Árið 2023, þriðjudaginn 14. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Fyrir var tekið mál nr. 14/2023, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 6. desember 2022, um að samþykkja deiliskipulag fyrir jörðina Presthús, Kjalarnesi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. janúar 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Brautaholts 1, Kjalarnesi, þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 6. desember 2023 að samþykkja deiliskipulag fyrir jörðina Presthús, Kjalarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og til vara að sá hluti deiliskipulagsins sem heimili umferð að Presthúsum um veg í landi Brautarholts 1, án samþykkis eiganda, verði felldur úr gildi.
Málsatvik og rök: Að undangenginni auglýsingu samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samþykkti borgarráð Reykjavíkur hinn 24. nóvember 2022 deiliskipulag fyrir jörðina Presthús. Var málinu vísað til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar sem staðfesti niðurstöðu borgarráðs á fundi sínum 6. desember 2022. Í hinu kærða deiliskipulagi fólust áform um íbúðarhús, dvalar- og vinnuaðstöðu fyrir listamenn o.fl. Lýst var aðkomuvegi, gönguleiðum, byggingarreitur var staðsettur og skilmálar settir fyrir uppbyggingu svæðisins.
Kærandi vísar til þess að samkvæmt deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir að aðkoma að Presthúsum verði um veg sem liggi í gegnum eignarjörð hans Brautarholt 1. Samþykki landeiganda sé forsenda þess að heimilt sé að nýta veginn sem aðkomuveg, en það liggi ekki fyrir.
Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg bíður deiliskipulagið afgreiðslu Skipulagsstofnunar og hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Þá skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en fyrr tekur það ekki gildi. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir kæranleg ákvörðun í kærumáli þessu og verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.