Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/2023 Laufásvegur

Árið 2023, föstudaginn 5. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2023, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023 um að samþykkja byggingarleyfisumsóknir til að innrétta búsetuúrræði í annars vegar matshlutum 02 og 03 í húsi á lóð nr. 19 við Laufásveg og hins vegar í íbúðar- og skrifstofuhúsi á lóð nr. 21–23 við sömu götu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 23. febrúar 2023, kærir eigandi, Laufásvegi 22, þær ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023 að samþykkja byggingarleyfisumsóknir til að innrétta búsetu-úrræði í annars vegar matshlutum 02 og 03 í húsi á lóð nr. 19 við Laufásveg og hins vegar í íbúðar- og skrifstofuhúsi á lóð nr. 21–23 við sömu götu. Verður að skilja málatilbúnað kæranda sem svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Með tveimur kærum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er bárust nefndinni 26. febrúar 2023, kæra eigendur, Laufásvegi 19, sömu ákvarðanir með kröfu um ógildingu þeirra. Verða þau mál, sem eru nr. 30 og 31/2023, sameinuð kærumáli þessu þar sem um sömu ákvarðanir er að ræða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Í kærum íbúa að Laufásvegi 19 var þess jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeim kröfum var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 31. mars 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 31. mars 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. desember 2022 tók byggingarfulltrúi fyrir umsókn Mannverks ehf. um leyfi til að innrétta búsetuúrræði í matshlutum 02 og 03 í húsi á lóð nr. 19 við Laufásveg. Þá tók byggingarfulltrúi á sama fundi fyrir umsókn sama félags um leyfi til að innrétta búsetuúrræði í íbúðar- og skrifstofuhúsi á lóð nr. 21–23 við Laufásveg. Vísaði byggingarfulltrúi báðum málum til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndar-kynningu. Skipulagsfulltrúi samþykkti á fundi sínum 15. s.m. að grenndarkynna umsóknirnar fyrir hagsmunaaðilum að Laufásvegi 14, 17, 18, 18a, 19, 20, 22 og 25, Skálholtsstíg 6 og Þingholtsstræti 30 og 34. Umsóknirnar voru grenndarkynntar sameiginlega 29. desember 2022 með athugasemdafresti til 30. janúar 2023. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 22. febrúar s.á. var grenndarkynningin samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 16. s.m. og a-liðar 1. gr. í viðauka 1.1. við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgar-stjórnar. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. mars s.á. voru byggingar­leyfisumsóknirnar samþykktar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að íbúar hafi við grenndarkynningu byggingarleyfis­umsóknanna fært ítarleg rök fyrir því að fyrirhuguð búsetuúrræði væru ekki í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 þar sem skammtímagisting sé einungis heimil við aðalgötu, en Laufásvegur sé íbúðargata en ekki aðalgata. Í minnisblaði skipulagsfulltrúa, dags. 16. febrúar 2023, sé því beinlínis haldið fram að í grenndarkynntri byggingarlýsingu hafi e.t.v. verið „villandi“ að tala um „búsetu­úrræði“. Trúlega sé um að ræða tilraun til að sneiða hjá skýrum ákvæðum aðalskipulagsins um að búsetuúrræði, þar sem krafist sé gæslu allan sólarhringsins og/eða umfang starfsemi sé umtals­vert, sé háð gerð deiliskipulags. Fyrir liggi að gæsla verði til staðar allan sólarhringinn fyrir búsetuúrræðið og að umfang starfseminnar verði umtalsvert, en gert sé ráð fyrir 80 íbúum í 40 svefnrýmum í samtals þremur íbúðum.

Tvær af íbúðunum séu mjög fjarri því að geta boðið upp á aðstöðu sem dugi þeim fjölda sem þar eigi að dvelja á hverjum tíma og margir íbúa muni þurfa að fara langan veg milli íbúða til að nýta aðstöðu. Vakin sé athygli á ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um kröfu til rýma íbúða. Þá sé bent á að í kynningarbréfi til íbúa komi fram að fyrirhugaður rekstur verði tímabundinn til tveggja ára, en þrátt fyrir það sé ekki kveðið á um tímalengd rekstursins í samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs eða byggingarlýsingu. Gera verði kröfu um að slíkt ákvæði sé hluti lögmætrar samþykktar.

Bent sé á að baklóð Laufásvegar 19 hafi verið seld til sendiráðs Bandaríkjanna árið 1996 án vitundar íbúðareigenda á lóðinni, en þeir hafi borgað opinber gjöld af lóðinni og fasteigninni alla tíð síðan. Við hafi tekið aldarfjórðungslöng deila við borgaryfirvöld og sendiráðið. Þegar sendiráðið hafi flutt af Laufásveginum árið 2020 hafi því verið sent bréf þar sem bent hafi verið á að við söluna á húsnæðinu ætti að koma fram að eignarhlutdeildin að baklóðinni væri umdeild, auk þess sem fasteignasalan sem séð hafi um söluna hafi fengið afrit af bréfinu. Leyfishafa eigi því að vera fullkunnugt um að ýmsum spurningum sé enn ósvarað um eigna­stöðu baklóðarinnar. Íbúðareigendur Laufásvegar 19 hafi hvorki samþykkt framkvæmdirnar við bílskúrana né gefið leyfi fyrir búsetu þar. Séu framkvæmdirnar því ólögmætar.

Ef af framkvæmdunum verði þá muni íbúafjöldi að Laufásvegi 19, 21 og 23 verða alltof mikill. Gríðarlegt ónæði muni fylgja auknum fjölda íbúa auk þess sem það muni skerða möguleika kærenda á að selja íbúðir sínar.

Málsrök Reykjavíkurborg: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að hin kærðu byggingaráform feli í sér breytta notkun, þ.e. atvinnuhúsnæði hafi verið breytt í íbúðarhúsnæði, en ekkert deiliskipulag sé í gildi á svæðinu. Um sé að ræða íbúðarhúsnæði sem verði tímabundinn dvalarstaður umsækjenda á meðan þeir bíði úrlausnar á umsóknum sínum hjá íslenskum stjórn­völdum um alþjóðlega vernd hér á landi. Byggingarleyfisumsóknin hafi verið grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi málsmeðferðin verið í samræmi við máls­meðferðarreglur þeirra laga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Laufásvegur 19 og 21­­–23 séu á svæði íbúðarbyggðar (ÍB) samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Umrædd áform samræmist meginmarkmiðum aðalskipulagsins í húsnæðis­málum og landnotkun svæðisins og þeim sérákvæðum sem gildi um landnotkunarflokkinn. Í markmiðum um íbúðarbyggð komi fram að leitast „verði við að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta fyrir alla félagshópa.“ Enn fremur segi að tryggt „verði að hvers konar búsetuúrræði, fyrir alla félagshópa, rúmist innan íbúðarbyggðar, miðsvæða þar sem gert er ráð fyrir íbúðarhúsnæði eða í annarri blandaðri byggð.“ Með íbúðarhúsnæði sé átt við „[í]búðir sbr. kröfur byggingarreglugerðar, námsmannaíbúðir, aukaíbúðir sbr. skilgreiningar hverfisskipulags, stúdíóíbúðir, þjónustuíbúðir, íbúðarherbergi sem leigð eru tímabundið og íbúar deila eldhúsi með öðrum, auk hvers kyns búsetuúrræða fyrir hópa með sérstakar húsnæðis og þjónustuþarfir og eru með lögheimili í viðkomandi húsnæði.“ Í skilgreiningunni segi enn fremur að innan íbúðarbyggðar megi „gera ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi, enda sé um að ræða þrifalega starfsemi sem ekki veldur ónæði, og almennri opinberri þjónustu (þ.m.t. búsetukjarnar).“ Skilgreining íbúðarbyggðar í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé þannig í grunninn víð og heimili húsnæðislausnir og úrræði fyrir félagshópa, auk þess sem almenn samfélagsþjónusta sé heimil og önnur þrifaleg atvinnustarfsemi.

Húsið að Laufásvegi 19 sé byggt árið 1933 og í því séu nú sex íbúðir. Lóð hússins, sem sé eignarlóð, hafi áður verið hluti af lóðinni nr. 17–19 við Laufásveg, sem þá hafi verið samtals 1.222 m2 að stærð. Að beiðni lóðarhafa hafi byggingarnefnd samþykkt skiptingu lóðarinnar 9. mars 1995 þannig að lóð nr. 19 hafi orðið 795 m2. Þegar fyrstu íbúðirnar hafi verið seldar í íbúðarhúsi nr. 19 við Laufásveg hafi þær verið seldar án þess að þeim hafi fylgt hlutdeild í lóð, nema þeim hluta sem sé undir húsinu sjálfu. Þannig hafi t.d. með afsali útgefnu 1959 verið seld íbúð á 2. hæð og hafi sérstaklega verið tekið fram að undanskilin væri „[óbyggð] baklóð, lóð, sem [bílskúrar] standa á svo og lóð undir innkeyrsluplani.“ Sama orðalag sé að finna í síðari afsölum.

Bílskúrar á baklóðinni hafi verið samtals níu og hafi þeir verið samþykktir í byggingarnefnd 30. maí 1963 og byggðir á árunum 1963 og 1964. Bílskúrarnir séu í dag auðkenndir með fasteignanúmerinu F2006769, en byggingarfulltrúinn í Reykjavík og skráningardeild fasteigna hafi staðfest það með yfirlýsingu árið 1995. Með leigusamningum, fyrst frá 23. nóvember 1981, hafi sendiráð Bandaríkjanna fengið baklóðina að Laufásvegi 19 og bílskúrana á leigu. Með kaupsamningi, dags. 30. desember 1994, hafi eigendur bílskúranna selt sendiráði Banda­ríkjanna baklóðina. Hinn 8. júní 1995 hafi níu bílskúrum og eignalóðarréttindum við Laufásveg 19 verið afsalað til utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna. Umrædd skjöl séu þinglýst og megi finna í bókum þinglýsingarfulltrúa.

Í afsalinu komi fram að hin óbyggða baklóð og bílskúrar séu séreign, þ.e.a.s. ekki sameign með öðrum eigendum Laufásvegar 19. Samkvæmt afsali, dags. 13. maí 2022, sé Laufásvegur 21 ehf. núverandi eigandi bílskúranna á baklóðinni ásamt lóðarhluta. Hinum opinberu gögnum hafi ekki verið hnekkt. Ekki þurfi samþykki íbúðareigenda í Laufásvegi 19 til að breyta bíl­skúrum á baklóð í íbúðarhúsnæði.

Telji kærendur að þeir verði fyrir tjóni vegna umræddra breytinga sé bent á að hægt sé að hafa uppi bótakröfu, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Hvað varði ónæði bendi borgaryfirvöld á að alltaf megi búast við fleira fólki á ferli þegar skrifstofuhúsnæði sé breytt í íbúðir. Aftur á móti verði ekki séð að mikill umgangur verði um baklóðina að Laufásvegi 19 þar sem mjög takmarkaður umgangur verði um lóðina í ljósi þess að inn- og útgangur sé í aðalbyggingu á lóð nr. 21–23 við Laufásveg. Það séu einungis flóttaleiðir sem snúi að baklóðinni.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærandi að Laufásvegi 22 bendir á að í umsögn Reykjavíkurborgar hafi engin tilraun verið gerð til að skilgreina hvers kyns starfsemi veitt væri heimild fyrir eða hvernig hún samrýmist Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Í aðalskipulaginu segi m.a. að búsetuúrræði þar sem krafist sé gæslu allan sólarhringinn og/eða umfang starfsemi sé umtalsverð geti einnig verið heimil, en sé háð því að gerð sé grein fyrir þeim í deiliskipulagi. Orðalagið „[geti] einnig verið heimil“ staðfesti að um sé að ræða undantekningu en ekki reglu en orðalagið „en eru háð því að gerð sé grein fyrir þeim í deiliskipulagi“ feli í sér afdráttarlaust skilyrði. Borgaryfirvöld hafi ekki hrakið að annað hvort sé um að ræða búsetuúrræði með umtalsverðu umfangi eða að krafist sé gæslu allan sólarhringinn, en annað hvort skilyrðið nægi til að skylt sé að gera deiliskipulag. Rekstur á búsetuúrræði fyrir allt að 85 manns, þar sem öll aðstaða sé meira og minna sameiginleg öllum, jafnist að umfangi á við afar stórt gistiheimili eða miðstærð af hóteli.

Reykjavíkurborg vísi til ákvæða um heimila atvinnustarfsemi á íbúðarsvæðum í gildandi aðal­skipulagi. Vakin sé athygli á að þar sé áherslan öll á smárekstur sem hafi lítil áhrif á nær­umhverfið auk þess sem rekstur gistiþjónustu sé óheimil óháð umfangi. Þá sé vakin athygli á drögum ríkisstjórnar að frumvarpi um tímabundnar undanþágur vegna búsetuúrræða fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, þar sem stjórnvöld hafi hug á því að skapa lagalegar forsendur fyrir því að hægt sé að víkja frá ákvæðum gildandi skipulags viðkomandi sveitar­félaga og þá að hámarki til 18 mánaða. Frumvarpið hafi hvorki verið lagt fram né orðið að lögum og því séu engar forsendur til að víkja frá afdráttarlausum ákvæðum aðalskipulags og það til tveggja ára. Skortur á skýrri afmörkun tímalengdar, þrátt fyrir ákvæði í grenndar­kynningu, sé einnig á meðal þeirra atriða sem ekki hafi verið vikið að í umsögn borgaryfirvalda.

Á uppdráttum sjáist hversu fjarri innra skipulag sé öllum þekktum fordæmum um búsetuúrræði, stúdentaíbúðir eða önnur búsetuform sem þekkist á skilgreindum íbúðarsvæðum. Í athuga­semdum eins kæranda við grenndarkynningu hafi verið óskað eftir því að umhverfis- og skipulags­svið rýndi vandlega hvernig fyrirhugaðar íbúðir samrýmdust skilyrðum samkvæmt byggingar­reglugerð, t.a.m. gr. 6.7.1. þar sem segi að öll rými íbúða skuli vera nægjanlega stór þannig að þar rúmist innréttingar af þeim gerðum sem henti stærð íbúða.

Þá sé að lokum bent á að þegar bornar væru saman endanlegar samþykktar teikningar við grenndarkynningu megi sjá að hætt sé að tala um „íbúðir“ og hugtakið „úrræði“ notað í staðinn. Með því séu öll líkindi við hefðbundnar námsmannaíbúðir eða venjulega búsetu við íbúagötur endanlega fyrir bí. Líkleg skýring á þessari breyttu hugtakanotkun sé að sjö herbergja einingin „úrræði 3“ með einu salerni og einni sturtu, bakvið sömu dyr, sé nú án eldhúss og geti því ekki talist „íbúð“ í skilningi byggingarreglugerðar þar sem hún standist ekki kröfur í grein 6.7.1. Sú fullyrðing á forsíðu teikninga að tekið sé mið af kröfum byggingarreglugerðar fyrir íbúðar­húsnæði sé því efnislega röng.

—–

Leyfishafa var tilkynnt um framkomnar kærur og honum gefinn kostur á því að koma á framfæri athugasemdum við þær, en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. febrúar 2023 um að samþykkja byggingarleyfisumsóknir til að innrétta búsetu­úrræði í annars vegar matshlutum 02 og 03 í húsi á lóð nr. 19 við Laufásveg og hins vegar í íbúðar- og skrifstofuhúsi á lóð nr. 21–23 við sömu götu. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki veitir byggingarfulltrúi byggingarleyfi og skv. 11. gr. sömu laga samþykkir hann byggingaráform. Verður því litið svo á að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023 að samþykkja téðar umsóknir.

Byggingarleyfisumsóknir þessar voru grenndarkynntar íbúum nærliggjandi húsa, en ekki liggur fyrir deiliskipulag fyrir svæðið. Fram kom í grenndarkynningunni að óskað væri eftir tíma-bundinni breytingu á notkun húsnæðisins. Með breyttri notkun yrði húsnæðinu, sem er í heild rúmir 1.600 m2, skipt í þrjár íbúðir og opnað tímabundið á milli. Tekið væri mið af kröfum byggingarreglugerðar fyrir íbúðarhúsnæði. Af gögnum málsins má ráða að húsnæðið sé ætlað sem tímabundinn dvalar­staður umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi.

—–

Af hálfu kærenda hefur verið bent á að við útgáfu samþykktra teikninga hafi fallið brott eldhús í einni íbúðinni, sem merkt er „úrræði 3“, en þar séu annars sjö herbergi, eitt salerni og ein sturta. Með þessu geti úrræðið ekki talist íbúð í skilningi byggingarreglugerðar nr. 112/2012, sbr. grein 6.7.1. Í þeirri grein er kveðið á um að hvert deilihúsnæði, svo sem hér um ræðir, skuli hafa að lágmarki eitt íbúðarherbergi, eldunaraðstöðu og baðherbergi. Öll slík rými innan íbúðar skuli tengd innbyrðis og ekki skuli þurfa að fara um sameign á milli rýmanna. Auk þess skuli öll rými íbúða vera nægjanlega stór þannig að þar rúmist innréttingar af þeim gerðum sem henta stærð íbúða og er heimilt að krefjast rökstuðnings hönnuðar um að svo sé miðað við áætlaðan fjölda íbúa. Deilihúsnæði er skilgreint í 24. tölul. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð sem íbúðarhúsnæði með sameiginlegt eldhús eða alrými. Á samþykktum uppdráttum kemur fram að húsið verði nýtt sem þrjár íbúðir. Við skoðun teikninganna er ljóst að ekki er eldhús í rými því sem nefnist „úrræði 3“ sem upphaflega var bílgeymsla á lóð hússins á Laufásvegi 19. Mögulegt virðist hins vegar að íbúar þar geti haft aðgang að öðrum eldhúsum í húsinu. Þetta bendir til þess að annmarki sé á samþykktum teikningum, en ekki er tilefni til að fjalla nánar um það hvort svo sé í úrskurði þessum.

—–

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr skipulagslaga nr. 123/2010 gildir sú meginregla að gera skal deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Finna má undantekningu frá þeirri meginreglu í 1. mgr. 44. gr. laganna þar sem segir að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggur ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við land­notkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndar­kynningu. Í máli þessu er m.a. tekist á um það hvort útgefin byggingarleyfi samrýmist aðal­skipulagi Reykjavíkur sem og hvort heimilt hafi verið að veita þau að undangenginni grenndar­kynningu eða hvort þurft hefði að gera deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis.

Með hinum kærðu ákvörðunum er notkun húseignarinnar að Laufásvegi 21–23 breytt úr atvinnu­húsnæði í íbúðarhúsnæði. Húsið er á svæði íbúðarbyggðar (ÍB) samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Í aðalskipulaginu segir að leitast skuli við að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta fyrir alla félagshópa og er í dæmaskyni með íbúðum m.a. vísað til íbúðarherbergja sem leigð eru tímabundið og íbúar deila eldhúsi með öðrum auk hvers kyns búsetuúrræða fyrir hópa með sérstakar húsnæðis- og þjónustuþarfir og eru með lögheimili í viðkomandi húsnæði. Verður með hliðsjón af þessari víðu skilgreiningu ekki álitið að land­notkun samkvæmt aðalskipulagi girði fyrir útgáfu byggingarleyfis til íbúða í húsinu af þeirri gerð og í þeim tilgangi sem hér um ræðir.

Í kafla 3.4.1 í aðalskipulaginu eru sérákvæði um sérstök búsetuúrræði og kemur þar fram að slík úrræði geti verið heimil innan íbúðarbyggðar. Þá segir einnig að innan íbúðarbyggðar sé staðsetning búsetuúrræða almennt háð gerð deiliskipulags. Það gildi þó ekki ef um sé að ræða búsetukjarna fyrir fatlað fólk í húsnæði sem sé til staðar, þar sem ekki sé þörf á sérstakri öryggisgæslu og þjónusta kalli ekki á mikinn starfsmannafjölda (2–12 starfsmenn á vakt). Eru sérstök búsetuúrræði skilgreind í aðalskipulaginu sem „húsnæðislausnir fyrir félagshópa með sérstakar húsnæðis- og/eða þjónustuþarfir, til lengri eða skemmri dvalar.“ Fram kemur að slík úrræði nái til fjölbreyttra hópa og húsnæðislausnir geti falist í því að ráðist verði í nýbyggingu eða endurbætur á húsnæði sem þegar sé til staðar. Enn fremur segir í kafla um íbúðarbyggð að búsetuúrræði þar sem krafist sé „gæslu allan sólarhringinn og/eða umfang starfsemi er umtalsvert“ geti einnig verið heimil, en háð því að gerð sé grein fyrir þeim í deiliskipulagi.

Fram kom á grenndarkynntum uppdráttum að leigutaki myndi meta þörf á sólarhringsvakt. Við meðferð málsins kom fram í svörum starfsmanns skipulagsfulltrúa að samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum og Vinnumálastofnun yrðu 40 herbergi í húsinu, fyrir 75–85 umsækjendur um alþjóðlega vernd. Öryggisgæsla yrði í húsinu allan sólarhringinn og ávallt yrði öryggisvörður til staðar. Einnig yrði sett upp myndavélakerfi sem myndi „dekka“ sameiginleg rými í húsinu. Á samþykktum uppdráttum kemur fram að Vinnumálastofnun verði með starfs­mann á staðnum allan sólarhringinn sem verði íbúum til taks ef eitthvað komi upp á inni í húsnæðinu. Sá starfsmaður verði einnig tengiliður íbúa við aðra starfsmenn stofnunar-innar og aðra hlutaðeigandi aðila utan húsnæðisins. Í svörum fulltrúa Reykjavíkurborgar við meðferð hinna kærðu ákvarðana kom síðar fram að með „sólarhringsvakt“ í byggingarlýsingu sé einungis átt við að húsvörður verði á staðnum og ekki sé um öryggisgæslu að ræða. Þá sé óeðlilegt að horfa á starfsemina sem búsetuúrræði en henni svipi meira til námsmannaíbúða.

Af málsgögnum hinna kærðu ákvarðana, m.a. samþykktum teikningum, virðist ljóst að gert sé ráð fyrir því að í húsunum að Laufásvegi 19 og 21–23 verði búsetuúrræði fyrir viðkvæman félagshóp. Umfang starfseminnar er verulegt með hliðsjón af staðsetningu hennar í íbúðargötu. Auk þess virðist ljóst að gert sé ráð fyrir einhverri tegund af gæslu eða eftirliti og þjónustu sem krefjist stöðugrar viðveru. Þar sem fyrirmæli aðalskipulags kveða á um að slík búsetuúrræði innan íbúðarbyggðar séu háð því að gerð sé grein fyrir þeim í deiliskipulagi verður að telja að ekki hafi verið heimilt að láta nægja að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknirnar samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipu­lagslaga. Var undirbúningur hinna kærðu ákvarðana því haldinn verulegum annmörkum og ekki hjá því komist að fella þær úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felldar eru úr gildi ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023 um að samþykkja byggingarleyfisumsóknir til að innrétta búsetuúrræði í annars vegar matshlutum 02 og 03 í húsi á lóð nr. 19 við Laufásveg og hins vegar í íbúðar- og skrifstofuhúsi á lóð nr. 21–23 við sömu götu.