Árið 2021, föstudaginn 22. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 130/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 18. nóvember 2020 um að synja beiðni um breytingu Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 vegna lóðarinnar Kerhraun C 103/104.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi sumarhúss að Kerhrauni C 103/104, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 18. nóvember 2020 að synja beiðni um breytingu aðalskipulags sveitarfélagsins vegna lóðarinnar Kerhraun C 103/104. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sveitarstjórn að taka nýja ákvörðun.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 8. janúar 2021.
Málsatvik og rök: Á fundi byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps 22. apríl 2020 var tekin fyrir beiðni kæranda um að skráning á sumarhúsi hans á lóðinni Kerhraun C 103/104 yrði breytt í íbúðarhús. Var umsókninni synjað með vísan til þess að umrædd lóð væri í skipulagðri frístundabyggð í landi Klausturhóla samkvæmt deiliskipulagi. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 5. maí 2020, sem með úrskurði uppkveðnum 14. ágúst s.á. í máli nr. 33/2020 hafnaði ógildingarkröfu kæranda. Hinn 28. október 2020 sótti kærandi um breytingu á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 vegna lóðarinnar Kerhraun C 103/104. Var með umsókninni óskað eftir því að skipulagi lóðarinnar yrði breytt úr frístundalóð í landbúnaðarsvæði. Á fundi skipulagsnefndar 11. nóvember s.á. var erindi kæranda tekið fyrir og lagt fyrir sveitarstjórn að hafna beiðninni. Hinn 18. s.m. var umsókn kæranda hafnað á fundi sveitarstjórnar með vísan til þess að lóðin væri staðsett í mjög stóru hverfi fyrir skipulagða frístundabyggð. Væru engar forsendur fyrir því að skilgreina staka lóð sem landbúnaðarland.
Kærandi bendir á að umsóknin varði óverulega breytingu á aðalskipulagi, auk þess sem hún sé í samræmi við fyrri breytingar sveitarfélagsins í sambærilegum málum. Það sé ómálefnalegt að mismuna kæranda með þessum hætti og ekki í samræmi við 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Sveitarfélagið bendir á að í 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi fram að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra beri að nefndum lögum að staðfesta sæti ekki kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Breytingar á aðalskipulagi séu háðar samþykki sveitarstjórnar og samþykki Skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun feli í sér synjun á umsókn um breytingu aðalskipulags en samkvæmt skýrum ákvæðum skipulagslaga hafi úrskurðarnefndin ekki valdheimildir til að endurskoða slíka ákvörðun. Því beri að vísa málinu frá nefndinni. Til vara er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Að baki ákvörðuninni séu bæði skipulagsrök og málefnaleg sjónarmið.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna, en þó einungis staðfestingu Skipulagsstofnunar ef um óverulega breytingu er að ræða, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Hin kærða ákvörðun felur í sér synjun á beiðni um breytingu Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020. Samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.