Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

77/2022 Geirsgata

Árið 2022, föstudaginn 5. ágúst, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 77/2022, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 28. júní 2022 að veita tímabundið starfsleyfi til reksturs á krá með lágmarksmatargerð að Geirsgötu 2-4.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélag Geirsgötu 2-4, eigendur 18 íbúða að Kolagötu 1 (áður Geirsgötu 2) og eigendur 19 íbúða að Kolagötu 3 (áður Geirsgötu 4), Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 28. júní 2022 að veita tímabundið starfsleyfi til reksturs á krá með lágmarksmatargerð að Geirsgötu 2-4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 28. júlí 2022.

Málsástæður og rök: Leyfishafi sótti um bráðabirgðarekstrarleyfi hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 9. nóvember 2021 fyrir veitingastað í flokki II, veitingahús fyrir 140 gesti að Geirsgötu 2-4. Sýslumaður gaf út bráðabirgðarekstrarleyfi með gildistímann 15. desember 2021 til 15. janúar 2022. Kom þar fram að veitingatími væri til kl. 23 virka daga og til kl. 01 aðfaranætur frídaga. Hámarksfjöldi gesta væri 30. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gaf síðan út tímabundið starfsleyfi til að stafrækja veitingastað að Geirsgötu 2-4 með gildistímann 25. mars 2022 til 25. júní s.á. Leyfishafi sótti að nýju um starfsleyfi fyrir veitingastaðnum 16. maí s.á. Heilbrigðiseftirlitið upplýsti leyfishafa í framhaldinu um að fyrirhugað væri að takmarka opnunartíma veitingastaðarins vegna ónæðis sem af honum hlytist. Tekið var fram að leyfishafi hefði ekki skilað inn fullnægjandi gögnum um hljóðvist staðarins og að mælingar leyfishafa hafi sýnt fram á að hávaði á staðnum hafi ítrekað farið yfir leyfileg mörk skv. reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Bent var á að framangreind brot yrðu höfð til hliðsjónar við afgreiðslu umsóknar um áframhaldandi starfsleyfi fyrir veitingastaðinn. Leyfishafi lagði fram hljóðvistarskýrslu 20. júní 2022 sem sýndi fram á að hljóðeinangrun væri ófullnægjandi. Jafnframt var lögð fram úrbótaáætlun þar sem gert var ráð fyrir að úrbótum yrði lokið í júlí s.á. Leyfishafi var upplýstur um að starfsleyfi til 12 ára yrði ekki gefið út fyrr en úrbótum á hljóðvist væri lokið. Leyfishafi sendi inn umsókn um tímabundið starfsleyfi til eins mánaðar hinn 12. júní 2022 á meðan unnið væri að úrbótum. Heilbrigðiseftirlitið sendi leyfishafa bréf dags. 27. s.m. þar sem fram kom að tímabundið starfsleyfi yrði gefið út til eins mánaðar eða til 28. júlí s.á. Jafnframt kom fram að opununartími veitingastaðarins yrði takmarkaður við kl. 23 alla daga og að gestir yrðu að hafa yfirgefið staðinn kl. 23 og að frekari frestir yrðu ekki veittir. Tímabundið starfsleyfi var gefið út 28. júní s.á. og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Af hálfu kærenda er bent á að Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafi verið óheimilt að veita hið tímabundna starfsleyfi vegna krárinnar að Geirsgötu 2-4. Vegna reynslu af rekstri staðarins sl. mánuði liggi fyrir að leyfishafi hafi ítrekað brotið gegn starfsleyfisskilyrðum hins eldra tímabundna starfsleyfis auk þess sem hann hafi enn ekki skilað inn fullnægjandi gögnum varðandi hljóðvist í rýminu sem sýni fram á að reksturinn valdi ekki og muni ekki valda hávaða og ónæði. Reksturinn uppfylli ekki reglur um hljóðvist, hávaða og ónæði, sem lög geri að skilyrði svo heimilt sé að veita rekstrarleyfi. Um sé að ræða rekstur veitingahúss í flokki III (skemmtistaður) sem óheimilt sé að stafrækja á því svæði sem um ræði skv. aðalskipulagi Reykjavíkur. Þá brjóti reksturinn gegn þinglýstri kvöð, sérstakri húsfélagssamþykkt, sem hvíli á eigninni. Umdeildur rekstur sé og hafi verið íþyngjandi fyrir kærendur sökum hávaða, lyktarmengunar og ónæðis og sé til þess fallinn að hafa áhrif á verðmæti fasteigna þeirra. Ákvörðun um veitingu áframhaldandi leyfis, jafnvel þó um bráðabirgðaleyfi sé að ræða, sé stjórnvaldsákvörðun sem verði að uppfylla þær lögbundnu kröfur sem lög og reglur geri til slíkra ákvarðana, þar sem ákvörðunin hafi áhrif á stjórnarskrárvarin eignarréttindi íbúðareigenda. Verði því að horfa vandlega til meginreglna stjórnsýsluréttarins um meðalhóf, lögmæti og jafnræði þegar ákvörðun sé tekin, enda séu gerðar ríkari kröfur til stjórnvalda í tilvikum þar sem mögulega sé brotið gegn stjórnarskrárvörðum hagsmunum.

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er bent á að ákveðið hafi verið að veita tímabundið starfsleyfi á meðan rekstraraðilar veitingarstaðarins ynnu að nauðsynlegum úrbótum á hljóðvist samkvæmt úrbótaáætlun. Með hliðsjón af kvörtunum um ónæði og hávaða frá staðnum hafi einnig verið tekin ákvörðun um að takmarka opnunartíma við kl. 23 alla daga. Með þessum ákvörðunum hafi verið gætt bæði jafnræðis og meðalhófs. Rekstraraðili hafi skilað gögnum um hljóðvist, m.a. eigin hljóðmælingum. Þessi gögn hafi sýnt að hljóðvist hafi verið ófullnægjandi og að tilefni væri til úrbóta. Almennar miðborgarheimildir gildi á lóðinni sem um ræði og þar megi heimila allar tegundir veitingastaða í flokki I-III, að skemmtistöðum undanskildum og opnunartími megi lengst vera til kl. 03:00 um helgar. Þá séu útiveitingar heimilar til kl. 23:00. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gefi út starfsleyfi skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum nr. 93/1995 um matvæli. Veitingastaðir séu á lista í viðauka IV við lög nr. 7/1998 og þeir séu matvælafyrirtæki skv. 16. tl. 4. gr. laga nr. 93/1995. Starfsleyfi sé gefið út uppfylli viðkomandi starfsemi þau skilyrði sem sett séu í lögum og í reglugerðum. Leyfi sé ótímabundið sé það einungis gefið út skv. lögum nr. 93/1995 en tímabundið ef starfsemi falli undir bæði lög nr. 93/1995 og lög nr. 7/1998 eða einungis þau síðarnefndu. Kærendur hafi hverfandi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Hið kærða leyfi hafi runnið úr gildi 28. júlí 2022. Ekki hafi verið tekin afstaða til útgáfu nýs starfsleyfis. Sé framkomin kæra tilraun til að hafa áhrif á afgreiðslu nýrrar starfsleyfisumsóknar sé vert að benda á að skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði ákvörðun ekki kærð fyrr en mál hafi verið til lykta.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda kæranlegri ákvörðun skotið henni til úrskurðarnefndarinnar. Í máli þessu er starfsleyfi kært sem rann út 28. júlí 2022 og hefur leyfið því ekki lengur réttarverkan að lögum. Eiga kærendur því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá umdeildri ákvörðun hnekkt svo sem krafist er í máli þessu. Verður kærumáli þessu því vísað frá þar sem á skortir að skilyrði nefndrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 fyrir kæruaðild er ekki lengur fyrir hendi.

Rétt þykir að taka fram að ef nýtt starfsleyfi verður veitt er eftir atvikum hægt að kæra ákvörðun um veitingu þess til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.