Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

167/2024 Langholtsvegur

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 5. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 167/2024, kæra á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 22. febrúar 2024 um að fjarlægja ekki sorptunnur við fasteignina að Langholtsvegi 135 og endurgreiðslu á álagningu gjalds vegna þeirra.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 2. desember 2024, kærir A þá ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 22. febrúar 2024 að synja beiðni um að sorptunnur við fasteign hans að Langholtsvegi 135 verði fjarlægðar og gjald vegna þeirra endurgreitt. Er þess krafist að sorptunnurnar verði fjarlægðar og gjaldið endurgreitt.

Málsatvik og rök: Með álagningarseðli fasteignagjalda fyrir árið 2024, dags. 19. janúar 2024, voru lögð á kæranda gjöld vegna sorphirðu við hús hans að Langholtsvegi 135 í Reykjavík. Skiptust þau þannig að vegna 240 lítra tvískiptrar tunnu fyrir blandað sorp og matarleifar var gjaldið kr. 52.500 og vegna 240 lítra tunnu fyrir pappírsúrgang og plast kr. 10.500. Samanlagt nam fjárhæð gjaldanna kr. 63.000.

Kærandi vísar til þess að hann hafi árangurslaust óskað eftir því að sorptunnurnar yrðu fjarlægðar. Þær séu óþarfar þar sem hann hendi litlu rusli og fari með það á móttökustöð. Tunnurnar hafi verið tómar allt árið og sé ekki þörf álagningar vegna þeirra. Með tölvubréfi frá 5. febrúar 2024 hafi hann óskað eftir því að tunnurnar yrðu fjarlægðar og kostnaður vegna þeirra dreginn frá fasteignagjöldum. Hafi hann í framhaldi átt í nokkrum samskiptum við starfsmenn Reykjavíkurborgar þar til beiðni hans var synjað með tölvubréfi frá 22. febrúar s.á.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Beiðni kæranda um að sorptunnur yrðu fjarlægðar og kostnaður vegna þeirra dreginn frá fasteignagjöldum var synjað með tölvubréfi frá 22. febrúar 2024. Voru samtímis gefnar leiðbeiningar um kærurétt til úrskurðarnefndarinnar. Jafnframt voru á bakhlið álagningarseðils fasteignagjalda, dags. 19. janúar 2024, upplýsingar um kærurétt til nefndarinnar. Með þessu verður álitið að kæranda hafi verið eða mátt vera kunnugt um kærurétt sinn til úrskurðarnefndarinnar eigi síðar en 22. febrúar 2024. Kæra í máli þessu barst nefndinni 2. desember 2024, eða að liðnum lögbundnum kærufresti og verður henni vísað frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulag nr. 37/1993.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

124/2024 Oddagata

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 19. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2024, kæra á ákvörðun Skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 14. febrúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar vegna Oddagötu 11. Einnig er kærð ákvörðun Akureyrarbæjar um að samþykkja byggingar­áform og útgáfu byggingarleyfis vegna bílskúrs á lóðinni Oddagötu 11 sem tekin var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. ágúst 2024.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra Akralind ehf. Miðhrauni 13, Garðabæ og eigandi Oddagötu 13, Akureyri, þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 14. febrúar 2024 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar vegna Oddagötu 11. Einnig er kærð ákvörðun Akureyrarbæjar um að samþykkja byggingaráform og útgáfu byggingarleyfis vegna bílskúrs á lóðinni Oddagötu 11 sem tekin var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. ágúst 2024. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 5. október 2024.

Málavextir: Kærendur eru eigendur beggja eignarhluta fasteignarinnar að Oddagötu 13, Akureyri, sem liggur vestan og ofan við fasteignina að Oddagötu 11. Forsaga málsins er sú að með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 6. september 2022 tók gildi breyting á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar þar sem afmarkaður var byggingarreitur fyrir bílskúr á lóð Oddagötu 11 með þeim skilyrðum að hámark mænishæðar yrði 4,5 m.

Á fundi skipulagsráðs 14. febrúar 2024 var tekið fyrir erindi um breytingu á fyrrgreindu deiliskipulagi vegna Oddagötu 11 sem fól í sér að gólfkóti yrði lækkaður um 90 cm. Ekki var talið að breytingin hefði þau áhrif að fara þyrfti fram grenndarkynning. Var breytingin birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2024. Er sú breyting hin kærða skipulagsákvörðun. Á fundi skipulagsráðs 24. apríl s.á. var enn samþykkt breyting á deiliskipulagi fyrir lóðina þar sem gert var ráð fyrir að byggingarreitur færist aftur um 1 m. Var breytingin grenndarkynnt fyrir eigendum Oddagötu 13 og Gilsbakkavegar 11. Engar athugasemdir bárust og tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júlí 2024. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingaráform fyrir bílskúr á lóðinni 8. ágúst 2024, en byggingarleyfi hefur enn ekki verið gefið út.

 Málsrök kærenda: Kærandi, Akralind ehf. kveðst hafa fyrst fengið bréf frá sveitarfélaginu, dags. 14. desember 2021, í tilefni af grenndarkynningu vegna fyrirhugaðra breytinga á deili­skipulagi vegna Oddagötu 11 er varðaði bílskúrsbyggingu á lóðinni. Hafi hann skilað inn athugasemdum þar sem lagst var gegn umræddri deiliskipulagstillögu og bent á að fyrirhuguð bygging myndi koma til með að hafa gríðarleg grenndaráhrif með skertu útsýni yfir miðbæinn og til sjávar. Hafi félaginu svo verið tilkynnt með bréfi, dags, 16. ágúst 2022, að samþykkt hefði verið deiliskipulagsbreyting þar sem nú væri gert ráð fyrir byggingarreit fyrir bílgeymslu á lóðinni Oddagötu 11. Í ljósi athugasemda hefði samþykkið verið bundið því skilyrði að mesta hámarks mænishæð yrði 4,5, m sem væri lækkun miðað við það sem sótt hafði verið um.

Sótt hafi verið um aðra breytingu á umræddu deiliskipulagi 30. janúar 2024 og hafi erindið verið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs Akureyrarbæjar 14. febrúar s.á. Í fundargerð komi fram að breytingin fæli í sér að gólfkóti bílskúrs yrði lækkaður um 0,9 m og að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða. Hafi breytingin verið samþykkt og sérstaklega bókað að ekki væri talin þörf á grenndarkynningu samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi kærendum því hvorki verið tilkynnt né verið kunnugt um deiliskipulagsbreytinguna. Nýtt deiliskipulag hafi tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2024.

Aftur hafi verið sótt um breytingu á deiliskipulaginu 12. apríl 2024. Í þeirri beiðni hafi verið óskað eftir að byggingareitur fyrir bílskúr yrði færður 1 m aftar á lóðinni. Hafi sú umsókn verið samþykkt á fundi skipulagsráðs 24. s.m. og bókað að breytingin skyldi grenndarkynnt lóðar­höfum Oddagötu 13. Hafi kærendum verið tilkynnt um þá breytingu sem þeir hafi ekki gert athugasemdir við en vilja sérstaklega benda á að í umræddri tilkynningu hafi ekkert komið fram um fyrri deiliskipulagsbreytingu varðandi gólfkóta. Síðari breytingin hafi svo tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júlí 2024. Hinn 16. s.m. hafi svo verið sótt um staðfestingu byggingaráforma og byggingarleyfi fyrir umræddum bílskúr sem samþykkt hafi verið á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. ágúst s.á.

Kærendum hafi fyrst orðið kunnugt um framangreint, þ.e. um þá breytingu á deiliskipulagi sem varðaði lækkun á gólfkóta sem tók gildi 7. mars 2024, fyrir rúmri viku síðan. Hafi annar kærenda, hlutafélagið, strax sent erindi á Akureyrarbæ þar sem þess var krafist að deili­skipulagsbreytingin og byggingarleyfi yrðu afturkölluð en ekki fengið efnisleg viðbrögð við erindinu.

Sú breyting sem tekið hafi gildi 7. mars 2024 virðist fela í sér að bílskúrinn sem fyrirhugað sé að reisa við Oddagötu 11 sé hærri en samkvæmt því deiliskipulagi sem áður gilti, þrátt fyrir að breytingin hafi átt að fela í sér lækkun gólfkóta um 0,9 m. Þetta megi glögglega sjá þegar skoðuð er sú lína sem dregin sé inn í prentaða útgáfu deiliskipulagsins. Þar sjáist að mænir bílskúrsins standi umtalsvert hærra á hinni nýju teikningu heldur en þeirri eldri. Á það megi þó benda að enginn hæðarkóti sé ritaður inn á deiliskipulagið og því sé erfitt að átta sig á því hver raunhæð hússins eigi að vera samkvæmt deiliskipulagi. Allt að einu megi ljóst vera að sam­kvæmt gildandi deiliskipulagi virðist raunhæð hússins ljóslega hærri en heimilt var áður.

Telji kærendur ljóst að ákvörðun um umrædda deiliskipulagsbreytingu frá 14. febrúar 2024, sem fól í sér lækkun gólfkóta um 0,9 m, hafi í raun falið í sér hækkun hússins án þess að breytingin væri grenndarkynnt og hafi því verið ólögmæt. Í því tilliti verði ekki fram hjá því litið að með breytingunni skertust hagsmunir kærenda með tilliti til útsýnis og skuggavarps, sbr. 3. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010. Þá verði einnig að líta til þess að hámarks mænishæð hafi verið í deiliskipulagi árið 2022 ákveðin 4,5 metrar frá gólfkóta sem hafi verið lækkun frá því sem sótt hafi verið um að undangengnum athugasemdum frá kærendum. Að mati kærenda sé ákvörðun um samþykkt á deiliskipulaginu sem tekin var á fundi skipulagsráðs 14. febrúar 2024 því ólögmæt og sé ógildanleg.

Telji úrskurðarnefndin að kæra þessi hafi borist að liðnum lögbundnum kærufresti samkvæmt 4. gr. laga nr. 130/2011 sé á því byggt af hálfu kærenda að undantekningaákvæði 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi við í málinu. Svo sem lýst sé að framan hafi kærendum orðið kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu rétt rúmri viku áður en kæra þessi sé rituð. Hafi þeim aldrei verið tilkynnt um breytinguna og um leið og þeim varð það kunnugt hafi erindi verið sent til Akureyrarbæjar þar sem krafist hafi verið afturköllunar hinna kærðu ákvarðana í tilraun til að leysa málið án þess að þurfa að fara með það fyrir kærunefndina.

Erindinu hafi ekki verið svarað af hálfu Akureyrarbæjar innan þess frests sem veittur hafi verið sveitarfélaginu og sé málið nú kært strax í kjölfar þess. Sé því að mati kærenda alveg ljóst að það sé sannarlega afsakanlegt, í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993, að kæran hafi ekki borist fyrr. Einnig telji kærendur ljóst að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda ljóst að hagsmunir þeirra skerðast alvarlega og varanlega, fái deiliskipulagsbreytingin og byggingarleyfið að standa óraskað. Væri slíkt ótækt og óheimilt án þess að kærendum væri veitt tækifæri á að hreyfa andmælum.

 Málsrök Akureyrarbæjar: Bent er á að við skoðun málsins hafi uppgötvast villa í gögnum deiliskipulagsbreytingar sem hafi eflaust valdið því að kærendur telji að verið sé að hækka umræddan bílskúr. Villan sé sú að ásýndarteikningin sem kærendur fengu senda og átti að sýna gildandi skipulag hafi ekki verið rétt, þ.e. húsið á efri ásýndarteikningunni virðist vera neðar á lóðinni en raun ber vitni. Neðri myndin sem sé breytingatillagan hafi hins vegar verið rétt. Myndin sem hefði átt að vera efri ásýndarmyndin í deiliskipulagsbreytingunni sé sú sem birt var í Stjórnartíðindum 6. september 2022. Umrædd villa hafi því engin áhrif á gildi skipu­lagsins. Niðurstaðan sé því að breytingin sem samþykkt hafi verið í skipulagsráði 14. febrúar 2024 hafi engin grenndaráhrif á eign kærenda og því hafi ekki verið þörf á að grenndarkynna deiliskipulagsbreytinguna.

 Bent sé á að í flestum tilvikum hafi nefndin ekki talið það afsakanlegt að kæra berist að kæru­fresti liðnum og vísað kærum frá, sbr. mál ÚUA nr. 100/2024, 99/2024, 77/2024 og 135/2023. Í niðurstöðum nefndarinnr í þessum málum segi að sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Í þessu máli sé ekki um að ræða að stjórnvald hafi veitt rangar leiðbeiningar varðandi kærufrest. Málsástæður kærenda um að þeim hafi ekki verið tilkynnt um deiliskipulagsbreytinguna og að þeim hafi ekki verið kunnugt um hana fyrr en 14. október 2024 breyti engu hér um. Eigi það einnig við um þær málsástæður að kærendur hafi sent erindi til Akureyrarbæjar þar sem krafist hafi verið afturköllunar hinna kærðu ákvarðana í tilraun til að leysa málið án þess að þurfa að fara fyrir kærunefndina.

Bent sé á að samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sé heimilt að víkja frá kröfum 2. mgr. sömu greinar um grenndarkynningu „þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.“ Hafi skipulagsráð metið það svo að breytingin hefði ekki grenndaráhrif þar sem engin breyting yrði á hæð eða ásýnd fyrirhugaðs mannvirkis að vestanverðu, séð frá eign kærenda. Breytingin hafi því engin áhrif á kærendur hvað varði útsýni eða skuggavarp umfram það sem gildandi deiliskipulag gerði ráð fyrir. Því sé ljóst að ákvörðun um lækkun gólfkóta hafi ekki verið þess eðlis að hún breytti nokkru um skilmála eldra skipulags um landnotkun, nýtingar­hlutfall, útlit og form byggingarinnar.

—–

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 14. febrúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar vegna Oddagötu 11 og ákvörðun Akureyrarbæjar um að samþykkja byggingaráform og útgáfu byggingarleyfis vegna bílskúrs á lóðinni Oddagötu 11 sem tekin var á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 8. ágúst s.á. Kæruheimild er í 59. gr laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá fyrstu birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulags­breytingar sem deilt er um í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2024 og tók kærufrestur að líða degi síðar, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Kæra í máli þessu barst úrskurðar­nefndinni 21. október s.á. og var kærufrestur þá liðinn. Þá liggur fyrir að eftir gildistöku hinnar umþrættu deiliskipulagsbreytingar hefur önnur deiliskipulagsbreyting verið samþykkt. Sú breyting felur í sér að byggingarreitur fyrir bílskúr á umræddri lóð er færður 1 m aftar á lóðinni og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júlí 2024.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verður talið, eins og atvikum er háttað, að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undan­tekningarákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga enda hefur lögmælt opinber birting ákvörðunar þá þýðingu að almenningi teljist vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hin kærða samþykkt byggingaráforma sér stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis og verður kröfu um ógildingu hennar því hafnað enda liggja ekki fyrir þeir meinbugir á ákvörðuninni sem raskað geta gildi hennar. Ekki liggur fyrir að byggingarleyfi hafi verið gefið út vegna byggingaráformanna.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 8. ágúst  2024 um að samþykkja byggingaráform vegna bílskúrs á lóðinni Oddagötu 11.

84/2024 Sólvallagata

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 19. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 84/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júlí 2024 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsi og lóð Sólvallagötu 14.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi að Hávallagötu 21, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júlí s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsi og lóð Sólvallagötu 14. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 10. ágúst 2024, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir íbúi að Hávallagötu 25, Reykjavík, einnig fyrrgreinda ákvörðun byggingar­fulltrúa með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun, krafa kærenda er sú sama og hagsmunir þeirra þykja ekki standa því í vegi, verður síðara kærumálið, sem er nr. 85/2024, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. september 2024.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. júlí 2023 var tekin fyrir umsókn sendiráðs Bandaríkjanna um leyfi til að breyta innra skipulagi og byggja við hús á lóð nr. 14 við Sólvallagötu. Umsóknin tók til byggingar lyftuhúss norðan aðalinngangs, bygging yfir svalir ofan á inngangi, gerð nýs inngangs og trappa á norðurhlið 1. hæðar að eldhúsi íbúðarhúss, mhl.01, bygging ofan á bílskúr, mhl.02 með aðgengi um utanáliggjandi stiga meðfram vesturhlið. Jafnframt því að byggja vaktskýli, mhl.03 fyrir öryggisgæslu í suðvesturhorni lóðar og reisa öryggisgirðingu inn á lóð og meðfram lóðarmörkum aðliggjandi lóðar einbýlishúss á lóð nr. 14 við Sólvallagötu, tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa. Var erindinu frestað og vísað til athugasemda. Erindið var tekið fyrir að nýju 25. s.m. og vísað til umsagnar og/eða grenndarkynningar hjá skipulags­fulltrúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. október 2023, kom fram að ekki væru gerðar athugasemdir að öðru leyti en að tekið var neikvætt í staðsetningu vakthúss fremst á lóðinni og vísað til að skuggavarpsmyndir sem sýndu grenndaráhrif þyrftu að fylgja byggingar­leyfis­umsókn fyrir breytingar á umfangi bílskúrs áður en hægt væri að taka endanlega afstöðu til um­fangs framkvæmdanna.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. desember s.á. var tekin fyrir breytt umsókn um leyfi til að þess að breyta innra skipulagi, byggja lyftuhús norðan aðalinngangs, byggja yfir svalir ofan á inngangi, gera nýjan inngang og tröppur á norðurhlið 1. hæðar að eldhúsi íbúðarhúss, mhl.01, byggja ofan á bílskúr, mhl.02 með aðgengi um utanáliggjandi stiga meðfram vesturhlið og reisa öryggisgirðingu inni á lóð og meðfram lóðarmörkum aðliggjandi lóðar einbýlishúss á lóð nr. 14 við Sólvallagötu. Erindinu var frestað og málinu vísað til skipulagsfulltrúa til grenndarkynningar. Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. júlí 2024 þar sem umsóknin var samþykkt.

Málsrök kærenda: Vísað er til þess að fyrirhuguð uppbygging og nýting á lóðinni Sólvalla­götu 14 sé ekki í samræmi við landnotkun svæðisins sem íbúðabyggðar samkvæmt Aðal­skipulagi Reykjavíkur 2040. Uppsetning öryggisgirðingar og aðstaða starfsfólks staðfesti að ekki sé um hefðbundið íbúðarhúsnæði að ræða. Almennir borgarar hafi hvorki öryggisgirðingar né aðstöðu fyrir starfsfólk í íbúðar­húsnæði sínu. Framkvæmdirnar séu þess eðlis að túlka beri áformin sem breytingu á starfsemi lóðarinnar. Ekkert hafi komið fram í framlögðum gögnum um umferðarsköpun eða bílastæðaþörf sendiherrabústaðarins og þeirrar starfsemi sem þar muni fara fram. Ætla verði að starfsemin muni kalla á nokkur bílastæði og skapa nokkra umferð umfram það sem almennt gerist í íbúðarbyggð.

Breytingar á húsi og lóð ógni öryggi nágranna og annarra íbúa hverfisins og hafi neikvæð áhrif á friðhelgi einkalífs og persónuvernd. Breytingarnar séu ekki í samræmi við stefnu aðal­skipulags um borgarvernd, séu óafturkræfar og hafi neikvæð áhrif á ásýnd hverfisins og staðar­anda. Samþykkt nýbyggingar fyrir starfsmannaaðstöðu, sem sé útfærð eins og stúdíóíbúð ofan á þegar byggðum bílskúr sé fordæmisgefandi nýjung í viðbyggingum og eigi sér ekki fyrir­myndir í hverfinu eða öðrum borgarhlutum. Með byggingunni sé götumyndinni raskað veru­lega. Samþykki nágranna fyrir framkvæmdum á lóðarmörkum liggi ekki fyrir og hafi þeir harð­lega mótmælt fyrirhuguðum framkvæmdum.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé sett fram borgarverndarstefna sem sé heildstæð stefna um borgarvernd sem nái til allrar borgarinnar. Njóti svæðið innan Hringbrautar og umhverfis Landakotshæð verndar samkvæmt því, m.a. sem „samstæður húsa og heildir“. Hafi stefna þessi haft þýðingu í einstökum málum á undanförnum árum. Undirbúningur hins kærða leyfis hafi verið ófullnægjandi þar sem ekki hafi verið aflað umsagnar Borgarsögusafns vegna breytinga á Sólvallagötu 14. Þá séu samanlagt lagðar til mjög veigamiklar breytingar sem ekki sé hægt að horfa á einangrað og geti haft fordæmisgildi fyrir hverfið í heild.

Við grenndarkynningu Reykjavíkurborgar hafi vantað bæði leyfisumsókn og rökstuðning fyrir málsmeðferð umsóknar. Þá hafi verið ýmsir annmarkar á hönnunargögnunum sem gert hafi hagsmunaaðilum erfitt fyrir að átta sig á fyrirhuguðum framkvæmdum. Framlögð gögn hafi með því ekki uppfyllt skilyrði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 5. kafla skipulags­reglugerðar nr. 90/2013.

Bygging sú sem heimilað hafi verið að byggja ofan á bílskúr hafi umtalsverð áhrif á garðmynd Hávallagötu 21, auki skuggavarp og ljótleika umhverfisins ásamt því að rýra dvalargildi garðsins og þar með verðgildi eignarinnar. Skipulagsfulltrúi hafi gert lítið úr áhrifum skuggavarps nýbyggingarinnar á lóð nágranna og hafi ekki fjallað um neikvæð áhrif nýbyggingarinnar á suðurgarð nágranna.

Um 80 manns hafi sent inn umsögn vegna málsins en í athugasemdum og svörum skipulags­fulltrúa hafi ekki verið tekið undir eitt einasta atriði. Með niðurstöðu skipulagsfulltrúa hafi athugasemdir nágranna og hagsmunaaðila verið virtar að vettugi og umsóknaraðila veitt for­réttindi umfram almenna borgara. Ítrekað hafi verið óskað eftir fundi með skipulagsfulltrúa, bæði send inn umsögn og gerðar athugasemdir við grenndarkynningu en engu hafi verið svarað og hagsmunaaðilum ekki verið tilkynnt niðurstaða málsins.

Þá bendir kærandi á að í fyrri málum sem ratað hafi á borð úrskurðarnefndarinnar varðandi lóðir sendiráða hafi niðurstaða nefndarinnar verið á þann veg að vísa málum frá vegna úrlendis­réttar. Því sé undirstrikað að húsið á Sólvallagötu 14 sé í dag íbúðarhús sem standi mannlaust. Þótt bandarísk stjórnvöld hafi fest kaup á Sólvallagötu 14 og hafi áform um að þar verði í framtíðinni sendiherrabústaður, þá sé staða lóðarinnar ekki sú í dag. Núverandi sendiherra­bústaður Bandaríkjanna á Íslandi sé annars staðar. Því eigi málið að falla undir lögsögu úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961 sem öðlast hafi lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, njóti sendiráðssvæðið friðhelgi. Í því felist að svæðið sé utan dóms- og framkvæmda­valdslögsögu íslenska ríkisins. Úrskurðarnefndin hafi ekki, sem handhafi stjórnsýsluvalds, lög­sögu um rétt eða skyldur sendiráðs Bandaríkjanna. Ágreiningur varðandi greindar fram­kvæmdir verði því aðeins til lykta leiddar á sviði þjóðarréttarsamninga.

Bent sé á að báðar kærur málsins gefi til kynna að verið sé að kæra útgefið byggingarleyfi fyrir framkvæmdum að Sólvallagötu 14 en ekki sé búið að gefa út byggingarleyfi. Byggingarfulltrúi hafi einungis samþykkt byggingaráform. Slíkir annmarkar á kröfugerð ættu að leiða til frávísunar.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi byggingarfulltrúi gætt að skilyrðum gr. 2.4.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 auk þess að hann hafi aflað umsagnar Minjastofnunar. Hvergi í lögum komi fram að Borgarsögusafn veiti umsagnir við útgáfu byggingarleyfa og getur skortur á öflun slíkrar umsagnar ekki varðað gildi byggingarleyfis.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé Sólvallagata 14 á svæði sem sé skilgreind íbúðarbyggð (ÍB1). Ekkert deili- eða hverfisskipulag sé í gildi fyrir svæðið og því þurfi að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknir þegar það eigi við. Skilyrðum þeim er 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kveði á um hafi verið gerð greinagóð skil í umsögnum skipulags­fulltrúa frá 12. október 2023 og 6. júní 2024.

 Athugasemdir leyfishafa: Bent er á að sótt hafi verið um hið kærða leyfi eftir þeim reglum sem um slík leyfi gildi. Leyfishafa hafi ekki verið kunnugt um neina annmarka á umsókninni eða afgreiðslu hennar og mótmælir sjónarmiðum kærenda. Óskað sé eftir því að farið verði yfir það hvort formskilyrði til þess að taka kærurnar til efnismeðferðar séu uppfyllt og að kæru­málunum verði eftir atvikum vísað frá.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Vísað er til þess að þrátt fyrir bókun umhverfis- og skipulagsráðs um að jafnræðisreglan hafi verið í hávegum höfð við afgreiðslu málsins sé reyndin önnur. Samþykktar breytingar séu fordæmalausar og ljóst að umsækjandi hafi notið forréttinda umfram almenna borgara sem sæki um leyfi fyrir breytingum á eignum sínum. Reglur úrlendisréttar eigi ekki að hamla því að úrskurðað sé í málinu af hálfu úrskurðar­nefndarinnar, enda hafi ekki verið sendiráð á lóðinni og sendiherrann hafi ekki aðsetur þar.

Upplýsingaöflun úrskurðarnefndarinnar: Við meðferð þessa kærumáls óskaði úrskurðar­nefndin eftir viðhorfum utanríkisráðuneytisins varðandi beitingu alþjóðasamnings um stjórnmála­samband frá 18. apríl 1961, svonefnds Vínarsamnings, og barst svar frá ráðuneytinu 12. nóvember 2024.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík á byggingar­leyfi vegna breytinga á húsi og lóð nr. 14 við Sólvallagötu. Kæruheimild er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961 sem öðlast hefur lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, nýtur sendiráðssvæði friðhelgi en í því felst að svæðið er utan dóms- og framkvæmdavaldslögsögu íslenska ríkisins. Í i. lið 1. gr. samningsins kemur fram að sendiráðssvæði sé byggingar eða hluti bygginga og tilheyrandi lóð, hver sem eigandinn sé, sem nýtt sé af sendiráði, þar á meðal íbúð forstöðumanns sendiráðs. Í 41. gr. er kveðið á um að það sé skylda allra þeirra sem njóta forréttinda og friðhelgi að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi. Í samræmi við þessa skyldu óskaði sendiráð Bandaríkjanna eftir byggingarleyfi vegna fyrir­hugaðra framkvæmda og var fallist á umsóknina af borgaryfirvöldum.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að sendiherra hafi ekki enn búsetu í húsinu við Sólvallagötu. Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar kom fram að því hafi borist nóta frá sendiráði Bandaríkjanna 28. janúar 2021, þar sem tiltekið var að utanríkisþjónusta Bandaríkjanna hygðist festa kaup á fasteigninni og hagnýta hana sem bústað sendiherra og hafi undanþágur Vínarsamningsins því átt við í kaupferlinu og hafi vernd og friðhelgi samningsins gilt frá því utanríkisþjónusta Bandaríkjanna varð eigandi fasteignarinnar, en skv. 30. gr. samningsins skuli einkaheimili sendierindreka njóta sömu friðhelgi og verndar sem sendiráðs­svæðið.

Í fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar til utanríkisráðuneytisins var vakin athygli á því að í 1. mgr. 21. gr. Vínarsamningsins sé kveðið á um að móttökuríki skuli aðstoða sendiríki að afla sér í landi þess, „í samræmi við þau lög sem þar gilda“, húsakynna sem nauðsynleg séu fyrir sendiráð eða aðstoða það við öflun húsnæðis á annan hátt. Var með hliðsjón af þessu óskað eftir því að ráðuneytið mundi lýsa yfir viðhorfum af þessu tilefni sem gætu orðið til leið­beiningar, þ.e. m.a. með hvaða hætti samningurinn girði fyrir uppkvaðningu úrskurða skv. 59. gr. laga um mannvirki, um gildi byggingarleyfis. Ráðuneytið kaus að tjá sig ekki um þennan þátt fyrirspurnar nefndarinnar með vísan til þess að það væri verkefni úrskurðaraðila og dóm­stóla að skera þar úr um.

Þrátt fyrir að það sé lögbundið hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða ákvarðanir sveitarstjórna um skipulags- og byggingarmál, sem undir hana eru bornar með stjórnsýslu­kærum, hefur verið litið svo á af hálfu nefndarinnar, sbr. úrskurði í málum nr. 60/2005, 52/2003, 66/2002 og 10/2002, að af 22. og 31. gr. áður greinds þjóðréttarsamnings leiði að hún hafi ekki, sem handhafi framkvæmdavalds, lögsögu um rétt eða skyldur sendiráða heldur verði ágreiningi sem þeim sem fyrir liggur í máli þessu einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóða­réttarins um stjórnmálasamband. Verður með hliðsjón af því að vísa máli þessu frá úrskurðar­nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

89/2024 Saltvík og Þverá

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 31. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæ­björnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2024, kæra á annars vegar ákvörðun sveitarstjórnar Norður­þings frá 4. apríl 2024 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt í landi Salt­víkur og hins vegar ákvörðun sveitarstjórnar frá 27. júní 2024 og ákvörðun byggðar­ráðs frá 15. ágúst s.á. um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt í landi Þverár í Reykjahverfi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. ágúst 2024, er barst nefndinni 22. s.m., kæra samtökin Náttúrugrið ákvarðanir sveitarstjórnar Norðurþings frá 4. apríl 2024, 27. júní og 15. ágúst s.á. um að veita framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt annars vegar í landi Salt­víkur og hins vegar í landi Þverár í Reykjahverfi sem og brot á þátttökurétti í málsmeðferð þessara ákvarðana. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar í landi Þverár á meðan málið væri til með­ferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með tölvubréfi kæranda til nefndarinnar 28. ágúst 2024 var sú krafa afturkölluð í framhaldi af því að upplýst hafði verið af hálfu leyfishafa að jarðvinnslu í landi Þverár hefði verið lokið þegar kæran barst nefndinni og engin frekari vinnsla væri fyrirhuguð þá um haustið.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Norðurþingi 6. september 2024.

Málavextir: Á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings 23. október 2023 var tekin fyrir umsókn Yggdrasils Carbon ehf. um framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt á landi úr jörðinni Saltvík. Fram kom að horft væri til þess að tré yrði gróðursett í 102,8 ha af þeim 160 ha sem landið spannaði. Var lagt til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa yrði falið að veita framkvæmdaleyfi á grundvelli framlagðrar skógræktaráætlunar með fyrirvara um jákvæða umsögn Minjastofnunar Íslands. Lá umsögn minjavarðar Norðurlands eystra fyrir 7. nóvember s.á. og var í henni lagst gegn skógrækt á afmörkuðu svæði vegna fornleifa.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 5. desember 2023. Á fundinum kom fram að skipulags- og byggingarfulltrúi hefði látið vinna tillögu að 160 ha skógræktaráætlun á landi austan við greindar minjar og var lagt til við sveitarstjórn að Yggdrasils Carbon yrði úthlutað landi samkvæmt fyrirliggjandi tillögu. Áður en málið kom til kasta sveitarstjórnar barst henni bréf Náttúrustofu Norðausturlands, dags. 19. s.m., þar sem sveitarstjórn var hvött til að finna fyrirhuguðum skógræktaráformum betri stað með tilliti til fuglalífs á svæðinu. Meðal þess sem einnig var bent á var að umrætt svæði væri mikilvægt búsvæði rjúpu á landsvísu og einnig heiðlóu og spóa sem teldust meðal ábyrgðartegunda Íslands. Myndu tugir para þessara tegunda missa búsvæði sín til frambúðar. Ráðstöfun slíkra svæða til skógræktar væri ekki í samræmi við stefnu Norðurþings um verndun líffræðilegrar fjölbreytni samkvæmt Aðalskipu­lagi Norðurþings 2010–2030. Þá myndi fyrirhugað skóg­ræktar­­svæði skarast á við vöktunarsvæði rjúpu sem talið hefði verið reglulega á frá árinu 1981.

Á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 9. janúar 2024 var málið tekið fyrir á ný og talið að framkomnar athugasemdir vægju ekki það þungt að tilefni væri til að falla frá fyrirhuguðum áformum. Á fundi sveitarstjórnar 18. s.m. var tillaga skipulags- og framkvæmdaráðs frá fundi hennar 5. desember 2023, um nýja afmörkun skógræktarsvæðisins, samþykkt. Með bréfi Náttúrufræðistofnunar Íslands til skipulags- og framkvæmdaráðs, dags. 2. febrúar 2024, var tekið undir sjónarmið Náttúrustofu Norðausturlands er fram höfðu komið í fyrrnefndu bréfi hennar og ráðið hvatt til að taka áformað skógræktarsvæði til endurskoðunar. Tók skipu­lags- og framkvæmdaráð málið fyrir að nýju 13. s.m. og lagði til við sveitarstjórn að skóg-ræktarsvæðinu yrði breytt til samræmis við fyrirliggjandi tillögu þar sem gert væri ráð fyrir því að það yrði alfarið utan við fyrrnefndan vöktunarreit. Samþykkti sveitarstjórn þá tillögu á fundi 22. febrúar 2024.

Málið var til umfjöllunar að nýju á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 26. mars s.á. Kom fram að óskað væri framkvæmdaleyfis með þeirri breyttu afmörkun sem samþykkt hefði verið og lægi fyrir greinargerð umsækjanda og umsögn skógræktarráðgjafa um skógrækt innan þess svæðis. Væri landssvæðið 160 ha í heild sinni og horft væri til þess að planta trjáplöntum í um 120 ha. Um 40 ha yrðu undanskildir skógrækt vegna umferðarleiða, berjasvæða og náttúru-minja. Lagði ráðið til við sveitarstjórn að veitt yrði framkvæmdaleyfi á grunni fyrirliggjandi gagna og var sú tillaga samþykkt á fundi sveitarstjórnar 4. apríl s.á. Framkvæmdaleyfi til skóg-ræktar á 160 ha svæði úr landi Saltvíkur var gefið út 1. maí 2024 og er það ótímabundið. Sam-kvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu er jarðvinnslu í landi Saltvíkur lokið og plöntun að mestu, en ráðgert er að ljúka henni sumarið 2025.

Á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 28. maí 2024 var tekin fyrir umsókn Yggdrasils Carbon um framkvæmdaleyfi til skógræktar á 128 ha svæði í Hvammsheiði í landi Þverár í Reykja­hverfi, á 199 ha „verkefnasvæði“ samkvæmt greinargerð með umsókn, dags. 22. s.m. Var skipu­lags­fulltrúa falið að óska umsagnar Náttúruverndarnefndar Þingeyinga áður en afstaða yrði tekin til málsins. Lá umsögnin fyrir 6. júní s.á. og hafði nefndin ekkert við erindið að athuga. Á fundi ráðsins 18. júní s.á. var lagt til við sveitarstjórn að veitt yrði framkvæmdaleyfi til samræmis við framlögð gögn, en með fyrirvara um jákvæða umsögn Minjastofnunar Íslands og samþykkti sveitarstjórn þá tillögu á fundi 27. júní 2024.

Framkvæmdaleyfi var gefið út 9. júlí s.á. og tekur það til skógræktar á 128 ha „út úr 200 ha svæði í Hvammsheiði í landi Þverár“. Á fundi byggðarráðs 15. ágúst 2024 var síðan samþykkt sú tillaga skipulags- og framkvæmdaráðs frá 13. s.m. að veita framkvæmdaleyfi vegna við-bótarskógræktar á 36 ha svæði innan sama landssvæðis og var framkvæmdaleyfi vegna þessa gefið út 22. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að kæruheimild sé byggð á 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auð-lindamála. Ekki verði séð að hinar kærðu ákvarðanir hafi verið auglýstar lögum samkvæmt og kæru­frestur samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 hafi því ekki enn byrjað að líða. Í öllu falli sé kærufrestur ekki liðinn, en kæranda hafi ekki orðið kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir fyrr en í ágústmánuði.

Umræddar framkvæmdir séu háðar umhverfismati í samræmi við ákvæði 18. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Annars vegar sé um að ræða framkvæmd yfir viðmiðunarmörkum í flokki B í 1. viðauka við lögin og sem sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka. Hins vegar séu framkvæmdirnar umhverfismatsskyldar þar sem þær séu fyrirhugaðar á verndar-svæði, sbr. iii. lið 2 tölul. í 2. viðauka við lögin. Þessu til stuðnings sé m.a. vísað til umsagna Náttúrustofu Norðausturlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands sem sveitarstjórn hafi ekki tekið tillit til. Báðar stofnanirnar gegni lögbundnum hlutverkum í rannsóknum og ráðgjöf til stjórnvalda. Auk þess sinni Náttúrustofa Norðausturlands almennu eftirliti með náttúru landsins á sínu starfssvæði í samræmi við náttúruverndarlög. Hafi stofnunin lagst gegn úthlutun sveitar­félagsins á landi til Yggdrasils Carbon til skóg­ræktaráforma í landi Saltvíkur vegna fugla­verndunar­sjónarmiða og hafi Náttúrufræðistofnun tekið undir þá afstöðu í umsögn sinni.

Á fyrirhuguðum skógræktarsvæðum séu heiðlóa og spói sem teljist til ábyrgðartegunda Íslands. Heiðlóa sé auk þess skráð í 1. viðauka Bernarsamnings sem listi þær tegundir sem aðildarþjóðir hafi skuldbundið sig til að vernda með sértækri búsvæðavernd. Mólendissvæðin í nágrenni Húsavíkur, á Tjörnesi í heild, séu mjög mikilvæg fyrir rjúpu, en þar sé að finna einn mesta varpþéttleika hennar. Rjúpa sé í yfirvofandi hættu samkvæmt válista Náttúrufræðistofnunar og fálki í nokkurri hættu. Fjöldi fálkaóðala sé hvergi meiri en í Þingeyjarsýslum. Fálki hafi afar háa verndarstöðu, hann sé skráður í 1. viðauka Bernarsamningsins og teljist ábyrgðartegund. Byggist vernd fálkans á því að þau lykilbúsvæði sem hann byggi afkomu sína á hér á landi séu vernduð þannig að þeim sé ekki breytt í barrskóga. Heiðlóa og spói byggi einnig afkomu sína á því landi sem hinar kærðu ákvarðanir taka til. Þær tegundir falli einnig undir skyldur Íslend-inga sem vísað sé til í iii. lið 2. tölul. 2. viðauka við lög nr. 111/2021.

Skógrækt í landi Þverár sé á 200,3 ha svæði líkt og fram komi í skjali sem lagt hafi verið fram við seinni afgreiðslu framkvæmdaleyfis fyrir umrætt svæði. Þá sé um að ræða meira en 5 km af nýjum veg­slóðum ef marka megi framlagðar teikningar. Framkvæmdin sé því umhverfis­matsskyld, sbr. tölul. 1.04 og tölul. 10.08 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021. Sveitarstjórn hafi því verið óheimilt að veita umrædd framkvæmdaleyfi, sbr. 25. gr. sömu laga. Ekki verði séð að sveitarstjórn hafi gengið eftir upp­lýsingum um umhverfismat framkvæmdanna þrátt fyrir laga­skyldu og umsögn Náttúrustofu Norðausturlands. Brotið hafi verið gegn þátttökurétti almenn­ings með því að hann hafi hvorki átt þess kost að gera athugasemdir í umhverfismati né að bera ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu undir úrskurðarnefndina. Við undir­búning hinna kærðu á­kvarðana hafi einnig verið brotið gegn ákvæðum ýmissa laga, svo sem gegn rannsóknarreglu stjórn­­sýslu­­laga nr. 37/1993 og meginreglum laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, það er 8. gr., 10. gr. og 11. gr., sbr. 7. gr. laganna. Þá hafi ekki verið uppfylltar að neinu leyti kröfur reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, um form og efni umsókna og afgreiðslu þeirra.

Málsrök Norðurþings: Af hálfu sveitarfélagsins er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni í heild eða eftir atvikum að hluta. Til vara sé þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Hvað varði framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt í Saltvík og framkvæmda­leyfi fyrir 128 ha skógrækt í landi Þverár í Reykjahverfi hafi kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Ekki sé tilefni til að miða kærufrest við síðara tímamark, en kæranda hafi verið kunnugt, eða a.m.k. mátt vera kunnugt um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar í Saltvík þar sem það hafi verið fréttaefni fjölmiðla frá upphafi árs 2024. Auk þess séu fundargerðir sveitarfélagsins birtar á vef þess. Miða beri upphaf kærufrests í síðasta lagi við 15. júlí s.á., en þá hafi m.a. birst fréttir um að framkvæmdir í landi Saltvíkur væru hafnar. Þá hafi meira en mánuður verið liðinn frá því að leyfi vegna 128 ha skógræktar í landi Þverár í Reykjahverfi hafi verið gefið út þegar það hafi verið kært. Útgáfa á viðbótarfram-kvæmdaleyfi geti ekki valdið rýmkun kæruréttar á áðurútgefnu leyfi, enda sé útgáfa fyrra fram-kvæmdaleyfisins sjálfstæð og kæranleg sjórnvaldsákvörðun. Beri einnig að miða við að upphaf kærufrests hafi ekki verið seinna en 15. júlí 2024.

Fyrirhugaðar framkvæmdir séu ekki matsskyldar í skilningi laga nr. 111/2021 um umhverfis-mat framkvæmda og áætlana. Undir tölul. 1.04 í 1. viðauka við lögin falli „nýræktun skóga sem tekur til 200 ha eða stærra svæðis“ en framkvæmdirnar séu undir því viðmiði. Túlka beri töluliðinn samkvæmt orðanna hljóðan, en ekki með rýmkandi skýringu eins og málatilbúnaður kæranda byggi á. Sé sérstaklega vísað til athugasemda með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 111/2021, n.t.t. til liðar 3.8 í þessu sambandi. Þá njóti hvorugt svæðið verndar eða hafi verið skilgreint sem sérstakt verndarsvæði skv. (e) iii. liðar 2. tölul. 2. viðauka við lögin. Taki framkvæmdaleyfin ekki til svæða þar sem fornleifar séu að finna. Það eitt og sér að ábyrgðar­tegundir eða tegundir á válista samkvæmt Bernarsamningnum finnist á framkvæmda-svæðinu leiði ekki til þess að um matsskylda framkvæmd sé að ræða. Engar forsendur séu heldur til slíkrar verndunar svæðanna.

Samanlagt muni áhrifin í þessum tveimur verkefnum verða þau, til lengri tíma, að 284 ha mó-lendis muni klæðast skógi og þar með muni u.þ.b. 37 pör af heiðlóum missa varpkjörlendi sitt (0.011% íslenska stofnsins) og eitthvað lægra hlutfall af spóastofninum. Þá beri einnig að horfa til þess að röskun á mólendinu við Þverá og Saltvík sé aðeins lítið hlutfall af mólendi innan Norður­þings. Samkvæmt vistgerðarkorti Náttúrufræðistofnunar Íslands séu um 179.000 ha af mólendi í Norðurþingi eða 47% af flatarmáli sveitarfélagsins. Nemi framkvæmdasvæðin um 0,15% af því. Þá séu svæðin samkvæmt Aðalskipulagi Norðurþings 2010–2030 á landbúnaðar-landi sem hvorki njóti sérstakrar náttúruverndar né sé á náttúruminjaskrá. Því sé mótmælt að framkvæmdirnar hafi verið matsskyldar á grundvelli tölul. 10.08 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021. Ekki sé um eiginlega vegagerð að ræða heldur gerð slóða vegna umhirðu svæðanna. Í Saltvík sé gert ráð fyrir um 3,8 km af slóðum. Í landi Þverár hafi verið lagður 3 km langur girðingarslóði, auk þess sem gert sé ráð fyrir 635 m af slóðum sem ekki hafi verið lagðir. Framkvæmdirnar geti því ekki verið matsskyldar jafnvel þótt litið væri svo á að umræddir slóðar væru vegir þar sem þeir séu undir lengdarmörkum samkvæmt ákvæðum laganna.

Málin hafi fengið umfangsmikla og vandaða meðferð innan sveitarfélagsins þar sem lagt hafi verið mat á athugasemdir fagstofnana og framkvæmdir lagaðar að þeim athugasemdum. Við á-kvörðun skipulags- og framkvæmdaráðs hafi verið horft til þess að framkvæmdasvæðið væri á rýru mólendi þar sem fuglalíf væri fábreytt, t.a.m. væri nánast eingöngu að finna þar fugla­tegundir sem fyndust á landsvísu. Framkvæmdin muni ekki brjóta í bága við stefnu aðalskipu-lagsins um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og hún sé ekki innan þess svæðis sem skilgreint sé sem „Mikilvæg búsvæði fugla“ í umhverfisskýrslu aðalskipulags. Hafi sveitarfélagið á lög-mætan og málefnalegan hátt lagt mat á áhrif framkvæmdarinnar á náttúru og dýralíf áður en leyfi hafi verið veitt. Þá sé því mótmælt að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga við undir-búning hinna kærðu ákvarðana.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er þess krafist að kæru verði vísað frá úrskurðar­nefndinni, en til vara að kröfum kæranda verði hafnað. Bent sé á að hluti leigusvæðis sé ekki nýttur til skógræktar, sem skýrst geti af fjölbreytilegum ástæðum. Stærð leigusvæðis og raun­verulegs skógræktarsvæðis sé ekki það sama.

Ætluð matsskylda framkvæmdar og þ.a.l. virkjun þátttökuréttar almennings sé háð ákvörðun Skipulags­stofnunar um að framkvæmd teljist háð umhverfismati. Það sé einungis í verkahring úr­skurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála að taka ákvörðun um hvort framkvæmd hafi verið þess eðlis að leggja hefði átt matsskyldufyrirspurn til Skipulagsstofnunar. Teljist fram­kvæmd matsskyld hafi almenningur þátttökurétt, annars ekki. Jafnvel þótt fallist yrði á sjónar­mið kæranda sé áfram óvíst hvort brot hafi átt sér stað á ætluðum þátttökurétti almennings. Niðurstaða um frá­vísunarkröfu tengist verulega umfjöllun undir efniskröfu, þ.e. hvort skilyrði hafi verið til þess að framkvæmd hafi átt að verða lögð undir Skipulagsstofnun til matsskyldu­ákvörðunar. Verði ákvæði laga og lögskýringargagna, og breytingalaga nr. 111/2021 um um­hverfis­­mat framkvæmda og áætlana sem breytt hafi ákvæðum um kæruheimild umhverfis-verndar­samtaka, ekki skýrð svo að umhverfisverndarsamtök hafi alltaf lögvarða hagsmuni þótt þau beri fyrir sig málsástæður um að réttur almennings til þátt­töku hafi verið brotinn. Ef niður­staða kærumáls geti ekki falið í sér staðfestingu á matsskyldu beri að vísa kröfum frá.

Ekki hafi verið skylt að auglýsa umrædd framkvæmdaleyfi, enda sé sú skylda bundin við mats-eða tilkynningarskyldar framkvæmdir. Upplýsingar um leyfisveitingar hafi verið aðgengilegar í fundargerðum Norðurþings sem birtar séu opinberlega á vefsvæði sveitarfélagsins og hafi að auki verið íbúum svæðisins ljósar, enda framkvæmdasvæðin nærri alfaraleiðum þjóðvega. Í ljósi þessa verði að líta svo á að kærufrestur hafi hafist við samþykkt bæjarstjórnar eða bæjar­ráðs. Á grunni framangreinds geti úrskurðarnefndin því eingöngu fjallað um lögmæti viðbótar­framkvæmdaleyfisins í landi Þverá.

Því sé hafnað að brotið hafi verið á þátttökurétti almennings. Framkvæmdirnar séu þess eðlis að þær séu ekki tilkynningarskyldar samkvæmt lögum nr. 111/2021 og þaðan af síður liggi nokkuð fyrir um að þær séu háðar umhverfismati. Fram komi í tölul. 1.04 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021 að nýræktun skóga sem taki til 200 ha eða stærra svæðis sé tilkynningarskyld. Orðalagið vísi til þess svæðis þar sem raunveruleg skóg­rækt fari fram og stór svæði sem falli utan plöntunar og hvers kyns skógræktartengdra fram­kvæmda teljist ekki með, jafnvel þótt slíkt svæði falli undir viðkomandi jörð eða umsamið leigusvæði. Afstaða til tilkynningarskyldu þurfi því alltaf að tengjast raunverulegu umfangi lands þar sem „nýrækt“ skógar eigi sér stað. Í enskri útgáfu tilskipunar 2011/92/ESB vísi texti til plöntunarsvæðis, þ.e. „Initial afforestation and deforestation for the purposes of conversion to another type of land use.“

Sú slóðagerð sem gert sé ráð fyrir byggi á því að jafna eða slétta jarðveg sem fyrir sé. Engin möl sé keyrð í veg og uppbygging vegar eigi sér ekki stað. Það sé því ekki um að ræða „lagningu vega“ í skilningi umhverfismatslöggjafar. Megi í þessu samhengi líta til úrskurða úr-skurðar­­nefndarinnar þar sem slóðar eða einfaldir stígar hafi ekki verið taldir falla undir framkvæmdaleyfisskyldu, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 95/2020.

Ákvæði Evróputilskipunar og laga nr. 111/2021 geri ráð fyrir að svæði sem teljast eigi verndar­svæði skuli skilgreind og afmörkuð með formlegum ákvörðunum. Skýrslur Náttúru­fræði­stofnunar Íslands og skráningar á válistum/ábyrgðartegundum Íslands leiði ekki til þess að óljós svæði sem geti verið búsvæði slíkra tegunda teljist verndarsvæði á grundvelli alþjóð­legra samninga í skilningi umhverfismatslöggjafar. Hafi stofnunin gefið út kortið „Mikilvæg fugla­svæði“, en framkvæmdasvæðin séu ekki innan þeirra svæða. Standist það enga skoðun að allar framkvæmdir sem nái til mólendis á Íslandi eigi sjálfkrafa að fara í umhverfismat eða vera tilkynningarskyldar, óháð stærð.

Framkvæmd á vegum leyfishafa sé ekki í tengslum við skógræktarverkefni Kolviðarsjóðs í landi Saltvíkur. Umhverfismatslöggjöf hvíli á því að eiginleikar framkvæmdar ráði til­kynningar­­skyldu. Það leiði ekki af lögum að framkvæmdir í landi tiltekinnar jarðar teljist viðbót við aðrar framkvæmdir í landi viðkomandi jarðar. Þá hafi verið stofnuð sérstök fasteign úr landi Salt­víkur um það leigusvæði sem Yggdrasill Carbon hafi gert samning um. Hvorki fram­kvæmdar­aðili né leyfisveitandi hafi haft tilefni til að líta svo á að umræddar framkvæmdir væru tilkynningar­skyldar.

Komi ekki til frávísunar málsins þurfi að taka afstöðu til krafna kæranda. Takmarkist lögvarðir hags­munir hans við að gengið hafi verið á rétt almennings til þátttöku sem háð sé því að fram­kvæmd væri matsskyld. Þótt framkvæmd teldist tilkynningarskyld sé ennþá óvíst hvort réttur almennings til þátttöku geti verið til staðar. Matsskylduákvörðun geti eðli máls samkvæmt falið í sér að framkvæmd sé ekki umhverfismatsskyld og þ.a.l. engin röskun á þátttökurétti al­mennings eða efnislegum forsendum fyrir framkvæmdaleyfunum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að árið 2020 hafi verið samþykkt fram­kvæmda­leyfi fyrir skógrækt að því er virðist á 102 ha svæði á Ærvíkurhöfða, en hugsanlega á allt að 114,6 ha svæði. Muni Ærvíkurhöfði vera í landi Saltvíkur og nái leyfisveitingar því samtals langt yfir 200 ha viðmið laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Sú lögskýring sé ekki tæk að umhverfis­verndarsamtök geti ekki borið undir úrskurðarnefndina leyfi fyrir meiri háttar framkvæmd í skilningi skipu­lags­laga nr. 123/2010 sem enn hafi ekki komið til umfjöllunar Skipulags­stofnunar vegna vanrækslu framkvæmdaraðila og stjórnvalds. Málið snúi einkum að túlkun umhverfismats-, skipulags- og náttúruverndarlaga og samhengi þessara laga. Í umhverfisrétti gildi sú megin­regla, mótuð af dómstólum ESB og EES ríkjanna, að lög um mat á umhverfisáhrifum skuli túlka rúmt og með hliðsjón af markmiðum mats-löggjafar­innar. Sé hér vísað til mála C-72/95, C-227/01 og C-50/09 hjá Evrópudómstólnum. Samkvæmt lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skuli skýra íslensk lög og reglur til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi, sbr. 3. gr. laganna, þar sem við eigi.

Stjórnvöld séu einnig bundin af ákvæði 8. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, um að byggja á bestu fáanlegu vísindalegu þekkingu. Hvað framkvæmdaleyfi við Ærvíkurhöfða varði sé bent á að skv. 10. gr. sömu laga skuli meta áhrif á náttúru svæðis út frá heildarálagi sem sé á svæðinu eða það kunni að verða fyrir. Ekki sé vafi á því að svæðin tvö sem heimiluð hafi verið skógrækt á í landi Saltvíkur séu sama svæði í skilningi lagaákvæðisins.

Samkvæmt teikningu framlagðri af framkvæmdaraðila séu vegir lengri en fimm kílómetrar í landi Þverár. Engin vegagerð hafi falist í framkvæmdaleyfi vegna Saltvíkur og sé þeirri veg­slóða­gerð, sem lýst sé að standi þar til, mótmælt. Hvað kærufrest varði þá verði að leggja á Norðurþing að tryggja sér sönnun um vitneskju þeirra aðila sem lögvarða hagsmuni teljist eiga lögum samkvæmt.

Hinir lögvörðu hagsmunir kæranda byggist á settum lögum. Sjónarmið leyfishafa um réttar­stöðu eftir gildistöku laga nr. 111/2021, sem í 38. gr. hafi breytt 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd um­hverfis- og auðlindamála sé ekki í samræmi við lögskýringargögn. Við skýringu á laga­breytingu í 38. gr. laga nr. 111/2021 verði að líta til tilurðar ákvæðisins, þ.e. tengsla við EES samninginn og Árósasamninginn. Í ljósi lögskýringagagna með gildandi lögum sé ljóst að túlkun úrskurðarnefndarinnar á núgildandi lögum geti ekki verið sú sama og áður, en að auki sé úrræði áðurgildandi 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum ekki lengur tækt, líkt og þegar úrskurðarnefndin hafi kveðið upp úrskurð í máli nr. 90/2015. Kærandi geti ekki borið málið undir Skipulagsstofnun og ekki liggi fyrir ákvörðun hennar sem bera megi undir nefndina. Við skýringu á áðurgreindum lagaákvæðum sé byggt á bakgrunni og tilefni laga­breyting­anna 2021. Þær eigi sér alfarið rætur í Evróputilskipun um umhverfismat nr. 2011/92/ESB með síðari breytingum og áralöngum eftirrekstri eftirlitsstofnunar EFTA svo sem rakið sé í lögskýringargögnum, bæði í athugasemdum lagafrumvarps með 30 gr. laga nr. 111/2021 og almennum athugasemdum í frumvarpinu. Þar komi m.a. fram að ákvarðanir leyfis­veitenda um leyfisveitingu verði áfram kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auð­lindamála.

Kæra megi framkvæmdaleyfi til úrskurðarnefndarinnar óháð því hvort fyrir liggi ákvörðun um hvort framkvæmd varði umhverfismatsskylda ákvörðun skv. orðalagi 52. gr. laga nr. 123/2010. Sé framkvæmd framkvæmdaleyfisskyld ef hún sé meiri háttar framkvæmd sem áhrif hafi á um­hverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku, sbr. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Séu stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt skipulagslögum sem feli í sér framkvæmda­leyfi kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar af hálfu allra þeirra sem lögvarða hagsmuni eigi því löggjafinn hafi ekki undanskilið umhverfisverndarsamtök frá því að bera athafnir eða athafnaleysi undir úrskurðarnefndina. Leyfisveitingin varði framkvæmdir sem falli undir lög nr. 111/2021, hvort sem umhverfismat hafi í raun farið fram eða framkvæmdaraðili látið hjá líða að óska eftir lögbundinni ákvörðun Skipulagsstofnunar. Ljóst sé að fram­kvæmdirnar falli undir 1. mgr. 18. gr. laga nr. 111/2021 í báðum tilvikum.

Að lokum sé því hafnað að stærð landsvæðis sé fengin með rýmkandi lögskýringu, þvert á móti sé vísað til svæðis, en ekki til þess í hvaða reiti landsvæðis tré séu sett niður í. Sé þrengjandi lög­skýring þröskuldsviðmiða ekki heimil samkvæmt Evrópuréttinum þegar um umhverfis-matslöggjöf og þátttökurétt almennings sé að ræða. Þá geti Ísland innleitt strangari kröfur en tilskipunin mæli fyrir um og það hafi verið gert varðandi umhverfismat vega.

Viðbótarathugasemdir Norðurþings: Bent er á að kærufrestur vegna útgáfu á framkvæmda­leyfi árið 2020 við Ærvíkurhöfða sé löngu liðinn. Um tvö aðskilin svæði sé að ræða, þar sem nálega 1 km sé á milli þar sem næst sé á milli þeirra. Á milli svæðanna sé Norðausturvegur auk lóða og húsa í landi Saltvíkur. Við mat á viðmiðum 1. viðauka laga nr. 111/2021 um um­hverfis­mat framkvæmda og áætlana beri að horfa á hverja og eina framkvæmd fyrir sig á þeim tíma sem þær fari fram. Tölul. 1.04 taki til nýræktunar skóga og geti skógrækt sem átt hafi sér stað um fjórum árum áður en hið kærða framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út ekki talist ný­ræktun skóga eða hluti hans í skilningi töluliðarins enda sé um að ræða tvö aðskild og ótengd svæði. Engin lagaheimild sé fyrir slíkri skýringu. Þá sé bent á að þegar framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út árið 2020 hafi engar áætlanir verið uppi um skógrækt á því svæði sem til um­fjöllunar sé í máli þessu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti framkvæmdaleyfa sem Norðurþing veitti vegna skógræktar, annars vegar í landi Saltvíkur og hins vegar í landi Þverár. Kæruheimild er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að virtum sjónarmiðum kæranda verður fallist á að kæra í máli þessu hafi borist innan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hags­muni tengda hinni kærðu ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. nánar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en af gögnum má ráða, sem úrskurðarnefndin hefur kynnt sér, að kærandi uppfyllir skilyrði þeirrar greinar. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, m.a. vegna ætlaðs brots á þátt­tökuréttindum almennings með athöfnum eða athafnaleysi eða annars ágalla sem kann að hafa verið á málsmeðferð, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kom m.a. fram að undir téðan b-lið falli leyfi vegna framkvæmda sem mats­skyldar séu skv. III. kafla þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Þar undir falli framkvæmdir sem alltaf séu matsskyldar, sbr. 5. gr. laganna og 1. viðauka þeirra, til-kynningarskyldar framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að skuli háðar mati á umhverfis-áhrifum, sbr. 6. gr. laganna og 2. viðauka þeirra, og framkvæmdir sem ákvörðun ráðherra liggur fyrir um, sbr. 7. gr. laganna. Nái þessi töluliður til þeirra ákvarðana sem vísað sé til í a- og b-liðum 1. tölul. 6. gr. Árósasamningsins. Þau leyfi sem um ræði séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem háð sé mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 111/2021 skulu framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A í 1. við­auka við lögin ávallt háðar umhverfismati. Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B í 1. viðauka skulu háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka. Ber framkvæmdar­aðila að tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B í 1. við­auka við lögin, sbr. 19. gr. laganna. Er óheimilt skv. 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 111/2021 að gefa út leyfi til framkvæmdar sem fellur undir lögin fyrr en álit Skipulags­stofnunar um umhverfismat framkvæmdar skv. 24. gr. liggur fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar skv. 19. gr. laganna um að framkvæmdin skuli ekki háð umhverfismati. Það er forsenda kæruaðildar umhverfis­verndarsamtaka samkvæmt framanröktu að fyrir liggi ákvörðun um matsskyldu framkvæmda og áætlana, svo sem ef kærandi telur athafnir eða athafnaleysi hafa brotið gegn þátttöku­réttindum almennings eða annan ágalla hafa verið á málsmeðferð. Þar sem slíkri ákvörðun Skipulagsstofnunar er ekki til að dreifa í máli þessu getur kærandi ekki átt aðild að því og verður því að vísa kæru hans frá nefndinni.

Sjónarmið kæranda um kærurétt sinn í þessu máli gefur tilefni til almennrar ábendingar um mikilvægi þess að við undirbúning ákvarðana um leyfi til framkvæmda sé gætt að þeim skyldum sem hvíla á sveitarstjórn að tryggja að framkvæmdaraðili tilkynni um framkvæmdir til Skipulagsstofnunar þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Til þess er að líta að eðli máls sam­kvæmt er skógrækt í reynd langtímaverkefni sem varir meðan skógur stendur. Geta ólík skógræktarverkefni falið í sér samlegðaráhrif, séu þau nálægt hvert öðru. Þá komu fram í umsögn Náttúrustofu Norðausturlands athugasemdir sem vörðuðu verndargildi þeirra svæða sem voru til umfjöllunar í hinum kærðu ákvörðunum. Af afgreiðslu sveitarstjórnar í máli þessu við undirbúning ákvarðananna verður ekki ráðið að hún hafi fjallað nægilega um umhverfisáhrif þeirra í ljósi framanrakins. Í þessari almennu ábendingu felst ekki afstaða til þess hvort skylt hefði verið að tilkynna um áform framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar. Er loks bent á að verði ekki vandað til málsmeðferðar við tilvik sem þessi getur skapast sú hætta að frjáls félaga­samtök, sem vinna að umhverfisvernd, hafi ekki tækifæri til þess að sinna samfélagslegu hlutverki sínu við gæslu almannahagsmuna.

Með gildistöku laga nr. 111/2021 var fellt brott ákvæði sem var í 6. gr. áðurgildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum um að unnt væri að bera fram fyrirspurn til Skipulags­stofnunar um matsskyldu framkvæmdar. Verður ekkert talið standa því í vegi að slík fyrirspurn verði borin upp við stofnunina á óskráðum grundvelli, enda fer hún með framkvæmd laga nr. 111/2021 og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim, sem og ráðgjafar- og leiðbeiningar­hlutverk, sbr. 6. gr. laganna. Er stofnuninni jafnframt heimilt skv. 32 gr. laga nr. 111/2021 að leggja stjórnvaldssektir á framkvæmdaraðila sem hefur hafið framkvæmd sem fellur í flokk B skv. 1. viðauka án þess að tilkynna hana til ákvörðunar um matsskyldu, en slík ákvörðun verður aðeins borin undir dómstóla, sbr. 5. mgr. 32. gr. laganna.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

121/2024 Vesturbraut

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 30. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 121/2024, kæra á vegna fyrirhugaðra framkvæmda við gerð miðeyju á Vesturbraut/Vestfjarðavegi um Búðardal og afgreiðslu umhverfis- og skipulagsdeildar Dalabyggðar á erindi því tengdu, dags. 2. október 2024.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 16. október 2024, kærir íbúi að Gunnarsbraut 6, Búðardal, fyrirhugaðar framkvæmdir við gerð miðeyju á Vesturlandsvegi um Búðardal og afgreiðslu umhverfis- og skipulagsdeildar Dalabyggðar á erindi því tengdu, dags. 2. október 2024.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalabyggð 29. október 2024.

Málsatvik og rök: Með tölvupósti 20. september 2024 til Vegagerðarinnar og sveitastjórnar Dalabyggðar var óskað eftir að fyrirhugaðri framkvæmd við Sunnubraut/Vesturlandsveg yrði frestað. Í erindinu kom fram að ef framkvæmdinni yrði myndi umferð að sunnan geta brunað hindrunarlaust í beinni línu í gegnum Búðardal eftir að hafa tekið á sig einn hlykk við bæjarhliðið sunnan megin. Þeir sem kæmu úr norðurátt þyrftu að fara í gegnum þrjá hlykki á leið sinni til suðurs. Væri þetta vanhugsað verkefni sem kostaði talsverðar fjárhæðir. Var með erindinu reifuð önnur tillaga að aðferð til að draga úr umferðarhraða á svæðinu.

Í svari Vegagerðarinnar sem barst kæranda sama dag í tölvupósti kom fram að framkæmdin fæli í sér örugga gönguþverun og þrengingu akgreina. Ástæða þess að bunga væri neðan við veg væri sú að gangstétt og bílastæði væru hinumegin götunnar. Ásamt þessari breytingu myndi Vegagerðin setja upp ljósastaura við afleggjara að hesthúsahverfi og yfirfara skilti. Það væri á áætlun hjá Vegagerðinni að lagfæra veginn við þéttbýlisskiltin beggja vegna Búðardals á næsta ári. Þegar öllum framkvæmdum yrði lokið væri öryggi betra, bæði fyrir gangandi og akandi vegfarendur. Með tölvupósti kæranda, samdægurs, var óskað upplýsinga hjá Vegagerðinni um hvort heimilt væri að færa þjóðveg nær aðliggjandi íbúðarhúsalóð án grenndarkynningar og án framkvæmdaleyfis frá viðkomandi sveitarfélagi. Því erindi var ekki svarað. Var fyrra erindi síðar ítrekað og bent á fleiri atriði sem vörðuðu umferðarhraða og öryggi vegfarenda.

Erindi kæranda um fyrirhugaðar framkvæmdir tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Dalabyggðar 2. október 2024. Var þar bókað að um væri að ræða fyrsta fasa af stærra verkefni sem teygði sig norður fyrir og suður fyrir þéttbýlið með ýmsum ráðstöfunum. Allar framkvæmdir væru á veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar og krefðust ekki framkvæmdaleyfis. Lögð væri áhersla að ná niður aksturshraða í gegnum þéttbýlið með öllum tiltækum ráðum, þar á meðal umræddum framkvæmdum.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á þeim lagagrundvelli.

Hið kærða ágreiningsefni í máli þessu lýtur að framkvæmdum Vegagerðarinnar við gerð miðeyju og gönguþverunar yfir Vesturbraut í Búðardal. Fram kom á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Dalabyggðar 2. október 2024 að hinar umdeildu framkvæmdir væru á veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar og krefðust ekki framkvæmdaleyfis. Framkvæmdaleyfi hefur þannig ekki verið samþykkt eða gefið út, né er slík leyfisveiting fyrirhuguð.

Samkvæmt 8. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 má beiðast álits úrskurðarnefndarinnar um hvort framkvæmdir séu háðar framkvæmdaleyfi. Sú heimild er bundin við umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn og kemur því ekki til álita að taka ágreiningsefni þessa máls til meðferðar á grundvelli þeirrar heimildar.

Með vísan til framanrakins verður ekki talið að fyrir hendi sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun í máli þessu sbr. 2. mgr. 26. gr., sbr. 2. mgr. 1. gr., stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

90/2024 Búrfellshólmi

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 9. október 2024, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 21. ágúst 2024 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Búrfellshólma.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. ágúst 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 21. s.m. um að veita framkvæmdaleyfi fyrir töku efnis úr Búrfellshólma fyrir allt að 45.000 m3. Var þess krafist að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi 28. ágúst 2024.

Málavextir: Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 8. ágúst 2024 í máli nr. 60/2024, var felld úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 8. maí s.á. um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku fyrir allt að 50.000 m3 í Búrfellshólma. Ný umsókn um efnistöku í Búrfellshólma var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar 21. ágúst 2024 og kom fram að áformað væri að taka um 25.000–45.000 m3 efni á núverandi námusvæði í aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Í fundargerð var m.a. bókað að efnistaka á svæðinu hefði sætt umhverfismati í tíð eldri laga. Ráðgerð efnistaka  félli utan rúmmáls- og flatarmálsviðmiða sem greindi í lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og því væri ekki skylt að tilkynna um hana til Skipulagsstofnunar sem nýja eða breytta framkvæmd, sbr. 19. gr. sömu laga. Samþykkt var á fundinum að veita umsótt framkvæmdaleyfi til allt að 7 mánaða til töku allt að 45.000 m3 vikurs. Nánari rökstuðningur var í fundargerðinni og voru þar einnig fyrirmæli um frágang svæðisins.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að um sé að ræða hluta af framkvæmd sem fjallað hafi verið um í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins frá 1. mars 2000, þar sem heimiluð hafi verið allt að 140.000 m3 efnistaka vikurs á ári, á 20 ára tímabili, á um 140 ha svæði. Helstu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar hafi verið álitin sjónræn á meðan á framkvæmdinni stæði, en áhrif á ferðamennsku væru mun meiri í dag. Umrætt svæði sé þjóðlenda og um það gildi fyrirmæli laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Hvorki liggi fyrir heimild forsætisráðuneytis til efnistökunnar né heldur Orkustofnunar sem fari með veitingu leyfa til efnistöku í þjóðlendum. Ekki sé fjallað um að leyfið sé veitt til rannsókna eða tilrauna eins og verið hafi í ákvörðun þeirri sem felld hafi verið úr gildi. Þá liggi ekki fyrir leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.

Það hafi engin rannsókn farið fram við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og engin vísbending sé um að sveitarstjórn hafi lagt álit Skipulagsstofnunar til grundvallar ákvörðun sinni. Þá hafi leyfisveitandi ekki tekið mið af bindandi umhverfismarkmiðum laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála eða fjallað um áhrif ákvörðunarinnar á gæði vatnshlots. Ekki hafi á neinu tímamarki farið fram mat á áhrifum framkvæmdar skv. 10. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá sé það verulegur annmarki að hvorki sé í hinni kærðu ákvörðun né í Aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017–2029 fjallað um áskilnað 8. gr., sbr. 7. gr. laga nr. 60/2013, sem varði nauðsynlegan vísindalegan grundvöll ákvarðana og áætlana.

Málsrök Skeiða- og Gnúpverjahrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að kröfu um stöðvun framkvæmda verði hafnað. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála njóti umhverfisverndar-, útivistar og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga einungis kæruaðildar vegna ákvarðana um að veita leyfi vegna framkvæmda ef þær falli undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Framkvæmdin falli ekki undir lög nr. 111/2021, hvorki tölul. 2.01, 2.02 né tölul. 13. í 1. viðauka við lögin né geti hún talist breyting eða viðbót við mats- eða tilkynningaskylda framkvæmd.

Náman í Búrfellshólma hafi verið nýtt í tugi ára. Mat á umhverfisáhrifum vikurnáms hafi farið fram í tengslum við endurnýjun sérvinnsluleyfis og liggi fyrir úrskurður skipulagsstjóra ríkisins, dags. 1. mars 2000. Einungis hluti áætlaðs heildarmagns efnis hafi verið tekið af svæðinu. Efnistakan fari fram á efnistökusvæði samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins, feli ekki í sér aukið álag á umhverfið og breyti ekki ásýnd núverandi námu. Hún sé óveruleg að umfangi í samanburði við þá framkvæmd sem háð hafi verið mati á umhverfisáhrifum í öndverðu og leyfi hafi verið veitt fyrir í heild sinni.

Umsókn um framkvæmdaleyfi hafi verið samþykkt, að gættum skilyrðum skipulagslaga nr. 123/2010 og annarra laga, svo sem laga nr. 111/2021 ásamt reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Efnistakan sé ekki háð leyfi Orkustofnunar, en skv. 8. gr. a. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sé efnistaka á landi, úr botni vatnsfalla og stöðuvatna og úr sjávarbotni innan netlaga háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru, en hann lét málið ekki til sín taka.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að hann og leyfisveitandi hafi verið sammála um það í máli úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 60/2024 að umrædd framkvæmd væri hluti umhverfismatsskyldrar framkvæmdar, en ágreiningur hafi verið um gildi þess umhverfismats. Eftir því sem best verði skilið hafi úrskurðarnefndin tekið undir það í úrskurði sínum. Nú telji leyfisveitandi að framkvæmdin sé ekki hluti af umhverfismetinni framkvæmd en þessi endurskilgreining hans virðist gerð í þeim eina tilgangi að losna við endurskoðun á efnisatriðum málsins og halda til streitu leyfisveitingu sem áður hafi sætt ógildingu. Því sé hafnað að leyfisveitandi geti vélað um svo meiriháttar framkvæmd, í ósamræmi við tilgang og efni skipulagslaga nr. 123/2010, umhverfismatslaga og laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Augljóst sé að margsinnis hafi verið veitt framkvæmdaleyfi af hálfu leyfisveitanda á fyrrgreindu efnistökusvæði á umliðnum árum án þess að nokkur athugun hafi farið fram á því hvort efnistakan samræmdist skilmálum í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins frá 1. mars 2000. Hafi leyfisveitandi komið sér undan því að gera grein fyrir því. Það geti hann ekki miðað við 10. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, skyldur hans samkvæmt þeim lögum og tilgangi þeirra, en samkvæmt ákvæðinu skuli líta til heildaráhrifa framkvæmdar. Einnig eigi 8. gr. laga nr. 60/2013 um vísindalegan grundvöll við í málinu. Muni kærandi ekki fella sig við það að efnisathugun úrskurðarnefndarinnar verði engin.

Þegar við blasi að leyfisveitandi leitist við að koma sér undan efnisreglum umhverfisréttarins með því að bera fyrir sig þröskuldsviðmið umhverfismatslaga í framkvæmd sem hann fyrir mánuði hafi talið eiga undir umhverfismat sé brýnt að úrskurðarnefndin líti til efnisreglna en ekki aðeins formreglna. Sé gerð krafa um að úrskurðarnefndin fjalli í máli þessu a.m.k. um 10. gr. laga nr. 60/2013. Þá verði nefndin einnig að fjalla um lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og lög nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi jafnframt verið brotin ákvæði 2. mgr. 15. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Engin gögn hafi borist með fundarboði og engin nánari útlistun til sveitarstjórnarmanna sem hafi því ekki átt þess kost að taka upplýsta afstöðu til þess hvort veita ætti leyfi. Ásamt því sem áður sé rakið hafi sá formgalli við þessar aðstæður þau áhrif að ákvörðunin sé ógildanleg.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Búrfellshólma. Kæruheimild er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. nánar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en af gögnum að ráða sem úrskurðarnefndin hefur kynnt sér uppfyllir kærandi skilyrði þeirrar greinar. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b-lið málsgreinarinnar.

Til framkvæmda samkvæmt tilvitnuðum lögum teljast hvers konar nýframkvæmdir eða breytingar á eldri framkvæmd, sem falla undir lögin og starfsemi sem henni fylgir, sbr. 3. tl. 3. gr. laga nr. 111/2021. Hin kærða ákvörðun felur í sér heimild til töku allt að 45.000 m3 vikurs á svæði sem talið er vera um 1 ha. Með því er umfang efnistökunnar undir viðmiði um að rask vegna framkvæmdar þurfi að vera á 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn að vera 50.000 m3 eða meira svo hún háð sé ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati, sbr. 20. gr. laga nr. 111/2021, sbr. tölul. 2.02 í flokki B í 1. viðauka við lögin.

Allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A og flokki B í 1. viðauka við lög nr. 111/2021, sem hafa verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif eru háðar ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort sæta skuli umhverfismati sbr. tölul. 13.02 í 1. viðauka við lögin. Efnistaka samkvæmt hinu kærða leyfi er innan þess svæðis sem fjallað var um í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins, dags. 1. mars 2000, þar sem á tuttugu árum var ráðgerð efnistaka sem næmi frá 1.600.000 m3 til 2.800.000 m3 á um 140 ha svæði. Af rökstuðningi leyfisveitanda verður ætlað að ekki sé litið á heimilaða efnistöku sem framlengingu eða breytingu á þeirri framkvæmd, enda sé hún mun minni að umfangi.

Í 30. gr. laga nr. 111/2021 er heimild til málskots til úrskurðarnefndarinnar bundin við ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd, samkvæmt þeim lögum, skuli háð umhverfismati skv. 20. gr. laganna og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda, nema sérlög kveði á um annað. Er um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna tekið fram að fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður með vísan til þessa, sbr. einnig b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, að álíta að kærandi njóti ekki kæruaðildar að máli þessu og verður því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

97/2024 Búrfellslundur

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 9. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 97/2024, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 12. ágúst 2024 um að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir 120 MW vindorkuveri í Búrfellslundi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 11. september 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Skeiða- og Gnúpverjahreppur þá ákvörðun Orkustofnunar frá 12. ágúst 2024 að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir 120 MW vindorkuveri í Búrfellslundi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir: Hinn 15. september 2015 lagði Landsvirkjun fram frummatsskýrslu um Búrfellslund, vindorkuver með allt að 200 MW uppsettu rafafli norðaustan við Búrfell í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Rangárþingi ytra til athugunar hjá Skipulagsstofnun, samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hinn 23. mars 2016 lagði Landsvirkjun fram matsskýrslu og óskaði eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar lá fyrir 21. desember 2016. Í febrúar 2020 birti Landsvirkjun skýrslu um endurhönnun Búrfellslundar með breyttu umfangi. Samkvæmt henni var gert ráð fyrir að uppsett afl virkjunar yrði 120 MW og árleg orkuframleiðslugeta um 440 GWst. Öll mannvirki Búrfellslundar yrðu staðsett innan sveitarfélagsins Rangárþings ytra. Deiliskipulag fyrir Búrfellslund var birt í B-deild Stjórnartíðinda 28. maí 2024.

Með erindi, dags. 19. október 2022, sótti Landsvirkjun um leyfi Orkustofnunar til að reisa og reka vindorkuverið Búrfellslund í Rangárþingi ytra til raforkuframleiðslu með allt að 120 MW uppsettu rafafli. Á fyrirhuguðu virkjunarsvæði væri gert ráð fyrir að staðsetja allt að 30 vindmyllur og væri áætluð turnhæð vindmylla allt að 95 m og hámarkshæð, þegar spaðar væru í efstu stöðu, allt að 150 m. Áætluð meðalorkuframleiðsla yrði 440 GWst á ári. Auglýsing um umsóknina birtist í Lögbirtingarblaðinu hinn 5. febrúar 2024 þar sem gefinn var umsagnarfrestur til 5. mars s.á. og barst ein umsögn sem stafaði frá kæranda þessa máls.

Með leyfi Orkustofnunar, dags. 12. ágúst 2024, var Landvirkjun veitt leyfi til að reisa og reka allt að 120 MW vindorkuver í Rangárþingi ytra með skilyrði um útgáfu framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar Rangárþings ytra skv. skipulagslögum nr. 123/2010, og byggingarleyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. lög nr. 160/2010 um mannvirki.

Málsrök Skeiða- og Gnúpverjahrepps: Af hálfu kæranda er bent á að hann hafi sem sveitarfélag, á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun tilkynnt Skipulagsstofnun um frestun ákvörðunar um landnotkun vegna virkjunarkostsins Búrfellslundar, sem fjallað hafi verið um af verkefnisstjórn í 3. áfanga rammaáætlunar. Þar sem sá virkjunarkostur hafi því þá réttarstöðu að vera í biðflokki hafi Orkustofnun verið óheimilt að veita hið kærða virkjunarleyfi, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 48/2011.

Virkjunarkosturinn sem hafi verið fjallað um í 3. áfanga rammaáætlunar hafi verið innan marka beggja sveitarfélaganna Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra. Skipulagslög nr. 123/2010 geri ráð fyrir lögákveðnu hlutverki aðliggjandi sveitarfélaga gagnvart aðalskipulagi og deiliskipulagi. Kærandi hafi lögvarða hagsmuni vegna leyfisveitingar framkvæmda samkvæmt slíkum skipulagsáætlunum. Virkjunarleyfið lúti að landnotkun innan sveitarfélagsins er varði m.a. vöktun, ísingu, þætti varðandi hljóðvist, skuggaflökt o.fl. Þá hafi virkjunarleyfið fjölþætt áhrif á lögbundin verkefni kæranda sem sveitarfélags, s.s. á sviði skipulagslaga, mannvirkjalöggjafar, náttúruverndarlaga og ákvæða sveitarstjórnarlaga er varði málefni íbúa sveitarfélags.

Sá virkjunarkostur sem Orkustofnun hafi veitt virkjunarleyfi fyrir með hinni kærðu ákvörðun, R4301B, hafi hvorki fengið umfjöllun verkefnisstjórnar rammaáætlunar 3. áfanga né hafi hann fengið umfjöllun skv. 10. gr. laga nr. 48/2011.

Orkustofnun hafi borið að gæta að samræmi framkvæmdar við gildandi skipulagsákvarðanir og sú afstaða sem fram hafi komið í fylgibréfi stofnunarinnar um hlutverk hennar gagnvart skipulagsáætlunum hafi ekki verið rétt. Þá hafi greinargerð Orkustofnunar um samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar verið ófullnægjandi. Um sé í raun að ræða nýja framkvæmd og hefði því borið að kalla eftir áliti Skipulagsstofnunar um það hvort endurskoða þyrfti umhverfismat framkvæmdarinnar að hluta eða í heild.

Leyfisveitanda og leyfishafa var gefinn kostur á að tjá sig um kæru í máli þessu, en ekki er ástæða til þess að rekja sjónarmið þeirra í ljósi niðurstöðu þessa máls. Þá skal þess getið að með tölvubréfi frá 25. september 2024 var þess óskað að kærandi gerði nánari grein fyrir aðildarhagsmunum sínum, þ.e. hvaða einstaklegra og verulegra hagsmuna hann hefði af úrlausn úrskurðarmálsins og bárust svör kæranda nefndinni 2. október s.á.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Orkustofnunar um að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir 120 MW vindorkuveri í Búrfellslundi.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. raforkulaga nr. 65/2003 sæta ákvarðanir Orkustofnunar er lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa sem fjallað er um í 1. mgr. 4. gr., 2. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 11. gr. laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar, en um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Í 3. mgr. 4. gr. þeirra laga er tekið fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta þó kært nánar tilgreindar ákvarðanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, en kærandi telst ekki til slíkra samtaka.

Í stjórnsýslurétti er álitið að stjórnvöld njóti eigi almennrar heimildar til þess að kæra ákvarðanir annarra stjórnvalda til æðra stjórnvalds, nema mælt sé fyrir um það í lögum. Hvorki í lögum nr. 130/2011 né raforkulögum er mælt fyrir um heimild sveitarfélaga til að kæra ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Þá verður hvorki álitið að samráðsskylda við aðliggjandi sveitarfélag, við gerð skipulagsáætlunar, né heldur ákvörðun um frestun landnotkunar skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 48/2011, leiði til kæruaðildar í stjórnsýslumáli. Má einnig benda á að gert er ráð fyrir framkvæmdum samkvæmt hinu kærða leyfi í skipulagsáætlunum. Hlutverk kæranda sem stjórnvalds er að gæta opinberra hagsmuna að lögum, til að mynda á grundvelli skipulagslaga og náttúruverndarlaga. Hvorki slík gæsla almannahagsmuna né hagsmuna er varða áhrif á íbúa sveitarfélags, stjórnsýslu þess eða atvinnulíf, sem kærandi hefur vísað til, geta almennt leitt til kæruaðildar, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 40/2014 (Kárahnjúks- og Lagarfossvirkjanir).

Í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum er mögulegt að sveitarfélag sem lögaðili eigi slíka verulega einstaklingsbundna hagsmuni tengda stjórnvaldsákvörðun að leiði til kæruaðildar, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 3/2015 (Vatnsendakriki). Ekki verður ráðið af ítarlegum málsrökum kæranda að slíkum verulegum hagsmunum sé til að dreifa vegna hinnar kærðu ákvörðunar.

Að öllu framangreindu virtu verður kæru í máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. Verður að þeim ástæðum ekki tekin efnisleg afstaða til þeirra sjónarmiða sem kærandi færir fram í málinu.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

118/2024 Brúarhlöð

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 9. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 118/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 18. apríl 2024 um að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2016–2023 vegna verslunar- og þjónustusvæðis við Brúarhlöð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 7. október 2024, kærir eigandi lóðarinnar Einiholt Kálfholt í Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 18. apríl 2024 að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2016–2023 vegna verslunar- og þjónustusvæðis við Brúarhlöð. Er þess krafist að deiliskipulagsbreytingin verði felld úr gildi en til vara að hún verði felldi úr gildi hvað varði þá hluta eyja í Hvítá sem ekki séu innan sveitarfélagamarka Hrunamannahrepps.

Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps hinn 18. apríl 2024 var tekin fyrir og samþykkt tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2016–2023 vegna verslunar- og þjónustusvæðis við Brúarhlöð. Í breytingunni fólst að skilgreint yrði 4 ha verslunar- og þjónustusvæði (VÞ7) með heildarbyggingarmagni allt að 500 m2 og að landbúnaðarsvæði myndi minnka sem því næmi. Á sama fundi var tekin fyrir tillaga að deiliskipulagi vegna ferðamannaaðstöðu í landi Brúarhlaða. Samþykkti sveitarstjórn deiliskipulagstillöguna með þeim fyrirvara að gerð yrði ítarlegri grein fyrir skilgreindri reiðleið um svæðið. Á fundi sveitarstjórnar hinn 8. júlí 2024 var tillagan tekin fyrir að nýju og bókaði sveitarstjórn að hún mæltist til þess að deiliskipulagið tæki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda, að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, samhliða gildistöku aðalskipulagsbreytingarinnar.

Hinn 13. ágúst 2024 sendi Skipulagsstofnun Hrunamannahreppi bréf þar sem fram kom að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu til forms deiliskipulagsins vegna tiltekinna atriða sem gera þyrfti betur grein fyrir. Var í bréfinu m.a. bent á að aðliggjandi sveitarfélag gæti þurft að staðfesta legu sveitarfélagamarka á eyjum í Hvítá. Skipulagsstofnun samþykkti aftur á móti aðalskipulagsbreytinguna 22. ágúst 2024 og tók sú breyting gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 5. september s.á. Á fundi sveitarstjórnar hinn 19. september 2024 var deiliskipulagstillagan tekin fyrir að nýju og bókað að brugðist hafi verið við umsögn Skipulagsstofnunar með fullnægjandi hætti. Mæltist sveitarstjórn til þess að deiliskipulagið tæki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærandi bendir á að sveitarfélagamörk Hrunamannahrepps og Bláskógabyggðar liggi um miðjulínu eyja í Hvítá. Þrátt fyrir það sjáist greinilega á deiliskipulagstillögu, sem byggi á hinni kærðu aðalskipulagsbreytingu, að skipulagssvæðið nái yfir eyjarnar í heild sinni. Hann hafi ítrekað bent Hrunamannahreppi á þetta, en þeim athugasemdum hafi ekki verið svarað.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og eftir atvikum ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun felur í sér samþykki sveitarstjórnar Hrunamannahrepps á aðalskipulagsbreytingu en samkvæmt framangreindum ákvæðum brestur úrskurðarnefndina vald til að taka þá ákvörðun til endurskoðunar.

Rétt þykir þó að leiðbeina kæranda um að hann geti komið að kæru vegna deiliskipulagstillögunnar ef auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins verður birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

105/2024 Skógarhólar

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 2. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 105/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Dalvíkurbyggðar frá 22. nóvember 2022 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Skógarhóla 11A.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 28. september 2024, kærir eigandi, Skógarhólum 11A, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Dalvíkurbyggðar frá 22. nóvember 2022 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna byggingar raðhússins Skógarhóla 11A. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá krefst kærandi þess að íbúð hans verði keypt og að lögfræðikostnaður auk kostnaðar vegna byggingarmeistara verði greiddur.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð 30. september 2024.

Málsatvik og rök: Kærandi er eigandi íbúðar að Skógarhólum 11A en um er að ræða raðhús byggt árið 2022. Lokaúttekt fór fram 21. nóvember 2022 í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012 en vottorð um lokaúttekt var gefið út 22. s.m.

 Kærandi kveðst ekki geta selt íbúð sína að Skógarhólum 11A vegna vanefnda byggingaraðila. Galli í húsinu hafi komið upp og hafi þá komið í ljós að engin gögn séu til staðar fyrir húsið. Ekki verði séð að skilað hafi verið neinum teikningum af húsinu til embættis byggingarfulltrúa til skoðunar og samþykktar. Húsið hafi því verið byggt án samþykktra teikninga. Ekki liggi fyrir þau gögn sem þurfi að vera til staðar svo öryggisúttekt og lokaúttekt fari fram. Að vitund kæranda liggi ekki fyrir samþykktar teikningar af raflögnum, sérteikningum né pípulögnum fyrir húsið og þar af leiðandi séu úttektir ógildar. Þá sé vísað til 10. gr. og 22. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds-ákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um að íbúð hans verði keypt og að lögfræðikostnaður auk kostnaðar vegna byggingarmeistara verði greiddur.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Lokaúttekt vegna Skógarhóla 11A fór fram 21. nóvember 2022 og vottorð um lokaúttekt var gefið út daginn eftir, 22. s.m. Samkvæmt vottorðinu voru eigendur mannvirkisins viðstaddir vettvangsskoðun. Fram kemur á vottorðinu að kærandi sé meðal eigenda. Með hliðsjón af þessu verður að álíta að kæranda hafi verið kunnugt um ákvörðun um lokúttekt mannvirkisins, frá þeim tíma. Kæran í máli þessu barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 28. september 2024, sem var löngu síðar og að liðnum lögbundnum kærufresti.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verður talið eins og atvikum er háttað að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

72/2024 Stórholt

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 1. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 72/2024, kæra á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 5. júní 2024 um að setja safnstæði fyrir hópbifreiðar norðan megin í Stórholti, milli Þverholts og Rauðarárstígs, og stæði fyrir leigubifreiðar sunnan megin í Stórholti, beggja vegna Þverholts.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 7. júlí 2024, kæra A og B, Stakkholti 4a, ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. júní 2024 um að setja safnstæði fyrir leigubifreiðar í Stórholt. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með kæru er barst úrskurðarnefndinni 9. júlí 2024, kæra A og C, Stakkholti 4a, ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. júní 2024 um að setja safnstæði fyrir hópbifreiðar norðan megin í Stórholti, milli Þverholts og Rauðarárstígs. Er einnig gerð krafa um ógildingu þeirrar ákvörðunar. Verður það kærumál, sem er nr. 73/2024, sameinað máli þessu þar sem um samofin mál er að ræða, enda þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. ágúst 2024.

Málsatvik og rök: Kærendur eru íbúar Stakkholts 4a en húsið stendur að hluta til við Stórholt. Á svæðinu er í gildi deiliskipulag stgr. 1.240, „Hlemmur og nágrenni og Hlemmur, umferðarskipulag“ er nær m.a. utan um almenningsrými við Hlemm og nærliggjandi göturými. Í skilmálum deiliskipulagsins um umferðarskipulag eru tilgreindar nýjar mögulegar staðsetningar fyrir safnstæði hópferðabíla og leigubíla og er ein þeirra við Stórholt.

Á afgreiðslufundi samgöngustjóra Reykjavíkurborgar 5. júní 2024, var samþykkt tillaga um að sjö bifreiðastæði sunnan megin í Stórholti, beggja vegna Þverholts yrðu merkt sem bílastæði fyrir leigubifreiðar. Jafnframt að bifreiðastæði norðan megin í Stórholti, milli Þverholts og Rauðarárstígs yrðu merkt sem biðstöð hópbifreiða, safnstæði. Þá var tekið fram að ofangreindar ráðstafanir yrðu merktar með viðeigandi umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingu þar sem það ætti við, í samræmi við reglugerð nr. 250/2024 um umferðarmerki og notkun þeirra. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. júní 2024 var lögð fram fundargerð frá afgreiðslufundinum og 25. s.m. var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um umferð í Reykjavík nr. 754/2024, þar sem mælt var fyrir um að tillagan öðlaðist gildi.

Af hálfu kærenda er greint frá því að síðdegis 19. júní 2024 hafi þeir orðið þess varir að merkin “BUS” og “TAXI” hafi verið máluð á svæði þar sem áður hafi verið bílastæði í Stórholti. Hafi þessi ákvörðun ekki verið kynnt íbúum og öðrum hagsmunaaðilum með formlegum hætti þrátt fyrir að um breytingu sé að ræða sem hafi áhrif á nærumhverfi. Þá hafi íbúum ekki verið veittur möguleiki á að koma að athugasemdum áður stæðin hafi verið tekið í notkun. Í deiliskipulagi fyrir Hlemm hafi fjórar götur verið nefndar sem möguleg staðsetning undir safnstæði fyrir hópbifreiðar og leigubíla, þ.á m. Stórholt. Umræddar götur séu langar og því mörg svæði sem komið hafi getað til greina. Hafi það gert íbúum illkleift að hreyfa við mótmælum við staðsetningu stæðanna vegna ófullnægjandi kynningar á ákvörðuninni. Aukin umferð fylgi safnstæðum fyrir leigubíla og börn í húsinu búi við skert umferðaröryggi vegna mikillar umferðar hópbifreiða. Hávaðamengun fylgi safnstæðunum og gera megi ráð fyrir að þau hafi í för með sér aukna loftmengun vegna bifreiða sem standi í lausagangi.

 Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé umrætt svæði skilgreint sem M1b, blönduð miðborgarbyggð og eðli málsins samkvæmt sé þungamiðja almenningssamgangna og lykilstöðvar í hverju þéttbýli á miðborgarsvæðum. Fyrirhuguð safnstæði hafi verið kynnt og auglýst veturinn 2019-2020 og veittur frestur til að koma að andmælum. Deiliskipulagið hafi verið samþykkt 11. mars 2020 í skipulags- og samgönguráði, það „uppfært“ 18. janúar 2022 en engar breytingar hafi verið gerðar á kafla um safnstæði. Framkvæmdir og aðgerðir sem lúti að því að framfylgja skilmálum deiliskipulagsins, og færa safnstæðin á þá staði sem þegar hafi verið tilgreindir í skipulaginu, þurfi ekki að kynna eða auglýsa sérstaklega. Notkunarbreyting stæðanna hafi verið á grundvelli 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 og samþykkt af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu með tölvupósti, 5. júní 2024.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirra ákvörðunar Reykjavíkurborgar að staðsetja safnstæði fyrir leigubíla og hópferðabíla við Stórholt í Reykjavík, en umrædd stæði eru í grennd við íbúðir kærenda að Stakkholti 4a. Var ákvörðun um endanlega staðsetningu/merkingu bílastæðanna samþykkt á afgreiðslufundi samgöngustjóra 5. júní 2024. Verður að líta svo á að það sé hin kærða ákvörðun í máli þessu fremur en ákvörðun borgarráðs frá 19. mars 2020 um að samþykkja deiliskipulag stgr. 1.240, „Hlemmur og nágrenni og Hlemmur, umferðarskipulag“ en kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar, er tók gildi 7. apríl 2020, er löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Sama háttar til um síðari breytingu á deiliskipulaginu.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Slíka kæruheimild er t.a.m. að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Hin kærða ákvörðun var hins vegar tekin á grundvelli 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 en þar er mælt er fyrir um að veghaldari geti kveðið á um varanleg sérákvæði um notkun vegar til umferðar að höfðu samráði við sveitarstjórn, þegar það eigi við og að fengnu samþykki lögreglu, m.a. um stöðvun og lagningu ökutækis, sbr. a-lið ákvæðisins. Almenna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna í umferðarlögum. Verður kærumáli af þeim sökum vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.