Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

181/2024 Nökkvavogur

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 20. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 181/2024, kæra á ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík frá 31. október 2024 um að eigandi að Nökkvavogi 24 skuli leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa en ella fjarlægja girðingu á lóðamörkum Nökkvavogs 22 og 24.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. desember 2024, kærir eigandi að Nökkvavogi 24, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. október 2024 að hann skuli leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins en ella fjarlægja girðingu sem reist hafi verið á lóðarmörkum Nökkvavogar 22 og 24 innan þrjátíu daga frá dagsetningu bréfsins. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík 3. febrúar 2025.

Málavextir: Í byrjun árs 2024 barst byggingarfulltrúanum í Reykjavík ábending um að búið væri að reisa girðingu á lóðamörkum Nökkvavogs 22 og 24 í Reykjavík án þess að fyrir lægi samþykki eiganda aðliggjandi lóðar. Með bréfi, dags. 30. janúar 2024, var þinglýstum eiganda að Nökkvavogi 24 gert að leggja fram slíkt samþykki eða láta í té skriflegar skýringar vegna málsins innan 14 daga. Umbeðið samþykki eða skýringar bárust ekki og með bréfi, dags. 31. október s.á., gerði byggingarfulltrúi honum að leggja fram samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar innan 14 daga en ella að fjarlægja viðkomandi girðingu innan 30 daga. Í sama bréfi var tilkynnt að byggingarfulltrúi hygðist ekki beita þvingunarúrræðum vegna girðingarinnar, þar sem ekki stafaði almannahætta af henni.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að ónæði hafi verið af óviðkomandi umferð yfir lóð kæranda að Nökkvavogi 24 og því hafi girðing verið reist á lóðarmörkum Nökkvavogs 22 og 24, meðfram runnum sem þar voru. Þessi fyrirætlun hafi verið rædd í vitna viðurvist við eigendur Nökkvavogs 22 á óformlegum fundi úti í garði í október 2022 og þau hafi samþykkt hana. Þegar girðingin var reist hafi þau hins vegar ekki kannast við að hafa gefið samþykki sitt. Eigendur Nökkvavogs 22 hafi síðan farið í framkvæmdir á lóðamörkum sín megin sumarið 2024 og fellt þá runnana sem voru við girðingu kæranda. Kærandi hafi ekki heyrt frá þeim aftur fyrr en þau sendu ábendingu til byggingarfulltrúa og mál þetta hófst. Kærandi álítur að munnlegt samþykki fyrir girðingunni hafi legið fyrir og að byggingarfulltrúi hafi í umsögn vísað í 3. mgr. gr. 7.2.3. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sem geri ekki kröfu um að samþykki aðliggjandi lóðarhafa sé skriflegt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að kærandi hafi fengið rúman tíma til að leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa. Þar sem aðliggjandi lóðarhafi hafi gert ábendingu um framkvæmdina sé ljóst að ekki sé samkomulag um girðinguna eins og krafist sé í 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hún hafi verið sett upp í óleyfi og kæranda beri að fjarlægja hana. Ekkert hafi komið fram sem geti valdið ógildingu ákvörðunarinnar og þess sé krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en þau hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun í máli þessu er frá 31. október 2024, en hún var birt kæranda 25. nóvember s.á. og miðar nefndin við þann dag sem upphafsdag kærufrests sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæran barst nefndinni 24. desember s.á. eða innan kærufrests. Kæruheimild er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í báðum erindum byggingarfulltrúa þar sem kæranda er gert að leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa vegna uppsetningar girðingar á lóðamörkum er vísað í e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem segir m.a: „Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingar eða skjólveggi allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina.“ Í máli þessu áttu sér stað nokkur samskipti milli kæranda og lóðarhafa Nökkvavogs 22, en ótvírætt er að ekki liggur fyrir undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina og hefur staðhæfingum kæranda um munnlegt samþykki verið mótmælt.

Í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 er kveðið á um að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki verði fjarlægt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slíkt verk á hans kostnað. Fyrir liggur að uppsetning umræddrar girðingar á lóðamörkum Nökkvavogs 22 og 24 er háð skriflegu samþykki rétthafa að þeim lóðum samkvæmt áðurnefndum e-lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar. Slíkt samþykki liggur ekki fyrir. Var byggingarfulltrúa því rétt að taka hina kærðu ákvörðun um að skjólveggurinn skyldi fjarlægður. Með vísan til þessa verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík frá 31. október 2024 um að kærandi skuli leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa en ella fjarlægja girðingu á lóðamörkum Nökkvavogs 22 og 24.

117/2024 Laugarásvegur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. september 2024 um að falla frá áformum um beitingu þvingunarráðstafana gagnvart lóðarhöfum Laugarásvegar 63 vegna girðingar á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Laugarásvegar 61, ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 23. september 2024 um að falla frá áformum um álagningu dagsekta gagnvart lóðarhafa Laugarásvegar 63 vegna girðingar á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. nóvember 2024.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu en með bréfi byggingarfulltrúa til lóðarhafa lóðar nr. 63 við Laugarásveg, dags. 2. febrúar 2024, var lóðarhöfum gert að leggja fram innan 14 daga byggingar­leyfis­umsókn og skriflegt samþykki lóðarhafa lóðar nr. 61 við Laugarásveg, kæranda í þessu máli, vegna girðingar á mörkum lóðanna. Var bent á að yrði tilmælunum ekki sinnt yrði tekin ákvörðun um framhald málsins sem gæti falið í sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað lóðarhafa eða dagsektum beitt. Í tölvubréfi lóðarhafa til byggingarfulltrúa, dags. 28. febrúar 2024, kom fram að gerð yrði „lokatilraun á allra næstu dögum til að ná samkomulagi á milli lóðarhafa, ef það náist ekki verði girðingin færð eða fjarlægð með deildum kostnaði þegar frost fari úr jörðu.“ Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa degi síðar var framangreint fært til bókar. Í tölvubréfi til lóðarhafa, dags. 1. mars s.á., kom fram að veittur væri frestur til 31. s.m. til að ná samkomulagi við kæranda um girðingu á mörkum lóðanna og senda það til byggingarfulltrúa, að öðrum kosti þyrfti að fjarlægja vegginn líkt og lóðar­hafar hefðu sagst ætla að gera. Með tölvubréfi, dags. 4. apríl 2024, var sá frestur framlengdur til 18. s.m. Slíkt samkomulag barst ekki byggingarfulltrúa og sendi hann því lóðarhöfum bréf, dags. 23. s.m., þar sem fram kom að veittur væri lokafrestur til að fjarlægja girðinguna. Yrði hann ekki fjarlægður innan 14 daga frá móttöku bréfsins áformaði byggingar­fulltrúi að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000 fyrir hvern þann dag sem það drægist. Var jafnframt veittur 14 daga frestur til að koma að andmælum.

Lóðarhafar Laugarásvegar 63 kærðu þá ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar. Í úrskurði nefndarinnar í umræddu kærumáli nr. 54/2024 frá 6. júní 2024 var kröfu lóðarhafa um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa um að fjarlæga hina umdeildu girðingu hafnað. Þeim hluta málsins er varðaði ákvörðun um álagningu dagsekta var vísað frá þar sem ekki var talið að legið hefði fyrir lokaákvörðun um þá álagningu.

Í bréfi, dags. 23. september 2024, til lóðarhafa Laugarásvegar 63 rakti byggingarfulltrúi þau lög og reglur sem gilda um girðingar og skjólveggi á lóðamörkum og málsatvik varðandi hina umdeildu girðingu er reist hefði verið á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63. Þá var fjallað um heimildir byggingarfulltrúa til að beita þvingunarúrræðum samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Að lokum kom fram að ekki fengist séð að hin umdeilda girðing ylli hættu né væri skaðleg heilsu nágranna og af því leiddi að öryggis- eða almannahagsmunum væri ekki raskað. Þar af leiðandi myndi embætti byggingarfulltrúa ekki beita sér fyrir því að girðingin yrði fjarlægð með beitingu þvingunarúrræða. Var samrit bréfsins sent kæranda­ og er niðurstaða þessi hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kæranda: Bent er á að vafi leiki á því á hvaða lagagrunni hin kærða ákvörðun byggir, en ekki hafi verið vísað til neinna ákvæða stjórnsýslulaga varðandi afturköllun eða breytingu ákvörðunar um beitingu dagsekta. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að fjarlægja skyldi girðingarnar hafi verið staðfest með úrskurði nefndarinnar frá 6. júní 2024 í máli nr. 54/2024. Sú ákvörðun að aðhafast ekki í málinu, með vísan til orðalags í frumvarpi því er varð að lögum nr. 160/2010 um mannvirki, haldi ekki vatni enda hafi það orðalag verið í lögum frá gildistöku þeirra. Það standist ekki skoðun að vitna til þeirra nú þegar það henti byggingarfulltrúa sem hafi ekki kjark eða staðfestu til að fylgja eftir ákvörðunum sínum. Álagning dagsekta sé þvingunar­úrræði sem beitt sé til að fylgja eftir ákvörðunum byggingarfulltrúa og það sé haldlaust að taka ákvörðun um að gera eiganda Laufásvegar 63 að fjarlægja óleyfisframkvæmd ef ekki standi til að fylgja henni eftir með þvingunarúrræðum. Byggingarfulltrúi hafi ekki gert tilraun til að rökstyðja hvers vegna hann hafi fallið frá fyrri ákvörðun eða hvaða atvik hafi breyst sem réttlæti slíka ákvörðun. Byggingarfulltrúi sé stjórnvald og hafi kærandi mátt hafa réttmætar væntingar til þess að fyrri ákvörðun yrði ekki breytt eftir geðþótta án haldbærra raka eða í samræmi við lög og góða stjórnsýslu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að hin kærða ákvörðun snúi eingöngu að þinglýstum eiganda Laugarásvegar 63. Ekki verði séð að kærandi hafi beina, verulega, sérstaka og lögvarinna hagsmuna að gæta af þeirri ákvörðun að leggja ekki á dagsektir á eiganda Laugarás­vegar 63 þar sem sú þvingunarráðstöfun snúi eingöngu að þeim aðila.

Ekki sé um að ræða afturköllun stjórnvaldsákvörðunar þar sem staðfest hafi verið í úrskurði nefndar­innar nr. 54/2024 að ekki hafi verið tekin ákvörðun um álagningu dagsekta og því geti ekki verið um afturköllun að ræða. Fyrir liggi ákvörðun byggingarfulltrúa um að gera eigendum Laugarás­vegar 63 að fjarlæga umdeilda girðingu og standi sú ákvörðun áfram.

Ákvæði 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki feli í sér heimild fyrir byggingarfulltrúa að taka ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða en sú ákvörðun sé háð mati byggingarfulltrúa. Ákvæðið gefi byggingarfulltrúa kost á að bregðast við ef gengið sé gegn þeim almanna­hagsmunum sem búi að baki lögum nr. 160/2010 svo sem skipulags-, öryggis- eða heilbrigðis­hagsmunum. Það sé því ávallt mat á aðstæðum sem ráði því hvort þvingunarúrræðum sé beitt eða ekki í tilefni af framkvæmd sem teljist vera ólögmæt. Einstaklingum sé þannig ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklings­hagsmuna enda sé þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína.

Starfsmenn byggingarfulltrúa hafi mætt á staðinn til að skoða aðstæður í þó nokkur skipti og í þrígang tekið myndir á vettvangi. Síðasta vettvangskönnun hafi verið farin í kjölfar bréfs kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 30. september 2024, til að ganga úr skugga um hvort fullyrðingar hans um eld- og útleiðnihættu frá skjólgirðingunni ættu við rök að styðjast. Það hafi verið mat starfsmanna byggingarfulltrúa að svo væri ekki. Eftir heildstæða skoðun á því hvort umrædd skjólgirðing teldist raska öryggis- og almannahagsmunum hafi svo ekki verið talið. Það sjónarmið hafi komið fram í bréfi byggingarfulltrúa til eiganda Laugarásvegar 63 frá 23. september 2024. Fulltrúar byggingarfulltrúa hafi kynnt sér vel aðstæður á vettvangi fyrir töku ákvörðunarinnar og hún hafi verið tekin með hliðsjón af meðalhófsreglu. Ákvörðun byggingar­fulltrúa um að beita ekki þvingunarráðstöfunum sé studd málefnalegum rökum og ekki verði séð að slíkir annmarkar séu á hinni umdeildu ákvörðun að varðað gæti ógildingu hennar.

 Athugasemdir eiganda Laugarásvegar 63: Bent er á að girðing á lóðarmörkum Laugarás­vegar 61 og 63, sem staðið hafi í um það bil 4 ár, hafi verið reist í góðu samkomulagi og að hluta til í samstarfi eigenda hlutaðeigandi lóða. Aldrei hafi verið óskað stöðvunar framkvæmda á meðan unnið hafi verið að því að reisa girðinguna. Þegar girðingin hafi staðið í rúm 2 ár hafi verið reynt að afla skriflegs samþykkis en kærandi hafi þá dregið lappirnar og svo afturkallað munnlegt samþykki sitt með skilaboðum 20. júní 2023 án nokkurra skýringa.

Girðingin hafi nú staðið í nær 4 ár án áfalla og ógni hvorki öryggis- né almannahagsmunum. Málatilbúnaður kæranda um hið gagnstæða sé órökstuddur og úr öllu hófi. Málefnaleg rök standi ekki til að beita verulega íþyngjandi þvingunarúrræðum, líkt og dagsektir séu, í þessu máli. Sérstaklega í ljósi fyrrgreinds munnlegs samkomulags aðila, verulegs tómlætis kæranda og sinnuleysis gagnvart ítrekuðum tilraunum til sátta. Sinnuleysið og gögn málsins beri með sér að kærandi telji sig ranglega eiga lögvarinn rétt til að knýja byggingar­fulltrúa til að beita þvingunarúrræðum þrátt fyrir að honum séu tryggð önnur réttar­úrræði til varnar réttindum sínum.

Því sé hafnað að tilvitnuð ummæli, dags. 1. mars 2024, feli í sér einfalda bindandi yfirlýsingu um að fjarlægja girðinguna svo sem ætla megi af hinni kærðu ákvörðun. Ummælin hafi verið háð óframkomnu skilyrði um kostnaðarskiptingu á milli lóðarhafa. Ekkert liggi fyrir um kostnaðar­skiptingu enda hafi kærandi hunsað og/eða hafnað tilraunum til samtals og sátta. Þá hafi tilvitnuð ummæli grundvallast á ófullnægjandi leiðbeiningum byggingar­fulltrúa.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að beita ekki þvingunarúrræðum til að girðing á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63 verði fjarlægð.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæru­aðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærandi í máli þessu er rétthafi lóðar nr. 61 við Laugarásveg en hin umdeilda girðing er á mörkum þeirrar lóðar og lóðar nr. 63 við Laugarásveg og hefur kærandi átt í nokkrum sam­skiptum við embætti byggingarfulltrúa þar sem hann hefur krafist aðgerða af hálfu embættisins til að knýja á um að girðingin yrði fjarlægð. Í ljósi þessa verður kæranda játuð kæruaðild í máli þessu.

Í bréfi byggingarfulltrúa til lóðarhafa Laugarásvegar 63, dags. 23. september 2024, kemur fram að byggingarfulltrúi ætli ekki að beita sér fyrir því að hin umdeilda girðing verði fjarlægð með beitingu þvingunarúrræða. Fyrir liggur í máli þessu að endanleg ákvörðun um álagningu dagsekta hafði ekki verið tekin af hálfu byggingarfulltrúa, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 54/2024, og var slík ákvörðun ekki tekin eftir uppkvaðningu þess úrskurðar. Felur ákvörðun byggingarfulltrúa því ekki í sér afturköllun stjórnvaldsákvörðunar um beitingu dag­sekta, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, heldur er um að ræða ákvörðun um að beita ekki þvingunarúrræðum.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mann­virkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt sam­þykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráða­­­manni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum er tekið fram að sú breyting hafi verið gerð frá fyrri lögum að byggingarfulltrúa sé heimilt en ekki skylt að beita þvingunar­úrræðum. Þar kemur fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða er því háð mati stjórnvalds hverju sinni og gefur sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almanna­hagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðis­hagsmunum. Fer það því eftir atvikum hvort nefndum þvingunarúrræðum verði beitt í tilefni af framkvæmd sem telst vera ólögmæt. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunar­­úrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting þvingunarúrræða sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum og fylgja þarf meginreglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að málefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðun.

Hin kærða ákvörðun embættis byggingarfulltrúa var studd þeim rökum að öryggis- og almanna­­hagsmunum sé ekki raskað með hinni umdeildu girðingu, enda valdi hún ekki hættu eða sé skaðleg heilsu nágranna.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að ákvörðun byggingarfulltrúa um að falla frá beitingu þvingunarúrræða vegna girðingar á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63 og að aðhafast ekki frekar í málinu sé studd haldbærum rökum og ekki verður séð að umdeildar framkvæmdir raski almannahagsmunum. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar af þeim sökum hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. september 2024 um að falla frá áformum um beitingu þvingunarráðstafana gagnvart lóðarhöfum Laugarásvegar 63 vegna girðingar á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63.

98/2022 Leiðhamrar

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 16. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræð-ingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. ágúst 2022 um að hafa ekki frekari afskipti af máli vegna girðingar á lóðamörkum Leiðhamra 52 og 54.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Leiðhömrum 52, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. ágúst 2022 að hafa ekki frekari afskipti af máli vegna girðingar á lóðarmörkum Leiðhamra 52 og 54. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 13. september 2022.

Málavextir: Árið 2021 gerðu lóðarhafar Leiðhamra 52 og 54 í Reykjavík með sér munnlegt samkomulag um að reist yrði girðing á mörkum lóðanna. Með tölvupósti til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar óskaði kærandi eftir því að byggingarfulltrúi stöðvaði framkvæmdir á Leiðhömrum 54 þar sem hæð girðingar færi yfir leyfileg mörk. Barst honum svar frá borgaryfirvöldum 12. janúar 2022 þar sem fram kom að bréf yrði sent á lóðarhafa Leiðhamra 54 og honum gert að virða ákvæði byggingarreglugerðar. Í tölvupósti frá borgaryfirvöldum 31. s.m. kom fram að lóðarhafi Leiðhamra 54 ætlaði að leggja fram tillögu að lækkaðri girðingu á lóðarmörkum.

Kærandi sendi borgaryfirvöldum erindi 22. febrúar 2022 þess efnis að lóðarhafi Leiðhamra 54 hefði ekki staðið við að lækka girðinguna nema að hluta. Kærandi krafðist þess að Reykjavíkurborg hlutaðist til um aðgerðir þar sem ekki hefði verið staðið við samkomulag aðila. Ítrekaði kærandi erindi sitt 2. og 5. maí, 8. júní og 8. ágúst s.á. Með tölvupósti 9. ágúst 2022 var kæranda tilkynnt að umrædd girðing væri í samræmi við gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Vegna hæðarmunar á lóðarmörkum skv. útgefnu lóðarblaði væri það mat byggingarfulltrúa að miða bæri við hæð girðingar þeim megin lóðarmarka sem liggi hærra í landi. Hygðist byggingarfulltrúi því ekki hafa frekari afskipti af málinu.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 tiltaki þau minniháttar mannvirki og framkvæmdir sem séu undanþegnar byggingarleyfi. Samkvæmt e-lið ákvæðisins séu skjólveggir og girðingar undanþegin byggingarleyfi í nánar tilgreindum tilvikum. Samkvæmt 3. mgr. gr. 7.2.3. reglugerðarinnar séu girðingar eða skjólveggir á lóðamörkum þó alltaf háðir samþykki beggja lóðarhafa, óháð hæð girðingar eða skjólveggjar. Skuli slíks samþykkis aflað áður en hafist sé handa við smíði girðingar eða skjólveggjar og sé ákvæðið fortakslaust.

Samkvæmt upphaflegu hæðarplani sé lóð Leiðhamra 52 1,3 m hærri en lóð Leiðhamra 54, en einnig sé nokkur hæðarmunur innan lóðar nr. 52 þannig að suðvestur og suðaustur-hlutar lóðarinnar séu lægri. Af þeirri ástæðu hafi verið gert ráð fyrir því í munnlegu samkomulagi lóðarhafa að girðingin myndi lækka til beggja enda. Girðingin í suðaustur, sem snúi að götu, hafi verið lækkuð af lóðarhafa Leiðhamra 54 til samræmis við upphaflegt munnlegt samkomulag og sé nú undir leyfilegum hæðarmörkum til að teljast undanþegin byggingarleyfi samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Eftir standi staurarnir sem séu hærri en 1,8 m. Girðingin í suðaustur hafi þó ekki verið lækkuð að fullu til samræmis við munnlegt samkomulag. Þá sé girðingin til suðvesturs hærri en 1,8 miðað við hæð lóðar nr. 52. Samkvæmt fyrrnefndum e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð sé hún því of há til þess að vera undanskilin byggingarleyfi, enda liggi umrædd girðing á mörkum lóða nr. 52 og 54. Ekki liggi fyrir samþykki kæranda um að svo há girðing verði reist og sé skilyrði 3. mgr. gr. 7.2.3. reglugerðarinnar ekki heldur uppfyllt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Að mati borgaryfirvalda er umrædd girðing í samræmi við gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og því hafi ekki verið ástæða til frekari afskipta í málinu af hálfu byggingarfulltrúa. Vegna hæðarmunar á lóðamörkum, sbr. útgefið hæðarblað, beri að miða við hæð girðingar þeim megin lóðamarka sem liggi hærra í landi. Það komi fram í skoðunarskýrslu byggingarfulltrúa, dags. 18. maí 2022.

Viðbótarathugasemdir: Kærandi mótmælir mælingu þeirri sem fjallað sé um í skoðunarskýrslu byggingarfulltrúa, dags. 18. maí 2022. Telji kærandi að notast hafi verið við grunnpunkta sem gefi ekki rétta mynd af hæð girðingarinnar. Hvorki kærandi né fulltrúi á hans vegum hafi verið viðstaddir mælinguna. Þá hafi honum ekki verið gefið færi á því að koma að athugasemdum sínum við þessa mælingu eða skoðunarskýrslu, hvorki á meðan skoðunin hafi farið fram né síðar í ferlinu. Kærandi hafi raunar ekki séð umrædda skoðunarskýrslu fyrr en með tölvupósti frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 31. janúar 2023. Ákvörðun byggingarfulltrúa hafi þar af leiðandi verið tekin án þess að kæranda hafi verið gefinn kostur á því að tjá sig um þetta veigamikla atriði. Málsmeðferð hafi með þessu farið í bága við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 13. gr. sömu laga um andmælarétt. Að öðru leyti árétti kærandi fyrri málsrök sín um að ákvörðunin sé ekki í samræmi við ákvæði e-liðar gr. 2.3.5. og 3. mgr. gr. 7.2.3. byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna girðingar á lóðamörkum Leiðhamra 52 og 54.

 Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Ákvörðun um beitingu nefndra þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis og heilbrigðishagsmunum. Ekki verður talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða gagnvart þriðja aðila vegna einkaréttarlegra hagsmuna, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja slíka hagsmuni. Þótt beiting sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun að vera studd efnislegum rökum.

Auk mannvirkja taka lög nr. 160/2010 m.a. til gróðurs á lóðum, frágangs og útlits lóða og til girðinga í þéttbýli, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Á grundvelli 60. gr. sömu laga hefur verið sett byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd þeirra og er þar m.a. að finna ákvæði um girðingar. Í gr. 7.2.3. reglugerðarinnar er kveðið á um að hæð girðinga á lóðum skuli vera í samræmi við skipulagsskilmála og afla skuli byggingarleyfis nema framkvæmdirnar séu undanþegnar slíku leyfi. Þá sé girðing eða skjólveggur á mörkum lóða alltaf háður samþykki beggja lóðarhafa óháð hæð girðingar eða skjólveggjar og leita skuli samþykkis áður en hafist sé handa við smíði girðingar eða skjólveggjar. Í gr. 2.3.5. reglugerðarinnar er mælt fyrir um minniháttar mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarleyfum enda sé hún í samræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði reglugerðarinnar. Samkvæmt e-lið ákvæðisins er lóðarhöfum samliggjandi lóða heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingar eða skjólveggi allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina. Miða skal við jarðvegshæð lóðar sem hærri er ef hæðarmunur er á milli lóða á lóðarmörkum.

Hin kærða ákvörðun um að hafa ekki frekari afskipti af málinu var studd þeim rökum að umrædd girðing væri í samræmi við gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Vegna hæðarmunar á lóðamörkum, sbr. útgefið hæðarblað, bæri að miða við hæð girðingar þeim megin lóðarmarka sem lægi hærra í landi. Meðal gagna í máli þessu er skoðunarskýrsla starfsmanna borgaryfirvalda, dags. 18. maí 2022. Í henni kemur fram að kvörtun hafi borist frá eiganda Leiðhamra nr. 52 um að girðing á lóðarmörkum við lóð nr. 54 væri of há og ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Í kvörtuninni hefði komið fram að samkomulag væri milli aðila um að setja upp girðingu á lóðamörkum en hæð hennar væri umfram 1,80 m. Farið hefði verið á vettvang og mæling framkvæmd. Girðingin hafi hæst reynst vera 1,77 m. Samkvæmt því sé girðingin undanþegin byggingarleyfi, sbr. greint ákvæði reglugerðarinnar.

Þótt munnlegt samkomulag hafi verið um framkvæmdina uppfyllti það ekki þær formkröfur sem gerðar eru í áðurnefndum e-lið gr. 2.3.5., sbr. og 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð. Í því ljósi hefði byggingarfulltrúa verið rétt að beina því til lóðarhafa að samkomulagið yrði gert skriflegt svo leggja mætti réttan grundvöll að rannsókn málsins. Hefði byggingafulltrúa því verið rétt að rannsaka málið betur að þessu leyti til. Hvað sem þessu líður hafa stjórnvöld við matskenndar ákvarðanir sem þessar alla jafna nokkuð svigrúm. Er og til þess að líta að þvingunarúrræðum mannvirkjalaga verður, sem svo áður segir, fyrst og fremst beitt til gæslu almannahagsmuna. Að þessu virtu verður framangreindu mati byggingarfulltrúa ekki hnekkt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. ágúst 2022 um að hafa ekki frekari afskipti af máli vegna girðingar á lóðamörkum Leiðhamra 52 og 54.

151/2018 Bæjargarður

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 5. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 151/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 30. ágúst 2018 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa girðingu kringum fótboltavöll í Bæjargarði í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. desember 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Túnfit 1, Garðabæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 30. ágúst 2018 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa girðingu kringum fótboltavöll í Bæjargarði í Garðabæ. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og jafnframt að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 10. janúar 2019.

Málavextir: Hinn 3. mars 2017 tóku gildi breytingar á deiliskipulagi skóla- og íþróttasvæðis við Ásgarð og deiliskipulagi Bæjargarðs í Garðabæ vegna tiltekinna íþróttamannvirkja. Í kjölfarið samþykkti bæjarstjórn 18. maí s.á. umsókn bæjarverkfræðings um leyfi til framkvæmda við gerð tveggja nýrra æfingavalla og til breytinga á núverandi æfingavelli á Ásgarðssvæði og í Bæjargarði. Var framkvæmdaleyfi gefið út 19. s.m. Með bréfi, dags. 29. ágúst s.á., fór kærandi fram á það við úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að tekin yrði afstaða til þess hvort framkvæmdirnar væru háðar byggingarleyfi, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hinn 7. nóvember s.á. kvað nefndin upp úrskurð í máli nr. 96/2017 þess efnis að framkvæmdirnar væru ekki háðar byggingarleyfi að öðru leyti en því að girðingar umhverfis íþróttavelli á svæðinu væru háðar byggingarleyfi.

Umsókn um byggingarleyfi fyrir nefndum framkvæmdum var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. ágúst 2018 og mun það hafa verið gefið út sama dag.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að byggingarfulltrúi hafi ekki látið kæranda vita um útgáfu byggingarleyfisins þrátt fyrir að kærandi hafi ítrekað lýst áhuga á því. Byggingar­­­­leyfið hafi auk þess hvergi verið birt almenningi, hvorki á vef Garðabæjar né á skrifstofu bæjarins. Það hafi nánast verið fyrir tilviljun að kærandi hafi komist að tilvist leyfisins 13. desember 2018 á fundi hjá Garðabæ um annað mál.

Í byggingarleyfinu sé girðingunni lýst sem „grindverki“ þó að hönnunargögn lýsi henni sem 2,0 m hárri stálrimlagirðingu. Á þeim gögnum sem lágu til grundvallar byggingarleyfinu sé ekki hægt að sjá að byggingarfulltrúi hafi með neinum hætti fjallað um hvort girðingin væri í samræmi við deiliskipulag eins og kærandi hafi farið fram á árið áður. Reyndar sé ekki að sjá á gögnunum að fjallað hafi verið um efni málsins á nokkurn hátt. Kærandi hafi sent byggingarfulltrúa fyrirspurn um tvö efnisatriði byggingarleyfisins vegna svara skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins. Annars vegar hafi komið fram hjá skipulagsfulltrúa að deiliskipulag heimili ekki að girðing sé reist kringum umrædda boltaflöt. Hins vegar sé um að ræða svar frá skipulagsfulltrúanum þar sem fram komi að boltaflötin verði ekki lokuð almenningi, en byggingarleyfið sé fyrir 2,0 m hárri stálrimlagirðingu með læstu hliði. Mun Ungmennafélagið Stjarnan hafa lyklavöld að umræddu hliði.

Afgreiðsla byggingarfulltrúa Garðabæjar á byggingarleyfi fyrir girðingu í Bæjargarði sé ekki í samræmi við kröfur laga um mannvirki nr. 160/2010. Bygging girðingarinnar hafi áður verið tekin fyrir af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna kæru kæranda. Hann hafi ítrekað við byggingarfulltrúa að hann teldi girðinguna ekki í samræmi við skipulagsáætlanir. Hann hafi vísað í skrifleg gögn frá skipulagsfulltrúa um að girðingin væri ekki í samræmi við deiliskipulag. Í 10. gr. mannvirkjalaga segi að sé mannvirki háð byggingarleyfi skuli byggingarfulltrúi leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á hvort framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Augljóslega hafi vafi leikið á því hvort byggingarleyfið samræmdist skipulagsáætlunum Garðabæjar. Í gögnum frá byggingar­­­­­fulltrúa sé hvergi að finna þá umsögn skipulagsfulltrúa sem lög kveði á um. Verði því að álykta að hann hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni og útgáfa byggingarleyfisins hafi því ekki uppfyllt kröfur laga.

Ekki hafi verið gengið úr skugga um að aðaluppdráttur uppfyllti ákvæða laga og reglugerða. Í 11. gr. mannvirkjalaga segi: „Ef mannvirki er háð byggingarleyfi skv. 9. gr. fer byggingarfulltrúi eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun yfir byggingarleyfisumsókn og gengur úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laga þessara og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra og að tilkynnt hafi verið um hönnunarstjóra mannvirkisins.“ Samkvæmt ákvæðinu hafi byggingafulltrúa m.a. borið að staðfesta að girðingin væri í samræmi við skipulagsáætlanir Garðabæjar. Í gögnum frá byggingarfulltrúa sé hvergi að sjá að hann hafi sinnt þessari skyldu. Verði því að álykta sem svo að hann hafi ekki gert það og útgáfa byggingarleyfisins uppfylli því ekki kröfur laga.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að við útgáfu byggingar­leyfisins hafi þess verið gætt að umrædd framkvæmd væri í samræmi við skipulag sem gildi fyrir Bæjargarð. Í f-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram að girðingar allt að 1,8 m að hæð séu undanþegnar byggingarleyfi. Í máli þessu sé umrædd girðing 2,0 m að hæð og sé tilgangur hennar margþættur, en fyrst og fremst sé verið að horfa til notagildis vallarins og öryggissjónarmiða til að vernda völlinn gegn ágangi og hugsanlegum skemmdum á þeim tíma sem hann eigi ekki að vera í notkun.

Samkvæmt breytingu á deiliskipulagi Bæjargarðs frá árinu 2006 komi fram í skipulags­skilmálum að gert sé ráð fyrir að afmarkaður verði sérstakur gervigrasvöllur á svæðinu. Eðlilegt sé að líta svo á m.t.t. þess hvernig almennt sé staðið að afmörkun gervigrasvalla að það sé gert með girðingu. Á skýringarmyndum sem kynntar hafi verið hafi 2,0 m há girðing verið sýnd umhverfis gervigrasvöllinn og í þeim tilvikum sé um byggingar­leyfis­s­kylda framkvæmd að ræða. Við útgáfu á byggingarleyfi hafi byggingafulltrúi horft til þess að skipulagsskilmálar kveði á um afmörkun vallarins og lagt til grundvallar skýringarmyndir er sýni væntanlega girðingu. Við mat á hæð girðingarinnar sé ljóst að 2,0 m há girðing, eins og hér um ræði, geti ekki varðað hagsmuni annarra en sveitarfélagsins sem leyfisumsækjanda, en um sé að ræða gegnsæja stálrimlagirðingu. Í því sambandi sé bent á að í 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé heimild fyrir sveitarstjórn til að falla frá breytingu á deiliskipulagi þegar um svo óverulegt frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp og innsýn. Þetta sé enn frekar áréttað í gr. 5.8.4. í skipulags­reglugerð nr. 90/2013. Hefði því aldrei þurft að koma til breytinga á deiliskipulagi vegna hæðar girðingarinnar.

Vettvangsskoðun: Úrskurðanefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 31. janúar 2019 að viðstöddum kæranda og fulltrúum bæjaryfirvalda.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Gögn málsins bera með sér að kæranda hafi ekki verið tilkynnt um samþykki umrædds byggingarleyfis. Gera verður ráð fyrir að kæranda hafi fyrst orðið kunnugt um hið kærða byggingarleyfi fyrri hluta desembermánaðar 2018, en um miðjan mánuðinn sendi hann byggingarfulltrúa Garðabæjar tölvupóst þar sem óskað var eftir gögnum sem lágu til grundvallar ákvörðuninni. Barst kæran samkvæmt því innan kærufrests.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Hefur þetta ákvæði verið skýrt í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Við mat á því hvort kærandi eigi þeirra hagsmuna að gæta vegna umdeilds byggingarleyfis verður að líta til þess að heimiluð 2,0 m há girðing er í sjónlínu frá fasteign kæranda og í rúmlega 55 m fjarlægð. Snertir byggingarleyfið því sérstaklega grenndarhagsmuni kæranda með tilliti til útsýnis og verður honum játuð kæruaðild að máli þessu skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þegar af þeirri ástæðu er skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, er heimilar að vikið sé frá deiliskipulagi ef hagsmunir nágranna skerðast í engu við heimilaða framkvæmd, ekki uppfyllt.

Eins og fram er komið var með hinu kærða byggingarleyfi heimilað að reisa 2,0 m girðingu umhverfis fótboltavöll og er sú framkvæmd byggingarleyfisskyld, sbr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og f-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Bar byggingarfulltrúa því að ganga úr skugga um að umrædd girðing ætti stoð í gildandi deiliskipulagi áður en byggingaráform voru samþykkt og byggingarleyfi gefið út, sbr. 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. gr. laga um mannvirki. Í gildandi deiliskipulagi Bæjargarðs er ekki að finna áform um að reisa girðingu umhverfis áðurnefndan fótboltavöll og þar af leiðandi engar upplýsingar um hæð hennar. Skorti því lagaskilyrði fyrir samþykki og útgáfu hins kærða byggingarleyfis. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 30. ágúst 2018 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa girðingu  kringum fótboltavöll í Bæjargarði í Garðabæ.

116/2017 Furugerði

Með

Árið 2018, föstudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2017, kæra vegna ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík um að aðhafast ekki vegna skjólveggjar á lóðarmörkum Furugerðis 5 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. október 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi íbúðar að Furugerði 5, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. október 2017 að aðhafast ekki vegna erindis kæranda varðandi skjólvegg á lóðarmörkum Furugerðis 5. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Umsögn Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 10. október 2017.

Málavextir: Á árunum 2004-2005 mun hafa verið reistur skjólveggur á lóðarmörkum Furugerðis 5 í Reykjavík án þess að gefið hafi verið út byggingarleyfi. Hinn 5. október 2017 sendi kærandi tölvupóst til byggingarfulltrúans í Reykjavík og gerði athugasemdir við að skjólveggurinn hafi verið reistur án tilskilins leyfis. Í svari byggingarfulltrúa við erindi kæranda sama dag kom fram að hann taldi sér ekki heimilt að beita íþyngjandi úrræðum vegna skjólveggjarins.

Málsrök kæranda: Kærandi gerir athugasemd við að reistur hafi verið skjólveggur á lóðarmörkum Furugerðis 5 án leyfis. Vísar kærandi til þágildandi 67. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um að leita skuli samþykkis byggingarnefndar á gerð og frágangi girðingar ef hún sé hærri en 1,80 m.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Að mati borgaryfirvalda hafi embætti byggingarfulltrúa verið fullkomlega heimilt að afgreiða málið með þeim hætti sem gert var. Fram hafi komið í málinu að skjólveggurinn hafi staðið á lóðinni í fjölda ára án afskipta byggingaryfirvalda auk þess sem allir núverandi eigendur hafi keypt sína eignarhluta eftir að skjólveggnum hafi verið komið fyrir. Ekki sé hægt að sjá að gerðar hafi verið athugasemdir við skjólvegginn fyrr en nú og ekki sé loku fyrir það skotið að hann hafi verið reistur með samþykki aðliggjandi lóðarhafa á sínum tíma. Í öllu falli sé ljóst að þeir sem hagsmuni kunni að hafa að gæta í málinu hafi þannig sýnt af sér tómlæti vegna byggingar og stöðu veggjarins á lóðinni, en eðlilegt hefði verið að hafa uppi kröfu um aðgerðir í málinu á þeim tíma sem skjólveggurinn hafi verið reistur. Hvorki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að umræddur skjólveggur verði fjarlægður né að almannahagsmunir knýji á um það. Ekki sé hægt að fallast á þá röksemd kæranda að möguleg slysahætti stafi af veggnum. Við ákvörðun vísaði byggingarfulltrúi til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að hafna því að beita þvingunarúrræðum í tilefni erindis kæranda vegna skjólveggjar á lóðarmörkum Furugerðis 5.

Ef ráðist hefur verið í byggingarskylda framkvæmd án tilskilins leyfis er byggingarfulltrúa heimilt að stöðva framkvæmdir eða krefjast úrbóta að viðlögðum dagsektum samkvæmt 55. og 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sbr. og gr. 2.9.1. og 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé í hverju tilviki metin, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við ef gengið er gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki ákvæðum laga um mannvirki.

Hin kærða ákvörðun var studd þeim rökum að sameigendur lóðar Furugerðis 5 og lóðarhafar aðliggjandi lóða hafi sýnt af sér tómlæti, en ekki sé vitað til þess að núverandi eigendum skjólveggjarins hafi verið kunnugt um skort á leyfi eða samþykki er þeir hafi keypt eignir sínar, ekki væri fyrir hendi brýn nauðsyn á að fjarlægja skjólvegginn og ekki væri loku fyrir það skotið að samþykki nágranna hafi legið fyrir er veggurinn hafi verið reistur. Með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins taldi byggingarfulltrúi sér því ekki heimilt að beita íþyngjandi úrræðum. Lágu samkvæmt þessu efnisleg rök að baki hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. október 2017 um að aðhafast ekki vegna skjólveggjar á lóðarmörkum Furugerðis 5.

96/2017 Bæjargarður íþróttasvæði Garðabær

Með

Árið 2017, þriðjudaginn 7. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2017, beiðni um að úrskurðað verði um það hvort framkvæmdir við íþróttasvæði í Bæjargarði, Garðabæ, séu háðar byggingarleyfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, fór eigandi, Túnfit 1, Garðabæ, fram á að tekin verði afstaða til þess hvort framkvæmdir við íþróttasvæði í Bæjargarði, Garðabæ, séu háðar byggingarleyfi.

Mál þetta sætir meðferð skv. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Málsatvik og rök: Hinn 3. mars 2017 tóku gildi breytingar á deiliskipulagi skóla- og íþróttasvæðis við Ásgarð og deiliskipulagi Bæjargarðs í Garðabæ vegna tiltekinna íþróttamannvirkja. Í kjölfarið samþykkti bæjarstjórn hinn 18. maí 2017 umsókn bæjarverkfræðings um leyfi til framkvæmda við gerð tveggja nýrra æfingavalla og til breytinga á núverandi æfingavelli á Ásgarðssvæði og í Bæjargarði. Var framkvæmdaleyfi gefið út 19. s.m. Eru þar heimilaðar framkvæmdir við jarðvinnu, yfirborðsfrágang og gerð lagna. Í leyfinu er tekið fram að það nái ekki til breikkunar núverandi æfingavallar og tilfærslu ljósamastra, sem deiliskipulagsbreyting geri ráð fyrir.

Álitsbeiðandi bendir á að framkvæmdin sem um ræði sé bygging á upplýstum gervigrasvelli þar sem stundaðar verði skipulagðar knattspyrnuæfingar. Samkvæmt gr. 2.3.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2010 séu íþróttasvæði af þessu tagi byggingarleyfisskyld. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé það meðal skilgreindra markmiða laganna að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi, endingu, útlit og hagkvæmni bygginga og annarra mannvirkja sé fullnægt. Þar sem Garðabær hafi ekki aflað byggingarleyfis fyrir byggingu gervigrasvallarins sé kröfum um slíkt eftirlit ábótavant. Þá geri síðustu útboðsteikningar Garðabæjar ráð fyrir 2 m hárri girðingu umhverfis völlinn, en samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé slík girðing byggingarleyfisskyld, enda falli hún ekki undir undanþágu f-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð.

Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að umræddar framkvæmdir í Bæjargarði feli í sér mótun svæðisins fyrir íþróttaiðkun og almenna útivist með lagningu gervigrasvallar og blakvalla til almenningsnota. Framkvæmdirnar geti ekki talist byggingarleyfisskyldar samkvæmt lögum nr. 160/2010, enda sé ekki um það að ræða að verið sé að reisa mannvirki í þeim skilningi að á svæðinu verði jarðföst hús eða byggingar. Einstakir eða afmarkaðir hlutar framkvæmdanna séu ekki þess eðlis að afla þurfi byggingarleyfis vegna þeirra.

Þá sé bent á að í 2. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi komi fram að við veitingu framkvæmdaleyfis eigi m.a. að tryggja faglegan undirbúning framkvæmdanna, gæta þess að framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlanir og tryggja virkt eftirlit með því að framkvæmdir séu í samræmi við útgefið leyfi.

Niðurstaða: Í 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er mælt fyrir um að leiki vafi á því hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi skuli leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um það álitaefni. Samkvæmt texta ákvæðisins er aðild að slíku máli ekki bundin við umsækjanda og hlutaðeigandi sveitarstjórn, svo sem gert er í 8. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hvað varðar óvissu um framkvæmdaleyfisskyldu. Verður aðild að máli þessu því ekki einskorðuð við nefnda aðila heldur við þá sem hagsmuna eiga að gæta í tilefni af fyrirhugaðri framkvæmd. Málshefjandi býr í næsta nágrenni við umrætt íþróttasvæði og telst því hafa lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um mannvirki gilda þau um öll mannvirki sem reist eru á landi, ofanjarðar eða neðan, innan landhelginnar og efnahagslögsögunnar. Lögin gilda um alla þætti mannvirkja, þ.m.t. lagnir, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. Þau gilda einnig um gróður á lóðum, frágang og útlit lóða, girðingar í þéttbýli, skilti, möstur, þ.m.t. fjarskiptamöstur, móttökudiska og tengivirki, gáma og leik- og íþróttasvæði. Í 1. mgr. 9. gr. nefndra laga er kveðið á um að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. sbr. 2. mgr., eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Undanþegin byggingarleyfi eru þó fráveitumannvirki, dreifi- og flutningskerfi hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna, fjarskipta og breytingar á slíkum mannvirkjum. Auk þess getur ráðherra samkvæmt ákvæðinu kveðið á um það í reglugerð að minniháttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar skuli undanþiggja byggingarleyfi.

Í 60. gr. laganna er tekið fram að ráðherra setji, að tillögu Mannvirkjastofnunar og í samráði við hagsmunaaðila, reglugerðir sem nái til alls landsins þar sem nánar sé kveðið á um framkvæmd laganna. Í reglugerðinni skuli kveðið á um tiltekin atriði, sem talin eru upp í þrettán tölusettum liðum. Í 10. töluliðnum er tekið fram að í reglugerðinni skuli kveðið á um frágang leiksvæða, íþróttasvæða og annarra opinna svæða.

Í byggingarreglugerð nr. 112/2010 eru ákvæði um girðingar lóða í gr. 7.2.3., þar sem tekið er fram að afla skal byggingarleyfis vegna girðinga og skjólveggja á lóðum nema framkvæmdirnar séu undanþegnar byggingarleyfi skv. f-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. reglugerðarinnar, en þar kemur fram að skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m séu undanþegin byggingarleyfi. Enn fremur girðingar eða skjólveggir sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og eru ekki hærri en sem nemur fjarlægðinni að lóðarmörkum.

Þær framkvæmdir sem heimilaðar eru með umræddu framkvæmdaleyfi fela m.a. í sér að reist verður 2 m há girðing umhverfis íþróttavelli, svo sem fram kemur í verklið 6.6 í útboðslýsingu, sem vísað er til í leyfinu. Fellur sá hluti framkvæmdanna ekki undir undanþáguákvæði f-liðar 1. mgr. gr. 2.3.2. í byggingarreglugerð og er því um að ræða byggingarleyfisskylda framkvæmd. Aðrar framkvæmdir sem leyfið heimilar eru hins vegar ekki háðar byggingarleyfi samkvæmt framangreindum ákvæðum laga um mannvirki og byggingarreglugerðar, sbr. og 13. gr. skipulagslaga um framkvæmdaleyfisskyldu.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir við íþróttasvæðið í Bæjargarði, Garðabæ, skv. framkvæmdaleyfi útgefnu 19. maí 2017 eru ekki háðar byggingarleyfi, að öðru leyti en því að girðingar umhverfis íþróttavelli á íþróttasvæðinu eru háðar byggingarleyfi.

 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

61/2015 Sævangur

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
 
Fyrir var tekið mál nr. 61/2015, kæra á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júlí 2015, sem barst nefndinni 5. ágúst s.á., kærir G, Sævangi 7, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og var fallist á þá kröfu í úrskurði uppkveðnum 28. ágúst 2015.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Hafnarfirði 29. apríl 2015 voru teknar fyrir kvartanir sem borist höfðu vegna framkvæmda á lóðinni nr. 5 við Sævang, við lóðarmörk Sævangs 7. Var lóðarhafa Sævangs 5 gert að stöðva framkvæmdir þar sem þær samræmdust ekki deiliskipulagi og samþykktum uppdráttum, auk þess sem hafa skyldi samráð við nágranna um frágang á lóðamörkum.

Hinn 30. júní 2015 sótti lóðarhafi Sævangs 5 um byggingarleyfi til að reisa sólpall og skjólveggi skv. teikningum, dags. 24. s.m. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. júlí 2015 og afgreiðslu hennar frestað með vísan til athugasemda. Nýjar teikningar voru lagðar fram 13. júlí s.á. og hinn 22. s.m. samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina. Hefur sú samþykkt verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að gert sé ráð fyrir að staurar og sólpallur á lóð Sævangs 5 verði nær lóðamörkum en byggingarreglugerð heimili. Þá skuli sorpskýli ekki vera á lóðamörkum þar sem það hindri útsýni frá innkeyrslu Sævangs 7. Frárennslislagnir frá Sævangi 7 liggi rétt innan við lóðarmörkin og ógerlegt gæti orðið að komast að þeim vegna fyrirhugaðra mannvirkja. Gluggar séu á bílskúr Sævangs 7, u.þ.b. 1,5 m frá lóðamörkum, og eldvarnarkröfum sé ekki fullnægt þegar timburmannvirki standi svo nálægt skúrnum.

Kærandi hafi ítrekað komið mótmælum sínum gegn framkvæmdinni á framfæri við byggingarfulltrúann í Hafnarfirði. Þess hafi þó ekki verið getið í fundarbókun frá 22. júlí 2015 er framkvæmdin var samþykkt. Hins vegar hafi komið þar fram að samþykki íbúa að Sævangi 3 og 8 lægi fyrir, en þeir hefðu engra sýnilegra hagsmuna að gæta varðandi framkvæmdina. Þá sé bókun byggingarfulltrúa mjög óljós varðandi það hvaða teikningar hafi verið samþykktar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er skírskotað til þess að hinn 16. desember 2009 hafi byggingarfulltrúi samþykkt erindi lóðarhafa að Sævangi 5 er hafi m.a. lotið að frágangi lóðarinnar. Kærandi hafi ekki gert athugasemd við þá samþykkt. Er hin kærða ákvörðun hafi verið tekin hafi samþykktur uppdráttur frá 2009 verið hafður til hliðsjónar, ásamt deiliskipulagi svæðisins. Þá sé vísað til þess að á mæliblaði komi fram að engar kvaðir séu á lóðum hvað varði lagnir eða gröft.

Meginbreytingin sem í hinni kærðu ákvörðun felist sé sú að heitur pottur sé færður til á lóðinni, bílastæðum á lóðinni fjölgað úr tveimur í þrjú og staðsetning sorpskýlis sé færð inn á lóðaruppdrátt. Á samþykktum uppdrætti frá 22. júlí 2015 sé ekki gert ráð fyrir girðingu á lóðarmörkum heldur komi stakir staurar í stað þeirrar girðingar sem gert hafi verið ráð fyrir árið 2009 og síðar í breyttri útfærslu árið 2015. Á staurunum sé hengibúnaður til að setja upp tjöld á góðum dögum. Þessi útfærsla sé á 7,5 m kafla á lóðamörkum Sævangs 5 og 7. Bifreiðageymsla Sævangs 7 sé í 1,5 m fjarlægð frá lóðamörkunum en á henni sé röð glugga sem staðsettir séu upp undir loftplötu bílskúrsins. Ekki sé fyrirsjáanleg nein birtu- eða útsýnisskerðing að Sævangi 5 vegna framkvæmdanna.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að teikningar sem sýnt hafi framtíðarskipulag lóðar Sævangs 5 hafi verið samþykktar árið 2009. Kærandi hafi þá lýst andstöðu sinni vegna staðsetningar á heitum potti en ekki hreyft öðrum mótmælum. Ekkert hafi orðið af framkvæmdum þá, en ákveðið hafi verið að hefja þær vorið 2015. Leitast hafi verið við að ná samkomulagi við kæranda og hafi leyfishafi talið að samkomulag hefði tekist í apríl 2015. Það hafi verið handsalað og undirritað af beggja hálfu en kærandi hafi hins vegar neitað að afhenda það. Samkomulagið heimili leyfishafa að reisa trévegg á lóðamörkum, ákveðin hafi verið ný staðsetning á heitum potti og leyfishafi hafi samþykkt að greiða kostnað við að losa upp vegg og pall á lóð sinni og ganga frá tréverki ef bilun yrði á frárennslislögn frá Sævangi 7 og ekki yrði komist að lögninni með öðrum hætti.

Eftir að framkvæmdir hafi verið stöðvaðar á lóðinni hafi enn verið reynt að ná samkomulagi við kæranda, en án árangurs. Því hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum og hafi það verið veitt 22. júlí 2015. Samkvæmt samþykktum uppdráttum séu nánast engin mannvirki á lóðamörkum, en sótt hafi verið um leyfi til að láta staura á lóðamörkunum standa svo hengja mætti á þá laus tjöld og nýta sólpallinn á sumardögum. Þá sé því mótmælt að sorpskýli á lóð Sævangs 5 hindri útsýni frá innkeyrslu Sævangs 7.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.

Auk mannvirkja taka lög nr. 160/2010 um mannvirki m.a. til gróðurs á lóðum, frágangs og útlits lóða og til girðinga í þéttbýli, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Á grundvelli 60. gr. sömu laga hefur verið sett byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd þeirra og er þar m.a. að finna ákvæði um girðingar og sorpskýli. Þá er fjallað um minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi í gr. 2.3.5. í reglugerðinni, sbr. einnig 1. mgr. 9. gr. nefndra laga.

Kveðið er á um í 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð að girðing eða skjólveggur á mörkum lóða sé alltaf háður samþykki beggja lóðarhafa, óháð hæð girðingar eða skjólveggs, og skal samþykkis leitað áður en hafist er handa við slíkar smíðar. Samkvæmt þeim uppdrætti sem samþykktur var 22. júlí 2015 er gert ráð fyrir sex staurum á lóðamörkum Sævangs 5 og 7. Staurarnir eru 1,4 m háir og er tekið fram á uppdrættinum að hægt verði „…að hengja tjöld á súlurnar á góðum dögum“. Úrskurðarnefndin er þeirrar skoðunar að eins og hér hátti til verði að telja að um skjólvegg eða girðingu sé að ræða í skilningi framangreinds reglugerðarákvæðis, þótt einungis hluti hans sé varanlega skeyttur við landið. Leyfishafi vísar til þess að samkomulag hafi tekist með lóðahöfum Sævangs 5 og 7 um að reisa mætti trévegg á lóðamörkum, en ekkert slíkt samkomulag liggur fyrir úrskurðarnefndinni. Verður því að miða við að samþykki lóðarhafa Sævangs 7 hafi ekki legið fyrir er hið kærða byggingarleyfi var veitt. Leyfið var því veitt í andstöðu við fortakslaust ákvæði byggingarreglugerðar.

Svo sem áður segir er fjallað um minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð, enda séu þær í samræmi við deiliskipulag. Kemur nánar fram í e-lið tilvitnaðs ákvæðis að pallur úr brennanlegu efni megi ekki vera nær lóðarmörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m. Með hinni kærðu ákvörðun var samþykkt að sólpallur á lóð Sævangs 5 nái að lóðarmörkum Sævangs 7 á nokkurra metra kafla og verður ráðið af málsgögnum að pallurinn verði úr timbri. Um sorpskýli á lóð gilda ákvæði gr. 6.12.8. í byggingarreglugerð sem kveða nánar á um gerð og frágang sorpskýla án þess að um staðsetningu þeirra innan lóðar sé kveðið. Lóðin á Sævangi 5 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulagið Íbúðarhverfi í Norðurbæ sem endurgert var á árinu 2012 og öðlaðist gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 26. september það ár. Í skipulagsskilmálunum kemur m.a. fram að lóðarhafi skuli hafa samráð við nágranna um frágang á sameiginlegum lóðamörkum þeirra og að sorpgeymslur skuli vera staðsettar þannig að ekki valdi óþægindum fyrir nágranna. Verður ekki séð að þess hafi verið gætt að leyfið væri í samræmi við nefnda skipulagsskilmála svæðisins.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun háða slíkum annmörkum að ekki verði komist hjá ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi sú ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

61/2009 Hellisgata

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 30. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 61/2009, krafa um að skorið verði úr vafa um hvort framkvæmdir við girðingu á mörkum lóðarinnar nr. 22 við Hellisgötu í Hafnarfirði séu háðar byggingarleyfi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. september 2009, er barst nefndinni 10. sama mánaðar, krefjast G, Garðavegi 2, L og A, Garðavegi 4 og B og S, Garðavegi 6 í Hafnarfirði, þess að úrskurðað verði að framkvæmdir við girðingu á mörkum lóðarinnar nr. 22 við Hellisgötu í Hafnarfirði, er snúa að Garðavegi, séu háðar byggingarleyfi.  Þá gerðu kærendur og kröfu um að allar frekari framkvæmdir á lóðinni yrði stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Ekki þótti tilefni til að fjalla sérstaklega um þá kröfu kærenda enda allar framkvæmdir yfirstaðnar er kæran barst nefndinni. 

Málavextir:  Vorið 2008 hófu lóðarhafar að Hellisgötu 22 framkvæmdir við girðingu á mörkum lóðar sinnar og bílastæða við Garðaveg.  Þar var fyrir 70 cm hár steinveggur en hann söguðu þau niður á um 210 cm bili, komu þar fyrir 160 cm háu opnanlegu hliði og settu timburgirðingu ofan á steinvegginn sem fyrir var.  Var framkvæmdum þessum lokið u.þ.b. ári seinna.  Gerðu kærendur athugasemdir vegna framkvæmdarinnar, bæði við lóðarhafa og skipulags- og byggingaryfirvöld.  Í tölvubréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til lóðarhafa að Hellisgötu 22, dags. 23. júní 2009, veitti hann leyfi til að opna girðinguna og setja á hana hlið.  Þessu vildu kærendur ekki una og á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 11. ágúst 2009 var eftirfarandi fært til bókar:  „Lögð fram athugasemd frá íbúum við Garðaveg varðandi leyfi fyrir hliði frá Hellisgötu 22 út á bílastæði við Garðaveg, dags. 27.07.2009.  Erindið var til umfjöllunar á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 29.07.2009, sem vísaði því til skipulags- og byggingarráðs.  Lagðir fram minnispunktar sviðsstjóra skipulags- og byggingarfulltrúa og byggingarfulltrúa, dags. 06.08.2009.  Þar sem athugasemd snéri að embættisfærslu byggingarfulltrúa vék hann af fundi við afgreiðslu þess.  Skipulags- og byggingarráð telur hliðið ekki byggingarleyfisskylt, en vísar atriðum sem snúa að bílastæðamálum og umferðaröryggi til undirbúningshóps umferðarmála.“ 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að framkvæmd sú er um ræði sé byggingarleyfisskyld og hana hafi borið að grenndarkynna næstu nágrönnum.  Vísað sé til ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sérstaklega ákvæða gr. 67 um girðingar á lóðamörkum. 

Kærendur halda því fram að með framkvæmdinni sé gengið á áralangan rétt þeirra til hagnýtingar bílastæða við Garðaveg, hætta sé á eignatjóni ásamt því að slysahætta aukist.  Engin sjáanleg þörf sé fyrir hlið á girðingunni, aðkoma að Hellisgötu 22 sé frá þeirri götu og þar séu bílastæði er rétthafar þeirrar lóðar geti nýtt. 

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er vísað til þess að almennt sé ekki sótt um leyfi til að setja hlið á girðingar er snúi út að götu eða almennu bílastæði.  Væri því brotin jafnræðisregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ef sú krafa hefði verið gerð í tilviki því er hér um ræði. 

Bent sé á álit undirbúningshóps um umferðarmál þar sem fram komi að hin umdeilda framkvæmd leiði hvorki til skerðingar á bílastæðum né hafi í för með sér aukna slysahættu.  Þá séu bílastæðin við Garðaveg í eigu og umsjá Hafnarfjarðarbæjar og hafi íbúar við götuna engan lögvarinn rétt sem útiloki aðra frá því að leggja þar bifreiðum.  Sérstaklega sé bent á að 67. gr. byggingarreglugerðar áskilji samþykki beggja lóðarhafa ef girðing sé reist á lóðamörkum og sé það samþykki til staðar, sbr. leyfi skipulags- og byggingarfulltrúa þar að lútandi. 

Ef talið væri hins vegar að byggingarleyfis hefði verið þörf í hinu umdeilda tilviki þá hafi skipulags- og byggingarfulltrúi veitt skriflegt leyfi í tölvupósti 23. júní 2009 og sé það á valdsviði hans að gefa slíkt leyfi samkvæmt staðfestri samþykkt um afgreiðslur byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 11. ágúst 2005. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að er þau hafi fest kaup á fasteigninni að Hellisgötu 22 hafi staðið á lóðarmörkum um 70 cm hár steinveggur.  Veggurinn hafi verið lítil fyrirstaða fyrir ung börn og í raun hafi garðurinn verið notaður sem göngustígur á milli Garðavegs og Hellisgötu.  Vegna þessa hafi verið ákveðið að setja girðingu ofan á vegginn.  Ástæður þess að sett hafi verið hlið á girðinguna hafi verið þær helstar að auðveldara sé þannig með öll aðföng heim að húsinu ásamt því að aðgengi sé betra þeim megin. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á að leyfi það sem byggingarfulltrúi veitti í tölvupósti hinn 23. júní 2009 geti talist byggingarleyfi í skilningi 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 enda var umrædd afgreiðsla byggingarfulltrúa hvorki lögð fram í skipulags- og byggingarráði né afgreidd í bæjarstjórn svo sem áskilið er í 4. gr. samþykktar um afgreiðslur byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 11. ágúst 2005.  Þvert á móti komst skipulags- og byggingarráð að þeirri niðurstöðu á fundi sínum hinn 11. ágúst 2009 að umdeilt hlið væri ekki byggingarleyfisskylt.  Liggur því ekki fyrir í máli þessu nein stjórnvaldsákvörðun er sætt getur kæru til úrskurðarnefndarinnar. 

Hins vegar er vafi uppi um það hvort umræddar framkvæmdir hafi verið háðar byggingarleyfi og gera kærendur kröfu til þess að úrskurðarnefndin skeri úr um þann vafa.  Á nefndin úrlausnarvald um það efni, án þess að fyrir liggi kæranleg stjórnvaldsákvörðun, sbr. 3. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Ber nefndinni samkvæmt tilvitnuðu ákvæði að taka erindi kærenda um þetta álitaefni til úrlausnar. 

Samkvæmt gr. 18.14 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skal á afstöðumynd aðaluppdrátta m.a. skrá númer lóðar og götuheiti og sýna aðkomu að lóð.  Þarf því að koma til skoðunar hvort ný eða breytt aðkoma að lóð leiði til þess að breyta þurfi byggingarleyfi húss en ekki liggur fyrir í máli þessu hvernig gerð sé grein fyrir aðkomu að lóðinni Hellisgötu 22 á samþykktum aðaluppdráttum.  Er rannsókn málsins áfátt að þessu leyti. 

Í 1. mgr. 67. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 segir að leita skuli samþykkis byggingarnefndar á gerð og frágangi girðingar sé hún hærri en 1,80 m eða nær lóðarmörkum en sem svari hæð hennar, mælt frá jarðvegshæð við girðinguna eða frá hæð lóðar á lóðamörkum sé hún meiri.  Þá segir ennfremur að girðing á mörkum lóða sé háð samþykki beggja lóðarhafa.  Ákvæði þetta verður að skilja svo að girðing sem sé nær lóðamörkum en sem nemi hæð hennar sé byggingarleyfisskyld, óháð afstöðu rétthafa aðliggjandi lóðar.  Þar að auki sé girðing á lóðamörkum háð samþykki beggja lóðarhafa en ekki verður fallist á að samþykki bæjaryfirvalda sem lóðarhafa geti jafngilt eða komið í stað þess samþykkis byggingarnefndar sem áskilið er í ákvæðinu. 

Þegar litið er til tilvitnaðra ákvæða byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og þeirra áhrifa sem umrædd girðing og hlið á henni getur haft á umferð og aðkomu að Hellisgötu 22 er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hinar umdeildu framkvæmdir séu byggingarleyfisskyldar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir á mörkum lóðarinnar nr. 22 við Hellisgötu í Hafnarfirði, er snúa að Garðavegi, eru háðar byggingarleyfi samkvæmt 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

__________________________     _________________________
Ásgeir Magnússon                                Þorsteinn Þorsteinsson

 

85/2005 Birnustaðir

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 14. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 86/2005, kæra á frávísun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 6. október 2005 á erindi eigenda fasteignar í landi Birnustaða í Súðavíkurhreppi varðandi girðingarframkvæmdir og gerð hliðs í grennd við nefnda fasteign. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. nóvember 2005, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kæra M og Þ fyrir sína hönd og G og Á, eigenda fasteignar í landi Birnustaða, Súðavíkurhreppi, frávísun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 6. október 2005 á erindi varðandi girðingarframkvæmdir og gerð hliðs í grennd við nefnda fasteign.  Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu afgreiðslu byggingarnefndar Súðavíkurhrepps. 

Málsatvik og rök:  Kærendur máls þessa munu hafa sent erindi til byggingarnefndar Súðavíkurhrepps á vordögum 2005 í tilefni af girðingarframkvæmdum og gerð hliðs af hálfu eigenda Birnustaða í grennd við fasteign kærenda.  Á fundi sínum hinn 20. maí 2005 afgreiddi nefndin erindið með svofelldri bókun:  „Rætt um bréf og myndir Margrétar og Þóru Karlsdætra vegna lóðamála og ýmissa annarra mála sumarhúss hennar í landi Birnustaða.  Byggingarnefnd er sammála um að þessi málefni heyri ekki undir byggingarnefnd og landeigendur verði að leysa sín á milli.“   Virðist kærendum ekki hafa verið gert kunnugt um þessa afgreiðslu.  Var erindi kærenda tekið fyrir að nýju á fundi byggingarnefndar hinn 6. október 2005 þar sem fyrri afstaða var ítrekuð og byggingarfulltrúa falið að kynna aðilum þá niðurstöðu og skutu kærendur þessari afgreiðslu byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar. 

Byggja kærendur á því að með umdeildum framkvæmdum sé gengið á þinglýstan umferðarrétt þeirra að umræddri fasteign í landi Birnustaða og umsaminn rétt til bílastæða og rýmis til að snúa við bílum.  Núverandi eigendur Birnustaða hafi ráðist í nefndar framkvæmdir án samráðs við kærendur og engin grenndarkynning hafi farið fram af hálfu opinberra aðila vegna þeirra. 

Ekki hafa borist gögn frá Súðavíkurhreppi og hefur sveitarfélagið ekki tjáð sig um kæruefnið.

Niðurstaða:  Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að kærendur hafi leitað til byggingarnefndar Súðavíkurhrepps vegna uppsetningar girðingar og hliðs í landi Birnustaða.  Ekki liggur fyrir í málinu hve há umdeild girðing er og hvort hún sé á mörkum lóðar kærenda og Birnustaðalands. 

Ekki hafa verið færð fram rök fyrir hinni kærðu afstöðu byggingaryfirvalda Súðavíkurhrepps þess efnis að umdeildar framkvæmdir heyri ekki undir nefndina eða sú afstaða með öðrum hætti skýrð svo sem skylt er samkvæmt 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þykir þessi annmarki á afgreiðslu erindis kærenda þess eðlis að leiða eigi til ógildingar á frávísun málsins frá byggingarnefnd hreppsins. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Frávísun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 6. október 2005 á erindi varðandi girðingarframkvæmdir og gerð hliðs í grennd við nefnda fasteign er felld úr gildi.

 

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

__________________________      ____________________________
Ásgeir Magnússon                 Þorsteinn Þorsteinsson

44/2004 Sefgarðar

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 9. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur, varamaður í nefndinni.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2004, kæra eiganda hússins að Sefgörðum 16, Seltjarnarnesi á synjun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. júlí 2004 um að eiganda hússins að Sefgörðum 24 verði gert skylt að fjarlægja skjólveggi á mörkum lóðarinnar að Sefgörðum 24 og lóðanna nr. 16, 18 og 26 við Sefgarða. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. ágúst 2004, sem barst nefndinni hinn 3. s.m., kærir B, Sefgörðum 16, Seltjarnarnesi synjun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. júlí 2004 um að eiganda hússins að Sefgörðum 24 verði gert skylt að fjarlægja skjólveggi á mörkum lóðarinnar að Sefgörðum 24 og lóðanna nr. 16, 18 og 26 við Sefgarða. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar hinn 21. júlí 2004. 

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefndin endurskoði ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 8. júlí 2004 og taki að því búnu til greina kröfu kæranda um að skjólveggir að Sefgörðum 24, sem reistir eru við mörk lóða Sefgarða nr. 16, 18 og 26, skuli rifnir eða endurgerðir í samræmi við byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Málavextir:  Kærandi er eigandi einbýlishúss að Sefgörðum 16 á Seltjarnarnesi og mun hafa byggt húsið á árinu 1979.  Þannig hagar til að vesturmörk lóðar kæranda liggja að mestu að baklóð hússins nr. 26 við Sefgarða og er lág timburgirðing milli lóðanna.  Þar sem lóðir standast ekki á til fulls liggja umrædd lóðamörk einnig að baklóð hússins nr. 24 við Sefgarða á 7,5-8 metra bili til norðurs frá suðvesturhorni lóðar kæranda.  Við upphaflegan frágang lóðar sinnar setti eigandi Sefgarða 24 niður nokkrar trjáplöntur á lóðamörkum þar sem lóð hans liggur að lóð kæranda en reisti síðar allháan skjólvegg úr timbri inni á lóð sinni, samsíða mörkum lóðanna, en í um það bil 30 cm fjarlægð frá þeim.  Kveður eigandi Sefgarða 24 þennan vegg hafa verið reistan á árinu 1979 en kærandi telur það hafa verið nokkru seinna, líklega einhvern tímann á árabilinu 1982 til 1984.  Eftir að umræddur veggur var reistur hefur eigandi Sefgarða 24 ekki getað komist um lóð sína að trjám þeim er hann hafði sett niður á lóðamörkum þar sem skjólveggurinn skilur ræmu þá er þau standa á frá lóðinni.  Kærandi kveðst hafa krafist lagfæringar á þessum frágangi fljótlega eftir að skjólveggirnir hafi verið reistir en á þeim tíma hafi hann ekki búið í húsi sínu heldur hafi það verið leigt út.  Hann hafi flutt í húsið á árinu 1991 og hafi ári síðar ítrekað kröfur sínar um úrbætur við byggingarfulltrúa.  Hafi honum þá verið tjáð að ekkert væri hægt að aðhafast í málinu, en við endurgerð skjólveggjanna skyldu þeir reistir í samræmi við gildandi reglur.  Kveðst kærandi hafa sæst á þetta að svo stöddu.  Hann kveðst hafa ítrekað kröfur sínar við byggingarfulltrúa á árinu 1994.

Með bréfi, dags. 2. júlí 1999, til byggingarnefndar Seltjarnarnesbæjar, kom kærandi á framfæri þeirri skoðun sinni að skjólveggirnir þörfnuðust orðið endurgerðar þar sem þeir væru farnir að sveiflast óeðlilega mikið í hvassviðrum.  Með vísan til þessa krafðist kærandi flutnings og rétts frágangs á skjólveggjunum til samræmis við gildandi reglur, ef byggingarnefndin teldi að skjólveggirnir væru ekki reistir í samræmi við lög og reglur, sem hefðu gilt og giltu um slík mannvirki.  Ennfremur krafðist hann þess að trén á lóðamörkunum yrðu fjarlægð, svo ganga mætti þannig frá lóðamörkum að möl og annað lauslegt skriði ekki stöðugt inn á lóð hans.  Hafa deilur staðið milli eigenda fasteignanna að Sefgörðum 16 og 24 um skjólvegg þennan frá þessum tíma og hefur úrskurðarnefndin m.a. kveðið upp þrjá úrskurði, í málum nr. 23/2000, 18/2002 og 49/2002, vegna þessa ágreinings.  Hafa hinar kærðu ákvarðanir verið felldar úr gildi í tveimur þessara mála en hinu þriðja var vísað frá úrskurðarnefndinni.

Eftir að seinni efnisúrskurður úrskurðarnefndarinnar gekk, í byrjun september 2003, var kæranda tilkynnt að skipulags- og mannvirkjanefnd myndi endurupptaka mál hans og að við málsmeðferðina yrði stuðst við upphaflegt erindi hans frá 2. júlí 1999.  Jafnframt var eiganda Sefgarða 24 kynnt þessi ákvörðun og honum gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum sínum við framkomnar kröfur til skipulags- og mannvirkjanefndar. 
 
Með bréfi til skipulags- og mannvirkjanefndar, dags. 23. febrúar 2004, kom kærandi á framfæri við nefndina athugasemdum við sjónarmið eiganda Sefgarða 24 í málinu og ítrekaði jafnframt kröfur sínar og málsástæður.  Áréttaði kærandi í lok bréfs síns að hann krefðist þess sem endranær að skjólveggirnir Sefgörðum 24, sem reistir væru við mörk lóða Sefgarða nr. 16, 18 og 26, yrðu rifnir eða endurgerðir í samræmi við byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Þá væri þess og krafist að trjágróður á mörkum lóðanna nr. 16 og 24 yrði fjarlægður. 

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 8. júlí 2004 var erindi kæranda tekið til afgreiðslu og eftirfarandi bókað af því tilefni:  „Lögð fram greinargerð bæjarlögmanns um Sefgarða.  Í samræmi við greinargerðina er það ákvörðun nefndarinnar að hafnað er kröfu eiganda Sefgarða 16 um að eigandi Sefgarða 24 verði gert skylt að fjarlægja girðingu á mörkum lóðanna Sefgarða 16 og 24.  Eiganda Sefgarða 24 ber að fjarlægja gróður á lóðamörkum utan girðingar.“

Kærandi hefur skotið synjun skipulags- og mannvirkjanefndar um að eiganda Sefgarða 24 verði gert skylt að fjarlægja skjólveggi á lóðarmörkum lóðanna nr. 16, 18 og 24 við Sefgarða til úrskurðarnefndarinnar svo sem fyrr greinir.  Af hálfu eiganda Sefgarða 24 hefur komið fram að hann uni ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar um að fjarlægja skuli gróður á lóðamörkum, utan girðingar, og kemur sá þáttur ákvörðunarinnar því ekki til umfjöllunar í málinu.

Málsrök kæranda:  Kærandi heldur því fram að hinir umdeildu skjólveggir séu byggingarleyfisskyld mannvirki og hafi verið það á þeim tíma er þeir hafi verið reistir.  Fram hafi komið að ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir skjólveggjunum eins og skylt hafi verið samkvæmt reglugerð sem í gildi hafi verið á þeim tíma sem þeir hafi verið reistir, sbr. bréf byggingarfulltrúa, dags. 11. nóvember 1999. 

Þá heldur kærandi því fram að fullyrðing eiganda Sefgarða 24 um að skjólveggirnir hafi verið reistir á árinu 1979 sé röng.  Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 14. september 2001, komi fram að skjólveggirnir hafi verið reistir fyrir u.þ.b. 19 árum sem þýði í kringum 1982 en ekki á árinu 1979. 

Kærandi leggur á það áherslu að krafa hans beinist að því að allir skjólveggirnir, þ.e. þeir sem snúi að lóðarmörkum hans lóðar sem og lóðar nr. 18, verði fjarlægðir.

Kærandi bendir á að eigandi lóðarinnar nr. 24 við Sefgarða haldi því ranglega fram að hann hafi ekki vitað um neinar athugasemdir kæranda fyrr en á árinu 2000.  Annað komi fram í bréfi kæranda til byggingarfulltrúa frá 2. júlí 1999.  Hið rétta sé að eftir að eigandi lóðarinnar nr. 24 hafi reist skjólveggina hafi hann ítrekað og í leyfisleysi farið inn á lóð kæranda til að annast tré sem hann sjálfur hafi gróðursett á lóðarmörkunum. 

Kærandi mótmælir þeim skilningi eiganda lóðarinnar nr. 24 að þá fyrst hafi komið til álita að byggingaryfirvöld fyrirskipuðu niðurrif veggjanna eftir að tjón varð á honum í óveðri hinn 11. desember 2001.  Þær aðstæður sem eigandi Sefgarða 24 skírskoti til hafi verið fyrir hendi allt frá því að skjólveggirnir hafi verið reistir.  Þegar árið 1999 hafi kærandi vakið athygli byggingarfulltrúa á því að endurgerð skjólveggjanna væri löngu orðin tímabær vegna lélegs frágangs. 

Eigandi Sefgarða 24 hafi ekki fært neinar sönnur á fjárhagslegt óhagræði af því að koma skjólveggjunum í þannig horf að þeir samræmist lögum, annað hvort með endurgerð eða niðurrifi, enda séu þeir hagsmunir aldrei svo miklir að þeir víki til hliðar lögvörðum rétti kæranda. 

Kærandi heldur því fram að hin kærða ákvörðun staðfesti í fyrsta lagi að eigandi Sefgarða 24 hafi girt fyrir aðgengi sitt að mörkum lóðar sinnar og kæranda.  Ekki sé hægt að leggja annan skilning í ákvörðunina en að kærandi ráði nú einn frágangi lóðarmarkanna að fengnu samþykki byggingaryfirvalda. 

Í öðru lagi staðfesti ákvörðunin að eigandi Sefgarða 24 hafi reist skjólveggina án leyfis byggingaryfirvalda og í andstöðu við þágildandi byggingarreglugerð.  Rök Seltjarnarnesbæjar fyrir því að veggirnir fái að standa áfram séu þau að kærandi hafi sýnt af sér tómlæti og að mjög vindasamt sé á Nesinu.  Ekki sé hægt að leggja annan skilning í þetta en að byggingaryfirvöldum hafi frá upphafi verið rétt að leggja blessun sína yfir mannvirkið. 

Í þriðja lagi staðfesti ákvörðunin að skjólveggirnir séu ekki í samræmi við núgildandi byggingarreglugerð en að við endurgerð skuli fylgt ákvæðum hennar.  Nefndin taki enga afstöðu til þess fyrir hvaða tíma eða við hvaða aðstæður endurgerð eigi að fara fram.  Ekki sé hægt að leggja annan skilning í þetta en að skjólveggirnir, sem reistir hafi verið fyrir rúmlega 20 árum, geti staðið til frambúðar. 

Í fjórða lagi staðfesti hin kærða ákvörðun að samþykkt byggingarnefndar frá 24. apríl 2002, þar sem eiganda Sefgarða 24 hafi verið gert að rífa niður eða endurgera þann hluta skjólveggjanna sem snúi að lóð kæranda, hafi verið óþarflega íþyngjandi og fái ekki staðist meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.  Skoðun nefndarinnar sé svohljóðandi:  „Skipulags- og mannvirkjanefnd telur að þáverandi byggingarnefnd hafi borið að skora á eiganda veggjarins að lagfæra hann og koma honum í það horf að af honum stafaði ekki fokhætta og hafi aðeins haft heimild til þess að krefjast þess að veggurinn yrði fjarlægður ef ekki yrði orðið við þeirri áskorun.“  Ekki sé hægt að leggja annan skilning í þetta en að eigandi Sefgarða 24 hafi sinnt áskorunum byggingaryfirvalda og komið skjólveggjunum í ásættanlegt horf. 

Í gögnum sem kærandi lagði fyrir úrskurðarnefndina í fyrri kærumálum vegna hinna umdeildu skjólveggja komi fram staðhæfingar hans um að ekkert samráð hafi verið haft við hann þegar skjólveggirnir hafi verið byggðir og að hann hafi mótmælt byggingu þeirra þegar í upphafi.  Sjónarmið um friðhelgi einkalífsins hefðu átt að nægja til þess að byggingaryfirvöld hefðu haft afskipti af málinu.  Kærandi hafi aftur á móti ákveðið að hafast ekkert að fyrr en að endurbyggingu skjólveggjanna kæmi.  Með bréfi, dags. 2. júlí 1999, hafi hann vakið athygli byggingarnefndar á því að skjólveggirnir þörfnuðust orðið endurgerðar þar sem þeir sveifluðust mikið í hvassviðrum.  Því stæðu einnig öryggissjónarmið til þess að taka ætti kröfu hans til greina.        

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:  Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er bent á að skjólveggir þeir sem hér um ræði hafi eigandi Sefgarða 24 reist umhverfis bakgarð sinn á árinu 1979.  Lóðir húsanna að Sefgörðum 16 og 24 skarist á 7,5 – 8 metra kafla en að öðru leyti snúi þessir skjólveggir að öðrum aðliggjandi lóðum.  Ekki liggi fyrir umboð í málinu frá eiganda Sefgarða 26 til kæranda þess efnis að hann fari með hagsmuni hans í þessu máli og hafi sá aðili ekki óskað eftir samaðild í málinu, og sé ekki unnt að verða við kröfu kæranda varðandi þá eign. 

Eigandi Sefgarða 24 hafi ekki leitað heimildar byggingaryfirvalda á Seltjarnarnesi fyrir skjólveggjunum þegar þeir hafi verið reistir, sem þó hafi verið skylt á þeim tíma, sbr. þágildandi byggingarreglugerð nr. 292/1979, gr. 5.11.  Byggingaryfirvöld hafi látið það átölulaust þótt veggurinn risi enda hafi þau alla jafna á þeim tíma heimilað eigendum fasteigna að reisa girðingu umhverfis lóðir sínar, jafnvel þótt hæð þeirra færi yfir þau mörk sem sett hafi verið í þágildandi byggingarreglugerð (einn metri).  Ástæða þessa hafi verið sú að á Seltjarnarnesi sé mjög vindasamt sem kunnugt sé og skilningur hafi verið hjá byggingaryfirvöldum á því að íbúarnir reyndu að skapa sér skjól.  Þetta hafi þó verið háð því að eigendur aðliggjandi lóða hafi ekki gert við það athugasemdir.
 
Enginn eigenda aðliggjandi lóða hafi gert athugasemd við umræddan skjólvegg þegar hann hafi verið reistur og aldrei síðan, fyrr en erindi kæranda hafi borist þáverandi byggingarnefnd með bréfi, dags. 2. júlí 1999, um 20 árum eftir að skjólveggurinn hafi verið reistur.  Því verði að telja að kærandi hafi á sínum tíma samþykkt skjólvegginn og hann geti ekki svo löngu síðar krafist þess að hann verði fjarlægður af þeirri ástæðu að hann samrýmist ekki ákvæðum núgildandi byggingarreglugerðar.  Það sé hins vegar jafn augljóst að þegar komi að endurnýjun skjólveggjarins þá verði það ekki gert nema að gætt verði ákvæða núgildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sbr. 67. gr., en þar sé mælt fyrir um samþykki byggingarnefndar og eigenda aðliggjandi lóða fyrir girðingu á mörkum lóða.

Með tilliti til þessa, verði að telja að eigandi skjólveggjanna hafi haft heimild til þess að lagfæra veggina eftir tjón sem varð á þeim í hvassviðri aðfararnótt 11. desember 2001.  Skipulags- og mannvirkjanefnd telji að þáverandi byggingarnefnd hafi borið að skora á eiganda veggjanna að lagfæra þá og koma í það horf að af þeim stafaði ekki fokhætta og hafi aðeins haft heimild til að krefjast þess að veggirnir yrðu fjarlægðir ef ekki yrði orðið við þeirri áskorun.  

Málsrök eiganda hússins að Sefgörðum 24:  Áður en hin kærða ákvörðun var tekin leitaði skipulags- og mannvirkjanefnd eftir afstöðu eiganda hússins að Sefgörðum 24.  Af hans hálfu er fyrir úrskurðarnefndinni vísað til þeirra sjónarmiða er koma fram í svari hans til skipulags- og mannvirkjanefndarinnar. 
 
Eigandinn vísar til þess að umræddur veggur hafi staðið í u.þ.b. 21 ár án þess að nokkur maður hafi hreyft athugasemdum vegna hans.  Veggurinn hafi verið reistur á árinu 1979 og hafi á þeim tíma verið í fullu samræmi við byggingarreglugerð.  Eigandinn leggi á það áherslu, að hann hafi ekki heyrt um neinar athugasemdir frá kæranda varðandi skjólveggina fyrr en á árinu 2000.  Hann geti hins vegar ekki vitað um það, hvað kæranda og öðrum mönnum hafi farið á milli, þ.m.t. byggingarfulltrúa eða byggingaryfirvöldum, en honum hafi aldrei verið gert viðvart um neinar kvartanir eða athugasemdir varðandi þennan skjólvegg fyrr en á árinu 2000.

Eftir óveður sem gengið hafi yfir Seltjarnarnes hinn 11. desember 2001, hafi skemmdir orðið á skjólveggnum, og í framhaldi af því hafi byggingarfulltrúi komið á staðinn og skoðað umræddan vegg.  Í fundargerð byggingarnefndar hinn 24. apríl 2002 sé m.a. haft eftir byggingarfulltrúa að hann hafi daginn eftir umrætt óveður skoðað skjólvegginn og að hann hafi lagt að eiganda veggjarins að nota tækifærið og fjarlægja hann.  Síðar segi í fundargerðinni:  „Ekki féllst eigandinn á það, heldur myndi hann ganga tryggilega frá veggnum til bráðabirgða og rífa hann í sumar og endurbyggja.“  Þessari fullyrðingu sé mótmælt af hálfu eiganda hússins að Sefgörðum 24 enda sé hún í mótsögn við önnur gögn sem fyrir liggi í málinu. 

Eigandi hússins nr. 24 við Sefgarða heldur því fram að hann hafi aldrei fengið kröfur eða tilmæli frá byggingaryfirvöldum á Seltjarnarnesi þess efnis að hann breytti umræddum skjólveggjum eða fjarlægði eftir óveðrið í desember 2001.  Hann hafi hins vegar látið gera við skemmdir á þeim þannig að ekki væri hætta á að sams konar veður mundi aftur valda tjóni.  Þetta hafi hann gert eftir að hafa ráðfært sig við umhverfisverkfræðing.

Því sé harðlega mótmælt að skemmdir á skjólveggjunum hafi orðið slíkar í óveðrinu 11. desember 2001 að skapast hafi skilyrði til þess að skylda eiganda hússins nr. 24 við Sefgarða til að rífa veggina eða gera á þeim breytingar þannig að þeir yrðu í samræmi við skilyrði byggingarreglugerðar sem tekið hafi gildi 19 árum eftir að veggirnir hafi verið byggðir.  Gerð veggjanna sé óbreytt frá því þeir fyrst hafi verið reistir að öðru leyti en því að þeir hafi verið styrktir.  Gagnvart kæranda séu veggirnir nákvæmlega eins og þeir hafi alltaf verið.  Engin skynsamleg ástæða sé því til að hrófla við veggjunum, en slíkum tilfæringum myndi fylgja verulegur kostnaður.  Sé þess krafist að við ákvörðun í málinu verði litið til hagsmunamats, þ.e. hverju það varði kæranda að fá veggjunum breytt og hvað slík ákvörðun myndi þýða fyrir eiganda fasteignarinnar nr. 24 við Sefgarða.

Minnt sé á að lóðirnar nr. 16 og 24 við Sefgarða liggi aðeins saman að hluta, en lóðin nr. 24 liggi einnig að lóðunum nr. 18, nr. 22 og nr. 26.  Skjólveggirnir umlyki alla baklóð hússins nr. 24.  Lengd skjólveggjarins á mörkum lóðanna nr. 16 og 24 sé aðeins 7,5 m.  Enginn eigenda fasteignanna nr. 18, 22 og 26 við Sefgarða hafi nokkru sinni kvartað yfir veggjunum.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi við meðferð fyrra kæumáls um margnefnda skjólveggi.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness á kröfu kæranda um að eiganda Sefgarða 24 verði gert að fjarlægja skjólveggi að Sefgörðum 24, sem hann mun hafa reist við mörk lóða Sefgarða nr. 16, 18 og 26.  Ágreiningur er í málinu um hvenær umræddir veggir  hafi verið reistir en af málsgögnum verður ráðið að það hafi í fyrsta lagi getað verði á árinu 1979 en að kærandi telji það hafa verið á árabilinu 1982 til 1984.  Ekki nýtur gagna um það hvenær kærandi gerði fyrst athugasemdir við byggingaryfirvöld eða eiganda skjólveggjanna um byggingu þeirra en formleg krafa um afskipti byggingaryfirvalda af veggjunum kom fyrst fram af hálfu kæranda í bréfi hans til byggingarnefndar, dags. 2. júlí 1999, en þá voru liðin að minnsta kosti full 15 ár frá því veggirnir voru reistir og jafnvel allt að 20.

Af hálfu kæranda hefur aðeins að takmörkuðu leyti verið vísað til réttarheimilda til stuðnings kröfugerð hans en skilja verður málatilbúnað hans á þann veg að hann telji annars vegar hægt að reisa kröfu um brottnám skjólveggjanna á þeirri forsendu að gerð þeirra hafi verið byggingarleyfisskyld framkvæmd gerð í óleyfi og hins vegar að ástand þeirra hafi verið orðið með þeim hætti að tjón hafi getað hlotist af.  Tilvist veggjanna gangi gegn lögvörðum eignarrétti, friðhelgi og grenndarrétti kæranda og eigi hann rétt á að veggirnir verði fjarlægðir eða endurgerðir í samræmi við ákvæði núgildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Fallast má á með kæranda að byggingarleyfi hefði þurft fyrir hinum umdeildu skjólveggjum samkvæmt byggingarreglugerð nr. 292/1979 með síðari breytingum, sem í gildi var er veggirnir voru reistir, og að gerð þeirra hafi því verið ólögmæt.  Þrátt fyrir þetta verður ekki fallist á að kærandi geti nú krafist brottnáms veggjanna á þeirri forsendu að þeir hafi á sínum tíma verið reistir án heimildar byggingaryfirvalda.  Samkvæmt 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur byggingarnefnd að vísu ávallt mælt fyrir um að fjarlægja skuli ólöglega byggingu eða byggingarhluta, en vandséð er að heimildarákvæði þessu verði beitt um minni háttar mannvirki sem reist hefur verið löngu fyrir gildistöku laganna.  Koma þar bæði til sjónarmið um tómlæti og þær skorður sem við því eru reistar að lagaheimildum um þvingunarúrræði f þessu tagi verði beitt með afturvirkum hætti.  Var og í eldri byggingarlögum gert ráð fyrir því að leitað væri dóms um heimild til að grípa til úrræða vegna óleyfisframkvæmda, en aldrei mun hafa verið leitað atbeina dómstóla til að koma fram kröfu um brottnám skjólveggja þeirra sem um er deilt í málinu.  Telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi af framangreindum sökum ekki getað krafist atbeina byggingaryfirvalda á árinu 1999 eða síðar til að fá veggina fjarlægða með vísan til þess að um óleyfisframkvæmd hafi verið að ræða.  Þykir að auki mega líta til þess í þessu sambandi að leyfi til byggingar girðinga á lóðamörkum var ekki háð samþykki beggja lóðarhafa á þeim tíma þegar veggirnir voru reistir.

Samkvæmt 4. málsgrein 41. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geta byggingaryfirvöld lagt fyrir eiganda mannvirkis að bæta úr því sem áfátt kann að þykja varðandi ástand mannvirkja eða ef af þeim er talin stafa hætta.  Er unnt að grípa til aðgerða samkvæmt 57. grein laganna til að knýja fram úrbætur sé slíkum fyrirmælum ekki sinnt.  Á byggingarfulltrúi, samkvæmt ákvæðinu, mat um það hvort slíkar aðstæður séu fyrir hendi sem í ákvæðinu er lýst.  Hefur byggingarfulltrúi metið það svo að ekki stafi hætta af umræddum skjólveggjum.  Hefur því mati ekki verið hnekkt og þykir ekki ástæða til endurskoða matið.  Verður því lagt til grundvallar að ekki séu fyrir hendi þær aðstæður er leiða eigi til þess að byggingaryfirvöld knýi á um brottnám eða endurgerð margnefndra veggja.  Verður kröfu kæranda um brottnám veggjanna með tilliti til öryggis því hafnað.

Í hinni kærðu samþykkt er ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um brottnám skjólveggja á mörkum lóðanna nr. 18 og 26 við Sefgarða.  Má fallast á með skipulags- og mannvirkjanefnd að ekki hafi verið efni til að taka afstöðu til þessara liða í kröfugerð kæranda, enda áttu lóðarhafar nefndra lóða enga aðild að málinu og höfðu ekki heldur veitt kæranda umboð til neinnar kröfugerðar í þessu efni.  Verður ekki heldur séð að kærandi hafi átt lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi skjólveggi á mörkum þessara tilgreindu lóða og lóðarinnar nr. 24 við Sefgarða.  Verður það því ekki látið hafa áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar þótt ekki hafi verið tekin afstaða til þessara kröfuliða við úrlausn málsins.

Eins og að framan er rakið féllst skipulags- og mannvirkjanefnd á kröfu kæranda um að eiganda Sefgarða 24 yrði gert að fjarlægja trjágróður á lóðamörkum utan skjólveggjanna og unir hann þeirri ákvörðun.  Þykir því, með hliðsjón af því sem að framan er rakið, mega staðfesta ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 8. júlí 2004 í málinu í heild sinni og verður kröfum kæranda um ógildingu tilgreindra þátta hennar því hafnað.
   
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. júlí 2004 varðandi skjólveggi á mörkum lóðarinnar að Sefgörðum 24 og lóðanna nr. 16, 18 og 26 við Sefgarða á Seltjarnarnesi.

 

___________________________ 
Ásgeir Magnússon

_____________________________     ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                             Sesselja Jónsdóttir