Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

50/2022 Hamarstígur

Árið 2022, miðvikudaginn 29. júní, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 50/2022, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Akureyrar frá 26. apríl 2022 um að samþykkja leyfi fyrir byggingu bílskúrs á lóðinni Hamarstíg 26.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 24. maí 2022, kæra eigendur Hamarstígs 24 Akureyri, þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrar frá 26. apríl 2022 að samþykkja leyfi fyrir byggingu bílskúrs á lóðinni Hamarstíg 26. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 21. júní 2022.

Málsatvik og rök: Hinn 13. janúar 2021 var á þar til gerðu eyðublaði lögð fram fyrirspurn til skipulagssviðs/ráðs Akureyrarbæjar um leyfi til að byggja bílgeymslu á lóðinni nr. 26 við Hamarstíg og breyta þaki á húsi lóðarinnar. Á fundi skipulagsráðs 27. s.m. var samþykkt að grenndarkynna tillöguna skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þegar fyrir lægi samþykki eigenda nágrannalóða vegna nálægðar bilgeymslunnar við lóðarmörk. Byggingaráformin voru þó ekki grenndarkynnt fyrr en ári síðar eða með bréfi sviðsstjóra þjónustu- og skipulagssviðs, dags. 28. febrúar 2022. Var frestur til að koma að athugasemdum veittur til 1. apríl s.á. en hann var síðar framlengdur til 7. s.m. vegna uppfærslu á uppdrætti. Kærendur gerðu athugasemdir við grenndarkynninguna og á fundi skipulagsráðs 20. apríl 2022 var málið tekið fyrir að nýju þar sem þær athugasemdir voru lagðar fram ásamt tillögu skipulagsfulltrúa að svörum við þeim. Samþykkti skipulagsráð „fyrirliggjandi umsókn um byggingaráform“ og tillögu skipulagsfulltrúa að svörum við framkomnar athugasemdir. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Kærendur vísa til þess að þeir hafi sent Akureyrarbæ ítarlegar athugasemdir við grenndarkynningu málsins og m.a. bent á að byggingaráformin fælu í sér verulegt skuggavarp og almennt ónæði í rúmlega 70 ára gömlu og rótgrónu hverfi. Eina svar bæjaryfirvalda hafi verið að líkur á skuggavarpi væru taldar hverfandi. Ekki hafi verið farið yfir aðrar athugasemdir og þær aldrei teknar fyrir. Hæðarmunur lóða Hamarstígs 26 og 24 sé 130 cm og með byggingaráformunum sé ráðgert að þriðja hæðin bætist við húsið á lóð Hamarstígs 26. Kærendur muni því horfa yfir þriggja hæða hús til vestur sem að viðbættum hæðarmismun lóðanna yrði um 10 m. Ákvörðunin hafi veruleg áhrif á hagsmuni kærenda vegna færri sólarstunda að vetri og vori þegar sól sé lágt á lofti. Einnig hljótist af þessu verulegt ónæði þar sem hin viðbætta hæð muni vera að stórum hluta úr geri og með hurð út á svalir. Um yrði að ræða þriggja hæða hús í mjög lágreistu og fallegu hverfi.

Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að líkur á neikvæðum áhrifum vegna aukins skuggavarps séu hverfandi. Húsið á lóð Hamarstígs 26 sé í um 30 m fjarlægð frá húsinu á lóð Hamarstíg 24 og um 14 m frá lóðarmörkum sem teljist vera nokkuð mikið í þéttbýli. Vegna þeirrar fjarlægðar og þeirrar staðreyndar að á báðum lóðunum sé þéttur gróður og tré, sem séu töluvert hærri en fyrirhugaðar byggingar, hafi ekki verið talin þörf á að gera sérstakar skuggavarpsrannsóknir. Þá sé vegna fjarlægðar milli húsanna ekki talið að breytingin feli í sér ónæði fyrir kærendur umfram það sem geti talist eðlilegt í þéttbýli. Til að minnka áhrif af hinum fyrirhugaða bílskúr verði hann hafður í 3 m fjarlægð frá lóðarmökum og innst á lóðinni. Fyrirhuguð byggingaráform séu í góðu samræmi við útlit og gerð húsa í næsta nágrenni og falli vel að þeirri byggð sem fyrir sé.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt en upphaf máls þessa má rekja til fyrirspurnar lóðarhafa Hamarstígs 26 til bæjaryfirvalda Akureyrarbæjar vegna tiltekinna byggingaráforma á lóðinni. Samkvæmt framkomnum upplýsingum frá bæjaryfirvöldum hafa umdeild byggingaráform á grundvelli hinnar kærðu afgreiðslu ekki verið samþykkt af byggingarfulltrúa. Hið kærða samþykki skipulagsráðs á umdeildum byggingaráformum að lokinni grenndarkynningu felur samkvæmt framansögðu ekki í sér lokaákvörðun varðandi umrædd byggingaráform í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur er hún liður í málsmeðferð erindis lóðarhafa Hamarstígs 26. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Bent er á að ljúki málinu með því að byggingarfulltrúi veiti leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð við þá ákvörðunartöku í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.