Árið 2022, fimmtudaginn 1. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 121/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 31. ágúst 2022, um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. október 2022, er barst nefndinni 20 s.m., kærir eigandi, Brekkugötu 25, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 31. ágúst 2022 að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars varðandi lóðina að Selvogsgötu 3. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðjarkaupstað 14. nóvember 2022.
Málsatvik og rök: Að undangenginni grenndarkynningu samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar hinn 31. ágúst 2022 tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars þar sem hámarksbyggingarmagn á lóðinni að Selvogsgötu 3 var aukið í 225 m2, hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar var aukið og gerður nýr byggingarreitur fyrir geymslu í NV-horni lóðarinnar.
Kærandi telur að ekki séu skilyrði til samþykktar á tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Hafi stækkun lóðarinnar að Selvogsgötu 3 þar, sem nú eigi að heimila byggingu skúrs, ekki öðlast lögformlegt gildi og líta beri á deiliskipulagið fyrir svæðið eins og það hafi verið áður en stækkuninni hefði verið bætt við, en þá hefði lóðarparturinn ekki tilheyrt þeirri lóð.
Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að fyrirhugaður skúr muni ekki hafa nein áhrif á lóð kæranda þar sem fyrir sé hár steyptur veggur og einnig sé þak á garðskúr kæranda sem nái meðfram veggnum. Ef einhver skuggamyndun verði af fyrirhuguðum skúr muni sá skuggi falla á þak geymsluskúrs kæranda.
Niðurstaða: Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar hefur ekki enn verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga 123/2010, en kærufrestur ákvarðana sem sæta opinberri birtingu telst frá birtingu ákvörðunar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Hefur deiliskipulagsbreytingin ekki öðlast gildi og liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er vísað frá úrskurðarnefndinni.