Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

22/2023 Stöðuleyfi

Árið 2023, fimmtudaginn 11. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Múlaþings frá 10. janúar 2023 um að synja umsókn um framlengingu á stöðuleyfi fyrir listaverkið Stýrishús – Brú á svæði til hliðar við lóðina Austurveg 17b á Seyðisfirði.

 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. febrúar 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi þá ákvörðun byggingarfulltrúa Múlaþings frá 10. janúar 2023 að synja umsókn um framlengingu á stöðuleyfi fyrir listaverkið Stýrishús – Brú. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá gerir kærandi kröfu um að henni verði gefið tækifæri á að kynna mál sitt fyrir heimastjórn Seyðis­fjarðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Múlaþingi 14. febrúar 2023.

Málavextir: Kærandi fékk útgefið stöðuleyfi fyrir listaverkið Stýrishús – Brú hinn 10. júlí 2020. Leyfið var framlengt um eitt ár eða til 3. september 2022. Með tölvupósti 2. maí 2022 sótti kærandi um að leyfið yrði framlengt út september 2023. Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi heimastjórnar Seyðisfjarðar 23. júní 2022 þar sem umsókninni var hafnað. Synjaði byggingar­fulltrúi umbeðinni framlengingu stöðuleyfis og tilkynnti umsækjanda með bréfi, dags. 24. s.m. Ákvörðun byggingar­fulltrúa var kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 22. júlí s.á. Með bréfi, dags. 12. september s.á., afturkallaði byggingarfulltrúi synjun á framlengingu stöðuleyfisins og í kjölfarið afturkallaði kærandi kæru sína til úrskurðar­nefndarinnar.

Með bréfi, dags. 10. janúar 2023, synjaði byggingarfulltrúi beiðni um framlengingu stöðu­leyfisins að nýju með vísan til minnisblaðs framkvæmda- og umhverfismálastjóra Múlaþings þar sem fram kom að sveitarfélagið, sem landeigandi, myndi ekki veita áfram­haldandi stöðu­leyfi verksins á umræddum stað.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að synjun um framlengingu stöðuleyfisins hafi ekki verið rökstudd. Höfnun heimastjórnarinnar og byggingarfulltrúa sé byggð á þeim rökum að listaverkið sé staðsett í íbúðarbyggð og að í listaverkinu sé fyrirhugað að vera með veitingar og við­­burði sem samræmist ekki þeirri staðsetningu. Þau rök séu haldlaus og röng þar sem á því svæði sem listaverkið sé staðsett séu í næstu húsum verslanir, atvinnufyrirtæki í útleigu kajaka, vinnu­stofur listamanna og sýningarrými. Allt í kringum Lónið á Seyðisfirði sé lifandi starfsemi og listaverkið eigi ekki á neinn hátt að skera sig úr eða valda ónæði umfram aðra starfsemi þar. Þá megi benda á að þær auðu lóðir sem standi því nærri séu til úthlutunar atvinnustarfsemi s.s. sam­vinnu­húsnæði og húsnæði Tækniminjasafns Austurlands.

Ekki hafi verið gætt jafnræðis við ákvörðun heimastjórnar né viðhöfð vönduð vinnubrögð líkt og sjá megi af fundargerð nefndarinnar frá 23. júní 2022. Þar hafi erindið verið tekið til umfjöllunar en umsækjanda hafi ekki verið gert kunnugt um fundinn eða tímasetningu hans né boðið að kynna mál sitt eins og öðrum höfundum innsendra erinda. Þar sem umsækjandi hafi ekki íslenskan bakgrunn hafi þurft að gæta sérstaklega að því að upplýsa um réttindi og ferla í stjórnsýslunni.

Draga megi hlutleysi starfsmanns nefndarinnar í efa þar sem hann hafi persónulegar skoðanir á listaverkinu og hafi meðal annars viðrað þær í tölvupósti sem ekki hafi átt að berast til umsækjanda. Starfsmaðurinn sé búsettur á Seyðisfirði en formaður nefndarinnar sé nýkjörinn sveitarstjórnarmaður sem sé búsettur á Egilsstöðum og því líklegt að ákveðið traust sé sett á upplýsingar sem berist frá starfsmanni til heimastjórnarmanna. Þá sé [byggingarfulltrúi] tengdur fjölskylduböndum einum af þeim sem kvartað hafi yfir verkinu. Meirihluti nágranna sé sáttur við listaverkið og styðji framlengingu leyfisins.

 Málsrök Múlaþings: Bent er á að um sé að ræða stýrishús af báti sem flutt hafi verið á lóð við Austurveg 17b á Seyðisfirði og sé notað meðal annars sem veitingarsala. Byggingarfulltrúi hafi metið að um svokallað torgsöluhús væri að ræða og því væri um stöðuleyfisskyldan hlut að ræða í skilningi gr. 2.6.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Synjun á stöðuleyfi hafi byggt á því að leyfi landeiganda hafi ekki legið fyrir, en það sé eitt af ófrávíkjanlegum skilyrðum þess að hægt sé að veita stöðuleyfi, sbr. 2. mgr. gr. 2.6.1. byggingarreglugerðar. Fyrir hafi legið bréf frá landeiganda, sem sé sveitarfélagið Múlaþing, þar sem fram hafi komið að ekki yrði veitt leyfi fyrir stýrishúsinu á þessum stað. Sveitarfélagið sé hins vegar tilbúið að skoða þann mögu­leika með kæranda að setja listaverkið upp á Ferjuleiru, sem sé skilgreint svæði fyrir upp­setningu listaverka.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreining­smálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa um synjun á framlengingu stöðuleyfis til endurskoðunar en tekur ekki afstöðu til kröfu kæranda um að fá að kynna mál sitt fyrir heimastjórn Seyðisfjarðar.

 Í 9. tl. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er tekið fram að í reglugerð skuli setja ákvæði um skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa fyrir gáma, báta, torgsöluhús, stór samkomutjöld og þess háttar sem ætlað sé að standa utan skipulagðra svæða fyrir slíka hluti í lengri tíma en tvo mánuði. Í reglugerð skuli kveða á um atriði sem varði öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingarfulltrúa til að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir ef ekki séu uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar.

Fjallað er um stöðuleyfi í kafla 2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Um veitingu stöðuleyfis segir í gr. 2.6.1. að ef lausafjármunum sem upptaldir séu í ákvæðinu sé ætlað að standa í lengri tíma en tvo mánuði utan svæða þar sem sérstaklega sé gert ráð fyrir geymslu þeirra skuli sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda. Umsókn um stöðuleyfi á að vera skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðarmanni viðkomandi hlutar og á henni að fylgja samþykki eiganda eða lóðar­­hafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað er að lausafjármunirnir standi á. Þá skal í umsókn gera grein fyrir tilgangi og lengd stöðuleyfis og henni eiga að fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauð­synleg eru til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausa­fjármunanna. Stöðuleyfi skulu mest veitt til 12 mánaða nema ákvæði skipulags mæli fyrir um annað.

Samkvæmt minnisblaði framkvæmda- og umhverfismálastjóra sveitarfélagsins stendur hið umrædda listaverk á óbyggðu svæði við hlið lóðar nr. 17b við Austurveg á Seyðisfirði. Þá kemur fram að sveitarfélaginu hafi á fyrra leyfistímabili borist athugasemdir frá íbúum vegna stað­setningar verksins auk þess sem það standi utan lóðamarka og að þar sé ekki gert ráð fyrir tengingum við veitulagnir. Í ljósi þessa hafi sveitarfélagið ákveðið, sem landeigandi, að veita ekki leyfi fyrir áframhaldandi stöðuleyfi verksins á þessum stað.

Byggingarfulltrúi Múlaþings fer með vald til að taka ákvörðun um útgáfu stöðuleyfis í hverju tilviki eða eftir atvikum að synja um slíkt leyfi. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun lá fyrir að sveitarfélagið, sem landeigandi, samþykkti ekki staðsetningu listaverksins á þeim stað sem það hefur hingað til verið og óskað var framlengingar stöðuleyfis fyrir. Í ljósi þessa var skilyrði 2. mgr. gr. 2.6.1. byggingarreglugerðar um samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað sé að lausafjármunir standi á ekki uppfyllt og byggingarfulltrúa því ekki heimilt að veita kæranda framlengingu á hinu umdeilda stöðuleyfi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Múlaþings frá 10. janúar 2023 að synja umsókn um framlengingu á stöðuleyfi fyrir listaverkið Stýrishús – Brú til hliðar við Austurveg 17b á Seyðisfirði.