Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

73/2008 Sörlaskjól

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 20. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 73/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. júní 2008 um veitingu byggingarleyfis fyrir hækkun húss, gerð tveggja nýrra kvista, breytingu eldri kvists og glugga, greftri frá kjallara og breytinga á innra skipulagi einbýlishússins að Sörlaskjóli 24 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júlí 2008, er barst úrskurðarnefndinni 7. ágúst sama ár, kærir K, íbúðareigandi að Sörlaskjóli 26, persónulega og fyrir hönd T, íbúðareiganda að Ægissíðu 117 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. júní 2008 að veita byggingarleyfi fyrir hækkun húss, gerð tveggja nýrra kvista, breytingu á eldri kvisti og glugga, greftri frá kjallara og breytingu á innra skipulagi einbýlishússins að Sörlaskjóli 24 í Reykjavík.  Borgarráð staðfesti hina kærðu ákvörðun hinn 26. júní 2008.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. mars 2008 var tekin fyrir leyfisumsókn fyrir áður gerðri stækkun bílskúrs og hækkun húss, byggingu tveggja nýrra kvista, breytingu á kvisti og gluggum sem fyrir voru, stækkun svala, greftri frá kjallara og breytingu á innra skipulagi einbýlishússins að Sörlaskjóli 24.  Málinu var vísað til umsagnar skipulagsstjóra sem afgreiddi erindið neikvætt á embættisafgreiðslufundi sínum 7. mars 2008 með vísan til umsagnar sinnar, dags. sama dag.

Erindið var síðan til meðferðar hjá byggingarfulltrúa sem ákvað á fundi sínum hinn 22. apríl 2008 að vísa því til skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 25. apríl 2008 var samþykkt að grenndarkynna framlagða umsókn fyrir hagsmunaaðilum að Sörlaskjóli nr. 22 og 26 ásamt Ægissíðu nr. 115 og 117 og bárust athugasemdir frá kærendum.  Ákvað skipulagstjóri að vísa málinu til skipulagsráðs sem afgreiddi það á fundi sínum 11. júní 2008 með svofelldri bókun:  ,,Ráðið gerir ekki athugasemdir við að byggingarleyfi verði gefið út þegar uppdrættir hafa verið lagfærðir.  Vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.“  Byggingarfulltrúi samþykkti síðan umsóknina á fundi hinn 24. júní 2008 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 26. sama mánaðar.  Felur hið kærða byggingarleyfi m.a. í sér heimild til hækkunar útveggja hússins að Sörlaskjóli 24 um einn metra og samsvarandi hækkunar á þaki auk tveggja nýrra kvista á norðurfleti þaks.  Á samþykktum byggingarteikningum er stækkun húss sögð vera 47 m2 og hækkun nýtingarhlutfalls úr 0,55 í 0,64. 

Skutu kærendur veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að þeim hafi verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir að Sörlaskjóli 24 og fá nánari upplýsingar hjá skipulags- og byggingarsviði borgarinar.  Kærendur hafi leitað nánari upplýsinga um áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á skuggavarp og útsýni gagnvart fasteignum sínum.  Engin svör hafi hins vegar borist við athugasemdum kærenda en aðeins tilkynning um að umræddar framkvæmdir hafi verið samþykktar.  Ætla megi að það stafi af því að upplýsingar um áðurgreind grenndaráhrif hafi ekki legið fyrir hjá borgaryfirvöldum en það hljóti að vera lágmarksréttur íbúa að fá slíkar upplýsingar um áhrif framkvæmda á eignir þeirra svo unnt sé að taka upplýsta ákvörðun. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu boraryfirvalda er farið fram á að hin kærða ákvörðun um veitingu byggingarleyfis standi óhögguð. 

Við grenndarkynningu umsóttra breytinga á fasteigninni að Sörlaskjóli 24 hafi athugasemdir borist frá báðum kærendum sem að mestu hafi lotið að áhrifum á útsýni og skuggavarp á fasteignir þeirra að Sörlaskjóli nr. 26 og Ægissíðu nr. 117.  Í skjalasafni skipulags- og byggingasviðs liggi fyrir svör við þeim athugasemdum, dags. 6. júní 2008.  Þar komi eftirfarandi fram:  ,,Hækkun hússins mun lengja skugga frá því sem nú er um 1-2 metra.  Skipulagsstjóri tekur ekki undir þær athugasemdir sem borist hafa, enda ljóst að um óveruleg áhrif á nálæga byggð er að ræða.  Yfir sumartímann nær skuggi hússins fyrir breytingu ekki yfir á lóð nr. 117 við Ægissíðu, en mun lítillega fara yfir þau eftir breytinguna.  Ekki fæst séð að skugginn skerði nýtingu á garðinum yfir sumartímann.“

Kærendum hafi verið sent bréf, dags. 25. júní 2008, þar sem þeim hafi verið greint frá endanlegri afgreiðslu umdeildrar byggingarleyfisumsóknar en þau mistök virðist hafa orðið að láðst hafi að láta svör við athugasemdum kærenda fylgja.  Þessi mistök beri að harma en þó verði ekki talið að þau eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Meðferð málsins hafi að öðru leyti verið lögum samkvæmt, afstaða tekin til athugasemda og þeim svarað með vönduðum hætti þótt farist hafi fyrir að senda þeim þau svör sem athugasemdir gerðu. 

Niðurstaða:  Af málatilbúnaði kærenda verður ráðið að þeir óttist skuggavarp og útsýnisskerðingu gagnvart fasteignum sínum vegna heimilaðrar hækkunar hússins að Sörlaskjóli 24 og að málsmeðferð hafi verið ábótavant þar sem nefnd grenndaráhrif hafi ekki verið könnuð og athugasemdum þeirra við grenndarkynningu ekki verið svarað.

Í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er fjallað m.a. um grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar í þegar byggðum hverfum sem ekki hafa verið deiliskipulögð.  Annast skipulagsnefnd grenndarkynninguna áður en málið er afgreitt af hálfu byggingaryfirvalda og tekur afstöðu til framkominna athugasemda í niðurstöðu sinni í málinu með sama hætti og þegar um er að ræða kynningu skipulags skv. 1. mgr. 25. gr. laganna.  Tekið er fram að þeir sem tjáð hafi sig um málið skuli tilkynnt um niðurstöðu skipulagsnefndar auk niðurstöðu byggingarnefndar. 

Óumdeilt er í málinu að láðst hafi að senda kærendum niðurstöðu skipulagsráðs Reykjavíkur í kjölfar grenndarkynningar hinnar umdeildu byggingarleyfisumsóknar þegar þeim var tilkynnt um samþykkt hennar.  Hins vegar liggur fyrir að hugað var að grenndaráhrifum vegna kynntra breytinga á fasteigninni að Sörlaskjóli 24 í tilefni af athugasemdabréfum kærenda áður en skipulagsráð tók afstöðu í málinu.  Í ljósi þess verður umræddur annmarki ekki talinn leiða til ógildingar ákvörðunarinnar. 

Hús kærenda standa norðan og austan við húsið að Sörlaskjóli 24 í um 12-15 metra fjarlægð.  Samkvæmt samþykktum teikningum fer nýtingarhlutfall lóðarinnar að Sörlaskjóli 24 úr 0,55 í 0,64 við hina umdeildu breytingu en samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá er nýtingarhlutfall nágrannalóða eftirfarandi:  0,64 að Sörlaskjóli 22, 0,74 að Sörlaskjóli 26, 0,85 að Ægisíðu 115 og 0,57 að Ægisíðu 117.  Hæðir húsa á svæðinu eru áþekkar og sker húsið að Sörlaskjóli 24 sig ekki úr að því leyti eftir heimilaða hækkun. 

Með hliðsjón af framangreindum aðstæðum og þar sem hækkun hússins að Sörlaskjóli 24 um einn metra og aðrar breytingar verða ekki taldar hafa umtalsverð grenndaráhrif gagnvart nágrannafasteignum þykja ekki efni til að raska gildi umdeildrar ákvörðunar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. júní 2008, er borgarráð staðfesti 26. sama mánaðar, um að veita byggingarleyfi fyrir hækkun húss og fleiri breytingum á fasteigninni að Sörlaskjóli 24 í Reykjavík. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

__________________________             __________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

8/2009 Hólatorg

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 24. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 8/2009, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 1. október 2008 um breytingu á deiliskipulagi Hólatorgsreits, er tók til lóðarinnar að Hólatorgi 2, og á ákvörðun byggingarfulltrúa frá 3. febrúar 2009 um að veita leyfi til stækkunar rishæðar hússins að Hólatogi 2, byggja tvennar svalir á vesturhlið, koma þar fyrir dyrum og tröppum út í garð og endurbyggja skúr á lóðinni. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. febrúar 2009, er barst nefndinni hinn 12. s.m., kæra G og S, Hávallagötu 1, G, Hávallagötu 3 og Á, S og S, Garðastræti 45, Reykjavík, samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 1. október 2008 um breytingu á deiliskipulagi Hólatorgsreits, er tók til lóðarinnar að Hólatorgi 2.  Hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. janúar 2009.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. febrúar s.á., er barst nefndinni samdægurs, kæra ennfemur N og H, Hávallagötu 1, framangreinda deiliskipulagsákvörðun. 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. mars 2009, er barst nefndinni hinn 3. s.m., kæra allir fyrrgreindir aðilar ákvörðun byggingarfulltrúa frá 3. febrúar 2009 um að veita leyfi til að stækka rishæð hússins að Hólatorgi 2 með því að hækka þak viðbyggingar og breyta í mænisþak, byggja tvennar svalir á vesturhlið, koma þar fyrir dyrum og tröppum út í garð og endurbyggja skúr á lóðinni.  Ákvað úrskurðarnefndin að sameina tvö hin síðari kærumál máli þessu. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. nóvember 2009, gerðu kærendur að Hávallagötu 1 ennfremur kröfu um að kveðinn yrði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Var þá langt komið endurbyggingu skúrs að Hólatorgi 2, en engar aðrar framkvæmdir er máli skipta hafa átt sér stað eftir að krafa kom fram um stöðvun framkvæmda og hefur því ekki verið tilefni til að taka hana sérstaklega til úrlaunsar.  Er málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Málavextir:  Árið 2004 öðlaðist gildi deiliskipulag svokallaðs Hólatorgsreits, er tekur til hluta Sólvallagötu, Blómvallagötu, Hávallagötu, Garðastrætis og Hólatorgs, og er á svæðinu gróin íbúðarhúsabyggð.  Samkvæmt skipulaginu er gert ráð fyrir að byggja megi við núverandi hús og/eða byggja bílskúr á öllum lóðum á svæðinu nema að Hólatorgi 2.  Þar eru ekki heimilaðar neinar breytingar en aftur á móti segir svo í greinargerð skipulagsins varðandi þá lóð:  „Á lóð nr. 2 [við Hólatorg] er skúr sem byggður var sem bílskúr, en hefur ekki verið notaður sem slíkur, og er nú geymsluskúr.  Leyfilegt er að endurbyggja skúrinn á sama stað og hann er nú með þeim skilmálum er koma fram um nýbyggingar bílskúra …“  Eftir gildistöku deiliskipulagsins, eða á árinu 2006, óskaði eigandi hússins að Hólatorgi 2 eftir heimild til breytinga á húsinu.  Ekkert varð af þeim fyrirætlunum. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. maí 2008 var lögð fram umsókn um leyfi til að stækka rishæð hússins nr. 2 við Hólatorg með því að hækka þak viðbyggingar og breyta í mænisþak, byggja tvennar svalir á vesturhlið hússins, koma þar fyrir dyrum og tröppum út í garð og endurbyggja skúr.  Nánar tiltekið fól umsóknin í sér að rishæð hússins yrði stækkuð um 20,8 m² og geymsluskúr á lóð minnkaður um 12,2 m².  Var afgreiðslu umsóknarinnar frestað og málinu vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 30. maí s.á. var málið tekið fyrir og eftirfarandi bókað:  „Frestað.  Samræmist ekki deiliskipulagi.  Ekki eru gerðar athugasemdir við það að umsækjendur láti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi á eigin kostnað, í samræmi við erindið, sem síðar verður grenndarkynnt.“ 

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 4. júlí 2008 var eftirfarandi fært til bókar:  „Hólatorg 2, breyting á deiliskipulagi.  Lögð fram umsókn, dags. 27. júní 2008, um að hækka þak á stigahúsi á norðurhlið og breyta því í mænisþak, gera svalir á rishæð á vesturhlið stigahússins og endurgera svalir á 2. hæð.  Meðfylgjandi eru uppdrættir, dags. 1. júlí 2008.  Samþykkt að kynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Garðastræti 43, 45 og 47, Hávallagötu 1 og 3 ásamt Hólatorgi 4.“  Bárust skipulags- og byggingaryfirvöldum borgarinnar athugasemdir vegna grenndarkynningarinnar, m.a. frá kærendum.  Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs 1. október 2008 og lögð fram umsögn skipulagsstjóra, dags. 17. september 2008.  Var eftirfarandi fært til bókar:  „Kynnt tillaga samþykkt með vísan til a-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð og umsagnar skipulagsstjóra.“

Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi til skipulags- og byggingarsviðs borgarinnar, dags. 23. október 2008, að stofnunin gerði athugasemdir við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.  Var einkum vísað til þess að Reykjavíkurborg hefði ekki svarað efnislega öllum athugasemdum er borist hefðu vegna grenndarkynningarinnar.  Með bréfi skipulags- og byggingarsviðs til Skipulagsstofnunar, dags. 26. janúar 2009, uppfærðu 20. febrúar s.á., var beðist velvirðingar á því að stofnuninni hefði aðeins verið send drög að umsögn skipulagsstjóra.  Segir ennfremur:  „Rétt umsögn fylgir með bréfi þessu og hefur öllum þeim er gerðu athugasemdir verið send rétt umsögn þar sem öllum athugasemdum er svarað.“ 

Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 12. janúar 2009. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. febrúar 2009 var samþykkt umsókn um leyfi til að stækka rishæð hússins að Hólatorgi 2 með því að hækka þak viðbyggingar og breyta í mænisþak, byggja tvennar svalir á vesturhlið, koma þar fyrir dyrum og tröppum út í garð og endurbyggja skúr á lóðinni.  Var samþykkt byggingarfulltrúa staðfest á fundi borgarráðs 5. febrúar 2009. 

Hafa kærendur skotið greindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að hinar kærðu ákvarðanir séu haldnar form- og efnisannmörkum, ásamt því að ganga gegn lögmætum hagsmunum þeirra, er leiða eigi til ógildingar hinna kærðu ákvarðana.  

Vísað sé til þess að núverandi deiliskipulag Hólatorgsreits sé frá árinu 2004.  Telji kærendur að þeir eigi að geta treyst því að deiliskipulaginu sé ekki breytt stuttu eftir samþykkt þess nema slíkt sé nauðsynlegt.  Á svæði því sem um ræði hafi verið gætt íhaldssemi um allar breytingar og hafi ýmsum viðaminni breytingum en þeirri er hér um ræði verið hafnað. 

Það hafi komið kærendum á óvart að fyrirhugaðar væru breytingar á húsinu að Hólatorgi 2.  Tveimur árum fyrr hafi sami eigandi sótt um leyfi til breytinga sem hafi verið mun viðaminni.  Þá hafi verið fundað með aðilum án þess að sættir næðust.  Fram hafi hins vegar komið í niðurstöðum skipulags- og byggingarsviðs að ekki skyldi gera breytingar á húsinu að Hólatorgi 2 nema í sátt við nágranna.  Í þessu hafi síður en svo falist nokkur geðþóttaákvörðun, heldur hafi afstaðan í raun verið óhjákvæmileg og eigi um leið stoð í gildandi deiliskipulagi, er miði að verndun íbúðarbyggðar á skipulagsreitnum.  Telji kærendur að þau eigi að geta treyst því að sú ákvörðun standi og ekki sé hægt tveimur árum síðar að sækja um mun viðameiri breytingar. 

Kærendur hafi komið á framfæri athugasemdum sínum vegna hinna kærðu ákvarðana sem virðist hafa verið samþykktar án sérstakrar efnisumræðu.  Liggi fyrir að kærendur séu ekki ein um skoðanir sínar þar sem Skipulagsstofnun hafi í bréfi sínu, dags. 23. október 2008, lýst sama viðhorfi.  Kærendum hafi verið tilkynnt niðurstaða skipulagsráðs, en athugasemdum ekki svarað efnislega, hvorki bréflega né bókað um ástæðu fyrir sinnaskiptum ráðsins. 

Bent sé á að allir umsagnaraðilar sem hafi tjáð sig vegna grenndarkynningarinnar hafi lýst sig andvíga hinni kærðu breytingu á húsinu að Hólatorgi 2.  Áður en ákvörðun um breytingar hafi verið tekin hafi áhrif þeirra á næsta nágrenni ekki verið nægjanlega rannsökuð, en kanna hefði átt áhrif á skuggamyndun á fleiri tímum dags og fleiri hús en gert hafi verið.  Skuggamyndun sé aðeins hluti þess sem athuga þurfi varðandi birtu að nágrannahúsunum og útsýni frá þeim.  Áhrifin séu mikil gagnvart öllum húsunum og þyki m.a. ástæða til að benda sérstaklega á athugasemdir íbúa á annari hæð Garðastrætis 45, þar sem áhrif á sjónhringinn séu ekki síður róttæk en Hávallagötumegin.  Virðist sýnt að hjá þeim geti orðið smátt um „vorkvöld í Vesturbænum“ eftir hækkun bakhússins og takmörkuð prýði að því nývirki sem birtast muni framan við sjónarrönd. 

Ákvörðun skipulagsráðs hafi ekki verið rökstudd á neinn veg sem sé andstætt bæði ákvæðum skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þessu til áréttingar sé vísað til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 17. september 2008, þar sem segi m.a:  „Þegar þetta mál var í gangi fyrir tveimur árum var tekin sú afstaða að ekki skyldi breyta deiliskipulaginu, nema að sátt næðist við nágranna.  Deiliskipulagið er mjög vandlega unnið og tekur á öllum þáttum sem varða byggingar, bílastæði, garðveggi ofl.  Deiliskipulagið hefur ákveðinn sveigjanleika, þar sem heimilt er að gera minni háttar breytingar á húsum ef þær falla vel að byggingarstíl þeirra.  Eins og fyrr segir fellur breytingin ekki illa að byggingarstíl hússins.“  Þau ummæli sem viðhöfð séu í fyrri málsgreininni um deiliskipulagið frá 2004 skýri á engan hátt hvernig unnt hafi verið að hverfa frá þeirri afstöðu að skipulaginu skyldi ekki breyta nema í sátt við nágranna hlutaðeigandi húseigna.  Sú staðhæfing að í deiliskipulaginu búi sveigjanleiki til að leyfa minni háttar breytingar, sem falli vel að byggingarstíl húsa, svari þessu einmitt ekki þar sem hún varði húsin sjálf en ekki grenndaráhrif breytinganna.  Enda yrði hún að öðrum kosti í beinni mótsögn við fyrrnefnda umsögn skipulagsstjóra þar sem staðfest sé að skilmálar deiliskipulagsins heimili aðeins „minni háttar breytingar … sem sannanlega hafi engin grenndaráhrif. “ 

Á sama hátt sé síðari málsgreinin haldlaus sem röksemd gagnvart athugasemdum og hagsmunum kærenda.  Efni hennar sé greinilega sótt í bréf Húsafriðunarnefndar til arkitekta byggingarleyfishafa, dags. 9. maí 2008.  Í umsögn nefndarinnar segi eftirfarandi:  „Ekki er gerð athugasemd við erindið enda er umbeðin hækkun á inngönguskúr vel útfærð í samræmi við aldur og gerð hússins og kemur hvorki til með að rýra varðveislugildi hússins sjálfs né stöðu þess á svæði sem nýtur verndar skv. deiliskipulagi.“  Ráða megi af þessu að Húsfriðunarnefnd hafi einblínt á húsið sjálft en ekki talið ástæðu til að fjalla sérstaklega um grenndaráhrif af hækkun bakhússins.  Sé þetta e.t.v. eðlilegt svo langt sem það nái en vekji nokkra furðu í þessu tilviki.  Hvað sem því líði megi ljóst vera að umsögnin veiti ekki bein svör við neinum spurningum um ríka hagsmuni kærenda.  Það leiði af því og framansögðu að skipulagsráði hafi ekki verið rétt að samþykkja umsókn byggingarleyfishafa á grundvelli umsagnar skipulagsstjóra einnar saman. 

Þá hafi breytingin verið kynnt með grenndarkynningu en ekki með auglýsingu í Lögbirtingarblaði eins og beri að gera þegar um verulega breytingu á deiliskipulagi sé að ræða.  Kærendur telji fyrirhugaðar breytingar meiri háttar með vísan til þess að um sé að ræða breytingar á þriðjungi grunnflatar á risinu ásamt því að nýtilegur grunnflötur hússins aukist um 24 m², sem sé fimmtungur af heildargrunnfleti þess eftir breytingu.  Þá standi til að gera vistarrými úr bakhúsi sem áður hafi eingöngu verið nýtt sem inngangur og stigagangur.  Stigagangshúsið hafi frá öndverðu verið hugsað og hannað sem viðauki við meginhúsið, til að hámarka nýtingarrými þess, en ekki til að mynda eigið vistarrými.  Þurfi vart að efa að tillit til nærliggjandi eigna hafi ráðið þessari tilhögun.  Með breytingunni sé ætlunin að færa þak meginhússins út yfir allan „inngönguskúrinn“ sem næst í fullri rishæð og um leið með þeim árangri að húsið fái nýjan mæniás suður/norður, er verði að auki mun lengri en núverandi meginás austur/vestur.  Sé einfaldast að lýsa þessu þannig að verið sé að innlima bakhúsið í meginhúsið og bylta stærðarhlutföllum þess.  Sé m.a. ekki unnt að ræða um breytinguna sem kvistbyggingu, enda eigi hún sér ekki hliðstæður innan byggingarreitsins þar sem nær öll hús Hólatorgsmegin séu með meginás austur/vestur og hallandi norðurþak án útskota umfram það sem telja megi minni háttar.  

Með svölum á vesturhlið annarrar hæðar og á rishæð, svo og glugga í norður, telji kærendur að gengið sé á heimilishelgi þeirra þar eð ný vistarrými og svalir verði í beinni sjónlínu við helstu vistarrými að Hávallagötu 1, þ.e. stofur og gang.  Hið sama gildi reyndar um vistarrými á neðri hæð Hávallagötu 1 og einnig hluta vistarrýmis að Hávallagötu 3.  Í þessu samhengi sé rétt að benda á að á bakhlið Hólatorgs 2, þ.e. í stigahúsinu, séu nú engin herbergi eða fastir íverustaðir.  Heimilað sé íverurými í bakhúsi og með því gengið á heimilishelgi sem íbúar að Hávallagötu 1 hafi hingað til notið í helstu vistarrýmum.  Þá þyki íbúum að Hávallagötu 1 gengið á byggingarlega fagurfræði síns húss með breytingum á bakhúsi að Hólatorgi 2. 

Skuggavarp muni aukast í næsta nágrenni, aðallega í garði og á fyrstu tveimur hæðum að Hávallagötu 1.  Lóðin að Hávallagötu 1, sem liggi að Hólatorgi 2, sé ein sú minnsta í húsaröðinni við Hávallagötu.  Þá sé þrengra á milli húsa að Hólatorgi 2 og Hávallagötu 1 en milli annarra húsa við Hólatorg og Sólvallagötu annars vegar og hins vegar húsa við Hávallagötu.  Af því leiði að skuggavarp af þessu rismikla húsi, sem nú standi til að hækka að hluta, sé til muna meira í garðinum að Hávallagötu 1 en aðrir íbúar við götuna búi almennt við.  Einnig sé einsýnt að aukin skuggamyndun verði í garði að Hávallagötu 3 og að Garðastræti 45.  Jafnframt skerði breytingin útsýni íbúa, s.s. þeirra sem búi að Garðastræti 45. 

Breytingin brjóti í bága við allar grundvallarforsendur að tilhögun bygginga á deiliskipulagsreitnum og hönnun sjálfs hússins, ásamt því að raska götumyndinni við suðurenda Garðastrætis til tjóns fyrir íbúa handan götunnar.  Með vísan til alls þessa sé um meiri háttar breytingu á deiliskipulagi að ræða sem hefði þurft að auglýsa eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða samkvæmt 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Nái hin kærða deiliskipulagsbreyting fram að ganga verði hún fordæmisgefandi fyrir önnur hús í nágrenninu og geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir skipulag nágrennisins. 

Vakin sé athygli á því að stór geymsluskúr, sem tilheyri Hólatorgi 2 og standi á mörkum lóðanna að Hólatorgi 2 og Hávallagötu 1, hafi aldrei verið samþykktur af hálfu íbúa að Hávallagötu 1.  Kvöð um niðurrif hafi hvílt á þessum skúr en hún felld úr gildi og hafi aldrei verið gefinn kostur á því að gera athugasemdir við það.  Skúrinn spilli heildarmynd garðsins og skyggi á sólu.  Skúrinn sé á deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið árið 2004, en ekki hafi verið tekið fram að hann hafði áður verið reistur með kvöð um niðurrif. 

Til stuðnings kröfu sinni um ógildingu hins kærða byggingarleyfis vísi kærendur til þess að það byggi á deiliskipulagi sem þeir telji ekki gilt að lögum og hafi kært til úrskurðarnefndarinnar.  Að auki sé bent á að í kjölfar ákvörðunar skipulagsráðs um breytt deiliskipulag hafi Skipulagsstofnun gert athugasemdir við breytinguna.  Eftir að kærur hafi borist úrskurðarnefndinni hafi kærendum verið tjáð að athugasemdum stofnunarinnar hafi verið svarað með bréfi frá skipulags- og byggingarsviði.  Málsmeðferð þessi sé óskiljanleg og fái kærendur ekki séð hvernig hin lagfærða umsögn geti talist vera það sem legið hafi fyrir skipulagsráði þegar hin kærða ákvörðun þess hafi verið tekin. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að mál þetta eigi sér nokkra forsögu.  Árið 2006 hafi verið lögð fram fyrirspurn hjá embætti skipulagsfulltrúa um hvort leyft yrði að hækka þak á stigahúsi hússins að Hólatorgi 2.  Talið hafi verið að breytingin gæti haft áhrif á nágrannalóðir vegna aukins skuggavarps og innsýnar og samræmdist því ekki gildandi deiliskipulagi svæðisins.  Í kjölfar fyrirspurnarinnar hafi verið lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi.  Hafi tillagan verið grenndarkynnt hagsmunaaðilum sem óveruleg breyting á deiliskipulagi og hafi athugasemdir borist.  Hafi verið reynt að sætta málsaðila en ekki tekist og hafi því ekkert orðið af framkvæmdum. 

Bent sé á að í umsögn skipulagsstjóra hafi komið fram að byggingarleyfisumsóknin væri frábrugðin þeirri sem kynnt hafi verið tveimur árum fyrr.  Húsafriðunarnefnd hafi talið að breytingin myndi fara húsinu vel en hafa í för með sér aukið skuggavarp á hús og lóð að Hávallagötu 1. 

Varðandi þá málsástæðu kærenda að málsmeðferð hafi verið ófullnægjandi með vísan til bréfs Skipulagsstofnunar, dags. 23. október 2008, sé bent á að tillagan hafi verið lögð fyrir skipulagsráð 1. október 2008 og samþykkt með vísan til a-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð og umsagnar skipulagsstjóra.  Í bréfi Skipulagsstofnunar sé bent á að í umsögn Reykjavíkurborgar hafi ekki verið nægilega svarað athugasemdum sem borist hefðu vegna grenndarkynningarinnar varðandi skuggavarp, innsýn, útlit húss og breytingu á nýlegu deiliskipulagi.  Í bréfi skipulags- og byggingarsviðs til Skipulagsstofnunar, dags. 20. febrúar 2009, hafi verið beðist velvirðingar á því að með fyrra bréfi hafi einungis fylgt drög að umsögn skipulagsstjóra.  Rétt umsögn hafi fylgt bréfinu og hafi öllum þeim er gert höfðu athugasemdir verið send rétt umsögn þar sem öllum athugasemdum hafi verið svarað.  Þrátt fyrir ofangreinda vankanta á umsögninni sé það mat Reykjavíkurborgar að þeir séu ekki þess eðlis að það varði ógildingu deiliskipulagsbreytingarinnar, enda hafi Skipulagsstofnun gert athugasemd við umsögnina sem síðan hafi verið bætt úr.  Verði ekki séð hvaða heimildir í skipulags- og byggingarlögum standi til að ógilda heildarmeðferð máls þegar svo standi á.  Hafi Skipulagsstofnun oft á tíðum gert athugasemdir við erindi sem þessi og talið að ekki væri hægt að svara þeim nema betrumbætt gögn lægju fyrir.  Hafi slíkar athugasemdir hingað til ekki varðað ógildingu kærðra ákvarðana út af fyrir sig. 

Því sé hafnað að um verulega breytingu á deiliskipulagi hafi verið að ræða sem kallað hafi á nýtt deiliskipulag og þá heildarendurskoðun á skipulagi.  Engin fordæmi séu fyrir því að á einbýlishúsalóðum sé deiliskipulag tekið til heildarendurskoðunar þó fram komi óskir einstakra lóðarhafa um breytingar.  Það hafi verið mat borgarinnar að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða sem þyrfti að grenndarkynna, sbr. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga, og hafi málsmeðferðin verið í samræmi við það.  Um matsatriði sé að ræða hverju sinni, þ.e. hvort breyting á deiliskipulagi teljist veruleg eða óveruleg, og sé hin kærða deiliskipulagsbreyting í öllum skilningi minni háttar.  Áhrif breytingarinnar séu lítil á deiliskipulagið í heild og grenndaráhrif hennar óveruleg, breytingin varði einungis eina lóð og hafi áhrif á hagsmuni mjög fárra einstaklinga. 

Þegar sótt hafi verið um að stækka viðbyggingu fyrir tveimur árum hafi verið tekin sú afstaða hjá embætti skipulagsfulltrúa að ekki skyldi leggja til við skipulagsráð að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu nema sátt næðist við nágranna.  Deiliskipulagið sé mjög vandlega unnið og taki á öllum þáttum sem varði byggingar, bílastæði, garðveggi o.fl.  Deiliskipulagið hafi ákveðinn sveigjanleika þar sem heimilt sé að gera minni háttar breytingar á húsum ef þær falli vel að byggingarstíl þeirra.  Með vísan til þessarar afstöðu hafi ekki náðst samkomulag um útfærslu breytingarinnar á sínum tíma og hún því ekki afgreidd.  Þegar nýtt erindi hafi borist skipulags- og byggingarsviði hafi verið ákveðið að endurtaka fyrri málsmeðferð, þ.e. að grenndarkynna tillöguna fyrir sömu hagsmunaaðilum og áður. 

Athugasemdir vegna útsýnisskerðingar, innsýnar og skuggavarps séu skiljanlegar.  Flestar viðbyggingar eða stækkanir húsa í svo þéttbyggðu umhverfi hafi áhrif á nágrannabyggð.  Hækkun viðbyggingar með litlum viðbótarglugga efst á gafli hennar auki skuggavarp á nærliggjandi lóðir, valdi meiri birtuskerðingu og jafnvel einhverri innsýn. 

Minnsta fjarlægð milli Hólatorgs 2 og Hávallagötu 1 sé 12 m.  Það sé ekki minni fjarlægð en víða í hverfinu og húsin séu ekki meira en tvær hæðir auk rishæða.  Á tímabilinu maí til ágúst hafi hækkun viðbyggingar mjög lítil áhrif á skuggavarp í garði Hávallagötu 1 og nái skugginn þá aðeins lítillega inn á nágrannalóðina.  Þegar sól sé lægra á lofti, við jafndægur, nái skugginn hins vegar að falla á neðri hæð Hávallagötu 1 sem sé aukning frá því sem verið hafi fyrir breytinguna.  Skuggavarpið hafi eingöngu verið skoðað fyrir sumarmánuðina, þ.e. milli jafndægra, en það sé sá tími sem garður og svalir séu mest notuð.  Ekki hafi verið óskað eftir því við arkitekt hússins að sýna skuggavarp yfir vetrarmánuðina, þó svo að nágrannar hafi óskað eftir því.  Teikningar af skuggavarpi sem unnar hafi verið fyrir kynningu hafi verið taldar nægilegar til að hægt væri að átta sig á áhrifum breytingarinnar.  Málsástæðum kærenda varðandi skuggavarp sé því hafnað.  Bent sé á að á þeim tíma árs þegar sól sé lágt á lofti megi gera ráð fyrir auknu skuggavarpi nánast án tillits til þess hve breytingar á húsum séu litlar.  Á þeim tímum séu garðar almennt ekki notaðir til útiveru og sólbaða á sama hátt og á sumrin. 

Það hafi og verið mat skipulagsyfirvalda að breytingin félli ekki illa að byggingarstíl hússins.  Segi orðrétt í bréfi Húsafriðunarnefndar:  „Ekki er gerð athugasemd við erindið enda er umbeðin hækkun á inngönguskúr vel útfærð í samræmi við aldur og gerð hússins og kemur hvorki til með að rýra varðveislugildi hússins sjálfs né stöðu þess á svæði sem nýtur verndar skv. deiliskipulagi.“  Orðalag umsagnar gefi tilefni til að álykta að nefndin hafi talið breytinguna fara húsinu vel. 

Kvöð varðandi skúr hafi veriði aflétt þegar deiliskipulag það sem nú sé í gildi hafi verið samþykkt.  Því sé ekki vettvangur nú til að gera athugasemdir við það. 

Skipulagsyfirvöld hafi verið á þeirri skoðun að breytingin hefði grenndaráhrif og því hafi ekki verið hægt að telja hana samræmast eldri skilmálum sem heimiluðu minni háttar breytingu.  Hafi því verið talið að deiliskipulagsbreyting sú sem deilt sé um í máli þessu hafi verið nauðsynleg.  Segja megi að nánast allar breytingar sem varði stækkanir húsa hafi einhver áhrif á umhverfið.  Í þéttbýli verði menn að gera ráð fyrir einhverjum breytingum.  Verði ekki hjá þeim komist þótt deiliskipulagsáætlanir séu vel og nákvæmlega unnar.  Grenndaráhrif hinar kærðu breytingar hafi, að mati skipulagsyfirvalda, ekki verið meiri en vænta mátti í þéttri byggð. 

Þá ætti ekki að skipta kærendur máli hvort rýmið sé notað sem stigahús eða vistarrými.  Ekki hafi legið fyrir byggingarnefndarteikningar þegar málið hafi verið kynnt. 

Af hálfu kærenda sé því haldið fram að skipulagsyfirvöld hafi lofað að ekki yrðu gerðar breytingar á fasteigninni að Hólatorgi 2 nema í sátt við nágranna.  Þessu sé til að svara að á sínum tíma hafi það verið markmið skipulagsfulltrúa að sætta aðila.  Skipulags- og byggingarnefnd hafi ekki bókað neitt þessa efnis á sínum tíma og sé því ekki um að ræða opinbera afstöðu hennar til niðurstöðu málsins, enda þurfi að liggja fyrir rökstudd málefnaleg niðurstaða sem byggist á skipulagslegum forsendum þegar tillögu, sem vísað hafi verið í grenndarkynningu, sé synjað.  Bent sé á að athugasemdaraðilum hafi verið tilkynnt um niðurstöðuna með bréfi, dags. 7. október 2008. 

Með vísan til ofangreinds sé málsástæðum þess efnis að ekki hafi verið viðhaft samráð við íbúa vísað á bug sem órökstuddum.  Bent sé á að það sé ekki hlutverk lögbundins samráðs eða í samræmi við hugmyndir um íbúalýðræði að tryggja það að farið verði eftir öllum hugmyndum eða skoðunum sem íbúar hafi, enda væri slíkt ómögulegt. 

Því sé alfarið hafnað að hin kærða deiliskipulagsbreyting feli í sér slíka röskun á hagsmunum kærenda að það varði ógildingu hennar.  Sérstaklega sé nauðsynlegt að minna á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar séu gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar, enda sé beinlínis gert ráð fyrir því í skipulags- og byggingarlögum að deiliskipulagsákvarðanir geti tekið breytingum.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. 

Kærendur geri ekki neinar efnislegar athugasemdir við hið kærða byggingarleyfi eða bendi á atriði sem leitt geti til ógildingar þess þrátt fyrir kröfu þeirra þar að lútandi. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að málflutning kærenda verði að skoða í ljósi þess að þau vilji bregða fæti fyrir réttmætar og eðlilegar hugmyndir íbúa að Hólatorgi 2 til endurnýjunar og nýtingar hússins, m.a. með tilliti til brunavarna. 

Þrátt fyrir fullyrðingar kærenda um aukið skuggavarp vegna fyrirhugaðs kvists á norðurþaki líti kærendur að Hávallagötu 1 framhjá því að það skuggavarp sé þegar til staðar vegna hávaxinna trjáa sem séu á lóðamörkum Hávallagötu 1 og Hávallagötu 3.  Bent sé á að á norðurhlið hússins að Hólatorgi 2 séu þrír gluggar og úr þeim sjáist a.m.k. inn í öll suðurherbergi hússins að Hávallagötu 1.  Einn gluggi til viðbótar hafi því ekki áhrif í þessu sambandi. 

Skúrbygging hafi staðið á mörkum lóðanna nr. 2 við Hólatorg og nr. 1 við Hávallagötu frá því árið 1920, eða löngu áður en hús kærenda að Hávallagötu nr. 1 hafi verið reist árið 1939.  Skúrbyggingin byggi á hefðarrétti sem nái lengra aftur en ævi elstu íbúa við Hávallagötu. 

Svo virðist sem kærendur hafi ekki kynnt sér meginröksemdir deiliskipulags svæðisins eða að þau virði sjónarmið þess að vettugi.  Deiliskipulagið sé enn í gildi, utan að hert hafi verið á jafnræðissjónarmiðum í túlkun þess og þeim eina aðila sem undanþeginn hafi verið almennum reglum þess sé nú veittur sami réttur og öðrum.  Hið kærða byggingarleyfi auki ekki skuggamagn eða nábýli umfram það sem samþykkt sé og veitt sé í öðrum tilvikum á skipulagsreitnum. 

Andsvör kærenda við sjónarmiðum Reykjavíkurborgar og byggingarleyfishafa:  Kærendur bendi á að ekki hafi verið grenndarkynnt áform um tröppur út í garð á vesturhlið hússins að Hólatogi 2 og endurbyggingu skúrs á lóðarmörkum.  Á skúrnum hafi hvílt kvöð um niðurrif en henni hafi verið aflétt, án samráðs við nágranna.  Á árinu 2006 hafi sú afstaða verið tekin af skipulagsyfirvöldum í borginni að deiliskipulagi svæðisins yrði ekki breytt nema í sátt við nágranna.  Eigi að síður hafi hin kærða breyting verið staðfest án þess að kærendum hafi verið svarað efnislega eða verið reynt á einhverju stigi málsins að koma til móts við þá eða funda með þeim.  Samþykkt hafi verið tillaga er gangi mun lengra en fyrri tillaga frá árinu 2006 sem ekki hafi þá þótt rétt að samþykkja.  Ekki hafi kærendum verið gefin nein málefnaleg skýring á þessum sinnaskiptum skipulagsráðs. 

Umsögn skipulagsstjóra sé til í fjórum útgáfum, en í þremur breyttum útgáfum sé reynt að svara efnislega athugasemdum Skipulagsstofnunar.  Kærendum hafi aldrei verið svarað formlega eða sendar þessar síðar gerðu útgáfur af umsögn, dags. 17. september 2008, með uppfærðum dagsetningum.  Þessar eftirá útgáfur hafi ekki komið fyrr en í lok febrúar 2009 þegar kærendur hafi verið búnir að kæra til úrskurðarnefndarinnar.  Hin lagfærða umsögn, dags. 28. janúar 2009, hafi aldrei verið send kærendum formlega.  Það sé með ólíkindum að slík vinnubrögð skuli viðgangast í stjórnsýslu borgarinnar og að þau séu ekki álitin nógu alvarleg til að stoppa fyrirhugaðar breytingar á deiluskipulaginu. 

Grenndaráhrif séu veruleg.  Hvergi í nágrenni Hólatorgs 2 hafi verið heimiluð sambærileg breyting þar sem svo stór hluti af risi sé byggður ofan á rými sem ekki hafi áður gengt hlutverki íverustaðar og sé eingöngu anddyri og stigagangur.  Hlutfallslega sé hér um mikla stækkun á nýtilegu rými í risi að ræða, eða u.þ.b. 50% stækkun, er auki nýtingarrými um 20,8 m².  Auðveldlega sé hægt að gera sér grein fyrir því að innsýn úr nýju risi og svölum yrði töluvert truflandi fyrir íbúa að Hávallagötu 1.  Innsýn í íbúð að Hávallagötu 3 aukist einnig töluvert.

Af yfirlitsmynd byggðarinnar megi sjá að nálægðin sé langmest á milli Hólatorgs 2 og Hávallagötu 1, miðað við önnur hús á skipulagsreitnum, og sé hún meiri en víðast hvar í nágrenninu þó farið sé út fyrir reitinn.  Einnig sé ljóst að lóðirnar í kringum Hávallagötu 1 og Hávallagötu 5 séu langminnstar í reitnum og því viðkvæmastar fyrir frekari þrengingum og skuggavarpi. 

Fullyrðingar borgaryfirvald um skuggavarp séu órökstuddar og auk þess rangar.  Hið rétta sé að frá 7. maí og til 7. ágúst, kl. 16:30, skyggi húsið að Hólatorgi 2, án breytinga, á u.þ.b. 1/3 af suðurgarði Hávallagötu 1.  Með breytingum muni skuggavarp aukast um 25%.  Þetta hljóti að teljast frekar mikil breyting í litlum garði.  Á tímabilinu frá 22. mars til 22. sept., kl. 13:30, skyggi húsið að Hólatorgi 2, án breytinga, á rúmlega helming suðurgarðs Hávallagötu 1 og með breytingunni muni skuggavarp aukast um 20-25%.  Að vísu nái skugginn inn á suðurhlið Hávallagötu 1 og fari yfir daginn fyrir glugga kjallaraíbúðar og sé það mikil breyting.  Þegar sól sé enn lægra á lofti, t.d. frá september til mars, falli skuggi fyrr á svalir og glugga á efri hæðum.  Hinn 22. júní, kl. 16:30, aukist skuggavarp um 30% við breytinguna.  Samkvæmt framansögðu sé ljóst að fyrirhuguð bygging muni varpa töluverðum skugga og stela kvöldsólinni, að sumri til, frá íbúum að Garðastræti 45 sem sé nokkuð mikil breyting. 

Kærendur geri athugasemdir við að kvöð um niðurrif geymsluskúrs á lóðinni að Hólatorgi 2 hafi verið aflétt í deiliskipulagi svæðisins frá árinu 2004, enda hafi þeim aldrei verið kynnt niðurfelling kvaðarinnar og hafi þeir ekki vitað um hana fyrr en við grenndarkynningu árið 2006. 

Geymsluskúrinn, sem sótt sé um að komi í staðinn fyrir skúrinn sem búið sé að rífa, muni liggja eins og hann og skyggja mikið á gróður.  Allt umhverfi myndi njóta sín mun betur án skúrsins.  Þetta sé eini staki geymsluskúrinn í nágrenninu og þó víðar væri leitað. Það hljóti að teljast til undantekninga og lítt nútímalegt að leyfa að byggja slíkan skúr í gamalgrónu hverfi í Reykjavík.  Gerð sé athugasemd við það að skúrinn falli undir skilmála er lúti að bílskúrum þegar til standi að nota hann sem mjög stóra geymslu sem og stórt þvottahús sem jafnan fylgi íbúðarhúsum.  Hér sé því verið að stækka íbúðarhúsið með því að flytja hluta þess út í garð.  Ef leyfa eigi geymsluskúr á lóðamörkum Hólatorgs 2 og Hávallagötu 1 hljóti að teljast eðlilegt að kærendur hafi eitthvað um það að segja hversu stór hann sé og hvar hann sé staðsettur.  Skúrinn eigi að vera sem lengst frá lóðarmörkum þannig að hann skyggi sem minnst á suðurgarð Hávallagötu 1. 

Bent sé á að Húsafriðunarnefnd taki ekki afstöðu til áhrifa breytingarinnar á nærliggjandi hús eða nágrenni sem sé galli, því auðvitað skipti þau áhrif jafnvel meira máli en áhrifin á húsið sjálft.  Breytingin að Hólatorgi 2 muni raska götumyndinni við suðurenda Garðastrætis til tjóns fyrir nágranna.  Hinar kærðu breytingar á húsinu uppfylli ekki áherslu deiluskipulags svæðisins þess efnis að núverandi götumynd verði ekki breytt, nema til þess að færa nær upprunanum.  Skýrt komi fram í deiluskipulaginu að ekki sé leyfilegt að hækka þök eða setja á þau kvisti og því sé hér gróflega horft framhjá hinum stórkarlalegu breytingum. 

Varðandi hinar fyrirhuguðu framkvæmdir við húsið að Hólatorgi 2 og nálægð þess við lóðarmörk sé bent á að samkvæmt 1. mgr. 75. gr. byggingareglugerðar nr. 441/1998 séu tvenns konar reglur notaðar til að finna út lágmarksfjarlægð húsveggjar frá lóðarmörkum og skuli nota þá reglu sem gefi meiri fjarlægð.  Önnur reglan taki mið af meðalhæð húsveggjar er snúi að lóðarmörkum og síðan helminga og hin taki mið af því hvernig eldvörnum sé háttað.  Leyfileg hámarksfjarlægð inngangsskúrs frá lóðarmörkum Hávallagötu sé u.þ.b. 3,6 m miðað við hæð húsveggjar skúrsins í dag (u.þ.b. 7,3 m), en miðað við eldvarnir þegar útveggir fullnægi a.m.k. kröfum um REI30 og klæddir með klæðningu í flokki 2 megi fjarlægð ekki vera minni en 5 m og með klæðningu í flokki 1 ekki minni en 4 m.  Ef  leyfa eigi hækkun á inngangsskúr fari lágmarksfjarlægð húsgaflsins í u.þ.b. 4,4 m miðað við meðalhæð (u.þ.b. 8,87 m).  Fjarlægð inngangsskúrs frá lóðarmörkum við Hávallagötu sé í dag 4,58 m og samkvæmt byggingarreglugerð sé skúrinn of nálægt mörkum lóðar nr. 1 við Hávallagötu miðað við klæðningu útveggjar í flokki 2 (5 m fjarlægð).  Verði inngangsskúrinn hækkaður líkt og heimild standi til og bætt úr eldvörnum útveggja hússins sé samt sem áður vafi á því hvort byggingin sé nægilega langt frá lóðarmörkum eftir þessum almennu lágmarksreglum. 

Að lokum sé bent á að í gögnum málsins liggi fyrir að kærendur sem búsettir séu að Hávallagötu 1 hafi fellt tré í garði sínum þar sem þau hafi skyggt á sólu. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 25. janúar 2010. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er annars vegar deilt um ákvörðun skipulagsyfirvalda í Reykjavík um breytingu á deiliskipulagi Hólatorgsreits frá árinu 2004 er tekur til lóðarinnar að Hólatorgi 2 og hins vegar ákvörðun byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að stækka rishæð hússins að Hólatorgi 2 með því að hækka þak viðbyggingar og breyta í mænisþak, byggja tvennar svalir á vesturhlið, koma þar fyrir dyrum og tröppum út í garð og endurbyggja skúr á lóðinni. 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé þess eðlis að skipulagsyfirvöldum hafi verið óheimilt að fara með hana sem óverulega breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, heldur hafi borið að auglýsa hana svo sem um nýtt deiliskipulag væri að ræða, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna. 

Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins er á lóðinni nr. 2 við Hólatorg 336 m² tvílyft íbúðarhús með risi ásamt 43 m² bílskúr.  Nýtingarhlutfall lóðar er 0,74.  Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er veitt heimild til að stækka húsið um 24 m²  en á móti kemur minnkun bílskúrs um 12 m².  Verður nýtingarhlutfall lóðar eftir breytingu 0,77.  Hefur eldir skúr þegar verið rifinn og nýr reistur í hans stað.   

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun breyting sú sem heimiluð er á húsinu að Hólatorgi 2 auka nokkuð skuggavarp og innsýn.  Það verður þó ekki meira en almennt má búast við í þéttri byggð, sem er innan skilgreinds miðborgarsvæðis samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.   Með hliðsjón af því verður hin umrædda breyting talin óveruleg og var skipulagsyfirvöldum því heimilt, eins og þarna stóð á, að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins.  Hefur það ekki áhrif á þessa niðurstöðu þótt skipulagsyfirvöld hafi á árinu 2006 hafnað breytingu á deiliskipulagi vegna umræddrar lóðar.  

Fallast má á með kærendum að meðferð málsins hafi verið ábótavant hvað varðar svör við athugasemdum, en þau voru í fyrstu ófullnægjandi, og var ekki endanlega úr því bætt fyrr en eftir gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar.  Þessi ágalli þykir þó ekki eiga að leiða til ógildingar þegar til þess er litið að hann varðar meðferð máls eftir samþykkt sveitarstjórnar á hinni kærðu ákvörðun, auk þess sem ekki verður séð að hann hafi valdið kærendum réttarspjöllum. 

Athugasemdir kærenda, er varða framkvæmdir við skúr á lóðinni að Hólatorgi 2, lúta að ákvörðun er tekin var með samþykkt deiliskipulags á árinu 2004 og getur sú ákvörðun ekki sætt endurskoðun í máli þessu.  Þá verður ekki séð að þörf hafi verið að grenndarkynna áform um tröppur út í garð á vesturhlið hússins, enda bar ekki nauðsyn til að breyta deiliskipulagi vegna þeirra, heldur telst þetta fyrirkomulag eðlilegur hluti af byggingarleyfi hússins.

Samkvæmt öllu framansögðu er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafnað, enda verður ekki fallist á að með henni hafi verið brotið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Hið kærða byggingarleyfi er í samræmi við deiliskipulag svæðisins eftir framangreinda breytingu og þar sem ekki liggur fyrir að málsmeðferð við þá ákvarðanatöku hafi verið ábótavant eða að farið hafi verið gegn ákvæðum 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 með áorðnum breytingum verður kröfu kærenda um ógildingu leyfisins hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur frá 1. október 2008 um breytingu á deiliskipulagi Hólatorgsreits er tók til lóðarinnar að Hólatorgi 2.  Jafnframt er hafnað kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 3. febrúar 2009 um að veita leyfi til stækkunar rishæðar hússins að Hólatogi 2, byggja tvennar svalir á vesturhlið, koma þar fyrir dyrum og tröppum út í garð og endurbyggja skúr á lóðinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________         ____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

97/2008 Undirhlíð

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 18. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 97/2008, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 1. júlí 2008 um að samþykkja deiliskipulag Undirhlíðar-Miðholts á Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. október 2008, er barst nefndinni hinn 20. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. 30 tiltekinna íbúa við Miðholt, Stafholt, Langholt og Stórholt á Akureyri, þá ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 1. júlí 2008 að samþykkja deiliskipulag Undirhlíðar-Miðholts á Akureyri. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi umhverfisráðs hinn 8. mars 2006 var lögð fram hugmynd að byggingu 60 íbúða fyrir eldra fólk í fjölbýlishúsum á svæði austan Langholts á Akureyri.  Var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að skoða málið frekar.  Á fundi skipulagsnefndar 19. janúar 2007 var lögð fram umsókn um leyfi til að deiliskipuleggja svæði sem afmarkast af Langholti í vestri, Krossanesbraut í austri, Undirhlíð í suðri og Miðholti í norðri.  Svæði þetta hefur fram til þessa verið óbyggt en með Aðalskipulagi Aukureyrar 2005-2018 var því breytt úr óbyggðu svæði í íbúðasvæði.  Á fundinum heimilaði nefndin umsækjanda að gera tillögu að deiliskipulagi á grundvelli þeirra gagna sem viðkomandi lagði fram.  Var deiliskipulagstillaga hans kynnt á fundi nefndarinnar 22. ágúst 2007.  Samþykkti nefndin 12. mars 2008 að auglýsa tillöguna samkvæmt 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Gerði tillagan ráð fyrir fimm einbýlishúsum á einni hæð með aðkomu frá Miðholti og tveimur sjö hæða fjölbýlishúsum, auk bílakjallara, með aðkomu frá Undirhlíð.  Var tillagan samþykkt í bæjarstjórn 18. mars 2008.  Tillagan auglýst til kynningar frá 27. mars til 8. maí 2008 og bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum. 

Á fundi skipulagsnefndar 25. júní 2008 var gerð sú breyting á auglýstri tillögu að íbúðum var fækkað úr 60 í 57.  Á fundinum var jafnframt fjallað um framkomnar athugasemdir.  Að öðru leyti var tillagan samþykkt.  Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu skipulagsnefndar 1. júlí 2008.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 5. ágúst 2008, var óskað lagfæringa og skýringa á nokkrum atriðum.  Þannig þyrfti að skýra nánar í greinargerð ábyrgð lóðarhafa á hugsanlegum breytingum á vatnsborði, óskað var eftir nánari skýringum við skuggavarpsmyndir og staðsetningar byggingarreits og bílakjallara.  Á fundi skipulagsnefndar 13. ágúst 2008 voru bókuð svör við athugasemdum og fyrirspurnum Skipulagsstofnunar.  Afgreiðsla skipulagsnefndar og breytingar á greinargerð var samþykkt af meirihluta bæjarráðs 28. ágúst 2008.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 4. september 2008, var tilkynnt að ekki væri gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um deiliskipulagssamþykktina í B-deild Stjórnartíðinda.  Birtist auglýsing þar að lútandi 23. september 2008. 

Hafa kærendur skotið greindri skipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að hin kærða deiliskipulagsákvörðun sé í ósamræmi við fyrirmæli í Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018.  Í aðalskipulaginu sé lögð áhersla á að varðveita hverfaheild en ljóst sé að hverfaheild Holtahverfis skerðist við umrætt deiliskipulag.  Það geri ráð fyrir byggingu stórhýsa, auk þess sem hverfishlutar Holtahverfis séu aðskildir með þessari miklu hæð á reitnum og virki eins og hár veggur sem aðskilji hverfishlutana í stað þess að tengja þá saman í eina hverfisheild, sambærilega því sem fyrir sé, bæði hvað varði byggingarstíl og hæð.  Þá sé skýrt tekið fram í aðalskipulaginu að byggingar skuli falla vel inn í þá götumynd/bæjarmynd sem sé fyrir.  Um hæð húsa séu fyrirmæli í aðalskipulagi í gr. 5.3.  Þar segi m.a. að hæð nýbygginga skuli almennt taka mið af þeim stærðarhlutföllum, umhverfi og bæjarmynd sem fyrir sé á Akureyri.  Þá segi orðrétt:  „Í miðbæ er að jafnaði miðað við 4-5 hæða byggingar en að einstakar byggingar eða hlutar bygginga, sem mynda kennileyti í byggðinni, geti risið hærra, almennt í 6-7 hæðir.  Utan miðbæjar er gert ráð fyrir að ný byggð verði yfirleitt heldur lægri, í samræmi við hæð og hlutföll nærliggjandi byggðar.  Frávik frá almennri viðmiðun um húshæðir, sem skilgreind kann að verða í deiliskipulagi (5-10) hæðir skulu vera hófleg og rökstudd.“

Samkvæmt framangreindu sé deiliskipulagið ekki í samræmi við fyrirmæli í aðalskipulagi.  Utan miðbæjar eigi byggingar yfirleitt að vera lægri en í miðbæ og taka mið af nærliggjandi byggð, þ.e. ein til þrjár hæðir á þessu svæði.  Sjö hæða fjölbýlishús auk bílakjallara geti ekki talist hófleg frávik í þessum skilningi sé miðað við fyrrgreind fyrirmæli.  Þá sé ekki rökstutt, hvorki af hálfu skipulagsnefndar né bæjarráðs, sem tók endanlega ákvörðun, nauðsyn þess að hafa tvær sjö hæða blokkir á þessum stað. 

Með hliðsjón af þessari framsetningu í aðalskipulagi hafi kærendur ekki mátt vænta þess að slík breyting kynni að verða gerð, jafnvel þótt tekin yrði til skoðunar uppbygging á þessu svæði.  Íbúar eigi að geta treyst því að fyrirmæli í aðalskipulagi feli í sér endanlega ákvörðun um byggingarmál og að þeim fyrirmælum sé fylgt, nema ríkar málefnalegar ástæður standi til annars.  Fyrir liggi í þessu tilviki að deiliskipulagið sé unnið af verktaka þeim sem hyggist byggja háhýsin.  Því sé það unnið eftir forsögn hans og fyrirskrift.  Slíkt geti ekki talist málefnalegt.  Auk þess hafi enginn rökstuðningur fylgt því hvers vegna nauðsynlegt væri að víkja frá fyrirmælum í aðalskipulagi varðandi hæð húsa. 

Þá séu fyrirmæli í aðalskipulagi um íbúðabyggð á svæðinu mjög rúm, allt að 25 íb/ha, sem gefi mikil frávik.  Því ætti þessi mikla rýmd að kalla á vandað deiliskipulag sem unnið væri í fullu samráði við alla málsaðila enda segi í 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að eitt helsta markmið laganna sé „…að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.“

Bent sé á að fyrir liggi að hætta sé á jarðvegssigi og skemmdum á nærliggjandi eignum vegna fyrirhugaðra framkvæmda á svæðinu.  Af þeim sökum sé í deiliskipulaginu settar  tilteknar kvaðir og m.a. tekið fram að lóðarhafi skuli leita allra leiða til að koma í veg fyrir lækkun vatnsborðs í jarðvegi og sé ábyrgur fyrir hugsanlegu tjóni.  Allar stjórnvaldsákvarðanir á borð við samþykkt deiliskipulags verði að vera skýrar og ótvírætt ljóst við hvað sé átt.  Hér séu kvaðirnar óskýrar, ekkert mælt fyrir um hvaða ráðstafanir skuli gerðar eða skýrt í hverju ábyrgð lóðarhafa sé fólgin og hvort hún taki til nærliggjandi eigna og tjóns utan deiliskipulagsreitsins.  Þá sé orðalag óljóst og bjóði upp á túlkun auk þess sem ekki séu skilgreindar viðeigandi framkvæmdir o.s.frv.

Í ljósi þessarar miklu hættu hefði þurft að afla upplýsinga um það hvernig götur í nágrenninu séu grundaðar og greina frá þeim upplýsingum í gögnunum sem fylgt hafi tillögunni, en grundun gatna skipti miklu máli um hversu miklar líkur séu á grunnvatnsleka sem geti valdið sigi á jarðvegi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir lagnir og mannvirki í kring.  Rannsókn og undirbúningi hafi því verið verulega áfátt, sem leiða eigi til ógildingar.  Skýrsla verkfræðistofu hefði átt að leiða til frekari rannsókna á nærliggjandi eignum og grundun þeirra svæða.  Einnig hefði verið eðlilegt að gera bæja- og húsakönnun skv. 5. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga, þ.e. kanna ástand nærliggjandi húsa og hvort þau þurfi sérstakt aðhald vegna fyrirhugaðra framkvæmda.  Einungis hafi verið grafnar holur til að kanna grunnvatnsstöðu í og við reitinn en engin rannsókn hafi farið fram í og við lóðarmörk þeirra húsa, sem standi í næsta nágrenni og séu í mögulegri hættu. 

Þá sé á því byggt að við gerð hinnar umdeildu tillögu af hálfu byggingaverktakans sem og með ákvörðun bæjarráðs hafi greinilega ekki verið gætt meðalhófs með hliðsjón af núverandi þéttleika og hæð bygginga á svæðinu.  Fram komi í greinargerð  deiliskipulagsins að háhýsin verði sjö hæða auk kjallara, eða um 22 metra há.  Húsin verði því átta hæðir séð frá Miðholti.  Hér sé um að ræða t.d. helmingi hærri hús en hæstu hús í Hlíðahverfi, sem standi við Skarðshlíð og séu fjórar hæðir.  Flest hús í Holtahverfi séu einnar og tveggja hæða en örfá þriggja hæða hús séu í Lyngholti. 

Kærendur hafi sett fram athugasemdir, m.a. við hæð bygginganna, en ekki hafi nokkurt tillit verið tekið til þeirra við meðferð málsins.  Hófleg hæð bygginga á þessu svæði gæti verið ein til þrjár hæðir, eins og íbúar svæðisins hafi reyndar lagt til.  Sterk rök þurfi til ef heimila eigi hærri byggingar, einkum í ljósi fyrirliggjandi hættu á skemmdum á næstu eignum sem og fyrirmæla í aðalskipulagi. 

Verði ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulagsins hefði það í för með sér verulegar breytingar á byggðamynstri svæðisins og væri fordæmisgefandi fyrir önnur tilvik, þ.e. samþykkt nýs skipulags og/eða breytingar á gildandi deiliskipulagi til að þóknast tilteknum eigendum eða byggingarverktökum.  Slíkt myndi leiða til þess að byggð myndi ekki þróast í samræmi við heildstæða og samþætta stefnumörkun í formi deiliskipulags, sem grundvallast á fjölmörgum lögmæltum sjónarmiðum, auk þess sem íbúar hlutaðeigandi hverfis og almenningur væru sviptir lögboðnum rétti sínum til þess að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og hafa þannig áhrif á gerð deiliskipulags.  Slík byggðaþróun verði að teljast í andstöðu við markmið skipulags- og byggingarlaga. 

Einnig sé á því byggt að engar veigamiklar ástæður réttlæti svo mikla breytingu frá þeirri byggð sem fyrir sé.  Þá sé auk þess ólögmætt og ómálefnalegt að láta hagsmuni eins aðila njóta forgangs á kostnað annarra.  Deiliskipulagið feli í sér róttækar breytingar í rótgrónu og lágreistu íbúðarhverfi með ákveðnu skipulagi, húsagerð og hverfamyndun. 

Hið kærða deiliskipulag taki ekki tillit til réttmætra hagsmuna kærenda og ekki sé þar gætt meðalhófs.  Með skipulaginu sé svo freklega brotið gegn grenndarrétti kærenda og lífsgæðum að það varði ógildingu þess.  Kærendur telji að brotið sé gegn gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, þar sem segi að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar.  Skuggateikningar séu ekki réttar en fyrir liggi tölvumyndir í þrívídd en svo virðist sem þær sýni ekki rétt hæðarhlutföll.  Kærendur mótmæli þeirri fullyrðingu skipulagsnefndar að skuggavarp verði svo til ekkert af háhýsunum. 

Deiliskipulagið brjóti gegn lögmætum væntingum kærenda.  Þegar verið sé að heimila nýbyggingar í þegar byggðu hverfi beri að taka tillit til bygginga í hverfinu, hæðar húsa, byggingarstíls o.s.frv.  Því eigi íbúar að geta treyst og gengið út frá, enda hafa þeir byggt eða eftir atvikum keypt fasteignir sínar í trausti þess að byggingar, sem komi til með að rísa, verði í samræmi við þær byggingar og notkun lands, sem heimiluð hafi verið í gegnum árin.  Bygging á tveimur sjö hæða blokkum sé langt umfram það sem næstu nágrannar hafi mátt vænta er þeir hafi orðið eigendur fasteigna sinna.  Í hverfinu séu húsin lágreist, eins til tveggja hæða.  Hér sé hins vegar verið að tala um sjö hæða byggingar með tilheyrandi skuggavarpi, staðsettar í grónu íbúðahverfi. 

Lögð sé áhersla á að grenndarreglur eignarréttarins gildi um hina fyrirhuguðu framkvæmd á grundvelli hins umdeilda skipulags.  Vegna grenndarsjónarmiða sé ekki heimilt að koma fyrir svo miklum og varanlegum mannvirkjum, sem fylgi svo mikið og verulegt ónæði og röskun á réttindum íbúanna sem séu langt umfram það sem nágrannar hafi mátt vænta er þeir hafi orðið eigendur fasteigna sinna.  Svo sem kunnugt sé séu takmarkanir nábýlisréttar meiri og virkari í íbúðarhverfi en t.d. iðnaðar- og atvinnuhverfi.  Þá sé einnig öllum ljós sú mikla hætta sem fylgi framkvæmdum á þessu svæði fyrir nærliggjandi eignir. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu Akureyrarbæjar er gerð krafa um að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, m.a. vegna skorts á lögvörðum hagsmunum.  Kærendur séu 30 eigendur og/eða íbúar við Miðholt, Stórholt, Stafholt og Langholt 10.  Hafi kærendur ekki sýnt fram á að kröfur sem þeir hafa uppi um deiliskipulagið varði lögmæta eða lögvarða hagsmuni þeirra sérstaklega eða hvernig það snerti hvern og einn þeirra, enda hljóti hagsmunir þeirra að vera mismunandi eftir því hvar þeir séu búsettir.  Þá vísi kærendur til sjónarmiða sem fremur lúti að almannahagsmunum en einkahagsmunum og hafi ekki sýnt fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir raski neinum einstaklingsbundnum rétti, sbr. úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 138/2007 og 65/2006. 

Verði ekki fallist á framangreint geri Akureyrarbær þá kröfu að hafnað verði kröfu kærenda.  Akureyrarbær hafi uppfyllt allar formkröfur sem gerðar séu til deiliskipulagsgerðar og deiliskipulagsferils skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og engar efnisreglur hafi verið brotnar við undirbúning og gerð deiliskipulagsins. 

Hið kærða deiliskipulag sé í samræmi við Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018 og því til stuðnings sé vísað til kafla 2.5 þar sem fjallað sé um þéttingu byggðar.  Þar segi að stefnt sé að því að nýta óbyggð svæði innan núverandi byggðar undir íbúðabyggð en fyrst og fremst beri að líta til svæða sem ekki séu í notkun.  Ástæða þess sé m.a. sú að með því nýtist betur þjónustu- og gatnakerfi, bætt sé skörðótt og gisin bæjarmynd og gæði umhverfis séu aukin.  Í töflu í sama kafla sé umrætt svæði sérstaklega tilgreint (1.31.9) þar sem stefnt sé að eða sett sem viðmið ný íbúðabyggð með þéttleika a.m.k. 20 íbúðir/ha.

Aðalskipulag feli að jafnaði í sér viðmið og stefnu sem síðan sé útfært í deiliskipulagi.  Í hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir 57 íbúða hverfi á 2,36 ha svæði eða 24 íbúðum/ha, sem sé innan vikmarka og í samræmi við viðmið og stefnu aðalskipulags.  Nánar sé fjallað um nýtingarhlutfall reitsins í kafla 4 í aðalskipulaginu þar sem þéttleikinn sé tilgreindur 15-25 íbúðir/ha og að hann verði nánar ákvarðaður í deiliskipulagi.

Þá sé í kafla 5.3 í aðalskipulaginu m.a. fjallað um hæð nýbygginga.  Þar sé sömuleiðis mörkuð almenn stefna um hæð húsa innan hverfa.  Deiliskipulagið heimili fimm einnar hæðar einbýlishús og tvö sjö hæða fjölbýlishús.  Sú stefna sé í samræmi við önnur hverfi bæjarins þar sem nýtt deiliskipulag hafi verið gert með tilliti til þéttingar byggðar.  Miðað við fjarlægðir fjölbýlishúsanna á hinum deiliskipulagða reit, frá annarri íbúðabyggð í hverfunum í kring, geti hæð þeirra ekki talist íþyngjandi. 

Íbúar í grónum hverfum sem séu nálægt opnum/ónýttum svæðum megi ætíð búast við því að umhverfið taki breytingum.  Þannig hafi verslunarhúsnæði risið á hluta þessa svæðis fyrir nokkrum árum sem ekki sé óeðlilegt með vísan til nýrrar tækni við að byggja þar sem áður hafi verið talið óhagstætt. 

Áhrif jarðvegsframkvæmda við Undirhlíð og Miðholt eða nánasta umhverfi svæðis þess er hér um ræði hafi verið kannað af verkfræðistofu og lagt á þær sérstakt mat.  Á deiliskipulagsuppdrættinum séu tilgreindar kvaðir sem koma eigi í veg fyrir tjón.  Akureyrarbær telji að skýrt komi fram í kvöðum að lóðarhafi skuli leitast við að raska ekki vatnsborði í nágrenni deiliskipulagsreits, ellegar bæta hugsanlegt tjón sem kunni að verða vegna vatnsborðslækkunar.  Því sé það mat Akureyrarbæjar að jarðvegsskipti séu framkvæmanleg án teljandi grunnvatnslækkunar með sérstökum aðferðum sem fjallað sé um í skýrslu sem sé hluti deiliskipulagsgagna.  Þá skuli verktaki skila verklagslýsingu áður en framkvæmdir hefjist, sem séu háðar samþykki eftirlitsaðila.  Þá skuli bæði eftirlitsaðili og verktaki fylgjast með vatnsborðshæð og landhæð á framkvæmdatíma. 

Hið kærða deiliskipulag heimili fimm einnar hæðar einbýlishús og tvö sjö hæða fjölbýlishús og sé markmiðið að þétta byggð.  Þar að auki séu markmið deiliskipulagsins umhverfis- og félagsleg.  Þau séu lögmæt og í fullu samræmi við skipulags- og byggingarlög.  Samkvæmt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga skuli stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til.  Einn þáttur meðalhófsreglunnar sé að efni ákvörðunar verði að vera til þess fallið að ná því markmiði sem að sé stefnt.  Með framangreindum markmiðum í deiliskipulagi sé Akureyrarbær að fara sömu leið og farin hafi verið í öðrum grónum hverfum þar sem byggð hafi verið fjölbýlishús.  Samkvæmt meðalhófsreglunni beri að velja vægasta úrræðið, ef fleiri en eitt úrræði standi til boða, sem þjónað geti því markmiði sem að sé stefnt og að gæta skuli hófs í beitingu þess úrræðis sem valið sé.  Þannig séu fimm einbýlishús staðsett þeim megin á hinu deiliskipulagða svæði sem standi næst Miðholti en fjölbýlishúsin staðsett á þeim stað sem minni hagsmunir séu í húfi m.t.t. grenndarréttar.  Aldrei verði þó komist hjá því með deiliskipulagningu í grónu hverfi að einhverjir hagsmunir verði fyrir borð bornir á móti þeim lögmætu hagsmunum sem að sé stefnt og verði að játa sveitarstjórn hér svigrúm með vísan til skipulagsvalds. 

Því sé mótmælt að deiliskipulagið brjóti gegn 4. mgr. 4.2.2 gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 þar sem kveðið sé á um að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar.  Ákvæðið eigi fyrst og fremst við um væntanlega íbúa þess svæðis sem verið sé að deiliskipuleggja. 

Skuggateikningar séu miðaðar við þá daga árs þegar sól sé enn lágt á lofti, eða 21. mars og 21. apríl, þegar fyrst megi vænta þess að íbúar vilji fara að njóta sólar í görðum sínum.  Á sumrin þegar sól sé hátt á lofti sé skuggavarp þverrandi, sbr. skuggavarpsteikningar fyrir 21. júní.  Á umræddri teikningu komi fram að 21. mars kl. 12:00 á hádegi nái fjölbýlishúsin ekki að varpa skugga á aðliggjandi lóðir eða hús.  Á skuggavarpsmynd frá 21. mars kl. 08:00 varpi nyrðra fjölbýlishúsið skugga á eitt af einbýlishúsunum í Miðholti og á skuggavarpsmyndum sem sýni 21. apríl kl. 09:00 og kl. 12:00 sé ekkert skuggavarp á aðliggjandi lóðir og hús.  Á skuggavarpsmynd frá 21. apríl, kl. 18:00 liggi skuggi að Stórholtinu en nái ekki að mynda skugga á lóð.  Ekkert skuggavarp verði í hverfum vestan við fjölbýlishúsin.  Að öðru leyti liggi fyrir þrívíddarteikningar sem sýni afstöðu fjölbýlishúsanna gagnvart umhverfi þeirra. 

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um gildi ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 1. júlí 2008 um deiliskipulag Undirhlíðar-Miðholts á Akureyri þar sem heimilað er að bygga tvö fjölbýlishús og fimm einbýlishús.  Afmarkast skipulagsreiturinn af Undirhlíð til suðurs, Langholti til vesturs, Miðholti til norðurs og Krossanesbraut til austurs.  Af hálfu Akureyrarbæjar er krafist frávísunar málsins sökum aðildarskorts kærenda.  Á það verður ekki fallist.  Fyrir liggur að kærendur eru búsettir við Miðholt, Stafholt, Langholt og Stórholt sem eru götur í næsta nágrenni við hið deiliskipulagða svæði og því ljóst að hið kærða deiliskipulag varðar einstaklega og lögvarða hagsmuni þeirra, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Með Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 var reitnum breytt úr óbyggðu svæði í íbúðarsvæði, þéttingarsvæði, þar sem heimilt er að byggja 15-25 íbúðir á hvern hektara lands.  Er deiliskipulagið innan heimildar aðalskipulags hvað þetta varðar og ljóst af framangreindum markmiðum að búast hefði mátt við þéttri byggð og háreistum húsum. 

Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. laganna.  Skipulagsákvarðanir eru tæki sveitarfélags til þess að móta byggð innan síns umdæmis, m.a. með ákvörðun um landnotkun, tilhögun byggðar og húsagerðir.  Við beitingu skipulagsvalds ber að fylgja markmiðum skipulags- og byggingarlaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, en þar er m.a. kveðið á um að réttur einstaklinga og lögaðila skuli ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.  Lögin gera þó ráð fyrir að með skipulagsákvörðun geti lögvörðum hagsmunum aðila verið raskað þar sem þeim er tryggður bótaréttur í 33. gr. laganna, valdi skipulagsákvörðun fjártjóni. 

Telja verður að með hinni umdeildu deiliskipulagsákvörðun sé stefnt að lögmætum skipulagsmarkmiðum, þ.m.t. um þéttingu byggðar.  Er landnotkun og fyrirhuguð byggð í samræmi við gildandi aðalskipulag sem breytt var á árinu 2006.  Skipulagshugmyndir fyrir svæðið voru kynntar á íbúafundum og skipulagstillagan auglýst til kynningar lögum samkvæmt.  Kærendur komu að athugasemdum sínum við tillöguna og var þeim athugasemdum svarað af hálfu sveitarfélagsins auk þess sem sérstakur kynningarfundur var haldinn á kynningartíma. 

Í greinargerð hins kærða deiliskipulags er vakin athygli á hættu á jarðvegssigi sem valdið geti skemmdum í yfirborði gatna og á mannvirkjum sem liggi nálægt svæðinu.  Þá segir ennfremur að lóðarhafi sé ábyrgur fyrir hugsanlegu tjóni sem rekja megi til breytinga á vatnsyfirborði meðan á framkvæmdum standi eða þangað til að lokaúttekt hafi farið fram.  Halda kærendur því fram að ekki hafi átt sér stað nægilega ígrundaðar rannsóknir áður en svæðið hafi verið deiliskipulagt og ábyrgð sú sem lögð sé á lóðarhafa sé svo óskýr að leiða eigi til ógildingar deiliskipulagsins.  Úrskurðarnefndin fellst ekki á framangreind sjónarmið kærenda enda ljóst að Akureyrarbær getur ekki með almennum ákvæðum í deiliskipulagi firrt sig ábyrgð skv. fyrrnefndri 33. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geti gildi hennar.  Verður ógildingarkröfu kærenda því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 1. júlí 2008 um að samþykkja deiliskipulag Undirhlíðar-Miðholts á Akureyri. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________           ___________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

95/2008 Víghólastígur

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 28. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 95/2008, kæra á synjun byggingarnefndar Kópavogsbæjar frá 17. september 2008 á umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Víghólastíg 19 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. september 2008, er barst nefndinni hinn 1. október s.á., kærir Björn Daníelsson hdl., f.h. S, lóðarhafa Víghólastígs 19 í Kópavogi, synjun byggingarnefndar Kópavogsbæjar frá 17. september 2008 á umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Víghólastíg 19. 

Gerir kærandi þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Mál þetta á sér nokkur aðdraganda en á árinu 2007 samþykkti skipulagsnefnd að kæranda væri heimilt að leggja fram deiliskipulagstillögu að lóðinni nr. 19 við Víghólastíg.  Var tillagan auglýst með vísan til 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og bárust  athugasemdir við hana.  Eftir frekari vinnslu tillögunnar var hún auglýst að nýju og bárust þá einnig athugasemdir nágranna.  Var tillögunni synjað á fundi bæjarráðs hinn 19. mars 2008.  Var sú synjun kærð til úrskurðarnefndarinnar en síðar var kæran dregin til baka. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 16. apríl 2008, var lögð fram umsókn kæranda um byggingarleyfi til breytinga á húsi hans að Víghólastíg 19, sem er einbýlishús, hæð og ris, 142,3 m² að stærð auk 32,8 m² bílgeymslu.  Í umsókn hans fólst að byggt yrði við húsið sem yrði eftir stækkun þess 297,4 m  og yrði nýtingarhlutfall lóðar eftir breytingarnar 0,33.  Vísaði byggingarnefnd málinu til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu og stóð hún yfir frá 16. júní til 15. júlí 2008.  Athugasemdir bárust frá íbúum tveggja aðliggjandi lóða að Bjarnhólastíg 20 og 22.  Að grenndarkynningu lokinni vísaði skipulagsnefnd málinu að nýju til byggingarnefndar ásamt athugasemdum. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 17. september 2008 var umsókn kæranda synjað með vísan til greinargerðar byggingarnefndar þar sem segir svo:  „Þess er ekki getið í umsókn eða skýringum á teikningum að sótt sé um stækkun bílskúrs eða að sótt sé um að breyta húsinu úr einbýlishúsi í tvíbýlishús eins og teikningar gefa til kynna.  Stærðir og stækkunartölur á teikningum eru ekki réttar og þar er ekki gerð grein fyrir stækkun bílskúrs þótt teikningar gefi það til kynna.  Skráningartafla fylgir ekki málinu sem skýrt geti hvort sótt er um tvær íbúðir í húsinu.  Þess er ekki getið í grenndarkynningu að sótt sé um að breyta húsinu í tvíbýlishús eða að byggja við bílskúr.  Með tilvísun í athugasemdir nágranna er það mat byggingarnefndar að stærð og yfirbragð hússins, ásamt því að breyta húsinu í tvíbýlishús, falli ekki inn í byggðamunstur á svæðinu.  Byggingarnefnd telur að stækkun bílskúrs í norðurlóðarmörkum sé ekki ásættanleg fyrir eigendur að Bjarnhólastíg 20.“  Var synjun þessi staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 23. september 2008. 

Hefur kærandi kært synjun byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að umsókn hans hafi ekki fengið rétta og sanngjarna málsmeðferð, til að mynda hafi ekki verið óskað frekari gagna á meðan málsmeðferð stóð til stuðnings umsókn hans um breytingar á húsinu að Víghólastíg 19.  Virðist umsókninni m.a. hafa verið hafnað þar sem hún hafi verið talin ófullnægjandi.  Hljóti það að vera brot á málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds, 10. gr. sömu laga um rannsóknarreglu og 13. gr. um andmælarétt. 

Þá sé einnig vísað til þess að ekki séu efnisrök til synjunar á umsókninni, einkum sökum þess að í hverfinu séu mörg einbýlishús sem breytt hafi verið í tvíbýli eða hús sem upphaflega hafi verið byggð sem slík.  Verði að gæta jafnræðis hvað þetta varði.  Ómálefnaleg sjónarmið virðist hafa ráðið niðurstöðu um synjun á umsóttum breytingum þegar vísað hafi verið til röklausra sjónarmiða nágranna.  Hvorki verði talið að útlit breytinga né breyting skuggavarps hafi áhrif á nágranna sem máli skipti.  Telja verði að þær breytingar sem óskað hafi verið eftir hvað varði stærð og yfirbragð falli vel að byggðamynstri á svæðinu.  Þá séu mörg tvíbýlishús i götunni og eitt þríbýli. 

Af hálfu kæranda sé einnig vísað til þess að umsótt breyting á húsi hans raski ekki skipulagi svæðisins.  Þá sé farið eftir byggingarlöggjöf hvað varði breytingarnar svo sem skipulags- og byggingarlögum sem og byggingarreglugerð.  Tekið sé fram að kærandi hafi víðtæka reynslu í mannvirkjagerð.  Því sé sérstaklega hafnað að stækkun bílskúrs í norðurlóðarmörkum sé ekki ásættanleg fyrir eigendur að Bjarnhólastig 20.  Loks sé vísað til þess að miklir hagsmunir séu í húfi fyrir kæranda að fá að gera umsóttar breytingar.  Allar takmarkanir á slíkum breytingum hljóti að þurfa að túlka þröngt.  Ekki sé talið að breytingarnar auki skuggavarp eða skerði útsýni svo máli skipti eða rýri á annan hátt rétt nágranna.  Nefnd stækkun og nýting lóðar verði heldur ekki meiri að umfangi en gangi og gerist á svæðinu, m.a. í götunni.  Sé þá horft til nýtingarhlutfalls lóðar og fjölda íbúða. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til þess að athugasemdir hafi komið fram er umsókn kæranda hafi verið grenndarkynnt.  Þær hafi lotið að því að fyrirhuguð breyting myndi raska högum næstu nágranna, styttra yrði milli húsanna að Víghólastíg 19 og Bjarnhólastígs 20 en nokkurra annarra húsa í götureitnum, stækkun hússins myndi fara þvert fyrir stofuglugga hússins að Bjarnhólastíg 20, ekki hafi verið gerð úttekt á skuggavarpi vegna viðbyggingarinnar og að um væri að ræða mun meiri stækkun en vænta mætti miðað við nýtingu á götureitnum.  Þá hafi athugasemdir lotið að hæð hússins sem hafi verið talin of mikil og myndi skerða birtu og útsýni.  Stækkun væri of mikil og umfram það sem talist gæti eðlileg endurnýjun húseignar. 

Bent sé á að byggingarleyfisumsókn kæranda hafi verið synjað með vísan til greinargerðar byggingarnefndar þar sem lýst hafi verið ýmsum annmörkum á umsókninni.  Það sé hins vegar síðari málsgrein greinargerðarinnar sem feli í sér forsendur synjunarinnar, með tilvísun í athugasemdir nágranna, að það hafi verið mat nefndarinnar að stærð og yfirbragð húss ásamt því að breyta því í tvíbýli, félli ekki að byggðamynstri á svæðinu og að nefndin teldi að stækkun bílskúrs í norðurlóðamörkum væri ekki ásættanleg fyrir eigendur að Bjarnhólastíg 20. 

Því sé hafnað sem haldið sé fram í kæru að umsókn kæranda hafi ekki hlotið rétta og sanngjarna málsmeðferð.  Nægileg gögn hafi legið fyrir til þess að hægt væri að taka ákvörðun í málinu og afstaða umsækjanda hafi komið fram í umsókn hans og fylgigögnum.  Því hafi því ekki verið ástæða til að rannsaka málið frekar eða óska eftir frekari gögnum eða sjónarmiðum frá kæranda.  Ástæða synjunarinnar hafi ekki verið ágallar á umsóknargögnum heldur sú að efnislega hafi framkvæmdin sem sótt hafi verið um verið talin ganga gegn hagsmunum nágranna og ekki samrýmast því byggðamynstri sem ríkjandi sé á svæðinu.  Það hefði því ekki haft neinn tilgang að gefa kæranda kost á að bæta úr ágöllum á umsókn.  Af þessum sökum sé því hafnað að brotið hafi verið gegn upplýsinga-, rannsóknar- eða andmælareglu stjórnsýslulaga. 

Efnislega sé ákvörðun byggingarnefndar á rökum reist og eðlileg með tilliti til nærliggjandi byggðar og hagsmuna íbúa í næstu húsum.  Þrátt fyrir að kærandi telji upp nokkur hús í götunni þar sem tvær íbúðir séu til staðar sé ljóst að hverfið sé að meginstefnu einbýlishúsahverfi.  Mikill meirihluti húsa í götunni og nærliggjandi götum sé einbýli og fæst séu þau jafn mikil að umfangi og það hús sem kærandi óski eftir að byggja.  Þau tvíbýli sem séu í hverfinu séu mörg hver arfur frá liðinni tíð og ekki liggi fyrir að neitt þeirra hafi fengið afgreiðslu bæjarins á grundvelli núgildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Það sé því ekki um það að ræða að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu með hinni kærðu ákvörðun. 

Því sé mótmælt sem kærandi haldi fram að byggt sé á röklausum sjónarmiðum nágranna.  Telja verði að þeir nágrannar sem hafi skilað inn athugasemdum hafi fært fram fullnægjandi rök fyrir sjónarmiðum sínum.  Það hafi verið mat nefndarinnar að taka bæri undir sjónarmið nágranna um að útlit og skuggavarp hússins hefðu áhrif sem skiptu verulegu máli. 

Andsvör kæranda við málsrökum Kópavogsbæjar:  Af hálfu kæranda er bent á að í byggingarleyfisumsókn hans hafi einungis verið krossað við einbýlishús en hins vegar hafi starfsmenn Kópavogsbæjar bætt því við umsóknina að um tvíbýlishús væri að ræða. 

Ekki sé rétt að styttra verði milli húss kæranda og Bjarnhólastígs 20 en nokkurra annarra húsa í götureitnum.  Fjarlægðin sé sú sama eftir sem áður, bæði gagnvart Bjarnhólastíg 20 og 22.  Sú fullyrðing að stækkunin fari þvert fyrir stofuglugga nágranna sé sömuleiðis haldlaus.  Skuggavarpsteikningar hafi verið afhentar skipulagsyfirvöldum.  Einnig sé mikilvægt að hafa í huga að nýtingarhlutfall lóðar kæranda eftir breytingu sé nánast það sama og á næstu lóðum. 

Kærandi bendir á, varðandi stækkun bílskúrs í norður á lóðarmörkum, að það geti varla snert íbúa Bjarnhólastígs 20 á nokkurn hátt, enda hafi þeir þegar reist skjólgirðingu á lóðamörkum sem sé jafnhá og bílskúr, og reyndar nái hún tveimur metrum lengra til vesturs heldur en fyrirhuguð bílskúrsstækkun.  Þar að auki hafi íbúar að Bjarnhólastíg 20 og 22 plantað risavöxnum trjám rétt við lóðamörk. 

Í greinagerð lögfræðings Kópavogsbæjar segi m.a:  „Nægileg gögn lágu fyrir til þess að hægt væri að taka ákvörðun í málinu.“  Þessu sé kærandi sammála en í greinagerð byggingarnefndar virðist samt reynt að hártoga gögnin, þ.e. að þau séu ekki fullnægjandi.  Þótt tvíbýlishús í götunni sé arfur fyrri tíma breyti það ekki því að byggingareglugerð hafi verið í gildi í áratugi hvað sem líði núgildandi reglugerð, allir hafi þurft leyfi yfirvalda til að skrá og breyta einbýli í tvíbýli.  Nágrannar hafi ekki andmælt því að þarna verði skráðar tvær íbúðir, enda ætti það ekki að breyta þá neinu. 

Undarlegt sé í öllu þessu ferli að ekki hafi komið ein einasta ábending frá byggingarfulltrúa um fyrirhugaðar endurbætur.  Engar ábendingar hafi þannig komið fram um lausnir. 

—————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi synjunar byggingarnefndar Kópavogsbæjar frá 17. september 2008 á umsókn kæranda máls þessa um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Víghólastíg 19 í Kópavogi.  Á svæði því er um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag og kusu bæjaryfirvöld að grenndarkynna erindi kæranda.  Verður að ætla að slíkt hafi verið gert á grundvelli undanþáguheimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga, með síðari breytingum, sem og 9. og 43. gr. sömu laga, verður byggingarleyfi að eiga sér stoð í deiliskipulagi.  Frá þeirri meginreglu er að finna undantekningu í 3. mgr. 23. gr. laganna, um heimild sveitarstjórnar til að veita leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu.  Við afmörkun undantekningarreglunnar gagnvart meginreglunni hefur verið talið að skýra beri ákvæðið til samræmis við 1. og 2. mgr. 26. gr. sömu laga þar sem segir að fara skuli með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt skipulag sé að ræða nema breytingar séu óverulegar.  Þegar meta skal hvort bygging teljist einungis hafa í för með sér óverulegar breytingar verður m.a. að líta til þess hver grenndaráhrif hennar séu á nærliggjandi eignir og hversu umfangsmikil hún sé í hlutfalli við þær byggingar sem fyrir eru á umræddri lóð eða svæði. 

Í hinu umdeilda tilviki er um að ræða byggingu við húsið að Víghólastíg 19 sem er einbýlishús, hæð og ris, 142,3 m² að stærð auk 32,8 m² bílgeymslu.  Í umsókn kæranda fólst að byggt yrði við húsið þannig að það yrði eftir stækkun 297,4 m².  Yrði nýtingarhlutfall lóðar eftir stækkun 0,33 í stað 0,19.  Þá bera og byggingarnefndarteikningar með sér að fyrirhugaðar hafi verið tvær íbúðir í húsinu.

Úrskurðarnefndin telur að framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfisumsókn kæranda myndu hafa í för með sér talsverð grenndaráhrif og geti ekki talist vera óverulegar.  Því hafi ekki verið unnt að veita byggingarleyfi á grundvelli undanþáguheimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Ekki verður fallist á að málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttarins hafi verið brotnar við meðferð málsins hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum.  Verður ekki annað séð en að málið hafi verið rannsakað á fullnægjandi hátt og að hin kærða ákvörðun byggingarnefndar hafi verið nægileg rökstudd.  Þá verður ekki heldur fallist á að byggingarnefnd hafi borið líta til uppbyggingar á einstökum lóðum á umræddu svæði við úrlausn málsins þegar til þess er litið að uppbygging á svæðinu hefur ekki stuðst við deiliskipulag og hefur að mestu leyti átt sér stað fyrir gildistöku laga nr. 73/1997.

Af málsgögnum verður ekki ráðið að skipulagsnefnd hafi ályktað um málið að lokinn grenndarkynningu áður en því var vísað til byggingarnefndar svo sem áskilið er í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Úrskurðarnefndin telur að hér sé um ágalla á málsmeðferð að ræða en að ólíklegt sé að hann hafi haft áhrif á niðurstöðu málsins.  Þykir hann því einn og sér ekki geta varðað ógildingu.

Samkvæmt framansögðu var bæjaryfirvöldum rétt að synja umsókn kæranda svo sem gert var og verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu synjunar byggingarnefndar Kópavogsbæjar frá 17. september 2008 á umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Víghólastíg 19 í Kópavogi. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

________________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                        Þorsteinn Þorsteinsson

112/2008 Eyrarstígur

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 26. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 112/2008, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar frá 12. nóvember 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. desember 2008, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kæra H og G, eigendur hússins að Eyrarstíg 2, Reyðarfirði, samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar frá 12. nóvember 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 20. nóvember 2008.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Þar sem fyrir liggur að framkvæmdir við hina umdeildu bílgeymslu eru ekki hafnar og málið þykir nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar verður ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málavextir:  Kærumál þetta á sér nokkra forsögu.  Hinn 18. maí 2006 barst embætti byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar umsókn frá eiganda hússins nr. 4 við Eyrarstíg á Reyðarfirði, m.a. um byggingu bílgeymslu á lóðinni.  Var samkvæmt umsókninni gert ráð fyrir að bílgeymslan yrði staðsett austan við húsið, um einn metra frá mörkum lóðarinnar  nr. 2 við Eyrarstíg, en á henni er bílgeymsla sem stendur fast að þeim.  Ákvað byggingarfulltrúi að grenndarkynna beiðnina þar sem ekki væri til deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Á fundi umhverfismálaráðs hinn 12. júlí 2006 var umsóknin tekin fyrir ásamt athugasemdum kærenda og var afgreiðslu málsins frestað.  Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi ráðsins hinn 26. júlí s.á. og var eftirfarandi fært til bókar:  „Nefndin hefur skoðað málið vandlega og veitir byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4.  Uppfylla þarf skilyrði um brunavarnir vegna fjarlægðar á milli húsa.  Nefndin telur að framkvæmdin skerði útsýni að mjög litlu leyti.  Þar sem bílgeymsla á lóð nr. 2 er byggð mjög nálægt lóðarmörkum lítur ráðið svo á að um gagnkvæman rétt til byggingar bílgeymslu sé að ræða við lóðarmörk.“ 

Framangreindri samþykkt umhverfismálaráðs skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum hinn 8. mars 2007 felldi byggingarleyfið úr gildi með vísan til þágildandi ákvæða 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar var á fundi umhverfismálaráðs hinn 25. júlí 2007 eftirfarandi fært til bókar:  „1. Samþykktir byggingarfulltrúa … Eyrarstígur 4, … sækir um leyfi til að byggja bílskúr við austurhlið hússins.  Liður 1 samþykktur.“  Var fundargerð umhverfismálaráðs samþykkt á fundi bæjarráðs hinn 31. júlí 2007.  Samþykkt þessi var einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði uppkveðnum hinn 2. apríl 2008 felldi hana úr gildi sökum þess að undirbúningi hennar væri áfátt. 

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 27. ágúst 2008 var enn á ný lögð fram umsókn um leyfi til að byggja bílskúr á lóðinni nr. 4 við Eyrarstíg og var samþykkt að grenndarkynna erindið, m.a. gagnvart kærendum.  Komu þau á framfæri athugasemdum sínum vegna þessa með bréfi, dags. 22. október 2008.  Að lokinni grenndarkynningu var á fundi nefndarinnar hinn 12. nóvember 2008 m.a. eftirfarandi fært til bókar:  „Ein athugasemd hefur borist, þar sem lagst er gegn veitingu byggingarleyfis.  Nefndin telur ekki nógu sterk rök gegn veitingu byggingarleyfis og felur byggingarfulltrúa að ganga frá byggingarleyfinu.“  Var samþykkt þessi staðfest í bæjarstjórn hinn 20. nóvember 2008. 

Hafa kærendur kært framangreinda samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að byggingarfulltrúi hafi brugðist skyldum sínum þar sem hann hafi ekki farið að lögum varðandi upplýsingaskyldu gagnvart kærendum.  Þeim hafi ekki verið gert kunnugt um að hið kærða leyfi hafi verið samþykkt nema við lestur fundargerða á netinu.   

Átelja beri byggingarfulltrúa og umhverfis- og skipulagsnefnd fyrir endurtekna útgáfu á leyfi til byggingar bílskúrs á lóðinni nr. 4 við Eyrarstíg, þ.e. fyrir sama bílskúrinn á sama stað, og sé spurning hversu oft slíkt sé hægt og hvort það standist lög. 

Því sé haldið fram að hinn umdeildi bílskúr sé bæði of stór og of hár samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar.  Bílskúrinn fari fyrir glugga á húsi kærenda og valdi aukinni brunahættu.  Í byggingarreglugerð sé talað um að Brunamálastofnun gefi út leiðbeiningar varðandi framangreint en kærendum sé tjáð að þær reglur séu enn í smíðum. 

Af gefnu tilefni sé bent á að aldrei hafi verið bílastæði á milli húsanna nr. 2 og 4 við Eyrarstíg heldur fyrir framan húsin.  Þá sé því mótmælt að um gagnkvæman rétt til byggingar bílskúrs sé að ræða.   

Málsrök Fjarðabyggðar:  Af hálfu Fjarðabyggðar er bent á að hið kærða byggingarleyfi hafi verið samþykkt að undangenginni grenndarkynningu og hafi aðeins ein athugasemd borist, þ.e. frá kærendum. 

Tvívegis áður hafi umhverfis- og skipulagsnefnd heimilað byggingu bílskúrs á lóðinni nr. 4 og í þetta skiptið hafi þótt rétt að veita leyfið og láta reyna á ný ákvæði byggingarreglugerðar varðandi brunafjarlægðir.

Byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út og sé ástæðan fyrir því sú að ekki hafi verið talið rétt að gefa út byggingarleyfi áður en kærendum hafi verið gert viðvart um hina kærðu ákvörðun, leiðbeint um kæruleiðir og kærufrest.

Smávægileg frávik frá byggingarreglugerð séu heimiluð er varði stærð hins umdeilda bílskúrs, eða 3,6 m².  Þá sé og frávik er varði hæð hans, en reynt sé að koma í veg fyrir hæðarmismun með því að hafa kóta bílskúrs lægri en íbúðarhúss.  Eins sé miðað við að samræma vegghæðir bílskúrs að Eyrarstíg 4 og bílskúrs kærenda að Eyrarstíg 2, þannig að útlit hverfisins verði heilsteypt.

Staðsetning bílskúrsins sé heimiluð aftast í lóðinni þannig að sem minnst af byggingunni skyggi á íbúðarhús kærenda, en fari þess í stað fyrir bílskúr þeirra og fyrir framan glugga geymslu og þvottahúss.  Bent sé á að tré séu nú fyrir framan þann glugga. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að þau hafi lagt þann skilning í úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 2. apríl 2008 að tvennt hafi verið að við undirbúning og gerð ákvörðunar umhverfis- og skipulagsnefndar.  Annars vegar að beiðni þeirra hafi ekki verið grenndarkynnt og hins vegar hafi efnisleg rök skort fyrir heimild til þess að byggja stærri og hærri bílskúr en að jafnaði skuli gert.  Því mætti ætla að hönnun og staðsetning bílskúrsins sé nú með þeim hætti að skilyrðum laga og reglna sé hlýtt, að öðru leyti en hvað hæð og stærð varði.
 
Grenndarkynning hafi farið fram og hafi verið send nágrönnum sem eigi aðliggjandi lóðir og einnig þeim sem ekki eigi aðliggjandi lóðir en hafi sýn heim að Eyrarstíg 4.  Athugasemdir hafi einungis borist frá íbúum að Eyrarstíg 2.
 
Unnar hafi verið teikningar sem sýni staðsetningu og hæðarsetningu bílskúrs er fylgt hafi grenndarkynningunni.  Þær teikningar liggi til grundvallar þeim rökum að veitt verði heimild til byggingar bílskúrs á lóðinni.  Í umsókn til byggingarfulltrúa, dags. 13. ágúst 2008, hafi m.a. eftirfarandi komið fram:  „Í byggingareglugerð eru takmarkandi ákvæði um vegghæð bílskúra.  Með því að hafa gólfkvóta bílskúrs eins lágt yfir hæstu jarðvegshæð og kostur er, verður niðurstaðan eftirfarandi með vegghæð 2,80 metrar.  Mænishæð bílskúrs verður 79 cm undir mænishæð á Eyrarstíg 4, jafnframt er mænishæð bílskúrs u.þ.b. 40 cm lægri en frambrún þaks á Eyrarstíg 2.  Eins og sjá má á sniðmynd verður vegghæð ekki meiri en vegghæð aðlægs framhorns bílskúrs á Eyrarstíg 2.  Í byggingarreglugerð eru takamarkandi ákvæði um flatarmál bílskúra.  Nokkur atriði við hönnun bílskúrsins sem styðja hönnunarstærð umfram ákvæði reglugerðar um jafnaðarstærð.  Fatarmál bílskúrsins sem hannaður hefur verið á lóð að Eyrarstíg 4 er 39,6 fermetrar. Flatarmál einangrunar sem verður utanfrá er 3,16 fermetrar og er munurinn að okkar mati óverulegur.  Staðsetning bílskúrsins innan lóðar, með stafn á lóðarmörkum Brekkugötu 8 og 1 meter frá lóðarmörkum Eyrarstígs 2 á langhlið.  Brunaþolshönnun bílskúrsins er þannig háttað að heimilt er skv. reglugerðinni að byggja innan eins meters frá lóðarmörkum.“ 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar frá 12. nóvember 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir 39,5 m² bílgeymslu að Eyrarstíg 4, Reyðarfirði.  Á svæði því er um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag.  

Í gr. 113.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 segir að bílageymsla fyrir einn bíl skuli að jafnaði ekki vera stærri en 36 m² brúttó.  Þá kemur fram í lokamálslið sömu greinar að byggingarnefnd geti aðeins heimilað stærri og hærri  bílgeymslur þar sem slíkt valdi ekki verulegri röskun á umhverfi og aðstæður leyfi að öðru leyti. 

Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 88/2007 var talið að á skorti að sýnt hefði verið fram á að fyrrgreindum skilyrðum væri fullnægt og að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar væri því áfátt.  Þrátt fyrir að bílskúr sá sem hið umdeilda leyfi lýtur að sé nokkuð lægri en bílskúr samkvæmt fyrri byggingarleyfisumsóknum sýnist mega ráða af fyrirliggjandi gögnum að hann muni hafa grenndaráhrif gagnvart kærendum.  Þykir því enn á skorta að sýnt hafi verið fram á réttmæti þess að víkja frá fyrrgreindu ákvæði byggingarreglugerðar.  Var rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun því áfátt, sbr. 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og hún af þeim sökum felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar frá 12. nóvember 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði. 

 

 

____________________________________
                                                        Ásgeir Magnússon                                                      

 

______________________________                      _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                 Aðalheiður Jóhannsdóttir

 

 

7/2009 Bústaðavegur

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 26. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 7/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. maí 2008 um að veita leyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóðinni nr. 9 við Bústaðaveg.  Ennfremur er kærð synjun byggingarfulltrúans frá 8. janúar 2009 á beiðni kærenda um grenndarkynningu vegna ofangreinds byggingarleyfis. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. febrúar 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir Dögg Pálsdóttir hrl., f.h. S, Stigahlíð 87 og S, Stigahlíð 89, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. maí 2008 að veita leyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóðinni nr. 9 við Bústaðaveg.  Þá er til vara kærð synjun byggingarfulltrúans frá 8. janúar 2009 um að verða við kröfu kærenda um grenndarkynningu vegna umdeildra framkvæmda. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Þá er þess krafist að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Þar sem kærumálið þykir nú nægjanlega upplýst verður það tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 29. febrúar 2008 var lögð fram fyrirspurn Geislavarna ríkisins um byggingu 20 m² skúrs á lóð Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 9.  Skipulagsstjóri afgreiddi fyrirspurnina með eftirfarandi bókun:  „Ekki eru gerðar athugasemdir við að fyrirspyrjandi láti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samráði við embætti skipulagsstjóra, á eigin kostnað, sem síðar verður grenndarkynnt án þess tekin sé afstaða til staðsetningu samkvæmt skissu.“ 

Fyrirspurnin var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 4. apríl 2008 og svohljóðandi bókað:  „Leiðrétt bókun frá afgreiðslufundi skipulagsstjóra frá 29. febrúar 2008. Ekki eru gerðar athugasemdir við erindið. Byggingarleyfisumsókn verður grenndarkynnt þegar hún berst.“ 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. maí 2008 var tekin fyrir umsókn þar sem sótt var um leyfi fyrir 24,3 m² smáhýsi úr timbri fyrir Geislavarnir ríkisins á lóð nr. 9 við Bústaðaveg og fylgdi umsókninni samþykki lóðarhafa.  Var umsóknin afgreidd með svohljóðandi bókun:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.“  Staðfesti borgarráð afgreiðsluna á fundi hinn 15. maí 2008. 

Hinn 22. desember 2008 höfðu kærendur máls þessa samband við embætti byggingarfulltrúa og mótmæltu framkvæmdum á lóð Veðurstofu Íslands og með tölvupósti byggingarfulltrúa, dags. 26. desember s.á., var þeim m.a. tilkynnt að embættið hefði samþykkt byggingu á smáhýsi á umræddri lóð og hafi þá legið fyrir umsagnir ýmissa aðila, m.a. skipulagsstjóra.  Væri ekki annað að sjá en að starfsmönnum hefði við yfirferð umsóknar yfirsést bókun þess efnis að umsókn um byggingarleyfi yrði grenndarkynnt ef hún bærist.  Þegar þetta hefði komið í ljós hefðu framkvæmdir verið stöðvaðar. 

Í kjölfar þessa var kærendum sendur aðaluppdráttur, er samþykktur hafði verið 6. maí 2008, af umræddu smáhýsi til óformlegrar kynningar á málinu og þeim bent á að hefðu þeir einhverjar athugasemdir fram að færa myndi fara fram grenndarkynning. 

Með tölvupósti til byggingarfulltrúa, dags. 5. janúar 2009, fóru kærendur fram á að formleg grenndarkynning ætti sér stað.  Með svarbréfi byggingarfulltrúa, dags. 8. janúar s.á. var þeim tilkynnt að fallið hefði verið frá grenndarkynningu á byggingarleyfisumsókn og að stöðvun framkvæmda hefði verið aflétt, með vísan til minnisblaðs skipulagsstjóra, dags. 8. janúar 2009. 

Málsrök kærenda:  Aðalkrafa kærenda byggist fyrst og fremst á þeirri málsástæðu að í umdeildri ákvörðun felist röskun á hagsmunum þeirra.  Enn fremur hafi skýr réttur verið brotinn á kærendum sem og öðrum er hagsmuna eigi að gæta þegar ákvörðun um byggingarleyfi hafi verið tekin án þess að grenndarkynning færi fram.  Hljóti slíkir annmarkar að leiða til þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. 

Allur ferill málsins sé mjög einkennilegur og málsmeðferðin afar gagnrýnisverð.  Hafi kærendum fyrst orðið kunnugt um umræddar framkvæmdir þegar þær hafi byrjað í desember 2008.  Hafi þeir þá strax leitað upplýsinga og hafi byggingarfulltrúi stöðvað framkvæmdir enda hafi hann talið að um mistök væri að ræða. 

Vísi kærendur til 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en í 7. mgr. ákvæðisins sé fjallað um grenndarkynningu.  Eigi grenndarkynning annars vegar við þegar um sé að ræða minniháttar framkvæmdir í þegar byggðum hverfum, í þéttbýli eða dreifbýli, þar sem aðal- eða svæðisskipulag sé fyrir hendi en ekki deiliskipulag og fyrirhuguð framkvæmd víki ekki frá notkun, nýtingarhlutfalli eða yfirbragði hverfisins í verulegum atriðum.  Hins vegar eigi hún við þegar um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi.  Grenndarkynning hafi þannig verið talin eiga við um stakar, óverulegar framkvæmdir í fullbyggðum hverfum í þéttbýli.  Felist grenndarkynningin í því að skipulagsráð kynni nágrönnum fyrirhugaða framkvæmd sem varðað geti hagsmuni þeirra, t.d. skert útsýni, og veiti þeim rétt til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Meti skipulagsnefnd í hverju tilviki hvort framkvæmd teljist það óveruleg að grenndarkynning sé nægileg og byggi það m.a. á eðli, staðsetningu og umfangi framkvæmdarinnar og hvaða áhrif hún hafi á nærliggjandi svæði. 

Að mati kærenda sé ekki hægt að túlka ákvæði annars vegar 7. mgr. 43. gr. laganna og hins vegar 2. mgr. 26. gr. sömu laga á annan veg en svo að skylt sé, í öllum tilfellum þegar byggingarleyfi sé veitt og um óverulega breytingu á deiliskipulagi sé að ræða, að grenndarkynna umsókn.  Ekki sé þannig gert ráð fyrir því í tilvitnuðum lögum að unnt sé að sneiða hjá afdráttarlausu orðalagi lagaákvæðis um grenndarkynningu vegna þess að framkvæmdir hafi „hverfandi“ grenndaráhrif að mati skipulagsfulltrúa.  Sé þessi niðurstaða í samræmi við það er fram komi í bókun afgreiðslufundar skipulagsstjóra hinn 4. apríl 2008, þar sem segi að ekki séu gerðar athugasemdir við erindið og að umsókn verði grenndarkynnt þegar hún berist.  Einnig sé þessi túlkun í samræmi við álit byggingarfulltrúans í Reykjavík, þ.e. að um mistök hafi væri að ræða. 

Hafi kærendur og aðrir íbúar götunnar verulegra hagsmuna að gæta.  Um sé að ræða svæði sem hingað til hafi verið óbyggt og hafi framkvæmdir veruleg áhrif á alla íbúa götunnar bæði sjónrænt sem og á útivist á svæðinu.  Umræddar framkvæmdir séu beint fyrir utan stofuglugga kærenda, blasi við þeim, og sé því um verulega sjónmengun að ræða auk þess sem framkvæmdirnar hafi verulegt rask í för með sér.  Byrgi þær sýn til suðurs frá lóðum kærenda og fyrirsjáanlegt sé að einnig verði um hljóðmengun að ræða en loft sé stöðugt sogað inn í skúrinn með tilheyrandi hávaða. 

Til vara sé þess krafist að ákvörðun byggingarfulltrúans um að hafna grenndarkynningu verði felld úr gildi og sé vísað til sömu röksemda hvað varakröfu varði og áður hafi verið fram settar.  Ljóst sé að reglur hafi verið brotnar þegar kærendum og öðrum sem hagsmuna eigi að gæta hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig og taka afstöðu til umræddrar framkvæmdar eins og skipulags- og byggingarlög geri ráð fyrir. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld krefjast þess að kröfum kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að þeim verði hafnað.  Sé krafa um frávísun á því byggð að kærendur eigi enga lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð nefndarinnar um álitaefnið.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga geti þeir „…einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.“  Í máli því sem hér um ræði verði ekki séð í hverju hinir einstaklegu lögákveðnu hagsmunir kærenda séu fólgnir, en hin umdeilda bygging sé í meira en 60 m fjarlægð frá íbúðarhúsum þeirra.  Við yfirferð á uppdráttum hafi komið í ljós að grenndaráhrif vegna umrædds smáhýsis séu hverfandi og hafi því ekki þótt ástæða til að grenndarkynna umsókn um byggingarleyfi.  Á það skuli einnig sérstaklega minnt að lóð Veðurstofu Íslands sé ekki skilgreint útivistarsvæði fyrir íbúa hverfisins og börn þeirra og eigi því íbúarnir ekkert tilkall til slíkra hagsmuna á lóðinni. 

Verði ekki fallist á frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar í málinu sé á því byggt að ekki hafi verið skylt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina í upphafi þar sem grenndaráhrif smáhýsisins séu svo óveruleg að þau raski ekki hagsmunum kærenda né annarra íbúa að neinu leyti.  Synjun á ósk kærenda um grenndarkynningu síðar hafi því einnig verið fullkomlega heimil.  Bent sé á að smáhýsið sé aðeins um 20 m² og um fjórir metrar á hæð en á vettvangi sjáist glöggt að útsýniskerðing vegna þess sé engin og aðeins sjáist glitta í efri hluta þess úr fjarlægð.  Umrætt smáhýsi sé staðsett innarlega á lóðinni, varði aðeins hagsmuni lóðarhafa og ekki sé nokkur leið að sjá hvaða réttmætu athugasemdir kærendur hefðu getað haft uppi við grenndarkynningu hefði hún farið fram.  Á það skuli sérstaklega bent að grenndarkynning skuli fara fram skv. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 ef einhverjir finnast sem telja megi að hagsmuna hafi að gæta.  Það hafi verið mat skipulagsyfirvalda að engum hagsmunaaðilum hefði verið til að dreifa í málinu og því heimilt að samþykkja umsóknina án sérstakrar grenndarkynningar. 

Fari svo ólíklega að úrskurðarnefndin telji að hagsmunum kærenda hafi með einhverjum hætti verið raskað svo að kynna hefði átt þeim málið sérstaklega með grenndarkynningu skuli minnt á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar í nágrenni þeirra sem haft geti í för með sér útsýnisskerðingu, skuggavarp eða önnur óþægindi.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. 

Þá hafi sú aðgerð byggingarfulltrúa, að stöðva framkvæmdir tímabundið á meðan kvörtun kærenda og mögulegur grunur um mistök borgarinnar í málinu hafi verið uppi, verið fullkomlega eðlileg í ljósi aðstæðna.  Sú aðgerð að aflétta stöðvun hafi einnig verið réttmæt og eðlileg í ljósi minnisblaðs skipulagsstjóra, dags. 8. janúar sl. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi bendir á að kærendur búi í meira en 60 m fjarlægð frá umræddum skúr sem sé fyrirferðarlítill, aðeins um 20 m² að flatarmáli og 4 m á hæð, sem leiði af sér hverfandi grenndaráhrif, jafnvel engin.  Vísi byggingarleyfishafi til 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 þar sem m.a. komi fram að í grenndarkynningu felist að nágrönnum sem hagsmuna eigi að gæta sé kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig innan ákveðins frests sem skuli vera a.m.k. fjórar vikur. 

Vert sé að árétta að lóð nr. 9 við Bústaðaveg sé í ódeiliskipulögðu hverfi og að samræmisskýring kærenda á 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997 um breytingu á deiliskipulagi og 7. mgr. 43. gr. sömu laga eigi ekki við.  Það að kærendur geti fallist á að um óverulegar breytingar á deiliskipulagi sé að ræða eigi ekki við þar sem ekkert deiliskipulag hafi verið samþykkt fyrir svæðið.  Aftur á móti beri að grenndarkynna umsóknir á ódeiliskipulögðum svæðum fyrir þeim nágrönnum sem hagsmuna eigi að gæta og sé það afstaða byggingarleyfishafa að þeir grenndarhagsmunir séu ekki til staðar, þ.e. illmögulegt sé að tilgreina þá aðila sem hagsmuni geti haft af framkvæmdinni.  Framkvæmdin muni ekki fela í sér skert útsýni fyrir kærendur, hún sé ekki í óþægilegri nálægð við kærendur og muni hún ekki varpa skugga á lóðir þeirra eða á annan hátt skerða hagsmuni þeirra. 

Bent sé á að skúrinn gegni hlutverki mælistöðvar er mæli geislavirkar svifagnir í andrúmslofti og séu strangar kröfur gerðar um að finna staði er hæfi.  Vegi veðurfarsleg skilyrði hvað þyngst auk þess sem sjónlína þurfi að vera við gervihnött.  Hvað hávaða af notkun skúrsins varði, þá beri að taka það fram að byggingarleyfishafi hafi gert sérstaka kröfu til hönnuða um að tryggja að hávaði verði innan ásættanlegra marka, enda skúrinn nærri fjölmennum vinnustað.  Því sé alfarið vísað á bug að búnaðurinn hafi þann hávaða í för með sér að hann hafi áhrif á kærendur.  Þá sé talið nauðsynlegt að árétta að afgreiðsla skipulagsstjóra frá 4. apríl 2008, þar sem bókað hafi verið að byggingarleyfisumsókn yrði grenndarkynnt þegar hún bærist, hafi ekki verið stjórnvaldsákvörðun heldur leiðbeiningar sem stjórnvald hafi gefið fyrirspyrjanda.  Breytt afstaða skipulagsstjórans í Reykjavík feli ekki í sér afturköllun á stjórnvaldsákvörðun og sé stjórnvald í fullum rétti til að breyta afstöðu sinni telji það fyrri afstöðu ranga. 

—————

Aðilar hafa fært fram frekari rök í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér óformlega aðstæður á vettvangi hinn 20. febrúar 2009. 

Niðurstaða:  Lóð Veðurstofu Íslands, er hin umdeilda bygging stendur á, er á ódeiliskipulögðu svæði, en hún er skilgreind sem stofnanalóð í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur.  Um er að ræða mótaða byggð nærri miðju þéttbýli höfuðborgarsvæðisins en engar byggingar standa á milli fasteigna kærenda og umdeilds skúrs.

Reykjavíkurborg hefur krafist þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar eð kærendur hafi ekki neina lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð nefndarinnar í málinu. Við vettvangsskoðun kom í ljós að hin umdeilda bygging blasir við úr stofugluggum og frá suðurverönd fasteigna kærenda. Verður samkvæmt því að telja að kærendur hafi tvímælalaust lögvarða hagsmuni af úrlausn máls þessa þótt ekki verði hér tekin afstaða til þess hversu ríkir þeir hagsmunir eru. Verður því að hafna kröfu um frávísun málsins frá nefndinni.

Samkvæmt meginreglu, sem fram kemur í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, skal gera deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Sú undantekning er gerð í 3. mgr. ákvæðisins, þegar um er að ræða þegar byggð hverfi, að sveitarstjórn getur veitt heimild til framkvæmda þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir, en þá að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Í því ákvæði kemur fram að grenndarkynning sé í því fólgin að nágrönnum, sem hagsmuna eiga að gæta, sé kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig innan ákveðins frests.  Hið kærða byggingarleyfi var veitt án þess að grenndarkynning hefði átt sér stað.  Hafa borgaryfirvöld skýrt þær málalyktir með því að grenndaráhrif byggingarinnar væru hverfandi. 

Telja verður eins og hér háttar að umrætt smáhýsi hafi grenndaráhrif.  Samkvæmt fyrirmælum 3. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, bar því að grenndarkynna umrædda framkvæmd fyrir kærendum og öðrum hugsanlegum hagsmunaaðilum áður en hið kærða byggingarleyfi var veitt.  Sá annmarki að þess var ekki gætt leiðir til ógildingar byggingarleyfisins enda ekki útilokað að hugsanlegar athugasemdir nágranna hefðu getað haft áhrif á efni hinnar kærðu ákvörðunar. 

Að þeirri niðurstöðu fenginni þykir ekki ástæða til að fjalla um varakröfu kærenda í máli þessu. 

Úrskurðarorð:

Byggingarleyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóðinni að Bústaðavegi 9 í Reykjavík, er byggingarfulltrúi veitti hinn 6. maí 2008 og staðfest var í borgarráði hinn 15. maí sama ár, er fellt úr gildi.

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________                  ____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

164/2007 Unnarbraut

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 28. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon, héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 164/2007, kæra á samþykktum skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 13. september og 8. nóvember 2007 um að veita leyfi til að rífa hús og reisa þess í stað nýtt einbýlishús á lóðinni nr. 19 við Unnarbraut á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. desember 2007, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir Bragi Björnsson hdl., f.h. eigenda íbúðar á neðri hæð fjölbýlishússins að Unnarbraut 17, Seltjarnarnesi, þá samþykkt skipulags- og mannvirkjanefndar frá 8. nóvember 2007 að heimila byggingu einbýlishúss á lóð nr. 19 við Unnarbraut.  Bæjarstjórn Seltjarnarness staðfesti ofangreinda afgreiðslu á fundi sínum 14. nóvember s.á.  Jafnframt verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að einnig sé kærð ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 13. september 2007 um að heimila niðurrif húss þess sem fyrir er á lóðinni.

Gerð er krafa um að felldar verði úr gildi samþykktir skipulags- og mannvirkjanefndar.  Jafnframt er þess krafist að fyrirhugaðar og/eða yfirstandandi framkvæmdir á lóðinni verði stöðvaðar.

Ekki hefur komi til þess að framkvæmdir hæfust og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Er kærumálið nú tekið til efnisúrskurðar. 

Málavextir:  Á lóðinni að Unnarbraut 17 er fjölbýlishús, tvær íbúðir á jarðhæð og ein á efri hæð, allar með sérinngangi.  Kærendur búa á jarðhæð í suðurhluta hússins og snúa stofugluggar íbúðar þeirra að lóðinni nr. 19 við Unnarbraut.  Er hluti íbúðar kærenda í viðbyggingu sem nær suður fyrir upprunalegan útvegg hússins.  Á lóðinni nr. 19 við Unnarbraut er tveggja hæða íbúðarhús 320,2 m² að stærð og er nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,33. 

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 7. júní 2007 var tekið fyrir erindi um niðurrif hússins á lóðinni nr. 19 við Unnarbraut og tillaga að skipulagi fyrir nýtt hús á sömu lóð.  Tók nefndin jákvætt í erindið og óskaði eftir frekari uppdráttum.

Hinn 28. júní 2007 var erindið tekið fyrir að nýju hjá skipulags- og mannvirkjanefnd og samþykkt að senda málið í grenndarkynningu.  Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 18. júlí 2007, til húseigenda að Unnarbraut 1, 2, 3, 4, 17, 30 og 32 segir m.a. að sótt sé um leyfi til að byggja nýtt einbýlishús á lóðinni ásamt bílskúr.  Eins og fram komi á meðfylgjandi tillögu að skipulagi lóðarinnar sé sótt um leyfi til að reisa á lóðinni tveggja hæða einbýlishús með inndreginni efri hæð.  Heildarflatarmál fyrirhugaðs húss verði 466 m² og nýtingarhlutfall 0,48, en heimiluð stærð núverandi húss væri 399,3 m² og nýtingarhlutfall 0,41.  Frestur til að gera athugasemdir við fyrrgreinda umsókn var veittur til 15. ágúst 2007.  Komu kærendur á framfæri athugasemdum með bréfi, dags. 12. júlí 2007. 

Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 16. ágúst 2007 og niðurrif hússins heimilað.  Jafnframt var skipulag lóðarinnar samþykkt enda yrði fyrirhugaður bílskúr lækkaður á grundvelli framkominna athugasemda.  Var byggingarfulltrúa falið að svara þeim athugasemdum er borist höfðu.  

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 13. september 2007 var samþykkt að nýju niðurrif hússins að Unnarbraut 19 og óskað eftir endanlegum teikningum vegna byggingarleyfis.  Jafnframt voru tillögur að svörum við athugasemdum lagðar fram, þær yfirfarnar og samþykktar.  Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkti fundargerð skipulags- og mannvirkjanefndar á fundi sínum 26. september s.á.

Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkti á fundi sínum hinn 8. nóvember 2007 umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni nr. 19 við Unnarbraut og á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness hinn 14. nóvember s.á.  var sú samþykkt nefndarinnar staðfest.

Hafa kærendur kært ofangreindar samþykktir skipulags- og mannvirkjanefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að þeir njóti óskerts sjávarútsýnis úr stofugluggum íbúðar sinnar og viðbyggingu.  Kærendur reki dagvistun fyrir börn í húsnæði sínu og því séu not þeirra af garði sunnan og vestan megin við húsið mikil. 

Áhrif nýbyggingar fyrir kærendur séu veruleg en hún sé hærri, lengri, breiðari og færist nær húsi kærenda en hús það sem nú standi á lóðinni nr. 19 við Unnarbraut. 

Útsýni til hafs hverfi næstum því að fullu og verði einungis að steyptum vegg.  Aukið og verulegt skuggavarp verði sem nái bæði til íbúðarinnar og þá sérstaklega til garðsins, en hann verði að stórum hluta lítt nothæfur bróðurpart dags yfir sumarmánuðina.  Aðkoma að íbúð kærenda þrengist verulega og slysahætta aukist þar sem innkeyrsla að bílskúrnum muni liggja allt að 1,5 m neðar en lóð kærenda.  Verðgildi eignar kærenda muni rýrna allt að 50% og skuggavarp í suðurgarði muni hafa veruleg áhrif á rekstur á vegum annars kærenda sem dagmóður þar sem not af garði verði nær engin.

Umrætt byggingarleyfi sé ekki í samræmi við aðalskipulag sem geri ráð fyrir því að auka fjölbreytni íbúðarhúsnæðis og þétta byggð við endurbætur og nýbyggingar, en verið sé að rífa tvíbýlishús og byggja einbýlishús í staðinn sem engin vöntun hafi verið á í sveitarfélaginu.

Á umræddu svæði sé ekki í gildi deiliskipulag.  Samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga, sem og 9. og 43. gr. sömu laga, verði byggingarleyfi að eiga sér stoð í deiliskipulagi.  Frá þeirri meginreglu sé að finna undantekningu í 3. mgr. 23. gr. tilgreindra laga um heimild sveitarstjórnar til að veita leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu.  Við afmörkun undantekningarreglunnar gagnvart meginreglunni hafi verið talið að skýra bæri ákvæðið til samræmis við 1. og 2. mgr. 26. gr. sömu laga, þar sem segi að fara skuli með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt skipulag sé að ræða nema breytingar séu óverulegar.

Hér sé um verulegar breytingar að ræða þar sem áformað sé að rífa tvíbýlishús og byggja einbýlishús í staðinn.  Auk þess sé nýbyggingin umtalsvert stærri en núverandi bygging og sé nýtingarhlutfall lóðarinnar aukið verulega.  Þá verði að líta til þess hversu umfangsmikil nýbygging sé í hlutfalli við þær byggingar sem fyrir séu á umræddri lóð eða svæði.  Stækkun nýbyggingar nemi rúmlega 45,5% af heildarflatarmáli sem verði að telja verulega stækkun.  Undanþáguheimild 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga geti því ekki átt við í þessu tilviki.

Þegar meta skuli hvort bygging teljist einungis hafa í för með sér óverulegar breytingar verði jafnframt að líta til þess hver grenndaráhrif hennar séu á nærliggjandi eignir.  Grenndaráhrif fyrirhugaðrar nýbyggingar séu veruleg og valdi því að lífsgæði kærenda, bæði hvað varði útsýni og dagsbirtu í íbúð þeirra og garði, séu skert svo freklega að það eitt ætti að hindra að undanþáguheimild 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi verið beitt.

Þá sé það mat kærenda að meðferð skipulags- og byggingaryfirvalda hafi brotið í bága við stjórnsýslulög nr. 37/1993, aðallega 10. gr. laganna, rannsóknarregluna.  Aðeins sumum athugasemdum kærenda hafi verið svarað og þá hafi svör byggst á ófullnægjandi gögnum.  Ekki hafi farið fram nein sjálfstæð rannsókn af hálfu byggingaryfirvalda og nefna kærendur nokkur dæmi máli sínu til stuðnings.

Alvarlegasti ágalli á svari byggingafulltrúa sé þó sá að ekki hafi einu orði verið vikið að þeirri athugasemd kærenda að fyrirhuguð nýbygging rýri verðgildi fasteignar þeirra og hafi veruleg áhrif á atvinnurekstur kærenda, sem þó sé meginatriðið í athugasemdum þeirra og það sem málið snúist í raun um.  Þá verði ekki ráðið af gögnum málsins að nein athugun hafi verið gerð af hálfu byggingaryfirvalda á meintum grenndaráhrifum byggingarinnar.  Hafi þó borið nauðsyn til þess að gera slíka athugun, m.a. til þess að unnt væri að meta hvort nýbyggingin hefði einungis í för með sér óverulegar breytingar.

Loks byggi kærendur kröfu sína á úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 74/2006 og telja að með hliðsjón af þeim úrskurði skuli fallast á kröfur þeirra.

Málsrök Seltjarnarnessbæjar:  Seltjarnarnesbær krefst þess að hafnað verði kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda á lóðinni og að hinar kærðu ákvarðanir verði staðfestar.

Andmælt sé fullyrðingum kærenda um hversu miklu breiðara, lengra, hærra og nær hús það sem hin kærða ákvörðun taki til verði umfram það sem núverandi hús sé. 

Telji sveitarfélagið að grenndaráhrif hinnar nýju byggingar séu ekki veruleg umfram áhrif núverandi húss.  Þá séu áhrifin ekki meiri en íbúar í þéttbýli þurfi almennt að þola og gera ráð fyrir m.t.t. aðstæðna og byggðamynsturs.

Mótmælt sé fullyrðingu kærenda um að útsýni til hafs hverfi næstum að fullu með nýbyggingunni, en aðeins tapist útsýni á um 2,3 m löngum kafla þar sem standandi fólk geti auðveldlega horft yfir bílskúrinn.  Ef fallist yrði á að útsýnisskerðing ætti að leiða til þess að framkvæmdir yrðu ekki leyfðar á lóðinni að Unnarbraut 19 væri verið að staðfesta að með leyfi til viðbyggingarinnar hefðu kærendur unnið rétt til útsýnis á kostnað annarra lóðarhafa.  Slíkt sé auðvitað andstætt almennri skynsemi, sjónarmiðum um jafnræði og sanngjarnar væntingar.

Skuggavarpsáhrif hins nýja húss séu óveruleg og geti ekki haft neikvæð áhrif á starfsemi kærenda né notkun lóðarinnar sem útivistarsvæðis, enda sé skuggavarpið ekki meira en íbúar í þéttbýli verði almennt að þola og búa við.  Þá verði hvorki talið að nýbygging hafi áhrif á aðkomu húss kærenda né að slysahætta muni aukast vegna hæðarmismunar á lóðunum.  Mjög ósennilegt sé að breytingin muni leiða til nokkurrar verðrýrnunar á húsi kærenda.  Fullyrðingu kærenda um 50% verðlækkun sé mótmælt sem ósannaðri og órökstuddri.

Ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir reitinn og hús á reitnum séu bæði sambýlis- og einbýlishús.  Það sé því í samræmi við núverandi byggð og húsagerðir að leyfa einbýlishús á lóðinni.  Slík breyting sé auk þess jákvæð í grenndarréttarlegu tilliti er varði umferð, bílastæði o.fl.

Fullyrðing kærenda um að breytingin stangist á við aðalskipulag sé röng.  Stefnumið um að auka fjölbreytni í íbúðargerðum í sveitarfélaginu eigi einkum við um skipulag nýrra svæða og þýði ekki að bannað sé að breyta t.d. tvíbýlishúsum í einbýli eða öfugt.

Við skýringu á því hvort heimilt sé að grenndarkynna og veita byggingarleyfi í þegar byggðu en ódeiliskipulögðu hverfi hafi í réttarframkvæmd einkum verið litið til þess hvort byggingarleyfi samræmdist byggðamynstri viðkomandi hverfis og hvort heimilt hefði verið að grenndarkynna breytinguna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi ef deiliskipulag hefði verið til staðar, sbr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Seltjarnarnesbær telji ótvírætt að heimilt hefði verið að grenndarkynna umsóknina sem óverulega breytingu á deiliskipulagi.  Breytingin lúti aðeins að einni lóð, umrædd nýbygging sé hvorki hærri, stærri né umfangsmeiri en almennt gerist með hús á götureitnum eða í nágrenni hans og samræmist byggðamynstri.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé t.d. sambærilegt meirihluta lóða á reitnum og lægra en nýtingarhlutfall fjögurra lóða, þ.m.t. lóðar kærenda sem sé 0,5.  Þá sé breytingin óveruleg miðað við núverandi hús sem standi á lóðinni.  Húsið sé lítið hærra en núverandi hús og í lægri kóta en hús kærenda.  Þá sé húsið lítið breiðara en núverandi hús og svipað að breidd og hús kærenda.  Þó húsið sé rúmum tveimur metrum lengra en núverandi hús sé það samt styttra en hús kærenda auk þess sem önnur hús á reitnum nái lengra inn í lóðir en hið nýja hús.

Einnig séu grenndaráhrif breytingarinnar óveruleg.  Breyting á skuggavarpi og skerðing á útsýni frá húsi kærenda sé lítil og ekki meiri en íbúar í þéttbýli þurfi almennt að þola. Kærendur hafi mátt gera ráð fyrir breytingu sem hefði sambærileg áhrif hvað varði útsýni þeirra þar sem þeir hafi sjálfir fengið leyfi til að auka byggingarmagn á lóð sinni og byggja viðbyggingu lengra inn í lóðina.  Þá sé bygging bílskúrs í samræmi við almennt fyrirkomulag í hverfinu, þ.m.t. á lóð kærenda.  Auk framangreinds hafi fækkun íbúða í húsinu jákvæð grenndaráhrif m.t.t. umferðar og bílastæða.  Neikvæð grenndaráhrif breytingarinnar séu því óveruleg.

Þá telji Seltjarnarnesbær að málsmeðferð hafi verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og ákvæði stjórnsýslulaga.  Mótmælum kærenda, sem sett hafi verið fram í fimm liðum, hafi öllum verið svarað í umsögn bæjarins.  Bílskúr hafi verið lækkaður um rúmlega 0,5 m til að draga að mestu leyti úr skerðingu á útsýni kærenda.  Jafnframt hafi það verið metið svo, út frá skoðun á grenndaráhrifum nýs húss, að ólíklegt væri að breytingin myndi valda slíku tjóni sem kærendur hafi haldið fram um meinta hugsanlega lækkun á verði fasteignar.

Því sé mótmælt að Seltjarnarnesbær hafi ekki rannsakað málið sjálfstætt en sérfræðingar sveitarfélagsins hafi skoðað málið ítarlega, þ.m.t. fyrirliggjandi gögn, einkum m.t.t. grenndaráhrifa byggingarinnar.  Hafi það m.a. verið á grundvelli þeirrar skoðunar að bæjaryfirvöld hafi gert kröfu um lækkun bílskúrs.

Seltjarnarnesbær telji að tilvitnaður úrskurður í máli nr. 74/2006 hafi ekki beint fordæmisgildi en í máli því sem hér sé til skoðunar hafi grenndaráhrif nýbyggingar verið könnuð og málin því ekki sambærileg að þessu leyti.  Þá verði talið að umsókn um byggingarleyfi sé í samræmi við stefnuyfirlýsingu úr greinargerð Aðalskipulags Seltjarnarness 2006-2024, sem vísað hafi verið til í fyrrgreindum úrskurði, og fjalli um núverandi íbúðarbyggð og þéttingu byggðar.  Aldrei hafi verið meiningin að sú almenna stefnuyfirlýsing útilokaði að veitt yrðu einstaka leyfi á grundvelli grenndarkynningar í samræmi við byggðamynstur.  Sé því harðlega mótmælt að svo þröngur skilningur verði lagður í áðurgreinda yfirlýsingu og fullyrt að tilgangur hennar hafi ekki verið að útiloka alla möguleika á beitingu 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Loks sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 10/1998 og álits umboðsmanns Alþingis vegna sama máls nr. 2556/1998, og þeirra sjónarmiða sem þar komi fram.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafar krefjast þess að kröfum kærenda verði hafnað.

Bent sé á að bílskúr hafi ekki einungis verið lækkaður um rúma 50 cm, heldur hafi tengibygging milli bílskúrs og einbýlishúss verið lækkuð til samræmis við lækkun bílskúrs og því hafi byggingarleyfishafar í raun gengið lengra en fyrir þá hafi verið lagt til að koma til móts við athugasemdir.

Því sé mótmælt að kærendur njóti óskerts sjávarútsýnis frá íbúð sinni og telji byggingarleyfishafar að ekki sé gerð nægjanleg grein fyrir afstöðu húsa við Unnarbraut 1 og Unnarbraut 19 í kæru.  Hið rétta sé að úr íbúð kærenda liggi sjónlína til sjávar eftir u.þ.b 45 gráðu sjónarhorni úr stofu kærenda, þ.e. beint fyrir framan stofuglugga kærenda standi núverandi hús að Unnarbraut 19 og skerði fullkomlega allt útsýni úr íbúð kærenda til sjávar.  Viðbygging við íbúð kærenda sé niðurgrafin að hluta miðað við annan gólfflöt íbúðar þeirra, svo nemi u.þ.b. 30 cm.  Þar sé svefnherbergi sem ekki sé með glugga til sjávar og sjónvarpsstofa.

Byggingarleyfishafar mótmæli fullyrðingum kærenda um breidd, lengd, hæð og fjarlægð hins nýja húss frá lóðarmörkum kærenda.  Þá sé bent á að mesta breidd suðurhliðar efri hæðar hússins verði 6,9 m, þ.e. 3,5 m minni en sama hlið núverandi húss.  Sá hluti íbúðarhússins sem sé á tveimur hæðum nái 2,3 m lengra til suðurs en núverandi hús.  Veggir tengibyggingar og bílskúrs séu verulega miklu lægri en íbúðarhúsið og hafi því allt önnur áhrif, en taka verði tillit til þess að fyrir sé hús á lóðinni að Unnarbraut 19.

Minnsta fjarlægð frá glugga íbúðar kærenda að fyrirhuguðum bílskúr sé 3,15 m, en ekki 2,8 m svo sem fullyrt sé í kæru.  Hvergi sé bil milli hússins að Unnarbraut 17 og fyrirhugaðrar nýbyggingar að Unnarbraut 19 undir því lágmarki sem byggingarreglugerð kveði á um.  Skuggavarp mun í engu verulegu aukast við framkvæmdina og sé því hafnað að skuggavarpsmyndir séu villandi.

Vísað sé til teikninga er sýni að frá upphafi hafi verið gert ráð fyrir svipuðum húsum á lóðunum að Unnarbraut 17 og 19 þó svo að síðar hafi verið byggt minna hús á lóð nr. 19. Óumdeilanlegt sé því að skipulag lóðarinnar að Unnarbraut 19 hafi ávallt verið miðað við þá stærð sem byggingarleyfishafar hafi miðað við og kærendur hafi mátt ganga út frá.  Sömuleiðis hljóti bæjaryfirvöld að vera í góðri trú þegar samþykkt sé leyfi til þess að byggja allan reitinn sem verið hafi á skipulagi í a.m.k. 34 ár.

Fullyrðingar kærenda um 50% verðfall eignar þeirra séu órökstuddar og ósannar.  Sjónlína að sjó sé þegar skert og muni ekki skerðast svo nokkru nemi við framkvæmdirnar.  Vísi byggingarleyfishafar einnig til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir þeirra muni bæta ásýnd lóðar og bygginga á Unnarbraut 19, sem lengi hafi verið vanrækt.

Byggingarleyfishafar hafni því að byggingarleyfið standist ekki aðalskipulag Seltjarnarness, þar sem sótt sé um byggingarleyfi fyrir einbýli en ekki fjölbýli.  Því sé og hafnað að í umræddri samþykkt fyrir nýbyggingu felist veruleg breyting á því skipulagi sem fyrir sé á mannvirkjum við Unnarbraut 19.  Í þegar byggðum hverfum í þéttbýli sé sérstaklega gert ráð fyrir þeirri málsmeðferð sem beitt hafi verið þegar leyfi fyrir niðurrifi og byggingu hafi verið veitt.

Staðsetning bílskúrs í horni lóðar sé í samræmi við byggðamynstur.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar að Unnarbraut 19 verði 0,48 og séu 11 af 26 nálægum lóðum með sömu eða hærri nýtingu.  Sé því hafnað að nýtingarhlutfallið eitt og sér geti leitt til þess að breytingin verði talin veruleg, enda sé hún nær því að vera venjuleg.

Hvað málsmeðferð byggingaryfirvalda varði þá hafi skyldubundið mat sveitarfélagsins verið að fullu virt, hefðbundin rannsókn málsins hafi verið framkvæmd og að lokum hafi verið samþykkt að veita umsókninni brautargengi.

Þá telji byggingarleyfishafar að málavextir í máli nr. 74/2006 séu ekki fyllilega sambærilegir við mál þetta.  Athugasemdum kærenda hafi verið ítarlega svarað.  Áhrif stækkunar í máli því sem hér sé til skoðunar séu mun minni og hafi ekki sambærileg áhrif fyrir kærendur eins og talið hafi verið sannað í fyrra máli.

Byggingarleyfishafar séu handhafar ákveðinna réttinda sem njóti ríkrar lögverndar og verði verulegir, rökstuddir og sannanlegir hagsmunir annarra að koma til svo rétturinn verði skertur.  Óheimilt sé á grundvelli jafnræðisreglu að láta byggingarleyfishafa sæta annarri túlkun, t.d. á stærð húsnæðis og nýtingarhlutfalli, en tíðkuð hafi verið í framkvæmd.  Einnig sé vísað til réttmætra væntinga byggingarleyfishafa til þess að stjórnsýsluframkvæmd sé sú sama í máli þeirra og verið hafi.

Loks vísi byggingarleyfishafar til sjónarmiða um stjórnsýsluframkvæmd sem þeir telji að eigi að leiða til þess hin kærða ákvörðun verði látin standa óhögguð.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari röksemdir sem ekki verða reifaðar nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 6. febrúar 2007 að viðstöddum byggingarfulltrúa, kærendum og lögmanni þeirra og arkitektum og lögmanni byggingarleyfishafa.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 8. nóvember 2007, sem staðfest var á fundi bæjarstjórnar hinn 14. nóvember s.á., um að veita leyfi til að reisa einbýlishús og bílskúr á lóðinni nr. 19 við Unnarbraut.  Jafnframt tekur kæran til ákvörðunar skipulags- og mannvirkjanefndar frá 13. september 2007 um að heimila niðurrif húss þess sem fyrir er á lóðinni.
 
Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag og kusu bæjaryfirvöld að grenndarkynna erindi lóðarhafa Unnarbrautar 19.  Verður að ætla að slíkt hafi verið gert á grundvelli undanþáguheimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga með síðari breytingum, sem og 9. og 43. gr. sömu laga, verður byggingarleyfi að eiga sér stoð í deiliskipulagi.  Frá þeirri meginreglu er að finna undantekningu í 3. mgr. 23. gr. laganna, um heimild sveitarstjórnar til að veita leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu.  Við afmörkun undantekningarreglunnar gagnvart meginreglunni hefur verið talið að skýra beri ákvæðið til samræmis við 1. og 2. mgr. 26. gr. sömu laga þar sem segir að fara skuli með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt skipulag sé að ræða nema breytingar séu óverulegar.

Þegar meta skal hvort bygging teljist einungis hafa í för með sér óverulegar breytingar verður m.a. að líta til þess hversu umfangsmikil hún sé í hlutfalli við þær byggingar sem fyrir eru á umræddri lóð eða svæði og hver grenndaráhrif hennar séu á nærliggjandi eignir.

Í hinu umdeilda tilviki er um að ræða nýbyggingu í stað eldra húss og eykst heildargólfflatarmál á lóðinni um 45,6% við tilkomu hennar.  Sú hlið nýbyggingarinnar sem snýr að eign kærenda færist nær lóðarmörkum sem nemur 0,7 – 1,5 m og lengist til suðurs um 2,3 m, en þar fyrir sunnan eiga að rísa lágreist tengibygging og bílskúr.  Nýtingarhlutfall lóðar hækkar úr 0,33 í 0,48 en ekki þykir rétt að miða við að nýtingarhlutfall hafi verið 0,41 þar sem sú viðmiðun styðst einungis við byggingarleyfi sem nú er fallið úr gildi, sbr. 5. mgr. 44. gr. laga nr. 73/1997.

Úrskurðarnefndin telur að ekki verði fallist á að bygging þess húss, sem áformað er að reisa að Unnarbraut 19, feli einungis í sér óverulega breytingu.  Þvert á móti telur nefndin að um verulega breytingu sé að tefla og að hún hafi umtalsverð grenndaráhrif á eign kærenda, bæði hvað varðar rými, útsýni og skuggavarp.  Voru því ekki skilyrði til þess að fara með erindi kærenda eftir undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997.  Hefði það jafnframt verið í betra samræmi við stefnu núgildandi aðalskipulags Seltjarnarness um þéttingu byggðar í eldri hverfum að unnið hefði verið deiliskipulag fyrir umræddan götureit áður en afstaða var tekin til erindis lóðarhafa Unnarbrautar 19.

Ekki verður fallist á að líta beri til upphaflegra byggingarreita eða byggingaráforma á umræddu svæði við úrlausn máls þessa enda hafa þau áform ekki verið sett fram í bindandi ákvörðun um deiliskipulag fyrir svæðið.  Verður ekki heldur fallist á að líta beri til þeirrar stjórnsýsluframkvæmdar sem lögð hefur verið til grundvallar við ákvarðanir um byggingar á svæðinu enda mun uppbygging þess hafa að mestu leyti átt sér stað fyrir gildistöku laga nr. 73/1997 þegar aðrar og vægari kröfur voru gerðar í ýmsum efnum um gerð og framsetningu skipulags.  Hafa sjónarmið er að þessu lúta því ekki áhrif á niðurstöðu málsins.

Eins og að framan er rakið fóru byggingarleyfishafar þess á leit með bréfi, dags. 30. maí 2007, að veitt yrði heimild til að rífa húsið að Unnarbraut 19 og að heimiluð yrði breyting á skipulagi lóðarinnar.  Erindi þetta var grenndarkynnt án þess að séð verði að þá hafi verið komin fram formleg umsókn um byggingarleyfi svo sem áskilið er í 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997, en í engu var getið um lagagrundvöll kynningarinnar í bréfi því sem nágrönnum var sent.  Var málsmeðferð að þessu leyti áfátt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið skilyrði til þess að veita umdeilt byggingarleyfi með stoð í undantekningarreglu 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og að meðferð málsins hafi að auki verið haldin verulegum ágöllum og beri af þessum ástæðum að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi.  Hefur tilvísun í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 10/1998 og álit umboðsmanns Alþingis nr. 2556/1998 engin áhrif á þessa niðurstöðu, enda gjörólík mál bæði hvað varðar byggðarmynstur, landnotkun og nýtingarhlutfall á umræddum svæðum.

Ekki verður séð að ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 13. september 2007 um leyfi til niðurrifs núverandi húss að Unnarbraut 19 raski til muna lögvörðum hagmunum kærenda og verður að telja að sú ákvörðun hafi verið undirbúin með fullnægjandi hætti.  Verður henni því ekki hnekkt.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 13. september 2007, sem staðfest var í bæjarstjórn 26. september 2007, um leyfi til niðurrifs núverandi húss að Unnarbraut 19 skal standa óröskuð.

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 8. nóvember 2007, sem staðfest var á fundi bæjarstjórnar hinn 14. nóvember 2007, um að veita leyfi til að byggja einbýlishús á lóðinni nr. 19 við Unnarbraut.

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________            ____________________________
     Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson 

 

 

 

37/2004 Skildinganess

Með

Ár 2006, þriðjudaginn 14. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2004 kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 18. febrúar 2004 um breytt deiliskipulag Skildinganess.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. janúar 2004, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar kæra G og E Baugatanga 2, Reykjavík, samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. október 2001 um að breyta deiliskipulagi Skildinganess fyrir lóðina nr. 4 við Baugatanga.  Var sú ákvörðun staðfest í borgarráði hinn 13. desember 2003.   

Hinn 25. júní 2004 barst úrskurðarnefndinni kæra H Bauganesi 16, Reykjavík, dags. 24. sama mánaðar, þar sem kærð er samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2004 um breytingu á deiliskipulagi Skildinganess.  Var sú samþykkt staðfest í borgarráði hinn 24. febrúar 2004.  Með þeirri samþykkt voru deiliskipulagsskilmálar vegna lóðarinnar að Baugatanga 4 felldir inn í síðarnefndu samþykktina.  Af þessum sökum ákvað úrskurðarnefndin að sameina kærumálin í eitt mál og var eldra kærumálið fellt inn í það mál er síðar barst, enda var hin kærða ákvörðun í fyrra málinu orðin hluti af sakarefni síðara málsins.

Skilja verður kærur kærenda svo að gerð sé krafa um að umdeild deiliskipulagsbreyting Skildinganess verði felld úr gildi.  Þá gerir annar kærenda þá kröfu að sömu skilmálar gildi fyrir öll hús við Bauganes, sunnan Baugatanga, einkum húsið nr. 24, og gildi fyrir húsið nr. 22, þ.e. að á lóðunum megi byggja hús á einni hæð en á helmingi grunnflatar megi byggja tvær hæðir innan hámarkshæðarinnar 4,4 m ásamt því að óheimilt verði að byggja stigahús 1,3 m yfir hámarkshæð þaks nema að hámarki 2 m².     

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 31. ágúst 2001 var lögð fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 4 við Baugatanga.  Var tillagan grenndarkynnt í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fram komu athugasemdir og mótmæli við deiliskipulagstillöguna sem lutu að því að fyrirhugað hús yrði of hátt, stöllun þess félli ekki að landhalla lóðarinnar og með byggingu þess væri heildaryfirbragði götunnar raskað, auk þess sem skuggavarp ykist á nágrannalóðir.  Í umsögn borgarskipulags frá 23. október 2001 um framkomnar athugasemdir var tekið undir að fyrirhugað hús væri of hátt og stöllun þess félli ekki vel að umhverfinu.  Var lagt til að húsið yrði lækkað og stöllun þess yrði hagað með svipuðum hætti og á lóðinni nr. 6 við Baugatanga.

Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur tók deiliskipulagsbreytinguna fyrir á fundi sínum hinn 24. október 2001 og samþykkti hana á grundvelli 4. gr. þágildandi samþykktar fyrir skipulags- og byggingarnefnd, þar sem nefndinni var falið lokaákvörðunarvald um minni háttar deiliskipulagsbreytingar.  Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði hinn 18. desember 2003 vísaði kærunni frá nefndinni þar sem hin kærða ákvörðun fól ekki í sér fullnaðarákvörðun á sveitarstjórnarstigi.  Borgarráð staðfesti deiliskipulagsbreytinguna hinn 9. desember 2003 og var gildistakan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. mars 2004. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 21. maí 2003 var lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi fyrir Skildinganes, nánar tiltekið fyrir svæði sem markast af Einarsnesi, Skildinganesi, Skeljanesi og útivistarsvæði meðfram strandlengjunni í suðri og var samþykkt að auglýsa tillöguna.  Á þessu svæði er lóðin að Baugatanga 4.    Hinn 19. september 2003 var málið tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa að lokinni auglýsingu sem stóð frá 13. júní 2003 til 25. júlí sama ár en fjölmargar athugasemdir bárust skipulagsyfirvöldum.  Á fundinum var samþykkt að fela hverfisstjóra að vinna umsögn.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 18. febrúar 2004 var málið tekið fyrir á ný og auglýst tillaga samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Auglýst tillaga samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 16. febrúar 2004, auk þess sem nýtingarhlutfall sjávarlóða sem var 0,5 er hækkað í 0,55.  Vísað til borgarráðs.“  Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í borgarráði hinn 24. febrúar 2004 og send Skipulagsstofnun til meðferðar.  Tilkynnti stofnunin í bréfi, dags. 8. júlí 2004, að hún gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar og var auglýsingin birt hinn 13. júlí 2004.

Með hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun var deiliskipulag Skildinganess frá árinu 1959 fellt úr gildi.  Í almennum skilmálum hins kærða deiliskipulags segir m.a. eftirfarandi um stærðir húsa:  „Á lóðum við Gnitanes er gert ráð fyrir einlyftum húsum.  Raðhús við Einarsnes eru tvílyft, og verður heimilt að byggja ofan á tengibyggingar.  Á nýrri lóð að Skildinganesi 4A er heimilt að byggja tveggja hæða hús með einlyftri áfastri bílgeymslu, suðvestan  hússins.  Við Fáfnisnes 6 og 6A er heimilt að byggja tveggja hæða hús.  Við Bauganes 22 og Skildingatanga 1 er heimilt að byggja tvílyft á helmingi grunnflatar húss innan byggingarreits, þó ekki hærra en 4,4 m yfir kóta í N-A horni lóðar.  Að Baugatanga 4 gilda sérskilmálar samþykktir í borgarráði 9. desember 2003, sjá nánar í fylgiriti með deiliskipulagsuppdrætti.  Að Skildinganesi 20 má byggja einlyft hús, en á þeim hluta upphaflegs byggingarreits sem er fjær götu má það vera tvílyft, sjá kóta á uppdrætti.  Um önnur hús gildir að þau skuli vera einlyft, en á helmingi grunnflatar þeirra fjær götu mega þau þó vera tvílyft. Það gildir þó ekki á lóðum við Gnitanes.“  Í deiliskipulaginu segir einnig eftirfarandi um hæðir húsa:  „Mesta hæð einlyftra húsa er að hámarki 4,4 m yfir götukóta.  Hámarkshæð tveggja hæða húsa er 6,8 m yfir götukóta.  Hæð þeirra húsa sem heimilt er að byggja tvílyft á helmingi grunnflatar, má vera allt að 4,4 m yfir götukóta þar sem það er einlyft, en 5,7 m þar sem það er tvílyft (undantekning eru óbyggðar lóðir að Bauganesi 22 og Skildingatanga 1, en hámarkshæð húsanna er 4,4 m, þar sem miðað er við kóta á N-A horni lóða).  Almennt gildir um hús sem mega vera að hámarki 4,4 m að hæð, að stigahús, skorsteinar, loftræsibúnaður o.þ.h. sem staðsett er þannig að ekki valdi óþarfa skuggamyndun, megi vera 1,3 m yfir þakfleti, enda sé heildarflatarmál þessara byggingarhluta undir 10m².  Á lóðunum Bauganesi 22 og Skildingatanga 1, sem eru óbyggðar lóðir, er heimilt að byggja á tveimur hæðum á helmingi grunnflatar hússins innan byggingarreits, en þó ekki hærra en 4,4 m yfir kóta í N-A horni lóðar.  Heimilt er að stigahús, skorsteinar, loftræsibúnaður o.þ.h. sem staðsett er þannig að ekki valdi óþarfa skuggamyndun, sé 5,7 m yfir kóta í N-A horni lóðar, enda heildarflatarmál þessara byggingarhluta ekki yfir 10 m².  Að Baugatanga 4 er heimilt að byggja innan sérskilmála sem samþykktir voru í borgarráði 9. des 2003.  Stefna mænis skal vera hornrétt á götu og stöllun húss er á eystri hluta þess.  Mesta hæð langveggja er 4,23 m yfir hæsta kóta lóðar og mesta hæð þaks ekki meiri en 5,80 m yfir hæsta kóta lóðar sem liggur að götu (sjá nánar sérskilmála í fylgiriti með deiliskipulagsuppdrætti).  Við Skildinganes 4A er hámarkshæð húss 6,8 m og bílskúrs 3,3 m yfir götukóta.  Fyrir Skildinganes 20 gilda almennir skilmálar innan byggingarreits 13×20 m, en innan stækkaðs byggingarreits má byggja einlyft (sjá kóta á uppdrætti).  Að Fáfnisnesi 6 og 6A er heimilt að byggja tveggja hæða hús, allt að 6,8 m yfir götukóta.  Mesta hæð bílskúra við Gnitanes 1 er 3,3 m yfir götukóta.“

Hafa kærendur skotið framangreindum samþykktum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að ofan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kæranda, búsetts að Bauganesi 16, er vísað til þess að í deiliskipulagi Skildinganess sé gert ráð fyrir því að almennir skilmálar gildi fyrir allar óbyggðar lóðir á skipulagssvæðinu.  Sé þá m.a. reiknað með að hæð húss á helmingi grunnflatar, fjær götu, geti farið upp í hæðina 5,70 m.  Að auki sé leyft að byggja stigahús, allt að 10 m² að stærð 1,3 m yfir hámarkshæð húss.  Telji kærandi að hámarkshæð húsa á óbyggðum lóðum við Bauganes eigi að vera 4,4 m yfir götukóta.  Þetta sé nauðsynlegt til að húsin skeri sig ekki, hæðar sinnar vegna, úr götumynd við sunnanvert Bauganes, austan Baugatanga.  Einnig verði að gæta þess að sömu reglur gildi fyrir lóðir er standi hlið við hlið.  Sérstaklega sé bent á hæð fyrirhugaðs hússins að Bauganesi 24, sem sé óbyggð lóð. 

Vakin sé athygli á að þegar kærandi, búsettur að Bauganesi 16, hafi byggt sitt hús árið 2002 hafi hann þurft að hlíta því að það yrði að hámarki 4,4 m yfir götukóta. 

Svar skipulagsfulltrúa við athugasemdum hagsmunaaðila á svæðinu sé ófullnægjandi.  Byggi svarið á athugun sem starfsmenn skipulagsfulltrúa hafi gert með teikningu af götumynd af hluta Bauganess.  Fram komi að hæsti punktur 10 húsa af 15 sé 4,4 m yfir götukóta.  Þess vegna sé ekki hætta á að ný hús sem byggð séu samkvæmt almennum skilmálum skipulagsins muni skera sig úr götumynd Bauganess.  Þar komi einnig fram að þeir sem byggt hafi hús nýlega hafi þurft að halda hæð húsa sinna innan við 4,4 m vegna óskýrra skilmála í gildandi eldra skipulagi.  Því sé haldið fram að fyrrgreind athugun skipulagsfulltrúa sé ófullnægjandi sökum þess að hún taki aðeins á litlum hluta þeirra atriða sem máli skipti við faglega ákvarðanatöku um leyfilegar hámarksstærðir húsa og skilmála til þess að skapa heildræna götumynd eftir því sem kostur sé.  Þannig taki athugunin ekki tillit til þess hvenær húsin séu byggð og hvaða skipulagsskilmálar hafi verið í gildi á þeim tíma en allmörg húsanna hafi verið byggð áður en nokkurt skipulag hafi verið gert fyrir hverfið.  Athugunin nái aðeins til hámarkshæða húsa en ekki vegghæða og mænishæða.  Í engu sé kannað rúmmál húsa, massauppbygging eða þakhalli.  Þá sýni athugunin ekki möguleika óbyggðra húsa og því sé ófært að meta hvort húsin skeri sig úr götumynd eða ekki.  Ljóst sé af deiliskipulagi Skildinganess að í flestum tilfellum þar sem hæð húsa sé 4,4 m yfir götukóta sé um að ræða lítin hluta mænis.  Af samtölum við fasteignaeigendur á svæðinu virðist sem hús hafi verið byggð eins há og mögulegt hafi verið og þeir þar með látnir sæta takmörkunum á hæð húsanna.  Götumynd sem sýni húsin norðan Baugatanga séu þessu máli óviðkomandi, sem og hæð húsa næst Einarsnesi. 

Götumyndin frá Skildinganesi til Skildingatanga sé nokkuð heildstæð.  Hús þar séu nokkurn veginn sömu hæðar að frátöldu húsinu nr. 10, sem skeri sig úr, en það sé hornhús byggt fyrir tíma nokkurs deiliskipulags og henti því illa til viðmiðunar.  Skilmálar fyrir húsið nr. 24 séu óskiljanlegir og til þess fallnir að brjóta jafnræðisreglu og skipulags- og byggingarlög um samræmi milli húsa og umhverfis þeirra.  Jafnræðisregla sé brotin þar sem húsin sem standi beggja vegna við hafi þurft að sæta mun takmarkaðri skilmálum, sbr. hús kæranda að Bauganesi 16.  Svipaða sögu sé að segja um næstu húsaröð austan Skildinganess þó þar séu líka fáeinar undantekningar eða litlir þakhlutar sem fari upp fyrir 4,4 m.

Ljóst sé að verði byggt hús á lóðinni nr. 24 við Bauganes samkvæmt heimildum skipulagsins verði helmingur þess fjær götu með vegghæðina 5,7 m og flatt þak, sem sé brot á skipulags- og byggingarlögum og öðrum reglum þess efnis að byggð skuli falla sem best að umhverfi sínu. 

Húsin um mitt Bauganesið sunnanvert séu byggð á mismunandi tíma, þau séu ein hæð en stölluð fjær götu innan rammans 4,4 m.  Húsin séu því niðurgrafin að hluta þar sem þau stallist. 

Hæð húsanna við Bauganes verði að skoða í sögulegu samhengi og með hliðsjón af eldri skipulagsskilmálum frá árinu 1966.  Þar komi fram að á lóðunum skuli reisa einnar hæðar íbúðarhús.  Frávik séu þó frá þeirri reglu varðandi nokkur hús við Skildinganesveg og eitt hús við Baugsveg.  Flest húsanna í Skildinganesi séu byggð 15-20 árum eftir að þessir skilmálar hafi tekið gildi.  Byggðamynstur í hverfinu sé eins og skilmálarnir gefi til kynna, þ.e. stærri hús á sjávarlóðum og minni innar í hverfinu.  Engin rök standi til þess að hús á sjávarlóðum eigi að gefa tóninn fyrir þær síðustu lóðir sem byggðar verði við Bauganes. 

Athugasemdir kærenda vegna lóðarinnar að Baugatanga 4 lúta að hæð hússins og legu þess í landinu.  Stöllun hússins sé ekki í samræmi við nánasta umhverfi þess, en ætlunin sé að það verði tvílyft á hæsta hluta lóðarinnar og varpi því meiri skugga inn á lóð kærenda heldur en ella.  

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að meðferð deiliskipulagstillögunnar hafi verið að öllu leyti í samræmi við reglur skipulags- og byggingarlaga.  Bent sé á að allir hagsmunaaðilar á reitnum hafi fengið senda tilkynningu um að deiliskipulagsgerð væri í vændum, auk þess sem viðhöfð hafi verið sérstök hagsmunaaðilakynning á tillögunni sjálfri áður en hún hafi verið auglýst á lögformlegan hátt.

Í deiliskipulagi, þ.m.t. deiliskipulagi þess sem deilt sé um í máli þessu, séu veittar heimildir til uppbyggingar sem séu í samræmi við stefnumörkun borgaryfirvalda sem birtist m.a. í aðalskipulagi borgarinnar.  Í forsögn skipulagsfulltrúa, dags. í janúar 2002, sé nánar greint frá hvaða sjónarmið skuli ráða við þéttingu byggðar á svæðum eins og því sem hér um ræði.  Deiliskipulagið skuli vera og sé í samræmi við stefnumörkun Reykjavíkurborgar eins og hún birtist í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Einnig hafi verið höfð til hliðsjónar, þar sem við eigi, stefnumörkun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins auk þess sem húsakönnun Árbæjarsafns á reitnum hafi verið höfð til hliðsjónar við þessa vinnu.

Eitt helsta viðfangsefni hins kærða deiliskipulags hafi verið að stuðla að uppbyggingu svæðisins þannig að hún gæti orðið í samræmi við þá byggð sem fyrir væri og að gerðir yrðu skilmálar sem enginn vafi væri um túlkun á.  Stefnt hafi verið að því að skilgreina stækkun húsa sem eldra skipulag hafi heimilað og gera grein fyrir mögulegri uppbyggingu á óbyggðum lóðum, en þó þannig að leitast væri við að ganga ekki á rétt annarra.

Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að hæð húsa meðfram Bauganesi sé mjög mismunandi.  Þar standi einlyft hús, stölluð hús og allt að þriggja hæða hús hlið við hlið.  Sett hafi verið upp götumynd Bauganess og hæð húsa athuguð miðað við götuhæð.  Sunnan Bauganess standi 15 hús, en auk þess séu þar fjórar óbyggðar lóðir. Hæsti punktur 10 húsa sé meira en 4,4 m yfir götukóta en fimm hús séu innan við 4,4 m að hæð.  Í húsaröðinni séu fimm eldri hús sem byggð hafi verið fyrir árið 1941, fyrir tíma deiliskipulags.  Þrjú húsanna séu tvær fullar hæðir eða meira, en sex þeirra séu á tveimur hæðum að hluta (stölluð) og sex hús séu einlyft, en þrjú þeirra séu með svo hátt þak að hæsti punktur þeirra fari meira en 4,4 m yfir götukóta.  Áhrif þessara húsa í umhverfi sínu séu mjög misjöfn, ekki síst vegna mismunandi  þakforms.  Af þessum 15 húsum séu þrjú meira en 5,70 m yfir götuhæð.  Ekki sé hægt að taka undir það að leyfi til að byggja helming grunnflatar húsanna upp í allt að 5,70 m muni falla illa að götumynd Bauganess.  Þeir sem hafi byggt áður en deiliskipulagið hafi tekið gildi hafi þurft að halda hæð húsa sinna innan við 4,4 m vegna óskýrra skilmála í þágildandi deiliskipulagi.  Húseigendur norðan við Bauganes telji æskilegra að hús sunnan götunnar verði ekki mjög há, en ekki sé tekið undir að hæðir húsa eins og deiliskipulagstillagan geri ráð fyrir hafi teljandi áhrif á útsýni eða skuggavarp.  Fjölbreytni húsa á skipulagssvæðinu sé það mikil að ekki hafi þótt ástæða til að takmarka hæðir allra húsa við 4,4 metra.  Mesta hæð einlyftra húsa samkvæmt deiliskipulaginu megi vera 4,4 metrar, hámarkshæð þeirra húsa sem megi stalla sé 5,7 m á hærri hluta þeirra sem fjær sé götu, en hámarkshæð tveggja hæða húsa sé 6,8 m yfir götukóta, en á þessu séu þó undantekningar á nokkrum lóðum, sbr. lóðirnar við Skildingatanga 1, Bauganes 22 og Baugatanga 4.

Lagt hafi verið upp með að nýtingarhlutfallið væri svipað á öllum lóðum, þ.e. 0,4 en ívið hærra á lóðum Skildingarness við sjávarsíðuna, eða 0,5.

Þeirri málsástæðu að Reykjavíkurborg hafi brotið skipulags- og byggingarlög og jafnræðisreglu sé mótmælt sem ósannri og ósannaðri.  Því sé hafnað að óheimilt hafi verið að heimila meiri hámarkshæð en 4,4 m á þeim lóðum sem því verði við komið, einungis vegna þess að kærandi hafi á sínum tíma verið bundin af hámarkshæð 4,4 m.  Ekki hafi heldur verið leitt í ljós að ákvæði skipulags- og byggingarlaga um samræmi milli húsa og umhverfis hafi verið brotin.  Farið sé fram á að stærð stigahúss verði minnkuð og að fallið verði frá því að byggja megi stigahús 1,3 m yfir hámarkshæð þaks nema að hámarki 2 m².  Við vinnslu deiliskipulagsins hafi verið talið að hæfilegt væri að takmarka stærð þess við 10 m², en í skilmálum sé tekið fram að stigahúsið skuli þannig staðsett að ekki valdi óþarfa skuggamyndun.

Í kæru felist krafa um að úrskurðarnefndin breyti gildandi deiliskipulagi og deiliskipuleggi upp á nýtt.  Nefndin sé ekki bær til að breyta skipulagi, hún geti einungis tekið á kröfu um lögmæti skipulagsákvarðana og þá eftir atvikum fellt skipulagsákvarðanir úr gildi.  Beri því að vísa þessari kröfu frá nefndinni.

Sérstaklega sé minnt á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.
 
Sjónarmið borgaryfirvalda vegna lóðarinnar að Baugatanga 4 byggi á því að löggjafinn hafi ákveðið að skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögunum.  Það hafi verið ákvörðun borgaryfirvalda að heimila umrædda deiliskipulagsbreytingu á lóðinni Baugatanga 4, og hafi kærendur ekki bent á neina formlega annmarka á ákvörðuninni sem valdið geti ógildi deiliskipulagsins.  Ljóst sé að meðferð deiliskipulagstillögunnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við reglur skipulags- og byggingarlaga.  Þrátt fyrir að athugasemdir hafi borist við grenndarkynningu sé á það bent að það sé ekki hlutverk lögbundins samráðs eða í samræmi við hugmyndir um íbúalýðræði að tryggja það að farið verði eftir öllum hugmyndum eða skoðunum sem íbúar hafi, enda væri slíkt ómögulegt.

Í greinargerð með deiliskipulagi svæðisins segi að heimilt sé að byggja einbýlishús í samræmi við eftirfarandi sérskilmála:  „Hús skal vera innan byggingarreits, en svalir, skorsteinn og þakkantur mega ná út fyrir reitinn að hluta til. Leyfilegt er að stalla húsið á helmingi grunnflatar þess þannig að aðkomuhæð sé á vestari hluta lóðar, en stöllun sé á eystri hluta lóðar. Stefna mænis skal vera hornrétt á götu og skal mesta hæð þaks ekki vera meiri en 5,80 m yfir hæsta kóta lóðar sem liggur að götu. Mesta hæð langveggja er 4,23 m yfir hæsta kóta lóðar sem liggur að götu.“  Hinir sérstöku skilmálar fyrir lóðina Baugatanga 4, eigi sér þannig stoð í heildardeiliskipulagi svæðisins og séu samþykktir uppdrættir innan þeirra marka er þar greini.  Byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi samþykkt umsókn um byggingarleyfi á grundvelli deiliskipulags lóðarinnar og hafi sú samþykkt ekki verið kærð.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi endurskoðaðs deiliskipulags fyrir Skildinganes í Reykjavík.  Er af hálfu kærenda krafist ógildingar ákvörðunarinnar með vísan til þess að svör skipulagsfulltrúa við innsendum athugasemdum á auglýsingartíma hafi verið ófullnægjandi og að í deiliskipulaginu felist mismunun.  Þá leiði neikvæð grenndaráhrif fyrirhugaðs húss að Baugatanga 4 einnig til þess að ógilda beri hina kærðu ákvörðun.  Á framangreint verður ekki fallist.  Undirbúningur og meðferð hinnar kærðu samþykktar var í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og með samþykkt hins breytta deiliskipulags fyrir Skildinganes hefur byggingarreitur hverrar lóðar verið ákvarðaður ásamt hámarks nýtingarhlutfalli og hámarks hæð húsa.  Er það mat úrskurðarnefndarinnar að með skipulaginu hafi ekki verið raskað jafnræði lóðarhafa á svæðinu með þeim hætti að ógildingu varði enda hafi tillit verið tekið til aðstæðna á hverri lóð.  Þá verður heldur ekki fallist á að grenndaráhrif fyrirhugaðra nýbygginga á svæðinu, þar á meðal húsa er skipulagið heimilar á lóðunum nr. 4 við Baugatanga og nr. 24 við Bauganes, séu svo neikvæð að fella verði deiliskipulagið úr gildi af þeim sökum.  Verður kröfum kærenda því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 18. febrúar 2004 um breytt deiliskipulag Skildinganess, sem staðfest var í borgarráði hinn 24. febrúar 2004.   

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________                  _______________________________
  Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

 

 

24/2004 Naustabryggja

Með

Ár 2006, föstudaginn 6. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 24/2004, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 17. mars 2004 um breytt deiliskipulag lóðanna við Naustabryggju 36-52 í Reykjavík. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. mars 2004, er barst nefndinni hinn 15. apríl sama ár, kærir stjórn húsfélagins að Naustabryggju 54-56, Reykjavík samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 17. mars 2004 um breytt deiliskipulag lóðanna nr. 36-52 við Naustabryggju í Reykjavík. 

Krefst kærandi ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 10. desember 2003 var lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi lóðanna nr. 36-52 við Naustabryggju og var samþykkt að grenndarkynna hana hagsmunaaðilum á svæðinu.  Grenndarkynningin stóð yfir frá 10. desember 2003 til 9. janúar 2004 og bárust athugasemdabréf frá kæranda máls þessa, eigenda Básbryggju 39, sem og mótmæli 85 einstaklinga.  Var tillagan, að lokinni grenndarkynningu, lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 17. mars 2004, ásamt m.a. umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir.  Skipulags- og byggingarnefnd samþykkti tillöguna og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. apríl 2004. 

Hið kærða deiliskipulag fól í sér heimild til að breyta níu raðhúsum á lóðinni nr. 36-52 við Naustabryggju í fjölbýlishús með 20 íbúðum.  Á fyrstu hæð hússins var gert ráð fyrir 19 bílastæðum og á sameiginlegri bílastæðalóð húss nr. 54-56 við Naustabryggju var gert ráð fyrir níu bílastæðum, eða samtals 28 bílastæðum.  Krafa var gerð um tvö bílastæði fyrir íbúðir stærri en 80 fermetra og 1,25 bílastæði fyrir íbúðir minni en 80 fermetra.  Þá var og gerð breyting á byggingarreit hússins og hann breikkaður um 0,5 metra. 

Þessari ákvörðun skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hin kærða deiliskipulagssamþykkt hafi afgerandi áhrif fyrir Naustabryggju 54-56 þar sem öll umferðaraukning sem fylgi auknum íbúafjölda Naustabryggju 36-52 safnist um þau gatnamót sem húsið standi við og inn á bílastæði þess.  Einnig sé ljóst að hinn sérstaki arkitektúr Bryggjuhverfisins, þar sem byggðin sé látin sameina nútíma byggingar í þröngu umhverfi gamalla hafnarsvæða, leyfi ekki frekari þéttingu byggðar.  Naustabryggja, sem eigi að þjóna öllu umferðarflæði við þá götu auk fjölmennasta hluta Básbryggju, sé einbreið gata sem þoli ekki þéttingu byggðar við fjærsta enda götunnar.  Hin kærða ákvörðun hafi í för með sér fjölgun íbúa svæðisins, gífurlega aukningu á umferð og mengun auk skerðingar á bílastæðum.  Allt þetta muni rýra eignir á svæðinu verulega. 

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun sé miðað við að breyta raðhúsum í fjölbýlishús með litlum íbúðum og megi búast við því að mikil hreyfing verði á íbúum þeirra, eins og almennt sé í minni íbúðum, sem hafi í för með sér meira ónæði fyrir aðra íbúa.  Þá verði aðkoma að bílastæðum þrengri þar sem í skipulaginu felist heimild til að breikka húsið.  Þrengt sé of mikið að aðkomu sjúkrabíla og slökkviliðs. 

Bent sé á að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir þremur leiðum í gegnum hverfið.  Þegar leyfð hafi verið lokun götunnar við Básbryggju 15 hafi leiðirnar orðið tvær, báðar framhjá Naustabryggju 36-52.  Verði ákvörðunin staðfest sé hætta á að heimilin á svæðinu verði oftar innilokuð og það geti ekki verið réttlætanleg áhætta. 

Skrifstofa skipulags- og byggingarsviðs borgarinnar hafi grenndarkynnt íbúum og eigendum fasteigna við Naustabryggju tillögu að breyttu deiliskipulagi Naustabryggju 36-52 í desember 2003 með athugasemdafresti til 9. janúar 2004.  Fyrir tilskilinn frest hafi yfir 90% þeirra íbúa, sem samkvæmt grenndarkynningunni hafi haft hagsmuna að gæta, mótmælt tillögu að breyttu deiliskipulagi.  Hinn 26. febrúar 2004 hafi umhverfis- og tæknisvið boðað til fundar með íbúum í Bryggjuhverfi þar sem skipulagsmál hverfisins hafi verið skýrð frekar sem og hin kærða deiliskipulagsbreyting.  Hafi fundurinn verið fjölsóttur og fundarmenn samhljóða um að mótmæla breytingunni.  Því hafi skipulags- og byggingarnefnd, með samþykkt sinni, gengið gegn hagsmunum þess fólks sem deiliskipulagið hafi bein áhrif á og einnig gegn afstöðu annarra íbúa hverfisins. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að þrátt fyrir mótmæli íbúa hafi ekki verið gengið á rétt þeirra.  Þeim hafi verið kynntar breytingarnar, en endanlegt skipulagsvald liggi hjá borginni.  Mótmælum íbúa hafi verið svarað á málefnalegan hátt og einnig hafi verið komið til móts við óskir þeirra svo sem þannig að Naustabryggja (nyrsta gatan) yrði opin fyrir almennri umferð. 

Bent sé á að athugasemdir íbúa hafi einkum lotið að fjölgun íbúa ásamt því að aukin umferð myndi öll lenda á Naustabryggju, þrengt yrði að aðkomu sjúkrabíla og slökkviliðs og þrengt að umferð íbúa.  Bílastæði væru yfirleitt vel full fyrir.  Þessu sé því til að svara að ekki sé gert ráð fyrir fleiri bílum eða aukinni umferð samfara breytingunni.  Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að um sé að ræða óverulega aukningu íbúða, sem ekki sé talin hafa áhrif á umferð um Naustabryggju.  Í Bryggjuhverfi séu 335 íbúðir, þar af 33 íbúðir í raðhúsum.  Heildarfjöldi íbúða yrði með breytingu 346 íbúðir, þar af 24 íbúðir í raðhúsum.  Í umsögn skipulagshöfundar komi fram að búast hafi mátt við þremur íbúum á íbúð í raðhúsi að meðaltali samkvæmt eldra skipulagi eða samtals 27 íbúum.  Í litlum íbúðum eins og hér um ræði megi búast við mest tveimur íbúum á íbúð að meðaltali eða alls 40 íbúum.  Sé því um mjög litla aukningu að ræða sem ekki geti haft tilfinnanleg áhrif á umferð. 

Í Bryggjuhverfi eins og í öðrum nýjum hverfum sé almennt gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóðum fyrir hverja íbúð í fjölbýli og séu stæðin ýmist í bílgeymslum eða úti.  Fyrir íbúðir í raðhúsum sé gert ráð fyrir þremur stæðum fyrir hverja íbúð, þar af tveimur í bílgeymslum.  Þá séu að auki bílastæði miðsvæðis í hverfinu opin almenningi.  Bílastæðakrafa í hverfinu sé mun hærri en byggingarreglugerð kveði á um, sem séu tvö stæði fyrir íbúðir stærri en 80 fermetra og eitt stæði fyrir minni íbúðir. Undantekningar hafi verið gerðar á bílastæðafjölda við íbúðir námsmanna við Naustabryggju 9 og 11 og í vesturenda húss við Naustabryggju 35-53, þar sem þremur raðhúsum hafi verið breytt í 11 litlar íbúðir.  Á þeim lóðum hafi deiliskipulagi verið breytt og gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja íbúð til samræmis við byggingarreglugerð.  Samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir 16 íbúðum minni en 80 fermetra og fjórum stærri og fylgi þeim samtals 28 stæði, þar af 19 í bílgeymslu.  Tvö stæði séu fyrir íbúðir stærri en 80 fermetra en 1,25 stæði fyrir minni íbúðirnar.  Ólíklegt sé talið að litlum íbúðum fylgi sami fjöldi bíla og stærri eignum og því ekki talið að breytingin hafi í för með sér aukningu á umferð.  Breytingin sé ekki talin hafa afgerandi áhrif á aðstæður á sameiginlegum bílastæðalóðum fyrir húsin við Naustabryggju 28-56.  Réttilega fylgi flest stæðin á fyrrnefndum bílastæðalóðum húsinu við Naustabryggju 54-56, þar sem fá bílastæði fylgi húsinu í bílgeymslum. 

Engar upplýsingar liggi fyrir um að meiri hreyfing sé á íbúum minni eigna sem valda muni ónæði.  Þá muni jarðhæð hússins dýpka sem nemi 0,5 metrum til að unnt sé að koma fyrir tilskyldum fjölda bílastæða á jarðhæð þess.  Breytingin hafi ekki áhrif á bílastæði á sameiginlegri bílastæðalóð. 

Á almennum íbúafundi hinn 26. febrúar 2004 hafi verið kynnt útlit og fyrirkomulag hússins.  Gerð hafi verið krafa um hönnun og útlit hússins til samræmis við þegar byggð hús í hverfinu og það samræmt byggðum húsum við bryggjukantinn. 

Sérstaklega sé nauðsynlegt að minna á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. 

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir fól hin kærða ákvörðun í sér heimild til að breyta níu raðhúsum á lóðinni nr. 36-52 við Naustabryggju í fjölbýlishús með 20 íbúðum.  Á fyrstu hæð er gert ráð fyrir 19 bílastæðum, auk níu stæða á sameiginlegri bílastæðalóð húss nr. 54-56 við Naustabryggju sem fyrir voru í eldra skipulagi, og fylgja húsinu því samtals 28 stæði.  Gerð er krafa um tvö bílastæði fyrir íbúðir stærri en 80 fermetra og 1,25 bílastæði fyrir íbúðir minni en 80 fermetra.  Þá er byggingarreitur 1. hæðar hússins breikkaður um 0,5 metra.  Er ekki getið annarra breytinga í greinargerð á deiliskipulagsuppdrætti og verður að leggja til grundvallar að upptalning greinargerðarinnar á þeim breytingum sem heimilaðar eru sé tæmandi. 

Deiliskipulag Bryggjuhverfis við Grafarvog var fyrst samþykkt í borgarráði hinn 8. júlí 1997 og var samkvæmt því gert ráð fyrir að á svæðinu yrðu bæði íbúðir í sérbýli og fjölbýlishúsum, samtals 253 íbúðir ásamt atvinnuhúsnæði.  Samkvæmt gögnum er borgaryfirvöld hafa lagt fram í kærumáli þessu var gert ráð fyrir 335 íbúðum á svæðinu áður en hin kærða breyting á deiliskipulagi var samþykkt, þar af 33 íbúðum í raðhúsum.  Eftir breytingu er gert ráð fyrir að heildarfjöldi íbúða í Bryggjuhverfi verði 346, þar af 24 í raðhúsum. 

Úrskurðarnefndin telur að fjölgun íbúða í Bryggjuhverfi um tæp 3,3%, þar sem tuttugu litlar íbúðir koma í stað níu stærri íbúða samkvæmt hinni kærðu breytingu á deiliskipulagi, verði að teljast óveruleg.  Við hina umdeildu skipulagsbreytingu hefur verið gætt gildandi reglna um lágmarksfjölda bílastæða og verður ekki séð að breytingin hafi í för með sér slíka fjölgun íbúa, aukningu umferðar eða önnur grenndaráhrif er leiða eigi til þess að fallist verði á kröfur kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.  Verður kröfu kæranda um ógildingu því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 17. mars 2004 um breytt deiliskipulag lóðanna við Naustabryggju 36-52 í Reykjavík. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________              _______________________________
      Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

17/2004 Vesturbrún

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 18. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 17/2004, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 4. febrúar 2004 um veitingu leyfis fyrir byggingu tveggja hæða steinsteyptrar viðbyggingar við suðurenda hússins nr. 20 við Vesturbrún í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. febrúar 2004, er barst nefndinni hinn 2. mars s.á., kæra Þ og K, eigendur húseignarinnar að Vesturbrún 39, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 4. febrúar 2004 að veita leyfi fyrir byggingu tveggja hæða steinsteyptrar viðbyggingar við suðurenda hússins að Vesturbrún 20 í Reykjavík.  Ákvörðunin var staðfest í borgarstjórn hinn 5. febrúar 2004.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Með umsókn, dags. 18. nóvember 2003, sóttu eigendur fasteignarinnar að Vesturbrún 20 í Reykjavík um leyfi fyrir tveggja hæða 80 fermetra viðbyggingu við hús sitt.  Byggingarfulltrúi vísaði erindinu til umsagnar skipulagsfulltrúa á fundi sínum hinn 25. nóvember 2003.  Skipulagsfulltrúi afgreiddi málið 28. nóvember 2003 með eftirfarandi bókun:  „Jákvætt að grenndarkynna erindið þegar samþykki lóðarhafa á lóð nr. 22 liggur fyrir vegna fjarlægðar frá lóðarmörkum. Grenndarkynna fyrir hagsmunaaðilum að Vesturbrún 18, 22 og 39.“ 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd 4. febrúar 2004 þar sem fyrir lá athugasemdabréf frá kærendum, dags. 20. janúar 2004, og umsögn skipulagsfulltrúa um þær athugasemdir, dags. 29. janúar s.á.  Var umsótt viðbygging samþykkt.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur telja að með hinni samþykktu viðbyggingu, sem muni rísa um metra hærra en húsið að Vesturbrún 20, muni útsýni frá húsi þeirra að Vesturbrún 39 skerðast verulega og útsýni yfir Laugardalinn hverfa að mestu.  Á sínum tíma hafi þau valið sér lóð með tilliti til útsýnis og hafi hús þeirra verið skipulagt með það í huga og stofur þess vegna hafðar á efri hæð hússins.  Viðbyggingin muni rýra notagildi og verðmæti fasteignar þeirra. 

Benda kærendur á að þak hússins að Vesturbrún 20 hafi áður verið hækkað án nokkurrar umfjöllunar og nú hafi skipulags- og byggingarnefnd samþykkt hina kærðu breytingu rúmri viku eftir að athugasemdir kærenda hafi borist nefndinni og að því er virðist án nokkurrar skoðunar eða umfjöllunar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað. 

Húsið við Vesturbrún 20 liggi lægra við götu heldur en hús á aðliggjandi lóðum. Vesturbrún 20 skyggi því mun minna á útsýni byggðar austan götu heldur en önnur hús í sömu línu.  Sú útsýnisskerðing sem verði vegna viðbyggingarinnar sé ekki meiri en vænta megi í borgarumhverfi.  Telja verði að hagsmunir umsækjanda við að geta byggt við hús sitt á þann hátt sem samþykkt hafi verið með hinni kærðu umsókn séu meiri en þeir hagsmunir kærenda sem hugsanlega fari forgörðum vegna lítilsháttar útsýnisskerðingar.  Benda megi á að réttur til óbreytts útsýnis sé ekki bundinn í lög og að íbúar í borg geti ávallt átt von á að nánasta umhverfi þeirra taki einhverjum breytingum. 

Fullyrðingar kærenda um rýrnun á notagildi húss þeirra frá fagurfræðilegum- og hagkvæmnisjónarmiðum séu með öllu órökstuddar og vandséð hvernig verðgildi eignar þeirra rýrni vegna viðbyggingarinnar. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafar taka fram að vegna leka og aldurs þaks húss þeirra hafi verið nauðsynlegt að endurnýja það og hafi lögboðin leyfi verið veitt fyrir þeim framkvæmdum á sínum tíma.  Í kjölfar breytinga sem ráðist hafi verið í á húsinu að Vesturbrún 22 hafi þau ákveðið að kanna hvort heimiluð yrði viðbygging við hús þeirra enda það orðið æði lágreist í samanburði við næstu hús. 

Góð sátt hafi náðst um framkvæmdirnar við næstu nágranna en kærendur hafi verið ósáttir vegna ætlaðrar útsýnisskerðingar frá húsi þeirra.  Taka beri fram að 45 ára gamalt grenitré á lóð byggingarleyfishafa, sem hafi verið umtalsvert hærra en umdeild viðbygging, hafi verið fellt við upphaf framkvæmda og megi halda því fram að nokkurt viðbótarútsýni hafi skapast á móti þeirri takmörkuðu útsýnisskerðingu sem stafi af viðbyggingunni, en hús kærenda snúi gafli að Vesturbrún 20.  Þrátt fyrir það að viðbyggingin verði einum metra hærri en álma sú sem hún tengist sé byggingin tveimur til þremur metrum lægri en húsin beggja vegna við og hús byggingarleyfishafa verði í meira samræmi við götumynd eftir breytinguna. 

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér staðhætti á vettvangi. 

Niðurstaða:  Hús kærenda stendur gegnt húsinu að Vesturbrún 20 handan götunnar.  Svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt en breytingar og stækkanir munu hafa verið heimilaðar við hús á svæðinu. 

Með hinni kærðu viðbyggingu hækkar hluti hússins að Vesturbrún 20 um einn metra og verður nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,34.  Húsin beggja vegna við það hús standa mun hærra við götu en húsið að Vesturbrún 20, þótt tekið sé mið af umdeildri viðbyggingu, og er nýtingarhlutfall þeirra lóða 0,4 og 0,32 en nýtingarhlutfall lóðar kærenda mun vera 0,6.  Fram kemur í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 29. janúar 2004, vegna grenndarkynningar umdeildrar breytingar að nýtingarhlutfall lóða á svæðinu sé frá 0,12 til 0,8.

Eins og hæðarlegu hússins að Vesturbrún 20 er háttað í samanburði við aðliggjandi hús verður ekki séð að umdeild viðbygging hafi veruleg grenndaráhrif gagnvart kærendum eða að húsið svo breytt raski núverandi götumynd.  Þá verður nýtingarhlutfall lóðarinnar ekki annað og meira en fyrir er á nágrannalóðum við umdeilda breytingu. 

Að þessu virtu og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verður ekki fallist á ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 4. febrúar 2004, sem staðfest var í borgarstjórn hinn 5. s.m., um að veita leyfi fyrir byggingu tveggja hæða steinsteyptrar viðbyggingar við suðurenda hússins að Vesturbrún 20 í Reykjavík.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________      ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Ásgeir Magnússon