Árið 2023, föstudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.
Fyrir var tekið mál nr. 63/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. apríl 2023 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15 í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. maí 2023, er barst nefndinni 17. s.m., kærir húsfélag Tangabryggju 13–15 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. apríl 2023 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að byggingarfulltrúa verði gert að endurtaka lokaúttekt samkvæmt skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, eftir að verktaki ljúki við bygginguna að fullu.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. og 29. júní 2023.
Málavextir: Árið 2016 var sótt um byggingarleyfi til að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 63 íbúðum á lóðinni nr. 18–24 við Tangabryggju sem síðar var breytt í Tangabryggju 13–15. Byggingarfulltrúi gaf út vottorð um lokaúttekt 21. júní 2019, en sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði uppkveðnum 28. maí 2020 í máli nr. 54/2019 var ákvörðun byggingarfulltrúa felld úr gildi með vísan til þess að þáttum sem vörðuðu aðgengi skyldi ávallt vera lokið við gerð lokaúttektar, sbr. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en að mati nefndarinnar voru tiltekin skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um bílastæði hreyfihamlaðra ekki uppfyllt.
Hinn 21. október 2020 gaf byggingarfulltrúi út nýtt vottorð um lokaúttekt og kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði í máli nr. 134/2020, uppkveðnum 6. maí 2021, en að virtri kvörtun kæranda til umboðsmanns Alþingis og fyrirspurnum umboðsmanns til nefndarinnar vegna kvörtunarinnar ákvað úrskurðarnefndin að endurupptaka málið að eigin frumkvæði. Í kjölfarið óskaði nefndin eftir áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna tiltekinna atriða. Úrskurður var kveðinn upp að nýju 4. maí 2022 þar sem úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að við útgáfu lokaúttektarvottorðs hefði fyrirkomulag loftræsingar mannvirkisins ekki uppfyllt skilyrði byggingarreglugerðar, en þar að auki komst meirihluti nefndarinnar að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða hefði heldur ekki uppfyllt skilyrði byggingarreglugerðar. Voru þeir annmarkar taldir leiða til ógildingar ákvörðunar byggingarfulltrúa.
Í kjölfar úrskurðarins lagði byggingaraðili fram byggingarleyfisumsókn með nýjum aðaluppdráttum og óskaði eftir því að byggingarlýsingu um loftræsingu og skilyrðum um snjóbræðslu fyrir bílastæði fyrir hreyfihamlaða yrði breytt. Hinn 21. mars 2023 samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina. Lokaúttekt fór fram að nýju 21. apríl s.á. og var hún staðfest með útgáfu vottorðs 25. s.m.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að takmarkaðar úrbætur hafi verið gerðar eftir að tvö vottorð um lokaúttekt Tangabryggju 13–15 hafi verið felld úr gildi og uppfylli fjölbýlishúsið enn ekki ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012.
Í húsinu sé með ýmsum hætti ekki uppfyllt skilyrði byggingarreglugerðar um aðgengi fyrir alla. Fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða, sem staðsett séu í bílgeymslu, séu þinglýst eign fjögurra íbúða. Aðgengi frá þeim stæðum að íbúðum sé um fimm eldvarnardyr sem ekki hafi sjálfvirkan opnunarbúnað og því ekki á færi einstaklinga í hjólastól að fara þar um, sbr. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerð. Skábraut að bílgeymslu sé brattari en 1:20 eins og gerð sé krafa um í 1. mgr. gr. 6.4.11, en samkvæmt ákvæðinu skuli skábrautir að jafnaði ekki vera brattari en 1:20 . Aðeins einu stæði fyrir hreyfihamlaða hafi verið bætt við á lóð fjölbýlishússins eftir fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Eigendur þriggja íbúða í fjölbýlishúsinu séu handhafar bílastæðamerkis fyrir hreyfihamlaða, en enginn þeirra eigi eitt af þeim fjórum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða sem eru í bílgeymslu. Þeir þurfi því að deila þessu eina stæði á lóð fjölbýlishússins, en skv. töflu 6.01. í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð eigi fjölbýlishúsið að hafa að lágmarki fjögur stæði fyrir hreyfihamlaða íbúa og gesti.
Flóttaleiðir í kjallara séu ekki færar hreyfihömluðum og uppfylli ekki skilyrði gr. 9.5.3. og 9.5.4. í byggingarreglugerð. Flótti hreyfihamlaðra úr bílgeymslu sé ómögulegur samkvæmt merktum flóttaleiðum. Snúningsrými sé ekki til staðar fyrir framan hurð í bílgeymslu þannig að einstaklingur í hjólastól hafi ekki tök á að fara út um þær dyr. Í vagna- og hjólageymslu Tangabryggju 15 séu aðeins tvö björgunarop sem þurfi að fara upp neyðarstiga til að komast út um. Ekki séu merktar flóttaleiðir úr hjólageymslunni í annað brunahólf.
Handlista skorti á óupphitaðri og óupplýstri gönguleið að bílastæðum utanhúss sem og á gönguleið á skábraut sem liggi að bílageymslu, en skv. gr. 6.5.1. í byggingarreglugerð skuli handrið vera á öllum svölum bygginga, stigum, tröppum, pöllum, skábrautum og annars staðar þar sem hætta sé á falli. Byggingaraðili hafi ekki talið þörf á handriði á skábrautinni þar sem fallhætta sé ekki til staðar, en skábrautin sé samt sem áður brött eða 15° samkvæmt hönnunargögnum. Þá sé aðgengi fyrir blinda og sjónskerta ekki í samræmi við fyrirmæli gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð. Fyrir framan hús sé óupphituð gönguleið frá inngöngum að ruslageymslu, en á þeirri leið sé ómerkt þrep. Gönguleið frá ruslageymslu að bílastæðum utanhúss annars vegar og að merktri gönguleið niður skábraut að bílageymslu hins vegar þveri akstursleið að og frá bílgeymslu. Þar ætti því að merkja sérstaklega með áherslumerkingu, enda ekki sjálfgefið að ökumaður og gangandi vegfarendur verði varir við hvorn annan þar sem skábraut sé við enda ruslageymslu. Blindir og sjónskertir séu því í sérstakri hættu.
Útsog úr eldhúsum íbúða og af gangi sé ekki til staðar. Þar af leiðandi séu ekki eðlileg loftskipti á þessum stöðum, sbr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Á uppdráttum komi fram að öll gluggalaus eða lokuð rými verði loftræst. Matarlykt leiði nú um íbúðir og fram á ganga. Loftræsing á baðherbergjum og þvottahúsum virðist ekki fullnægjandi. Óformlegar mælingar fagaðila sýni mun minni loftskipti en reglugerð kveði á um, en skv. gr. 10.2.5. ættu loftskipti á baðherbergi að vera að lágmarki 15 l/s og 20 l/s í þvottahúsi. Vísað sé til álits Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og minnisblaðs verkfræðistofunnar Mannvits í enduruppteknu máli nr. 134/2020, en auk þess sé óskað eftir því að óháður aðili verði fenginn til að meta gæði þeirrar loftræsingar sem sé til staðar á baðherbergjum og þvottahúsum.
Sorpgeymsla sé án læstra dyra, en í hönnunargögnum sé gert ráð fyrir hurð. Gólf í sorpgeymslunni sé ómeðhöndlað sem torveldi þrif, en skv. gr. 6.12.7. í byggingarreglugerð skuli sorpgeymslur þannig frágengnar að auðvelt sé að þrífa þær. Þá vanti loftræsingu í sorpgeymslu svo hægt sé að læsa henni, sbr. gr. 6.12.7.
Bílgeymsla sé án einangrunar sem kalli á leka og myglu. Útbreiddur leki sé á öllum veggjum í bílgeymslu og í kverkum við holplötur. Borið hafi á myglu í innsta þriðjungi lofts og molnað hafi úr holplötum í lofti á nokkrum stöðum. Sprungur og skemmdir séu taldar vera vegna frostskemmda. Byggingaraðili hafi tvívegis þrifið upp myglu úr lofti, en þrátt fyrir það sé loft enn myglað. Varðandi þetta atriði sé vísað til gr. 8.1.1., 8.2.1., 6.3.2. og 6.11.5. í byggingarreglugerð
Viðvarandi músagangur hafi verið á svölum íbúða frá því að fyrstu íbúar hafi flutt inn árið 2019 og hafi byggingaraðila ekki enn tekist að binda enda á hann, en skv. gr. 10.1.1. og 10.7.1. í byggingarreglugerð eigi byggingar að vera þannig frágengnar að meindýr eigi ekki að komast inn í bygginguna, einstaka hluta hennar eða undir klæðningu. Samkvæmt gr. 6.3.1. og 6.3.2. eigi ytra byrði bygginga að standast það álag umhverfisþátta sem búast megi við. Útidyr beggja stigaganga standist samt ekki veðurálag og við úrkomu leki mikið inn. Byggingaraðili hafi sett niðurfall í anddyri Tangabryggju 13 til að takmarka tjón, en hafi ekki bætt úr hönnunargalla. Rafmagnstöflur séu ólæstar í sameiginlegu rými, sem á aðaluppdrætti sé skilgreint sem vagna- og hjólageymsla/tæknirými. Þar sé óhindrað aðgengi fyrir börn og fullorðna sem geti valdið slysum og tjóni fyrir íbúa hússins og brjóti því í bága við gr. 6.12.1. í byggingarreglugerð. Bílastæði á lóð fjölbýlishússins séu óupplýst ásamt hluta gangstígs, en það sé í andstöðu við gr. 6.2.2. og skapi hættu fyrir íbúa sem eigi þar leið um í skammdeginu. Byggingarfulltrúi hafi svarað athugum þar að lútandi á þá leið að hann telji lýsingu fullnægjandi og að lýsing sé í samræmi við hönnunargögn/lóðarblað, en meta eigi þau atriði eftir byggingarreglugerð.
Hefði skoðunarhandbók og skoðunarlistum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verið fylgt við lokaúttekt hefði komið til úrbóta varðandi fyrrnefnd efnisatriði. Ekki sé hægt að gefa út lokaúttektarvottorð þegar þáttum varðandi aðgengi, hollustuhætti og öryggismál séu ekki uppfyllt. Þá hafi byggingarfulltrúi virt að vettugi úrskurð úrskurðarnefndarinnar með því að krefja byggingaraðila ekki um úrbætur.
Gerð sé athugasemd við að byggingarfulltrúi taki skýrslu byggingaraðila um átaksmælingar hurða í kjallara gilda. Óskað sé eftir því að álit Öryrkjabandalags Íslands, sem lagt hafi verið fram í enduruppteknu máli nr. 134/2020, verði haft til hliðsjónar og óháður aðili fenginn til að átaksmæla dyrnar. Mælingar kæranda á hurðum í kjallara séu ekki í samræmi við mælingar sem tilgreindar séu í skoðunarskýrslu. Til að uppfylla 6. gr. reglugerðar nr. 723/2017 um eldvarnir og eldvarnareftirlit þurfi brunahurðir að hafa nægjanlegan þunga til að tryggja að hurð læsist og þétti þegar hún falli að. Eðlilega sé erfitt að uppfylla bæði skilyrði um að hurð sé nægjanlega létt fyrir alla að opna en jafnframt nægilega þung til að læsast. Einnig sé bent á álit Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þar sem fram hafi komið að aðalaumferðarleið væri „allar leiðir í sameign, frá bílastæði, inn/út um aðalinngang, inn á og eftir gangi, að íbúðum, að geymslum, m.a. bílageymslum, og inn/út um aðra innganga.“
Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að meðferð málsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, laga nr. 160/2010 um mannvirki og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í kjölfar úrskurðar nefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 hafi byggingaraðili sótt um og fengið samþykkt byggingarleyfi vegna lagfæringa á þeim atriðum sem hafi leitt til ógildingar fyrra lokaúttektarvottorðs. Samþykkt hafi verið skilyrði um snjóbræðslu framan við húsið og í bílastæði fyrir hreyfihamlaða auk þess sem uppfærður hafi verið texti varðandi loftræsingu. Með þeirri breytingu teljist skilyrði byggingarreglugerðar um bílastæði fyrir hreyfihamlaða vera uppfyllt, en sú túlkun úrskurðarnefndarinnar að ekki megi setja bílastæði fyrir hreyfihamlaða í bílgeymslu sé ekki í samræmi við byggingarreglugerð. Til að gangast við kröfum úrskurðarnefndarinnar hafi byggingaraðili sótt um að setja bílastæði fyrir hreyfihamlaða í borgarlandi, en fengið synjun frá skrifstofu samgöngustjóra þar sem ekki hafi verið pláss í götunni til að fjölga bílastæðum fyrir hreyfihamlaða.
Ekki sé fallist á túlkun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á ákvæðum byggingarreglugerðar varðandi loftræsingu fyrir íbúðarhús sem fram komi í áliti stofnunarinnar í tengslum við endurupptekið kærumál nr. 134/2020. Því til stuðnings sé vitnað í minnisblað verkfræðistofunnar Teknik, dags. 6. desember 2021. Til stuðnings þeirri afstöðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að útsog frá eldhúsum megi ekki berast í önnur rými sé vísað til gr. 10.2.3. í byggingarreglugerð um að nota skuli staðbundið útsog þar sem mengandi vinnsla fari fram. Bent sé á að eldhús í íbúðarhúsum flokkist ekki sem mengandi starfsemi innan bygginga heldur eigi greinin við um atvinnustarfsemi eins og tilvitnun í reglugerð Vinnueftirlits ríkisins beri með sér. Skýrt sé skv. gr. 10.2.5. að beita megi náttúrulegri loftræsingu til að skapa útsog úr rými. Í viðmiðunarreglum fyrir þá grein sé tilgreint hvaða loftskipti skulu vera möguleg að lágmarki, óháð gerð loftræsingar, en ekki sé gerð krafa um að þau loftskipti séu ávallt til staðar. Hvað varði þá afstöðu stofnunarinnar að opnanlegt gluggafag uppfylli ekki kröfur til útsogs náttúrulegrar loftræsingar, sbr. gr. 14.9.1. í byggingarreglugerð, þá tilgreini ákvæðið ekki meginreglur heldur almennar kröfur. Því sé ákvæði hennar ekki ófrávíkjanlegt sé sýnt fram á það að kröfur séu uppfylltar með öðrum hætti en segi í reglugerðinni.
Samkvæmt gr. 10.2.3. í byggingarreglugerð megi blanda útsogslofti við ferskloft ef tryggt sé að það mengi ekki ferskloft þess rýmis sem loftræst sé. Túlka megi greinina á þann veg að ef útsog frá eldhúsum sé hreinsað á fullnægjandi hátt þá megi blanda því aftur við ferskt loft í rýminu. Slíkri hreinsun sé t.d. hægt að ná fram með útsogsháfum staðsettum ofan við eldavélar útbúnum með kolasíum til lofthreinsunar. Bent sé á ákveðna mótsögn í byggingarreglugerð þegar komi að loftræsingu íbúða í fjölbýlishúsum. Ef fylgt sé viðmiðmunarkröfum um útsog í gr. 10.2.5. fyrir ákveðnar útfærslur af íbúðum geti skapast mun hærri loftskipti en viðmið í reglugerð og leiðbeinandi stöðum tilgreini og mæli með. Upphitunarkerfi þurfi að hita ferskt útiloft sem dregið sé inn í íbúðina á móti útsogi úr rýmum. Horfa þurfi heildstætt á byggingarreglugerð en ekki sértæka kafla, viðmunarreglur og greinar um loftræsingu, svo sem um innivist og orkunotkun. Út frá framangreindri umfjöllun hafi texti í byggingarlýsingu varðandi loftræsingu verið uppfærður og samþykktur af byggingarfulltrúa.
Við lokaúttekt hafi sérstaklega verið skoðað hvort frágangur eldvarnarhurða í aðalumferðarleið frá bílgeymslu að lyftum í kjallara uppfylli skilyrði laga um mannvirki og byggingarreglugerðar og hafi svo verið. Umfjöllun þar um sé að finna í niðurstöðu vottorðs lokaúttektar. Að lokum sé bent á að úrskurðarnefndin hafi áður tekið afstöðu til annarra atriða í kærumálum nr. 54/2019 og 134/2020 og verði ekki fjallað efnislega um þau atriði.
Málsrök byggingaraðila: Af hálfu byggingaraðila er bent á að mannvirkið uppfylli allar viðeigandi kröfur laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Byggt hafi verið í samræmi við hönnunargögn líkt og útgáfa lokaúttektarvottorðs staðfesti, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010. Auk framangreinds lúti stór hluta athugasemda kæranda, s.s. varðandi sorpgeymslur, tæknirými, lýsingar á bílastæðum, músagang o.fl., að atriðum sem myndu teljast minniháttar frávik. Hefðu þau í mesta lagi geta orðið til þess að byggingarfulltrúi hefði gefið út vottorð með athugasemdum skv. 4. mgr. 36. gr. mannvirkjalaga og 2. mgr. gr. 3.9.4. í byggingarreglugerð.
Byggingaraðili taki undir túlkun úrskurðarnefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 á b-lið 5. mgr. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerð, þ.e. að ekki sé gerð krafa um að inngangs- og útidyr í aðalumferðarleiðum séu með sjálfvirkum opnunarbúnaði heldur einungis að vel sé hægt að koma slíkum búnaði fyrir. Sama eigi við hvað varði skábraut fyrir hjólastóla. Í úrskurðinum hafi nefndin vísað til samþykktra teikninga þar sem sjá megi að skábraut í bílgeymslu að inngangsdyrum sé styttri en 3 m og að halli sé 8,3% sem sé í samræmi við viðmiðunarreglu 2. mgr. gr. 6.4.11. í byggingarreglugerð. Að því marki sem röksemdir kæranda taki hugsanlega til gangstígs að inngangsdyrum bílageymslu utanhúss sé á það bent að sá gangstígur hafi hvorki verið hannaður né byggður sem skábraut fyrir hjólastóla. Þá hafi úrskurðarnefndin tekið afstöðu til röksemda kæranda um sorpgeymslur, tæknirými og lýsingar og merkingar á gönguleiðum.
Í kjölfar úrskurðar nefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 hafi byggingaraðili komið fyrir snjóbræðslu í bílastæðið fyrir hreyfihamlaða og sé það atriði því núna í samræmi við þann úrskurð. Í sama úrskurði hafi nefndin gert athugasemd við að byggingarfulltrúi hefði ekki, á grundvelli rannsóknarskyldu sinnar, tekið sjálfur til nánari skoðunar hvort að breytingar byggingaraðila „hefðu leitt til þess að umræddar hurðir uppfylltu þar með ekki þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt byggingarreglugerð til slíkra hurða vegna brunavarna.“ Byggingaraðili hafi framkvæmt mælingar bæði fyrir og við úttekt mannvirkisins en mælingar við úttekt hafi farið fram í viðurvist byggingarfulltrúa. Í kjölfar úttektarinnar hafi byggingaraðili sent uppfærða skýrslu um átaksmælingar til byggingarfulltrúa. Dyr séu því í samræmi við gr. 6.4.3. og hafi byggingarfulltrúi sinnt rannsóknarskyldu sinni.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 um að skilyrði 9. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð hafi ekki verið uppfyllt feli það í sér að koma þurfi fyrir þremur sérmerktum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða til viðbótar þeim sem fyrir séu. Í kjölfar úrskurðarins hafi byggingaraðili kannað hvort mögulegt væri að koma fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða í borgarlandi. Svör borgarinnar hafi verið á þá leið að ekkert svigrúm væri í borgarlandi og þyrfti þetta því að vera í höndum lóðarhafa. Byggingaraðili bendi á að hann sé ekki lóðarhafi og hafi engar heimildir yfir bílastæðum á lóð eða í bílageymslu. Þau stæði sem séu á lóð Tangabryggju 13–15 séu of langt frá aðalinngöngum mannvirkjanna til að þau geti uppfyllt skilyrði um stæði fyrir hreyfihamlaða, sbr. 1. mgr. gr. 6.2.4. Byggingaraðili standi því frammi fyrir ómöguleika upp á sitt eindæmi til að bregðast við úrskurði nefndarinnar varðandi stæði fyrir hreyfihamlaða. Í ljósi þess sé tilefni fyrir úrskurðarnefndina að endurskoða afstöðu sína í málinu að því er varði réttaráhrif umrædds annmarka. Í því samhengi skipti máli að ákvæði mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar um lokaúttektir séu reist á því að hægt sé að bregðast við athugasemdum sem fram komi við lokaúttekt, sbr. m.a. gr. 3.9.3. í byggingarreglugerð. Hvorki eftirlitsaðilar né úrskurðarnefndin í málum nr. 54/2019 og 134/2020 hafi túlkað gr. 6.2.4. með þeim hætti sem hafi verið gerð í enduruppteknu máli nr. 134/2020, en þar að auki hafi nefndin klofnað í afstöðu sinni. Byggingaraðili telji rétt að nefndin taki sjálfstætt til skoðunar hvaða leiðir séu færar til að koma fyrir þremur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóðinni. Ef niðurstaðan sé sú að ekkert sé hægt að gera sé óhjákvæmilegt að ákvörðun byggingarfulltrúa haldi gildi sínu.
Í úrskurði nefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag loftræsingar í eldhúsum íbúða Tangabryggju 13–15 sé í andstöðu við 1. tölulið. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Í kjölfar úrskurðarins hafi verið sótt um leyfi til að breyta aðaluppdráttum og skýra betur loftræsingu og forsendur loftræsihönnunar. Í samþykktum aðaluppdráttum komi nú fram að eldhús séu loftræst með opnanlegum gluggafögum og ferskloftsventlum í útveggjum og sé því útsog úr eldhúsum íbúða ekki dregið í gegnum önnur rými. Það geti þó verið óhjákvæmilegt að ferskloft úr alrými/eldhúsi dragist að útsogsbúnaði baðherbergis/þvottaherbergis, en það þýði ekki að útsog sé dregið í gegnum önnur rými. Loftræsing eldhús fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 sé í fullu samræmi við viðeigandi ákvæði byggingarreglugerðar, líkt og staðfest hafi verið í fyrirliggjandi minnisblaði verkfræðistofunnar Teknik og greinargerð loftræsihönnuðar. Þá sé bent á að bað- og þvottaherbergi séu loftræst með vélrænu útsogi sem uppfylli viðmiðunarreglur gr. 10.2.5. en ekki hafi verið gerðar athugasemdir við þetta atriði í úrskurði nefndarinnar.
Í úrskurði nefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 hafi nefndin lagt til grundvallar að skilyrði 3. töluliður 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð um ferskloft í svefnherbergi sé ekki uppfyllt. Var alfarið byggt á fyrirliggjandi áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem byggði á minnisblaði verkfræðistofunnar Mannvits. Í því minnisblaði hafi verið tekið fram að til að hægt væri að uppfylla kröfur ákvæðisins þyrfti „að lágmarki einn ferskloftsventil í hvert svefnherbergi til viðbótar við ferskloftsventilinn í alrýminu.“ Sá sem hafi ritað það minnisblað hafi staðfest við byggingaraðila að álit hans væri rangt. Í tölvubréfi hafi hann m.a. sagt að hann túlki ákvæðið á þá leið að 7 l/s á einstakling „sé þá í raun bara stærðun á opnanlega glugganum, þ.e. hversu mikið loftmagn hann getur flutt.“ Að mati byggingaraðila sé einsýnt að opnanlegt gluggafag í svefnherberginu sé fullnægjandi til þess að tryggja loftræsingu skv. 3. mgr. gr. 10.2.5. og að stærðin sé nægjanleg til að afkasta 7 l/s á hvern einstakling í herberginu.
Fyrirkomulag flóttaleiða í bílgeymslu Tangabryggju 13–15 sé að öllu leyti í samræmi við kröfur kafla 9.5. í byggingarreglugerð, líkt og ráða megi af samþykktum aðaluppdráttum. Við ákvörðun flóttaleiðanna hafi verið tekið tillit til algildrar hönnunar. Báðar flóttaleiðirnar frá bílageymslu leiði til öruggs staðar undir beru lofti á jörðu niðri í samræmi við 1. mgr. gr. 9.5.3. Ekki verði séð að hreyfihamlaðir myndu eiga í erfiðleikum með að loka hurðum vegna skorts á snúningsrými. Þá skuli á það bent að úr bílageymslu liggi önnur leið upp skrábraut inn í brunastúku. Brunahönnuður mannvirkisins hafi útfært allar flóttaleiðir og undirritað auk þess aðaluppdrætti. Þá hafi Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs. samþykkt brunahönnunina og aðaluppdrætti.
Hvað varði meintan skort á handlistum á gönguleiðum utanhúss sé bent á að af orðalagi gr. 6.5.1. í byggingarreglugerð megi ráða að tilvist fallhættu sé ráðandi um það hvort setja skuli upp handrið. Að mati byggingaraðila sé engin fallhætta á gönguleið utanhúss frá anddyri að bílastæðum og verði vart séð hvar skuli koma handriðum fyrir á þeirri leið. Þá hafi byggingaraðila tekið sérstaklega til skoðunar hvort fallhætta væri fyrir hendi á gangstíg að inngangsdyrum bílageymslu utanhúss, en hafi ekki talið svo vera.
Allar merkingar fyrir blinda og sjónskerta séu í samræmi við kröfur í gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð. Í 4. mgr. greinarinnar segi að „huga skuli“ að merkingu fyrir blinda og sjónskerta við afmörkun gönguleiða, t.d. með litbrigðum og/eða með breytingu á gerð yfirborðsefnis, og fullnægjandi frágangi vegna umferðar hjólastóla. Byggingaraðili bendi á að yfirborðsefni fyrir framan aðalinngang sé ekki hið sama og á gönguleið að ruslageymslu. Þá sé einnig annað yfirborðsefni fyrir framan inngang að ruslageymslu. Jafnframt séu gulmerkingar á köntum milli umferðargötu og gönguleiðar. Ekki verði því annað séð en að hugað hafi verið að merkingum fyrir blinda og sjónskerta í samræmi við framangreint. Engin þrep séu á gönguleiðum að inngöngum fjölbýlishússins. Þá sé gönguleið frá inngöngum að ruslageymslu upphituð þannig að aðgengi sé gott fyrir alla þá sem eigi leið um. Hvað varði það sjónarmið kæranda að gönguleið þveri akstursleið til og frá bílageymslu þá sé bent á að umrædd gönguleið sé sérstaklega merkt með hvítum merkingum og annað yfirborðsefni sé rétt áður en gengið sé út á akstursleiðina.
Það sé rangt hjá kæranda að bílgeymslan sé óeinangruð, en um þetta megi m.a. vísa til samþykktra aðaluppdrátta þar sem fram komi að ofan á þakplötu bílgeymslunnar sé lagður „tjörupappi/vatnseinangrandi lag“. Kærandi hafi vakið sérstaka athygli á þeim annmörkum sem hann hafi talið vera fyrir hendi að þessu leyti í aðdraganda lokaúttektarinnar, en byggingarfulltrúi hafi ekki gert athugasemdir þar um við lokaúttekt. Ekkert liggi fyrir sem hnekki því mati byggingarfulltrúa. Engan veginn verði séð að ætluð vandamál í bílgeymslu séu á ábyrgð byggingaraðila. Þar að auki falli það hvorki undir hlutverk byggingarfulltrúa né úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til slíks álitamáls, enda um að ræða hugsanlegan einkaréttarlegan ágreining sem kalli á sönnunarfærslu. Að því er varði múrbrot það sem kærandi minnist á verði ekki annað ráðið en að það hafi verið einangrað tilvik þar sem brotnað hefði úr kanti á forsteyptri einingu í loftinu. Að lokum sé bent á að það sé að sjálfsögðu á ábyrgð kæranda að sinna viðhaldi á mannvirkinu, en lokið hafi verið við byggingu þess á árinu 2019.
Varðandi ætlaðan músagang þá sé mannvirkið að öllu leyti í samræmi við gr. 10.1.1., 10.5.5. og 10.7.1. í byggingarreglugerð. Byggingaraðili hafi reynt að bregðast við ábendingum kæranda þessu tengdu og lokað öllum mögulegum stöðum þar sem mýs gætu komist inn. Í kjölfar nýrra ábendinga frá kæranda hafi byggingaraðili farið aftur yfir alla neðri brún klæðningar og lokað öllum mögulegum leiðum með músaneti. Starfsmaður byggingaraðila hafi bent kæranda á að mýs gætu komist inn í byggingar með ýmsum leiðum sem væru byggingaraðila óviðkomandi. Fyrir lokaúttekt hafi kærandi vakið athygli á þessum annmörkum, en byggingarfulltrúi hafi ekki gert athugasemdir við úttekt. Ekkert liggi fyrir í málinu sem hnekki því mati byggingarfulltrúa.
Í kæru málsins sé rakið að útidyr beggja stigaganga standist ekki veðurálag og séu í ósamræmi við gr. 6.3.1. og 6.3.2. í byggingarreglugerð. Í þeim ákvæðum sé hvergi talað um eiginleika útidyrahurða. Það sé gert í gr. 6.2.4. án þess að gerðar séu sérstakar kröfur varðandi veðurálag. Ekkert bendi þó til þess að umræddar hurðir séu í ósamræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Kærandi hafi komið að athugasemdum um þetta atriði á framfæri við byggingarfulltrúa en við lokaúttekt hafi hann ekki gert athugasemdir að þessu leyti. Liggi ekkert fyrir sem hnekki því mati. Benda megi á að kæranda og byggingaraðila beri engan veginn saman um ætlaðan annmarka. Byggingaraðili hafi bent kæranda á að það væri á ábyrgð kæranda sem húsfélags að sinna eðlilegu viðhaldi, en byggingaraðili hafi þó ákveðið, umfram skyldu, að reyna að grípa til aðgerða til að minnka vatnsálag á hurðina og koma fyrir niðurfalli. Engin gögn styðji þá staðhæfingu kæranda að hurðir séu haldnar hönnunargalla, auk þess sem það falli hvorki undir hlutverk byggingarfulltrúa né nefndarinnar að taka afstöðu til slíks álitamáls.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að í íbúðum fjölbýlishússins séu venjulegir eldhúsháfar en ekki útsogsháfar eins og borgaryfirvöld haldi fram í umsögn sinni, en kvörtun kæranda snúi að skorti á vélrænu útsogi í eldhúsum íbúðanna. Byggingarfulltrúi hafi í kjölfar úrskurðar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 samþykkt breyting á texta á aðaluppdráttum til að aðlaga byggingarlýsingu að þeim annmörkum sem séu á húsinu. Um óeðlileg vinnubrögð sé að ræða þar sem byggingarfulltrúa beri að sjá til þess að húsið uppfylli skilyrði byggingarreglugerðar. Frekari skýring á loftræsingu og forsendum hennar bæti ekki þá loftræsingu sem eigi að vera til staðar, en skýrt sé skv. 1. mgr. gr. 10.2.5. að útsog eigi að vera til staðar úr eldhúsi. Borgaryfirvöld vísi til þess að túlka megi þau orð gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2020 að „loftskipti skuli vera möguleg að lágmarki“ sem svo að þau þurfi ekki að vera ávallt til staðar heldur eingöngu að mögulegt sé að ná þeim. Um skrumskælingu á ákvæðinu sé að ræða, en það að eitthvað sé mögulegt að lágmarki þýði að frjálst sé að hafa loftskiptin meiri en þessi lágmarkskrafa tiltaki, en að öllu jöfnu sé hún ekki minni. Það sé ekki fullnægjandi að ná lágmarksloftskiptum einu sinni á ári eða einu sinni í mánuði.
Bent sé á að í enduruppteknu máli nr. 134/2020 hafi úrskurðarnefndin byggt niðurstöðu sína á áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem hafi svo byggt álit sitt á minnisblaði verkfræðistofunnar Mannvits. Í því minnisblaði hafi verið tekið fram að til að hægt væri að uppfylla kröfu 3. mgr. gr. 10.2.5., um að magn fersklofts sem berist til svefnherbergja skuli aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling, þurfi ferskloftsventil í hvert herbergi. Í tölvubréfi starfsmanns þeirrar verkfræðistofu frá 23. september 2022 sé nú tekið fram að krafan um 7 l/s hafi með stærð opnanlegs fags glugga að gera og að „menn geta reiknað út flæði um glugga eftir skynsamlegum forsendum um vind og hitastig.“ Opnanlegt fag glugga takmarkist af öryggislæsingu, en flæði um glugga sé háð því að vindur sé hæfilega mikill svo gluggi geti verið opinn en nægjanleg mikill til að inn um hann flæði loft. Það sé því rétt samkvæmt upphaflegu áliti verkfræðistofunnar að ekki sé hægt að tryggja fullnægjandi loftun nema með ferskloftsventlum. Hið breytta álit verkfræðistofunnar veki athygli, en svo virðist sem byggingaraðili hafi fundað með fulltrúum verkfræðistofunnar til að ræða minnisblað þeirra fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Síðar sé sent tölvubréf þar sem skipt sé um skoðun. Það ferli sem nú hafi átt sér stað sé óeðlilegt og rýri áreiðanleika og trú á stjórnsýsluna. Ef hagsmunaaðilar geti haft beint samband við álitsgjafa og breytt áliti þeirra hljóti að vera erfitt að fá hlutlaust og áreiðanlegt álit á ágreiningsmálum.
Þótt úrskurðarnefndin hafi tekið afstöðu til málsraka kæranda varðandi sorpgeymslu í máli nr. 134/2020 þá hafi úrskurðurinn verið felldur úr gildi með endurupptöku málsins. Því hafi ekki verið tekin formleg afstaða til umkvörtunarefnisins. Það sama eigi við um málsrök kæranda varðandi lýsingu á gönguleið. Einni sé bent á að í hjóla- og vagnageymslu sé ekki aðeins um rafmagnstöflur að ræða heldur einnig loftræsi- og rekstrarbúnað fjölbýlishússins.
Ítrekað séu þau málsrök kæranda að hreyfihamlaðir eigi í erfiðleikum með að loka hurðum vegna skorts á snúningsrými. Það sé augljóst að opnunargeiri hurðar við hlið skábrautar taki allan hluta stéttar og því sé ekki til staðar snúningsrými þegar loka þurfi hurð á eftir hreyfihömluðum einstaklingi. Neyðarútgangur í enda bílageymslu hafi hins vegar meira snúningsrými og hurð geti lokast á eftir hjólastól, en sú hurð sé þó mun þyngri en 45N og ekki á færi allra að opna hana. Byggingaraðili taki einnig fram að hreyfihamlaðir geti farið upp skábraut inn í brunastúku en sú leið sé þó ekki merkt sem flóttaleið og telji því ekki sem önnur af tveimur flóttaleiðum sem sé fær hreyfihömluðum. Þá sé flóttaleiðin um stigagang ekki fær hreyfihömluðum þar sem snúningsrými skorti einnig. Það sé ámælisvert að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi samþykkt brunahönnun fjölbýlishússins.
Í athugasemdum byggingaraðila sé tekið fram að gul merking sé á köntum milli umferðargötu og gönguleiðar. Sú merking hafi þó ekki verið fyrir hendi við lok byggingar fjölbýlishússins heldur hafi stjórn húsfélagsins gert hana. Þá haldi byggingaraðili því fram að engin þrep séu á gönguleið að inngöngum hússins og að gönguleið sé upphituð þannig að aðgengi sé gott. Þegar horft sé frá inngangi Tangabryggju 15 sé augljóst að þrep sé á gönguleið í átt að ruslageymslu. Eins og yfirlitsmynd fyrir snjóbræðslu beri með sér þá sé sú leið sem sé án þreps óupphituð.
Hvað varði einangrun bílageymslunnar þá sé sjáanlegur munur á þeim hluta sem sé aðeins klæddur með tjörupappa og þeim sem hafi torf að auki. Augljóst sé að byggingarfulltrúi hafi ekki tekið húsið út samkvæmt skoðunarhandbók þar sem ummerki leka séu mjög víða í bílageymslu og augljós öllum þeim sem fari þar um. Vandamál með múrbrot sé ekki einangrað tilvik eins og byggingaraðili haldi fram. Samskipti kæranda og byggingaraðila vegna vankanta á bílageymslu, m.a. vegna leka og myglu, hafi verið óslitin frá árinu 2019. Húsið hafi verið selt sem viðhaldslítið og því sé óeðlilegt að kenna skorti á eðlilegu viðhaldi um. Hvað varði þá athugasemd byggingaraðila að álitamál um leka og myglu eigi að reka fyrir dómstólum þá sé bent á að húsnæðiseigendur eigi að geta treyst því að lágmarkskröfum byggingarreglugerðar sé fylgt við lokaúttekt. Þá hafi hönnuður hafi vanmetið það veðurálag sem hurðin þurfi að þola og því beri byggingaraðila að leysa þann hönnunargalla. Það sé að sjálfsögðu hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með því að hurðir leki ekki áður en vottorð um lokaúttekt sé gefið út.
Álit Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 29. september 2023, var þess farið á leit að stofnun léti í ljós álit sitt á þremur atriðum varðandi hina kærðu ákvörðun í máli þessu. Varðaði fyrsta atriðið það hvort stofnunin teldi að útsog frá eldhúsum íbúða fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 væri dregið í gegnum önnur rými í skilningi meginreglu 1. tölul. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í öðru lagi óskaði nefndin eftir því að ef álit stofnunarinnar væri það að útsog frá eldhúsum íbúða væri dregið í gegnum önnur rými, hvort stofnunin teldi að vélrænt útsog í eldhúsum íbúða væri nauðsynlegt til þess að uppfylla greint skilyrði í byggingarreglugerð og eftir atvikum skilyrði viðmiðunarreglna 2. mgr. sömu greinar byggingarreglugerðar. Ef svo væri var þess jafnframt óskað að stofnun gæfi álit sitt á því hvort slíkt fyrirkomulag gæti gengið gegn öðrum markmiðum byggingarreglugerðar. Þriðja og síðasta atriðið laut að því hvort svefnherbergi í fjölbýlishúsinu að Tangabryggju 13–15 uppfylltu skilyrði 3. tölul. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð um að magn fersklofts sem bærust til svefnherbergis skuli aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling meðan herbergið sé í notkun. Ef svo væri óskaði nefndin þess janframt að stofnun gæfi álit sitt á því hvort þörf væri á ferskloftsventli í hvert svefnherbergi til að uppfylla umrætt skilyrði.
Hinn 7. nóvember 2023 veitti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun úrskurðarnefndinni álit sitt sem byggt var á minnisblaði sérfræðings hjá stofnuninni. Í svari stofnunarinnar við fyrrgreint fyrsta atriði kom fram að það væri álit hennar að loft frá eldhúsum íbúða fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 væri dregið í gegnum önnur rými í skilningi meginreglu 1. tölul. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Hvað annað atriðið varðaði þá var það álit stofnunarinnar að vélrænt útsog væri ekki nauðsynleg en þó æskilegt til að tryggja viðunandi loftgæði og tryggja að loft frá eldhúsum dragist ekki í gegnum önnur rými íbúða. Ef ekki væri vélrænt útsog þyrfti að tryggja að náttúrulegt útsog fari upp fyrir efstu klæðningu þaks. Jafnvel þótt það væri nauðsynlegt eða krafa þá væri það álit stofnunarinnar að slíkt fyrirkomulag myndi ekki ganga gegn öðrum markmiðum byggingarreglugerðar. Að lokum var það álit stofnunarinnar að „loftmagn til svefnherbergja [væri] ekki uppfyllt, m.t.t. 7 l/s á hvern einstakling, án þess að fara yfir 89 mm opnunarkröfu gefna í gr. 12.2.3. í byggingarreglugerð.“ Ein lausn af mörgum til að leiðrétta eða uppfylla þá kröfu væri að setja loftunarventil út fyrir klæðningu hússins, en ekki inn í loftunarbil klæðningarinnar eins og sé í dag. Þá vísaði stofnunin til niðurstöðu úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 78/2013.
Úrskurðarnefndin gaf aðilum máls færi á að koma að athugasemdum vegna álits Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Kærandi gerir athugasemd við að álitsbeiðni nefndarinnar hafi ekki lotið að loftræsingu á stigagöngum en byggingaraðili mótmælir framkomnu áliti með vísan til þeirra gagna og sjónarmiða sem fram hafi verið færð á fyrri stigum málsins. Borgaryfirvöld telja niðurstöðu álitsins ekki á rökum reistar á grunni byggingarreglugerðar vegna loftræsingu. Hönnun loftræsingarinnar sé ekki frábrugðin loftræsingu í öðrum sambærilegum húsum sem hönnuð hafi verið og byggð á svipuðum tíma. Varðandi útsog frá eldhúsum íbúða fjölbýlihússins að Tangabryggju 13–15 þá sé útsog dregið í gegnum þvottahús og baðherbergi. Kolasía í eldhúsháfi minnki óhreinindi í lofti það mikið að það geti ekki talist meira mengandi en loft í þvottahúsi eða baðherbergi og því sé í lagi að draga loftið í gegnum þessi rými þar sem um litlar íbúðir sé að ræða. Ekki sé þörf á beinu vélrænu útsogi. Vélrænt útsog frá þvottahúsi og baðherherbergi með loftskipti upp á 35 l/s myndi undirþrýsting í íbúðum og dragi ferskloft inn um opnanleg fög og um rifur undir innihurðum. Mörg eldhús séu staðsett við útvegg í alrýmum og séu því að hluta náttúrulega loftræst í gegnum opnanleg fög og loftventil í útvegg. Nægur undirþrýstingur sé í íbúðunum til að draga 7 l/s ferskloft inn í svefnherbergi um opnanleg fög. Því sé ekki þörf á ferskloftsventlum í svefnherbergjum. Núverandi fyrirkomulag loftræsingar sé fullnægjandi miðað við samþykkta aðaluppdrætti og kröfur byggingarreglugerðar eins og þær hafi verið á sínum tíma.
—–
Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. apríl 2023 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15.
Meðal markmiða laga nr. 160/2010 um mannvirki er að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt, sbr. a-lið 1. gr. laganna. Jafnframt er það markmið þeirra að tryggja aðgengi fyrir alla, sbr. e-lið sömu lagagreinar. Í því skyni mæla lögin fyrir um lögbundið eftirlit byggingarfulltrúa með mannvirkjagerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. þeirra laga, en hluti af því eftirliti felur í sér framkvæmd lokaúttektar og útgáfu vottorðs. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá er mælt fyrir um í 4. mgr. lagagreinarinnar að ef mannvirkið uppfylli ekki að öllu leyti ákvæði laganna og reglugerða sem sett hafi verið samkvæmt þeim þá geti útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um lokaúttektina með athugasemdum. Þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar. Segir jafnframt í 5. mgr. sömu lagagreinar að eftirlitsaðili geti fyrirskipað lokun mannvirkis komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr, en lokaúttektarvottorð skuli þá ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert.
—–
Ágreiningsefni málsins hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar eins og rakið er í málavöxtum. Í máli þessu færir kærandi fram ýmis rök og sjónarmið sem hann hefur áður fært fram fyrir úrskurðarnefndina vegna atriða sem hann telur að uppfylli ekki skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, s.s. um sjálfvirkan opnunarbúnað hurða, halla skábrautar, loftræsingu á stigagangi, sorpskýli, tæknirými og lýsingu á gönguleiðum. Úrskurðarnefndin hefur í fyrri málum tekið þá afstöðu til þeirra álitaefna að þau raski ekki gildi umdeilds úttektarvottorðs og þykja ekki rök til þess að breyta þeirri afstöðu.
—–
Í 6. kafla byggingarreglugerðar er fjallað um aðkomu, umferðarleiðir og innri rými mannvirkja. Í markmiðsákvæði gr. 6.1.1. segir að ávallt skuli leitast við að beita algildri hönnun þannig að byggingar og lóðir þeirra séu aðgengilegar öllum án sérstakrar aðstoðar, sbr. 4. mgr. Samkvæmt 1. mgr. gr. 6.1.2. skal með algildri hönnun tryggt að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun bygginga á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og að það geti með öruggum hætti komist inn og út úr byggingum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, t.d. í eldsvoða.
Í gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð er fjallað um aðkomuleiðir og umferðarsvæði innan lóðar. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal aðkoma á lóð að byggingu vera skýrt afmörkuð og þannig staðsett að hún sé greiðfær og greinileg þeim sem að henni koma og henti fyrirhugaðri umferð. Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að almennt skuli gæta þess að ekki séu þrep í gönguleiðum að inngangi bygginga. Hæðarmun skuli jafna þannig að allir þeir sem ætla megi að fari að inngangi byggingar komist auðveldlega um. Fyrir liggur í máli þessu að eitt þrep er á upphitaðri gönguleið frá inngangsdyrum fjölbýlihússins að Tangabryggju 13–15 að sorpgeymslu, bílgeymslu og bílastæðum, en hins vegar er ekkert þrep á óupphitaðri gönguleið. Með hliðsjón af því verður að líta svo á að leiðin sé ekki greiðfær hjólastólanotendum og öðru hreyfihömluðu fólki í þeim aðstæðum þegar nota þarf hina upphituðu gönguleið. Að því virtu verður að telja að skilyrði greinds reglugerðarákvæðis sé ekki uppfyllt.
Samkvæmt 1. mgr. gr. 6.5.1. í byggingarreglugerð skal handrið vera á öllum svölum bygginga, stigum, tröppum, pöllum, skábrautum og annars staðar þar sem hætta er á falli. Verður að túlka ákvæðið á þá leið að sú krafa sé gerð að á tilteknu stöðum skuli vera handrið, þ. á m. á skábrautum, en að á öðrum stöðum beri við mat á því hvort koma eigi handriði fyrir að líta til þess hvort fallhætta sé til staðar. Í samræmi við þá túlkun verður að líta svo á að handrið eigi að vera til staðar á gangbraut skábrautar sem liggur frá bílgeymslu hússins. Aftur á móti verður ekki talið að handrið skuli vera meðfram gönguleið frá inngangsdyrum fjölbýlishússins að bílastæðum utanhúss þar sem ekki verður séð að sérstök fallhætta sé þar fyrir hendi.
—–
Fjallað er um varnir gegn eldsvoða í 9. kafla byggingarreglugerðar. Í undirkafla 9.5 er síðan fjallað um rýmingu við eldsvoða. Í markmiðsákvæði gr. 9.5.1. segir að flóttaleiðir í byggingum skuli þannig skipulagðar og frágengnar að allir geti bjargast út af eigin rammleik eða fyrir tilstilli annarra á tilgreindum flóttatíma, brjótist eldur út eða annað hættuástand skapast. Samkvæmt 2. mgr. gr. 9.5.2. skulu flóttaleiðir vera „einfaldar, auðrataðar og greiðfærar svo að fólk verði ekki innlyksa í skotum og endum ganga.“ Í 8. mgr. sömu greinar er kveðið á um að við ákvörðun flóttaleiða skuli tekið tillit til krafna um algilda hönnun. Þá er í gr. 9.5.3. fjallað um aðgengi að flóttaleiðum og samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. gildir eftirfarandi meginregla:
Úr öllum íbúðum og notkunareiningum skulu vera a.m.k. tvær flóttaleiðir, sem eru óháðar hvor annarri, til öruggs staðar undir beru lofti á jörðu niðri, sbr. þó 9.5.4. gr. Heimilt er að slíkur öruggur staður sé einnig á sérútbúnum svölum eða þaki byggingar sem er aðgengilegt björgunarliði, enda sé slík aðstaða sérstaklega brunahönnuð til slíkra nota. Með óháðum flóttaleiðum er átt við tvær eða fleiri flóttaleiðir sem eru þannig aðskildar að eldur og reykur geti ekki teppt þær báðar/allar þ.e. svalir og sjálfstætt stigahús eða tvö sjálfstæð stigahús sem gengið er í beint úr hverri íbúð.
Í gr. 9.5.4. í byggingarreglugerð er að finna undantekningu frá kröfu gr. 9.5.3. um tvær flótta-leiðir frá íbúðum og notkunareiningum. Hinn 9. október 2020 var með reglugerð nr. 977/2020 gerð breyting á ákvæðinu, en í ljósi þess að aðaluppdrættir fjölbýlishússins voru fyrst samþykktir árið 2017 verður við úrlausn þessa máls litið til orðalags hennar fyrir þá breytingu. Svohljóðandi var 1. mgr. ákvæðisins:
Ef sérstökum erfiðleikum er háð að uppfylla kröfur 1. tölul. 1. mgr. 9.5.3. gr. um tvær flóttaleiðir frá rými, getur leyfisveitandi í undantekningartilvikum heimilað, að fenginni jákvæðri umsögn slökkviliðs, að ein flóttaleið sé frá rými eða notkunareiningu í notkunarflokki 1 og 2 þegar slíkt hefur ekki í för með sér sérstaka hættu og um er að ræða lítið rými sem ætlað er fyrir takmarkaðan fjölda fólks. Flóttaleiðin skal liggja beint út á öruggan stað undir beru lofti á jörðu niðri eða að gangi sem er sjálfstætt brunahólf og liggur í gagnstæðar áttir að tveimur óháðum útgöngum.
Fjallað er um notkunarflokka mannvirkja í gr. 9.1.3. í byggingarreglugerð og samkvæmt því ákvæði tilheyra sameiginlegar bílgeymslur fjölbýlishúsa notkunarflokki 1.
Af aðaluppdráttum fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 verður ráðið að tvær flóttaleiðir séu úr bílgeymslu hússins og leiða þær báðar að öruggum stað undir beru lofti á jörðu niðri. Ekki verður talið að skortur á snúningsrými fyrir framan dyr geri hjólastólanotendum ókleift að nota leiðirnar. Verður ekki annað séð en að skilyrði gr. 9.5.3. í byggingarreglugerð um flóttaleiðir úr bílgeymslu séu uppfyllt. Frá vagna- og hjólageymslu má finna tvær flóttaleiðir til sjálfstæðra brunahólfa sem liggja í gagnstæðar áttir að tveimur óháðum útgöngum. Eru því uppfyllt skilyrði undantekningarheimildar gr. 9.5.4. vegna flóttaleiða frá vagna- og hjólageymslu. Þá verður að öðru leyti ekki ráðið að brunahönnun fjölbýlishússins sé áfátt að teknu tilliti til þeirra krafna sem gerðar eru í byggingarreglugerð.
—–
Í máli þessu gerir kærandi athugasemd við að skilyrði gr. 10.7.1. í byggingarreglugerð, þess efnis að byggingar séu þannig frágengnar að meindýr komist ekki inn í bygginguna, sé ekki uppfyllt þar sem músagangur hafi verið viðvarandi á svölum fjölbýlishússins frá því fyrstu íbúar hafi flutt inn í það árið 2019. Einnig gerir hann athugasemd við myglu og múrbrot í bílgeymslu og hvað það varðar er vísað til gr. 6.3.2. um hjúp bygginga og gr. 6.11.5. um álagsþol bílgeymsla. Þá telur kærandi að útidyr fjölbýlihússins uppfylli ekki skilyrði gr. 6.3.1. og 6.3.2. um ytra form og hjúp mannvirkja þar sem báðar útidyrnar standist ekki veðurálag og leki. Í máli þessu liggja fyrir samskipti aðila málsins varðandi framangreind atriði, en af þeim verður ráðið að ágreiningur sé á milli þeirra um hvort annmarkarnir eigi rætur sínar að rekja til hönnunar og frágangs mannvirkisins þegar það var reist eða síðar tilkominna atvika. Að teknu tilliti til gagna málsins og með hliðsjón af því að meira en fjögur ár eru liðin frá því að fjölbýlishúsið var reist og tekið í notkun telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að gera athugasemd við þá niðurstöðu byggingarfulltrúa að gefa út lokaúttektarvottorð án athugasemda um greind atriði.
—–
Í enduruppteknu máli nr. 134/2020, þar sem felld var úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa frá 21. október 2020 um að gefa út vottorð um lokaúttekt, var rakið að í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 54/2019 hafi byggingaraðili mælt átak á hurðum í kjallara hússins og lagfært stillingar á hurðapumpum svo skilyrði 4. mgr. gr. 6.4.3. í byggingarreglugerð væru uppfyllt. Gerði úrskurðarnefndin athugasemd við að byggingarfulltrúa hafi ekki á grundvelli rannsóknarskyldu sinnar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, tekið sjálfur til nánari skoðunar hvort „fyrrgreindar breytingar hefðu leitt til þess að umræddar hurðir uppfylltu þar með ekki þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt byggingarreglugerð til slíkra hurða vegna brunavarna.“ Í máli þessu hefur byggingaraðili lagt fram niðurstöður mælinga á hurðapumpum í kjallara fjölbýlishússins sem gerðar voru 18. apríl 2023 og mun byggingarfulltrúi hafa verið viðstaddur þá mælingu, en niðurstöður þeirra voru þær að hurðirnar uppfylltu skilyrði nefndrar gr. 6.4.3. Að teknu tilliti til þess verður að leggja til grundvallar að byggingarfulltrúa hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína við mat á því hvort skilyrði byggingarreglugerðar um brunavarnir að þessu leyti væru uppfylltar.
Meirihluti úrskurðarnefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 komst að þeirri niðurstöðu að skilyrði 9. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð fyrir fækkun bílastæða á lóð fyrir hreyfihamlaða á lóðinni að Tangabryggju 13–15 hefði ekki verið uppfyllt við úttekt mannvirkisins í október 2020. Byggðist sú niðurstaða á því að gestkomandi hefði ekki aðgang að bílastæðum fyrir hreyfihamlaða sem staðsett eru í sameiginlegri bílgeymslu fjölbýlihússins. Við mat á því hverju það varði verður ekki hjá því litið að til þess að uppfylla greint skilyrði þarf að koma þremur öðrum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð fjölbýlishússins, en í málinu liggur fyrir sú afstaða Reykjavíkurborgar að ekkert svigrúm sé í borgarlandi til að koma fyrir frekari bílastæðum hreyfihamlaða. Þá verður það ekki talið raunhæf lausn að opna sameiginlegu bílgeymslu fyrir almenning þegar litið er til þess að þau bílastæði hreyfihamlaðra sem þar má finna eru þinglýst eign tiltekinna íbúa hússins, en þar að auki er það hvorki á forræði byggingaraðila né borgaryfirvalda að koma slíkri opnun í kring. Eins og atvikum í máli þessu er háttað verður því að líta svo á að greindur annmarki hafi ekki áhrif á gildi hins kærða lokaúttektarvottorðs.
Þá var það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 að útsog úr eldhúsum íbúða fjölbýlishússins væri dregið í gegnum önnur rými, en í þeim væri ekki að finna sérstakt útsog. Taldi nefndin það fyrirkomulag vera í andstöðu við meginreglu 1. töluliðar 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Einnig komst nefndin að þeirri niðurstöðu að svefnherbergi í fjölbýlihússinu uppfylltu ekki skilyrði meginreglu 3. töluliðar 1. mgr. gr. 10.2.5. um að magn fersklofts sem berist til svefnherbergis skuli aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling meðan herbergið sé í notkun. Byggðust þær niðurstöður á áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 1. nóvember 2021. Ekki hafa verið gerðar neinar breytingar á fyrirkomulagi loftræsingar í húsinu í kjölfar úrskurðarins, en aftur á móti hefur byggingaraðili lagt fram og fengið samþykkta hjá byggingarfulltrúa nýja aðaluppdrætti með breyttri lýsingu á loftræsingu mannvirkisins.
Eins og fram hefur komið taldi úrskurðarnefndin við meðferð þessa kærumáls tilefni til að leita á ný til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna umrædds álitaefnis. Skilaði stofnunin umbeðnu áliti sínu 7. nóvember 2023. Í því kom fram sú skoðun stofnunarinnar að loft frá eldhúsum íbúða fjölbýlishússins væri dregið í gegnum önnur rými í skilningi meginreglu 1. tölul. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Vélrænt útsog væri æskilegt en ekki nauðsynlegt til að tryggja viðunandi loftgæði og tryggja að loft frá eldhúsum dragist ekki í gegnum önnur rými íbúða. Ef ekki væri vélrænt útsog þyrfti að tryggja að náttúrulegt útsog fari upp fyrir efstu klæðningu þaks. Þá var það einnig skoðun stofnunarinnar að „loftmagn til svefnherbergja [væri] ekki uppfyllt, m.t.t. 7 l/s á hvern einstakling, án þess að fara yfir 89 mm opnunarkröfu gefna í gr. 12.2.3. í byggingarreglugerð.“
Að teknu tilliti til þess hlutverks sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gegnir þegar kemur að byggingareftirliti, sbr. 5., 17. og 18. gr. laga nr. 160/2010, svo og þar sem ekki liggja fyrir neinir bersýnilegir annmarkar á fyrirliggjandi áliti stofnunarinnar, telur úrskurðarnefndin rétt að leggja álitið til grundvallar við úrlausn málsins. Verður því litið svo á að útsog úr eldhúshúsum íbúða fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 sé dregið í gegnum önnur rými en það fyrirkomulag gengur gegn meginreglu 1. töluliðar 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Þá verður einnig að líta svo á að ekki sé uppfyllt meginregla 3. tölul. 1. mgr. gr. 10.2.5. um að magn fersklofts sem berist til svefnherbergis skuli aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling á meðan herbergið sé í notkun.
—–
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið voru nokkrir annmarkar á frágangi umræddrar fasteignar við lokaúttekt hennar, en vottorð um þá úttekt var þó gefið út án athugasemda. Við mat á því hverju það varði ber að líta til þess að skv. 1. málslið 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 getur útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um lokaúttekt með athugasemdum ef mannvirki er ekki fullgert við lokaúttekt, það uppfyllir ekki að öllu leyti ákvæði nefndra laga eða reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim eða er ekki að öllu leyti í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Hins vegar er sérstaklega tekið fram í 2. málslið 4. mgr. að þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar. Þá segir í 5. mgr. sömu lagagreinar að komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur geti eftirlitsaðili fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr og skal þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hefur verið gert. Af því leiðir að einvörðungu kemur til álita að gefa út vottorð um lokaúttekt án athugasemda ef mannvirki uppfyllir að öllu leyti kröfur byggingarreglugerðar, en því var ekki til að dreifa í ljósi framangreinds við lokaúttekt Tangabryggju 13–15. Við mat á þýðingu fyrrgreindra annmarka verður og að hafa í huga að þeir varða aðgengi og öryggis- eða hollustukröfur, sbr. 4. og 5. mgr. nefndrar 36. gr. laga um mannvirki, en samkvæmt kafla 5.3. í viðauka II með byggingarreglugerð, sem fjallar um flokkun athugasemda vegna lokaúttekta og réttaráhrif, leiða slíkir annmarkar að jafnaði til synjunar úttektar og kröfu um að hún verði endurtekin.
Með hliðsjón af framangreindu verður ekki hjá því komist að fella hið kærða lokaúttektarvottorð úr gildi.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. apríl 2023 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15.