Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

171/2024 Æðaroddi

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 12. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 171/2024, kæra á afgreiðslu á erindi kæranda um að sauðfjárhald í hesthúsi að Æðarodda 27, Akranesi, verði stöðvað.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 9. desember 2024, kærir eigandi hesthúss að Æðarodda 29, afgreiðslu á erindi hans um að sauðfjárhald í næsta hesthúsi, Æðarodda 27, Akranesi, verði stöðvað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akraneskaupstað 17. janúar 2025.

Málsatvik og rök: Kærandi er eigandi hesthúss að Æðarodda 29 á Akranesi. Með tölvupósti 18. nóvember 2024 til skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar óskaði hann eftir skýringum á sauðfjárhaldi í hesthúsi að Æðarodda 27. Í framhaldi kom fram af hálfu bæjarins að heimilt væri samkvæmt deiliskipulagi að halda fé á svæðinu en krafa sé gerð um að taðþró þurfi að vera innan eða utan byggingar. Í tölvupósti, dags. 26. nóvember 2024, benti kærandi á að teikningar fyrir taðþró í kjallara hússins að Æðarodda 27 vanti á kortavef sveitarfélagsins. Þá hafi húsið verið byggt og skilgreint sem hesthús en ekki fjárhús. Ekki hafi verið sótt um leyfi til að breyta því í fjárhús né hafi verið lagðir inn uppdrættir fyrir þeim breytingum sem gerðar hafi verið á húsinu. Var þess krafist að allt sauðfé yrði fjarlægt úr húsinu þangað til þessi mál væru komin í lag. Var þessu erindi ekki svarað af hálfu bæjaryfirvalda.

Kærandi bendir á að í fasteignaskrá sé húsið að Æðarodda 27 skráð sem hesthús. Nú sé þar eingöngu sauðfé og það sem því tilheyri, þar á meðal slátrun sauðfjár að hausti. Sauðfjárhald hafi verið í húsinu í nokkur ár en hann hafi ekki vitað af því fyrr en fyrir stuttu síðan að ekki mætti breyta um starfsemi í húsinu nema með leyfi sem háð væri nýjum uppdráttum vegna breytinga. Töluverð óþægindi verði af sauðfjárhaldinu og hafi hann fengið ámæli fyrir að trufla sauðburð og sé erfitt að vera með hunda á lóðum í kring vegna þess. Vegna vondrar lyktar sem stafi frá fénu geti hann auk þess orðið fyrir fjárhagstjóni.

Af hálfu Akraneskaupstaðar er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé til að dreifa kæranlegri ákvörðun né heldur hafi kæra borist innan kærufrests. Jafnframt er vísað til þess að notkun hússins að Æðarodda nr. 27 sé í samræmi við landnotkun samkvæmt deiliskipulagi og sé bænum ekki heimilt að verða við kröfum kærenda um að búfjárhald verði þar stöðvað. Athugasemdum kæranda hafi verið svarað og skýrt hafi verið út fyrir honum að sú starfsemi sem hann krefjist að verði stöðvuð sé lögmæt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Fjallað er um hlutverk byggingarfulltrúa sveitarfélaga í lögum nr. 160/2010 um mannvirki og felst það m.a. í því að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi. Samkvæmt 55. og 56. gr. laganna hafa þeir, og eftir atvikum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, heimildir til að beita þvingunarúrræðum. Í bréfi kæranda, dags. 26. nóvember 2024, var farið fram á að sauðfjárhald yrði stöðvað í húsinu að Æðarodda 27. Erindinu hefur ekki verið svarað en í fyrri tölvupóstsamskipum milli kæranda og bæjaryfirvalda kom fram sú afstaða Akraneskaupstaðar að starfsemin samrýmdist skipulagsáætlunum á svæðinu. Sú afstaða stjórnvalds verður ekki jöfnuð við afgreiðslu málsins hjá því stjórnvaldi sem til þess er bært, en fyrir liggur að beiðni kæranda um að þvingunarúrræðum yrði beitt hefur ekki verið formlega afgreidd hjá byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar. Liggur því ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun í málinu sem bindur enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

159/2024 Brautarholt

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 12. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 159/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. júní 2023 um útgáfu vottorðs um lokaúttekt á Brautarholti 18-20.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 15. nóvember 2024, kærir A lokaúttekt byggingarfulltrúans í Reykjavík á Brautarholti 18-20, en vottorð þar um var gefið út 15. júní 2023. Í kærunni kemur fram að kærandi sé formaður húsfélagsins í Brautarholti 18-20. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík 18. desember 2024.

Málavextir: Í máli þessu er kærð til ógildingar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um útgáfu vottorðs um lokaúttekt á 64 íbúðum á 2. – 5. hæð að Brautarholti 18-20, ásamt sameign og verslunarrými á jarðhæð, á þeim grunni að byggingaraðili hafi ekki farið eftir byggingarreglugerð um fjölbýli.

Málsrök kæranda: Kærandi segir að frágangi byggingaraðila á húseigninni Brautarholt 18-20 hafi um margt verið ábótavant, byggingarframkvæmdum hafi ekki verið lokið í samræmi við byggingarreglugerð og teikningar vanti af framkvæmdum. Kærandi tiltekur fjölda atriða sem hann telur í ólagi m.v. kröfur byggingareglugerðar og krefst ógildingar á lokaúttektinni í þeim tilgangi að fá seljanda byggingarinnar til að ljúka frágangi hennar til samræmis við byggingarreglugerð.

Málsrök byggingarfulltrúans í Reykjavík: Hið kærða lokaúttektarvottorð hafi verið gefið út 15.  júní 2023, en kæra sé dagsett 15. nóvember 2024. Því sé ljóst að eitt ár og fimm  mánuðir hafi liðið frá því að lokaúttektarvottorð var gefið út og þar til að kæra vegna þess barst úrskurðarnefndinni. Kærandi hafi verið í sambandi við starfsmenn byggingarfulltrúa í júní 2023 og skv. tölvupóstsamskiptum starfsmanns byggingarfulltrúa og kæranda var kærandi upplýstur um vottorð um lokaúttekt þann 26. júní 2023 og barst vottorðið þann 27. júní 2023. Því sé ljóst að kæranda hafi verið  kunnugt um vottorð um lokaúttekt frá 27. júní 2023, en í síðasta lagi í maí 2024 þegar úttektaraðili sem húsfélagið að Brautarholti 18-20 réði skilaði matsskýrslu, sem innihélt m.a. vottorð um lokaúttekt, til húsfélagsins. Kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála, sbr. 27. og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hafi því verið löngu liðinn þegar kæran barst nefndinni, sama hvort tímamarkið sé miðað við sem upphaf kærufrests. Krefst byggingarfulltrúinn þess að málinu verði vísað frá þar sem kæran sé of seint fram komin.

———-

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð til ógildingar lokaúttekt byggingarfulltrúans í Reykjavík á byggingarframkvæmdum að Brautarholti 18-20, skv. vottorði um lokaúttekt sem gefið var út 15. júní 2023. Í kærunni segir að kærandi hafi ekki nákvæma dagsetningu á því hvenær og hvernig hann vissi af hinni kærðu ákvörðun. Af fyrirliggjandi gögnum má hins vegar sjá að í samskiptum kæranda og starfsmanns byggingarfulltrúa Reykjavíkur þann 26. júní 2023 kom fram að byggingarfulltrúi hafi gefið út vottorð um lokaúttekt á Brautarholti 18-20 þann 15. júní 2023 og mátti því kæranda vera sú staðreynd ljós þann dag. Byggingarfulltrúi segir að kæranda hafi borist vottorðið 27. júní 2023. Upplýsingar um útgáfu lokavottorðsins komu einnig skýrlega fram í tölvupósti starfsmanns byggingarfulltrúa til kæranda þann 22. nóvember 2023, svo telja má að kæranda hefði í síðasta lagi átt að vera kunnugt um ákvörðunina þann dag.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Kæran í máli þessu barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 15. nóvember 2024, að lögbundnum kærufresti liðnum.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. skal kæru þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

6/2025 Álfabakki

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 11. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 6/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar dags. 20. desember 2024, um að synja kröfu um stöðvun framkvæmda að Álfabakka 2A

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags, 13. janúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Búseti húsnæðissamvinnufélag, eigandi íbúða í Árskógum 5-7, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, dags. 20. desember 2024, að synja kröfu um stöðvun framkvæmda að Álfabakka 2A. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. janúar 2025.

Málavextir: Með erindi til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, dags. 12. nóvember 2024,  var farið fram á tafarlausa stöðvun yfirstandandi framkvæmda við Álfabakka 2A og kannað hvort brotið væri á forsendum samþykktrar deiliskipulagsbreytingar fyrir Suður-Mjódd, dags. 5. október 2022 og 13. október 2022, byggingarleyfis dags. 17. október 2023 og/eða réttindum Búseta og íbúa við Árskóga 5-7, 109 Reykjavík. Með bréfi dags. 20. desember 2024 synjaði byggingarfulltrúi um þá beiðni og er sú afstaða sem fram kemur í því bréfi hin kærða ákvörðun í máli þessu.

 Málsrök kæranda: Kærandi telur hina kærðu ákvörðun ekki í samræmi við lög og vísar til þess að mannvirkið og notkun þess brjóti í bága við skipulag, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. einnig 1. mgr. gr. 2.9.1 byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Hann álítur að sú afstaða byggingarfulltrúa að byggingarleyfi samræmist byggingarreglugerð standist ekki nánari skoðun. Þá séu framkvæmdirnar ekki í samræmi við byggingarleyfi auk þess að ekki hafi farið fram mat á hvort framkvæmdin væri umhverfismatsskyld, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Ákvörðun um hvort skilyrði séu til að stöðva framkvæmdir á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um mannvirki, verði að byggja á heildstæðu mati á því hvort útgefið byggingarleyfi og framkvæmdir á þeim grundvelli sé í samræmi við lög og skipulagsáætlanir. Komi við nánari athugun í ljós að byggingarleyfi uppfylli ekki skilyrði viðeigandi laga og reglna hvíli sú skylda á byggingarfulltrúa að bregðast við og stöðva framkvæmdir. Stjórnvald sem sé upplýst um annmarka á ákvörðunum geti ekki vikið sér frá þeirri skyldu að koma málum í lögmætt horf og þá eftir atvikum afturkalla ákvarðanir sínar, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar kom fram að nefndinni beri að hafna kröfu um stöðvun framkvæmda þar sem ekki verði séð að hagsmunum kæranda verði raskað á meðan fjallað verði um gildi þeirrar afstöðu sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa frá 20. desember 2024. Heitið var frekari málafærslu fyrir úrskurðarnefndinni, en ekki þótti ástæða til að bíða hennar.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu leyfishafa kom fram að útgefið byggingarleyfi sé í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag, deiliskipulag og lög og engir formgallar séu á undirbúningi þess, sem réttlæti jafn íþyngjandi ákvörðun og þá að stöðva framkvæmdir.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um það hvort skylt hafi verið af byggingarfulltrúanum í Reykjavík að stöðva framkvæmdir að Álfabakka 2A. Byggingarleyfi vegna framkvæmdanna hafa verið útgefin og hafa þau ekki verið kærð, en ágreiningur er um hvort framkvæmd sé í samræmi við nefnd leyfi og hvort brotið sé á forsendum samþykktrar deiliskipulagsbreytingar fyrir Suður-Mjódd, dags. 5. október 2022 og 13. október 2022, byggingarleyfis dags. 17. október 2023 og/eða réttindum Búseta og íbúa við Árskóga 5-7, 109 Reykjavík. Kæruheimild er í 59. gr. laga um mannvirki og barst kæra innan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefndina nr. 130/2011.

Samkvæmt 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er byggingarfulltrúa heimilt að stöðva byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skv. 9. gr. laganna er þær eru hafnar án þess að leyfi sé fengið, ekki er sótt um leyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis, það byggt á annan hátt en leyfi stendur til, mannvirkið eða notkun þess brýtur í bága við skipulag, mannvirki er tekið í notkun án þess að öryggisúttekt hafi farið fram eða ef mannvirki er tekið til annarra nota en heimilt er samkvæmt útgefnu byggingarleyfi. Slík ákvörðun er bráðabirgðaákvörðun sem taka skal tafarlaust leiki grunur á því að framkvæmd sé án tilskilins leyfis. Í framhaldi hefur byggingarfulltrúi undirbúning endanlegrar ákvörðunar, sem eftir atvikum getur falist í að aflétta stöðvun eða beina tilmælum til framkvæmdaraðila um að bæta úr því sem áfátt er eða fjarlægja byggingarhluta.

Meðan mál þetta var til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni barst tilkynning frá byggingarfulltrúa dags. 30. janúar 2025, um að framkvæmdir við kjötvinnslu á 1. hæð í Álfabakka 2A yrðu tafarlaust stöðvaðar. Ástæða stöðvunarinnar var sögð að nánari skoðun á aðaluppdráttum, samþykktum 24. september 2024 hafi leitt í ljós misræmi milli samþykktra aðaluppdrátta og skráningartöflu, gera þurfi betur grein fyrir rými 0101 sem áætlað er fyrir kjötvinnslu og að ekki liggi fyrir upplýsingar um hvort félagið hafi tilkynnt til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða kjötvinnslu og líkleg umhverfisáhrif hennar. Hlutaðeigandi aðilum var veittur 7 daga frestur frá móttöku bréfsins til að koma að skriflegum skýringum og athugasemdum vegna málsins. Þá kom fram að byggingarfulltrúi mundi, að þeim fresti liðnum, taka ákvörðun um framhald málsins. Er í bréfinu tekið fram að byggingarfulltrúa kunni að vera heimilt að breyta eða fella byggingarleyfi úr gildi samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laga nr. 160/2010 eða eftir atvikum að undangenginni endurupptöku málsins að uppfylltum skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga eða með því að afturkalla það samkvæmt 25. gr. sömu laga.

Með þessu verður að álíta að til sé að dreifa nýrri afstöðu byggingarfulltrúa sem leitt getur til nýrrar stjórnvaldsákvörðunar sem mögulegt er að verði borin undir nefndina til úrskurðar, sbr. 65. gr. laga nr. 7/1998. Verður af þeim sökum ekki talið að hin kærða ákvörðun frá 20. desember 2024 hafi réttarverkan og virðist eðlilegt að líta svo á að hún hafi verið afturkölluð með tilkynningunni dags. 30. janúar 2025. Með hliðsjón af þessu sem og því sem ráða má af tilkynningunni um yfirstandandi rannsókn máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, þykir ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um málið og verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

163/2024 Hraunbær

Með

Árið 2025, mánudaginn 10. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 163/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 16. október 2024 um að gefa út byggingarleyfi vegna breytinga á innra skipulagi og fjölgun eigna að Hraunbæ 102a.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 27. nóvember 2024, kærir A f.h. JIG málunar ehf., eigandi að eignarhluta 050101 í Hraunbæ 102c, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 16. október 2024 að veita byggingarleyfi til að breyta innra skipulagi og fjölga eignum með því að skipta tveim skilgreindum rýmum í verslunar- og íbúðarhúsi að Hraunbæ 102a í 8 minni verslunareiningar og vinnustofur. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. desember 2024. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 6. febrúar 2025.

Málavextir:

Þann 7. maí 2024 var lögð inn umsókn um byggingarleyfi til byggingarfulltrúa Reykjavíkur þar sem sótt var um leyfi til að breyta innra skipulagi og fjölga eignum í verslunar- og íbúðarhúsi við Hraunbæ 102a, matshluta 01 á lóð nr. 102 í Hraunbæ í Reykjavík. Breytingarnar fólu í sér skiptingu á rýmum 0104 og 0108 upp í 8 minni verslunareiningar og vinnustofur.  Í málinu liggur fyrir samþykki frá þinglýstum eigendum allra eignarhluta fasteignarinnar að Hraunbæ 102a. Byggingarfulltrúi samþykkti umsóknina á afgreiðslufundi þann 1. október 2024 með því skilyrði að gerð yrði ný eignaskiptayfirlýsing þar sem um væri að ræða breytta skráningu á fjöleignarhúsi og var byggingarleyfi gefið út 16. október 2024.

Kærandi varð þess áskynja þann 7. nóvember 2024 að á fundi byggingarfulltrúa 1. október 2024 hafi verið fjallað um umsókn vegna Hraunbæjar 102a og því lýst að samþykki meðeigenda lægi fyrir. Kærandi spurðist fyrir um innihald umsóknarinnar og fékk svör við spurningum sínum frá Reykjavíkurborg sama dag. Þar var upplýst um innhald umsóknarinnar og að byggingarleyfi hefði verið gefið út, sem hann kærði til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar 27. nóvember 2024.

Málsrök kæranda:

Kærandi rekur að í svari Reykjavíkurborgar til hans þann 7. nóvember 2024 komi fram að verið sé að fjölga eignarhlutum í Hraunbæ 102a um 6, úr 19 í 25, og að ekki hafi verið talin þörf á samþykki annarra en eigenda í matshluta 1. Hann telji Hraunbæ 102a og 102c vera eitt hús í skilningi fjöleignarhúsalaga, mathlutarnir beri sama húsnúmer og séu samtendir með veggjum, t.d. sé aðgengi að efri hæð Hraunbæjar 102a á lofti bílageymslu Hraunbæjar 102b-e. Lóðin sé sameiginleg. Fjölgun eignarhluta í Hraunbæ 102a þurfi samþykki eigenda í Hraunbæ 102 b-g og einnig þurfi samþykki meðlóðarhafa í Hraunbæ 102 b-g og Rofabæ 27, sem sé ein lóð. Kærandi telji að samkvæmt fjöleignarhúsalögum þurfi samþykki allra ef fjölga skuli eignarhlutum, fjölgunin hafi ekki verið borin undir hann og því kæri hann samþykki og útgáfu byggingarleyfisins frá 16. október 2024 og óski eftir því að það verði fellt úr gildi.

Málsrök byggingarfulltrúa Reykjavíkur:

Reykjavíkurborg upplýsir að á bls. 161 í skipulagsskilmálum Hverfisskipulags Árbæjar, samþykktu í borgarráði 11. október 2019, komi fram að skilmálaeiningin Hraunbær 102 og Rofabær 23, samanstandi „af fjórum fjölbýlishúsum sem byggðust upp á 8. og 9. áratugnum. Á hverfisskipulagsuppdrætti af skilmálaeiningu 7.2.7, bls. 163, séu fjölbýlishúsin Hraunbær 102a, Hraunbær 102b-e, Hraunbær 102f-h og Rofabær 23 teiknuð sem fjórar stakstæðar byggingar. Sér lóðarleigusamningur sé í gildi fyrir Hraunbæ 102a, dags. 21. nóvember 2019, þar sem fram komi í 1. gr. að lóðin Hraunbær 102a sé hluti af lóðinni Hraunbær 102, 102a-h og Rofabær 23. Jafnframt liggi fyrir sér eignaskiptayfirlýsing varðandi Hraunbæ 102a, þinglýst 16. maí 2003, þar sem fram komi að húsið Hraunbær 102a sé steinsteypt verslunar- og fjölbýlishús á tveimur hæðum. Samþykki allra eigenda Hraunbæjar 102a þurfi við breytingu eignaskiptayfirlýsingarinnar, sbr. 1. tl. A. liðar 1. mgr. 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Í ljósi framangreinds og með hliðsjón af niðurstöðu Landsréttar í máli 435/2019, þar sem talið hafi verið að Rofabær 43-37 væri sjálfstætt hús í skilningi fjöleignarhúsalaganna, sé það mat Reykjavíkurborgar að Hraunbær 102a teljist vera sjálfstætt hús í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 26/1994.

Athugasemdir leyfishafa:

Leyfishöfum var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en þeir hafa ekki tjáð sig um kærumál þetta.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Með tölvupósti 6. febrúar 2025 ítrekaði kærandi fyrri sjónarmið.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um hvort útgáfa byggingaleyfis vegna breytinga á innra skipulagi og fjölgun eigna tveggja skilgreindra rýma í verslunar- og íbúðarhúsi að Hraunbæ 102a í minni verslunareiningar og vinnustofur hefði þurft samþykki allra eigenda í Hraunbæ a, b, c, d, e, f og g og einnig meðlóðarhafa að Rofabæ 27, en ekki einungis eigenda í Hraunbæ 102a. Ég geng út frá því að um ritvillu sé að ræða hjá kæranda varðandi tilgreint húsnúmer að Rofabæ 27 og þar hafi átt að standa Rofabær 23, enda deilir það hús lóð með Hraunbæ 102a.

Úrlausn þessa ágreiningsefnis veltur annars vegar á því hvort leita hefði átt samþykkis fyrir breytingunum á Hraunbæ 102a. Þar reynir á hvort Hraunbær 102a teljist sjálfstætt fjöleignarhús í skilningi fjöleignarhúsalaganna nr. 26/1994 eða hluti stærra fjöleignarhúss. Hins vegar veltur málið á því hvort breytingarnar kalli á samþykki eigenda að Hraunbæ b, c, d, e, f, og g og eigenda Rofabæjar 27, þar sem þær húseignir deili lóð með Hraunbæ 102a.

Kærandi telur að Hraunbær 102 a og 102c séu eitt hús í skilningi fjöleignarhúsalaganna og nefndin skilur málsástæður í kæru hans um að breytingarnar á Hraunbæ 102a þurfi samþykki eigenda í Hraunbæ 102 b-g á þann veg að hann telji Hraunbæ 102a, b, c, d, e, f og g einnig vera eitt fjöleignarhús.

Hugtakið hús er skilgreint í 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þannig að því sé átt við byggingu sem varanlega er skeytt við land og stendur sjálfstæð og aðgreind frá öðrum húsum eða skilur sig þannig frá þeim þótt sambyggð eða samtengd séu að eðlilegt og haganlegt sé að fara með hana samkvæmt lögunum sem sjálfstætt hús.

Fyrir liggur að á bls. 161 í skipulagsskilmálum Hverfisskipulags Árbæjar sem samþykkt var í borgarráði 11. október 2019 er því lýst að skilmálaeiningin Hraunbær 102 og Rofabær 23 samanstandi af fjórum fjölbýlishúsum sem byggst hafi upp á 8. og 9. áratugnum.  Í samræmi við þessa lýsingu eru á uppdrætti á bls. 163 þannig fjórar aðgreindar byggingar merktar; Hraunbær 102a, Hraunbær 102b-e, Hraunbær 102f-h og Rofabær 23.

Um Hraunbæ 102a gildir sérstök Eignaskiptayfirlýsing dags. 18. febrúar 2003, þar sem fram kemur að húsið að Hraunbæ 102a sé steinsteypt verslunar- og fjölbýlishús á tveim hæðum, með verslunar og þjónustufyrirtæki á 1. hæð ásamt 11 íbúðum á 2. hæð. Ekki er tilgreint að Hraunbær 102a sé hluti af stærra fjölbýlishúsi eða sambyggt öðrum húsum.

Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að byggingarnar við Hraunbæ 102a-h hafi ekki verið byggðar á sama tíma og útlit þeirra og yfirbragð sé frábrugðið. Aðskilin bílastæði og aðkeyrsla sé að Hraunbæ 102a og Hraunbæ 102b-e, en milli bygginganna sé samtengdur inngangur í bílageymslu og bílastæði Hraunbæjar 102a sem liggi lægra en bílastæði Hraunbæjar 102b-e og ekki akfært á milli þeirra.

Með vísan til ofangreindrar lýsingar, teikninga af byggingunum og eignarskiptayfirlýsingu Hraunbæjar 102a telur úrskurðarnefndin að Hraunbær 102a sé sjálfstætt hús í skilningi laga nr. 26/1994 um fjöleignarhúsa. Byggingarleyfið sem kært er var háð þeim skilyrðum að gerð yrði ný eignaskiptayfirlýsing fyrir Hraunbæ 102a. Með vísan til þess að úrskurðarnefndin telur að Hraunbær 102a sé sjálfstætt hús er skilyrðum 1. tl. A-liðar 1. mgr. 41. gr. um samþykki allra eigenda fyrir breytingum á þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fullnægt með því að samþykki allra þinglýstra eigenda að Hraunbæ 102a liggur fyrir. Samþykki eigenda annarra fjölbýlishúsa í Hraunbæ 102b-h eða Rofabæ 23 var því ekki þörf.

Kærandi vísar einnig til þess í málsástæðum sínum að sú fjölgun eignarhluta í Hraunbæ 102a sem byggingarleyfið er gefið út fyrir þurfi samþykki meðlóðarhafa að Hraunbæ 102b-g og Rofabæ 23. Á landeignanúmeri L111081 í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eru skráðar eignirnar Hraunbær 102, Hraunbær 102a-h og Rofabær 23. Sérstakur lóðarleigusamningur gildir fyrir Hraunbæ 102a, þar sem fram kemur að sú lóð sé hluti af lóðinni Hraunbær 102, 102a-h og Rofabæ 23. Hið kærða byggingarleyfi varðar einungis breytingar á innra skipulagi í Hraunbæ 102a en ekki framkvæmdir eða breytingar á framangreindum lóðum eða lóðaréttindum. Ekki verður séð að eigendur annarra fasteigna eigi því hagsmuna að gæta á grundvelli lóðarréttinda.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.

Framkvæmd sú sem heimiluð er með hinu kærða leyfi snýst um breytingar á innra skipulagi og fjölgun eigna með því að skipta rýmum 0104 og 0108 upp í 8 minni verslunareiningar og vinnustofur í verslunar- og íbúðarhúsi við Hraunbæ 102a, matshl. 01 á lóð nr. 102 við Hraunbæ. Fyrirliggjandi er samþykki allra þinglýstra eigenda að eignarhlutum í Hraunbæ 102a og eins og áður er rakið var ekki þörf á samþykki kæranda né annarra eigenda húseignanna að Hraunbæ 102 b-h né Rofabæ 23. Með vísan til þessa verður ekki séð að breytingarnar og sú fjölgun eigna sem byggingaleyfið nær til raski grenndarhagsmunum kæranda eða öðrum þeim einstaklingsbundnu lögvörðu hagsmunum hans á þann hátt að veitt geti honum kæruaðild í máli þessu. Af þeim sökum er kæru þessari vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

172/2024 Þorragata

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 4. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 172/2024, kæra vegna ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 5. nóvember 2024 um tímabundna lokun leikskólans S.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. desember 2024, kærir A, leikskólastjóri, „framferði fulltrúa Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í leikskólanum S þann. 5. nóvember 2024“. Nefndin skilur málatilbúnað kæranda á þann veg að kærð sé ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 5. nóvember 2024 um að loka tímabundið leikskólanum S í kjölfar þess að húsnæði skólans var við eftirlit metið heilsuspillandi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 14.janúar 2025.

Málavextir: Þann 5. nóvember 2024 fóru tveir heilbrigðisfulltrúar í reglubundið eftirlit og í úttekt á nýrri viðbyggingu leikskólans S. Í ljós kom m.a. óþrifnaður og mikil ummerki um meindýr og var húsnæðið metið heilsuspillandi. Heilbrigðiseftirlitið tók ákvörðun um að stöðva þyrfti starfsemina til bráðabirgða, sbr. 63. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Með bréfi dags. 6. nóvember 2024 upplýsti Heilbrigðiseftirlitið leikskólann um hvaða úrbætur þyrfti að gera áður en leikskólinn gæti tekið til starfa að nýju. Þann 8. nóvember 2024 upplýsti leikskólastjórinn að búið væri að uppfylla þær kröfur sem þyrfti til að aflétta lokun leikskólans og að lokinni úttekt heilbrigðisfulltrúa sama dag var upplýst að úrbætur væru metnar fullnægjandi og að leyfilegt yrði að opna leikskólann á ný þann 11. nóvember 2024.

Málsrök kæranda: Kærandi greinir frá því að tveir fulltrúar Heilbrigðiseftirlitsins hafi þann 5. nóvember 2024 komið til að taka út húsnæði leikskólans S. Við úttektina hafi fulltrúarnir fundið músagildrur og ummerki um mýs og fyrirskipað tafarlausa lokun leikskólans. Sú fyrirskipan hafi verið ,,hóflaus og án málefnalegrar ástæðu“ því sú heilbrigðisógn sem til staðar hafi verið gæti ekki réttlætt svo harkalegar aðgerðir. Kærð sé sú hóflausa valdbeiting sem í þessu hafi falist, ófagleg og ruddaleg framkoma, einstrengingslegar tilvísanir í reglugerðartexta og að ekki hafi verið gerður greinarmunur á mismunandi tegundum þrifa í húsnæði leikskólans. Álítur kærandi að hægt hefði verið að mæta úrbótakröfum án þess að loka leikskólanum.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Heilbrigðiseftirlitið bendir á að í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Rekstrarstjóri leikskólans hafi undirritað eftirlitsskýrslu þann 5. nóvember 2024 þar sem fram komi að þar sem heilnæmi og öryggi væri ekki tryggt yrði leikskólinn lokaður þar til fullnægjandi úrbætur hefðu verið gerðar og teknar út. Kæranda hafi því mátt vera kunnugt um ákvörðunina þann 5. nóvember. Bréf um stöðvun starfsemi til bráðabirgða, dagsett 6. nóvember 2024 var undirritað af leikskólastjóra 7. nóvember 2024. Kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni 10. desember 2024. Kæran hafi því borist of seint og með vísan til 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri því að vísa henni frá nefndinni.

Heilbrigðiseftirlitið bendir einnig á að skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 sé meginreglan sú að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Hin kærða ákvörðun frá 6. nóvember 2024 um stöðvun starfsemi til bráðabirgða hafi verið afturkölluð og sé því ljóst að hún hafi ekki lengur réttarverkan. Af þeim sökum hafi kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og því ætti að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð sú ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 5. nóvember 2024, að loka tímabundið leikskólanum S í kjölfar þess að við eftirlit hafði komið í ljós ummerki eftir mýs og að heilnæmi og öryggi væri ekki tryggt í leikskólanum. Rekstrarstjóri leikskólans undirritaði og staðfesti móttöku á eftirlitsskýrslu þann 5. nóvember þar sem fram kom að loka þyrfti leikskólanum. Bréf um stöðvun starfsemi leikskólans, dags. 6. nóvember, með ítarlegum upplýsingum um kærurétt og fresti vegna kæru til úrskurðarnefndarinnar, var samkvæmt upplýsingum Heilbrigðiseftirlitsins afhent og staðfest móttekið af kæranda þann 7. nóvember.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Álíta verður að kæranda hafi orðið kunnugt um ákvörðun um lokun leikskólans þegar eftirlitsskýrsla var undirrituð af starfsmanni leikskólans 5. nóvember og að kærandi hafi fengið upplýsingar um kærurétt til úrskurðarnefndarinnar eigi síðar en 7. nóvember 2024. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni meira en mánuði síðar, 10. desember 2024.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Ekki verður talið eins og atvikum er háttað, m.a. í ljósi þess að lokun leikskólans var aflétt þann 11. nóvember 2024, að ástæða sé til að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

150/2024 Stafafellsfjöll

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

 Fyrir var tekið mál nr. 150/2024, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar frá 17. október 2024 um að veita undanþágu frá tilmælum um mænisstefnu í skilmálum deiliskipulags frístundasvæðis í Stafafellsfjöllum í Lóni.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. október 2024, er barst nefndinni 1. nóvember s.á., kærir landeigandi við Stafafellsfjöll, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar frá 17. október 2024 að veita undanþágu frá tilmælum um mænisstefnu í deiliskipulagi frístundasvæðis í Stafafellsfjöllum á lóð nr. 1D. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið sé til afgreiðslu hjá nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 11. nóvember 2024.

Málavextir: Með erindi, dags. 24. júlí 2023, óskaði umráðandi lóðar 1D í Stafafellsfjöllum eftir byggingarleyfi fyrir frístundahúsi og gestahúsi á lóðinni. Var umsóknin samþykkt og byggingarleyfi gefið út 30. janúar 2024. Ný afstöðumynd var send inn 9. apríl s.á. og samþykkt af staðgengli byggingarfulltrúa 24. maí s.á. Lóðarhafi var upplýstur með tölvupósti 16. september 2024 að borist hefði ábending um að hús það sem verið væri að reisa á lóð 1D í Stafafellsfjöllum væri í ósamræmi við deiliskipulag og var hann inntur eftir útskýringum. Með tölvupósti 17. s.m. óskaði lóðarhafi eftir undanþágu frá skilmálum deiliskipulags. Sveitarfélagið fór fram á stöðvun framkvæmda með tölvupósti 18. september 2024 í ljósi þess að bygging sumarhúss á lóð 1D í Stafafellsfjöllum samræmdist ekki skilmálum gildandi deiliskipulags.

Erindi lóðarhafa um undanþágu frá skilmálum fyrrgreinds deiliskipulags var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagssviðs 18. september s.á. og var ákveðið að afla skyldi umsagna landeigenda Stafafellsfjalla og Brekku vegna málsins. Eigendum óskipts lands Stafafellsfjalla og Brekku, þar á meðal kæranda, var sendur tölvupóstur 20. s.m. þar sem óskað var afstöðu þeirra vegna framkominnar beiðni. Kærandi kom á framfæri mótmælum vegna óskar lóðarhafa um frávik frá skipulagsskilmálum og benti á að staðsetning hússins væri í ósamræmi við skýrt orðalag greinargerðar deiliskipulagsins. Kærandi var sá eini af fjórum landeigendum sem var mótfallin framkominni beiðni um undanþágu. Á fundi umhverfis- og skipulagssviðs 2. október s.á. var samþykkt að veita undanþágu frá tilmælum um mænisstefnu í skilmálum deiliskipulags frístundasvæðis í Stafafellsfjöllum í Lóni í samræmi við 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bæjarstjórn Hornarfjarðar staðfesti afgreiðslu umhverfis- og skipulagssviðs á fundi sínum 17. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun sé ekki í samræmi við skýrt orðalag í gildandi deiliskipulagi svæðisins og að framkvæmdir hafi verið hafnar á lóð Stafafellsfjalla 1D áður en leyfi hafi verið veitt. Ekki sé um óverulegt frávik að ræða og það verði að hafa góð rök til að breyta skipulaginu. Engin slík rök hafi komið fram önnur en að þetta þóknist eigandanum betur. Þetta varði hagsmuni kæranda og annarra sem leið eigi um svæðið og ákvörðun sveitarfélagsins sé fordæmisgefandi og miklir hagsmunir í húfi fyrir lóðarhafa, rétt eins og landeiganda. Ef nauðsynlegt sé að víkja frá skipulagi þurfi að vera til staðar skýr rök.

Málsrök Sveitarfélagsins Hornafjarðar:  Bent er á að ekki liggi fyrir hvaða hagsmuni kærandi hafi vegna málsins. Gerð hafi verið athugasemd er varðaði fyrirhugaða stefnu aðalmænis og málsmeðferð. Ekki komi þó fram hvaða hagsmunir það séu er varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Þá sé ekki ljóst á hvaða grundvelli sú fullyrðing að málið varði hagsmuni þeirra sem leið eigi um svæðið og hvernig það tengist túlkun 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Því sé haldið fram að um fordæmisgefandi ákvörðun sé að ræða en í raun séu fjölmörg dæmi um hús þar sem stefna aðalmænis fylgi ekki meginstefnu í landi.

Sveitarfélagið telji ákvörðun sína, sem byggð sé á 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga, vera í samræmi við þá skilmála sem fram komi í málsgreininni. Um svo óverulegt frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Hvergi í samskiptum kæranda við sveitarfélagið hafi komið fram að þeir hagsmunir sem 3. mgr. 43. laganna fjalli um teljist skertir.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið og skráningu í landeignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar liggi tvær landeignir að umræddri lóð, þ.e. lóð 1E og landeign L223430 Stafafellsfjöll móður sem sé í óskiptri eigu kæranda og þriggja annarra. Á svæðinu séu í heild um 50–60 sumarbústaðalóðir. Landeign sú er kærandi sé meðeigandi að sé í raun um 190 ha opið svæði. Það sé ekki gert ráð fyrir í deiliskipulagi að eigendur þess lands geti reist mannvirki þar, skýli eða útbúið annan stað til íveru í nágrenni við lóð 1D.  Mörg hús séu með mænisstefnu þvert á hlíðar og ef rétt væri hjá kæranda að krafa um að „miðað sé við […] að stefna aðalmænis fylgi sem mest meginstefnu í landinu og verði að jafnaði samsiða hlíðum“ sé ófrávíkjanleg þá yrðu öll hús með annað form þaks en mænisþak ekki í samræmi við deiliskipulag. Mörg hús, þar á meðal hús kæranda á lóð nr. 7, séu með aðra útfærslu á þaki en mænisþak og því ljóst að útfærsla húsa í frístundabyggðinni sé fjölbreytt. Þá geti verið erfitt að uppfylla skilmála deiliskipulagsins um mænisstefnu á einhverjum lóðum þar sem svæðið sé það landfræðilega fjölbreytt að á mörgum lóðum geti aðalstefna mænis ekki verið samsíða hlíðum.

Ákvæði 43. gr. skipulagslaga fjalli um breytingar á deiliskipulagi og ljóst sé að hin kærða ákvörðun fjalli um frávik frá kröfum deiliskipulags. Kærandi sé aftur á móti að krefjast að ákvörðun um frávik frá deiliskipulagi verði felld úr gildi þar sem hún sé ekki í samræmi við skipulag. Forsenda þess að heimilt sé að beita undanþáguákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga sé að um svo óverulegt frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Kæranda hafi í tvígang verið gefið færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í þeim tilgangi að athuga hvort hagsmunir hans myndu skerðast að einhverju leyti hvað varðaði framangreind atriði. Þar sem hvorki hann né aðrir aðilar hafi lýst því yfir að þessir hagsmunir myndu skerðast, hafi bæjarstjórn tekið ákvörðun um að heimila frávik frá viðmiðunarskilmálum deiliskipulagsins.

Athugasemdir leyfishafa: Bent er á að stefna mænis hafi á engan hátt áhrif á nálægar lóðir eða þá sem leið eigi um svæðið enda sé mænishæð hússins langt undir leyfilegri mænishæð samkvæmt deiliskipulagi. Með tilliti til alls verði ekki séð að grenndarhagsmunir eigi að nokkru leyti við og allra síst í tilfelli kæranda sem hafi enga aðra hagsmuni af málinu en að viðhalda deilum við aðila sem landeigandi hafi enga aðkomu að. Orðalag ákvæðis í deiliskipulagi sé á engan hátt afdráttarlaust eða eins skýrt og kærandi vísi til. Öllum þeim sem kynni sér málið sé ljóst að húsin fylgi sem mest meginstefnu hlíða og séu „að jafnaði“ samsíða þeim hlíðum sem séu í Stafafellsfjöllum. Fjöldi sumarhúsa séu í umræddri orlofsbyggð sem snúi á ýmsa vegu og meðal annars megi telja hátt í tug húsa sem séu algjörlega samsíða húsi leyfishafa, sé miðað við stefnu mænis.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekaði fyrri sjónarmið og benti á að erfitt væri að sjá hvaða hagsmuni sveitarfélagið hefði af því að virða gildandi skipulag að vettugi. Það væri hlutverk m.a. arkitekta að hanna svæðið svo vel færi en ekki einstakra nefndarmanna eða bæjarfulltrúa eftir hentugleika.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 17. október 2024 um að heimila að víkja frá kröfu 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um breytingu á deiliskipulagi vegna byggingar frístundahúss á lóð nr. 1D í Stafafellsfjöllum á grundvelli 3. mgr. sama ákvæðis.

Í 43. gr. skipulagslaga er fjallað um málsmeðferð við breytingu á deiliskipulagi. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Þá segir í 3. mgr. lagaákvæðisins að við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.

Ákvörðun bæjarstjórnar um að víkja frá kröfu um breytingu á deiliskipulagi var tekin á grundvelli nefndrar 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Sambærilega reglu er að finna í gr. 5.8.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar segir jafnframt að byggingarfulltrúi eða skipulagsfulltrúi geti að lokinni samþykkt sveitarstjórnar, um heimild til að víkja frá breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu, sbr. gr. 5.8.2. reglugerðarinnar, afgreitt byggingarleyfið eða framkvæmdaleyfið. Frávik séu bundin viðkomandi leyfi og verði ekki sjálfkrafa hluti skipulagsskilmála.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun

Kærandi er einn af fjórum eigendum lóðarinnar Stafafellsfjöll móður, L223430. Lóðin er tæplega 200 ha að stærð, en innan marka hennar er fjöldi frístundalóða sem skipt hefur verið úr upprunalegri lóð og seldar. Lóð sú er um ræðir í máli þessu, Stafafellsfjöll 1D, er ein þeirra. Sitt hvoru megin við lóð 1D eru lóðirnar Stafafellsfjöll 1B og 1E, en hvorug þeirra lóða er í eigu kæranda.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi telji málið varða mikla hagsmuni fyrir sig, aðra lóðarhafa og aðra sem leið eigi um svæðið án þess þó að fram komi í hverju þessir hagsmunir felist. Þrátt fyrir að kærandi sé eigandi lóðar þeirrar sem lóð 1D var skipt úr verður ekki talið að hann verði fyrir grenndaráhrifum vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Frístundahús kæranda sem stendur á lóð Stafafellsfjalla 7 er í töluverðri fjarlægð frá lóð 1D og eru nokkrar lóðir og hús á milli þeirra. Verður að teknu tilliti til framangreinds ekki álitið að grenndarréttur kæranda sé skertur með þeim hætti að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni í málinu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

7/2025 Sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Með

Árið 2025, mánudaginn 20. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 7/2025, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 8. janúar 2025 um að synja beiðni um frest til að skila inn athugasemdum við auglýsta tillögu að rekstrarleyfi til sjókvíaeldis í Seyðisfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til matvælaráðuneytisins, nú atvinnuvegaráðuneytis, dags. 10. janúar 2025, kærðu samtökin Vá! – félag um vernd fjarðar og eigendur jarðarinnar Dvergasteins synjun Matvælastofnunar um frest til að skila inn athugasemdum við auglýsta tillögu að rekstrarleyfi til sjókvíaeldis í Seyðisfirði. Kæran var framsend til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 16. s.m. með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fara kærendur fram á að synjun Matvælastofnunar verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Með tölvupósti 7. janúar 2024 óskaði kærandi eftir því við Matvælastofnun að frestur til athugasemda við auglýsta tillögu að rekstrarleyfi til sjókvíaeldis í Seyðisfirði yrði framlengdur. Vísuðu kærendur til þess að nýju áhættumati frá Hafrannsóknarstofnun hefði verið frestað og fyrir vikið lægju ekki fyrir ný viðmið frá því að umfangsmiklar slysasleppingar og umhverfisslys hefðu orðið í atvinnugreininni. Erindinu var svarað með tölvupósti 8. s.m. þar sem fram kom að Matvælastofnun teldi ekki þörf á að framlengja umræddan frest. Ítrekuðu kærendur beiðnina með tölvupósti sama dag og var því erindi svarað með tölvupósti 10. s.m. þar sem vísað var til fyrra svars og beiðninni hafnað.

Niðurstaða: Ákvarðanir Matvælastofnunar, er lúta að skráningarskyldu eða veitingu, endurskoðun og afturköllun rekstrarleyfis til fiskeldis samkvæmt II., III. og V. kafla laga nr. 71/2008, um fiskeldi, sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 2. mgr. 4. gr. sömu laga.

Í 26. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í 2. mgr. 26. gr. segir enn fremur að ákvörðun, sem ekki bindi enda á mál, verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leidd. Í stjórnsýslulögum eru lögfestar tvær undan­tekningar frá ákvæði 2. mgr. 26. gr., þ.e. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er varðar óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls og 2. mgr. 19. gr. sömu laga er varðar synjun eða takmörkun á aðgangi að gögnum máls. Verður ekki séð að þessar undantekningar eigi við í máli þessu.

Hin kærða ákvörðun varðar málsmeðferð Matvælastofnunar við útgáfu rekstrarleyfis en ekki er að ræða um ákvörðun er bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

155/2024 Tjarnargata

Með

Árið 2024, mánudaginn 23. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 155/2024, kæra vegna framkvæmda á lóðamörkum Tjarnargötu 24 og Kirkjugerðis 11 í Sveitarfélaginu Vogum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. nóvember 2024, kærir eigandi, Tjarnargötu 24, framkvæmdir á lóðamörkum Tjarnargötu 24 og Kirkjugerðis 11 í Sveitarfélaginu Vogum. Er þess krafist að eigandi lóðarinnar Kirkjugerðis 11 stöðvi framkvæmdir og að lóðamörk sem sett hafi verið árið 1969 fái að standa. Jafnframt er þess krafist að eigandinn gangi svo frá að ekki standi hætta af og að hann setji girðingu í stað þeirrar sem hann hafi tekið niður.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 20. nóvember 2024.

Málsatvik og rök: Ágreiningur um lóðamörk mun hafa staðið yfir um árabil milli eigenda lóðanna Tjarnargöt 24 og Kirkjugerði 11 í Sveitarfélaginu Vogum, en samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar voru húsin á nefndum lóðum byggð árið 1969 og 1978. Árið 2017 óskaði eigandi Kirkjugerðis 11 eftir því að lóðin yrði sett út og var mælingafyrirtæki falið það verk. Sama ár sótti eigandinn um leyfi til að stækka bílskúr á lóðinni að lóðamörkum. Var umsóknin grenndarkynnt og skilaði kærandi athugasemdum við þá kynningu þar sem byggingaráformunum var andmælt. Synjaði byggingarfulltrúi umsókninni þar sem ekki lægi fyrir samþykki allra eigenda aðliggjandi lóða. Á þessu ári mun eigandi Kirkjugerðis 11 hafa hafið framkvæmdir við gerð stoðveggjar á umræddum lóðamörkum.

Kærandi telur að lóðamörk sem gerð hafi verið árið 1969 eigi að standa en ekki þær mælingar sem gerðar hafi verið af fyrirtæki. Það sé einkennilegt að einn lóðareigandi geti farið fram á að færa lóðarmörk sinnar lóðar og hefji svo framkvæmdir án leyfis og samráðs við nágranna. Það sé einnig einkennilegt að ekkert leyfi hafi verið gefið út eða að ekkert eftirlit hafi verið með framkvæmdunum.

Sveitarfélagið Vogar tekur fram að ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir hinum umdeildu framkvæmdum. Um sé að ræða gerð stoðveggjar á lóðarmörkum Kirkjugerðis 11. Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé tiltekið að allt viðhald lóða, girðinga, bílastæða og innkeyrslna, auk gerðar palla og annars frágangs á eða við jarðvegsyfirborð sé undanþegið byggingarleyfi, sbr. c- og d-lið ákvæðisins. Í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar komi jafnframt fram að allur frágangur á eða við jarðvegsyfirborð sé undanþeginn leyfi. Umræddur stoðveggur sé við jarðvegsyfirborð og því sé það afstaða sveitarfélagsins að ekki sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða. Búið sé að steypa vegginn.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en telur það falla utan valdheimilda sinna að leggja fyrir stjórnvöld eða aðila máls að aðhafast með tilgreindum hætti í málum. Verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að ákveðin eignamörk fái að standa enda er úrskurðarnefndin ekki til þess bær að skera úr um eignaréttarlegan ágreining. Þá verður heldur ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að úrskurðarnefndin geri eiganda Kirkjugerðis 11 að stöðva framkvæmdir og haga frágangi með tilteknum hætti.

Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á grundvelli þeirra laga. Hið kærða ágreiningsefni í máli þessu lýtur að framkvæmdum á lóðamörkum Kirkjugerðis 11 og Tjarnargötu 24 í Sveitarfélaginu Vogum. Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið upplýst að ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út, enda sé það mat þess að ekki sé um leyfisskylda framkvæmd að ræða. Liggur því fyrir að ekki hefur verið tekin ákvörðun á grundvelli mannvirkjalaga vegna hinna umdeildu framkvæmda. Verður af þeim sökum að líta svo á að ekki sé til að dreifa kæranlegri stjórnvaldsákvörðun sem skotið verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumáli þessu því vísað frá.

Rétt þykir að leiðbeina kæranda um að telji hann að framkvæmdir fari fram á lóð hans geti hann beint erindi til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins þess efnis og farið fram á beitingu þvingunarúrræða á grundvelli 55. og 56. gr. laga um mannvirki. Afgreiðsla slíks erindis sætir eftir atvikum kæru til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

88/2024 Múlalind

Með

Árið 2024, föstudaginn 20. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 88/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að gera kvist á bílskúr á lóð Múlalindar 3.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. ágúst 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Múlalind 6, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að gera kvist á bílskúr á lóð Múlalindar 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að kvisturinn verði fjarlægður.

Málsatvik og rök: Á fundi byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 12. júlí 2024 var tekin fyrir og samþykkt umsókn eigenda Múlalindar 3 um leyfi til að gera kvist á bílskúr á lóð þeirra. Hinn 18. ágúst s.á. barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kæra þessa máls. Með bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 11. september s.á., var tilgreint að við skoðun málsins hafi komið í ljós að ekki væri heimild í deiliskipulagi fyrir umræddum kvisti auk þess sem kvisturinn, sem búið væri að byggja, væri ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti. Tilkynnti embættið leyfishafa að áformað væri að fella leyfið úr gildi með vísan til 2. töluliðar 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á grundvelli 13. gr. sömu laga var leyfishafa veittur 14 daga frestur til til að tjá sig um málið. Embættinu bárust engar athugasemdir frá leyfishafa og hinn 29. október 2024 tilkynnti byggingarfulltrúi honum um að leyfið væri fellt úr gildi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. desember s.á. var bréfið lagt fyrir og það samþykkt.

Kærendur taka fram að þau hafi fyrst orðið vör við hina kærðu framkvæmd 11. ágúst 2024. Undanfarin ár hafi sífellt verið bætt við byggingarmagni á lóðinni áður en aflað hafi verið tilskilinna leyfa. Sú stækkun sem hér um ræði hafi aldrei verið kynnt kærendum þrátt fyrir að breytingin hafi áhrif á útsýni þeirra. Þrátt fyrir að framkvæmdin beri heitið „kvistur“ sé efnislega um að ræða hækkun á austanverðri langhlið bílskúrsins um eina hæð. Breytingin samræmist því ekki byggðamynstri þar sem öll önnur hús í götunni séu einnar hæðar, að undanskildu endahúsi á lóð nr. 2 sem falli ágætlega inn í umhverfið. Byggingarmagn á lóðinni sé komið langt umfram það sem eðlilegt geti talist.

Af hálfu eiganda Múlalindar 3 er bent á málsmeðferð byggingarleyfisins hafi verið í fullu samræmi við gildandi lög og reglur. Um smávægilega breytingu á útliti hússins sé að ræða.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er meginreglan sú að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Eins og að framan greinir hefur hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa frá 12. júlí 2024 verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Vegna þeirrar kröfu kærenda að hinn umdeildi kvistur á bílskúr lóðar Múlalindar 3 verði fjarlægður er bent á að hlutverk úrskurðarnefndarinnar skv. 1. gr. laga nr. 130/2011 er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði.  Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en telur það falla utan vald­heimilda sinna að leggja fyrir stjórnvöld að aðhafast með tilgreindum hætti í málum. Verður því ekki tekin afstaða til framangreindrar kröfu kærenda, en rétt þykir að leiðbeina þeim um að hægt er að fara fram á við byggingarfulltrúa að beitt verði þvingunarúrræðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 55. og 56. gr. laganna.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

156/2024 Oddeyrargata

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 156/2024, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 9. október 2024 um að synja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæðis á lóð Oddeyrargötu 30.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. nóvember 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Café Jensen ehf. eigandi lóðar nr. 30 við Oddeyrargötu, þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 9. október 2024 að synja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæðis á lóð Oddeyrargötu 30. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 22. nóvember 2024.

Málavextir: Með umsókn, dags. 12. september 2024, sótti kærandi um framkvæmdaleyfi til að gera bílastæði á lóð Oddeyrargötu 30 á Akureyri. Nánar tiltekið fólu áformin í sér að gerð yrðu bílastæði fyrir tvo bíla á suðurhorni lóðarinnar. Að auki var óskað eftir leyfi til að gera geymslu inn af bílastæðunum til vesturs og vísað til þess að í hverfinu væru fordæmi fyrir framkvæmdinni. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 9. október s.á. þar sem umsókninni var synjað með eftirfarandi rökstuðningi: „Mikil umferð gangandi er um Oddeyrargötu og telur skipulagsráð því ekki æskilegt að gerð verði aðkoma inn á lóð yfir gangstétt, sérstaklega þar sem eingöngu er mjó gangstétt öðru megin götunnar.“ Hinn 22. s.m. óskaði kærandi eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og var þeirri beiðni svarað af skipulagsfulltrúa 5. nóvember s.á. Kom þar fram að mikil umferð gangandi, hjólandi og hlaupahjóla væri um Oddeyrargötu. Eingöngu væri mjó gangstétt öðru megin götunnar og með því að heimila bílum að þvera gangstéttina til að komast að bílastæðum innan lóðar skapist óþarfa hætta fyrir þá sem nýti gangstéttina, sérstaklega þar sem bílar, gróður og girðingar lóða hindri oftar en ekki útsýni. Þá var í rökstuðningnum vísað til þess að hvergi væri að finna bílastæði innan lóðar á sam­bærilegum lóðum við Oddeyrargötu, þ.e. á lóðum milli Hamarstígs og Lögbergsgötu.

Málsrök kæranda: Kærandi andmælir þeirri fullyrðingu Akureyrarbæjar að mikil umferð sé á gangstéttinni við Oddeyrargötu. Ráðið vísi einnig til þess að gangstéttin sé mjó en ekki verði betur séð en að breiddin sé í samræmi við núgildandi staðal. Samkvæmt leiðbeiningum frá Vegagerðinni megi breidd gangstéttar vera 1,8 m sem sé einmitt breidd gangstéttarinnar. Fyrir liggi fordæmi á lóðum við Oddeyrargötu þar sem finna megi bílastæði sem hafi aðkomu yfir gangstétt, t.d. Oddeyrargata 4, 12, 13–15 og 18–22. Það sé mikilvægt að dregið verði úr því að bifreiðaeigendur sem erindi hafi í miðbæ Akureyrar leggi bifreiðum sínum í íbúðarhverfum og að tillit verði tekið til íbúa bæjarins með hliðsjón af þörfum þeirra fyrir bílastæði.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu bæjayfirvalda er vísað til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin með hliðsjón af mikilli umferð um Oddeyrargötu og mjórri gangstétt. Ákvörðunin sé því málefnaleg út frá sjónarmiðum um umferðaröryggi. Horfa þurfi til þess að umrædd lóð sé í miklum halla og ef bílastæðið eigi að vera á svipuðu „plani“ og gatan þurfi að grafa inn í brekkuna sem myndi skerða útsýni bílstjóra að gangstétt og götu. Einnig hafi verið litið til samliggjandi lóða Oddeyrargötu 30, þ.e. húsa á lóðum 36, 34, 32, 28 og 26 sem standi öll á milli Lögbergsgötu og Hamarstígs. Frá gangstétt að húsum þeirra lóða sé nokkur bratti á lóð og engin bílastæði með útkeyrslu á Oddeyrargötu. Húsin á Oddeyrargötu fyrir neðan Hamar­stíg, sem séu þau hús sem kærandi vísi til, séu á svipuðu „plani“ og gatan. Útsýni frá bílastæði að gangstétt og götu sé mun víðara þar og af þeim sökum sé fyrirkomulag þeirra lóða ekki sambærilegt við lóð Oddeyrargötu 30. Hin kærða ákvörðun hafi jafnframt verið tekin m.t.t. götumyndar svæðisins, en á Oddeyrargötu milli Lögbergsgötu og Hamarstígs séu engin bíla­stæði á lóðum.

Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 102/2023, en í því máli hafi byggingarfulltrúi synjað umsókn um gerð bílastæðis á þeim grundvelli að stæði á íbúðar­húsalóð myndi skapa talsverða slysahættu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, sbr. gr. 12.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem segi að aðkoma að hverri byggingu, bílastæði og almennt göngusvæði við og að byggingu skuli þannig staðsett og frágengin að aðgengi að byggingunni sé auðvelt og ekki skapist slysahætta á svæðinu.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda eru ítrekuð sjónarmið um að umferð sé ekki þung við Oddeyrargötu og að gangstétt sé í leyfilegri breidd. Bílastæðið yrði grafið inn í hlíðina en þar sem tré hafi verið fjarlægð þá verði útsýnið ekki verra en t.d. frá stæðinu við Oddeyrargötu 12.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 9. október 2024 að synja umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæðis á lóð Oddeyrargötu 30. Var ákvörðunin tekin með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. sam­þykktar nr. 1674/2021 um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar, en í 2. gr. viðauka 1.1 við greinda samþykkt er skipulagsráði falið að afgreiða tiltekin verkefni skipulagslaga nr. 123/2010 án staðfestingar bæjarstjórnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. þeirra laga.

Samkvæmt 10. tl. 2. gr. laga nr. 123/2010 er framkvæmdaleyfi skilgreint sem leyfi til framkvæmda í samræmi við skipulag sem ekki eru háðar ákvæðum laga um mannvirki. Í 1. mgr. 13. gr. sömu laga segir að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, en skv. 2. málsl. ákvæðisins þarf þó ekki að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem háðar eru byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki.

Í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett er á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki, er í kafla 4.3. fjallað um aðaluppdrætti og byggingarlýsingu. Segir í 1. mgr. gr. 4.31. að aðal­uppdrættir séu heildaruppdrættir að mannvirki ásamt afstöðumynd. Í 3. mgr. er svo mælt fyrir um að á afstöðumynd skuli sýna byggingarreit innan lóðar samkvæmt deiliskipulagi, bílastæði á lóð og aðkomu að mannvirkinu, en jafnframt skal skv. 8. mgr. tilgreina fjölda bílastæða, stæði fyrir önnur farartæki og gera sérstaklega grein fyrir samræmi við kröfur í deiliskipulagi og í byggingarreglugerð. Þá er og ljóst að um bílastæði gilda ákveðnar kröfur sem m.a. er fjallað um í gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð, s.s. um að hönnun þeirra skuli vera með þeim hætti að ekki skapist hætta fyrir gangandi eða hjólandi vegfarendur.

Af framangreindu verður ráðið að gerð bílastæða sé byggingarleyfisskyld framkvæmd sam­kvæmt lögum nr. 160/2010 og því ljóst að ekki er þörf á framkvæmdaleyfi vegna þeirrar fram­kvæmdar, sbr. áðurnefndan 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Það er hlutverk byggingar­fulltrúa sveitarfélags að taka ákvörðun um það hvort samþykkja skuli eða hafna umsókn um byggingarleyfi en af samþykktum Akureyrarbæjar verður ekki séð að skipulagsráði hafi verið falið vald til að taka ákvarðanir á grundvelli laga nr. 160/2010. Verður ákvörðun þar að lútandi því einungis tekin af byggingarfulltrúa, eftir atvikum eftir að leitað hefur verið umsagnar skipulagsfulltrúa skv. 2. mgr. 10. gr. laganna, um hvort fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu.

Samkvæmt framansögðu var skipulagsráð ekki bært að lögum til að taka hina kærðu ákvörðun og af þeim sökum skortir á að um sé að ræða lokaákvörðun í máli þessu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.