Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

109/2021 Innbær á Höfn

Árið 2021, fimmtudaginn 22. júlí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 109/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 12. maí 2021 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir þéttingu byggðar í Innbæ Hornafjarðar.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. júlí 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Hrísbrautar 1, 780 Höfn, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 12. maí s.á. að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir þéttingu byggðar í Innbæ Hornafjarðar sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní 2021. Greinargerð barst nefndinni 9. júlí s.á. og kemur þar fram að einnig standi að kærunni þau A, bB, C og D sem séu öll eigendur að húsum sem standi við eða í nálægð við fyrirhugaðar byggingarlóðir. Er þess krafist að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi. Einnig er þess krafist að réttaráhrifum deiliskipulagsins verði frestað.

Málsatvik: Hinn 3. júní 2021 tók gildi breyting á deiliskipulagi Innbæjar Hornafjarðar vegna þéttingar byggðar. Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda felur breytingin í sér að „[í] deiliskipulaginu er mörkuð stefna um þéttingu byggðar í Innbæ á Höfn þar sem bætt er við 8 nýjum íbúðarlóðum og gert ráð fyrir byggingu einbýlis- og raðhúsa auk gatnagerðar, bílastæða, gangstétta og göngustíga. Deiliskipulagið tekur einnig til 16 þegar byggðra lóða og gerð er grein fyrir heimiluðu byggingarmagni.“

Kærendur telja sveitarfélagið ekki hafa uppfyllt ófrávíkjanlegt skilyrði 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 varðandi vinnu við gerð deiliskipulagstillögunnar. Samkvæmt gr. 5.2.2. í skipulags­reglugerð nr. 90/2013 beri sveitarstjórnum að taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu og hafa kynningar og samráð við skipulagsgerðina. Eingöngu hafi verið auglýst lýsing á breytingu á aðalskipulagi varðandi breytingu á opnu svæði í íbúasvæði, en engin slík lýsing verið gerð vegna deiliskipulagsins. Þá hafi texti í skipulags- og matslýsingu með breytingu á aðalskipulagi verið mjög opinn og t.a.m. hafi ekkert komið þar fram um áætlaðan fjölda nýrra lóða. Þetta sé ámælisvert í ljósi þess að alkunna sé að jarðvegsaðstæður á svæðinu séu óstöðugar og að allar líkur séu á að byggingar- og jarðvegsframkvæmdir muni valda tjóni á nærliggjandi fasteignum þar sem byggingarlandið sé mýrlendi. Þá hafi Efla verkfræðistofa mælst til þess í minnisblaði frá 18. mars 2020 að gerðar væru jarðkannanir á fyrirhuguðum byggingarstöðum til að taka af vafa um jarðvegsaðstæður.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. sömu laga. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Komi til þess að byggingaráform verði samþykkt á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar getur kærandi hins vegar komið að kröfu um stöðvun framkvæmda, svo sem áður er rakið.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulags­ákvörðunar er hafnað.