Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

96/2025 Arnartangi

Með

Árið 2025, föstudaginn 4. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 96/2025, kæra á afgreiðslu lögmanns á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar frá 27. júní 2025 á fyrirspurn um innheimtu byggingarleyfisgjalda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 30. júní 2025, kærir A afgreiðslu lögmanns á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar frá 27. júní 2025 á fyrirspurn um innheimtu byggingarleyfisgjalda. Er þess krafist að innheimta afgreiðslugjalds og gjalds fyrir lokaúttekt og lokaúttektarvottorð verði felld niður.

Málsatvik og rök: Á árinu 2008 sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir stækkun húss á lóð nr. 47 við Arnartanga í Mosfellsbæ. Voru byggingaráform samþykkt og byggingarleyfisgjöld innheimt, en engar framkvæmdir áttu sér stað í kjölfarið. Árið 2013 sótti kærandi að nýju um byggingarleyfi vegna sömu byggingaráforma. Voru þau samþykkt og munu framkvæmdir á grundvelli þess hafa farið fram. Árið 2023 fékk kærandi samþykkt byggingaráform fyrir innanhúsbreytingum. Hinn 29. mars s.á. var gefinn út reikningur þar sem m.a. var innheimt fyrir gjaldaliðina afgreiðslugjald að upphæð 14.100 kr., lokaúttekt að upphæð 25.000 kr. og lokaúttektarvottorð að upphæð 15.800 kr. Í janúar 2024 mótmælti kærandi álagningu greindra gjalda á þeim grundvelli að hann hefði þegar greitt gjöldin og óskaði útskýringa á því hvers vegna gjöldin hefðu verið innheimt. Mun hann hafa ítrekað erindið margsinnis þar til svar barst frá lögmanni á bæjarskrifstofu sveitarfélagsins hinn 27. júní 2025. Í svarinu kemur fram að reikningurinn hafi verið gefinn út í samræmi við gjaldskrá Mosfellsbæjar um byggingargjöld. Samþykkt byggingaráforma falli niður hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan tveggja ára frá samþykkt þeirra, sbr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Telji sveitarfélagið eðlilegt að hið sama eigi við um byggingarleyfisumsóknir, þ.e. hafi ekki verið hafist handa í samræmi við umsókn þá falli málið niður í heild sinni og þar með þær greiðslur sem reiddar hafi verið fram vegna umsóknarinnar. Að lokum var leiðbeint um að hægt væri að kæra afgreiðsluna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Kærandi telur það sanngirnismál að þurfa ekki að greiða byggingarleyfisgjöld í tvígang fyrir sömu framkvæmd.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð afgreiðsla lögmanns á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar á fyrirspurn um innheimtu byggingarleyfisgjalda. Í fyrirspurninni kom fram að kærandi skildi ekki innheimtu sveitarfélagsins frá 29. mars 2023 þar sem honum var gert að greiða afgreiðslugjald og gjald fyrir lokaúttekt og lokaúttektarvottorð. Hann hefði þegar greitt gjöldin og  vissi ekki ástæðu þess að hann væri nú krafinn um greiðslu gjaldanna að nýju en yrði þakklátur að fá útskýringu á því.

Af gögnum málsins verður ráðið að erindi kæranda hafi falið í sér fyrirspurn þar sem óskað var útskýringa á innheimtu þjónustugjalda. Svar lögmanns á bæjarskrifstofu sveitarfélagsins við slíku erindi getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun þar til bærs stjórnvalds með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Getur engu um það breytt þótt kæruleiðbeiningar hafi verið veittar af hálfu sveitarfélagsins. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

59/2025 Gerðakot

Með

Árið 2025, föstudaginn 4. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss frá 27. nóvember 2023 um að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðar­húss á jörðinni Gerðakoti í Ölfusi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 11. apríl 2025, kærir arkitekt þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss frá 27. nóvember 2023 að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðarhúss á jörðinni Gerðakoti í Ölfusi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 19. júní 2025.

Málavextir: Á árinu 2017 sótti þáverandi eigandi fasteignarinnar Gerðakots í Ölfusi um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu íbúðarhúss og var nafn kæranda tilgreint á aðaluppdráttum sem fylgdu umsókninni. Var byggingarleyfi gefið út af byggingarfulltrúa 11. október 2017. Í júní 2018 tilkynnti kærandi með tölvupósti til sveitarfélagsins að hann hefði dregið sig úr verkinu og bæri því enga ábyrgð á því lengur. Hinn 27. nóvember 2023 samþykkti byggingar­fulltrúi aðaluppdrætti fyrir viðbyggingu íbúðarhússins að Gerðakoti í Ölfusi. Á uppdrætti þeim er sýnir grunnmynd byggingaráformanna er kærandi tilgreindur sem hönnuður og upp­drátturinn dagsettur 22. ágúst 2017. Hinn 14. mars 2025 sendi kærandi tölvupóst til byggingarfulltrúa og tók fram að hann hefði nýlega orðið þess var að teikning í hans nafni hefði verið samþykkt af byggingarfulltrúa. Krafðist kærandi þess að leyfisveitingin yrði afturkölluð og teikningin „tekin út úr málinu.“

Málsrök kæranda: Bent er á að hinir samþykktu aðaluppdrættir séu ekki undirritaðir af aðal­hönnuði í samræmi við gr. 4.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Kærandi hafi unnið umræddan uppdrátt árið 2017 og hafi hann verið lagður inn til sveitarfélagsins sama ár. Vegna samskiptaörðuleika við eiganda Gerðakots og ógreiddra reikninga hafi kærandi hins vegar dregið sig úr verkinu og tilkynnt þáverandi byggingarfulltrúa um það. Teikning kæranda hafi síðar legið til grundvallar þeim byggingaráformum sem samþykktir hafi verið 27. nóvember 2023 án hans vitneskju. Þess sé krafist að samþykktin verði felld úr gildi, enda séu uppdrættirnir hvorki undirritaðir né lagðir fram að beiðni aðalhönnuðar eða með samþykki hans. Sömuleiðis sé farið fram á að leyfisveitingar sem byggi á teikningum kæranda verði felldar úr gildi og uppdrættirnir fjarlægðir af kortavef bæjarins.

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: Sveitarfélagið fer fram á frávísun málsins á þeim grundvelli að lögboðinn kærufrestur sé liðinn með vísan til 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Annað hvort verði að líta svo á að ákvörðun byggingarfulltrúa frá 27. nóvember 2023 hafi sætt opinberri birtingu í skilningi ákvæðisins eða þá að kæranda hafi mátt vera kunnugt um ákvörðunina þegar teikningar hafi verið birtar á vef sveitarfélagsins sama dag. Kæran varði ekki einungis hagsmuni sveitarfélagsins heldur einnig eiganda mannvirkisins sem verði að ákveðnum tíma liðnum að geta treyst því að samþykkt byggingaráform sæti ekki kæru. Líta verði til þess að eignarhald fasteignarinnar hafi breyst. Sé kæran ekki tæk til meðferðar úrskurðarnefndarinnar.

Einnig sé farið fram á frávísun málsins þar sem kærandi hafi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Hönnuðir hafi almennt ekki aðild að þeirri stjórnvaldsákvörðun byggingarfulltrúa að samþykkja uppdrætti þar sem slíkt hafi ekki í för með sér réttaráhrif fyrir hönnuði heldur eiganda mannvirkis, enda sé ábyrgð hönnuðar á verki ekki bundin við afgreiðslu sveitarfélagsins á umsókn um byggingarleyfi. Þannig beri hönnuður ábyrgð jafnvel þótt byggingarfulltrúi hafi talið hönnun fullnægjandi. Um sé að ræða ágreining sem sé á milli kæranda og upphaflegs eiganda Gerðakots sem leysa þurfi þeirra á milli, t.d. með höfðun innheimtu- eða skaðabótamáls.

Töluvert sé síðan kærandi hafi sent þáverandi byggingarfulltrúa tölvupóst þar sem hann hafi sagst vera komin út úr verkinu og bæri því enga ábyrgð. Ekki sé hægt að fallast á að til einhvers­konar haldsréttar stofnist hjá hönnuði þegar teikningar séu annars vegar. Geti tilkynningin ekki haft þau réttaráhrif að kæranda hafi verið unnt einhliða að afturkalla staðfestingu sína á því að hann hafi unnið það verk sem kæran beinist að. Þá leiði ekki af tilkynningunni að allar leyfis­veitingar séu ógildanlegar, hvort sem þær hafi átt sér stað fyrir eða eftir tilkynninguna.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Því er andmælt að kæra í máli þessu sé utan kærufrests, enda hafi kæran verið send innan mánaðar frá því að kæranda varð kunnugt um að uppdrættir í hans nafni hafi verið samþykktir og gerðir aðgengilegir á heimasíðu sveitarfélagsins. Birting fundargerða geti ekki talist opinber birting ef þeir sem í hlut eiga, eins og hönnuðir aðal­uppdrátta, fái ekki skilaboð frá stjórnvaldi um að ákvörðun hafi verið tekin. Venjan sé sú að senda hlutaðeigandi tilkynningu um afgreiðslu máls. Þá sé það í besta falli langsótt að halda því fram að höfundur byggingarteikningar sé ekki aðili máls þegar málið varði notkun á hugverki hennar. Í 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 komi fram að höfundur eigi eignarrétt á teikningum og uppdráttum. Þá sé það málinu óviðkomandi að fasteignin Gerðakot hafi verið seld enda sé kærunni beint að sveitarfélaginu og þeim aðilum sem unnið hafi að byggingar­leyfisumsókninni frá 2023.

Niðurstaða: Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæran lýtur að. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kæranda skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir slíka hagsmuni að fá úr ágreiningi leyst.

Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss frá 27. nóvember 2023 um að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðarhúss á jörðinni Gerðakoti. Telja verður að samþykkt byggingaráforma á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki hafi fyrst og fremst þýðingu þegar kemur að réttindum og skyldum eiganda mannvirkis og byggingar­leyfishafa, sbr. 15. gr. laganna. Þó er ljóst að slík ákvörðun getur snert lögvarða hagsmuni annarra aðila, einkum þá nágranna sem geta byggt kæruaðild á grenndarsjónarmiðum. Við mat á því hvort játa beri kæranda aðild að hinni kærðu ákvörðun er til þess að líta að við samþykkt byggingar­áforma er byggingarfulltrúa ekki skylt að sannreyna að framlagðir aðaluppdrættir stafi í reynd frá tilgreindum hönnuði, þótt honum beri vissulega að gæta þess að uppdrættir séu áritaðir af hönnuði, sbr. gr. 4.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með hliðsjón af því og þar sem álitaefni um inntak og vernd höfundaréttar á grundvelli ákvæða höfundalaga nr. 73/1972 falla utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011, verður kröfu kæranda í máli þessu vísað frá vegna skorts á kæruaðild.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

33/2025 Sæbraut

Með

Árið 2025, föstudaginn 4. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. janúar 2025 um að synja beiðni um breytingu á deiliskipulagi Melhúsatúns vegna lóðarinnar Sæbrautar 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Sæbrautar 4, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. janúar 2025 að synja beiðni um breytingu á deiliskipulagi Melhúsatúns vegna lóðarinnar Sæbrautar 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 25. mars 2025.

Málsatvik og rök: Á lóðinni Sæbraut 4 á Seltjarnarnesi stendur tveggja hæða einbýlishús sem var byggt árið 1979. Deiliskipulag Melhúsatúns frá árinu 2015 er í gildi á svæðinu. Hinn 31. október 2023 lögðu kærendur inn fyrirspurn til byggingarfulltrúa vegna fyrirhugaðra fram­kvæmda á fasteigninni sem fólust m.a. í gerð nýs kvists, endurbyggingu þaks á bílskúrshluta fasteignarinnar og byggingu svala þar ofan á. Skipulags- og umferðarnefnd tók neikvætt í erindið á fundi sínum 21. desember s.á. og var bókað í fundargerð að fyrirhugaður þakkvistur rúmaðist ekki innan hámarks hæðarkóta gildandi deiliskipulags. Í kjölfar afgreiðslunnar sendu kærendur erindi til skipulags- og umferðarnefndar og var það tekið fyrir á fundi hennar 15. febrúar 2024. Bókað var í fundargerð að nefndin teldi „ekki einsýnt“ að tillagan rúmaðist innan deiliskipulags og beindi því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa yrði falið að grenndarkynna tillögu kærenda að deiliskipulagsbreytingu fyrir íbúum nærliggjandi húsa. Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 21. s.m. Athugasemdir bárust á kynningartíma og á fundi skipulags- og umferðarnefndar 17. júlí s.á. var tillögunni synjað. Fundargerðin var í heild sinni staðfest á fundi bæjarstjórnar 22. janúar 2025.

Kærendur telja að hin kærða ákvörðun sé haldin efnis- og formannmörkum sem leiða eigi til ógildingar hennar. Við meðferð málsins hafi sveitarfélagið brotið gegn reglum stjórnsýslu­réttarins um skýrleika ákvörðunar, rannsókn, andmælarétt, meðalhóf og rökstuðning. Einnig hafi verið brotið gegn ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem engin afstaða hafi verið tekin til athugasemda sem bárust vegna grenndarkynningar. Litið sé svo á að staðfesting bæjarstjórnar á fundargerð skipulags- og umferðarnefndar feli í sér fullnaðarafgreiðslu málsins, enda sé ekki að finna í samþykktum sveitarfélagsins að nefndinni hafi verið veitt heimild til fullnaðarafgreiðslu mála og því sé kæra komin fram innan kærufrests. Telji úrskurðarnefndin að staðfesting bæjarstjórnar hafi ekki falið í sér fullnaðarafgreiðslu málsins, sbr. úrskurð nefndarinnar uppkveðnum 6. júlí 2010 í máli nr. 42/2008, sé þess óskað að úrskurðarnefndin beini því til sveitarfélagsins að máli kærenda verði lokið án frekari tafa og á lögmætan hátt, sbr. til hliðsjónar úrskurð nefndarinnar sem kveðinn var upp 26. júní 2003 í máli nr. 36/2001.

Af hálfu sveitarfélagsins er því hafnað að sveitarfélagið hafi ekki fylgt hlutaðeigandi máls­meðferðarreglum í máli þessu. Ekki hafi þurft umfangsmikla rannsókn til að kanna réttmæti þeirra athugasemda sem borist hafi vegna grenndarkynningar. Þá sé byggt á því að í bókunum skipulags- og umferðarnefndar um málið hafi falist nægjanleg umsögn til bæjarstjórnar í þessu tiltekna máli. Því hafi málið verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendum hafi verið kynnt  ákvörðun skipulagsnefndar með bréfi skipulagsfulltrúa. Það hafi hins vegar tafist að afgreiða fundargerð nefndarinnar hjá bæjarstjórn og tilkynna kærendum um ákvörðun hennar og upplýsa um kæruheimild. Beðist sé velvirðingar á því en bent á að það hafi ekki komið að sök, enda hafi kæru verið skilað til úrskurðarnefndarinnar innan kærufrests.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir m.a. gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna og er sveitarstjórn heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitar­félagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum, svo sem afgreiðslu deili­skipulagsáætlana. Í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2010 kemur fram að sveitarstjórnir skuli gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annist. Ákveður sveitarstjórn valdsvið nefnda, ráða og stjórna sem hún kýs nema slíkt sé ákveðið í lögum, sbr. 1. mgr. 40. gr. laganna. Hafi nefnd ekki verið falin fullnaðarafgreiðsla máls samkvæmt lögum eða samþykkt um stjórn sveitarfélagsins teljast ályktanir hennar tillögur til sveitarstjórnar enda þótt þær séu orðaðar sem ákvarðanir eða samþykktir nefndar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laganna. Í 1. mgr. 42. gr. sömu laga er kveðið á um að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því.

Samþykkt um stjórn Seltjarnarnesbæjar nr. 831/2013 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 17. september 2013. Í VI. kafla samþykktarinnar er fjallað um fastanefndir, ráð og stjórnir, aðrar en bæjarráð. Í 45. gr. hennar er tekið fram að bæjarstjórn geti ákveðið með viðauka við samþykktina, sbr. 10. tl. 5. gr. hennar, að fela nefnd, ráði eða stjórn á vegum Seltjarnarnesbæjar fullnaðarafgreiðslu mála og eru sett við því sömu skilyrði og er að finna í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Í 56. gr. samþykktarinnar er að finna upptalningu á þeim nefndum, ráðum og stjórnum sem bæjarstjórn kýs til að fara með tiltekin málefni eftir því sem lög eða reglur mæli fyrir um og eru fastanefndir taldar upp í C-lið. Í 7. tl. hans segir að í skipulags- og umferðarnefnd séu skipaðir fimm aðalmenn og jafn margir til vara skv. samþykkt bæjarstjórnar frá 26. júní 2013 og skv. 6. gr. skipulagslaga. Ekki eru frekari upplýsingar um hlutverk og heimildir skipulags- og umferðarnefndar í samþykktinni. Á vef sveitarfélagsins eru tveir viðaukar við samþykktina. Annars vegar viðauki 1 um fullnaðarafgreiðslur fastanefnda án staðfestingar bæjarráðs eða bæjarstjórnar sem tekur til íþrótta- og tómstundaráðs og menningar- og safnanefndar. Hins vegar viðauki 2 um embættisafgreiðslur skipulagsstjóra. Samkvæmt efni þeirra er ljóst að þeir taka ekki til skipulags- og umferðarnefndar.

Samkvæmt framansögðu hefur bæjarstjórn Seltjarnarness ekki framselt vald sitt til fullnaðarafgreiðslu skipulagsmála til skipulags- og umferðarnefndar. Brast nefndina því vald til að ljúka endanlega afgreiðslu hinnar umdeildu umsóknar um breytingu á deiliskipulagi og verður að líta svo á að í synjun hennar hafi falist tillaga til sveitarstjórnar til afgreiðslu, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga skulu fundargerðir nefnda, ráða og stjórna lagðar fyrir byggðarráð eða sveitarstjórn eftir því hver háttur er hafður á fullnaðarafgreiðslu í viðkomandi málaflokki. Ef fundargerðir nefnda innihalda ályktanir eða tillögur sem þarfnast staðfestingar byggðarráðs eða sveitarstjórnar ber að taka viðkomandi ályktanir og tillögur fyrir sem sérstök mál og afgreiða þau með formlegum hætti. Ef fundargerðir nefnda innihalda hins vegar ekki slíkar ályktanir eða tillögur er nægjanlegt að þær séu lagðar fram til kynningar. Er og tekið fram í athugasemdum með 41. gr. í frumvarpi því sem varð að sveitarstjórnarlögum að vönduð meðferð mála í stjórnsýslu sveitarfélaga eigi almennt að byggjast á því að bókað sé í fundargerðir um þau mál sem lögð séu fyrir fund, en ekki um þær fundargerðir sem þar séu lagðar fyrir. Þá er jafnframt mælt fyrir um það í 3. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 1181/2021 um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna að fundargerðir nefnda, sem lagðar eru fyrir sveitarstjórn, skuli lagðar fyrir í heild, þ.e. með öllum þeim dagskrármálum sem þær mynda. Ályktanir eða samþykktir í fundargerðum nefnda sem þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar skuli færa sérstaklega í fundargerð. Skýrt þurfi að koma fram hvaða afgreiðslu slíkir dagskrárliðir fá.

Í fundargerð skipulags- og umferðarnefndar frá fundi hennar 17. júlí 2024 er rakið hvað komið hafði fram um málið á fyrri fundum nefndarinnar, þ.e. að fjallað hefði verið um málamiðlunar­tillögu og skýringaruppdrátt frá kærendum. Er vísað til bókunar frá fyrri fundi og þess að skipulags­fulltrúa hafði þá verið falið að leggja fram málamiðlunartillögu kærenda. Svo segir að skipulagsfulltrúi hefði síðan þá fundað með nágrönnum kærenda og tekið fram að þeir teldu að mótmæli þeirra væru enn í fullu gildi hvað varðaði útsýni, skuggavarp og innsýn. Er svo bókað í fundargerðina að erindi kærenda sé synjað. Svo sem greinir að framan var fundargerðin frá þessum fundi lögð fram á fundi bæjarstjórnar 22. janúar 2025. Er þar bókað í fundargerð að bæjarstjórn samþykkti fundargerðina og hún væri í 14 liðum.

Með hliðsjón af framangreindu var afgreiðsla bæjarstjórnar ekki í samræmi við 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga og liggur því ekki fyrir lokaákvörðun um tillögu kærenda frá 9. febrúar 2024 um breytingu á deiliskipulagi í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

93/2025 Arnarland

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 25. júní, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:.

Mál nr. 93/2025, kæra á ákvörðunum bæjarstjórnar Garðabæjar frá 6. mars 2025 um að samþykkja deiliskipulag Arnarlands og breytingu á aðalskipulagi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 23. júní 2025, kærir eigandi fasteignar að Súlunesi 20, ákvarðanir bæjarstjórnar Garðabæjar frá 6. mars 2025 um að samþykkja deiliskipulag Arnarlands og breytingu á aðalskipulagi. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi, skipulagsferlið stöðvað og sveitarfélaginu gert að birta öll gögn sem snerti skuggavarp, umferðaraukningu og önnur áhrif skipulagsins á nærliggjandi byggð.

Málavextir og rök: Á afgreiðslufundi sínum 24. febrúar 2025 samþykkti skipulagsnefnd Garðabæjar tillögu að deiliskipulagi Arnarlands ásamt breytingu á Aðalskipulagi Garðarbæjar 2016-2030 vegna landnotkunarreitsins Arnarnesháls (3.37 VÞ). Á fundi bæjarstjórnar 6. mars s.á. voru þessar afgreiðslu skipulagsnefndar samþykktar. Með breytingu aðalskipulagsins var landnotkun breytt úr því að vera svæði fyrir verslun og þjónustu í miðsvæði. Innan reitsins verði blönduð byggð íbúða, verslun og þjónustu með áherslu á heilsutengda starfsemi. Hámarkshæð bygginga breyttist úr átta hæðum í tvær til sex hæðir en ein bygging, ætluð atvinnustarfsemi, geti orðið allt að sjö hæðir. Með deiliskipulaginu er meðal annars gert ráð fyrir um 450 íbúðum og um 37.000 m2 af verslunar-, skrifstofu- og þjónusturýmum. Nýtingarhlutfall svæðisins verði um 0,95. Tók deiliskipulagið gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 16. maí 2025.

Kærandi vísar til þess að Garðabær hafi ekki svarað athugasemdum íbúa sem gerðar hafi verið á auglýsingartíma aðalskipulagsbreytingar og deiliskipulags. Þar með hafi sveitarfélagið brotið gegn 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Byggingarmagn sé ekki í samræmi við Aðalskipulag Garðabæjar 2016–2030 og sé auk þess ekki rétt reiknað sbr. gr. 5.3.2.1. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Hin kærða ákvörðun felur í sér samþykki á tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Garðabæjar 2016–2030 og brestur úrskurðarnefndina vald til að taka þá ákvörðun til endurskoðunar..

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá fyrstu birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Hin kærða deiliskipulagsbreyting var birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. maí 2025 og mátti kærendum vera kunnugt um hana frá þeim tíma. Kærufresti vegna umræddrar ákvörðunar lauk 16. júní 2025 en kæra í málinu barst nefndinni 23. s.m. eða að liðnum kærufresti.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Verður ekki af gögnum þessa máls ráðið að slíkum aðstæðum sé til að dreifa að lagagreinin eigi við og má í því sambandi benda á að lögmælt opinber birting ákvörðunar hefur þá þýðingu að almenningi telst vera kunnugt um hana. Verður máli þessu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

91/2025 Arnarland

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 25. júní, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:.

Mál nr. 91/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 6. mars 2025 um að samþykkja deiliskipulag Arnarlands í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 21. júní 2025, kæra eigendur fasteignar að Súlunesi 25 í Garðabæ, ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 6. mars 2025 um að samþykkja deiliskipulag Arnarlands í Garðabæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og nánar greindir annmarkar á deiliskipulaginu lagfærðir.

Málavextir og rök: Á afgreiðslufundi 24. febrúar 2025 samþykkti skipulagsnefnd Garðabæjar tillögu að deiliskipulagi svonefnds Arnarlands og samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 6. mars s.á. Með deiliskipulaginu er meðal annars gert ráð fyrir um 450 íbúðum og um 37.000 m2 af verslunar-, skrifstofu- og þjónusturýmum. Nýtingarhlutfall svæðisins verði um 0,95. Tók deiliskipulagið gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 16. maí 2025.

Kærandi vísar til þess að Garðabær hafi ekki svarað athugasemdum íbúa sem gerðar hafi verið á auglýsingartíma deiliskipulagsins. Skipulagið geri ráð fyrir háreistu atvinnuhúsnæði sem valdi skuggamyndun á lágreista íbúðarbyggð við Súlunes. Þeir hafi óskað eftir gögnum frá bæjarstjóra um skuggamyndun en þau hafi ekki borist. Þá muni endurkast umferðar um Hafnarfjarðarveg líklega valda hávaðamengun auk þess sem byggingarmagn á viðkomandi reit hafi í för með sér umferðartafir sem þegar séu miklar á svæðinu.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá fyrstu birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Hin kærða deiliskipulagsbreyting var birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. maí 2025. Kærufresti vegna umræddrar ákvörðunar lauk 16. júní 2025 en kæra í málinu barst nefndinni 21. s.m. eða að liðnum kærufresti.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. að vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæla með því að hún verði tekin til meðferðar. Kærendur í máli þessu hafa greint frá því að vegna sumarleyfis og þess að beðið hafi verið gagna frá Garðabæ hafi kæra í málinu borist svo seint. Með því verður ekki talið að slíkar aðstæður séu fyrir hendi að 28. gr. laganna eigi við. Verður einnig að benda á að lögmælt opinber birting ákvörðunar hefur þá þýðingu að almenningi telst vera kunnugt um hana. Verður máli þessu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

55/2025 Sigölduvirkjun

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 4. júní, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 55/2025, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 12. september 2024 um að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir 215 MW Sigölduvirkjun.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. apríl 2025, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 12. september 2024 að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir 215 MW Sigölduvirkjun. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfis- og Orkustofnun 21. maí 2025.

Málsatvik og rök: Í janúar 2023 lagði Landsvirkjun fram umhverfismatsskýrslu um stækkun Sigöldustöðvar til kynningar og athugunar í samræmi við fyrirmæli 23. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í skýrslunni kom fram að framkvæmdin fælist í stækkun stöðvarinnar um allt að 65 MW og væri tilgangurinn hennar að auka afl í raforkukerfinu, auka sveigjanleika í orkuafhendingu og mæta afltoppum þegar eftirspurn væri í hámarki. Álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar lá fyrir 18. desember 2023 og að mati stofnunarinnar uppfyllti umhverfismatsskýrslan skilyrði laga nr. 111/2021. Í janúar 2024 sótti Landsvirkjun um leyfi Orkustofnunar til auka uppsett afl stöðvarinnar úr 150 MW í 215 MW. Umsóknin var auglýst opinberlega í Lögbirtingablaðinu 17. maí s.á. í samræmi við fyrirmæli raforkulaga nr. 65/2003 og kom kærandi að athugasemd á kynningartíma. Hinn 12. september s.á. gaf Orkustofnun út hið umsótta virkjunarleyfi og birtist tilkynning um útgáfuna í Lögbirtingablaðinu 27. s.m. Þá birtist frétt um veitingu virkjunarleyfisins á vefsíðu Orkustofnunar 24. s.m.

Kærandi bendir á að virkjunarleyfið hafi ekki verið auglýst opinberlega í nokkru blaði eða gert almenningi kunnugt með neinum formlegum hætti. Ákvörðunin hafi ekki verið kynnt kæranda sérstaklega þrátt fyrir að samtökin hafi sent umsagnir vegna umhverfismats framkvæmdarinnar. Samkvæmt raforkulögum gildi engin lagafyrirmæli um opinbera birtingu virkjunarleyfa líkt og mælt sé fyrir um í sérlögum er varði önnur leyfi fyrir meiriháttar framkvæmdum. Orkustofnun hafi borið að birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína á grundvelli hinnar almennu skyldu í 4. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021. Engin slík auglýsing hafi farið fram svo kæranda sé kunnugt. Umhverfismatið sem liggi hinu kærða leyfi til grundvallar hafi verið verulegum annmörkum háð þar sem við málsmeðferð þess hafi ekki verið gætt að þátttökurétti almennings og samspili löggjafar sem byggð sé á tilskipunum 2011/92/ESB og 2000/60/EB. Orkustofnun hafi verið óheimilt að veita virkjunarleyfið vegna ákvæða í lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála sem leggi þá skyldu á íslenska ríkið að meta ástanda allra vatnshlota.

Umhverfis- og Orkustofnun bendir á að þar sem um sé að ræða framkvæmd sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum í samræmi við lög nr. 111/2021 miðist upphaf kærufrests við opinbera birtingu virkjunarleyfisins. Auglýsing um útgáfu virkjunarleyfisins hafi birst í Lögbirtingablaðinu 27. september 2024 og því hafi kærufrestur verið liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 7. apríl 2025. Í ljósi þess að ekki séu fyrir hendi afsakanlegar ástæður til að taka kæru til meðferðar beri að vísa málinu frá á grundvelli 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Landsvirkjun gerir kröfu um frávísun kærumálsins á grundvelli þess að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Frétt um útgáfu virkjunarleyfisins hafi birst á vefsíðu Landsvirkjunar, á vefsíðum fjölmiðla, í Morgunblaðinu og á vefsíðu Orkustofnunar í september 2024. Umsókn virkjunarleyfisins hafi þar að auki verið auglýst í Lögbirtingablaðinu 17. maí s.á. Sé því beinlínis rangt að virkjunarleyfið hafi ekki sætt opinberri auglýsingu, en kærandi sem og allur almenningur hafi fengið næg tækifæri til að kynna sér efni hinnar kærðu ákvörðunar. Kærandi hafi augljóslega vitað eða mátt vita af útgáfu leyfisins, en hafa beri hugfast að kæra hafi borist nefndinni tæpum sjö mánuðum eftir útgáfu leyfisins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Sé hins vegar um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Í raforkulögum nr. 65/2003 er ekki kveðið á um skyldu til að birta virkjunarleyfi opinberlega. Aftur á móti hefur sú framkvæmd sem deilt er um í þessu máli sætt mati á umhverfisáhrifum í samræmi við ákvæði laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Við útgáfu leyfis vegna matsskyldra framkvæmda er leyfisveitanda skv. 4. mgr. 27. gr. laganna skylt að birta slík leyfi opinberlega með auglýsingu. Orkustofnun birti í Lögbirtingablaðinu 27. september 2024  auglýsingu um útgáfu hins kærða virkjunarleyfis og tók kærufrestur að líða degi síðar, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 7. apríl 2025 og var kærufrestur þá liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Verður kæru­máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verður talið eins og atvikum er háttað að skilyrði séu til að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti, en lögmælt opinber birting ákvörðunar hefur þá þýðingu að almenningi telst við hana vera kunnugt um hina birtu ákvörðun. Þá verður ekki séð að til sé að dreifa veigamiklum ástæðum til að taka kærumálið til efnismeðferðar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

54/2025 Borgarás

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 4. júní, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 54/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa, sem staðfest var af bæjarráði Garðabæjar 30. janúar 2024, um að breyta og stækka stiga út fyrir byggingarreit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. apríl 2025, er barst nefndinni 4. s.m., kæra eigendur fasteignarinnar að Borgarási 12, þá ákvörðun byggingarfulltrúa, sem staðfest var af bæjarráði Garðabæjar 30. janúar 2024, að veita eigendum Borgaráss 10 leyfi til að breyta og stækka stiga út fyrir byggingarreit án breytinga á deiliskipulagi. Er einnig kærð ákvörðun um samþykkt gagna eftir grenndarkynningu og að ekki hafi verið gætt að mænishæð húss að Borgarás 10 við samþykki á breytingum. Er þess krafist að stiginn verði færður í upprunalega stærð og fjarlægð frá lóðamörkum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 13. apríl 2025.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Garðabæjar 27. október 2023 var samþykkt að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi Hraunholts vestra (Ásahverfis) í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Gerði tillagan ráð fyrir stækkun byggingarreits til vesturs fyrir sólstofu á neðri hæð og svalir á efri hæð. Tillagan gerði ráð fyrir að húsið gæti verið tvær hæðir, mænishæð 6,5 m en vegghæð 5 m. Á fundi skipulagsnefndar 14. desember s.á. var tillagan lögð fram að nýju. Engar athugasemdir bárust við grenndarkynningu og var tillagan samþykkt og henni vísað til bæjarstjórnar sem samþykkti hana á fundi sínum 15. júní s.á. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 28. desember s.á.

 Á fundi bæjarráðs 30. janúar 2024 var samþykkt afgreiðsla byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að endurbyggja efri hæð og endurnýja þak tvíbýlishússins við Borgarás 10. Var byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum gefið út 3. febrúar s.á. Kærendur áttu í nokkrum samskiptum við sveitarfélagið vegna framkvæmdanna og óskuðu m.a. eftir stöðvun framkvæmda með bréfum dags. 11. desember 2024 og 22. janúar 2025. Með bréfi, dags. 21. janúar 2025, upplýsti byggingarfulltrúi kærendur um að til að hægt væri að taka athugasemdir og sjónarmið þeirra til athugunar þyrfti að liggja fyrir formlegt erindi þar sem óskað væri eftir að byggingarleyfið yrði afturkallað eða endurupptekið. Með bréfi, dags. 31. janúar 2025, óskuðu kærendur eftir því að ákvörðun um byggingarleyfi yrði endurupptekin. Var erindinu svarað af sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs með bréfi, dags. 4. mars s.á., þar sem fram kom að ekki væru taldar forsendur fyrir ógildingu eða endurupptöku byggingarleyfisins.

 Af hálfu kærenda er vísað til þess að við grenndarkynningu hafi verið kynnt stækkun á byggingarreit fyrir sólstofu til suðvesturs, á efri hæð, mænishæð yrði 6,5 m og vegghæð 5 m sem og stækkun á byggingarreit í austur og vestur sem félli að þáverandi útlínum hússins. Kærendur hefðu samþykkt þessa stækkun. Síðar hafi komið í ljós áform um að endurbyggja stiga og svalir vestan megin við húsið, nánast að lóðarmörkum Borgaráss 12 og langt umfram byggingarreit Borgaráss 10. Þessi stækkun hafi ekki verið grenndarkynnt eða upplýst um hana af hálfu eigenda Borgaráss 10 og hafi gögnum um grenndarkynningu verið breytt eftir undirritun, sem hefði átt að leiða til ógildingar. Áformuð stækkun byggingarreitsins sé of nálægt lóðarmörkum og komi til með að valda kærendum verulegum óþægindum.

 Í umsögn sveitarfélagsins er gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur vegna byggingarleyfisins sé löngu liðinn og samþykkt gagna og teikninga sé liður í meðferð máls sem sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Það kunni að vera rétt að skilja kæruna sem svo að kærð sé synjun bæjaryfirvalda á erindi um afturköllun eða endurupptöku málsins, sbr. bréf þess efnis, dags. 31. janúar 2025. Því erindi hafi verið synjað með bréfi sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs Garðabæjar, dags. 4. mars 2025, og hafi í niðurlagi þess verið leiðbeint um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar. Ákvörðun um afturköllun eða endurupptöku máls eigi undir það stjórnvald sem hafi tekið upphaflega ákvörðun, í þessu tilfelli ákvörðun um byggingarleyfi sem heyri undir bæjarráð. Svar sviðsstjóra hafi ekki verið lagt fyrir bæjarráð til samþykktar og því liggi ekki fyrir lokaákvörðun í málinu sem sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 verða stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kærðar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Framkvæmd grenndarkynningar telst ekki til slíkrar ákvörðunar heldur liður í málsmeðferð. Sú stjórnvaldsákvörðun sem borin er undir nefndina í máli þessu er um samþykkt byggingarleyfis dags. 30. janúar 2024. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni ekki fyrr en 4. apríl 2025, löngu eftir að eins mánaðar kærufrestur til nefndarinnar var liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Verður ekki ráðið að slíkum aðstæðum sé til að dreifa í máli þessu og verður kæru þessari því vísað frá nefndinni.

 Með bréfi dags. 31. janúar 2025 óskuðu kærendur eftir því við sveitarfélagið Garðabæ að hið umdeilda byggingarleyfi yrði endurupptekið og sjónarmið og athugasemdir þeirra teknar til skoðunar. Þessu erindi var svarað af skrifstofustjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs sveitarfélagsins. Afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Þá getur ákvörðun byggingarfulltrúa einnig verið háð samþykkt byggingarnefndar, sbr. 7. gr. laga nr. 160/2010. Í Garðabæ eru byggingar­leyfisumsóknir háðar samþykkt bæjarráðs sem fer með hlutverk byggingarnefndar sveitarfélagsins. Ákvörðun um afturköllun eða endurupptöku ákvörðunar um byggingarleyfi verður einungis tekin af því stjórnvaldi sem er til þess bært sem í þessu tilfelli er bæjarráð. Afstaða þess liggur ekki fyrir og er því ekki til að dreifa lokaákvörðun hér að lútandi, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

 Í 9. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að stjórnvald skuli taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Í 4. mgr. 9. gr. kemur enn fremur fram að unnt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Með vísan til þess að Garðabær hefur enn ekki svarað erindi kæranda frá 31. janúar 2025 um endurupptöku máls með fullnægjandi hætti er því beint til sveitarfélagsins að afgreiða erindi kæranda. Þá verður ekki séð í gögnum þessa máls fyrir nefndinni hvort erindum kærenda um stöðvun framkvæmda, dags. 11. desember 2024 og 22. janúar 2025, hafi verið svarað og er því einnig beint til sveitarfélagsins að svara þeim erindum, hafi það ekki verið gert.

Með vísan til framangreinds verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

70/2025 Mjólkárlína 2

Með

Árið 2025, föstudaginn 30. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 70/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 3. apríl 2025 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna lagningar jarðstrengs í norðanverðum Arnarfirði vegna framkvæmdarinnar Mjólkárlínu 2.

 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. maí 2025, er barst nefndinni 5. s.m., kæra A, íbúi í Ísafjarðarbæ, og B og C, handhafar rækjuveiðiheimilda í Arnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 3. apríl 2025 að samþykkja umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna lagningar jarðstrengs í norðanverðum Arnarfirði vegna framkvæmdarinnar Mjólkárlínu 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að breyting á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020 vegna Mjólkárlínu 2 verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 14. maí 2025.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar 17. júlí 2023 var samþykkt tillaga um breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020 vegna Mjólkárlínu 2 og tók breytingin gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 28. september s.á. Í ágúst 2023 kærðu kærendur þessa máls ákvörðun bæjarstjórnarinnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Var kærumálinu vísað frá með úrskurði uppkveðnum 6. september 2023 í kærumáli nr. 106/2023 á þeim grundvelli að breyting á aðalskipulagi sæti ekki endurskoðun nefndarinnar. Hinn 10. september 2024 sótti Landsnet um framkvæmdaleyfi vegna Mjólkárlínu 2 er fólst í lagningu jarðstrengs frá landtökustað neðan við Hrafnseyri að tengivirki fyrirtækisins við Mjólká um 15 km leið. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 27. mars 2025 var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að heimila útgáfu framkvæmdaleyfis í samræmi við umsókn og fyrirliggjandi gögn. Staðfesti bæjarstjórn þá tillögu á fundi sínum 3. apríl s.á. Skipulagsfulltrúi gaf svo út umsótt leyfi 25. s.m.

Kærendur telja að upphafleg tilkynning til ákvörðunar um matsskyldu og öll málsmeðferðin í framhaldi af því hafi verið keyrð vísvitandi áfram á röngum og/eða villandi gögnum. Eðlilegast sé að framkvæmdaraðila verði gert að hefja málsmeðferð að nýju. Þannig hafi öll gögn Landsnets gefið til kynna að yfir Arnarfjörð liggi aðeins einn ljósleiðarastrengur, en líkt og legið hafi fyrir allan tímann og kærendur margoft bent á þá liggi yfir fjörðinn ljósleiðarastrengir á tveimur stöðum. Þegar áformin gangi út á að eyðileggja mikilvægustu rækjumið í Arnarfirði og breyta um 1.100 ha af veiðisvæði í helgunarsvæði sæstrengs, án þess að slíkt sé nauðsynlegt, þá sé tilefni til að staldra við. Líklega verði veiðar á innfjarðarrækju í firðinum ósjálfbærar vegna hins nýja sæstrengs og muni í kjölfarið leggjast af.

Af hálfu Ísafjarðarbæjar er bent á að framkvæmdaleyfið nái einungis til lagningar jarðstrengs frá landtökustað við Hrafnseyri að tengivirki við Mjólká. Jarðstrengurinn sé eingöngu innan netlaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samgöngustofa fari með lögbundið hlutverk leyfisveitanda utan netlaga og hafi samþykkt legu sæstrengsins. Þá hafi Umhverfis- og orkustofnun jafnframt samþykkt lagningu sæstrengsins auk þess sem stofnunin hafi látið gera áhrifamat og óskað umsagnar Hafrannsóknastofnunar sem hafi talið „ólíklegt að nýr sæstrengur á svæði LV6 verði þess valdandi að ráðlagður rækjuafli hvers árs náist ekki.“

Landsnet bendir á að markmið framkvæmdarinnar sé að auka afhendingaröryggi og afhendingargetu raforku á Vestfjörðum. Við lagningu sæstrengja þurfi aðkomu sérstaks lagnaskips sem ekki sé tiltækt á Íslandi. Hafi Landsnet samið um komu lagnaskips í sumar sem muni leggja sæstreng yfir Arnarfjörð. Verði ekki unnt að gera það muni framkvæmdir við Mjólkárlínu 2 tefjast um ófyrirsjáanlegan tíma með tilheyrandi tjóni fyrir raforkukerfið á sunnanverðum Vestfjörðum. Rækjuveiðisvæðið sem kærendur byggja lögvarða hagsmuni sína á standi alfarið utan netlaga Ísafjarðarbæjar. Eigi kærendur því ekki beina, sérstaka eða lögvarða hagsmuni að gæta af ógildingu framkvæmdaleyfisins.

Aðilar hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki þykir ástæða til að rekja nánar

Niðurstaða: Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir slíka hagsmuni að fá úr ágreiningi leyst.

Í máli þessu byggir einn kærenda lögvarða hagsmuni sína á því að hann sé að gæta að hagsmunum atvinnulífs og íbúa Ísafjarðarbæjar. Slík gæsla almannahagsmuna leiðir almennt ekki til kæruaðildar. Aðrir kærendur byggja kæruaðild sína á atvinnuréttindum, þ.e. handhöfn aflahlutdeildar í stofni innfjarðarrækju í Arnarfirði og er höfðað til þess að lagnaleið fyrirhugaðs sæstrengs muni skaða eða eyðileggja rækjumið. Í umsögn leyfisveitanda til nefndarinnar í máli þessu er ekki brugðist við þeim sjónarmiðum í verulegu en bent á að hið kærða leyfi varði einungis lagningu jarðstrengs í eða úti fyrir fjöru frá landtökustað sæstrengs við Hrafnseyri að tengivirki Landsnets við Mjólká og að í þeirri framkvæmd felist ekki röskun á rækjuveiðihagsmunum. Fallast verður á þau sjónarmið og með því álíta að ekki sé til að dreifa einstaklingsbundnum lögvörðum hagsmunum að máli þessu sem réttlætt geti kæruaðild. Máli þessu er því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

52/2025 Hrannarstígur

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 27. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 52/2025, kæra á afgreiðslum Reykjavíkurborgar frá 18. júlí og október 2024 um að staðsetja lausa söfnunargáma, ofanjarðar, við grenndarstöð að Hrannarstíg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. mars 2025, er barst nefndinni sama dag kærir eigandi húss að Öldugötu 24, þær afgreiðslur Reykjavíkurborgar frá 18. júlí og október 2024 að staðsetja söfnunargáma, ofanjarðar, við grenndarstöð að Hrannarstíg. Verður að skilja mál­skot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinna kærðu afgreiðslna. Þá er þess krafist að gámarnir verði fjarlægðir.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. maí 2025.

Málsatvik og rök: Með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 20. apríl 2022 tók gildi breyting á deiliskipulagi Landakotsreits í gamla Vesturbænum í Reykjavík. Í greinargerð kemur fram að breytingin sé fólgin í því að afmörkuð sé lóð fyrir grenndarstöð við horn Hrannarstígs og Öldugötu. Innan lóðarinnar sé afmarkaður byggingarreitur fyrir grenndar­stöð (gáma/djúpgáma). Stöðin verði niðurgrafin þannig að gámar verði undir yfirborði og mót­töku­lúga ofanjarðar. Gámarnir verði losaðir með krana og þannig útbúnir að þeir uppfylli Evróputilskipun 2000/14/EC um hávaðamengun og önnur skilyrði um hljóðvist. Var og tekið fram að slík lausn þætti hentugur kostur þar sem landrými væri tak­markað vegna þess að hún tæki minna pláss á yfirborði auk þess sem hún þætti snyrtilegur og aðgengilegur valmöguleiki við skil á endurvinnsluefnum. Útfærsla var sýnd með skýringarmyndum en tekið var fram að ekki væri um endanlega hönnun að ræða. Voru þar sýndir fjórir djúpgámar. Var þeim raðað þétt saman, en hluti lóðarinnar var sýndur auður næst bílastæðum við Hrannarstíg.

Hinn 22. desember 2023 var á vefsíðu Reykjavíkurborgar upplýst um að ný grenndarstöð hefði verið opnuð við fyrrgreind gatnamót. Kom þar fram að um djúpgámastöð væri að ræða og að slík stöð hentaði vel fyrir eldri og þéttari byggð eins og þarna væri og að slíkar stöðvar væru aðgengilegri en hefðbundnar grenndarstöðvar með gámum á yfirborði. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg var lausum yfirborðsgámum komið fyrir á lóðinni árið 2024, þ.e. 18. júlí og í byrjun október, til söfnunar á textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum. Eru yfir­borðsgámarnir á þeim hluta lóðarinnar sem sýndur var auður á nefndum deili­skipulags­uppdrætti.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að núverandi fyrirkomulag á lóðinni fari gegn gildandi deili­skipulagi, en grundvallar forsenda þess hafi verið að um niðurgrafna djúpgáma væri að ræða. Sjálfstæð stjórn­valds­ákvörðun hafi falist í því að staðsetja lausa gáma á lóðinni. Móttökustöð Sorpu við Ánanaust sé í nokkur hundruð metra fjarlægð frá grenndarstöðinni og sé þar tekið á móti bæði textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að ekki hafi verið tekin ákvörðun í málinu sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Í öllu falli sé kæra í málinu þó of seint fram komin. Lausir yfir­borðs­gámar teljist ekki til mannvirkja í skilningi byggingarreglugerðar nr. 112/2012 en samkvæmt henni séu mannvirki hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli. Yfirborðsgámarnir séu því hvorki byggingarleyfisskyldir né tilkynningarskyldir sam­kvæmt gr. 2.3.1. og gr. 2.3.6. í byggingar­reglugerð. Staðsetning lauss yfirborðsgáms geti ekki talist framkvæmdaleyfisskyld í skilningi skipulagslaga nr. 123/2010 og sé ekki háð stöðuleyfi, þar sem þess sé einungis krafist þegar gámi sé ætlað að standa utan skipulagðs svæðis fyrir slíka hluti, sbr. 9. tl. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Um sé að ræða lóð sem sé í deiliskipulagi sérstaklega skilgreind fyrir þjónustu grenndarstöðvar, þ.e. hýsingu á söfnunar­gámum og sé staðsetning þeirra því í samræmi við notkun hennar. Loks er í umsögn Reykjavíkurborgar fjallað um skyldur sveitarfélaga til meðhöndlunar úrgangs.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um tvo söfnunargáma sem staðsettir hafa verið á lóð sem samkvæmt gildandi skipulagi er fyrir grenndarstöð og er af hálfu kæranda byggt á því að með því að koma þeim fyrir hafi verið tekin stjórnvaldsákvörðun. Í kjölfar þess að gámunum var komið fyrir á lóðinni átti kærandi í samskiptum við starfsmenn Reykjavíkurborgar. Í svari frá lögfræðingi á sviði stjórnsýslu og gæða 19. desember 2024 kom m.a. fram að heppilegt hefði verið að í grenndar­kynningar­gögnum hefði komið fram að hugsanlega myndu ofanjarðargámar bætast við á síðari stigum og var þakkað fyrir ábendinguna. Þá kom fram að sú framkvæmd að bæta við lausum ofan­­jarðargámum á lóð sem skilgreind væri sem grenndarstöð teldist óveruleg enda samræmdist hún þeirri notkun sem lóðin væri skilgreind fyrir og krefðist framkvæmdin ekki deiliskipulags­breytingar. Var og greint frá því að gámarnir yrðu ekki fjarlægðir.

Hinn 28. febrúar 2025 óskaði kærandi eftir því við Reykjavíkurborg að téðir gámar yrðu fjarlægðir ellegar yrði veittur frekari rökstuðningur og leiðbeint um kæruheimild. Var því erindi svarað 17. mars 2025 með vísan til fyrra svars og upplýst um að borgaryfirvöld hefðu ekki breytt afstöðu sinni og að kærandi gæti beint kvörtun til umboðsmanns Alþingis teldi hann stjórnsýsluframkvæmd borgarinnar ábótavant.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Með þessu er vísað til ákvarðana um rétt eða skyldu einstaklinga sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það verður ekki séð að í máli þessu sé slíkri ákvörðun til að dreifa, svo sem um staðsetningu gáma með veitingu stöðuleyfis.

Þrátt fyrir að í svörum borgaryfirvalda komi fram ákveðin afstaða til þess hvort staðsetning gáma samrýmist skipulagi verður því ekki jafnað saman við að fyrir liggi rökstudd afstaða til þess bærs stjórnvalds, en erindi kæranda hefur ekki verið afgreitt af byggingarfulltrúanum í Reykjavík. Liggur því að svo stöddu ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun í máli þessu sem bindur enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður kærunni því vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

68/2025 Rimakotslína

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 20. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 68/2025, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 5. apríl 2023 um að samþykkja útgáfu framkvæmdaleyfis vegna lagningar jarðstrengs fyrir Rimakotslínu 2.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. apríl 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Mosfell fasteign ehf., þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 5. apríl 2025 að samþykkja útgáfu framkvæmdaleyfis vegna lagningar jarðstrengs fyrir Rimakotslínu 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunar­kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 7. maí 2025.

Málavextir: Hinn 17. desember 2021 sendi Landsnet tilkynningu til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Rimakotslínu 2 á grundvelli 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í tilkynningunni kom fram að um væri að ræða lagningu 36 km jarðstrengs sem myndi liggja frá tengivirki á Hellu í Rangárþingi ytra að tengivirki á Hvolsvelli í Rangárþingi eystra og loks að tengivirki í Rimakoti í Rangárþingi eystra. Strengurinn væri gerður fyrir 132 kV spennu. Samkvæmt tillögunni yrði framkvæmdum háttað þannig að strengurinn yrði grafinn á um 1,25 m dýpi og yrði skurðurinn að lágmarki 0,8 m breiður. Gert væri ráð fyrir að rasksvæði yrði um 10 m að breidd sem félli saman við helgunarsvæði hans en heildarflatarmál þess svæðis sem myndi raskast umhverfis strenginn væri alls um 34 hektarar. Með ákvörðun sinni, dags. 2. mars 2022, komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra 3. apríl 2023 var umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðra framkvæmda við lagningu jarðstrengs fyrir Rimakotslínu 2 tekin fyrir. Lagði nefndin til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa yrði falið að gefa út framkvæmdaleyfi að teknu tilliti til 5. gr. reglugerðar nr. 722/2012 um framkvæmdaleyfi. Á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra 5. s.m. var tillagan samþykkt. Ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfisins var auglýst á heimasíðu sveitarfélagsins 10. október 2023 en einnig var birt auglýsing um framkvæmdaleyfið í Lögbirtingablaði 12. s.m. og Bændablaðinu 19. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er m.a. bent á að sveitarfélagið hafi viðurkennt að framkvæmdir séu ekki í samræmi við deiliskipulag og því séu þær ólögmætar, sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Málsrök Rangárþings ytra: Sveitarfélagið telur að vísa beri kröfum kæranda frá vegna skorts á aðildarhæfi og einnig hafi kærufrestur runnið út fyrir alllöngu.

 Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi mótmælir kæru og krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Kæranda skorti aðildarhæfi og kærufrestur vegna hins kærða leyfis sé löngu liðinn og því beri að vísa málinu frá.

 Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 3. mgr. 26. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana skal leyfisveitandi birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Kemur þar einnig fram að í auglýsingunni skuli tilgreina kæruheimild og kærufrest. Þá skuli leyfisveitandi gera leyfið aðgengilegt almenningi á netinu.

Hin kærða ákvörðun var tekin á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra 5. apríl 2023. Framkvæmdaleyfið var gefið út 10. október s.á. og var birt auglýsing á vefsíðu sveitarfélagsins sama dag. Þá voru einnig birtar auglýsingar í Lögbirtingablaði 12. s.m. og í Bændablaðinu 19. s.m. Voru þar birtar upplýsingar um kæruheimild og kærufrest. Kæra í máli þessu barst 30. apríl 2025 eða rúmu einu og hálfu ári eftir birtingu auglýsinganna og var kærufrestur því löngu liðinn. Verður af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. Má í þessu samhengi einnig benda á að samkvæmt 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga skal kæru ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.