Árið 2023, fimmtudaginn 19. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild. í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 104/2023, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Austurlands frá 20. júlí 2023 um að hafna kröfu kærenda um beitingu þvingunarúrræða vegna hávaða frá atvinnustarfsemi að Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2023, er barst nefndinni 24. s.m, kæra íbúar Bústaðavegar 24, Fáskrúðsfirði, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Austurlands frá 20. júlí 2023 um að hafna kröfu kærenda um beitingu þvingunarúrræða vegna hávaða frá atvinnustarfsemi að Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands 18. september 2023.
Málavextir: Kærendur í máli þessu og Loðnuvinnslan hf. hafa um nokkurt skeið deilt um hávaða sem berst frá fiskvinnslustöð síðarnefnda aðilans. Hefur mál vegna þessa borist úrskurðarnefndinni áður, sbr. úrskurður nefndarinnar frá 11. febrúar 2022 í máli nr. 138/2021.
Á fundi Heilbrigðisnefndar Austurlands 19. janúar 2023 var bókað að hávaði mældist yfir viðmiðunarmörkum að næturlagi og var óskað eftir tímasettri úrbótaáætlun frá Loðnuvinnslunni. Framkvæmdaráð Heilbrigðiseftirlits Austurlands samþykkti þá áætlun 10. febrúar s.á. og var sú afgreiðsla staðfest á fundi heilbrigðisnefndar 16. mars s.á.
Með bréfi kærenda til Heilbrigðiseftirlits Austurlands, dags. 5. júlí s.á., var farið fram á að eftirlitið gripi strax til aðgerða gegn ólögmætri hávaðamengun sem hlytist af starfsemi Loðnuvinnslunnar við Hafnargötu 32-36. Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins svaraði kærendum með bréfi, dags. 20. s.m., þar sem fram kom að unnið væri eftir samþykktri úrbótaáætlun og því væru ekki forsendur til að grípa til frekari aðgerða að svo stöddu. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að Heilbrigðiseftirlit Austurslands beri jákvæðar skyldur við að tryggja að aðilar sem gerist brotlegir við reglugerð nr. 724/2008 um hávaða verði að lúta skilvirku eftirliti og þurfa að þola íþyngjandi aðgerðir af hálfu stjórnvalda sem sinna lögbundnum eftirlitsskyldum á því sviði. Synjun stjórnvalda um að grípa til aðgerða þegar aðstæður gefi tilefni til teljist því stjórnvaldsákvörðun.
Hljóðmengun hafi viðgengist í meira en sjö ár og hafi yfirvöld ekki aðhafst í málinu. Kærendur hafi átt í skriflegum samskiptum við Heilbrigðiseftirlit Austurslands frá því í janúar 2022. Kærendur telji ljóst að fyrirhuguð framkvæmd við hljóðmön muni ekki draga úr hávaða á fullnægjandi hátt þegar tekið sé tillit til hljóðtoppa sem mælingar sveitarfélagsins sýni. Heilbrigðiseftirlitið hafi lengi vitað af óviðunandi hávaða en hafi ekki beitt þvingunarúrræðum.
Málsrök Heilbrigðiseftirlits Austurlands: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Austurlands er farið fram á frávísun málsins. Samkvæmt 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir séu stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna, reglugerða og heilbrigðissamþykkta kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hið kærða svar stofnunarinnar frá 20. júlí 2023 hafi ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun. Kærendur hafi verið upplýstir um málsmeðferð heilbrigðiseftirlitsins, sem hafi falið í sér samþykkt úrbótaáætlunar og að byggt hafi verið á því að þeirri áætlun yrði framfylgt, þrátt fyrir að tafir hefðu orðið þar á. Þá hafi kærendur verið upplýstir um fyrirhugaðar rannsóknir á hljóðvist við fasteign kærenda. Í þessu hafi ekki falist stjórnvaldsákvörðun heldur upplýsingagjöf, eða í mesta lagi ákvörðun um málsmeðferð, þ.e. ákvörðun um að ráðast ekki í frekari málsmeðferð á þessum tímapunkti.
Athugasemdir Loðnuvinnslunnar hf: Af hálfu leyfishafa er bent á að skv. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir fari kærufrestur eftir lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé mælt fyrir um að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.
Úrbótaáætlun leyfishafa hafi verið samþykkt af framkvæmdaráði Heilbrigðiseftirlits Austurlands 10. febrúar 2023. Sú stjórnvaldsákvörðun hafi síðar verið staðfest á 172. fundi Heilbrigðisnefndar Austurlands 16. mars 2023. Ljóst sé að kærendur hafi ekki látið sig umrædda stjórnvaldsákvörðun varða og ekki kært hana til úrskurðarnefndarinnar. Verði því að líta svo á að kærendur hafi fellt sig við úrbótaáætlunina. Kærufrestur vegna samþykktar áætlunarinnar sé löngu liðinn. Það að kærendur hafi síðar skrifað heilbrigðiseftirlitinu bréf, dags. 5. júlí 2023, sem hafi verið svarað 20. s.m., þar sem kærendur hafi verið upplýstir um að unnið væri eftir úrbótaáætluninni breyti engu í þessu sambandi og feli ekki í sér nýja stjórnvaldsákvörðun. Beri því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.
Þá sé bent á að kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af kröfum sínum skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, m.a. þar sem vinnslutímabili leyfishafa sé nú lokið árið 2023 og muni vinnsla ekki hefjast að nýju fyrr en í byrjun árs 2024. Séu því engar forsendur fyrir kröfum kærenda í málinu.
———-
Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Í bréfi kærenda til Heilbrigðiseftirlits Austurlands, dags. 5. júlí 2023, er gerð krafa um að gripið verði „strax til aðgerða gegn ólögmætri hávaðamengun sem hlýst af starfsemi [leyfishafa] við Hafnargötu […]. Loðnuvertíð er hafin og nauðsynlegt að [heilbrigðiseftirlitið] bregðist strax við og fullnýti allar heimildir sínar vegna þessa máls“. Er síðar í bréfinu vísað almennt til laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og sérstaklega til 12. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða, en sú grein fjallar um þvingunarúrræði. Verður því litið svo á að með bréfi kærenda hafi verið farið fram á beitingu þvingunarúrræða skv. lögum nr. 7/1998 og reglugerð nr. 724/2008. Bréfi kærenda var svarað með bréfi, dags. 20. s.m., sem var undirritað af framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Austurlands.
Fjallað er um valdsvið og þvingunarúrræði í XVII. kafla laga nr. 7/1998. Í kaflanum eru heimildir til beitingar þvingunarúrræða bundnar við heilbrigðisnefndir eða Umhverfisstofnun. Samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 724/2008 fer heilbrigðisnefnd með beitingu þvingunarúrræða.
Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga nr. 7/1998 getur heilbrigðisnefnd falið framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits eða tilteknum heilbrigðisfulltrúa afgreiðslu einstakra mála í tilteknum málaflokkum sem undir heilbrigðisnefnd heyra og henni er ætlað að sinna samkvæmt lögum og reglugerðum. Heimilt er að kveða á um slíkt framsal heilbrigðisnefndar eftir atvikum í samstarfssamningi, í samþykktum um heilbrigðiseftirlit á hverju eftirlitssvæði eða í sérstakri samþykkt sem heilbrigðisnefnd samþykkir og birt er í B-deild Stjórnartíðinda.
Hinn 7. mars 2022 birtist auglýsing nr. 272/2022 í B-deild Stjórnartíðinda um staðfestingu stofnsamnings fyrir byggðasamlagið Heilbrigðiseftirlit Austurlands bs. Í auglýsingunni kom fram að byggðasamlagið væri stofnað skv. 94. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og að tilgangur þess væri að annast lögbundin hlutverk heilbrigðisnefndar í samræmi við lög nr. 7/1998. Í 12. gr. stofnsamningsins segir að framkvæmdastjóri byggðasamlagsins skuli sitja stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt. Þá segir í 13. gr. að hann skuli framfylgja ákvörðunum sem teknar eru á fundum stjórnar. Í sömu grein er fjallað um framsal valds til ákvörðunartöku til framkvæmdastjórans. Þar er engin heimild sem varðar ákvarðanir um beitingu þvingunarúrræða. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að Heilbrigðisnefnd Austurlands, þ.e. stjórn Heilbrigðiseftirlits Austurlands bs. skv. 1. mgr. 3. gr. stofnsamningsins, hafi tekið ákvörðun um synjun um beitingu þvingunarúrræða, sem framkvæmdastjóra væri falið að framfylgja.
Samkvæmt framangreindu er ekki til að dreifa í máli þessu gildri ákvörðun sem bindur enda á mál, sbr. 1. og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður máli þessu vísað frá nefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.