Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

132/2021 Sænska húsið

Árið 2021, þriðjudaginn 21. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 132/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 19. mars 2021 um flutning eða nýbyggingu „sænska hússins“ á lóðinni að Smáratúni 1, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 7. ágúst 2021, kærir eigandi Smáratúns 5, ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 19. mars 2021 um flutning eða nýbyggingu „sænska hússins“ á lóðinni að Smáratúni 1, Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Árborg 8. september 2021.

Málavextir: Tillaga að áformuðum breytingum á lóðinni Smáratúni 1 var kynnt nágrönnum 2.-31. desember 2020, en lóðin hafði verið auð um langt skeið. Í tillögunni var m.a. fjallað um afmörkun á byggingarreit, nýtingarhlutfall, hámarksfjölda hæða auk þess sem aðkoma að lóðinni var skilgreind. Að lokinni kynningunni, sem vísað var til sem grenndarkynningu, fjallaði skipulagsnefnd um tillöguna 13. janúar 2021 og bæjarstjórn tók málið fyrir á fundi dags. 20. s.m. Afgreiðslu málsins var frestað á þeim fundi bæjarstjórnar. Skipulagsnefnd tók málið aftur fyrir á fundi 10. mars s.á. þar sem staðfest var að umbeðin gögn hafi borist nefndinni og að breytingar hafi verið gerðar á tillögunni í kjölfar athugasemda sem borist hefðu. Bæjarstjórn tók málið aftur fyrir 19. s.m. og samþykkti tillöguna.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að gengið sé þvert á vilja flestra íbúa sem fengið hafi að taka þátt í grenndarkynningu. Fleiri hefðu viljað taka þátt og vilji þeirra sé svipaður og hinna sem þátt hefðu tekið. Húsið passi ekki inn í götumyndina og standi þvert á önnur hús í götunni. Oft hafi verið sótt um eða spurst fyrir um þessa lóð en hún hafi ekki fengist til úthlutunar hingað til.

Málsrök Árborgar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að sú ákvörðun sem kæran lúti að veiti ein og sér ekki leyfi til framkvæmda, enda þurfi lóðarhafi að sækja um og fá útgefið byggingarleyfi. Slíkt leyfi hafi ekki verið afgreitt. Að því sögðu telji sveitarfélagið að engin kæranleg stjórnvalds­ákvörðun sé til staðar í málinu. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2020 geti sveitarstjórn veitt byggingar- eða framkvæmdaleyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Í slíkum tilvikum skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga felist grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynni nágrönnum sem taldir séu geta átt hagsmuna að gæta af leyfisumsókn eða tillögu að breytingu á skipulagsáætlun og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests sem skuli vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hafi afgreitt málið skuli þeim sem hafi tjáð sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar. Um afgreiðslu byggingarleyfis fari síðan nánar tiltekið eftir ákvæðum III. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. einnig ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Það sé mat sveitarfélagsins að fyrirhuguð framkvæmd, sem felist í flutningi eða endurbyggingu „sænska hússins“ á lóðinni Smáratúni 1, samræmist fyllilega aðalskipulagi, skilgreindri landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar. Umrædd lóð sé á skilgreindu miðsvæði samkvæmt aðalskipulagi og jafnvel þó svo að lóðin tilheyri Smáratúni þá standi hún einnig við Kirkjuveg, þar sem bæði sé atvinnu- og þjónustustarfsemi. Að mati bæjarstjórnar sé því skilyrði til þess að heimila framkvæmdina án deiliskipulagstillögu.

Þegar fyrri grenndarkenning hafi farið fram dagana 2.-31. desember 2020 hafi ekki legið fyrir hvort flytja ætti „sænska húsið“ á lóðina að Smáratúni 1 eða endurbyggja húsið á lóðinni. Ætla megi að slík áform muni liggja fyrir þegar umsókn félagsins um byggingarleyfi verði tekin til meðferðar. Sveitarfélagið muni framkvæma aðra grenndarkynningu í tengslum við umsókn um byggingarleyfi í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Sveitarfélagið hyggist þá taka tillit til athugasemda kæranda að því er varði víðtækari grenndarkynningu og kynna framkvæmdina fyrir honum, sem og öðrum þeim sem kunni að eiga hagsmuna að gæta. Sveitarfélagið taki ekki afstöðu til annarra athugasemda kæranda að svo stöddu máli en árétti að hann geti komið þeim á framfæri þegar byggingarleyfisumsókn verði grenndarkynnt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á þeim lagagrundvelli.

Eins og að framan greinir snýst mál þetta um flutning eða endurbyggingu „sænska hússins“ að Smáratúni 1. Byggingarleyfi hefur hins vegar ekki verið samþykkt eða gefið út, né heldur hefur umsókn um slíkt leyfi verið lögð fram. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. og 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal svokölluð grenndarkynning fara fram við tilteknar aðstæður þegar breyta á deiliskipulagi eða þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir. Hvorki stendur til að breyta deiliskipulagi, enda er ekkert slíkt til staðar á svæðinu, né hefur verið sótt um byggingar- eða framkvæmdaleyfi. Sú kynning sem fram fór og lýst er í málavöxtum var því ekki eiginleg grenndarkynning í skilningi skipulagslaga. Hefur ekki verið tekið nein stjórnvaldsákvörðun í málinu heldur virðist sem tilteknar hugmyndir hafi verið kynntar í aðdraganda mögulegrar leyfisveitingar.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður ekki talið að fyrir hendi sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun sem leitt hafi mál til lykta í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni, en fari leyfisveiting fram síðar í kjölfar grenndarkynningar er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.