Árið 2021, fimmtudaginn 25. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 126/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. október 2020 um að afturkalla ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða vegna framkvæmda á baklóð Búlands 36 og ákvörðun sama embættis frá 28. s.m. um að aðhafast ekki vegna framkvæmdarinnar.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Búlands 38, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. október 2020 að afturkalla ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða vegna framkvæmda á baklóð Búlands 36. Jafnframt er kærð ákvörðun sama embættis frá 28. s.m. um að aðhafast ekki vegna framkvæmdarinnar. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 5. janúar 2021.
Málavextir: Hinn 19. febrúar 2019 sendi annar kærenda máls þessa tölvupóst til byggingar-fulltrúans í Reykjavík vegna framkvæmda eigenda raðhússins Búlands 36 á lóðinni. Þar kom fram að skipt hefði verið um jarðveg á hluta lóðarinnar og við hann bætt, þar sem grasflöt hafði verið fyrir og flöturinn þar hellulagður svo unnt væri að leika þar körfubolta. Var því beint til embættisins hvort ekki þyrfti leyfi fyrir framkvæmdunum og þess farið á leit að embættið tæki málið til skoðunar. Í svari byggingarfulltrúa, dags. 22. júlí s.á., kom fram að framkvæmdirnar hefðu verið skoðaðar í vettvangsferð og teldust þær falla undir e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar væru byggingarleyfi. Byggingarfulltrúi myndi því ekki aðhafast frekar í málinu. Með bréfi, dags. 21. ágúst 2019, var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi ákvörðunina úr gildi með úrskurði uppkveðnum 27. mars 2020 í kærumáli nr. 82/2019. Taldi nefndin framkvæmdina ekki vera í samræmi við skilmála deiliskipulags Fossvogshverfis og þegar af þeirri ástæðu gæti ekki komið til skoðunar að fella hana undir e-lið fyrrnefndrar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð.
Hinn 4. maí 2020 sendi byggingarafulltrúi eigendum Búlands 36 bréf þar sem þeim var með vísan til 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki gert að fjarlægja hellur og koma lóð hússins í fyrra horf þannig að skilmálar deiliskipulagsins væru uppfylltir um að láréttur flötur lóðar næði ekki lengra en 5 m út frá suðurhlið hússins. Skyldi framkvæmdinni lokið innan 30 daga frá móttöku bréfsins. Með bréfi, dags. 25. júní 2020, óskuðu eigendur Búlands 36 eftir endurupptöku málsins hjá úrskurðarnefndinni en þeirri beiðni var hafnað með bréfi nefndarinnar, dags. 30. september s.á. Byggingarfulltrúi sendi 1. október s.á. eigendum Búlands 36 bréf þar sem fram kom að ákvörðun byggingarfulltrúa 4. maí s.á. um beitingu þvingunarúrræða væri afturkölluð vegna þess annmarka að ekki hafi verið veittur frestur til andmæla í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Væri því ákvörðunin ógildanleg, sbr. 25. gr. sömu laga. Hinn 8. október 2020 óskaði annar kærenda þessa máls eftir því við embætti byggingarfulltrúa að það framfylgdi ákvörðun sinni frá 4. maí s.á. um beitingu þvingunarúrræða. Eigendur Búlands 36 komu að athugasemdum sínum vegna málsins með bréfi til byggingarfulltrúa 19. október 2020 og vegna þeirra athugasemda tók embættið í kjölfarið frágang lóða í grennd við Búland 36 til skoðunar. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 28. s.m., til annars kærenda þessa máls kom fram að ljóst þyki að aðrir lóðarhafar í Fossvogi hafi „gert sambærilega fleti út fyrir gildandi deiliskipulagsskilmála.“ Framkvæmdirnar raski ekki hagsmunum nágranna umfram það sem eðlilegt megi teljast miðað við notkun á görðum til afþreyingar og útiveru og ekki verði séð að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim sem búi að baki lögum um mannvirki. Í ljósi þess muni byggingarfulltrúi ekki aðhafast frekar í málinu.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að sveitarfélögum sé ekki aðeins skylt skv. skipulagslögum nr. 123/2010 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að útbúa deiliskipulagsáætlanir heldur beri þeim einnig skylda til að framfylgja þeim. Því til viðbótar séu skipulagsskilmálar skilgreindir í gr. 1.3. í skipulagsreglugerð sem bindandi ákvæði í deiliskipulagi um útfærslu skipulags. Deiliskipulag Fossvogshverfis sé því bindandi hvað varði hæðarlegu lóða.
Það sé rétt sem komi fram í bréfi byggingafulltrúa frá 28. október 2020 til annars kærenda þessa máls um að honum sé eftirlátið mat hvort tilefni sé til þess að beita þvingunarúrræðum. Hins vegar sé það svo að það mat sé ekki frjálst að öllu leyti heldur verði málefnaleg sjónarmið að liggja því til grundvallar eins og almennt sé um sérhverja stjórnvaldsákvörðun. Efnisleg rök byggingarfulltrúans séu þau að fjöldi annarra íbúa í nágrenni við Búland 36 hafi brotið gegn deiliskipulagi því sem gildi samkvæmt skipulagslögum á svæðinu og því hafi eigendum eignarinnar verið heimilt að gera slíkt hið sama. Slík rök uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu til málefnalegra sjónarmiða sem stjórnvald geti notað til að rökstyðja stjórnvaldsákvörðun. Reglan um málefnaleg sjónarmið feli það í sér að stjórnvald skuli líta til þess hvort að lög eða stjórnvaldsfyrirmæli geymi ákvæði um sjónarmið sem matskennd ákvörðun stjórnvalds skuli byggð á, hvort að stjórnvaldsákvörðun sé í samræmi við þau markmið sem því beri að vinna að lögum samkvæmt eða hvort að ákvörðun sé til þess fallin að stuðla að því að samræmi sé í úrlausnum stjórnsýslumála. Hin kærða ákvörðun uppfylli ekkert þessara viðmiða.
Í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé kveðið á um það að í rökstuðningi stjórnvalds fyrir stjórnvaldsákvörðun skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds sé byggð á. Telja verði með hliðsjón af þessu ákvæði laganna að umræddur rökstuðningur byggingar-fulltrúans standist ekki þessar kröfur þar sem í honum sé ekki að finna neinar tilvísanir til réttarreglna heldur vísan til þess að fjöldi brota á gildandi deiliskipulagsáætlun, sem hafi lögformlegt gildi samkvæmt skipulagslögum, réttmæti fleiri brot á henni. Um ákvarðanir stjórnvalda gildi auk þess svokölluð lögmætisregla. Í henni felist annars vegar að ákvarðanir stjórnvalda verði að eiga sér stoð í lögum og hins vegar að ákvörðun megi ekki vera í andstöðu við lög. Rökstuðningur byggingarfulltrúans gangi þvert gegn lögboðnu hlutverki bindandi deiliskipulagsáætlana og lögboðnu hlutverki byggingarfulltrúa að samþykkja ekki fyrirhuguð byggingaráform sem ekki séu í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði, sbr. 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þá varði það almannahagsmuni að þær leikreglur sem deiliskipulagsáætlanir hafi sett um nábýli manna séu virtar af borgaryfirvöldum.
Byggingarfulltrúi rökstyðji jafnframt ákvörðun sína með vísan til meðalhófs. Í bréfinu færi byggingarfulltrúi hins vegar engin rök fyrir því með hvaða hætti hin kærða ákvörðun gæti meðalhófs. Í 12. gr. stjórnsýslulaga segi að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti og skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Það hefði því verið eðlilegt ef byggingarfulltrúinn hefði fært rök fyrir því með hvaða hætti sú ákvörðun að aðhafast ekki neitt hafi náð lögmætu markmiði í málinu en meðalhóf í skilningi stjórnsýslulaga feli það í sér að ganga ekki lengra en þörf þyki. Ákvörðun um að beita meðalhófi með þeim hætti að það bitni alfarið á öðrum aðila stjórnsýslumáls geti ekki staðist.
Byggingarfulltrúi hafi aldrei leitað eftir afstöðu kærenda í þessu máli þrátt fyrir að það hafi verið þeir sem hafi upphaflega leitað til embættisins. Sé því ekki annað að sjá en að byggingarfulltrúinn hafi tekið umrædda ákvörðun án þess að hafa haft upplýsingar um afstöðu málshefjenda til hinnar nýju ákvörðunar og þeirra gagna og þess rökstuðnings sem hafi legið henni til grundvallar. Með því hafi hann brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.
Byggingarfulltrúi hafi tilkynnt eigendum Búlands 36 það með bréfi, dags. 5. maí 2020, að þau skyldu fjarlægja umdeilda framkvæmd. Í kjölfarið hafi eigendur Búlands 36 komið á framfæri sjónarmiðum sínum á framfæri, m.a. varðandi aðrar lóðir í Fossvoginum, í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 19. s.m. Sömu sjónarmið hafi eigendur Búlands 36 sent úrskurðarnefndinni 25. júní s.á. vegna kröfu um endurupptöku máls nr. 82/2019, en þeim sjónarmiðum hafi nefndin hafnað. Eigendum Búlands 36 hafi síðan verið gefinn kostur á að veita frekari andmæli þegar byggingarfulltrúi hafi 1. október s.á. afturkallað ákvörðun sína um að þau skyldu fjarlægja umdeilda framkvæmd og í kjölfarið hafi þau sent byggingarfulltrúanum bréf 19. október s.á. Þegar það bréf sé skoðað komi í ljós að bent hafi verið á sömu sjónarmið og áður, þ.e. um fyrirkomulag annarra lóða í Fossvoginum. Ekkert nýtt komi aftur á móti fram í bréfinu varðandi hinar kærðu framkvæmdir og því sé ljóst að þau andmæli sem byggingarfulltrúi vísi til í bréfinu sínu sem rökstuðning fyrir aðgerðarleysi sínu hafi legið fyrir í maí 2020.
Byggingarfulltrúanum hafi því verið óheimilt að afturkalla áðurnefnda ákvörðun sína þar sem að lög og reglugerðir á sviði skipulags- og byggingarmála leggi honum á herðar skyldur að framfylgja ákvæðum þeirra um byggingarleyfisumsóknir og framkvæmdaleyfisumsóknir um leið og skipulagslög og lög um mannvirki kveði með skýrum hætti á um það að skilmálar deiliskipulags séu bindandi hvað varði lóðarhæð. Það hvort gætt hafi verið að andmælarétti við meðferð málsins geti ekki haft áhrif á þær lögbundnu starfsskyldur. Því sé ástæðu afturköllunarinnar byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum og brjóti um leið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins líkt og gerð hafa verið grein fyrir.
Minnst sé á að í máli nr. 82/2019 komi fram það álit úrskurðarnefndarinnar að hin kærða framkvæmd sé landmótun og að slíkar framkvæmdir falli undir ákvæði skipulagslaga og skipulagsreglugerðar. Til viðbótar við framangreind kæruefni sé þess því jafnframt óskað að nefndin taki afstöðu til þess hvort að byggingarfulltrúa Reykjavíkur hafi, þegar honum hafi verið kunnugt um þá afstöðu nefndarinnar, borið skylda til þess að leiðbeina kærendum í málinu um að ástæða kynni að vera til að leita til skipulagsfulltrúa borgarinnar eða til að gera sjálfur ráðstafanir til að embættið kæmi að málinu, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að það hafi verið mat embættisins að fyrri ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða hafi verið haldin þeim galla að eigendum Búlands 36 hafi ekki verið veittur andmælaréttur áður en ákvörðun hafi verið tekin skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því talist ógildanleg ákvörðun, sbr. 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt stjórnsýslulögum séu gerðar ríkar kröfur til þess að andmælaréttur aðila sé virtur og verði aðili máls að eiga þess kost að gæta réttar síns og hagsmuna með því að kynna sér gögn máls, tjá sig um framkomnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald tekur ákvörðun í málinu, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða að slíkt sé augljóslega óþarft.
Þegar brotið hafi verið gegn andmælareglunni þannig að aðila hafi ekki verið veitt færi á að tjá sig teljist það almennt verulegur annmarki sem leiði til þess að íþyngjandi ákvörðun teljist yfirleitt ógildanleg. Þetta eigi ekki síst við um mál þar sem ákvörðun feli í sér að refsikennd viðurlög verði lögð á aðila eða hún á annan hátt verði talin mjög íþyngjandi eins og fyrir liggi í máli þessu.
Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða skv. lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 123/2010 sé háð mati stjórnvalds hverju sinni og sé tekið fram í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að lögum um mannvirki að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé í hverju metin, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefi sveitarfélögum kost á að bregðast við ef gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki lögum um mannvirki, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verði ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búi að baki ákvæðum laga um mannvirki.
Ljóst hafi verið að fordæmi væru fyrir því að lóðarhafar í Fossvogi hafi stækkað lóðir meira en heimilt sé samkvæmt gildandi deiliskipulagsskilmálum. Ennfremur hafi verið talið að framkvæmdirnar raski ekki hagsmunum nágranna umfram það sem eðlilegt megi teljast miðað við notkun á görðum til afþreyingar og útiveru. Ekki hafi heldur verið séð að gengið væri gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki lögum um mannvirki, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Ákvörðun byggingarfulltrúa hafi því verið studd fullnægjandi efnisrökum.
Athugasemdir eigenda Búlands 36: Eigendur lóðarinnar benda á að í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 82/2019 hafi nefndin ekki tekið afstöðu til þess hvort beita ætti þvingunarúrræðum. Þvert á móti sé í bréfi úrskurðarnefndarinnar frá 30. september 2020 vegna beiðni þeirra um endurupptöku málsins tekið fram að slíkt sé hlutverk byggingarfulltrúa að fullrannsökuðu máli. Þau hafi hvorki haft vitneskju um umfjöllun byggingarfulltrúa um framkvæmdirnar né úrskurð úrskurðarnefndarinnar fyrr en að frétt hafi birst í fjölmiðli 3. apríl 2020 og ekki verið tilkynnt um málið með formlegum hætti fyrr en með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 5. maí s.á., þar sem þeim hafi verið gefinn 30 daga frestur til að koma lóð hússins í fyrra horf. Ákvörðunin hafi því verið tekin án þess að þeim hafi verið gefin kostur á tjá sig um hana svo sem skylt sé skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Fyrirkomulag lóðarinnar hafi verið með sambærilegum hætti svo áratugum skipti og nýtt yfirborð lóðar breyti engu þar um. Sambærileg túlkun gildandi deiliskipulags hafi verið viðhöfð víðast í Fossvogshverfinu, þ.e. að nánast allar lóðir séu láréttar, í einum eða tveimur stöllum, út frá suðurhlið húsanna. Eigendur Búlands 36 hafi bent á þá staðreynd um túlkun deiliskipulagsins þegar þeim hafi verið gefinn kostur á að koma að andmælum við byggingarfulltrúa og hafi embættið staðfest þetta með rannsókn á eignum í 150 m radíus frá lóðinni. Skýrt sé tekið fram að þau hafi á engan hátt breytt lögun eða halla lóðar heldur einungis yfirborði þess.
Ef þess yrði krafist að fallið yrði frá núgildandi túlkun deiliskipulags í hverfinu og öllum eigendum fasteigna gert að færa lóðir sínar til þess sem fram komi í úrskurði nefndarinnar megi ljóst vega að sameiginlegt tjón eigenda fasteigna í hverfinu yrði talið í hundruðum milljóna króna. Þá myndi nýting lóða til afþreyingar og útiveru verða skert verulega.
Vettvangsskoðun: Úrskurðanefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 18. febrúar 2021 að viðstöddum fulltrúum borgaryfirvalda, öðrum kærenda og fulltrúa eigenda Búlands 36.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þær ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. október 2020 að afturkalla ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða vegna framkvæmda á baklóð Búlands 36 og ákvörðun sama embættis frá 28. s.m. að aðhafast ekki vegna framkvæmdarinnar.
Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 1. október 2020, þar sem fyrri ákvörðun embættisins um beitingu þvingunarúrræða var afturkölluð, kom fram að ákvörðunin hafi verið haldin þeim annmarka að ekki hafi verið veittur frestur til andmæla skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því sé hún ógildanleg, sbr. 25. gr. sömu laga. Fram kemur í síðarnefndu ákvæði að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hafi verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun er ógildanleg. Þegar aðila hefur ekki verið veitt færi á að tjá sig áður en íþyngjandi ákvörðun er tekin telst það almennt verulegur annmarki sem leitt getur til þess að ákvörðun telst ógildanleg. Þrátt fyrir að afstaða eigenda Búlands 36 hafi legið fyrir í bréfi þeirra til byggingarfulltrúa 13. maí 2020, sem og í beiðni þeirra frá 25. júní s.á. til úrskurðarnefndarinnar um endurupptöku máls nr. 82/2019, lá hún hins vegar ekki fyrir þegar upphafleg ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða var tekin. Verður því að telja að byggingarfulltrúa hafi verið heimilt að afturkalla fyrri ákvörðun sína með vísan til þess að ekki hafi verið gætt að andmælarétti.
Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.
Ákvörðun um beitingu nefndra þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni en tekið er fram í athugasemdum við 55. gr. frumvarps þess er varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Gefur umrætt ákvæði sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum, en einstaklingar eiga þó ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram beitingu nefndra þvingunarúrræða. Þótt beiting þeirra sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim almannahagsmunum sem áður greinir.
Vettvangsskoðun leiddi í ljós að umdeildar yfirborðsframkvæmdir á baklóð Búlands 36 valda því að hæðarmunur hefur myndast á hluta lóðamarka þeirrar lóðar og lóðar kærenda, en sá hæðarmunur getur ekki talist verulegar. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki vegna umdeildra framkvæmda var rökstudd með vísan til þess að aðrir lóðarhafar í Fossvogi hafi „gert sambærilega fleti út fyrir gildandi deiliskipulagsskilmála.“ Taldi embættið að ekki yrði séð að framkvæmdirnar færu gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki lögum um mannvirki, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Það mat byggingarfulltrúa að ekki væri tilefni til að aðhafast var því stutt nægjanlegum efnisrökum.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfum kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. október 2020 um að afturkalla ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða vegna framkvæmda á baklóð Búlands 36.
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. október 2020 um að aðhafast ekki vegna framkvæmda á baklóð Búlands 36.