Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

66/2021 Stekkjarsel

Árið 2021, föstudaginn 15. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson vara­­formaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. mars 2021 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir áður gerðum breytingum, sem fólust í því að óútgröfnu rými og geymslu í kjallara var breytt í íbúðarrými, bætt var við gluggum og dyrum á norðurhlið og gluggar stækkaðir á austurhlið einbýlishússins að Stekkjarseli 7.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. maí 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Stekkjarseli 7, Reykjavík, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 2. mars 2021 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir áður gerðum breytingum sem fólust í því að óútgröfnu rými og geymslu í kjallara var breytt í íbúðarrými, bætt var við gluggum og dyrum á norðurhlið og gluggar stækkaðir á austurhlið einbýlishússins nr. 7 við Stekkjarsel. Fer kærandi fram á að umsóttar breytingar verði samþykktar með sama hætti og gert hafi verið í tilviki Stekkjarsels 5. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. júní 2021.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 2. mars 2021 var umsókn kæranda um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á einbýlishúsinu að Stekkjarseli 7 synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 15. janúar s.á. Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 3. mars s.á. Kærandi lagði fram nýjar teikningar 16. s.m. og var erindi hans þá tekið fyrir að nýju hjá byggingarfulltrúa 12. maí s.á., ásamt umsögn verkefnisstjóra, og er þar enn óafgreitt.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að byggingarfulltrúi hafi áður leyst úr samkynja álitamáli þegar umsókn um byggingarleyfi var samþykkt í máli nágranna hans 18. mars 2003 vegna Stekkjarsels 5. Ákvörðunin muni hafa gríðarleg áhrif á hagsmuni kæranda þar sem hann hefði keypt húsið í góðri trú um að mál hans fengi sambærilega meðferð hjá byggingarfulltrúa og mál nágrannans og að eigendur gætu selt sinn hluta í húsinu án þess að þurfa að krefjast þess að eignin væri seld í heild sinni. Þá yrði eignin talsvert verðmætari þegar búið væri að skipta henni upp í þrjár aðskildar fasteignir. Um sé að ræða eðlislík mál sem snúist um fasteignir sem hafi verið byggðar á sama tíma og standi hlið við hlið. Því sé vísað til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Engin lög eða reglugerðir sem varði niðurstöðu þessara mála hafi breyst og eigi málin því að hljóta sömu niðurstöðu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að breytingarnar séu ekki í samræmi gildandi deiliskipulag, m.a. vegna þess að núverandi nýtingarhlutfall lóðar kæranda sé þegar komið yfir tilskilið hámark samkvæmt skipulaginu og að ekki sé heimild fyrir fleiri en tveimur íbúðum á lóðinni. Þá sé á það bent að þær framkvæmdir sem kærandi vísi til í Stekkjarseli 5 hafi verið í samræmi við þágildandi ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 79/1997 og þá­gildandi skipulag þegar þær hafi verið samþykktar öfugt við framkvæmdir samkvæmt umsókn kæranda sem ekki samræmdust gildandi deiliskipulagi.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að umsóttar breytingar séu í samræmi við núverandi frágang hússins og óski hann því eftir því að skráning þess taki mið af því. Fyrir liggi burðarvirkis- og lagnateikningar hjá byggingarfulltrúa, stimplaðar af honum á byggingartíma hússins, sem sýni öll þau rými sem sótt sé um leyfi fyrir. Ekki sé verið að óska eftir stækkun hússins. Sama deiliskipulag sé í gildi og verið hafi þegar breytingar hafi verið samþykktar af byggingarfulltrúa vegna Stekkjarsels 5. Skipulagslög hafi í engu breyst þannig að þau standi í vegi fyrir sömu niður­stöðu í báðum málum. Borgaryfirvöld færi engin lagarök fyrir því að sett lög og reglur hafi að einhverju leyti breyst að því er varði þetta mál. Lágmarkskrafa sé að greinargóð skil séu gerð á því hvaða lagaheimildir það séu sem hafi breyst sem hamli því að umsókn kæranda hljóti sömu niðurstöðu og umsóknin varðandi Stekkjarsel 5. Um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða og því beri að rökstyðja hana með lagarökum. Kærandi byggi kröfu sína aðallega á jafnræðis­reglu stjórnsýslulaga, jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. mannréttinda­sáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, og á óskráðri réttarreglu um bann við mismunun.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun Reykjavíkurborgar á byggingarleyfi fyrir áður gerðum breytingum á einbýlishúsinu nr. 7 við Stekkjarsel. Hin kærða ákvörðun var rök­studd á þann veg að umsóttar breytingar færu í bága við skipulag.

 Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um þá ákvörðun sem kæra skal. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 3. mars 2021. Í bréfinu var leiðbeint um málskotsrétt með eftirfarandi hætti: „Í slíkum tilvikum er heimilt að skjóta málinu til æðra stjórnvalds, sem er úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Úrskurðarnefndin starfar á grundvelli laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011.“ Þá var í bréfinu upplýst um netfang og vefsíðu úrskurðarnefndarinnar. Kærufrests var ekki sérstaklega getið svo sem mælt er fyrir um í 2. tl. 20. gr. stjórnsýslulaga. Í ljósi greinds annmarka á leiðbeiningum til kæranda þykir afsakanlegt að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og verður málið því tekið til efnismeðferðar með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

­Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlut­verk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að umsóttar breytingar verði samþykktar.

Í umsóttum breytingum fólst að „óútgröfnu rými“ og geymslu í kjallara umrædds húss yrði breytt í íbúðir, bætt yrði við gluggum og dyrum á norðurhlið hússins og gluggar stækkaðir á austurhlið. Sótt var um samþykki fyrir „afmörkun áður gerðra séreigna“ á þann veg að efri hæð og bílskúr yrðu skilgreind sem ein eign, íbúð á neðri hæð fengi sérstakt fasteignanúmer og önnur íbúð í kjallara yrði skráð sem ósamþykkt íbúð með sérstakt fasteignanúmer.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Seljahverfis, Selhryggur, sem samþykkt var í borgarráði 17. desember 1974. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins er heimild fyrir tveimur íbúðum á lóð. Önnur íbúðin má ekki vera stærri en 70 m2 og skulu gluggar vera á henni í minnst tvær áttir. Hámarksnýtingarhlutfall á lóð er 0,4.

Í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er skráð stærð hússins 311,8 m2. Núverandi nýtingarhlutfall er samkvæmt því 0,43 og er því þegar umfram leyfilegt nýtingarhlutfall samkvæmt deili­skipulaginu. Með umsókn kæranda var óskað eftir að húsinu yrði skipt í þrjár eignir og fengju þær hver sitt fasteignanúmer. Samrýmast þær breytingar ekki gildandi deiliskipulagi sem heimilar einungis tvær íbúðir á lóðinni að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Var því ekki heimilt að óbreyttu deiliskipulagi að samþykkja byggingarleyfisumsókn kæranda, en skilyrði fyrir sam­þykkt og útgáfu byggingar­­­leyfis er m.a. að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulags­­áætlunum á svæðinu, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. mars 2021 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á einbýlishúsi að Stekkjarseli 7.