundvelli 6. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi sem staðfest hafi verið af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 3. júní, sbr. auglýsingu nr. 562/2020 í B-deild Stjórnartíðinda. Eftir þær breytingar sem gerðar hafi verið á lögum nr. 71/2008 með breytingalögum nr. 101/2019 sé ótvírætt að áhættumat erfðablöndunar skv. 6. gr. a í lögunum og burðarþolsmat skv. 6. gr. b feli í sér framkvæmdaáætlanir í skilningi laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, sem háðar séu umhverfismati samkvæmt fyrirmælum þeirra laga. Þar sem ekki liggi fyrir að framangreint áhættumat Hafrannsóknastofnunar hafi sætt meðferð samkvæmt fyrirmælum laga nr. 105/2006 geti niðurstöður þess ekki orðið grundvöllur fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis í skilningi laga nr. 106/2000 án frekara mats á umhverfisáhrifum hlutaðeigandi áætlunar og framkvæmdar. Þar við bætist að mat samkvæmt lögum nr. 106/2000 geti ekki komið í stað mats samkvæmt lögum nr. 105/2006, þótt í vissum tilvikum sé heimilt að sameina skýrslugerð á grundvelli þessara laga.

Að því er varði rannsókn Skipulagsstofnunar á því hvort hinar tilkynntu breytingar á staðsetningu eldissvæða og útsetningu seiða geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif skuli tekið fram að forsendur varðandi staðsetningu eldis og kynslóðaskiptingu, þ. á m. hvíldartíma fjarðarins í heild hans í 9-12 mánuði milli kynslóða, hafi verið lagðar til grundvallar mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, án þess að gerð hafi verið grein fyrir öðrum valkostum í þessu efni og þeir bornir saman. Þær upplýsingar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, sem fyrir liggi í mati á umhverfisáhrifum, miði því við aðrar forsendur en þær sem lagðar hafi verið til grundvallar hinum tilkynntu breytingum. Staðsetning eldissvæða og fyrirkomulag varðandi útsetningu seiða og hvíld eldissvæða milli kynslóða séu atriði varðandi framkvæmd þauleldis á fiski í sjókvíum sem hafi verulega þýðingu þegar umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu metin. Af því leiði að unnt sé að draga takmarkaðar ályktanir um umhverfisáhrif þess að víkja frá forsendum mats á umhverfisáhrifum um þessi atriði. Fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar komi því að takmörkuðu gagni við rannsókn á því hvort hinar tilkynntu breytingar á henni kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Lúti það ekki að breytingunum sem slíkum heldur að umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í heild sinni að teknu tilliti til tilkynntra breytinga. Í hinni kærðu ákvörðun felist því sú afstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér að gerðum þessum breytingum, önnur en eða umfram þau umhverfisáhrif sem þegar hafi verið lagt mat á og tekin afstaða til við útgáfu fyrri framkvæmdarleyfa. Ekki sé fullnægjandi grundvöllur fyrir þessari afstöðu stofnunarinnar með þeim gögnum sem hin kærða ákvörðun sé reist á, en þau gögn hafi aðeins að geyma mjög takmarkaðar upplýsingar um möguleg áhrif breyttrar staðsetningar eldissvæða og breytts fyrirkomulags útsetningar.

Breytingin feli í sér að eldissvæði verði nær hvert öðru. Því til viðbótar sé verið að leggja til breytta útsetningaráætlun. Um áhrif framkvæmdarinnar með þessum breytingum á meðal annars lífríki í firðinum liggi ekki fyrir nægilegar upplýsingar í gögnum málsins. Af gögnunum sé því ekki unnt að álykta að hin breytta framkvæmd geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif önnur en eða umfram þau sem þegar hafi verið lagt mat á. Til viðbótar skorti á að Skipulagsstofnun hafi aflað gagna um ýmis atriði sem umsagnaraðilar bendi á í umsögnum sínum.

Ekki liggi fyrir í gögnum málsins samandregnar fullnægjandi upplýsingar um gerð og eiginleika mögulegra umhverfisáhrifa breyttrar framkvæmdar. Skipulagsstofnun hafi því ekki getað fullyrt, svo forsvaranlegt væri, á grundvelli þessara gagna að hin breytta framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif önnur en eða umfram þau sem stofnunin hafi áður lagt mat á og tekið afstöðu til í áliti sínu um matsskýrslu framkvæmdaraðila frá 2018. Samkvæmt framansögðu sé hin kærða ákvörðun ekki reist á fullnægjandi upplýsingum um möguleg umhverfisáhrif tilkynntra breytinga, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Í hinni kærðu ákvörðun séu heldur ekki færð fullnægjandi rök fyrir þeirri niðurstöðu stofnunarinnar að hin tilkynnta breyting geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Ekki sé rökstutt, með vísan til eðlis, umfangs og staðsetningar fyrirhugaðrar framkvæmdar, að hún sé ekki líkleg, að gerðum hinum tilkynntu breytingum, til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif önnur en eða umfram þau, sem þegar hafi verið metin og tekin afstaða til. Rökstuðningurinn uppfylli hvergi nærri þær ströngu kröfur sem leiði af lögum nr. 106/2000. Hafa beri í huga að hér sé um verulega breytingu að ræða á umfangsmikilli framkvæmd sem fyrir liggi að haft geti í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna eðlis síns og staðsetningar í sjó. Í samræmi við flókið samspil slíkrar framkvæmdar við það lífríki sem fyrir sé í sjó og nærliggjandi ám og strandsvæðum sé krafist ítarlegs rökstuðnings fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar. Í slíkum tilvikum kunni rök Skipulagsstofnunar að koma í stað frekara mats á umhverfisáhrifum hlutaðeigandi framkvæmdar. Ef lög nr. 106/2000 eigi að ná markmiði sínu verði því að vera tryggt að rökstuðningur stofnunarinnar sé réttur og fullnægjandi. Þá skorti mjög á að tekin sé rökstudd afstaða í hinni kærðu ákvörðun til þeirra atriða sem bent sé á í umsögnum umsagnaraðila. Samkvæmt framansögðu sé rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar ekki í samræmi við fyrirmæli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. einnig 22. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er bent á að tilkynning framkvæmdaraðila beri þess merki með skýrum hætti að tilkynningin lúti aðeins að tveimur þáttum, þ.e. breytingu á eldissvæðum og útsetningaráætlun. Hvergi komi fram í tilkynningunni að hún lúti að aukningu á eldi úr 6.000 tonnum í 9.800 tonn af frjóum laxi á ári. Ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi eingöngu snúið að tilfærslu eldissvæða og breytingu á útsetningaráætlun. Í matsskýrslu framkvæmdaraðila frá 2018 hafi áhrif þess að ala allt að 9.800 tonn af frjóum laxi í Berufirði verið metin. Í matsskýrslunni hafi komið fram að áhættumati Hafrannsóknastofnunar yrði fylgt og því hafi verið áformað að sækja um leyfi til að ala 6.000 tonn af frjóum laxi í Berufirði í samræmi við áhættumatið, eins og það hafi verið þegar matsskýrsla hafi verið unnin. Í matsskýrslu hafi jafnframt verið tekið fram að áhættumatið gæti tekið breytingum og að framleiðsluáætlanir framkvæmdaraðila myndu taka breytingum til samræmis við áhættumatið hverju sinni. Framleiðslumagn frjós fisks myndi þó ekki fara yfir 20.800 tonn í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé vikið að framangreindu, þ.e. að breytingar hafi orðið á áhættumatinu og í ljósi þess sem fjallað hafi verið um í matsskýrslu hafi framkvæmdaraðili óskað eftir uppfærslu gildandi leyfis í Berufirði með það í huga að magn frjós fisks verði aukið í samræmi við breytt áhættumat. Að öðru leyti sé ekki fjallað um frjóan lax í tilkynningunni. Að mati Skipulagsstofnunar beri að skilja umfjöllunina á þann hátt að samhliða tilkynningu um breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Berufirði hyggist framkvæmdaraðili auka magn á frjóum fiski til samræmis við breytt áhættumat, líkt og fjallað hafi verið um í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þá sé þess getið að í kjölfar álits Skipulagsstofnunar um mat á áhrifum allt að 20.800 tonna eldis í Berufirði og Fáskrúðsfirði hafi framkvæmdaraðili óskað frekari skýringa á því hvort þörf væri á sérstakri málsmeðferð á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum kæmi til breytinga á áhættumati og aukningu á frjóum fiski í eldi fyrirtækisins til samræmis við breytt áhættumat.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé ekki beint fjallað um áhrif minni fjarlægðar milli kvía og tíðari útsetningar seiða m.t.t. laxalúsar og sjúkdóma, en samt sé fjallað um villta laxfiska í tilkynningunni. Þar sé lýst þeirri afstöðu framkvæmdaraðila að breytt staðsetning eldissvæða muni ekki hafa miklar breytingar í för með sér varðandi þá áhættuþætti sem snúi að hugsanlegum áhrifum á villta laxastofna. Ef breytingin leiði til bættrar velferðar eldisfisks þá muni breytt staðsetning hafa jákvæð áhrif m.t.t laxastofna. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar komi fram að fyrirhuguð breyting á framkvæmdinni sé ekki líkleg til að auka hættu á slysasleppingum eða auka álag á villta laxfiska vegna laxalúsar eða sjúkdóma. Lesa verði tilkynninguna og framangreinda afstöðu stofnunarinnar með hliðsjón af því sem fram komi í áliti stofnunarinnar frá 14. júní 2018 um mat á umhverfisáhrifum vegna 20.800 tonna framleiðslu á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Þar sé að finna umfjöllun um fisksjúkdóma og laxalús.

Ítrekað sé að tilkynning framkvæmdaraðila hafi ekki lotið að stóraukinni framleiðslu fyrirtækisins á frjóum laxi. Af því leiði að hjá þeim umsagnaraðilum sem stofnunin hafi leitað til hafi ekki verið fyrir hendi forsendur til að gefa álit á umræddu atriði. Þá sé bent á að í 3. mgr. 12. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum sé ekki gerð krafa um að umsagnaraðilar rökstyðji hvort þeir telji að tilkynning sé fullnægjandi um þau atriði sem talin séu upp í málsgreininni. Þá segi í málsgreininni „eftir því sem við á“ varðandi atriðin. Hins vegar beri þeim að rökstyðja hvort tilkynntar breytingar á framkvæmd skuli háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. orðalagið „hvort og þá á hvaða forsendum“ og þá „út frá þeim atriðum sem falla undir starfssvið umsagnaraðila.“ Í umsögn flestra umsagnaraðila sé að finna fullnægjandi rökstuðning að baki því hvort umrædd framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Hjá tveim eða þrem umsagnaraðilum kunni að vera að rökstuðningur sé ekki fullnægjandi með tilliti til framangreinds reglugerðarákvæðis. Ekki fáist þó séð að slíkt, eitt og sér, geti leitt til þess að verulegur annmarki sé á ákvörðun um matsskyldu.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar varði ekki leyfisveitingu heldur hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Því taki ákvörðunin ekki afstöðu til þess hvort áhættumat erfðablöndunar og burðarþols falli undir gildissvið laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og geti verið grundvöllur fyrir útgáfu framkvæmdaleyfi.

Ljóst sé af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 3/2020 að ekki sé ætlast til þess að í ákvörðun um matsskyldu, vegna breytingar á framkvæmd sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum, séu að nýju metin umhverfisáhrif hinnar upphaflegu framkvæmdar heldur einskorðist ákvörðunin við þau áhrif sem breytingin geti kallað fram. Hin kærða ákvörðun sé reist á fullnægjandi gögnum og því séu þær kröfur sem leiði af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 uppfylltar. Fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum allt að 20.800 tonna eldis í Fáskrúðsfirði og Berufirði sem byggi m.a. á rannsóknum sem varði botndýr, hafstrauma, öldufar og súrefni í Berufirði. Þá hafi legið fyrir umsagnir þeirra sérfræðistofnana sem búi yfir þekkingu á þeim umhverfisþáttum sem fyrirhuguð breyting sé líkleg til að hafa áhrif á. Fram komi í umsögn Umhverfisstofnunar að breytingin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér aukin umhverfisáhrif umfram þau sem lýst hafi verið í upphaflegu umhverfismati. Einnig komi fram í umsögn Matvælastofnunar að ekki sé ástæða til að meta umhverfisáhrif breytingarinnar.

Rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sé að mati Skipulagsstofnunar fullnægjandi með tilliti til 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin hafi í stjórnsýsluframkvæmd sinni litið svo á að rökstyðja beri ákvörðun út frá þeim sjónarmiðum í 2. viðauka sem „við eiga í hverju máli.“ Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 53/2020 segi t.d.: „Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun varðar hvaða liðir vegi þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar geti talist umtalsverð.“ Í athugasemdum við frumvarp það er orðið hafi að breytingalögum nr. 96/2019 komi fram að Skipulagsstofnun beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem „skipti mestu máli“ hvað varði framkvæmdina. Samkvæmt því sem hér sé rakið þurfi ekki alltaf að víkja að öllum sjónarmiðum í viðaukanum. Hin tilkynnta framkvæmd hafi ekki kallað á frekari rökstuðning, en skoða verði rökstuðninginn með hliðsjón af áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018. Þá sé bent á að í athugasemdum með frumvarpi því er orðið hafi að stjórnsýslulögum komi fram að í flestum tilvikum ætti tiltölulega stuttur rökstuðningur fyrir ákvörðunum að nægja í málum á „fyrsta stjórnsýslustigi.“ Jafnvel þó svo að úrskurðarnefndin telji rökstuðninginn annmarka á hinni kærðu ákvörðun þá sé hann ekki svo verulegar að leiði til ógildingar ákvörðunarinnar.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er gerð krafa um að málinu verði vísað frá þar sem ekki liggi fyrir fullnægjandi umboð til þess lögmanns sem riti undir kæruna frá kærendum. Umboðin séu haldin ágalla þar sem þau séu óvottuð, auk þess sem hin kærða ákvörðun sé ranglega dagsett. Formenn félagasamtakanna geti ekki tekið ákvörðun um kæru fyrir hönd félaganna án þess að fyrir liggi viðeigandi heimild til þess. Of seint sé að bæta úr annmörkunum. Þá hafi samtökin ekki sýnt fram á að þau uppfylli skilyrði sem sett séu fyrir aðildarhæfi í 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn um hvaða hagsmuni þeir kunni að hafa af úrlausn málsins. Skorti þá því lögvarða hagsmuni í málinu og beri að vísa málinu frá, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1007/2020. Við mat á lögvörðum hagsmunum verði að miða við hvað breytingin feli í sér og hverju hún breyti frá skilgreindu ástandi samkvæmt mati á umhverfisáhrifum, en umdeild breytingin hafi ekki áhrif á kærendur. Fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum fyrir eldi á 9.800 tonnum af frjóum laxi í Berufirði og feli tillaga að breytingu ekki í sér breytingu á framleiðslumagni eða nokkru því sem geti haft áhrif á hagsmuni kærenda eða félagsmenn þeirra. Að auki liggi fyrir mat sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar á hættu á erfðablöndun af eldi í Berufirði og sé hún hverfandi eða engin.

Við mat á ógildingu þurfi að hafa hugfast að lax sé nú önnur verðmætasta útflutningsfiskafurð Íslands og fiskeldi sé meginatvinnustoð tveggja landsfjórðunga. Því þurfi mikið að koma til svo hin kærða ákvörðun verði ógild. Ákvörðun Skipulagsstofnunar og tilkynningar framkvæmdaraðila um fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningu uppfylli þau skilyrði sem sett séu í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og samnefndri reglugerð nr. 660/2015. Skipulagsstofnun hafi aflað umsagna leyfisveitanda og annarra hlutaðeigandi umsagnaraðila og sé engin þessara umsagna háð annmörkum, a.m.k. ekki annmörkum sem geti leitt til þess að kröfur kærenda verði teknar til greina. Beiting 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar sé háð mati Skipulagsstofnunar, enda sé gerður sá fyrirvari að meta skuli upplýsingaskyldu út frá eðli og umfangi hlutaðeigandi framkvæmdar, en jafnframt að leita skuli umsagnar annarra en leyfisveitenda eftir eðli máls, líkt og gert hafi verið.

Þegar rætt sé um eldi á frjóum laxfiski þá sé talað um lax, enda sé lax alltaf frjór nema það eigi sér stað inngrip í þroskaferil hans. Sé verið að ræða um eldi á ófrjóum laxi þá sé undantekningarlaust rætt um ófrjóan lax. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018 sé eldi á 9.800 tonnum af frjóum fiski í Berufirði, en gerður sé fyrirvari um að framkvæmdin sé alltaf í samræmi við gildandi áhættumat á hverjum tíma. Matsskýrslan sé mjög skýr hvað þetta varði. Stefna framkvæmdaraðila hafi, allt frá því áhættumat erfðablöndunar hafi fyrst verið kynnt 14. júlí 2017, verið sú að fylgja matinu og sé það nú lagaskylda. Kærendur rugli saman annars vegar magni frjós fisks samkvæmt útsetningaráætlun, sem endurspegli ávallt áhættumat og taki breytingum, og svo tilgreindu magni fisks í eldi samkvæmt mati á umhverfisáhrifum. Magn samkvæmt útsetningaráætlun geti því bæði hækkað og lækkað út frá gildandi áhættumati og leyfum, en alinn frjór fiskur fari þó aldrei yfir 20.800 tonn í báðum fjörðunum.

Eldi á frjóum fiski og ófrjóum sé ekki frábrugðið hvort öðru nema að því er taki til hættu á erfðablöndun við villta stofna. Ef fjallað hefði verið um eldi og áhrif eldis á ófrjóum fiski á villta stofna í matsskýrslunni hefði þá umfjöllun verið að finna í kafla 6.5.3. um umhverfisáhrif. Sá kafli matsskýrslunnar geri það hins vegar ekki. Um eldi á ófrjóum fiski sé fjallað í valkostagreiningu og eðli málsins samkvæmt lúti því meginefni skýrslunnar að eldi á frjóum fiski.

Því sé andmælt að ekki sé nægjanlega fjallað um aukningu á eldi á frjóum fiski í tilkynningu framkvæmdaraðila, en það sé Skipulagsstofnunar að meta hverju sinni út frá aðstæðum hversu ítarleg tilkynning þurfi að vera varðandi einstaka þætti. Breyting á útsetningaráætlun taki bæði til breytinga á kynslóðaskiptingu og magni frjós fisks. Fram komi í tilkynningu að framkvæmdaraðili hafi óskað eftir uppfærslu gildandi leyfis með það i huga að magn frjós fisks verði aukið, enda miðist fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar við það að meta hvaða áhrif 9.800 tonna lífmassi af frjóum fiski hafi á fjörðinn og umhverfið. Framkvæmdaraðili hafi óskað eftir því við Matvælastofnun að rekstrarleyfi yrði uppfært miðað við nýtt áhættumat. Sé byggt á því að stofnuninni ber skylda til að uppfæra rekstrarleyfi miðað við breytt áhættumat og kalli slíkt ekki á aðkomu Skipulagsstofnunar, sbr. 4. mgr. 6. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé ítarlega fjallað um tilfærslu svæða, uppdrættir sýndir og nákvæmar hnitsetningar. Einnig sé ítarleg eldisáætlun sett fram ásamt upplýsingum um hvíldartíma, en hann sé óbreyttur frá því sem segi í matsskýrslu. Umsagnir séu vel rökstuddar. Í umsögn Umhverfisstofnunar sé fjallað ítarlega um þá ætlan framkvæmdaraaðila að ala eingöngu frjóan lax og staðfest að í fyrra mati á umhverfisáhrifum hafi verið gert ráð fyrir 9.800 tonna framleiðslu á frjóum laxi. Þar sem tilkynningin lúti að breytingu á eldisáætlun sé bæði vísað til breytingar á fjölda seiða í útsetning, sem og breytingar í frjóan fisk.

Áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat feli ekki í sér áætlanir sem marki stefnu um leyfisveitingar til framkvæmda á tilteknu svæði. Hvort tveggja séu í eðli sínu rannsóknir og séu einungis hluti af mörgum rannsóknum og forsendum sem þurfi að vera fyrir hendi til að leyfi sé veitt til fiskeldis. Þannig geti niðurstaðan orðið sú að fiskeldi verði ekki leyft þótt áhættumat og burðarþolsmat heimili það. Síðan kunni að koma upp sú staða að annað hvort áhættumat eða burðarþolsmat heimili eldi en hitt matið geri það ekki og þá verði ekki af eldi á viðkomandi stað. Áhættumat og burðarþolsmat séu því ekki afgerandi um útgáfu leyfa og séu auk þess háð breytingum og skulu endurskoðast reglulega, sbr. 3. mgr. 6. gr. a og 2. mgr. 6. gr. b í lögum nr. 71/2008.

Þegar áhættumat og burðarþolsmat liggi fyrir vinni Hafrannsóknastofnun svæðaskipulag eldissvæða skv. 4. gr. a í lögum nr. 71/2008, en jafnframt sé gert strandsvæðaskipulag af svæðisráðum samkvæmt lögum nr. 22/2008 um skipulag haf- og standsvæða. Að því loknu sé eldissvæðum úthlutað og þeir aðilar sem fái úthlutun geti farið með fyrirhugaðar framkvæmdir í mat á umhverfisáhrifum. Slíkt mat byggi fjölda rannsókna, þ. á m. áhættumati og burðarþolsmati, og sé það ekki fyrr en að því loknu, ef því ljúki með áliti, sem leyfi geti hugsanlega verið gefið út, en um það eigi Umhverfisstofnun og Matvælastofnun sjálfstætt mat. Þar með sé sjónarmiðum um aðkomu almennings og málskotsrétt fullnægt en það séu einmitt þau sjónarmið sem lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana byggi á. Sú ákvörðun sem hér sé til umfjöllunar byggi á mati á umhverfisáhrifum þar sem allir þeir þættir sem ákvörðunin byggi á hafi verið kynntir almenningi og þeim gefist kostur á að gera athugasemdir. Umfang og eðli framkvæmdarinnar hafi ekki breyst frá því að matið hafi verið gert og sé því um að ræða óverulegar breytingar sem séu undanþegnar lögum nr. 105/2006 samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, sbr. 10. gr. Um það hafi Skipulagsstofnun úrskurðað með ákvörðun sinni. Það að kynna framkvæmd aftur og gera um hana umhverfisskýrslu væri tvíverknaður og ekki í samræmi við markmið laga nr. 105/2006.

Kærð sé ákvörðun Skipulagsstofnunar sem falli ekki undir lög nr. 105/2006, en að auki sé í þeim lögum ekki heimild til ógildingar ákvörðunar, hvað þá sjálfstæðrar ákvörðunar sem ekki sé fjallað um í lögunum, eins og ákvörðun um matsskyldu sé. Eftir gildistöku breytingalaga nr. 101/2019 hafi dómstólar og úrskurðarnefndin ítrekað fjallað um mál tengd leyfisveitingum til fiskeldis þar sem áhættumat og burðarþolsmat hafi komið til skoðunar og legið til grundvallar úrlausn máls, s.s. úrskurði í málum nr. 89/2020 og 3/2020 og úrskurð Landsréttar í máli nr. 10/2019. Í þeim málum hafi ekki verið vikið að því að áhættumat eða burðarþolsmat falli undir lög nr. 105/2006. Hafa beri hugfast að úrskurðarnefndinni beri að beita málsástæðum og lagarökum þótt málsaðilar hafi ekki haldið þeim fram í gögnum málsins.

Þá sé það Skipulagsstofnun sem skeri úr um ef vafi leiki á því hvort lög nr. 105/2006 eigi við. Af framkvæmd megi ráða að Hafrannsóknastofnun telji áhættumat og burðarþolsmat ekki falla undir lögin og hafi það mat verið staðfest af ráðherra að því er taki til áhættumats. Skipulagsstofnun hafi gefið út álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar þar sem áhættumat og burðarþolsmat sé lagt til grundvallar og af því megi ráða að stofnunin meti það svo að lög nr. 105/2006 nái ekki yfir áhættumat og burðarþolsmat. Hin kærða ákvörðun byggi á áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar frá 14. júní 2018, en rekstrarleyfi hafi verið gefið út 21. mars 2019 og starfsleyfi 19. s.m. Allt hafi þetta farið fram fyrir gildistöku laga nr. 101/2019 þegar áhættumat og burðarþolsmat hafi verið lögfest. Ekki verði talið að lögum nr. 105/2006 verði beitt um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, eða ákvörðun byggða á því mati, sem framkvæmt hafi verið fyrir gildistöku laga nr. 101/2019.

Fyrir liggi ítarlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar ásamt valkostagreiningu. Matið byggi á því að hvíld milli kynslóða sjókvíaeldissvæðis sé 9-12 mánuðir og sé það óbreytt samkvæmt tillögu framkvæmdaraðila. Með breytingunni sé fóðrun minnkuð og seiðum í sjó fækkað. Þá sé ítarleg umfjöllun um möguleg áhrif á æðarvarp í mati á umhverfisáhrifum. Í vöktunaráætlun framkvæmdaraðila, sem samþykkt sé af Umhverfisstofnun, sé gert ráð fyrir vöktun áhrifa eldis á fuglalíf. Ekki hafi fundist laxalús á eldisfiski á Austfjörðum, en fiskilús hafi fundist og sé hún talin meinlaus.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í athugasemdum framkvæmdaraðila komi fram að breyting á útsetningaráætlun feli í sér breytingu á framleiðslumagni á frjóum fiski úr 6.000 tonnum í 9.800 tonn. Liggi því fyrir að með hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið tekin afstaða til matsskyldu vegna eins þeirra meginþátta sem hin tilkynnta breyting hafi lotið að. Óháð því hvort það eigi rætur að rekja til annmarka á tilkynningu framkvæmdaraðila eða ófullnægjandi mats og rannsóknar Skipulagsstofnunar sé hin kærða ákvörðun að þessu leyti haldin verulegum annmarka sem leiði óhjákvæmilega til þess að hún verði felld úr gildi.

Áréttað sé að hin kærða ákvörðun feli ekki í sér að breyting á eldi á frjóum laxi úr 6.000 tonnum í 9.800 tonn sé ekki matsskyld af þeirri ástæðu að umhverfisáhrif breyttrar framkvæmdar hafi þegar verið metin með fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum. Eins og skýrlega komi fram í umsögn Skipulagsstofnunar hafi stofnunin ekki tekið efnislega afstöðu til þess hvort þessi breyting á framkvæmdinni sé matsskyld. Ekki reyni því á gildissvið fyrirliggjandi mats á umhverfisáhrifum að þessu leyti við úrlausn kærumálsins. Mat á umhverfisáhrifum skv. 4. gr. a í samnefndum lögum nr. 106/2000 samanstandi af sex þáttum sem þar séu nánar tilgreindir, þ.m.t. athugun Skipulagsstofnunar á matsskýrslu framkvæmdaraðila, áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og að álit stofnunarinnar sé lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um leyfi til framkvæmda. Hvað sem líða kunni áformum framkvæmdaraðila um síðari breytingar hafi álit Skipulagsstofnunar frá 14. júní 2018 á matsskýrslu framkvæmdaraðila skýrlega verið reist á þeirri forsendu, sem einnig komi fram í matsskýrslunni, að í hinni metnu framkvæmd fælist framleiðsla á að hámarki 6.000 tonnum á ári af frjóum laxi í Berufirði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að breyting á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Berufirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuni að gæta geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga teljist eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna tilgreindra ákvarðana, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. teljast umhverfisverndarsamtök samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Samtök skv. 1. og 2. málsl. skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald. Meðal þeirra ákvarðana sem framangreind samtök geta kært eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda samkvæmt 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Fyrir úrskurðarnefndinni liggja gögn er sýna fram á að kærendur uppfylla fyrrnefnd skilyrði kæruaðildar. Þá verða fyrirliggjandi umboð samtakanna til lögmanns ekki talin ófullnægjandi, svo sem framkvæmdaraðili heldur fram.

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt flokki B, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B skulu háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. nefndra laga. Þegar framkvæmdaraðili hefur tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr., tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar.

Í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Niðurstöðu sína um hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skal Skipulagsstofnun skv. 3. mgr. nefndrar 6. gr., svo sem henni var breytt með lögum nr. 96/2019, rökstyðja með hliðsjón af þeim viðmiðum sem talin eru upp í 2. viðauka laga nr. 106/2000, en þau eru í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka, en undir hverjum tölulið er svo talinn upp fjöldi annarra liða. Skal Skipulagsstofnun taka matsskylduákvörðun innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina og er stofnuninni heimilt að setja fram ábendingar um tilhögun hennar sé hún ekki matsskyld að áliti stofnunarinnar. Í frumvarpi með breytingalögum nr. 96/2019 er tekið fram að með breytingunni sé gerð skýrari krafa um innihald ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Henni beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem skipti mestu máli hvað varðar framkvæmdina. Rökstuðningur eigi bæði við um ákvörðun um að framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum og ákvörðun um að framkvæmd skuli ekki háð slíku mati. Skipulagsstofnun skuli byggja ákvörðun sína um matsskyldu á upplýsingum frá framkvæmdaraðila, en sé einnig heimilt að byggja hana á öðrum gögnum. Þar undir gætu til dæmis fallið forprófanir eða mat á umhverfisáhrifum sem fram hafi farið á grundvelli annarra laga og ábendingar sem stofnuninni berist, til dæmis frá öðrum stofnunum og almenningi.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Múlaþings, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, eins og rakið er í málavaxtalýsingu. Telur Umhverfisstofnun í sinni umsögn að breytingin muni ekki koma til með að hafa neikvæð áhrif og að áhrif framkvæmdarinnar liggi ljós fyrir. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar er vísað til þess að breytingin hafi ekki áhrif á burðarþolsmat stofnunarinnar fyrir Berufjörð. Fiskistofa bendir á að breytingin muni ekki hafa miklar afleiðingar í för með sér varðandi þá áhættuþætti sem snúi að hugsanlega áhrifum á villta laxa- og silungastofna. Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að þau eldissvæði sem fyrirhugað sé að breyta og bæta við í Berufirði séu utan hafnarmarka Djúpavogshafnar. Telja fyrrgreindar stofnanir ekki nauðsyn á að mat á umhverfisáhrifum fari fram vegna breytingarinnar. Minjastofnun gerir þá kröfu í umsögn sinni að stofnuninni verði kynnt gögn sem kunni að liggja fyrir vegna skönnunar á botni eldissvæða í Berufirði eða vegna köfunar sem fram hafi farið á svæðinu. Þess sé óskað að teknar verði myndir af þeim stöðum þar sem fyrirhugað sé að koma fyrir botnfestingum og að stofnuninni verði gefinn kostur á að koma að athugasemdum við staðsetningu áður en gengið verði frá festingum. Að því gefnu að gengið verði að kröfum stofnunarinnar telji hún breytinguna ekki háða mati á umhverfisáhrifum. Matvælastofnun telur ekki ástæðu til þess fram fari mat á umhverfisáhrifum breytingarinnar verði gætt að hvíld milli tæmingar og útsetningar á eldissvæðum Glímeyrar og Svarthamarsvíkur, sbr. 46. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi. Þá telur Múlaþing í sinni umsögn ekki ástæðu til að meta umhverfisáhrif breytingarinnar þótt rökstyðja þurfi betur ýmsa þætti fyrirhugaðrar breytingar ásamt því að fjalla þurfi um mótvægisaðgerðir við hugsanleg áhrif á fjöruvistgerðir í fjarðarbotni. Hins vegar kemur fram í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands að það sé mat stofnunarinnar að meta skuli umhverfisáhrif breytingarinnar í ljósi þess að um sé að ræða starfsemi á alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði, auk þess sem umfjöllun um áhrif á fugla hafi verið verulega áfátt í upphaflegri matsskýrslu. Bent sé á að flórgoðar haldi m.a. til við Gautavík en þangað verði eldissvæði flutt.

Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar skiptist í nokkra kafla. Fyrirhugaðri framkvæmd er lýst, þ.e. áformum framkvæmdaraðila um tilfærslu eldissvæða og breytta útsetningaráætlun, fjallað er um umhverfisáhrif breytingar framkvæmdarinnar, eins og þeim var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og umsögnum umsagnaraðila. Fram kemur að vegna fyrrgreindrar umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands hafi framkvæmdaraðili í samstarfi við RORUM og Náttúrustofu Austfjarða hafið vöktun á nýtingu fugla, einkum flórgoða, duggandar og himbrima á Berufirði og Berufjarðarströnd. Rannsóknin muni standa yfir í eitt ár og taka sérstaklega til þeirra atriða sem nefnd hafi verið af Náttúrufræðistofnun Íslands. Í framhaldinu verði lögð fram endurskoðuð vöktunaráætlun sem taki mið af niðurstöðum rannsóknarinnar, en samkvæmt útsetningaráætlun fyrir eldissvæðið í Gautavík sé gert ráð fyrir að útsetning eigi sér stað í ágúst 2023. Þá hafi framkvæmdaraðili, vegna umsagnar Minjastofnunar, upplýst um að Köfunarþjónustan ehf. hafi gert fjölgeislamælingu vegna fyrirhugaðrar uppsetningar eldiskvía í og við Gautavík. Samkvæmt mælingu sem gerð hafi verið í lok október 2020 sé ekkert sem bendi til að menningarminjar séu á svæðinu. Komi síðar fram eitthvað sem bendi til að fornleifar séu á sjávarbotni verði Minjastofnun gert vart við og þeim afhent viðeigandi gögn. Í frekari viðbrögðum stofnunarinnar komi fram að hún telji gögnin fullnægjandi svar við athugasemdum þeim sem fram hafi komið í umsögn hennar. Að lokum er í kafla um skipulag og leyfi vikið að þeim leyfum sem framkvæmdin er háð.

Í niðurstöðukafla sínum vísar Skipulagsstofnun til þess að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af eðli hennar, m.a. stærð og umfangi og úrgangsmyndun. Einnig skuli taka mið af staðsetningu framkvæmdar, m.t.t. hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, s.s. með tilliti til þeirrar landnotkunar sem fyrir sé og álagsþols náttúrunnar, þ.m.t. strandsvæða og kjörlendi dýra. Þá beri að skoða áhrif framkvæmdar í ljósi eiginleika hugsanlegra áhrifa, einkum með tilliti til svæðis sem ætla megi að verði fyrir áhrifum, stærðar og fjölbreytileika áhrifa og tímalengdar.

Í umfjöllun Skipulagsstofnunar um staðsetningu og eðli framkvæmdar er vísað til þess að fyrir liggi álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum allt að 20.800 tonna framleiðslu á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði frá 14. júní 2018. Um sé að ræða breytingu á þeirri framkvæmd sem felist í því að breyta staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Berufirði. Gera megi ráð fyrir því að uppsöfnun næringarefna verði að einhverju leyti sambærileg því sem gert hafi verið ráð fyrir í matsskýrslu. Að mati stofnunarinnar sé óvissa um áhrif fyrirhugaðs eldis í Berufirði á súrefnisinnihald við botn og þá sér í lagi í nágrenni eldissvæðis við Glímeyri, þar sem eldissvæðið sé staðsett nokkuð innarlega í firðinum og að hluta til innan við þröskuld yfir hvilft. Í ljósi þess að Hafrannsóknastofnun geri ekki athugasemd við áform framkvæmdaraðila um breytt fyrirkomulag og telji breytinguna ekki þurfa að fara í mat á umhverfisáhrifum telji Skipulagsstofnun ólíkt að fyrirhuguð breyting hafi umtalsverð áhrif á súrefnisstyrk. Með hliðsjón af reynslu af fiskeldi hérlendis telji stofnunin að miklar breytingar verði á botndýralífi undir sjókvíum sem færist þó líklega í svipað ástand á ný ef nægileg hvíld verði á uppsöfnun lífrænna leifa eða ef uppsöfnun hætti alfarið. Framkvæmdaraðili áformi að hvíla eldissvæði á milli kynslóða. Að mati stofnunarinnar þurfi vöktun að leiða í ljós árangur þeirrar hvíldar, en dæmi séu um að botn beri einkenni raskaðs ástands eftir níu mánaða hvíld. Telji stofnunin mikilvægt að í starfsleyfi verði skýrt kveðið á um við hvaða umhverfisaðstæður heimilt sé að setja út seiði. Þá bendir stofnunin á að í Berufirði sé að finna mikilvæg fuglasvæði, en flórgoðar haldi til í Gautavík þar sem fyrirhugað sé að koma fyrir nýju eldissvæði. Í kjölfar umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands hafi framkvæmdaraðili lagt fram áætlun um fuglatalningar í Berufirði með sérstaka áherslu á flórgoða og Gautavík. Fuglaathuganir muni standa yfir í eitt ár og á grundvelli þeirra verði lögð fram endurskoðuð vöktunaráætlun áður en til útsetningar komi í Gautavík. Í ljósi þess telji Skipulagsstofnun ólíklegt að áhrif fyrirhugaðra breytinga á fugla verði umtalsverð, enda sé auðvelt að færa eldiskvíar til ef vöktun gefi tilefni til. Mikilvægt sé við útgáfu starfsleyfis að kveða á um að útsetning í Gautavík fari ekki fram fyrr en fyrir liggi endurskoðuð vöktunaráætlun að loknum þeim athugunum sem framkvæmdaraðili hafi boðað og að skýrt verði kveðið á um vöktun á fuglum. Þá muni tilfærsla eldissvæðanna ekki breyta áhrifum fiskeldis á ásýnd frá því sem nú sé. Til að mynda muni eldissvæði færast fjær Teigarhorni sem sé að hluta friðlýst sem náttúruvætti og sem fólkvangur. Að lokum sé fyrirhuguð breyting á framkvæmd ekki líkleg til að auka hættu á slysasleppingum eða auka álag á villta laxfiska vegna laxalúsa eða sjúkdóma. Hvað eiginleika hugsanlegra áhrifa breytingarinnar varði telur stofnunin umhverfisáhrif muni að mestu verða sambærileg fyrri framkvæmd. Var niðurstaða Skipulagsstofnunar, eins og fyrr greinir, sú að hin umdeilda breyting skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B í 1. viðauka laganna. Ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar skal Skipulagsstofnun byggja á þeim upplýsingum sem framkvæmdaraðili hefur lagt fram, sbr. 2. mgr., og öðrum gögnum um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, ef við á. Tilkynning framkvæmdaraðila einskorðaðist við breytingu á eldissvæðum og útsetningaráætlun. Í texta tilkynningarinnar kemur fram að sett verði út seiði á hverju ári þannig að almennt verði tvö svæði í notkun og tvö svæði í hvíld á hverjum tíma. Fjallað er um fjölda og stærð seiða og tekið fram að lífmassi muni aldrei fara yfir 9.800 tonn, en ekki hver skipting verði í frjóan lax og ófrjóan. Ný útsetningar- og eldisáætlun í viðauka 1 með tilkynningunni tilgreinir sömu atriði, sömuleiðis án þess að slík skipting komi fram. Þótt vikið sé að þeirri fyrirætlan framkvæmdaraðila að fá leyfum sínum breytt á þann veg að meira magn frjós lax verði alið er ljóst að tilkynning hans lýtur ekki að þeim breytingum. Var því Skipulagsstofnun ekki skylt að fjalla um aukningu á eldi á frjóum laxi, svo sem kærendur telja að stofnuninni hafi borið að gera. Að sama skapi er það ekki ágalli á þeim umsögnum sem Skipulagsstofnun aflaði sem hluta af rannsókn málsins á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að ekki hafi verið fjallað um aukna framleiðslu á frjóum laxi. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum skal í umsögn umsagnaraðila koma fram hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun, eftir því sem við á. Þegar litið er til eðlis og umfangs þeirrar breytingar á framkvæmd sem um ræðir verður ekki talið að frekari umfjöllun eða rökstuðningur umsagnaraðila hafi átt við í skilningi nefnds reglugerðarákvæðis.

Svo sem henni bar lagði Skipulagsstofnun að lokum sjálfstætt mat á það hvort breytingin á framkvæmdinni skyldi háð mati á umhverfisáhrifum, en taldi að svo væri ekki. Ljóst er að ekki er ætlast til þess að í ákvörðun um matsskyldu, vegna breytingar á framkvæmd sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum, séu metin að nýju umhverfisáhrif hinnar upprunalegu framkvæmdar heldur einskorðast ákvörðunin við þau áhrif sem breytingin getur kallað fram. Verður að skoða röksemdir Skipulagsstofnunar fyrir niðurstöðu hennar í því ljósi. Þá fer það eðli máls samkvæmt eftir þeirri breytingu á framkvæmd sem ákvörðun snýst um hvaða atriði sem tiltekin eru í 1.-3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif breytingarinnar teljist umtalsverð. Það að breyting framkvæmdar falli undir einhvern liðanna leiðir ekki sjálfkrafa til matsskyldu, en kann eftir atvikum að gefa tilefni til að kanna sérstaklega samspil allra þeirra liða sem upp eru taldir í 2. viðauka. Reynsla af upprunalegu framkvæmdinni, vöktun og mótvægisaðgerðum kann að gefa vísbendingu um hver áhrif breytingarinnar kunni að verða. Að þessu virtu var að áliti úrskurðarnefndarinnar lagt mat á þá þætti sem máli skiptu um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni, svo sem hún var kynnt af framkvæmdaraðila. Þá tók Skipulagsstofnun við það mat, sem áður er fjallað um, viðhlítandi tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka nefndra laga.

Kærendur byggja m.a. á því að áður en hin kærða matsskylduákvörðun var tekin hafi umhverfismat áætlana samkvæmt þágildandi lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana ekki farið fram vegna mats Hafrannsóknastofnunar á áhættu af erfðablöndun frjórra eldislaxa við villta laxastofna, sbr. 6. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006 gilda þau um umhverfismat þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytingar á þeim sem marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar er undanfari leyfis til framkvæmda sem fellur undir lög nr. 106/2000, s.s. þegar um er að ræða leyfi fyrir fiskeldi, en ákvörðunin sjálf felur ekki í sér slíkt leyfi. Raskar því skortur á umhverfismati áætlana, óháð því hvort það hefði átt að fara fram eða ekki vegna hinnar upprunalegu framkvæmdar, ekki gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hún tók hin kærðu matsskylduákvörðun, lagt tilhlýðilegt mat á efni málsins og rökstutt niðurstöðu sína með fullnægjandi hætti. Þar sem enga þá annmarka er að finna á hinni kærðu ákvörðun sem leiða ættu til ógildingar verður kröfu kærenda þar um hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 28. apríl 2021 um að breyting á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun sjókvíaeldis í Berufirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

16/2021 Patreksfjörður og Tálknafjörður

Með

Árið 2021, mánudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. janúar 2021 um að notkun eldisnóta með ásætuvörn í sjóakvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. febrúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Náttúruverndarsamtök Íslands og Íslenski náttúruverndarsjóðurinn (IWF) þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. janúar 2021 að notkun eldisnóta með ásætuvörn í sjóakvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrðu frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 24. febrúar 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 26. mars 2021.

Málavextir: Arnarlax hf. hefur leyfi til sjókvíaeldis á 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Kveðið er á um í gildandi starfsleyfi félagsins að ekki sé heimilt að losa þau efni sem talin séu upp í listum I og II í viðauka reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, en kopar er á lista II. Við reglubundið eftirlit Umhverfisstofnunar 14. nóvember 2018 gerði stofnunin athugasemd við að notaðar væru eldisnætur sem innihéldu koparoxíð. Hinn 3. maí 2019 samþykkti stofnunin úrbótaáætlun félagsins með skilyrðum vegna umrædds fráviks.

Skipulagsstofnun barst tilkynning 30. október 2020 um fyrirhugaða breytingu á starfsleyfi félagsins til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, sbr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að félagið hyggðist sækja um breytingu á starfsleyfi svo heimilt yrði að nota eldisnætur með ásætuvörn sem innihéldi koparoxíð. Markmiðið með notkun þessara ásætuvarna væri að draga úr þrifum á eldisnótum. Eldisnætur sem ekki innihaldi kopar þurfi að þrífa á um það bil sex vikna fresti, en ásætuvarnir sem innihaldi koparoxíð þurfi að þrífa á um það bil 8-12 mánaða fresti. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Tálknafjarðarhrepps, Vesturbyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Matvælastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar um fyrirhugaða framkvæmd. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 14. janúar 2021. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að umhverfisverndarsamtök þau sem að kærunni standi fullnægi skilyrðum 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og uppfylli af þeim sökum það skilyrði að eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn fyrirliggjandi kæru, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr., enda samrýmist kæran tilgangi með starfsemi þeirra.

Hin kærða ákvörðun lúti að breytingum á framkvæmd sem falli í flokk B í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. gr. 11.1 og 13.2 í viðaukanum. Í samræmi við það og 1. mgr. 6. gr. laganna, skuli breytingin háð mati á umhverfisáhrifum ef hún geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs síns, eðlis eða staðsetningar. Sé breytingin jafnframt tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. sömu greinar. Skipulagsstofnun beri skv. 3. mgr. 6. gr. laganna að byggja ákvörðun sína um matsskyldu framkvæmdar á þeim upplýsingum sem framkvæmdaraðili hafi lagt fram, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna og 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, og öðrum gögnum um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eftir því sem við eigi, þ.m.t. upplýsingum sem fram komi í þeim umsögnum sem stofnunin hafi aflað í samræmi við fyrirmæli 12. gr. reglugerðarinnar. Við ákvörðun sína á þessum grundvelli beri Skipulagsstofnun að fara eftir þeim viðmiðum sem fram komi í 2. viðauka laganna og rökstyðja niðurstöðuna með hliðsjón af þeim. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og við undirbúning slíkrar ákvörðunar beri stofnuninni m.a. að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin, sbr. 10. gr. sömu laga. Þá beri stofnuninni að haga efni rökstuðnings síns skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 þannig að uppfylltar séu þær lágmarkskröfur um efni rökstuðnings sem lögfestar séu í 22. gr. stjórnsýslulaga.

Á grundvelli fullnægjandi upplýsinga um breytinguna og líkleg umhverfisáhrif framkvæmdarinnar í heild að gerðum þeim breytingum, þ.m.t. fyrirliggjandi niðurstöðu um umhverfisáhrif hennar, upplýsinga um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir og umsagna leyfisveitenda og annarra umsagnaraðila, sem hafi fullnægt kröfum reglugerðar nr. 660/2015, hafi Skipulagsstofnun borið að taka rökstudda afstöðu til þess hvort breytt framkvæmd gæti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs síns, eðlis eða staðsetningar að virtum þeim viðmiðum sem tilgreind séu í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og færa fyrir því fullnægjandi rök með vísan til þessara viðmiða. Hin kærða ákvörðun uppfylli ekki þær kröfur.

Tilkynning framkvæmdaraðila, sem beri heitið fyrirspurn þrátt fyrir að hin tilkynnta breyting falli ótvírætt í flokk B í 1. viðauka laga nr. 106/2000, hafi ekki að geyma þær upplýsingar sem áskilið sé að fram komi í slíkri tilkynningu skv. 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Í fyrsta lagi sé engin efnisleg grein gerð þar fyrir eðli breytingarinnar eða umfangi. Ekki komi þannig fram í tilkynningunni í hvaða magni fyrirhugað sé að nota umrædda ásætuvörn, hver sé samsetning hennar nánar tiltekið og þá hvert sé magn koparoxíðs í henni. Þá sé engin grein gerð fyrir tímalengd fyrirhugaðrar notkunar. Þær upplýsingar hafi grundvallarþýðingu við mat á því hvort notkunin geti haft umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, eins og m.a. umsögn Hafrannsóknastofnunar beri með sér. Í öðru lagi sé ekki gerð nánari grein fyrir umfangi notkunar koparoxíðs við fiskeldi í Arnarfirði, en hafa þurfi í huga að sú afstaða framkvæmdaraðila að hin tilkynnta breyting sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér sé alfarið reist á samanburði við framkvæmdina í Arnarfirði og niðurstöðum mælinga framkvæmdaraðila á umhverfisáhrifum hennar. Í þriðja lagi sé í tilkynningunni ekki vísað til neinna mælinga á umhverfisáhrifum tilkynntrar breytingar þrátt fyrir að fram komi í tilkynningunni að henni hafi þegar verið hrundið í framkvæmd. Í fjórða lagi hafi tilkynningin hvorki að geyma upplýsingar um það botndýralíf eða aðra umhverfisþætti sem breytingin sé talin geta haft áhrif á né almennar upplýsingar um eituráhrif koparoxíðs á slíkt lífríki sem þó séu sögð þekkt og raunar ástæðan fyrir því að framkvæmdaraðili hyggist nota það.

Samkvæmt framansögðu hafi tilkynningin hvorki að geyma fullnægjandi upplýsingar um framkvæmdina sjálfa né um líkleg eða raunveruleg áhrif hennar. Ekki sé því unnt á grundvelli tilkynningarinnar að taka afstöðu til þess hvert sé líklegt umfang umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar, eðli áhrifanna, styrk, tímalengd, afturkræfni eða hverjar séu líkur á að þau komi fram. Tilkynningin hafi því hvorki verið fullnægjandi að formi til né verið til þess fallin að leggja fullnægjandi efnislegan grundvöll að hinni kærðu ákvörðun. Frekari upplýsingar sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun hafi borist frá framkvæmdaraðila 1. og 9. desember 2020 en þær hafi ekki verið birtar opinberlega. Hafi það haft þýðingu fyrir úrlausn málsins hefði borið að leggja fyrir framkvæmdaraðila að bæta úr tilkynningunni og senda hana aftur inn svo breytta þannig að almenningi gæfist kostur á að gera athugasemdir sínar á réttum grundvelli. Tilkynningin lúti í reynd ekki að fyrirhugaðri breytingu heldur breytingu sem hafi verið við lýði um nokkurt skeið og ættu þá upplýsingar um raunveruleg, fremur en áætluð umhverfisáhrif hennar, að liggja fyrir og koma fram í tilkynningunni. Engar slíkar upplýsingar komi þar hins vegar fram.

Skipulagsstofnun sé skylt við meðferð mála á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000 að afla umsagna, m.a. leyfisveitenda, í samræmi við fyrirmæli 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Uppfylli umsagnirnar ekki þær kröfur sem þar komi fram beri stofnuninni í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins um skyldubundna álitsumleitan að leggja fyrir álitsgjafa að bæta þar úr með nýrri umsögn. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar skuli í umsögn koma m.a. fram hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun og hvort og þá á hvaða forsendum umsagnaraðili telji að framkvæmdin skuli háð mat á umhverfisáhrifum út frá þeim atriðum sem falli undir starfssvið umsagnaraðila og að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka laganna. Umsögn Umhverfisstofnunar uppfylli á engan hátt framangreind skilyrði. Þar sé hvorki tekin skýr afstaða til þess hvort tilkynningin geri nægilega grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun né færð rök fyrir þeirri afstöðu stofnunarinnar að áhrif framkvæmdarinnar liggi ljós fyrir nú þegar. Þessum áhrifum, sem stofnunin telji ljós, sé ekki nánar lýst í umsögninni. Sama gildi um umsögn Matvælastofnunar. Sé því ekki fullnægt því formskilyrði að Skipulagsstofnunin hafi áður en ákvörðun hafi verið tekin aflað umsagna leyfisveitenda. Þar sem sú álitsumleitan, sem mælt sé fyrir um í 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015, sé þáttur í fullnægjandi rannsókn máls sé meðferð málsins að þessu leyti heldur ekki í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Aðrar umsagnir hafi að geyma takmarkaðar upplýsingar til viðbótar þeim sem fram komi í tilkynningu framkvæmdaraðila. Auk þess hnígi þrjár umsagnanna í öfuga átt miðað við niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Þannig sé það mat Hafrannsóknastofnunar, Vesturbyggðar og Tálkna­fjarðarhrepps að hin tilkynnta breyting skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Með þessum umsögnum sé því ljóslega ekki lagður grundvöllur að þeirri niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar að breytingin skuli ekki háð slíku mati. Hin kærða ákvörðun leggi til grundvallar að notkun koparoxíðs sem ásætuvarnar kunni að hafa skaðleg áhrif á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum. Í ákvörðuninni sé engin nánari grein gerð fyrir þessum atriðum eða vísað til nánari upplýsinga um þau, þ.m.t. um ástand botndýralífs og sjávar á framkvæmdasvæðinu. Í því sambandi þurfi að hafa í huga að Hafrannsóknastofnun geri í umsögn sinni athugasemdir við áreiðanleika mælinga Akvaplan Niva. Þá þurfi einnig að hafa í huga að áhrif koparoxíðs séu ekki bundin við sjávarbotn heldur geti þau verið víðtækari, eins og bent sé á í umsögn Hafrannsóknastofnunar. Jafnframt hafi enn frekari ástæða verið til að fjalla um áhrif framkvæmdarinnar á botndýralíf í firðinum í ljósi þess að vegna hinnar upphaflegu framkvæmdar hafi þau áhrif verið talin geta verið talsvert neikvæð. Með hinni fyrirhuguðu framkvæmd liggi fyrir að áhrif á botndýralíf muni aukast enn meira frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum upphaflegrar framkvæmdar. Sé því nauðsynlegt að í matsskylduákvörðun sé tekið tillit til allra þeirra mismunandi umhverfisáhrifa sem eldi framkvæmdaraðila komi til með að hafa á botndýralíf á svæðinu. Þá sé í hinni kærðu ákvörðun heldur ekki vísað til neinna almennra vísindalegra rannsókna eða niðurstaðna um eituráhrif koparoxíðs á lífríki í sjó. Slík vísindaleg þekking á afleiðingum framkvæmdar sé forsenda þess að hægt sé að meta hvort hún geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Samkvæmt framansögðu sé hin kærða ákvörðun ekki reist á fullnægjandi upplýsingum um möguleg umhverfisáhrif tilkynntrar breytingar.

Í hinni kærðu ákvörðun séu heldur ekki færð fullnægjandi rök fyrir þeirri niðurstöðu stofnunarinnar að breytingin geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Í ákvörðuninni sé þannig ekki rökstutt, með vísan til eðlis umfangs og staðsetningar fyrirhugaðrar notkunar koparoxíðs á eldisnætur sem ætlaður sé langur líftími í sjó á viðkomandi eldissvæðum, að slík notkun muni ekki hafa í för með sér umtalsverð áhrif á viðkomandi umhverfi. Rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki að geyma þau efnisatriði sem þar eigi að koma fram samkvæmt framansögðu, auk þess að vera rangur að efni til. Virðist hin kærða ákvörðun reist á þeim grundvelli annars vegar að umhverfisáhrif breytingarinnar séu háð óvissu og hins vegar að þau skuli vöktuð og brugðist við síðar ef vöktunin leiði í ljós að um umtalsverð umhverfisáhrif sé að ræða. Þessi rökstuðningur sé í andstöðu við það fyrirkomulag laga nr. 106/2000 að umhverfisáhrif skuli metin með fullnægjandi hætti áður en framkvæmd sé leyfð og að framkvæmdir sem falli í B flokk í 1. viðauka laganna skuli háðar mati á umhverfisáhrifum nema ljóst sé fyrirfram að þær geti ekki haft slík áhrif í för með sér. Af rökstuðningi ákvörðunarinnar verði ekki séð að þessi lagaskilyrði séu fyrir hendi þannig að Skipulagsstofnun hafi verið rétt að undanskilja breytinguna mati á umhverfisáhrifum.

Fyrir liggi í málinu að framkvæmdaraðili hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 106/2000 með því að haga framkvæmd sinni með öðrum hætti en gerð hafi verið grein fyrir í matsskýrslu án þess að tilkynna það áður til Skipulagsstofnunar. Ljóst sé að aðili, sem standi að framkvæmd sem háð sé mati á umhverfisáhrifum, sé ekki heimilt að haga framkvæmd með öðrum hætti en lýst sé í matsskýrslu og tilkynna síðan um breytingu á henni án þess að sú breyting, sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum, sæti jafnframt slíku mati. Ef slík málsmeðferð fengist staðist sé ljóst að framkvæmdaraðilar hefðu hagsmuni af því að lýsa framkvæmd með öðrum hætti en hún væri raunveruleg fyrirhuguð og sækja síðan eftir á um breytingar á henni. Að sama skapi sé ljóst að framkvæmdaraðili geti ekki tilkynnt framkvæmd eða breytingu á henni eftir að hún hafi farið fram án þess að gera samhliða grein fyrir raunverulegum umhverfisáhrifum hennar, sem þá hljóti að liggja fyrir. Liggi slíkar upplýsingar ekki fyrir sökum þess að framkvæmdaraðili hafi, auk þess að framkvæma í andstöðu við gildandi leyfi og mat á umhverfisáhrifum, vanrækt að afla upplýsinga um raunveruleg áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið á þeim tíma sem hún hafi verið við lýði, geti ekki komið til greina að framkvæmdaraðili njóti sjálfur þess vafa sem hann hafi þannig átt þátt í að skapa, með því að ótilkynntar framkvæmdir séu síðan undanþegnar mati á umhverfisáhrifum.

Með hinni tilkynntu notkun koparoxíðs sé ætlunin að eitra fyrir því lífríki sem ella setjist á hlutaðeigandi nætur. Þessi þekktu eituráhrif séu jafnframt ástæða þess að magni kopars séu sett umhverfismörk, m.a. í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, og jafnframt tilefni umfangsmikillar vísindalegrar umfjöllunar um áhrif af notkun kopars í atvinnustarfsemi sem þessari. Eðli hinnar tilkynntu breytingar, þ.e. notkun þungmálms sem þekkt sé að hafi eituráhrif á lífríki og safnist upp án þess að eyðast, veiti tilefni til að ætla að notkunin kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif eftir atvikum. Þegar umfjöllun á grundvelli laga nr. 106/2000 ljúki með ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum fari ekki fram frekara mat á grundvelli þeirra laga. Því sé brýnt að matsskylduákvörðunin sé reist á fullnægjandi upplýsingum, þ.m.t. upplýsingum um fyrirhugaða framkvæmd, vísindalegum upplýsingum um eðli umhverfisáhrifa af völdum slíkra framkvæmda og fullnægjandi upplýsingum um ástand þess umhverfis sem framkvæmdin kunni að hafa áhrif á.

Auk framangreindra atriða verði ekki framhjá því litið að úrskurðarnefndinni beri í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, að leysa með sama hætti úr málum sem séu sambærileg í lagalegu tilliti. Verði það niðurstaða nefndarinnar að ekki séu efni til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi, þrátt fyrir þá annmarka sem meðferð málsins hafi verið haldin samkvæmt framansögðu og aðdraganda þess, væri með þeirri niðurstöðu sett fordæmi sem drægi verulega úr því réttaröryggi sem nefndinni sé ætlað að skapa með eftirliti sínu með stjórnsýslu, m.a. Skipulagsstofnun. Í slíku fordæmi fælist að notkun koparoxíðs sem ásætuvarnar á nætur væri almennt heimil í sjókvíaeldi hér á landi án undangengins mats á umhverfisáhrifum slíkrar notkunar og án þess að lagður hefði verið viðhlítandi grundvöllur að ákvörðun um matsskyldu með fullnægjandi upplýsingum um fyrirhugaða notkun, þau áhrif sem almennt fylgi henni og ástand þess umhverfis þar sem hún sé fyrirhuguð, og það jafnvel í tilvikum eins og því sem hér sé til umfjöllunar þar sem slík ásætuvörn hafi verið tekin í notkun í heimildarleysi og ekki liggi fyrir upplýsingar um raunveruleg umhverfisáhrif þeirrar notkunar. Slíkt fordæmi samrýmist ekki ákvæðum laga nr. 106/2000 eins og þau beri að túlka í ljósi ákvæða EES-samningsins og grundvallarreglna EES-réttarins um einsleitna og skilvirka framkvæmd.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er lögð áherslu á að í upphafi 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum segi að tiltekin gögn skuli fylgja tilkynningu framkvæmdar í flokki B og C, „eftir því sem við á“, að teknu tilliti til eðlis og umfangs framkvæmdar. Ákvörðun stofnunarinnar um matsskyldu taki eðli máls samkvæmt mið af því að notkun ásætuvarnarinnar sé eins lengi og unnt sé, þ.e. þangað til gildistími starfsleyfisins renni út, það sé afturkallað eða endurskoðað. Sú ásætuvörn sem notuð sé í Arnarfirði sé samskonar þeirri sem nota eigi í Patreksfirði og Tálknafirði og sama tækni sé notuð við þrif nótnanna. Í því ljósi sé ekki óeðlilegt að vikið sé að framkvæmdinni í Arnarfirði og niðurstöðum mælinga framkvæmdaraðila á umhverfisáhrifum hennar í tilkynningunni. Lögð sé áhersla á að stofnunin hafi ekki aðeins tekið mið af þeim upplýsingum heldur hafi hún einnig fengið upplýsingar frá umsagnaraðilum, sem og viðbótarupplýsingar frá framkvæmdaraðila vegna tiltekinna umsagna sem varpi ljósi á hina tilkynntu framkvæmd og umhverfisáhrif hennar, eins og gögn málsins leiði í ljós. Hafni stofnunin þeim orðum kærenda að tilkynningin hafi ekki verið til þess fallin að leggja fullnægjandi efnislegan grundvöll að hinni kærðu ákvörðun.

Málsmeðferð á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum geri ekki ráð fyrir opinberri kynningu á meðan málsmeðferðin fari fram. Því hafi ekki verið skylt að birta opinberlega svör framkvæmdaraðila við tilteknum umsögnum. Í 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 segi aðeins að Skipulagsstofnun skuli veita framkvæmdaraðila a.m.k. þrjá virka daga til að fara yfir framkomnar umsagnir og koma á framfæri athugasemdum sínum. Svör framkvæmdaraðila hafi haft þýðingu. Lög nr. 106/2000 og umrædd reglugerð geri ekki ráð fyrir að við slíkar aðstæður skuli Skipulagsstofnun leggja fyrir framkvæmdaraðila að bæta úr tilkynningunni og senda hana aftur inn svo breytta. Svör framkvæmdaraðila séu hluti af gögnum málsins og viðbót við upplýsingar í tilkynningu.

Skipulagsstofnun telji umsögn Umhverfisstofnunar í meginatriðum fullnægjandi. Í umsögninni sé kafli sem fjalli um framkvæmdalýsingu og í kaflanum um umhverfisáhrif framkvæmdar sé vikið að vöktun og mótvægisaðgerðum. Niðurstaða stofnunarinnar um að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum sé rökstudd með vísan til umfangs, eðlis og staðsetningar framkvæmdar og að því gefnu að starfsemin muni uppfylla þau skilyrði sem sett verði í breytt starfsleyfi, auk þess sem byggt verði á bestu aðgengilegri tækni. Samkvæmt orðanna hljóðan hvíli ekki skylda á umsagnaraðila að rökstyðja á hvaða hátt tilkynning framkvæmdaraðila geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun heldur hvíli slík skylda á umsagnaraðila aðeins varðandi það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum eður ei, sbr. orðalagið „og hvort og þá á hvaða forsendum“ í 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Einnig sé bent á að það sé ekki fortakslaus skylda að segja í umsögn hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framangreindum atriðum. Hafa verði í huga að Umhverfisstofnunin víki að vöktunarmælingum í Arnarfirði og þeirri niðurstöðu í tilkynningu framkvæmdaraðila að áhrif framkvæmdarinnar á umhverfi muni ekki hafa áhrif á magn kopars í botnseti. Þá hafi í umsögn Matvælastofnunar verið að finna fullnægjandi rökstuðning fyrir því að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Telji úrskurðarnefndin að um annmarka sé að ræða á umsögnum umsagnaraðila sé lögð áhersla á að annmarkinn sé ekki verulegar þegar önnur gögn málsins séu virt í heild sinni.

Umsagnir umsagnaraðila séu ekki bindandi gagnvart Skipulagsstofnun, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 46/2014. Stofnunin horfi á gögn málsins með heildstæðum hætti og leggi innbyrðis mat á þau. Í umsögnum Vesturbyggðar, Hafrannsóknastofnunar og Tálknafjarðarhrepps séu færð rök fyrir því að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaraðili svari umsögnum í tölvupóstum til Skipulagsstofnunar frá 1. og 9. september 2020 og að virtum þeim svörum, því sem fram komi í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar og umsögnum annarra umsagnaraðila, telji stofnunin að framangreindar umsagnir gefi ekki tilefni til að ætla að framkvæmdin hafi umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Í umsögn Vesturbyggðar hafi verið bent á að hvorki komi fram í tilkynningu framkvæmdaraðila hvort vöktun sé á eldissvæðum félagsins í Patreksfirði og Tálknafirði né hver styrkur kopars sé í fjörðunum. Hafi framkvæmdaraðili svarað því til að kopar sé nú þegar vaktaður á öllum eldissvæðum félagsins í Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði og hafi styrkur kopars í botnseti verið kannaður í vöktunarskýrslum. Vöktun sé liður í vöktunaráætlun Arnarlax sem sé háð skilyrðum og samþykki Umhverfisstofnunar. Botnsýni sé tekið áður en eldi hefjist að nýju eftir hvíld og við hámarkslífmassa hverrar kynslóðar sem alin sé á eldissvæðum. Þannig sé gildi kopars vaktað tvisvar á um það bil þriggja ára fresti að jafnaði á hverju eldissvæði.

Þá hafi í umsögn Vesturbyggðar verið vísað til þess að af gögnum málsins verði ráðið að hin fyrirhugaða breyting sé gerð til þess að þrífa eldisnætur sjaldnar og að ekki séu upplýsingar um það hvort þvottur slíkra eldisnóta, sem innihaldi koparoxíð, kunni að losa mikið magn koparoxíðs út í náttúruna eða ekki. Þá hafi vaknað upp spurningar um hvort tilgangur breytingarinnar sé að draga úr kostnaði á kostnað náttúrunnar. Í svörum framkvæmdaraðila komi fram að markmið með nýtingu ásætuvarna snúi fyrst og fremst að bættri velferð eldisfiska en einnig sé hér verið að huga að umhverfinu. Ásætur á netum á eldiskvíum í sjó auki þyngd á öllum búnaði, skapi aukið lífrænt álag og súrefnisflæði geti skerst í kvíum. Eðli ásæta, hvort sem um sé að ræða gróður eða dýr, sé að festa sig kyrfilega á ákjósanlegt yfirborð þar sem næring sé næg. Eldisnætur séu því einstaklega heppilegar til ásætu. Til að losa ásætur þurfi að nota háþrýstiþvott á eldiskvíar sem geti haft ýmsar aukaverkanir í för með sér. Lífrænt álag í umhverfinu geti aukist því ásæturnar vaxi og dafni við eldið og losni svo við vegna tíðra þvotta á eldisnótum. Þegar ásætur losni myndist einnig mikið grugg sem hafi áhrif á sjón fiska sem þeir nýti til að koma auga á fóður en gruggið geti líka sest í tálkn fiska. Þá verði aukið álag á búnað og net við þvott sem auki líkur á myndun gatna og þar með möguleika á slysasleppingu.

Í umsögn Tálknafjarðarhrepps komi fram sú afstaða að mengandi áhrif kopars séu fullnægjandi ástæða þess að hin tilkynnta framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun bendi á að mengandi áhrif kopars séu ástæða þess að stofnunin hafi talið þörf á að taka breytinguna til meðferðar á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laganna. Notkun efna sem kunni að hafa mengandi áhrif leiði ekki til þess að framkvæmd eða starfsemi undirgangist mat á umhverfisáhrifum nema notkunin geti haft umtalsverð umhverfisáhrif. Líkt og komi fram í hinni kærðu ákvörðun telji stofnunin, með tilliti til umsagnar Umhverfisstofnunar og með hliðsjón af fyrirhugaðri vöktun og mögulegum mótvægisaðgerðum, þ.m.t. mögulegum viðbrögðum og inngripum leyfisveitenda ef tilefni sé til, að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í sjókvíaeldi framkvæmdaraðila sé ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum.

Í umsögn Hafrannsóknastofnunar segi að mælingar á kopar hefðu verið gerðar á fimm stöðvum á áhrifasvæði eldisins og á þremur viðmiðunarstöðvum. Einungis tvær stöðvar hefðu verið 25 m frá kvíum en aðrar 100-500 m frá þeim. Samkvæmt úttekt Akvaplan Niva frá 2000 hefði komið í ljós að öll kopargildi hafi fallið í flokk I eða II, eins og þeir séu skilgreindir í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns og því innan þeirra marka sem teljist náttúrulegur styrkur. Þessar koparlituðu eldisnætur hefðu einungis verið í sjó í um ár þegar sýnatakan hefði farið fram. Svo segi í umsögninni að þrátt fyrir að koparmælingar Akvaplan Niva hefðu verið innan marka þurfi að meta langtímaáhrif notkunar slíkra ásætuvarna. Rannsóknin hefði verið gerð eftir mjög stutta notkun ásætuvarna á kvíum við Eyri eða um eitt ár. Í svörum framkvæmdaraðila komi fram að búið sé að uppfæra vöktunaráætlun og kopar sé nú vaktaður á öllum eldissvæðum Arnarlax. Hvað varði langtímaáhrif ítreki framkvæmdaraðili að kopar sé vaktaður með reglubundnum hætti. Ef í ljós komi að kopar safnist upp í botnseti og rekja megi þá uppsöfnun til notkunar á eldisnótum með ásætuvörn sem innihaldi kopar muni framkvæmdaraðili, í samvinnu við Umhverfisstofnun, hætta notkun á slíkum eldisnótum og eftir atvikum leita annarra leiða í ásætuvörnum. Ef uppsöfnun kopars sé vegna náttúrulegra aðstæðna á borð við dýpi, botngerð eða straumhraða sé hugsanlega hægt að færa kvíarnar þar sem umhverfisskilyrði séu með öðrum hætti og kopar safnist ekki upp undir og við sjókvíar. Þá bendi Skipulagsstofnun á að í umsögn Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða komi fram að einhver uppsöfnun á kopar á botnseti geti átt sér stað, en að ekki verði talið að „uppsöfnun verði upp lífkeðjuna eða hafi langtímaáhrif.“

Umtalsverð umhverfisáhrif séu skilgreind í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 sem veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Því sé ekki nægilegt að áhrifin séu með þeim hætti sem lýst sé heldur þurfi sú aðstaða að vera fyrir hendi að mótvægisaðgerðir fyrirbyggi ekki eða bæti úr áhrifunum. Að virtri þessari skilgreiningu, gögnum málsins og fyrirhugaðri vöktun og mögulegum mótvægisaðgerðum framkvæmdaraðila telji stofnunin að framkvæmdin geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Þá hafi verið fjallað um möguleg áhrif á botndýralíf hinni kærðu ákvörðun.

Rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sé að mati Skipulagsstofnunar fullnægjandi með tilliti til 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hafi í stjórnsýsluframkvæmd sinni litið svo á að rökstyðja beri ákvörðun út frá þeim sjónarmiðum í 2. viðauka laganna sem „við eiga í hverju máli.“ Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 53/2020 segi að eðli máls samkvæmt fari það „eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun varðar hvaða liðir vegi þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar geti talist umtalsverð.“ Í athugasemdum við frumvarp það er orðið hafi að breytingalögum nr. 96/2019 komi fram að Skipulagsstofnun beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem „skipti mestu máli“ hvað varði framkvæmdina. Samkvæmt því sem hér sé rakið þurfi ekki alltaf að víkja að öllum sjónarmiðum í viðaukanum. Hin tilkynnta framkvæmd hafi ekki kallað á frekari rökstuðning en skoða verði rökstuðninginn með hliðsjón af áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018. Þá sé bent á að í athugasemdum með frumvarpi því er orðið hafi að stjórnsýslulögum komi fram að í flestum tilvikum ætti tiltölulega stuttur rökstuðningur fyrir ákvörðunum að nægja í málum á „fyrsta stjórnsýslustigi.“ Jafnvel þó svo að úrskurðarnefndin teldi að rökstuðningurinn væri annmarki á hinni kærðu ákvörðun þá sé hann ekki svo verulegar að leiði til ógildingar ákvörðunarinnar.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er vísað til þess að félagið muni ekki nota eldisnætur sem innihaldi koparoxíð nema að því gefnu að Umhverfisstofnun fallist á breytingu starfsleyfis. Félagið hafi þó nokkra reynslu af notkun koparoxíðs sem ásætuvarnar í eldiskvíum í Arnarfirði frá árinu 2014 og sé sú notkun alfarið í samræmi við gildandi leyfi Umhverfisstofnunar. Sú ásætuvörn sé einnig með markaðsleyfi sem samþykkt sé af sömu stofnun. Styrkur kopars í botnseti í Arnarfirði hafi verið undir viðmiðunarmörkum og niðurstöður vöktunar sýni ekki fram á aukningu kopars í botnseti, þrátt fyrir notkun ásætuvarna síðan 2014. Styrkur kopars sé nú vaktaður á öllum eldissvæðum framkvæmdaraðila í Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði. Vöktunin sé liður í vöktunaráætlun sem sé háð skilyrðum og samþykki Umhverfisstofnunar.

Vert sé að hafa í huga að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð hafi lengi tíðkast í fiskeldi og áhrif þeirra séu að mestu leyti þekkt, eins og t.d. komi fram í umsögnum Heilbrigðiseftirlits Vestfjarðar og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Í umsögn þeirrar stofnunar segi enn fremur að mat á umhverfisáhrifum sé ekki líklegt til að bæta við miklum upplýsingum um málið umfram það sem liggi fyrir nú þegar. Vakin sé sérstök athygli á að umsögn Umhverfisstofnunar sé afdráttarlaus um möguleg áhrif, en stofnunin sé leyfisveitandi og eftirlitsaðili þegar komi að vöktun á kopar. Í umsögninni segi m.a. að áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á umhverfið liggi ljós fyrir og að ferli mats á umhverfisáhrifum í þessu tilfelli sé ekki til þess fallið að varpa skýrari mynd á áhrif starfseminnar á umhverfið. Þá telji stofnunin framkvæmdina ekki líklega til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Að auki verði að gera ráð fyrir því að ef stofnunin heimili notkun kopars muni hún breyta starfsleyfisskilyrðum þannig að kveðið verði á um endurskoðun á heimildinni ef mælingar sýni fram á aukningu kopars yfir viðmiðunarmörk og þær mótvægisaðgerðir sem grípa beri til ef styrkur mælist yfir viðmiðunarmörkum.

Eins og ótvírætt orðalag 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum beri með sér geymi ákvæðið ekki fortakslausa upptalningu á þeim gögnum sem skylt sé að afhenda, eins og kærendur gefi í skyn, heldur sé slík framlagning gagna ávallt háð mati stjórnvalda hverju sinni. Af ákvörðun Skipulagsstofnunar megi einnig vera ljóst að öll nauðsynleg gögn hafi legið fyrir við meðferð málsins. Óhjákvæmilega verði einnig að líta til þess að um sé að ræða breytingu á framkvæmd sem nú þegar hafi undirgengist lögbundið mat á umhverfisáhrifum. Þannig liggi fyrir ítarlegar upplýsingar og gögn um fiskeldi framkvæmdaraðila í Patreksfirði og Tálknafirði. Eins og fram komi í niðurstöðum Skipulagsstofnunar feli fyrirhuguð framkvæmd hvorki í sér breytingu á stærð og umfangi sjókvíaeldisins né nýtingu náttúruauðlinda eða aukna úrgangsmyndun. Ítarleg gögn liggi fyrir um notkun framkvæmdaraðila á ásætuvörnum með kopar í Arnarfirði. Að sama skapi liggi fyrir skýrslu um vöktun kopars í Arnarfirði, en vöktunar- og eftirlitsskýrslu séu einnig aðgengilegar almenningi á vefsíðu Umhverfisstofnunar. Eins og fram komi í tilkynningu framkvæmdaraðila samræmist eldisnætur umhverfisstöðlum ASC sem félagið vinni eftir, en staðallinn heimili þrif með lágþrýstingi á eldisnótum sem innihaldi kopar. Fiskeldi framkvæmdaraðila í Arnarfirði sé fyllilega sambærilegt þeirri starfsemi sem fram fari í Patreksfirði og Tálknafirði, en í öllum tilvikum sé um að ræða kynslóðaskipt eldi sem sé svipað að umfangi (lífmassa), noti sambærilegur nætur og hringi, auk þess sem eldisferill og tími í sjó sé svipaður. Þá liggi fyrir staðarúttekt sem sýni að umhverfisálag sé sambærilegt á Eyri og Lagardal og Haganesi í Arnarfirði. Hvað viðmiðunarmörk varði sé gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun muni tilgreina um slíkt í uppfærðu starfsleyfi. Notkun kopars færi í kjölfarið alfarið eftir fyrirmælum stofnunarinnar.

Framkvæmdaraðili hafni því að umsagnir umsagnaraðila standist ekki gerðar kröfur með vísan til sömu raka og fram komi í athugasemdum Skipulagsstofnunar. Umsögn Umhverfisstofnunar vegi óneitanlega þungt í málinu, enda sé stofnunin leyfisveitandi og eftirlitsaðili þeirrar framkvæmdar sem hina kærða ákvörðun lúti að. Eins og fram komi í umsögn stofnunarinnar liggi áhrif fyrirhugaðrar breytingar á starfsleyfi ljós fyrir og í þessu tilfelli myndi mat á umhverfisáhrifum ekki vera til þess fallið að varpa skýrari mynd af áhrifum starfseminnar á umhverfið. Í ljósi stöðu og þekkingu Umhverfisstofnunar verði ekki séð að Skipulagsstofnun hafi haft fullnægjandi upplýsingar til að draga það mat í efa.

Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur og Hafrannsóknastofnun hafi í umsögnum sínum talið að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum og í meginatriðum vísað til þess að kanna þurfi betur áhrif þess ef kopar safnist upp í botnseti. Líkt og ákvörðun Skipulagsstofnunar beri með sér verði þessum óvissuþáttum mætt með vöktun og eftirliti og því verði hægt að grípa inn í og hætta notkun kopars ef vísbendingar komi fram um óæskileg áhrif.

Eins og fram komi í niðurstöðum Skipulagsstofnunar kunni áhrif notkunar kopars sem ásætuvarnar fyrst og fremst að felast í hugsanlegri uppsöfnun kopars í botnseti. Slík uppsöfnun geti haft skaðleg áhrif á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum. Stofnunin tiltaki einnig að lífríki sjávar stafi ekki hætta af völdum þungmálma í náttúrulegum styrk og að styrkur kopars í seti á Íslandi sé ekki breytilegur. Þó sé hann almennt nokkuð hár samanborið við önnur lönd. Í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns komi fram umhverfismörk fyrir málma í sjávarseti við land. Þar séu efri mörk náttúrulegra gilda skilgreind á bilinu 70-250 mg/kg. Styrkur undir 70 mg/kg flokkist sem lág eða mjög lág gildi. Í niðurstöðum Skipulagsstofnunar komi fram að styrkur kopars í seti í Patreksfirði og Tálknafirði hafi mælst á bilinu 26,9-45,4 mg/kg og sé þar vísað til vöktunar Arnarlax við Eyri 2018 og 2020, Laugardal 2019 og vöktun Arctic Sea Farm við Hvannadal og Kvígindisdal. Með öðrum orðum sé styrkur kopars nú lágur eða mjög lágur. Niðurstaða Skipulagsstofnunar hafi að auki byggst á þeirri staðreynd að magn kopars í botnseti verði áfram vaktað á svæðinu. Framkvæmdin verði háð eftirliti Umhverfisstofnunar sem setja muni skilyrði um mótvægisaðgerðir ef starfsleyfinu verði breytt þannig að notkun kopars verði heimiluð. Ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi einnig verið bundin skilyrði um að Umhverfisstofnun setti ákvæði um vöktun og samráð vegna notkunar ásætuvarna með kopar í breytt starfsleyfi. Að þessu virtu hafi Skipulagsstofnun réttilega talið að ekki væri líklegt að ásætuvarnir með kopar myndu valda umtalsverðum umhverfisáhrifum.

Hafa beri í huga að hið lögmæta markmið, sem komi til skoðunar við ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum, sé að tryggja að notkun kopars hafi ekki óæskileg áhrif á umhverfið. Það blasi við að unnt sé að mæta hugsanlegum óvissuþáttum með virku eftirliti og leyfisskilyrðum. Á þessu byggist hin kærða ákvörðun. Ef til þess komi að mælingar sýni fram á uppsöfnun kopars umfram viðmiðunarmörk verði unnt að grípa til ráðstafana. Nauðsyn standi ekki til þess að fara strangar í sakirnar og þar af leiðandi sé niðurstaða Skipulagsstofnunar í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur taka fram að staðhæfingar í kæru um að framkvæmdir séu hafnar í andstöðu við gildandi leyfi og án þess að fram hafi farið mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar séu að öllu leyti reistar á því sem fram komi í tilkynningu framkvæmdaraðila og hinni kærðu ákvörðun. Þar sé vísað til þess að í eftirliti Umhverfisstofnunar 14. nóvember 2018 hafi verið gerð athugasemd við að notaðar væru eldisnætur sem innihéldu koparoxíð sem ásætuvörn og hafi úrbótaáætlun vegna þessa fráviks verið samþykkt 3. maí 2019. Hvorki í tilkynningu framkvæmdaraðila né hinni kærðu ákvörðun sé gerð grein fyrir efni tilvitnaðrar úrbótaáætlunar eða framkvæmd hennar, þ.m.t. hvort og þá hvenær þær ásætuvörðu eldisnætur sem framangreindar athugasemdir Umhverfisstofnunar hafi lotið að hafi í reynd verið teknar úr notkun og/eða teknar úr sjó. Því hafi ekki verið haldið fram í kærunni að notkun umræddra ásætuvarna hafi haldið áfram eftir tiltekið tímamark heldur að notkun hafi hafist í andstöðu við gilandi leyfi og mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Engu breyti um réttmæti þeirra staðhæfinga þótt þessum sömu framkvæmdum hafi síðar verið hætt eða hlé gert á þeim.

Fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar geti ekki haft þau áhrif á inntak tilkynningarskyldu framkvæmdaraðila eða málsmeðferð Skipulagsstofnunar að dregið sé úr kröfum efnis tilkynningar eða mats á því. Enn síður sé tilefni til að draga úr kröfum til málsmeðferðar þegar við bætist að hin tilkynnta breyting hafi frá öndverðu verið fyrirhuguð sem hluti framkvæmdarinnar og hefði því að réttu lagi átt að koma til mats samhliða og í samhengi við heildarmat á umhverfisáhrifum hennar.

Ekki verði séð að þau gögn sem framkvæmdaraðili hafi nú lagt fyrir úrskurðarnefndina hafi legið til grundvallar hinni kærðu ákvörðun, þ.m.t. skýrsla Akvaplan Niva frá 26. maí 2020 um rannsókn á eldissvæði við Eyri. Þá verði ekki séð að vísað hafi verið til þessara gagna eða tekin afstaða til þeirra upplýsinga sem þar komi fram í rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar. Áhersla sé lögð á að hafi ákvörðunin byggst á umræddum gögnum og mati á þeim upplýsingum sem þar komi fram sé rökstuðningur hennar haldinn mjög verulegum annmörkum að þessu leyti. Samkvæmt framansögðu verði ekki séð að þau viðbótargögn sem framkvæmdaraðili hafi lagt fyrir úrskurðarnefndina leiði til þess að hafna beri ógildingarkröfu kærenda. Þvert á móti virðist þessi gögn staðfesta það að hin kærða ákvörðun hafi ekki byggst á fullnægjandi gögnum og upplýsingum, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að notkun eldisnóta með ásætuvörn sem innihaldi koparoxíð í sjóakvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt flokki B, sbr. lið 13.02 og 1.11 í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B skulu háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. nefndra laga. Þegar framkvæmdaraðili hefur tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr., tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar.

Í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Niðurstöðu sína um hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skal Skipulagsstofnun skv. 3. mgr. nefndrar 6. gr., svo sem henni var breytt með lögum nr. 96/2019, rökstyðja með hliðsjón af þeim viðmiðum sem talin eru upp í 2. viðauka laga nr. 106/2000, en þau viðmið eru í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka, en undir hverjum tölulið er svo talinn upp fjöldi annarra liða. Skal Skipulagsstofnun taka matsskylduákvörðun innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina og er stofnuninni heimilt að setja fram ábendingar um tilhögun hennar sé hún ekki matsskyld að áliti stofnunarinnar. Í frumvarpi með breytingalögum nr. 96/2019 er tekið fram að með breytingunni sé gerð skýrari krafa um innihald ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Henni beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem skipti mestu máli hvað varðar framkvæmdina. Rökstuðningur eigi bæði við um ákvörðun um að framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum og ákvörðun um að framkvæmd skuli ekki háð slíku mati. Skipulagsstofnun skuli byggja ákvörðun sína um matsskyldu á upplýsingum frá framkvæmdaraðila, en sé einnig heimilt að byggja hana á öðrum gögnum. Þar undir gætu til dæmis fallið forprófanir eða mat á umhverfisáhrifum sem fram hafi farið á grundvelli annarra laga og ábendingar sem stofnuninni berist frá öðrum, til dæmis öðrum stofnunum og almenningi.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Tálknafjarðarhrepps, Vesturbyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Matvælastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar, eins og rakið er í málavaxtalýsingu. Í umsögnum Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps er tekið fram að þar sem mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi ekki tekið tillit til þess að notaðar væru ásætuvarnir sem innihéldu koparoxíð sé fullnægjandi ástæða til að breytingin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Hafrannsóknastofnunin gerir í sinni umsögn athugasemd við mælingar á styrk kopars í Patreksfirði og Tálknafirði, m.a. vegna fjarlægðar mælinga frá áhrifasvæðum og þar sem koparlitaðar eldisnætur hefðu aðeins verið í sjó í rúmt ár þegar mælingar hefðu farið fram. Með hliðsjón af umfangi framkvæmdar sem fyrirhuguð breyting taki til sé talið að umbeðin breyting á framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að verði starfsleyfisskilyrðum breytt á þann veg að notkun koparlitaðra nóta verði heimil verði einnig ákvæði um endurskoðun á heimildinni ef mælingar sýni fram á aukningu yfir viðmiðunarmörkum. Auk þess verði kveðið á um reglubundnar mælingar á styrk kopars í botnseti í vöktunaráætlun og þær mótvægisaðgerðir sem rekstraraðili skuli grípa til mælist styrkur kopars yfir viðmiðunarmörkum. Telji stofnunin að áhrif fyrirhugaðrar breytingar liggi ljós fyrir og að mat á umhverfisáhrifum sé ekki til þess fallið að varpa skýrari mynd á áhrif starfseminnar á umhverfið, að því gefnu að skilyrði sem sett verði í breytt starfsleyfi verði uppfyllt. Þá segir í umsögnum Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða og Náttúrufræðistofnunar að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð hafi lengi tíðkast og að áhrif séu að mestu þekkt. Ekki sé talið að uppsöfnun kopars eigi sér stað upp lífkeðjuna eða hafi langtímaáhrif. Vakta þurfi uppsöfnun kopars í botnseti við eldiskvíar. Með hliðsjón af því sé ekki talið að mat á umhverfisáhrifum muni bæta miklum upplýsingum við.

Vegna umsagna Hafrannsóknastofnunar, Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps kom framkvæmdaraðili að frekari athugasemdum. Kemur þar m.a. fram að markmið með nýtingu ásætuvarna snúi fyrst og fremst að bættri velferð eldisfiska. Til að losa ásætur þurfi að nota háþrýstiþvott á nætur eldiskvía sem geti aukið lífrænt álag í umhverfinu. Jafnframt kemur fram að framkvæmdaraðili hafi vaktað styrk kopars í botnseti í Arnarfirði og hafi mælingar ekki sýnt aukningu kopars. Vísar framkvæmdaraðili í þessu sambandi til vöktunarskýrslu Laugardals frá 2019 og Eyri í Patreksfirði frá 2020.

Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar skiptist í nokkra kafla. Fyrirhugaðri framkvæmd er lýst, þ.e. áformum framkvæmdaraðila um að nota eldisnætur með ásætuvörn sem inniheldur koparoxíð í sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði auk þess sem vísað er til þess að markmiðið með breytingunni sé að draga úr þrifum á eldisnótum. Fjallað er um umhverfisáhrif breytingar framkvæmdarinnar eins og þeim var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og umsögnum umsagnaraðila. Þá er stuttlega vikið að þeim leyfum sem framkvæmdin er háð. Í niðurstöðukafla sínum fjallar stofnunin um eðli og staðsetningu framkvæmdar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar. Er vísað til þess að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af stærð og umfangi hennar, úrgangsmyndun og mengun. Einnig skuli taka mið af staðsetningu framkvæmdar, svo sem álagsþoli náttúrunnar, einkum með tilliti til strandsvæða og kjörlenda dýra. Þá skuli einnig taka mið af eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmda, s.s. stærðar og fjölbreytileika áhrifa, hverjar líkur séu á áhrifum og tímalengd og tíðni áhrifa á tilteknu svæði.

Skipulagsstofnun bendir á að ákvörðunin snúi að notkun á ásætuvörnum sem innihaldi koparoxíð í eldiskvíum og feli því framkvæmdin ekki í sér breytingu á stærð og umfangi sjókvíaeldis. Þá feli hún ekki í sér nýtingu náttúruauðlinda eða aukna úrgangsmyndun. Að mati stofnunarinnar kunni áhrif af notkun koparoxíðs sem ásætuvarnar fyrst og fremst að felast í hugsanlegri uppsöfnun kopars í botnseti sem geti haft skaðleg áhrif á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum. Talið sé að lífríki í sjónum stafi ekki hætta af völdum þungmálma í náttúrulegum styrk. Styrkur kopars í seti á Íslandi sé breytilegur en almennt nokkuð hár samanborið við önnur lönd. Í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns séu sett umhverfismörk fyrir málma í sjávarseti hér við land. Þar séu efri mörk náttúrulegra gilda skilgreind á bilinu 70-250 mg/kg. Styrkur undir 70 mg/kg flokkist sem lág eða mjög lág gildi. Styrkur kopars í seti í Patreksfirði og Tálknafirði hafi mælst á bilinu 26,9-45,4 mg/kg, sbr. vöktun framkvæmdaraðila við Eyri 2018 og 2020, Laugardal 2019 og vöktun Arctic Sea Farm við Hvannadal og Kvígindisdal 2019. Með tilliti til umsagna Umhverfisstofnunar og með hliðsjón af fyrirhugaðri vöktun og mögulegum mótvægisaðgerðum, þ.m.t. mögulegum viðbrögðum og inngripum leyfisveitenda ef tilefni sé til, telji Skipulagsstofnun að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð sé ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum.

Í niðurstöðu sinni vísar Skipulagsstofnunar til þess að í umsögn Hafrannsóknastofnunar sé vikið að staðsetningu sýnatökustöðva vegna þeirra mælinga á styrk kopars í botnseti sem þegar hafi farið fram. Að mati Skipulagsstofnunar þurfi að hafa samráð við Umhverfisstofnun við útfærslu vöktunar og staðsetningu sýnatökustöðva til að tryggja að botn sé vaktaður þar sem líklegast sé að uppsöfnun á kopar eigi sér stað. Þá telji Skipulagsstofnun rétt að í starfsleyfi séu skýr ákvæði um hvernig vöktun og samráði við Umhverfisstofnun skuli vera háttað, sem og hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi svo heimilt sé að nota ásætuvarnir sem innihaldi koparoxíð. Var niðurstaða Skipulagsstofnunar eins og fyrr greinir að hin umdeilda framkvæmd skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Skipulagsstofnun aflaði umsagna sem hluta af rannsókn málsins á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er í þessu sambandi rétt að árétta að Skipulagsstofnun er ekki bundin af þeim umsögnum sem hún aflar við lögbundna meðferð máls, enda geta umsagnaraðilar, að teknu tilliti til þeirra atriða sem falla undir starfssvið þeirra, komist að gagnstæðri niðurstöðu um hvort mat á umhverfisáhrifum skuli fara fram eða ekki. Í 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum er ekki kveðið á um fortakslausa skyldu þess efnis að fram komi í umsögn umsagnaraðila hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun, heldur ber að greina frá því eftir því sem við á hverju sinni. Að virtri þeirri breytingu á framkvæmd sem um ræðir verður talið að umsögn Umhverfisstofnunar uppfylli kröfur umrædds reglugerðarákvæðis. Í umsögn Matvælastofnunar er ekki rökstutt sérstaklega hvernig breytingin hafi í för með sér bættar og öruggari aðstæður til eldis hvað varði dýraheilbrigði- og velferð. Skipulagsstofnun reisti niðurstöðu sína ekki á þessu atriði og verður að telja nefndan ágalla óverulegan með hliðsjón af málsatvikum í heild.

Lagði Skipulagsstofnun að lokum sjálfstætt mat á það hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum, svo sem henni bar, og komst að því að svo væri ekki. Röksemdir stofnunarinnar fyrir þeirri niðurstöðu verður að skoða í því ljósi að ekki er ætlast til þess að í ákvörðun um matsskyldu, vegna breytingar á framkvæmd sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum, séu metin að nýju umhverfisáhrif hinnar upprunalegu framkvæmdar heldur einskorðast ákvörðunin við þau áhrif sem breytingin getur kallað fram. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri breytingu á framkvæmd sem ákvörðun snýst um hvaða atriði sem tiltekin eru í 1.-3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngra en önnur við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif breytingarinnar teljist umtalsverð. Það að framkvæmd eða breyting á henni falli undir einhvern liðanna leiðir ekki sjálfkrafa til matsskyldu, en kann eftir atvikum að gefa tilefni til að kanna sérstaklega samspil allra þeirra liða sem upp eru taldir í 2. viðauka. Miða verður við þá tilhögun breyttrar framkvæmdar sem tilkynnt er af framkvæmdaraðila og studd þeim gögnum sem við á að teknu tilliti til eðlis og umfangs framkvæmdar, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015, eftir atvikum að teknu tilliti til mótvægisaðgerða. Þá kann reynsla af upprunalegu framkvæmdinni, vöktun og mótvægisaðgerðum að gefa vísbendingu um hver áhrif breytingarinnar kunni að verða. Að þessu virtu var að áliti úrskurðarnefndarinnar lagt mat á þá þætti sem máli skiptu um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni. Þá tók Skipulagsstofnun við það mat, sem áður er fjallað um, viðhlítandi tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka nefndra laga, auk þess að koma með ábendingar varðandi samráð og vöktun.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hún tók hina kærðu matsskylduákvörðun, lagt tilhlýðilegt mat á efni málsins og rökstutt niðurstöðu sína með fullnægjandi hætti. Í því sambandi er rétt að taka fram að ekki verður séð að sú staðreynd að framkvæmdaraðili hóf notkun á eldisnótum með koparoxíði án þess að það væri heimilt samkvæmt þágildandi starfsleyfi, þótt ámælisvert sé, hafi haft áhrif á málsmeðferð eða niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar skv. lögum nr. 106/2000. Ógildingarkröfu kærenda er því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 14. janúar 2021 um að notkun eldisnóta með ásætuvörn í sjóakvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

17/2021 Fáskrúðsfjörður

Með

Árið 2021, mánudaginn 13. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættar voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 13. janúar 2021 um að breytingar á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun sjókvíaeldis í Fáskrúðsfirði skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. febrúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Náttúruverndarsamtök Íslands, Íslenski náttúruverndarsjóðurinn (IWF) og Veiðifélag Breiðdæla þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 13. janúar 2021 að breytingar á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun sjókvíaeldis í Fáskrúðsfirði skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 24. febrúar 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 19. mars 2021.

Málavextir: Hinn 19. mars 2018 lagði Fiskeldi Austfjarða hf. fram matsskýrslu vegna eldis á allt að 20.800 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Í matsskýrslunni var gert ráð fyrir að ala 11.000 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Fáskrúðsfirði. Kom fram í skýrslunni að útsetningaráætlun myndi taka mið af nýju áhættumati Hafrannsóknastofnunar og að samkvæmt matinu myndu 6.000 tonn sem áætlað væri að ala í Fáskrúðsfirði verða frjór lax og 5.000 tonn geldlax. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 14. júní s.á. Umhverfisstofnun veitti framkvæmdaraðila starfsleyfi 19. mars 2019 fyrir 11.000 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði, þar af að hámarki 6.000 tonna ársframleiðslu á frjóum laxi, og 21. s.m. veitti Matvælastofnun framkvæmdaraðila rekstrarleyfi vegna sama eldis.

Hinn 4. nóvember 2020 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Fáskrúðsfirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að í breytingunni fælist að leggja af eldissvæðið við Æðasker en í staðinn yrði afmarkað nýtt eldissvæði austan við Eyri sem myndi heita Einstigi. Svæðin við Höfðahúsabót og Eyri myndu flytjast austar. Einnig yrði gerð breyting á útsetningaráætlun, þ.e. að seiði yrðu sett út á hverju ári þannig að almennt yrðu tvö svæði í notkun á meðan það þriðja væri í hvíld. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Fjarðabyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar. Taldi enginn umsagnaraðili að breytingin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 13. janúar 2021. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að umhverfisverndarsamtök þau sem að kærunni standi fullnægi skilyrðum 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og uppfylli af þeim sökum það skilyrði að eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn fyrirliggjandi kæru, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr., enda samrýmist kæran tilgangi starfsemi þeirra. Þá eigi Veiðifélag Breiðdæla lögvarða hagsmuni vegna nálægðar Breiðdalsár í Breiðdalsvík við fyrirhugað laxeldi og þeirra áhrifa á náttúrulega laxastofna og veiði í ánni sem því fylgi, en með þeirri breytingu sem hin kærða ákvörðun lúti að sé fyrirhugað að næstum tvöfalda eldi frjórra laxa.

Hin kærða ákvörðun lúti að breytingum á framkvæmd sem falli í flokk B í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. gr. 11.1 og 13.2 í viðaukanum. Í samræmi við það og 1. mgr. 6. gr. laganna skuli breytingin háð mati á umhverfisáhrifum, ef hún geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar hennar og sé jafnframt tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. sömu greinar. Skipulagsstofnun beri skv. 3. mgr. 6. gr. laganna að byggja ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar á þeim upplýsingum sem framkvæmdaraðili hafi lagt fram, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna og 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, og öðrum gögnum um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eftir því sem við eigi, þ.m.t. upplýsingum sem fram komi í þeim umsögnum sem stofnunin hafi aflað í samræmi við fyrirmæli 12. gr. reglugerðarinnar. Við ákvörðun sína á þessum grundvelli beri Skipulagsstofnun að fara eftir þeim viðmiðum sem fram komi í 2. viðauka laganna og rökstyðja niðurstöðuna með hliðsjón af þeim. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og við undirbúning slíkrar ákvörðunar beri stofnuninni m.a. að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá beri stofnuninni að haga efni rökstuðnings í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar þannig að uppfylltar séu þær lágmarkskröfur um efni rökstuðnings sem lögfestar séu í 22. gr. stjórnsýslulaga.

Í samræmi við framanrakinn lagagrundvöll hinnar kærðu ákvörðunar hafi Skipulagsstofnun borið, á grundvelli fullnægjandi upplýsinga um breytinguna og líkleg umhverfisáhrif framkvæmdarinnar í heild að gerðum þeim breytingum, þ.m.t. fyrirliggjandi niðurstöðu um umhverfisáhrif hennar, upplýsinga um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir og umsagna leyfisveitenda og annarra umsagnaraðila, sem hafi fullnægt kröfum reglugerðar nr. 660/2015, að taka rökstudda afstöðu til þess hvort breytt framkvæmd gæti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs síns, eðlis eða staðsetningar að virtum þeim viðmiðum sem tilgreind séu í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og færa fullnægjandi rök fyrir þeirri afstöðu með vísan til þessara viðmiða. Hin kærða ákvörðun uppfylli ekki þær kröfur.

Tilkynning framkvæmdaraðila geri ráð fyrir þrenns konar breytingum á hlutaðeigandi framkvæmd, þ.e. breytingu á staðsetningu eldissvæða í firðinum, breytingu á útsetningaráætlun eldisins og að ala einungis frjóan lax í firðinum. Í umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar segi um síðastgreindu breytinguna að í fyrra mati á umhverfisáhrifum hafi verið gert ráð fyrir eldi á 11.000 tonna framleiðslu á frjóum laxi og sé gert ráð fyrir að hámarkslífmassi hverju sinni verði óbreyttur með breytingunni. Þessi forsenda sé röng því skýrlega segi í samantekt endanlegrar matsskýrslu framkvæmdaraðila frá 19. mars 2018 að í Fáskrúðsfirði muni 6.000 tonn verða frjór lax og 5.000 tonn geldlax. Í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrsluna 14. júní 2018 segi í kafla 3.4.4. að framkvæmdaraðili áformi eldi á 6.000 tonnum af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði. Samkvæmt framanröktu hafi fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar verið reist á þeirri forsendu að eldi framkvæmdaraðila á frjóum laxi í Fáskrúðsfirði yrði ekki umfram 6.000 tonn á ári. Eldi á allt að 11.000 tonnum af frjóum laxi, eins og gert sé ráð fyrir í tilkynningu framkvæmdaraðila, feli því í sér mjög veruleg frávik frá gildandi mati á umhverfisáhrifum og rúmist ekki innan þess. Hin kærða ákvörðun sé haldin þeim verulega annmarka að þar sé ekki fjallað um einn þriggja meginþátta sem breytingin lúti að, þ.e. aukningu á eldi á frjóum laxi úr 6.000 tonnum í 11.000 tonn. Þegar af þeirri ástæðu sé óhjákvæmilegt að fella hana úr gildi.

Framangreindan annmarka megi rekja til þess að í tilkynningu framkvæmdaraðila sé nánast ekkert fjallað um þá verulegu breytingu á framkvæmdinni sem þar sé gert ráð fyrir og felist í því að skipta yfir í eldi á frjóum laxi og hætta að ala ófrjóan lax. Þótt vikið sé að þessum áformum í tilkynningunni hafi hún hvergi nærri að geyma þær upplýsingar sem áskildar séu skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Tilkynningin sé að þessu leyti alls ófullnægjandi og ekki viðhlítandi grundvöllur undir hina kærðu ákvörðun. Beri að skilja tilkynningu framkvæmdaraðila svo að hún lúti ekki að fyrirhugaðri breytingu á umfangi á eldi frjós lax í Fáskrúðsfirði heldur einvörðungu að breyttri staðsetningu eldissvæða og breyttu fyrirkomulagi við útsetningu seiða, án tillits til frjósemi þeirra, skorti upplýsingar um það í hvaða farveg framkvæmdaraðili hafi lagt eða hyggist leggja þessa verulegu breytingu á framkvæmd sinni, sem í tilkynningunni sé sögð forsenda annarra breytinga sem þar sé lýst. Um sé að ræða tilkynningarskylda breytingu sem leggja þurfi fyrir Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu. Sérstök skilyrði séu sett um hámark ársframleiðslu á frjóum laxi í leyfum framkvæmdaraðila og áður en unnt sé að breyta framkvæmdinni þurfi sú breyting að koma til umfjöllunar Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000. Þá hafi tilkynning framkvæmdaraðila ekki að geyma þær upplýsingar sem áskildar séu skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um þá þætti hennar sem lúti að breyttri staðsetningu eldissvæða og breyttu fyrirkomulagi útsetningar og hvíldartíma sem af því leiði. Í tilkynningunni sé t.a.m. ekki fjallað um möguleg áhrif af aukinni nálægð eldissvæða við hverfisverndað svæði við Sandfell, áhrif minni fjarlægðar milli kvía og tíðari útsetningu seiða með tilliti til laxalúsar og sjúkdóma eða um áhrif breyttrar staðsetningar á samgöngur og áhættu samfara því að staðsetja kvíar í markaðri siglingaleið, svo dæmi séu nefnd.

Skipulagsstofnun sé skylt við meðferð mála á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000 að afla umsagna, m.a. leyfisveitenda, í samræmi við fyrirmæli 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Uppfylli umsagnirnar ekki þær kröfur sem þar komi fram beri stofnuninni í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins um skyldubundna álitsumleitan að leggja fyrir álitsgjafafa að bæta þar úr með nýrri umsögn. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar skuli í umsögn koma m.a. fram hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun og hvort og þá á hvaða forsendum umsagnaraðili telji að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum út frá þeim atriðum sem falli undir starfssvið umsagnaraðila og að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka. Ef frá sé talin umsögn Umhverfisstofnunar sé ekki vikið í umsögnum umsagnaraðila að stóraukinni framleiðslu framkvæmdaraðila á frjóum laxi. Þessar umsagnir séu að þessu leyti haldnar mjög verulegum annmarka. Þá eigi umsagnir í málinu það sammerkt að þær uppfylli ekki áskilnað 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um að þar sé tekin rökstudd afstaða til þess hvort tilkynning framkvæmdaraðila sé fullnægjandi og þá hvort hinar tilkynntu breytingar skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Að því marki sem tekin sé afstaða til þessara atriða í umsögnunum fylgi henni takmarkaður, ef nokkur, rökstuðningur umsagnaraðila.

Þótt enga umfjöllun sé um það að finna í hinni kærðu ákvörðun verði ráðið af tilkynningu framkvæmdaraðila að hún sé m.a. sett fram með vísan til mats Hafrannsóknastofnunar 11. maí 2020 á áhættu erfðablöndunar á grundvelli 6. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi sem staðfest hafi verið af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 3. júní, sbr. auglýsingu nr. 562/2020 í B-deild Stjórnartíðinda. Eftir þær breytingar sem gerðar hafi verið á lögum nr. 71/2008 með breytingalögum nr. 101/2019 sé ótvírætt að áhættumat erfðablöndunar skv. 6. gr. a í lögunum og burðarþolsmat skv. 6. gr. b feli í sér framkvæmdaáætlanir í skilningi laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, sem háðar séu umhverfismati samkvæmt fyrirmælum þeirra laga. Þar sem ekki liggi fyrir að framangreint áhættumat Hafrannsóknastofnunar hafi sætt meðferð samkvæmt fyrirmælum laga nr. 105/2006 geti niðurstöður þess ekki orðið grundvöllur fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis í skilningi laga nr. 106/2000 án frekara mats á umhverfisáhrifum hlutaðeigandi áætlunar og framkvæmdar. Þar við bætist að mat samkvæmt lögum nr. 106/2000 geti ekki komið í stað mats samkvæmt lögum nr. 105/2006, þótt í vissum tilvikum sé heimilt að sameina skýrslugerð á grundvelli þessara laga.

Að því er varði rannsókn Skipulagsstofnunar á því hvort hinar tilkynntu breytingar á staðsetningu eldissvæða og útsetningu seiða geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif skuli tekið fram að forsendur varðandi staðsetningu eldis og kynslóðaskiptingu, þ. á m. hvíldartíma fjarðarins í heild hans í 9-12 mánuði milli kynslóða, hafi verið lagðar til grundvallar mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, án þess að gerð hafi verið grein fyrir öðrum valkostum í þessu efni og þeir bornir saman. Þær upplýsingar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, sem fyrir liggi í mati á umhverfisáhrifum, miði því við aðrar forsendur en þær sem lagðar hafi verið til grundvallar hinum tilkynntu breytingum. Staðsetning eldissvæða og fyrirkomulag varðandi útsetningu seiða og hvíld eldissvæða milli kynslóða séu atriði varðandi framkvæmd þauleldis á fiski í sjókvíum sem hafi verulega þýðingu þegar umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu metin. Af því leiði að unnt sé að draga takmarkaðar ályktanir um umhverfisáhrif þess að víkja frá forsendum mats á umhverfisáhrifum um þessi atriði. Fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar komi því að takmörkuðu gagni við rannsókn á því hvort hinar tilkynntu breytingar á henni kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Hér verði að hafa hugfast að spurningin um umtalsverð umhverfisáhrif lúti ekki að breytingunum sem slíkum heldur að umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í heild sinni að teknu tilliti til tilkynntra breytinga. Í hinni kærðu ákvörðun felist því sú afstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér að gerðum þessum breytingum, önnur en eða umfram þau umhverfisáhrif sem þegar hafi verið lagt mat á og tekin afstaða til við útgáfu fyrri framkvæmdarleyfa. Að þessari afstöðu stofnunarinnar sé ekki lagður fullnægjandi grundvöllur með þeim gögnum sem hin kærða ákvörðun sé reist á, en þau gögn hafi aðeins að geyma mjög takmarkaðar upplýsingar um möguleg áhrif breyttrar staðsetningar eldissvæða og breytts fyrirkomulags útsetningar.

Hér þurfi að hafa í huga að með breytingum á staðsetningu eldissvæða sé verið að færa eldissvæðin þrjú í firðinum nær hvert öðru, auk þess sem um ræði alveg nýtt eldissvæði. Því til viðbótar sé verið að leggja til útsetningaráætlun sem felist í að svæðin verði öll þrjú í notkun í senn á köflum. Um áhrif framkvæmdarinnar með þessum breytingum á meðal annars lífríki í firðinum liggi ekki fyrir nægilegar upplýsingar í gögnum málsins. Af gögnunum sé því ekki unnt að álykta að hin breytta framkvæmd geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif önnur en eða umfram þau sem þegar hafi verið lagt mat á. Til viðbótar skorti á að Skipulagsstofnun hafi aflað gagna um ýmis atriði sem umsagnaraðilar bendi á í umsögnum sínum. Þannig séu takmarkaðar upplýsingar í gögnum málsins um áhrif breytinganna á samgöngur þrátt fyrir að fram komi í umsögn Vegagerðarinnar að fyrirhuguð eldissvæði séu í markaðri siglingaleið. Staðsetning kvía í siglingaleiðum eða í mikilli nálægð við þær kunni eðli málsins samkvæmt að hafa í för með sér aukna hættu á stórslysi sem gæti haft í för með sér veruleg og óafturkræf umhverfisáhrif ef mikill fjöldi eldisfiska slyppi úr sjókví sem laskaðist við árekstur við skip. Þá skorti upplýsingar um áhrif breytinganna á nærliggjandi friðlýst æðarvörp sem að sé vikið í umsögn Fjarðabyggðar. Loks verði ekki séð að aflað hafi verið upplýsinga um áhrif breytinganna m.t.t. laxalúsar og fiskilúsar þrátt fyrir það mat Fiskistofu að þeim kunni að fylgja aukin smithætta.

Samandregið liggi ekki fyrir í gögnum málsins fullnægjandi upplýsingar um gerð og eiginleika mögulegra umhverfisáhrifa breyttrar framkvæmdar. Skipulagsstofnun hafi því ekki getað fullyrt, svo forsvaranlegt væri, á grundvelli þessara gagna að hin breytta framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif önnur en eða umfram þau sem stofnunin hafi áður lagt mat á og tekið afstöðu til í áliti sínu um matsskýrslu framkvæmdaraðila frá 2018. Samkvæmt framansögðu sé hin kærða ákvörðun ekki reist á fullnægjandi upplýsingum um möguleg umhverfisáhrif tilkynntra breytinga, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Í hinni kærðu ákvörðun séu heldur ekki færð fullnægjandi rök fyrir þeirri niðurstöðu stofnunarinnar að hin tilkynnta breyting geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Í ákvörðuninni sé þannig ekki rökstutt, með vísan til eðlis, umfangs og staðsetningar fyrirhugaðrar framkvæmdar, að hún sé ekki líkleg, að gerðum hinum tilkynntu breytingum, til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif önnur en eða umfram þau, sem þegar hafi verið metin og tekin afstaða til. Rökstuðningurinn uppfylli hvergi nærri þær ströngu kröfur sem leiði af lögum nr. 106/2000. Hafa beri í huga að hér sé um verulega breytingu að ræða á umfangsmikilli framkvæmd sem fyrir liggi að haft geti í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna eðlis síns og staðsetningar í sjó. Í samræmi við flókið samspil slíkrar framkvæmdar við það lífríki sem fyrir sé í sjó og nærliggjandi ám og strandsvæðum krefjist ákvörðun Skipulagsstofnunar ítarlegs rökstuðnings. Í slíkum tilvikum kunni rök Skipulagsstofnunar að koma í stað frekara mats á umhverfisáhrifum hlutaðeigandi framkvæmdar. Ef lög nr. 106/2000 eigi að ná markmiði sínu verði því að vera tryggt að rökstuðningur stofnunarinnar sé réttur og fullnægjandi. Þá skorti mjög á að tekin sé rökstudd afstaða í hinni kærðu ákvörðun til þeirra atriða sem bent sé á í umsögnum umsagnaraðila. Sem dæmi megi nefna að engin rökstudd afstaða sé tekin til ábendinga Fiskistofu um aukna hættu á lúsasmiti. Samkvæmt framansögðu sé rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar ekki í samræmi við fyrirmæli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. einnig 22. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er bent á að tilkynning framkvæmdaraðila beri með skýrum hætti þess merki að tilkynningin lúti aðeins að tveimur þáttum, þ.e. breytingu á eldissvæðum og útsetningaráætlun. Hvergi komi fram í tilkynningunni að hún lúti að aukningu á eldi úr 6.000 tonnum í 11.000 tonn af frjóum laxi á ári. Ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi eingöngu snúið að tilfærslu eldissvæða og breytingu á útsetningaráætlun. Í matsskýrslu framkvæmdaraðila frá 2018 hafi áhrif þess að ala allt að 11.000 tonn af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði verið metin. Í matsskýrslunni hafi komið fram að áhættumati Hafrannsóknastofnunar yrði fylgt og því hafi verið áformað að sækja um leyfi til að ala 6.000 tonn af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði í samræmi við áhættumatið, eins og það hafi verið þegar matsskýrsla hafi verið unnin. Í matsskýrslu hafi jafnframt verið tekið fram að áhættumatið gæti tekið breytingum og að framleiðsluáætlanir framkvæmdaraðila myndu taka breytingum til samræmis við áhættumatið hverju sinni. Framleiðslumagn frjós fisks myndi þó ekki fara yfir 20.800 tonn í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé vikið að framangreindu, þ.e. að breytingar hafi orðið á áhættumatinu og í ljósi þess sem fjallað hafi verið um í matsskýrslu hafi framkvæmdaraðili óskað eftir uppfærslu gildandi leyfis í Fáskrúðsfirði með það í huga að magn frjós fisks verði aukið í samræmi við breytt áhættumat. Að öðru leyti sé ekki fjallað um frjóan lax í tilkynningunni. Að mati Skipulagsstofnunar beri að skilja umfjöllunina á þann hátt að samhliða tilkynningu um breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Fáskrúðsfirði þá hyggist framkvæmdaraðili auka magn á frjóum fiski til samræmis við breytt áhættumat, líkt og fjallað hafi verið um í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þá sé þess getið að í kjölfar álits Skipulagsstofnunar um mat á áhrifum allt að 20.800 tonna eldis í Berufirði og Fáskrúðsfirði hafi framkvæmdaraðili óskað frekari skýringa á því hvort þörf væri á sérstakri málsmeðferð á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum kæmi til breytinga á áhættumati og aukningu á frjóum fiski í eldi fyrirtækisins til samræmis við breytt áhættumat.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé vikið að því að fjallið Sandfell sé að finna í Fáskrúðsfirði og sé það á náttúruminjaskrá, en ekki friðað. Það sé í samræmi við orðalag í síðari hluta d-liðar 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar segi að eldissvæði muni færast nær Sandfelli sem sé hverfisverndað útivistarsvæði og á náttúruminjaskrá. Það muni mögulega auka sýnileika kvíanna fyrir gesti svæðisins. Að mati stofnunarinnar verði áhrifin þó minniháttar umfram núverandi áhrif á ásýnd og landslag.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé ekki beint fjallað um áhrif minni fjarlægðar milli kvía og tíðari útsetningar seiða m.t.t. laxalúsar og sjúkdóma, en samt sé fjallað um villta laxfiska í tilkynningunni. Þar sé lýst þeirri afstöðu framkvæmdaraðila að breytt staðsetning eldissvæða muni ekki hafa miklar breytingar í för með sér varðandi þá áhættuþætti sem snúi að hugsanlegum áhrifum á villta laxastofna. Ef breytingin leiði til bættrar velferðar eldisfisks þá muni breytt staðsetning hafa jákvæð áhrif m.t.t laxastofna. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar komi fram að fyrirhuguð breyting á framkvæmdinni sé ekki líkleg til að auka hættu á slysasleppingum eða auka álag á villta laxfiska vegna laxalúsar eða sjúkdóma. Lesa verði tilkynninguna og framangreinda afstöðu stofnunarinnar með hliðsjón af því sem fram komi í áliti stofnunarinnar frá 14. júní 2018 um mat á umhverfisáhrifum vegna 20.800 tonna framleiðslu á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Þar sé að finna umfjöllun um fisksjúkdóma og laxalús. Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé ekki fjallað um áhrif breyttrar staðsetningar á samgöngur og áhættu samfara því að staðsetja kvíar í markaðri siglingaleið. Hins vegar komi fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar að Hafnarnesviti marki siglingaleiðir út fjörðinn. Með tilfærslu eldissvæða lendi þau í markaðri siglingaleið. Vitinn sé innan hafnsögu Fáskrúðsfjarðarhafnar og sé leiðsaga frá Fáskrúðsfjarðarhöfn á ábyrgð hafnaryfirvalda. Með hliðsjón af umsögn Fjarðabyggðarhafna telji stofnunin að færsla eldissvæða komi ekki til með að hafa áhrif á öryggi siglingaleiða um Fáskrúðsfjörð.

Ítrekað sé að tilkynning framkvæmdaraðila hafi ekki lotið að stóraukinni framleiðslu fyrirtækisins á frjóum laxi. Af því leiði að hjá þeim umsagnaraðilum sem stofnunin hafi leitað til hafi ekki verið fyrir hendi forsendur til að gefa álit á umræddu atriði. Þá sé bent á að í 3. mgr. 12. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum sé ekki gerð krafa um að umsagnaraðilar rökstyðji hvort þeir telji að tilkynning sé fullnægjandi um þau atriði sem talin séu upp í málsgreininni. Þá segi í málsgreininni „eftir því sem við á“ varðandi atriðin. Hins vegar beri þeim að rökstyðja hvort tilkynntar breytingar á framkvæmd skuli háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. orðalagið „hvort og þá á hvaða forsendum“ og þá „út frá þeim atriðum sem falla undir starfssvið umsagnaraðila.“ Í umsögn flestra umsagnaraðila sé að finna fullnægjandi rökstuðning að baki því hvort umrædd framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Hjá tveim eða þrem umsagnaraðilum kunni að vera að rökstuðningur sé ekki fullnægjandi með tilliti til framangreinds reglugerðarákvæðis. Ekki fáist þó séð að slíkt, eitt og sér, geti leitt til þess að verulegur annmarki sé á ákvörðun um matsskyldu.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar varði ekki leyfisveitingu heldur hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Því taki ákvörðunin ekki afstöðu til þess hvort áhættumat erfðablöndunar og burðarþols falli undir gildissvið laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og geti verið grundvöllur fyrir útgáfu framkvæmdaleyfi.

Ljóst sé af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 3/2020 að ekki sé ætlast til þess að í ákvörðun um matsskyldu, vegna breytingar á framkvæmd sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum, sé að nýju metin umhverfisáhrif hinnar upphaflegu framkvæmdar heldur einskorðist ákvörðunin við þau áhrif sem breytingin geti kallað fram. Hin kærða ákvörðun sé reist á fullnægjandi gögnum og því séu þær kröfur sem leiði af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 uppfylltar. Fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum allt að 20.800 tonna eldis í Fáskrúðsfirði og Berufirði sem byggi m.a. á rannsóknum sem varði botndýr, hafstrauma, öldufar og súrefni í Fáskrúðsfirði. Þá hafi legið fyrir umsagnir þeirra sérfræðistofnana sem búi yfir þekkingu á þeim umhverfisþáttum sem fyrirhuguð breyting sé líkleg til að hafa áhrif á. Megi þar nefna að í umsögn Hafrannsóknastofnunar segi að stofnunin taki undir sjónarmið framkvæmdaraðila um að breytingin feli ekki í sér aukið álag á umhverfið frá því sem tilkynnt hafi verið um í mati á umhverfisáhrifum árið 2018. Þá komi fram í umsögn Umhverfisstofnunar að breytingin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér aukin umhverfisáhrif umfram þau sem lýst hafi verið í upphaflegu umhverfismati. Einnig komi fram í umsögn Matvælastofnunar að ekki sé ástæða til að meta umhverfisáhrif breytingarinnar. Þá sé því hafnað að fyrir liggi takmarkaðar upplýsingar um áhrif breytinganna á samgöngur. Í ákvörðun stofnunarinnar sé vísað til umsagnar Fjarðabyggðarhafnar vegna umsagnar Vegagerðarinnar um að fyrirhuguð eldissvæði séu í markaðri siglingaleið. Í umsögn Fjarðabyggðarhafnar komi fram að merkingar við jaðra eldissvæðanna og ljósamerki Hafnarnesvita muni sameiginlega tryggja öryggi siglingaleiða um Fáskrúðsfjörð. Af þessu leiði að fyrirhuguð breyting ógni ekki öryggi siglinga.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018 sé að finna umfjöllun um áhrif framkvæmdarinnar á fuglalíf. Þar lýsi stofnunin þeirri afstöðu sinni að það sé líklegt að fiskur komi til með að leita í krækling í æti við kvíar sem geti þá orðið bráð ýmissa sjófugla. Þá sé mögulegt að æðarfugl komi til með að leita í krækling á eldisbúnaði og þar af leiðandi geti aukið fæðuframboð í nágrenni kvía haft áhrif á dreifingu fugla innan fjarðanna og jafnframt leitt til staðbundinnar fjölgunar tiltekinna fuglategunda. Að mati stofnunarinnar hafi því verið uppi óvissa um heildaráhrif fiskeldisins á fugla í fjörðunum, sem og á einstakar fuglategundir. Meðal óvissuþátta sé möguleg fjölgun máva í nágrenni sjókvía og áhrif þeirrar fjölgunar á aðrar fuglategundir eins og æðarfugl. Að sama skapi sé óvissa til staðar um hvort fiskeldið muni hrekja fugla frá búsvæðum og hvaða þýðingu það hafi fyrir fuglalíf í fjörðunum. Hafi stofnunin talið það gefa tilefni til að í starfsleyfi verði sett skilyrði um vöktun á fuglalífi í nágrenni eldissvæða. Með hliðsjón af skilgreiningu umtalsverðra umhverfisáhrifa, sbr. p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000, telji stofnunin ólíklegt að fyrirhuguð færsla eldissvæða hafi umtalsverð umhverfisáhrif á æðarvarp. Bent sé á að hvorki í umsögn Umhverfisstofnunar né Náttúrufræðistofnunar hafi sérstaklega verið vikið að nærliggjandi friðlýstum æðarvörpum.

Í umsögn Fiskistofu komi fram að með fyrirhugaðri breytingu á staðsetningu eldissvæða styttist fjarlægð milli þeirra og útsetning seiða verði tíðari. Þessar breytingar geti aukið líkurnar á því að laxalús eða fiskilús verði vandamál í eldinu og geti borist milli eldissvæða, einkum með hafstraumi frá Eyri/Fögrueyri til Einstiga. Mikið sé í húfi til að verja þá góðu stöðu sem hafi verið á Austfjörðum en lús hafi ekki verið vandamál þar. Síðan segi í umsögninni að hin kynnta breyting muni þó ekki auka líkurnar svo mikið á neikvæðum áhrifum á villta stofna vegna mögulegs lúsasmits, frá því sem nú sé, að það kalli á að breytingin undirgangist mat á umhverfisáhrifum. Að því virtu, og í ljósi þess að í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018 sé að finna umfjöllun um fisksjúkdóma og laxalús, hafi ekki verið tilefni fyrir stofnunina að afla upplýsinga um áhrif breytinganna m.t.t. laxalúsar og fiskilúsar.

Rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sé að mati Skipulagsstofnunar fullnægjandi með tilliti til 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin hafi í stjórnsýsluframkvæmd sinni litið svo á að rökstyðja beri ákvörðun út frá þeim sjónarmiðum í 2. viðauka sem „við eiga í hverju máli.“ Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 53/2020 segi t.d.: „Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun varðar hvaða liðir vegi þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar geti talist umtalsverð.“ Í athugasemdum við frumvarp það er orðið hafi að breytingalögum nr. 96/2019 komi fram að Skipulagsstofnun beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem „skipti mestu máli“ hvað varði framkvæmdina. Samkvæmt því sem hér sé rakið þurfi ekki alltaf að víkja að öllum sjónarmiðum í viðaukanum. Hin tilkynnta framkvæmd hafi ekki kallað á frekari rökstuðning, en skoða verði rökstuðninginn með hliðsjón af áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018. Þá sé bent á að í athugasemdum með frumvarpi því er orðið hafi að stjórnsýslulögum komi fram að í flestum tilvikum ætti tiltölulega stuttur rökstuðningur fyrir ákvörðunum að nægja í málum á „fyrsta stjórnsýslustigi.“ Jafnvel þó svo að úrskurðarnefndin telji rökstuðninginn annmarka á hinni kærðu ákvörðun þá sé hann ekki svo verulegar að leiði til ógildingar ákvörðunarinnar.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er gerð krafa um að málinu verði vísað frá þar sem ekki liggi fyrir fullnægjandi umboð frá þeim kærendum sem séu náttúruverndarsamtök til þess lögmanns sem riti undir kæruna. Umboðin séu haldin ágalla þar sem þau séu óvottuð, auk þess sem hin kærða ákvörðun sé ranglega dagsett. Formenn félagasamtakanna geti ekki tekið ákvörðun um kæru fyrir hönd félaganna án þess að fyrir liggi viðeigandi heimild til þess. Of seint sé að bæta úr annmörkunum. Þá hafi samtökin ekki sýnt fram á að þau uppfylli skilyrði sem sett séu fyrir aðildarhæfi í 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn um hvaða hagsmuni þeir kunni að hafa af úrlausn málsins. Skorti þá því lögvarða hagsmuni í málinu og beri að vísa málinu frá, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1007/2020. Við mat á lögvörðum hagsmunum verði að miða við hvað breytingin feli í sér og hverju hún breyti frá skilgreindu ástandi samkvæmt mati á umhverfisáhrifum, en umdeild breytingin hafi ekki áhrif á kærendur. Fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum fyrir eldi á 11.000 tonnum af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði og feli tillaga að breytingu ekki í sér breytingu á framleiðslumagni eða nokkru því sem geti haft áhrif á hagsmuni kærenda eða félagsmenn þeirra. Að auki liggi fyrir mat sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar á hættu á erfðablöndun af eldi í Fáskrúðsfirði og sé hún hverfandi eða engin. Í áhættumatinu viðurkenni stofnunin að Breiðdalsá sé hafbeitará og þar af leiðandi sé hún ekki með villtan fiskistofn, sbr. skilgreiningu 3. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi á villtum fiskistofni, sbr. einnig sömu skilgreiningu í lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og lögum nr. 58/2006 um fiskirækt. Með því að flokka Breiðdalsá sem hafbeitará sé stofnunin að segja að áin eigi ekki að njóta verndar sem aftur feli í sér að engir lögvarðir hagsmunir séu tengdir ánni. Því mati séu stjórnvöld bundin af við úrlausn ágreinings.

Við mat á ógildingu þurfi að hafa hugfast að lax sé nú önnur verðmætasta útflutningsfiskafurð Íslands og fiskeldi sé megin atvinnustoð tveggja landsfjórðunga. Því þurfi mikið að koma til svo hin kærða ákvörðun verði ógild. Ákvörðun Skipulagsstofnunar og tilkynningar framkvæmdaraðila um fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningu uppfylli þau skilyrði sem sett séu í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og samnefndri reglugerð nr. 660/2015. Skipulagsstofnun hafi aflað umsagna leyfisveitanda og annarra hlutaðeigandi umsagnaraðila og sé engin þessara umsagna háð annmörkum, a.m.k. ekki annmörkum sem geti leitt til þess að kröfur kærenda verði teknar til greina. Beiting 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar sé háð mati Skipulagsstofnunar, enda sé gerður sá fyrirvari að meta skuli upplýsingaskyldu út frá eðli og umfangi hlutaðeigandi framkvæmdar, en jafnframt að leita skuli umsagnar annarra en leyfisveitenda eftir eðli máls, líkt og gert hafi verið.

Þegar rætt sé um eldi á frjóum laxfiski þá sé talað um lax, enda sé lax alltaf frjór nema það eigi sér stað inngrip í þroskaferil hans. Sé verið að ræða um eldi á ófrjóum laxi þá sé undantekningarlaust rætt um ófrjóan lax. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018 sé eldi á 11.000 tonnum af frjóum fiski í Fáskrúðsfirði, en gerður sé fyrirvari um að framkvæmdin sé alltaf í samræmi við gildandi áhættumat á hverjum tíma. Matsskýrslan sé mjög skýr hvað þetta varði. Stefna framkvæmdaraðila hafi, allt frá því áhættumat erfðablöndunar hafi fyrst verið kynnt 14. júlí 2017, verið sú að fylgja matinu og sé það nú lagaskylda. Kærendur rugli saman annars vegar magni frjós fisks samkvæmt útsetningaráætlun, sem endurspegli ávallt áhættumat og taki breytingum, og svo tilgreindu magni fisks í eldi samkvæmt mati á umhverfisáhrifum. Magn samkvæmt útsetningaráætlun geti því bæði hækkað og lækkað út frá gildandi áhættumati og leyfum, en alinn frjór fiskur fari þó aldrei yfir 20.800 tonn í báðum fjörðunum.

Í matsskýrslu framkvæmdaraðila, þar sem fjallað sé um hættuna á sleppingum eldisfisks og þar af leiðandi hættu á erfðablöndun, miðist útreikningar við heildarfjölda útsettra seiða í Fáskrúðsfirði eða 4.000.000, sem sé það magn sem þurfi til að búa til 11.000 tonn af frjóum fiski. Ef matsskýrslan hefði verið unnin út frá því að alin væru 6.000 tonn af frjóum fiski þá hefði verið miðað við 2.200.000 seiði í umfjöllun um umhverfisáhrif. Eldi á frjóum fiski og ófrjóum sé ekki frábrugðið hvort öðru nema að því er taki til hættu á erfðablöndun við villta stofna. Ef fjallað hefði verið um eldi og áhrif eldis á ófrjóum fiski á villta stofna í matsskýrslunni hefði þá umfjöllun verið að finna í kafla 6.5.3. um umhverfisáhrif. Sá kafli matsskýrslunnar geri það hins vegar ekki. Um eldi á ófrjóum fiski sé fjallað í valkostagreiningu og eðli málsins samkvæmt lúti því megniefni skýrslunnar að eldi á frjóum fiski.

Því sé andmælt að ekki sé nægjanlega fjallað um aukningu á eldi á frjóum fiski í tilkynningu framkvæmdaraðila, en það sé Skipulagsstofnunar að meta hverju sinni út frá aðstæðum hversu ítarleg tilkynning þurfi að vera varðandi einstaka þætti. Breyting á útsetningaráætlun taki bæði til breytinga á kynslóðaskiptingu og magni frjós fisks. Fram komi í tilkynningu að framkvæmdaraðili hafi óskað eftir uppfærslu gildandi leyfis með það i huga að magn frjós fisks verði aukið, enda miðist fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar við það að meta hvaða áhrif 11.000 tonna lífmassi af frjóum fiski hafi á fjörðinn og umhverfið. Hinn 9. júní 2020, fimm mánuðum áður en tilkynningin hafi verið send til Skipulagsstofnunar, hafi framkvæmdaraðili óskað eftir því við Matvælastofnun að rekstrarleyfi yrði uppfært miðað við nýtt áhættumat. Sé byggt á því að stofnuninni ber skylda til að uppfæra rekstrarleyfi miðað við breytt áhættumat og kalli slíkt ekki á aðkomu Skipulagsstofnunar, sbr. 4. mgr. 6. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé ítarlega fjallað um tilfærslu svæða, uppdrættir sýndir og nákvæmar hnitsetningar. Einnig sé ítarleg eldisáætlun sett fram ásamt upplýsingum um hvíldartíma, en hann sé óbreyttur frá því sem segi í matsskýrslu. Þá sé ítarlega fjallað um svæðaskipulagið og þróun þess, en m.a. komi fram að rými til siglinga aukist mikið miðað við breytingar á eldissvæðum, sem minnki líkur á óhöppum við siglingar í firðinum. Jafnframt liggi fyrir umsögn Vegagerðarinnar um siglingaleiðir.

Umsagnir séu vel rökstuddar og einróma um að breytingin feli ekki í sér að framkvæmdin skuli sæta mati á umhverfisáhrifum. Telji Hafrannsóknastofnun m.a. að nægilega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar og mótvægisaðgerðum hvað varði áhættumat erfðablöndunar. Í umsögn Umhverfisstofnunar sé fjallað ítarlega um þá ætlan framkvæmdaraaðila að ala eingöngu frjóan lax og staðfest að í fyrra mati á umhverfisáhrifum hafi verið gert ráð fyrir 11.000 tonna framleiðslu á frjóum laxi. Þar sem tilkynningin lúti að breytingu á eldisáætlun sé bæði vísað til breytingar á fjölda seiða í útsetning, sem og breytingar í frjóan fisk.

Áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat feli ekki í sér áætlanir sem marki stefnu um leyfisveitingar til framkvæmda á tilteknu svæði. Hvort tveggja séu í eðli sínu rannsóknir og séu einungis hluti af mörgum rannsóknum og forsendum sem þurfi að vera fyrir hendi til að leyfi sé veitt til fiskeldis. Þannig geti niðurstaðan orðið sú að fiskeldi verði ekki leyft þó áhættumat og burðarþolsmat heimili það. Síðan kunni að koma upp sú staða að annað hvort áhættumat eða burðarþolsmat heimili eldi en hitt matið geri það ekki og þá verði ekki af eldi á viðkomandi stað. Áhættumat og burðarþolsmat séu því ekki afgerandi um útgáfu leyfa og séu auk þess háð breytingum og skulu endurskoðast reglulega, sbr. 3. mgr. 6. gr. a og 2. mgr. 6. gr. b í lögum nr. 71/2008.

Þegar áhættumat og burðarþolsmat liggi fyrir vinni Hafrannsóknastofnun svæðaskipulag eldissvæða skv. 4. gr. a í lögum nr. 71/2008, en jafnframt þá sé gert strandsvæðaskipulag af svæðisráðum samkvæmt lögum nr. 22/2008 um skipulag haf- og standsvæða. Að því loknu þá sé eldissvæðum úthlutað og þeir aðilar sem fái úthlutun geti farið með fyrirhugaðar framkvæmdir í mat á umhverfisáhrifum. Slíkt mat byggi fjölda rannsókna, þ. á m. áhættumati og burðarþolsmati, og sé það ekki fyrr en að því loknu, ef því ljúki með áliti, sem leyfi geti hugsanlega verið gefið út, en um það eigi Umhverfisstofnun og Matvælastofnun sjálfstætt mat. Þar með sé sjónarmiðum um aðkomu almennings og málskotsrétt fullnægt en það séu einmitt þau sjónarmið sem lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana byggi á. Sú ákvörðun sem hér sé til umfjöllunar byggi á mati á umhverfisáhrifum þar sem allir þeir þættir sem ákvörðunin byggi á hafi verið kynntir almenningi og þeim gefist kostur á að gera athugasemdir. Umfang og eðli framkvæmdarinnar hafi ekki breyst frá því að matið hafi verið gert og sé því um að ræða óverulegar breytingar sem séu undanþegnar lögum nr. 105/2006 samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, sbr. 10. gr. Um það hafi Skipulagsstofnun úrskurðað með ákvörðun sinni. Það að kynna framkvæmd aftur og gera um hana umhverfisskýrslu væri tvíverknaður og ekki í samræmi við markmið laga nr. 105/2006. Í því tilviki sem hér um ræði eigi eftir að gefa út rekstrarleyfi og starfsleyfi, sem verði auglýst og almenningi veittur réttur til athugasemda og málskots.

Kærð sé ákvörðun Skipulagsstofnunar sem falli ekki undir lög nr. 105/2006, en að auki sé í þeim lögum ekki heimild til ógildingar ákvörðunar, hvað þá sjálfstæðrar ákvörðunar sem ekki sé fjallað um í lögunum, eins og ákvörðun um matsskyldu sé. Eftir gildistöku breytingalaga nr. 101/2019 hafi dómstólar og úrskurðarnefndin ítrekað fjallað um mál tengd leyfisveitingum til fiskeldis þar sem áhættumat og burðarþolsmat hafi komið til skoðunar og legið til grundvallar úrlausn máls, s.s. úrskurði í málum nr. 89/2020 og 3/2020 og úrskurð Landsréttar í máli nr. 10/2019. Í þeim málum hafi ekki verið vikið að því að áhættumat eða burðarþolsmat falli undir lög nr. 105/2006. Hafa beri hugfast að úrskurðarnefndinni beri að beita málsástæðum og lagarökum þótt málsaðilar hafi ekki haldið þeim fram í gögnum málsins.

Þá sé það Skipulagsstofnun sem skeri úr um ef vafi leiki á því hvort lög nr. 105/2006 eigi við. Af framkvæmd megi ráða að Hafrannsóknastofnun telji ekki að áhættumat og burðarþolsmat falli undir lögin og hafi það mat verið staðfest af ráðherra að því er taki til áhættumats. Skipulagsstofnun hafi gefið út álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar þar sem áhættumat og burðarþolsmat sé lagt til grundvallar og af því megi ráða að stofnunin meti það svo að lög nr. 105/2006 nái ekki yfir áhættumat og burðarþolsmat. Hin kærða ákvörðun byggi á áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar frá 14. júní 2018, en rekstrarleyfi hafi verið gefið út 21. mars 2019 og starfsleyfi 19. s.m. Allt hafi þetta farið fram fyrir gildistöku laga nr. 101/2019 þegar áhættumat og burðarþolsmat hafi verið lögfest. Ekki verði talið að lögum nr. 105/2006 verði beitt um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, eða ákvörðun byggða á því mati, sem framkvæmt hafi verið fyrir gildistöku laga nr. 101/2019.

Fyrir liggi ítarlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar ásamt valkostagreiningu. Matið byggi á því að hvíld milli kynslóða sjókvíaeldissvæðis sé 9-12 mánuðir og sé það óbreytt samkvæmt tillögu framkvæmdaraðila. Með breytingunni sé lífrænu álagi dreift betur um fjörðinn, fóðrun minnkuð, seiðum í sjó fækkað og lífmassinn færður utar og sunnar í fjörðinn, en það auki upplausn efna og minnki álag á fjörðinn sjálfan. Þá sé ítarleg umfjöllun um möguleg áhrif á æðarvörp í mati á umhverfisáhrifum. Í vöktunaráætlun framkvæmdaraðila, sem samþykkt sé af Umhverfisstofnun, sé gert ráð fyrir vöktun áhrif eldis á fuglalíf og taki það einnig til æðarvarps. Ekki hafi fundist laxalús á eldisfiski á Austfjörðum, en fiskilús hafi fundist og sé hún talin meinlaus.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í athugasemdum framkvæmdaraðila komi fram að breyting á útsetningaráætlun feli í sér breytingu á framleiðslumagni á frjóum fiski úr 6.000 tonnum í 11.000 tonn. Liggi því fyrir að með hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið tekin afstaða til matsskyldu vegna eins þeirra meginþátta sem hin tilkynnta breyting hafi lotið að. Óháð því hvort það eigi rætur að rekja til annmarka á tilkynningu framkvæmdaraðila eða ófullnægjandi mats og rannsóknar Skipulagsstofnunar sé hin kærða ákvörðun að þessu leyti haldin verulegum annmarka sem leiði óhjákvæmilega til þess að hún verði felld úr gildi.

Áréttað sé að hin kærða ákvörðun feli ekki í sér að breyting á eldi á frjóum laxi úr 6.000 tonnum í 11.000 tonn sé ekki matsskyld af þeirri ástæðu að umhverfisáhrif breyttrar framkvæmdar hafi þegar verið metin með fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum. Eins og skýrlega komi fram í umsögn Skipulagsstofnunar hafi stofnunin ekki tekið efnislega afstöðu til þess hvort þessi breyting á framkvæmdinni sé matsskyld. Ekki reyni því á gildissvið fyrirliggjandi mats á umhverfisáhrifum að þessu leyti við úrlausn kærumálsins. Mat á umhverfisáhrifum skv. 4. gr. a í samnefndum lögum nr. 106/2000 samanstandi af sex þáttum sem þar séu nánar tilgreindir, þ.m.t. athugun Skipulagsstofnunar á matsskýrslu framkvæmdaraðila, áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og að álit stofnunarinnar sé lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um leyfi til framkvæmda. Hvað sem líða kunni áformum framkvæmdaraðila um síðari breytingar hafi álit Skipulagsstofnunar frá 14. júní 2018 á matsskýrslu framkvæmdaraðila skýrlega verið reist á þeirri forsendu, sem einnig komi fram í matsskýrslunni, að í hinni metnu framkvæmd fælist framleiðsla á að hámarki 6.000 tonnum á ári af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að breyting á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Fáskrúðsfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuni að gæta geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna tilgreindra ákvarðana enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. teljast umhverfisverndarsamtök samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Samtök skv. 1. og 2. málsl. skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald. Meðal þeirra ákvarðana sem framangreind samtök geta kært eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Framkvæmdaraðili hefur farið fram á frávísun málsins á þeim grundvelli að kærendur uppfylli ekki skilyrði kæruaðildar laga nr. 130/2011. Fyrir úrskurðarnefndinni liggja gögn er sýna fram á að náttúruverndarsamtök þau er standa að kærumáli þessu uppfylla fyrrnefnd skilyrði kæruaðildar. Þá verða fyrirliggjandi umboð samtakanna til lögmanns ekki talin ófullnægjandi, svo sem framkvæmdaraðili heldur fram. Við mat á því hvort Veiðifélag Breiðdæla uppfylli skilyrði um lögvarða hagsmuni verður að meta hagsmuni og tengsl félagsins við úrlausn málsins, þ.e. hvort það eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Almennt verður þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni. Þannig ber að jafnaði ekki að vísa málum frá vegna þess að þá skorti, nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir þá hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu. Telur veiðifélagið sig eiga hagsmuni að gæta vegna nálægðar Breiðdalsár í Breiðdalsvík við fyrirhugað laxeldi og mögulegra áhrifa eldisins á náttúrulega laxastofna og veiði í ánni sem því fylgi.

Veiðifélagi Breiðdæla hefur áður verið játuð kæruaðild í málum fyrir úrskurðarnefndinni sem lúta að sjókvíaeldi á frjóum laxi. Var félagið þannig nýlega talið hafa lögvarða hagsmuni í kærumálum nr. 107 og 111/2020 en þar var kærð sú ákvörðun Matvælastofnunar að gefa út rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á laxi í Reyðarfirði með 10.000 tonna hámarkslífmassa. Byggðist niðurstaðan m.a. á að í mati Hafrannsóknastofnunar á áhættu af erfðablöndun eldislaxa við íslenska laxastofna er Breiðdalsá talin vera við þröskuldsgildi ásættanlegs innstreymis eldislaxa í náttúrulega laxveiðiá. Jafnframt var litið til þess að innan við 40 km eru frá ósum Breiðdalsár að því eldissvæði sem þá var fyrirhugað yst í Reyðarfirði. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru sambærilegar aðstæður til staðar vegna sjókvíaeldis framkvæmdaraðila í Fáskrúðsfirði og með hliðsjón af því, sem og að virtum fyrrgreindum sjónarmiðum um aðild að stjórnsýslumáli, verður Veiðifélagi Breiðdæla játuð kæruaðild í máli þessu.

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt flokki B, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B skulu háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. nefndra laga. Þegar framkvæmdaraðili hefur tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr., tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar.

Í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Niðurstöðu sína um hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skal Skipulagsstofnun skv. 3. mgr. nefndrar 6. gr., svo sem henni var breytt með lögum nr. 96/2019, rökstyðja með hliðsjón af þeim viðmiðum sem talin eru upp í 2. viðauka laga nr. 106/2000, en þau eru í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka, en undir hverjum tölulið er svo talinn upp fjöldi annarra liða. Skal Skipulagsstofnun taka matsskylduákvörðun innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina og er stofnuninni heimilt að setja fram ábendingar um tilhögun hennar sé hún ekki matsskyld að áliti stofnunarinnar. Í frumvarpi með breytingalögum nr. 96/2019 er tekið fram að með breytingunni sé gerð skýrari krafa um innihald ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Henni beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem skipti mestu máli hvað varðar framkvæmdina. Rökstuðningur eigi bæði við um ákvörðun um að framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum og ákvörðun um að framkvæmd skuli ekki háð slíku mati. Skipulagsstofnun skuli byggja ákvörðun sína um matsskyldu á upplýsingum frá framkvæmdaraðila, en sé einnig heimilt að byggja hana á öðrum gögnum. Þar undir gætu til dæmis fallið forprófanir eða mat á umhverfisáhrifum sem fram hafi farið á grundvelli annarra laga og ábendingar sem henni berist frá öðrum, til dæmis stofnunum og almenningi.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Fjarðabyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, eins og rakið er í málavaxtalýsingu. Telur Umhverfisstofnun í sinni umsögn að breytingin muni ekki koma til með að hafa neikvæð áhrif og að áhrif framkvæmdarinnar liggi ljós fyrir. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar er tekið undir sjónarmið framkvæmdaraðila um að breytingin feli ekki í sér aukið álag á umhverfið frá því sem tilkynnt hafi verið í mati á umhverfisáhrifum frá 2018. Fiskistofa bendir í sinni umsögn á að fyrirhuguð breyting á staðsetningu eldissvæða stytti fjarlægð milli þeirra og útsetning seiða verði tíðari. Þessar breytingar geti aukið líkurnar á því að laxalús eða fiskilús verði vandamál í eldinu og geti borist milli eldissvæða, einkum með hafstraumi frá Eyri/Fögrueyri til Einstiga. Breytingin muni þó ekki auka líkurnar svo mikið á neikvæðum áhrifum á villta stofna vegna mögulegs lúsasmits að það kalli á að breytingin undirgangist mat á umhverfisáhrifum. Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að tillaga að breyttri staðsetningu sjókvía valdi því að þær lendi í markaðri siglingaleið um Fáskrúðsfjörð og vísar stjórnvaldið til ábyrgðar hafnaryfirvalda til að sjá til þess að öryggi siglinga sé tryggt. Í bókun hafnarstjórnar Fjarðabyggðar kemur fram að lögð sé áhersla á að ljósabúnaður við fyrirhugaðar eldiskvíar verði staðsettur með tilliti til núverandi vita. Merkingar við jaðra eldissvæðanna og ljósmerki vitans muni sameiginlega tryggja öryggi siglingaleiða um Fáskrúðsfjörð. Að lokum telur Minjastofnun í umsögn sinni að áður en kvíarnar verði festar niður verði að skoða botninn nákvæmlega með tilliti til fornleifa.

Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar skiptist í nokkra kafla. Fyrirhugaðri framkvæmd er lýst, þ.e. áformum framkvæmdaraðila um tilfærslu eldissvæða og breytta útsetningaráætlun, fjallað er um umhverfisáhrif breytingar framkvæmdarinnar, eins og þeim var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og umsögnum umsagnaraðila, og vikið að leyfum sem framkvæmdin er háð. Í niðurstöðukafla sínum vísar stofnunin til þess að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af eðli hennar, m.a. stærð og umfangi hennar og úrgangsmyndun. Einnig skuli taka mið af staðsetningu framkvæmdar, m.t.t. hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, s.s. með tilliti til þeirrar landnotkunar sem fyrir sé og álagsþols strandsvæða. Þá beri að skoða áhrif framkvæmdar í ljósi eiginleika hugsanlegra áhrifa, einkum með tilliti til svæðis sem ætla megi að verði fyrir áhrifum, stærðar og fjölbreytileika áhrifa og tímalengdar.

Í umfjöllun stofnunarinnar um staðsetningu og eðli framkvæmdar er vísað til þess að fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum allt að 20.800 tonna framleiðslu á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði frá 14. júní 2018. Um sé að ræða breytingu á þeirri framkvæmd sem felist í því að breyta staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Fáskrúðsfirði. Gera megi ráð fyrir að dreifing úrgangs og uppsöfnun næringarefna verði að einhverju leyti frábrugðin því sem gert hafi verið ráð fyrir í matsskýrslu. Fyrir liggi að megin straumstefna liggi inn fjörðinn að norðan og út að sunnan, auk þess sem meiri landhalli og dýpi sé undir fyrirhuguðum eldissvæðum í sunnanverðum firðinum. Með breyttri staðsetningu eldiskvía verði minni uppsöfnun næringarefna innar í firðinum þar sem umræddar breytingar muni leiða til þess að lífmassinn færist utar. Með hliðsjón af umsögnum Hafrannsóknastofnunar og Umhverfisstofnunar telji Skipulagsstofnun að breytt fyrirkomulag á eldi í firðinum komi ekki til með að auka umhverfisáhrif á botndýralíf og ástand sjávar. Taki stofnunin undir með umsögn Minjastofnunar um að sjávarbotn þeirra svæða sem tilfærsla eldissvæðanna nái til verði athugaður m.t.t. hugsanlegra minja. Þá bendir Skipulagsstofnun á að tilfærsla eldissvæða sé líkleg til að breyta áhrifum vegna ásýndar. Til að mynda muni eldissvæði færast nær Sandfelli sem sé hverfisverndað útivistarsvæði og á náttúruminjaskrá. Það muni mögulega auka sýnileika kvíanna fyrir gesti svæðisins, en að mati stofnunarinnar verði áhrifin þó að teljast minniháttar umfram núverandi áhrif á ásýnd og landslag. Jafnframt bendir stofnunin á að með tilfærslu eldissvæða lendi þau í markaðri siglingaleið en að með hliðsjón af umsögn Fjarðabyggðarhafna muni færsla eldissvæða ekki koma til með að hafa áhrif á öryggi siglingaleiða um Fáskrúðsfjörð. Loks tekur Skipulagsstofnun fram að fyrirhuguð færsla eldissvæða og breyting á útsetningaráætlun komi ekki til að breyta eiginleikum hugsanlegra umhverfisáhrifa af fiskeldi í Fáskrúðsfirði. Umhverfisáhrif komi að mestu til með að vera sambærileg og að með færslu eldissvæða í útstraum fjarðarins kunni að verða jákvæð áhrif af breytingu á dreifingu úrgangs og uppsöfnun næringarefna. Var niðurstaða Skipulagsstofnunar, eins og fyrr greinir, sú að hin umdeilda framkvæmd skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B í 1. viðauka laganna. Ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar skal Skipulagsstofnun byggja á þeim upplýsingum sem framkvæmdaraðili hefur lagt fram, sbr. 2. mgr., og öðrum gögnum um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, ef við á. Tilkynning framkvæmdaraðila einskorðaðist við breytingu á eldissvæðum og útsetningaráætlun. Í texta tilkynningarinnar kemur fram að sett verði út seiði á hverju ári þannig að almennt verði tvö svæði í notkun á meðan það þriðja verði í hvíld. Fjallað er um fjölda og stærð seiða og tekið fram að lífmassi muni aldrei fara yfir 11.000 tonn, en ekki hver skipting verði í frjóan lax og ófrjóan. Ný útsetningar- og eldisáætlun í viðauka 1 með tilkynningunni tilgreinir sömu atriði, sömuleiðis án þess að slík skipting komi fram. Þótt vikið sé að þeirri fyrirætlan framkvæmdaraðila að fá leyfum sínum breytt á þann veg að meira magn frjós lax verði alið er ljóst að tilkynning hans lýtur ekki að þeim breytingum. Var því Skipulagsstofnun ekki skylt að fjalla um aukningu á eldi á frjóum laxi, svo sem kærendur telja að stofnuninni hafi borið að gera. Að sama skapi er það ekki ágalli á þeim umsögnum sem Skipulagsstofnun aflaði sem hluta af rannsókn málsins á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að ekki hafi verið fjallað um aukna framleiðslu á frjóum laxi. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum skal í umsögn umsagnaraðila koma fram hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun, eftir því sem við á. Þegar litið er til eðlis og umfangs þeirrar breytingar á framkvæmd sem um ræðir verður ekki talið að frekari umfjöllun eða rökstuðningur umsagnaraðila hafi átt við í skilningi nefnds reglugerðarákvæðis.

Svo sem henni bar lagði Skipulagsstofnun að lokum sjálfstætt mat á það hvort breytingin á framkvæmdinni skyldi háð mati á umhverfisáhrifum, en taldi að svo væri ekki. Ljóst er að ekki er ætlast til þess að í ákvörðun um matsskyldu, vegna breytingar á framkvæmd sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum, séu metin að nýju umhverfisáhrif hinnar upprunalegu framkvæmdar heldur einskorðast ákvörðunin við þau áhrif sem breytingin getur kallað fram. Verður að skoða röksemdir Skipulagsstofnunar fyrir niðurstöðu hennar í því ljósi. Þá fer það eðli máls samkvæmt eftir þeirri breytingu á framkvæmd sem ákvörðun snýst um hvaða atriði sem tiltekin eru í 1.-3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif breytingarinnar teljist umtalsverð. Það að breyting framkvæmdar falli undir einhvern liðanna leiðir ekki sjálfkrafa til matsskyldu, en kann eftir atvikum að gefa tilefni til að kanna sérstaklega samspil allra þeirra liða sem upp eru taldir í 2. viðauka. Reynsla af upprunalegu framkvæmdinni, vöktun og mótvægisaðgerðum kann að gefa vísbendingu um hver áhrif breytingarinnar kunni að verða. Að þessu virtu var að áliti úrskurðarnefndarinnar lagt mat á þá þætti sem máli skiptu um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni, svo sem hún var kynnt af framkvæmdaraðila. Þá tók Skipulagsstofnun við það mat, sem áður er fjallað um, viðhlítandi tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka nefndra laga.

Kærendur byggja m.a. á því að áður en hin kærða matsskylduákvörðun var tekin hafi umhverfismat áætlana samkvæmt samnefndum lögum nr. 105/2006 ekki farið fram vegna mats Hafrannsóknastofnunar á áhættu af erfðablöndun frjórra eldislaxa við villta laxastofna, sbr. 6. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006 gilda þau um umhverfismat þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytingar á þeim sem marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar er undanfari leyfis til framkvæmda sem fellur undir lög nr. 106/2000, s.s. þegar um er að ræða leyfi fyrir fiskeldi, en ákvörðunin sjálf felur ekki í sér slíkt leyfi. Raskar því skortur á umhverfismati áætlana, óháð því hvort það hefði átt að fara fram eða ekki vegna hinnar upprunalegu framkvæmdar, ekki gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hún tók hin kærðu matsskylduákvörðun, lagt tilhlýðilegt mat á efni málsins og rökstutt niðurstöðu sína með fullnægjandi hætti. Þar sem enga þá annmarka er að finna á hinni kærðu ákvörðun sem leiða ættu til ógildingar verður kröfu kærenda þar um hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 13. janúar 2021 um að breytingar á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun sjókvíaeldis í Fáskrúðsfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.