Árið 2025, föstudaginn 4. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 33/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. janúar 2025 um að synja beiðni um breytingu á deiliskipulagi Melhúsatúns vegna lóðarinnar Sæbrautar 4.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Sæbrautar 4, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. janúar 2025 að synja beiðni um breytingu á deiliskipulagi Melhúsatúns vegna lóðarinnar Sæbrautar 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 25. mars 2025.
Málsatvik og rök: Á lóðinni Sæbraut 4 á Seltjarnarnesi stendur tveggja hæða einbýlishús sem var byggt árið 1979. Deiliskipulag Melhúsatúns frá árinu 2015 er í gildi á svæðinu. Hinn 31. október 2023 lögðu kærendur inn fyrirspurn til byggingarfulltrúa vegna fyrirhugaðra framkvæmda á fasteigninni sem fólust m.a. í gerð nýs kvists, endurbyggingu þaks á bílskúrshluta fasteignarinnar og byggingu svala þar ofan á. Skipulags- og umferðarnefnd tók neikvætt í erindið á fundi sínum 21. desember s.á. og var bókað í fundargerð að fyrirhugaður þakkvistur rúmaðist ekki innan hámarks hæðarkóta gildandi deiliskipulags. Í kjölfar afgreiðslunnar sendu kærendur erindi til skipulags- og umferðarnefndar og var það tekið fyrir á fundi hennar 15. febrúar 2024. Bókað var í fundargerð að nefndin teldi „ekki einsýnt“ að tillagan rúmaðist innan deiliskipulags og beindi því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa yrði falið að grenndarkynna tillögu kærenda að deiliskipulagsbreytingu fyrir íbúum nærliggjandi húsa. Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 21. s.m. Athugasemdir bárust á kynningartíma og á fundi skipulags- og umferðarnefndar 17. júlí s.á. var tillögunni synjað. Fundargerðin var í heild sinni staðfest á fundi bæjarstjórnar 22. janúar 2025.
Kærendur telja að hin kærða ákvörðun sé haldin efnis- og formannmörkum sem leiða eigi til ógildingar hennar. Við meðferð málsins hafi sveitarfélagið brotið gegn reglum stjórnsýsluréttarins um skýrleika ákvörðunar, rannsókn, andmælarétt, meðalhóf og rökstuðning. Einnig hafi verið brotið gegn ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem engin afstaða hafi verið tekin til athugasemda sem bárust vegna grenndarkynningar. Litið sé svo á að staðfesting bæjarstjórnar á fundargerð skipulags- og umferðarnefndar feli í sér fullnaðarafgreiðslu málsins, enda sé ekki að finna í samþykktum sveitarfélagsins að nefndinni hafi verið veitt heimild til fullnaðarafgreiðslu mála og því sé kæra komin fram innan kærufrests. Telji úrskurðarnefndin að staðfesting bæjarstjórnar hafi ekki falið í sér fullnaðarafgreiðslu málsins, sbr. úrskurð nefndarinnar uppkveðnum 6. júlí 2010 í máli nr. 42/2008, sé þess óskað að úrskurðarnefndin beini því til sveitarfélagsins að máli kærenda verði lokið án frekari tafa og á lögmætan hátt, sbr. til hliðsjónar úrskurð nefndarinnar sem kveðinn var upp 26. júní 2003 í máli nr. 36/2001.
Af hálfu sveitarfélagsins er því hafnað að sveitarfélagið hafi ekki fylgt hlutaðeigandi málsmeðferðarreglum í máli þessu. Ekki hafi þurft umfangsmikla rannsókn til að kanna réttmæti þeirra athugasemda sem borist hafi vegna grenndarkynningar. Þá sé byggt á því að í bókunum skipulags- og umferðarnefndar um málið hafi falist nægjanleg umsögn til bæjarstjórnar í þessu tiltekna máli. Því hafi málið verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendum hafi verið kynnt ákvörðun skipulagsnefndar með bréfi skipulagsfulltrúa. Það hafi hins vegar tafist að afgreiða fundargerð nefndarinnar hjá bæjarstjórn og tilkynna kærendum um ákvörðun hennar og upplýsa um kæruheimild. Beðist sé velvirðingar á því en bent á að það hafi ekki komið að sök, enda hafi kæru verið skilað til úrskurðarnefndarinnar innan kærufrests.
Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir m.a. gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna og er sveitarstjórn heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum, svo sem afgreiðslu deiliskipulagsáætlana. Í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2010 kemur fram að sveitarstjórnir skuli gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annist. Ákveður sveitarstjórn valdsvið nefnda, ráða og stjórna sem hún kýs nema slíkt sé ákveðið í lögum, sbr. 1. mgr. 40. gr. laganna. Hafi nefnd ekki verið falin fullnaðarafgreiðsla máls samkvæmt lögum eða samþykkt um stjórn sveitarfélagsins teljast ályktanir hennar tillögur til sveitarstjórnar enda þótt þær séu orðaðar sem ákvarðanir eða samþykktir nefndar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laganna. Í 1. mgr. 42. gr. sömu laga er kveðið á um að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því.
Samþykkt um stjórn Seltjarnarnesbæjar nr. 831/2013 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 17. september 2013. Í VI. kafla samþykktarinnar er fjallað um fastanefndir, ráð og stjórnir, aðrar en bæjarráð. Í 45. gr. hennar er tekið fram að bæjarstjórn geti ákveðið með viðauka við samþykktina, sbr. 10. tl. 5. gr. hennar, að fela nefnd, ráði eða stjórn á vegum Seltjarnarnesbæjar fullnaðarafgreiðslu mála og eru sett við því sömu skilyrði og er að finna í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Í 56. gr. samþykktarinnar er að finna upptalningu á þeim nefndum, ráðum og stjórnum sem bæjarstjórn kýs til að fara með tiltekin málefni eftir því sem lög eða reglur mæli fyrir um og eru fastanefndir taldar upp í C-lið. Í 7. tl. hans segir að í skipulags- og umferðarnefnd séu skipaðir fimm aðalmenn og jafn margir til vara skv. samþykkt bæjarstjórnar frá 26. júní 2013 og skv. 6. gr. skipulagslaga. Ekki eru frekari upplýsingar um hlutverk og heimildir skipulags- og umferðarnefndar í samþykktinni. Á vef sveitarfélagsins eru tveir viðaukar við samþykktina. Annars vegar viðauki 1 um fullnaðarafgreiðslur fastanefnda án staðfestingar bæjarráðs eða bæjarstjórnar sem tekur til íþrótta- og tómstundaráðs og menningar- og safnanefndar. Hins vegar viðauki 2 um embættisafgreiðslur skipulagsstjóra. Samkvæmt efni þeirra er ljóst að þeir taka ekki til skipulags- og umferðarnefndar.
Samkvæmt framansögðu hefur bæjarstjórn Seltjarnarness ekki framselt vald sitt til fullnaðarafgreiðslu skipulagsmála til skipulags- og umferðarnefndar. Brast nefndina því vald til að ljúka endanlega afgreiðslu hinnar umdeildu umsóknar um breytingu á deiliskipulagi og verður að líta svo á að í synjun hennar hafi falist tillaga til sveitarstjórnar til afgreiðslu, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga.
Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga skulu fundargerðir nefnda, ráða og stjórna lagðar fyrir byggðarráð eða sveitarstjórn eftir því hver háttur er hafður á fullnaðarafgreiðslu í viðkomandi málaflokki. Ef fundargerðir nefnda innihalda ályktanir eða tillögur sem þarfnast staðfestingar byggðarráðs eða sveitarstjórnar ber að taka viðkomandi ályktanir og tillögur fyrir sem sérstök mál og afgreiða þau með formlegum hætti. Ef fundargerðir nefnda innihalda hins vegar ekki slíkar ályktanir eða tillögur er nægjanlegt að þær séu lagðar fram til kynningar. Er og tekið fram í athugasemdum með 41. gr. í frumvarpi því sem varð að sveitarstjórnarlögum að vönduð meðferð mála í stjórnsýslu sveitarfélaga eigi almennt að byggjast á því að bókað sé í fundargerðir um þau mál sem lögð séu fyrir fund, en ekki um þær fundargerðir sem þar séu lagðar fyrir. Þá er jafnframt mælt fyrir um það í 3. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 1181/2021 um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna að fundargerðir nefnda, sem lagðar eru fyrir sveitarstjórn, skuli lagðar fyrir í heild, þ.e. með öllum þeim dagskrármálum sem þær mynda. Ályktanir eða samþykktir í fundargerðum nefnda sem þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar skuli færa sérstaklega í fundargerð. Skýrt þurfi að koma fram hvaða afgreiðslu slíkir dagskrárliðir fá.
Í fundargerð skipulags- og umferðarnefndar frá fundi hennar 17. júlí 2024 er rakið hvað komið hafði fram um málið á fyrri fundum nefndarinnar, þ.e. að fjallað hefði verið um málamiðlunartillögu og skýringaruppdrátt frá kærendum. Er vísað til bókunar frá fyrri fundi og þess að skipulagsfulltrúa hafði þá verið falið að leggja fram málamiðlunartillögu kærenda. Svo segir að skipulagsfulltrúi hefði síðan þá fundað með nágrönnum kærenda og tekið fram að þeir teldu að mótmæli þeirra væru enn í fullu gildi hvað varðaði útsýni, skuggavarp og innsýn. Er svo bókað í fundargerðina að erindi kærenda sé synjað. Svo sem greinir að framan var fundargerðin frá þessum fundi lögð fram á fundi bæjarstjórnar 22. janúar 2025. Er þar bókað í fundargerð að bæjarstjórn samþykkti fundargerðina og hún væri í 14 liðum.
Með hliðsjón af framangreindu var afgreiðsla bæjarstjórnar ekki í samræmi við 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga og liggur því ekki fyrir lokaákvörðun um tillögu kærenda frá 9. febrúar 2024 um breytingu á deiliskipulagi í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.